Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 79/2014

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hinn 30. júlí 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 79/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 29. september 2014, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði á fundi sínum 22. september 2014 fjallað um höfnun hennar á atvinnutilboði. Vegna höfnunarinnar voru greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda stöðvaðar og ákveðið að kærandi ætti ekki rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefði starfað samfellt á innlendum markaði í 24 mánuði frá því hún fékk síðast greiddar atvinnuleysisbætur. Var ákvörðunin tekin á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Kærandi vildi ekki una þeirri ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með bréfi, dags. 6. október 2014. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að ákvörðun í máli kæranda.  

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur 15. september 2011. Þann 29. ágúst 2014 var ferilskrá kæranda send af vinnumiðlurum stofnunarinnar til B sem hafði auglýst laust ræstingarstarf. Í kjölfarið fengust þær upplýsingar frá fyrirtækinu að kærandi hafi í símtali sagst ekki getað unnið við þrif sökum ofnæmis. Vinnumálastofnun óskaði eftir skriflegum skýringum á synjun kæranda á starfinu með bréfi, dags. 4. september 2014. Skýringarbréf kæranda barst 10. september 2014 þar sem fram kemur að kærandi hafi hafnað atvinnutilboðinu sökum ofnæmis.  

Með bréfi, dags. 29 september 2014, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar.

Af hálfu kæranda er farið fram á að Vinnumálastofnun leiðrétti ákvörðun sína og hún fái greiðslu frá Vinnumálastofnun fyrir september, sem hún telur sig eiga rétt á. Ástæðan fyrir því að hún hafi hafnað umræddu starfi sé sú að hún geti ekki unnið við þrif vegna ofnæmis og bakvandamála. Hún segir jafnframt að Vinnumálastofnun eigi að hafa undir höndum læknisvottorð sem hún hafi skilað inn þegar hún hóf að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá stofnuninni. Hún segir að í ferilskránni sinni hafi ekki verið tekið fram að hún væri að leitast eftir starfi við þrif. Þá segist hún ekki skilja hvers vegna henni hafi verið boðið starf sem hún getur ekki unnið við. Hún hafi verið að gera sitt besta og hafi verið í atvinnuleit á hverjum degi þar til hún hafi loksins fundið starf.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 20. október 2014, segir að mál þetta varði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Fram kemur að 1. mgr. ákvæðisins eigi jafnt við um þann sem hafni starfi og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst eða sinnir ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysisbóta sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Sé þar tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist óreiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar fyrir höfnun á starfi. Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem gerir kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum.

Ljóst sé að kærandi var ekki tilbúin til að taka starfi hjá B. Í skýringarbréfi kæranda til Vinnumálastofnunar, dags. 10. september 2014, segi kærandi að hún hafi ekki getað tekið umræddu starfi vegna ofnæmis. Í kæru sinni til úrskurðarnefndar segi kærandi jafnframt að Vinnumálastofnun eigi að hafa undir höndum læknisvottorð sem hún hafi skilað inn þegar hún hóf að þiggja greiðslur atvinnuleysistrygginga hjá stofnuninni, en hvorki finnist slíkt vottorð né heldur staðfesting á því að kærandi hafi skilað inn slíku vottorði.

Það sé afstaða Vinnumálastofnunar að atvinnuleitendur geti ekki, án vottorðs frá lækni um skerta vinnufærni, takmarkað atvinnuleit sína við tiltekin starfssvið. Þar sem Vinnumálastofnun hafi ekki borist starfshæfnisvottorð þar sem fram komi að kærandi sé ófær um að vinna við þrif vegna ofnæmis, sé ekki unnt að fallast á skýringar kæranda.

Sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar kæranda á höfnun hennar á atvinnutilboði teljist ekki gildar enda hafði stofnuninni ekki borist tilkynning um skerta vinnufærni þegar kærandi hafnaði umræddu starfi.

Vinnumálastofnun bendir á að með lögum nr. 142/2012 hafi verið gerðar breytingar á ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar sem fjalli um biðtíma eftir atvinnuleysisbótum, þar á meðal 57. gr. laganna. Komi nú fram í 5. mgr. ákvæðisins að hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. eigi sér stað skuli hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfylli skilyrði 31. gr. laganna.

Fyrir liggi að kærandi hafi á bótatímabilinu sem hófst 15. september 2011 fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 33,46 mánuði. Af þeim sökum eigi 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við um mál kæranda. 

Í ljósi alls framangreinds telji Vinnumálastofnun að kærandi hafi í umrætt sinn hafnað starfi í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og því beri henni að sæta viðurlögum á grundvelli 5. mgr. ákvæðisins. Því geti kærandi fyrst átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þegar hún uppfylli skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eða þegar hún hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að atvinnuleysisbætur voru síðast greiddar til hennar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. október 2014, gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 6. nóvember 2014. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

2. Niðurstaða

Í 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um það þegar starfi eða atvinnuviðtali er hafnað. Í 1. mgr. greinarinnar segir að sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama eigi við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali.

Í 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur eftirfarandi fram:

Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.

Fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur kærandi borið að ástæðurnar fyrir höfnun hennar á starfinu hjá B væru þær að hún væri með ofnæmi og bakvandamál. Þessar fullyrðingar kæranda hafa ekki verið studdar með framlagningu læknisvottorðs. Enn fremur telur Vinnumálastofnun að hjá stofnuninni sé hvorki að finna slíkt vottorð né heldur staðfesting á að slíkt vottorð hafi verið lagt fram. Þessar skýringar stofnunarinnar voru reiddar fram til að svara þeirri mótbáru kæranda að hún hafi í upphafi bótatímabils síns afhent stofnuninni slíkt vottorð. Með vísan til þessa verður talið rétt að beita 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við úrlausn máls þessa, líkt og hin kærða ákvörðun er reist á.

Í 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er kom inn í lög um atvinnuleysistryggingar með 12. gr. laga nr. 142/2012 og tók gildi 1. janúar 2013 segir:

Hafi hinn tryggði fengið greiddar atvinnuleysisbætur í samtals 30 mánuði eða lengur á sama tímabili skv. 29. gr. þegar atvik sem lýst er í 1. mgr. á sér stað skal hinn tryggði ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann uppfyllir skilyrði 31. gr.

Fyrir liggur að bótatímabil kæranda hófst 15. september 2011 og hafði því fengið greiddar atvinnuleysisbætur í meira en 30 mánuði þegar hún hafnaði margnefndu atvinnuviðtali í byrjun september 2014. Af þeim sökum á 5. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar við um mál kæranda.

Í a-lið 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar kemur fram að eitt af skilyrðum þess að teljast tryggður samkvæmt lögunum sé að vera í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga kemur fram að með virkri atvinnuleit felist meðal annars að hafa frumkvæði að starfsleit og vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt er fyrir samkvæmt lögum og kjarasamningum, hafa vilja og getu til að taka starfi án sérstaks fyrirvara og vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi.

Í ljósi ofangreinds er það mat úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða að skýringar þær sem kærandi hefur fært fram fyrir höfnun á umræddu atvinnutilboði geti ekki talist gildar ástæður með vísan til 1. og 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ber kæranda því að sæta viðurlögum á grundvelli 5. mgr. sömu greinar. Því getur kærandi fyrst átt rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þegar hún uppfyllir skilyrði 31. gr. laga um atvinnuleysistryggingar eða þegar hún hefur starfað samfellt á innlendum vinnumarkaði í a.m.k. 24 mánuði frá því að atvinnuleysisbætur voru síðast greiddar til hennar. Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. september 2014 í máli A um að greiðslur atvinnuleysisbóta til hennar skuli stöðvaðar og að hún skuli ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hún hefur starfað í a.m.k. 24 mánuði á innlendum vinnumarkaði er staðfest.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum