Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 18/2019 - Úrskurður

Formannmarki

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 18/2019

Miðvikudaginn 20. febrúar 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 14. janúar 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 26. október 2018 þar sem umsókn kæranda um sjúkradagpeninga var samþykkt.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi, dags. 26. október 2018, samþykktu Sjúkratryggingar Íslands umsókn kæranda um sjúkradagpeninga.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 14. janúar 2018. Starfsmaður úrskurðarnefndar hringdi í kæranda í lok janúar 2019 til þess að fá nánari útskýringar á kæruefni en síðan þá hefur kærandi hvorki svarað símtölum né tölvupóstum.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að fá greidda sjúkradagpeninga.

Í kæru segir að kærandi sé [fíkill]. Fram kemur að hann hafi fallið strax eftir meðferð. Hann hafi ekki talið sig eiga rétt á sjúkradagpeningum vegna þess. Hann hafi upplifað skömm, ranghugmyndir, sjálfsásökun sem séu fylgifiskar fíknisjúkdóma, [...].

 

 

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 26. október 2018 þar sem umsókn kæranda um sjúkradagpeninga var samþykkt.

Í kæru krefst kærandi þess að fá sjúkradagpeningana greidda. Þar sem umsókn kæranda um sjúkradagpeninga var samþykkt samkvæmt hinni kærðu ákvörðun hafði starfsmaður úrskurðarnefndar velferðarmála samband við kæranda símleiðis í lok janúar 2019 til þess að fá nánari upplýsingar um kæruefnið. Í símtalinu greindi kærandi frá því að hann hefði sótt um sjúkradagpeninga hjá Sjúkratryggingum Íslands nokkrum mánuðum áður en fengið synjun. Kærufrestur vegna þeirrar ákvörðunar væri liðinn. Kærandi ætlaði að skoða málið betur og hafa samband við úrskurðarnefndina viku síðar. Kærandi hefur ekki haft samband síðan þá og hefur hvorki svarað síma né tölvupóstum.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 112/2008 um sjúkratryggingar, sbr. 36. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Sjúkratrygginga Íslands vegna ákvörðunar frá 26. október 2018 er fylgdi kæru. Þar sem enginn ágreiningur er til staðar í máli þessu er kæru vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kæranda er bent á að óski hann endurskoðunar á annarri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands geti hann lagt fram kæru vegna þeirrar ákvörðunar til úrskurðarnefndar velferðarmála.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira