Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 34/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 34/2015

Þriðjudaginn 6. september 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 19. nóvember 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 9. nóvember 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 27. nóvember 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. janúar 2016.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. janúar 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.).

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1973 og 1976. Þau eru gift og búa ásamt X börnum sínum í eigin íbúð að C, sem er 118 fermetrar að stærð. Kærandi A er [...] en kærandi B er [...]. Tekjur kærenda eru launatekjur.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 49.027.829 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til veikinda kæranda A á árunum X til X og lægri tekna kæranda B í kjölfar vinnuslyss.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 10. júní 2014. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. september 2014 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. lge.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 7. september 2015 tilkynnti hann að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hafi notið frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, frá 18. september 2014. Þau kveðist hafa lagt til hliðar 2.980.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls en mánaðarleg greiðslugeta þeirra hafi verið 415.312 krónur. Þau hefðu því átt að geta lagt fyrir 4.153.122 krónur. Engar aðrar skýringar hafi borist frá kærendum en að þau telji sig hafa samið við umboðsmann skuldara um að þau myndu leggja fyrir 270.000 krónur á mánuði og að þau hafi greitt aðrar skuldir. Að mati umsjónarmanns nægi þessar upplýsingar ekki til að skylda skuldara til að leggja fyrir teljist uppfyllt. Það sé einnig sjálfstætt brot að greiða einstökum kröfuhöfum. Umsjónarmaður telji að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Með tölvupósti umboðsmanns skuldara til kærenda 19. október 2015 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Þar sem svör hafi ekki borist frá kærendum 27. október 2015 hafi embættið sent þeim ábyrgðarbréf á lögheimili þar sem þeim hafi verið gefið tækifæri til að bregðast við. Kærendur hafi ekki svarað.

Með bréfi til kærenda 9. nóvember 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til greiðsluaðlögunar. Skilja verður það svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar kærenda um greiðsluaðlögun sem þeim hafi borist með ábyrgðarbréfi. Auk þess séu skyldur skuldara í greiðsluskjóli ávallt útskýrðar og ítrekaðar á fyrsta fundi umsjónarmanns og skuldara. Þessar upplýsingar hafi enn fremur verið aðgengilegar á heimasíðu umboðsmanns skuldara. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 12 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. október 2014 til 30. september 2015. Upplýsingar um laun byggi meðal annars á staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé miðað við að unnt sé að leggja fyrir mismun meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur jan. - sept. okt. - des. Alls
2015 2014
Laun skv. staðgreiðsluskrá 7.065.800 3.319.808 10.385.608
Ofgr. staðgreiðsla og álag 433.374 433.374
Samtals 7.499.174 3.319.808 10.818.982
Sparnaður 2015 2014
Heildartekjur 7.499.174 3.319.808
Meðaltekjur á mán. 833.242 1.106.603 901.582
Framfærsluk. á mán. 454.504 454.504 454.504
Greiðslugeta á mán. 378.738 652.099 447.078
Áætlaður sparnaður 3.408.638 1.956.296 5.364.934

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið 454.504 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag og framfærslukostnaður októbermánaðar 2015 fyrir hjón með þrjú börn lagður til grundvallar. Gengið sé út frá því að kærendur hafi alls haft heildartekjur að fjárhæð 10.818.982 krónur á ofangreindu tímabili og því átt að geta lagt fyrir 5.364.934 krónur.

Kærendur hafi greint umsjónarmanni frá því að þau hafi lagt fyrir 2.980.000 krónur á tímabilinu. Þannig vanti 2.384.934 krónur upp á sparnað þeirra. Kærendur hafi veitt þær skýringar að þau hafi samið við umboðsmann skuldara um að leggja til hliðar 270.000 krónur á mánuði og það hefðu þau gert. Einnig hefðu þau greitt aðrar skuldir á tímabilinu.

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara um afgreiðslu á umsókn um greiðsluaðlögun kærenda komi fram: „Áætluð greiðslugeta ykkar m.v. framfærsluviðmið embættisins er jákvæð um 270.086 krónur [...] og skal miða við þá upphæð þegar lagt er til hliðar af launum skv. skyldum a-liðar 12. gr. lge. á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana og á meðan á frestun greiðslna stendur. Auk þess skal leggja til hliðar aðrar fjárhæðir sem koma til ráðstöfunar, s.s. eingreiðslu vaxtabóta eða annað. Breytist tekjur [kæranda] skal aðlaga greiðslugetu að breyttum tekjum.“ Eins og þetta beri með sér sé sparnaður ekki föst fjárhæð allt tímabilið heldur taki hún mið af breytingum tekna. Kærendum hefði því mátt vera ljóst að sú fjárhæð sem þeim bar að leggja til hliðar mánaðarlega gæti verið breytileg.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum á meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Í ljósi þessa verði að telja kærendur hafa brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjárhæð sem þau hafi mánaðarlega haft aflögu að teknu tilliti til framfærslukostnaðar.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 7. september 2015 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Umsjónarmaður vísaði þar til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og taldi að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 9. nóvember 2015.

Að mati umboðsmanns skuldara áttu kærendur að leggja til hliðar 5.364.934 krónur eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt, eða frá 1. október 2014 til 30. september 2015. Kærendur kveðast hafa lagt til hliðar 2.980.000 krónur.

Samkvæmt fyrirliggjandi álagningarseðlum og launaupplýsingum ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. október 2014 til 31. desember 2014: Þrír mánuðir
Nettótekjur A 600.862
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 200.287
Nettótekjur B 2.718.946
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 906.315
Nettótekjur alls 3.319.808
Mánaðartekjur alls að meðaltali 1.106.603
Tímabilið 1. janúar 2015 til 31. október 2015: Tíu mánuðir
Nettótekjur A 1.744.466
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 174.447
Nettótekjur B 5.492.264
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 549.226
Nettótekjur alls 7.236.730
Mánaðartekjur alls að meðaltali 723.673
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.556.538
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 812.041

Sé miðað við framfærslukostnað umboðsmanns skuldara og tekjur kærenda var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. október 2014 til 31. október 2015: Þrettán mánuðir
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 10.556.538
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 10.556.538
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 812.041
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 454.504
Greiðslugeta kærenda á mánuði 357.537
Alls sparnaður í 13 mánuði í greiðsluskjóli x 357.537 4.647.986

Samkvæmt ofangreindu hefðu kærendur átt að getað lagt til hliðar 4.647.986 krónur á tímabilinu. Kærendur hafa ekki lagt fram gögn er sýna að þau hafi lagt til hliðar og er því ekki unnt að miða við að sparnaður sé fyrir hendi.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum á meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem þau fengu í hendur, að þeim hafi borið skylda til þess samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls en það hafi þau ekki gert.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau nutu greiðsluskjóls.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum