Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 4/2016

Hinn 21. nóvember 2016 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 4/2016:

Beiðni um endurupptöku

héraðsdómsmáls nr. E-121/2011;

Milestone ehf.

gegn

Leiftra Ltd.

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku
1. Með erindi, dagsettu 28. júlí 2016, fór Leiftri Ltd. þess á leit að héraðsdómsmál nr. E-121/2011, sem dæmt var í Héraðsdómi Reykjavíkur 10. febrúar 2012, yrði endurupptekið.

2. Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ásgerður Ragnarsdóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II. Málsatvik
3. Bú Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2009 og var frestdagur við skiptin 22. júní sama ár. Þrotabú Milestone ehf. er gagnaðili þessa máls og höfðaði dómsmálið gegn endurupptökubeiðanda, Karli Wernerssyni, Steingrími Wernerssyni og Aurláka ehf. til riftunar á ráðstöfunum og til endurheimtu auðgunar og greiðslu skaðabóta, auk vaxta og málskostnaðar. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2012 var kröfum gagnaðila á hendur öðrum en endurupptökubeiðanda vísað frá dómi. Þrátt fyrir að málið hafi verið höfðað af þrotabúi Milestone ehf. þá er það einungis nefnt Milestone ehf. gegn Leiftra Ltd.

4. Málavextir þess máls voru að 31. mars 2008 keypti Aurláki ehf. alla hluti í Lyfjum og heilsu hf., annars vegar með kaupum á 99,9% eignarhlut af L&H eignarhaldsfélagi ehf. og hins vegar með kaupum á 0,01% eignarhlut af Racon Holdings II AB. Bæði L&H eignarhaldsfélag ehf. og Racon Holdings II AB voru í 100% eigu Milestone ehf. í gegnum keðju dótturfélaga. Kaupverð 99,9% hlutanna var greitt annars vegar með yfirtöku skulda L&H eignarhaldsfélags ehf. við Glitni banka hf. en hins vegar með því að L&H eignarhaldsfélag ehf. eignaðist kröfu á hendur Aurláka ehf. að fjárhæð 896.457.408 krónur. Þá tók Aurláki ehf. einnig að sér greiðslu lána til Glitnis banka hf. að fjárhæð 73.646.506 krónur. Eftir þessi viðskipti var félagið Lyf og heilsa hf. að öllu leyti í eigu Aurláka ehf. og átti L&H eignarhaldsfélag ehf. því kröfu á hendur Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 krónur.

5. Sama dag og framangreind viðskipti fóru fram keypti Milestone ehf. kröfuna á hendur Aurláka ehf. af L&H eignarhaldsfélagi ehf. og greiddi fyrir hana annars vegar með skuldajöfnuði við síðastgreint félag og hins vegar með því að stofna til skuldar við það félag. Þannig gaf Milestone ehf. eftir kröfu sem félagið átti á hendur L&H eignarhaldsfélagi ehf. að fjárhæð 780.105.266 krónur og stofnaði um leið til skuldar við L&H eignarhaldsfélag ehf. að fjárhæð 189.998.648 krónur. Milestone ehf. fékk í staðinn framselda kröfuna á hendur Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 krónur.

6. Sama dag seldi Milestone ehf. endurupptökubeiðanda kröfuna á hendur Aurláka ehf. Endurupptökubeiðandi greiddi kröfuna að hluta til með skuldajöfnuði að fjárhæð 462.977.430 krónur en afgangur kaupverðsins var færður sem skuld endurupptökubeiðanda við Milestone ehf. að fjárhæð 507.126.484 krónur. Sú skuld lækkaði síðar um 220.836.000 krónur með arðgreiðslu Milestone ehf. til endurupptökubeiðanda fyrir árið 2007. Við gjaldþrot Milestone ehf. var skuld endurupptökubeiðanda við Milestone ehf. vegna viðskiptanna 286.290.484 krónur.

7. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 10. febrúar 2012 var fallist á kröfur gagnaðila og rift gjöf Milestone ehf. til endurupptökubeiðanda, 31. mars 2008, sem fólst í afhendingu kröfu á hendur Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 krónur. Þá var rift greiðslu Milestone ehf. til endurupptökubeiðanda, 31. mars 2008, að fjárhæð 462.977.430 krónur, og jafnframt greiðslu Milestone ehf. til endurupptökubeiðanda, 31. desember 2008, að fjárhæð 220.836.000 krónur. Jafnframt var fallist á að endurupptökubeiðandi myndi skila gagnaðila kröfu á hendur Aurláka ehf. að fjárhæð 970.103.914 krónur gegn því að gagnaðili felldi niður skuld á viðskiptareikningi endurupptökubeiðanda að fjárhæð 286.290.484 krónur. Endurupptökubeiðanda var gert að greiða gagnaðila 700.000 krónur í málskostnað.

8. Í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur var tekið fram að þingsókn endurupptökubeiðanda hafi fallið niður 20. október 2011 án þess að greinargerð hefði verið lögð fram. Með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála var málið því dæmt eftir kröfum og málatilbúnaði gagnaðila að því leyti sem var samrýmanlegt fram komnum gögnum.

III. Grundvöllur beiðni
9. Endurupptökubeiðandi byggir á því að með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur hafi ranglega verið fallist á kröfur gagnaðila. Þetta sýni dómar Hæstaréttar Íslands í málum gagnaðila gegn Karli Wernerssyni annars vegar og Lyfjum og heilsu hf. hins vegar, mál nr. 574/2015, 578/2015 og 579/2015, sem kveðnir hafi verið upp 28. apríl og 4. maí 2016. Að mati endurupptökubeiðanda liggi þannig fyrir ný gögn sem leiði til breyttrar niðurstöðu málsins í öllum grundvallaratriðum og sé skilyrðum 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála því fullnægt.

10. Endurupptökubeiðandi rekur að málatilbúnaður gagnaðila hafi byggt á tveimur meginforsendum. Annars vegar að Milestone ehf. hafi verið ógjaldfært í skilningi riftunarreglna XX. kafla laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. þegar ætlaðar riftanlegar ráðstafanir hafi átt sér stað og hins vegar að skilyrði 131, 136. eða 141. gr. laganna hafi verið uppfyllt.

11. Um báðar þessar málsástæður hafi verið fjallað í framangreindum þremur dómum Hæstaréttar og þeim verið hafnað með skýrum hætti. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 578/2015 hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að Milestone ehf. hafi orðið ógjaldfært áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf. 7. október 2008. Til forsendna þessa dóms hafi síðan verið vísað í hæstaréttarmálum nr. 579/2015 og 574/2015. Í málunum þremur hafi því verið hafnað að rifta greiðslum sem hafi átt sér stað fyrir 7. október 2008.

12. Í hæstaréttarmáli nr. 578/2015 hafi jafnframt verið deilt um hvort skilyrði hafi verið til þeirrar arðgreiðslu sem samþykkt hafi verið á aðalfundi Milestone ehf. þann 29. febrúar 2008, sem og við hvaða tímamark bæri að miða að greiðslan hefði átt sér stað. Byggði gagnaðili á því í málinu að greiðslan hefði ekki átt sér stað fyrr en 31. desember 2008 þegar arðgreiðslan hafi verið lækkuð með bakfærslu í bókhaldi félagsins, rétt eins og í málinu á hendur endurupptökubeiðanda.

13. Þessum röksemdum hafi verið hafnað í Hæstarétti á grundvelli þess að samþykkt arðgreiðsla hafi ekki verið andstæð XII. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og að bakfærsla á arði 31. desember 2008 hafi aðeins falið í sér lækkun á arðgreiðslu sem hafði þegar verið færð á viðskiptamannareikning 1. september 2008 þegar Milestone ehf. hafi verið gjaldfært. Umrædd ráðstöfun hafi því ekki verið talin riftanleg í skilningi laga um gjaldþrotaskipti o.fl.

14. Endurupptökubeiðandi rekur að stefna þess máls sem endurupptökubeiðni varðar hafi verið þingfest 13. janúar 2011. Í dómi héraðsdóms hafi verið staðhæft að sótt hafi verið þing af hálfu endurupptökubeiðanda í upphafi en þingsókn fallið niður 20. október 2011 án þess að greinargerð hafi verið lögð fram. Endurupptökubeiðandi tekur fram að hann hafi aldrei gefið nein fyrirmæli um að mætt yrði af hans hálfu við þingfestingu málsins heldur hafi verið ranglega skráð í þingbók héraðsdóms að sótt hafi verið þing af hálfu endurupptökubeiðanda við þingfestingu málsins. Samkvæmt afriti af fyrirmælum LOGOS lögmannsþjónustu komi skýrt fram að eingöngu hafi verið sótt þing fyrir hönd annarra aðila málsins. Að mati endurupptökubeiðanda skýrir framangreint ástæðu þess að ekki hafi verið sótt þing af hans hálfu við meðferð málsins í héraði. Það hafi þó engin áhrif á það hvort skilyrði standi til þess að taka endurupptökubeiðni hans til greina.

15. Niðurstaða héraðsdóms hafi byggt annars vegar á því að Milestone ehf. hafi verið ógjaldfært við framsal kröfunnar og hins vegar á því að um gjafagerning hafi verið að ræða. Bæði atriðin séu í beinni andstöðu við dóma Hæstaréttar í málum nr. 574/2015, 578/2015 og 579/2015, og dugi þau hvort um sig til þess að hnekkja beri héraðsdómi og sýkna endurupptökubeiðanda af öllum kröfum gagnaðila.

16. Endurupptökubeiðandi byggir á því að sterkar líkur séu leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós þegar málið hafi verið til meðferðar og aðilanum verði ekki kennt um það, sbr. a-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Þannig hafi dómur héraðsdóms byggt á tveimur lykilforsendum, sem hvoru tveggja hafi verið rangar, eins og dómar Hæstaréttar Íslands í umræddum málum sýni glöggt.

17. Endurupptökubeiðandi byggir á því að honum verði ekki kennt um það að málsatvik hafi ekki verið réttilega leidd í ljós. Gjaldfærni Milestone ehf. hafi ekki verið leidd í ljós fyrr en með öflun matsgerðar af hálfu gagnaðila með tilheyrandi kostnaði.  Í stefnu málsins hafi verið staðhæft, með vísan til ýmissa atriða og skýrslna, að Milestone ehf. hafi verið ógjaldfært 31. mars 2008 þegar framsal kröfunnar átti sér stað. Þá hafi verið staðhæft að arðgreiðslur hafi verið bókfærðar með þeim hætti að þær hefðu átt sér stað 31. desember 2008.  Endurupptökubeiðandi telur að við höfðun málsins hafi hann ekki haft undir höndum gögn eða upplýsingar sem gáfu til kynna að þessar staðhæfingar væru svo rangar sem nú væri komið á daginn. Með vísan til þessa, óvissrar fjárhagsstöðu endurupptökubeiðanda við höfðun málsins og því að á þessum tíma var talið að takmarkaðir hagsmunir fælust í að taka til varna í málinu, telur endurupptökubeiðandi að honum verði ekki um það kennt að röng málsatvik um öll grundvallaratriði hafi legið til grundvallar dóminum.

18. Endurupptökubeiðandi telur jafnframt að sterkar líkur séu á að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum, sbr. b-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Vísað er til þess að með endurupptökubeiðni fylgi matsgerð dómkvaddra matsmanna sem gagnaðili aflaði sjálfur undir rekstri annarra dómsmála. Með dómum Hæstaréttar í málum nr. 547/2015 og 578/2015 hafi verið staðfest að sú matsgerð væri sönnun þess að Milestone ehf. hafi ekki verið ógjaldfært fyrr en 7. október 2008. Að mati endurupptökubeiðanda leiðir matsgerðin til þess að breyta eigi niðurstöðu héraðsdóms og sýkna hann af kröfu gagnaðila.

19. Með endurupptökubeiðni fylgi einnig upplýsingar um með hvaða hætti arðgreiðslur Milestone ehf. til endurupptökubeiðanda voru bókfærðar. Upplýsingarnar eru úr skýrslu Ernst og Young ehf. sem unnin var fyrir gagnaðila sem lögð var fram í málinu. Þar komi fram að arðgreiðsla, sem hafi numið 924.000.000, hafi verið bókfærð 1. september 2008, en bakfærð að hluta 31. desember 2008. Hafi sams konar háttur verið hafður á með arðgreiðslu Karls Wernerssonar og með vísan til  dóms Hæstaréttar í máli nr. 578/2015 hafi greiðslan því átt sér stað á þeim tíma sem Milestone ehf. hafi verið gjaldfært. Hafi því sannanlega komið endurgjald til gagnaðila fyrir framsal kröfunnar og því ekki verið um gjöf í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. að ræða. Fyrir utan arðgreiðsluna hafi gagnaðili greitt skuld að fjárhæð 462.977.430 krónur með framsalinu. Hafi gagnaðili aldrei borið brigður á tilvist þeirrar skuldar, aðeins byggt á því að hún væri riftanleg þar sem Milestone ehf. hafi verið ógjaldfært við greiðslu hennar 31. mars 2008.

20. Að lokum telur endurupptökubeiðandi að önnur atvik mæli með því að leyfi verið veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir hans séu í húfi, sbr. c-lið 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála. Endurupptökubeiðandi rekur að gagnaðili reyni nú að innheimta þá kröfu sem hann telur að hafi verið framseld þrotabúinu með dómi héraðsdóms. Takist sú innheimta ekki, hafi gagnaðili gert þá kröfu að varastefndu í málinu, þar á meðal núverandi fyrirsvarsmaður endurupptökubeiðanda, greiði tæpan milljarð króna í skaðabætur.

21. Endurupptökubeiðandi byggir á því að slíkt framferði stríði gegn öllum meginsjónarmiðum réttarríkisins, sem og almennri réttlætiskennd og réttarvitund. Gagnaðili sé þannig að gera atlögu að því að öðlast réttindi sem hann hafi ekkert réttmætt tilkall til. Eina tilkall gagnaðila byggi á útivistardómi héraðsdóms sem bersýnilega hafi byggt á röngum forsendum. Nái málatilbúnaður gagnaðila fram að ganga sé hann að auðgast með afar óeðlilegum og óréttmætum hætti, en það stríði gegn almennri réttlætiskennd.

22. Til nánari stuðnings hagsmunum endurupptökubeiðanda af því að málið verði endurupptekið er vísað til þess að eina eign hans hafi verið umrædd krafa á hendur Aurláka ehf. Vegna fjárhagsstöðu þess félags hafi verið gert samkomulag 23. desember 2011 þess efnis að endurupptökubeiðandi felldi kröfuna niður gegn því að eignast 2% hlutafjár í Aurláka ehf. eigi síðar en 3. janúar 2018. Þar sem endurupptökubeiðandi eigi takmarkaðar eignir séu hagsmunir hans stórfelldir.

IV. Viðhorf gagnaðila
23. Í umsögn gagnaðila, dagsettri 23. ágúst 2016, er fallist á að færa megi rök fyrir því að niðurstaða héraðsdóms hefði getað orðið önnur ef endurupptökubeiðandi hefði tekið til varna í málinu og þær varnir verið sambærilegar þeim sem gripið hafi verið til í öðrum dómsmálum sem gagnaðili hafi höfðað. Það dugi eitt og sér hins vegar ekki til endurupptöku máls á grundvelli 167. gr. laga um meðferð einkamála, heldur þurfi skilyrðum ákvæðisins að vera fullnægt. Að mati gagnaðila eru ekki lagaskilyrði fyrir endurupptöku.

24. Gagnaðili telur skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála ekki vera uppfyllt. Endurupptökubeiðni byggi fyrst og fremst á skilgreiningu Hæstaréttar á ógjaldfærni Milestone ehf., eins og hún birtist í dómum réttarins í málum nr. 574/2015, 578/2015 og 579/2015. Samkvæmt dómunum hafi Milestone ehf. orðið ógjaldfært 7. október 2008 en ekki 31. mars 2008 eins og byggt hafi verið á í málatilbúnaði gagnaðila í því máli sem endurupptökubeiðni varðar. Skilgreining á ógjaldfærni sé lögfræðilegt hugtak en teljist ekki til málsatvika. Málsatvik í héraðsdómsmálinu hafi verið sett fram með fullnægjandi hætti í stefnu málsins og fylgigögnum og héraðsdómur haft nauðsynlegar upplýsingar til að meta hvort fallast bæri á kröfu gagnaðila, þar með talið hvort Milestone ehf. hafi verið orðið ógjaldfært 31. mars 2008. Héraðsdómur hafi metið það svo að skilyrðið væri uppfyllt og sú niðurstaða verið í samræmi við skilgreiningar fræðimanna á hugtakinu ógjaldfærni og dómaframkvæmd á þeim tíma.

25. Með dómum Hæstaréttar í framangreindum málum hafi skilgreiningu á hugtakinu hins vegar verið breytt. Í matsgerð þeirri, sem gagnaðili aflaði undir rekstri framangreindra mála, hafi verið staðfest að eignir Milestone ehf. hafi orðið minni en skuldir í lok fyrsta ársfjórðungs 2008, þ.e. 31. mars 2008. Staðfesti matsgerðin þannig málatilbúnað gagnaðila í málinu, að Milestone ehf. hafi verið ógjaldfært þann dag. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 578/2015 hafi hins vegar verið horfið frá fyrri skilgreiningu á hugtakinu ógjaldfærni. Þessi breytta skilgreining á lögfræðilega hugtakinu ógjaldfærni hafi ekkert með málsatvik í umræddu héraðsdómsmáli að gera. Málsatvik hafi verið ljós á grundvelli framlagðra gagna við þingfestingu málsins.

26. Þá gildi hið sama um þau rök endurupptökubeiðanda að arðgreiðsla sem hafi verið greidd úr þrotabúi árið 2008 falli samkvæmt framangreindum dómafordæmum ekki undir hugtakið gjöf í skilningi 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Að mati gagnaðila teljast slík sjónarmið ekki til málsatvika, enda hafi öll gögn legið fyrir um arðgreiðsluna við þingfestingu málsins eða verið endurupptökubeiðanda með einum eða öðrum hætti aðgengileg. Hugtakið gjöf sé lögfræðilegt hugtak sem hafi einfaldlega verið skýrt með öðrum hætti af Hæstarétti í framangreindum málum heldur en í fyrirliggjandi héraðsdómi.  

27. Jafnframt telur gagnaðili ekki uppfyllt þau skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála að aðila verði ekki kennt um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós. Af endurupptökubeiðni megi ráða að það hafi verið meðvituð ákvörðun forsvarsmanna endurupptökubeiðanda á sínum tíma að láta málið ekki til sín taka og að útivistardómur yrði kveðinn upp. Þannig hafi verið gefin sérstök fyrirmæli um að ekki yrði mætt við þingfestingu málsins sem þó virðist ekki hafa gengið eftir. Þau fyrirmæli hafi verið sett fram í ljósi fjárhagsstöðu endurupptökubeiðanda. Hins vegar hafi möguleikar endurupptökubeiðanda á innheimtu krafna vænkast eftir að dómurinn gekk og því sé það nú skoðun fyrirsvarsmanna endurupptökubeiðanda að vænlegra hefði verið að taka til varna í málinu.

28. Endurupptökubeiðandi hafi kosið að halda ekki uppi vörnum í dómsmálinu og því ekki notað tækifærið til þess að færa fram málsástæður, leiða í ljós málsatvik og leggja fram gögn. Með því hafi endurupptökubeiðandi fallist á málatilbúnað gagnaðila. Niðurstaða málsins hafi orðið endurupptökubeiðanda kunn skömmu eftir að dómur hafi verið kveðinn upp. Endurupptökubeiðandi hafi hvorki andmælt niðurstöðunni né reynt að fá henni hnekkt í rúm fjögur ár.

29. Þá tekur gagnaðili fram að við þingfestingu málsins hafi verið mætt fyrir endurupptökubeiðanda og því verði að ganga út frá að auk stefnu, sem hafi verið réttilega birt fyrir endurupptökubeiðanda, hafi öll gögn málsins verið honum aðgengileg áður en útivist hafi orðið. Endurupptökubeiðanda hafi því verið ljóst að kröfur gagnaðila hafi byggst fyrst og fremst á 2. mgr. 131. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. Þannig hafi endurupptökubeiðandi vitað að sönnunarbyrði um gjaldfærni Milestone ehf. hafi hvílt á honum. Þrátt fyrir þessa vitneskju hafi endurupptökubeiðandi tekið þá meðvituðu ákvörðun að láta þingsókn falla niður. Hafi endurupptökubeiðandi verið í lófa lagið að setja sömu varnir fram í upphafi líkt og í framangreindum dómum Hæstaréttar.

30. Gagnaðili telur jafnframt að skilyrði b-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt. Þó leiða megi líkur að því að niðurstaða málsins kynni að verða önnur nú í ljósi nýlegrar dómaframkvæmdar Hæstaréttar sé það ekki vegna nýrra gagna heldur breyttrar skilgreiningar réttarins á hugtakinu ógjaldfærni.

31. Tekið er fram að gagnaðili hafi ekki sérstaka skoðun á því hvort skilyrði c-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu uppfyllt. Núverandi fyrirsvarsmaður endurupptökubeiðanda hafi tekið við rekstri þess í desember 2011, þ.e. samtímis skuldauppgjöri Aurláka ehf. Fyrrverandi fyrirsvarsmenn endurupptökubeiðanda hafi verið jafnframt stærstu eigendur og stjórnarmenn gagnaðila, bræðurnir Karl og Steingrímur Wernerssynir. Þar af leiðandi er talið að þáverandi stjórnendur endurupptökubeiðanda hafi haft bestu mögulegu vitneskju um fjárhagsstöðu bæði endurupptökubeiðanda og gagnaðila þegar umræddar ráðstafanir hafi átt sér stað. Það hafi verið mat þeirra að ekki væri rétt að láta málið til sín taka. Eftir á að hyggja virðist sú ákvörðun hafa verið röng. Hins vegar falli slík tilvik utan 167. gr. laga um meðferð einkamála.

V. Athugasemdir endurupptökubeiðanda
32. Með bréfi, dagsettu 5. september 2016, mótmælti endurupptökubeiðandi röksemdum gagnaðila þess efnis að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála séu ekki uppfyllt.  

33. Í athugasemdum endurupptökubeiðanda er rökstutt frekar að dómur héraðsdóms hafi byggt á röngum málsatvikum, þar á meðal um málsatvik er lúta að arðgreiðslu Milestone ehf. og um meinta ógjaldfærni félagsins. Endurupptökubeiðandi hafnar því alfarið að í dómum Hæstaréttar hafi birst einhver ný túlkun á hugtökunum ógjaldfærni og gjöf í gjaldþrotaskiptarétti. Umræddir dómar Hæstaréttar séu að öllu leyti í samræmi við yfir áratuga gamlar fræðikenningar, sem og dómaframkvæmd.

34. Því næst ítrekar endurupptökubeiðandi að aldrei hafi verið gefin nein fyrirmæli um mætingu fyrir hans hönd við þingfestingu málsins. Hafi þannig ekki verið gefin sérstök fyrirmæli um að mæta ekki. Allt að einu hafi þetta atriði ekki úrslitaþýðingu í málinu að mati endurupptökubeiðanda.

35. Lögð er áhersla á að endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að rangar staðhæfingar um málsatvik hafi verið lagðar til grundvallar. Þá liggi fyrir að gerð hafi verið sú krafa á hendur endurupptökubeiðanda, sem bjó í besta falli við óljósa fjárhagsstöðu við höfðun málsins, að hann skilaði almennri fjárkröfu sem metin hafi verið svo til verðlaus. Það geti ekki staðið í vegi endurupptökubeiðni að endurupptökubeiðanda hafi borið að afsanna hinar röngu staðhæfingar í stefnu með gagnaöflun sem hefði haft í för með sér kostnað sem nemi milljónum eða tugum milljóna króna.  

36. Þá bendir endurupptökubeiðandi á að óskað hafi verið eftir endurupptöku innan þriggja mánaða frá því að dómur Hæstaréttar í máli nr. 578/2015 hafi verið kveðinn upp, en með honum hafi verið staðfest að röng málsatvik hafi legið til grundvallar dómi héraðsdóms.

37. Að lokum gerir endurupptökubeiðandi þá kröfu að réttaráhrifum dóms héraðsdóms í máli nr. E-121/2011 verði frestað með vísan til 3. mgr. 168. gr. laga um meðferð einkamála, í ljósi dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-2834/2012, uppkveðnum 26. ágúst 2016, þar sem byggt hafi verið á niðurstöðu héraðsdóms í máli nr. E-121/2011. Endurupptökubeiðandi árétti beiðni um frestun réttaráhrifa með tölvubréfi frá 29. september 2016.

VI. Niðurstaða
38. Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Samkvæmt 1. mgr. 167. gr. laganna getur endurupptökunefnd orðið við beiðni um að héraðsdómur, sem hefur ekki verið áfrýjað, og áfrýjunarfrestur er liðinn, verði endurupptekinn til nýrrar meðferðar í héraði ef skilyrðum ákvæðisins er fullnægt.

39. Skilyrði 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála fyrir endurupptöku eru eftirfarandi:

  1. sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar og aðilanum verður ekki kennt um það,
  2. sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
  3. önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.

Til að fallist verði á endurupptöku þurfa öll framangreind skilyrði að vera uppfyllt.

40. Af hálfu endurupptökubeiðanda er meðal annars byggt á því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar fyrir dómi. Telur endurupptökubeiðandi að dómur héraðsdóms byggi á tveimur lykilforsendum sem báðar séu rangar. Annars vegar byggi dómurinn á þeirri forsendu að Milestone ehf. hafi verið ógjaldfært 31. mars 2008 þegar hin riftanlega ráðstöfun átti sér stað. Fyrir liggi að þetta sé rangt, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 574 og 578/2015. Hins vegar byggi dómurinn á þeirri forsendu að ekkert endurgjald hafi komið fyrir framsalið og það því falið í sér gjöf í skilningi 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sú forsenda sé einnig röng, enda hafi ráðstafanir sem áttu sér stað 31. mars 2008 ekki verið riftanlegar þar sem Milestone ehf. var gjaldfært og argreiðslan verið lögmæt, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 578/2015.

41. Það er skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála að aðila verði ekki kennt um það að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar. Fyrir liggur að greinargerð var ekki lögð fram af hálfu endurupptökubeiðanda í héraði, sbr. 2. mgr. 99. gr.  laga um meðferð einkamála og  var dómur í málinu því byggður á kröfum og málatilbúnaði gagnaðila með vísan til 1. mgr. 96. gr. sömu laga. Eins og skýrt kemur fram í endurupptökubeiðni þá kaus endurupptökubeiðandi að taka ekki til varna í málinu og lét því hjá líða að koma á framfæri röksemdum og gögnum af sinni hálfu. Þau málsatvik sem endurupptökubeiðandi telur að hafi ekki verið réttilega leidd í ljós vörðuðu grundvöll krafna gagnaðila, meðal annars um gjaldfærni Milestone ehf. sem endurupptökubeiðandi bar lögum samkvæmt sönnunarbyrði fyrir. Samkvæmt þessu er ekki uppfyllt það skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála að endurupptökubeiðanda verði ekki kennt um að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós þegar málið var til meðferðar. Þær ástæður sem endurupptökubeiðandi tilgreinir að búið hafi að baki ákvörðun hans um að taka ekki til varna breyta þeirri niðurstöðu ekki.  

42. Að framansögðu er ljóst að skilyrði a-liðar 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála er ekki fullnægt og skortir því á að öllum skilyrðum a-c liða 1. mgr. 167. gr. laga um meðferð einkamála sé fullnægt eins og áskilið er. Gerist því ekki þörf á að fjalla um b- og c-lið 1. mgr. 167. gr. laganna.

Úrskurðarorð

Beiðni Leiftra Ltd. um endurupptöku dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli E-121/2011, sem kveðinn var upp 10. febrúar 2012, er hafnað.


Björn L. Bergsson formaður

Ásgerður Ragnarsdóttir

 Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum