Hoppa yfir valmynd

Mál 02110124

Ráðuneytinu hafa borist eftirtaldar fimm kærur vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar frá 27. nóvember 2002, um mat á umhverfisáhrifum tvöföldunar Reykjanesbrautar, frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Álftanesvegi í Garðabæ:

1. Kæra 68 íbúa við Efstalund, Hörpulund, Holtsbúð og Ásbúð í Garðabæ,

dags. 3. janúar 2003.

2. Kæra Guðbergs Þórhallssonar og Sigrúnar Stefánsdóttir, Eskiholti 7, Garðabæ,

dags. 2. janúar 2003.

3. Kæra Skúla Eggerts Þórðarsonar og Dagmarar Elínar Sigurðardóttur, Eskiholti 3,

Garðabæ, dags. 2. janúar 2003.

4. Kæra 42 íbúa í Eskiholti, Háholti og Hrísholti, Garðabæ, dags. 2. janúar 2003.

5. Kæra 10 íbúa við Sunnuflöt, Garðabæ, dags. 2. janúar 2003.

I. Hin kærða ákvörðun og málsatvik

Í matsskýrslu er kynnt fyrirhuguð tvöföldun Reykjanesbrautar úr tveimur akreinum í fjórar, á um 4 km kafla frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Álftanesvegi í Garðabæ. Samkvæmt matsskýrslu er einnig fyrirhuguð gerð þriggja mislægra gatnamóta á umræddum vegakafla, þ.e. við Arnarnesveg, Vífilsstaðaveg og Urriðaholtsbraut. Framkvæmdaraðilar eru Vegagerðin, Kópavogsbær og Garðabær.

Skipulagsstofnun kvað þann 27. nóvember 2002, upp úrskurð sinn um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar í samræmi við 11. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum. Niðurstaða stofnunarinnar er að fallist er á fyrirhugaða tvöföldun Reykjanesbrautar eins og henni er lýst í gögnum framkvæmdaraðila.

II. Kröfur kærenda

1. Kærendur í Lunda- og Búðahverfi.

Sextíu og átta íbúar við Efstalund, Hörpulund, Holtsbúð og Ásbúð í Garðabæ, hér eftir nefndir kærendur í Lunda- og Búðahverfi, krefjast þess að úrskurður Skipulagsstofnunar verði felldur úr gildi hvað varðar hljóðvist í Lunda- og Búðahverfi. Krefjast kærendur þess að framkvæmdaraðilum verði gert skylt að uppfylla meginreglu reglugerðar um hávaða, nr. 933/1999, um að draga úr og koma í veg fyrir hávaða þannig að hljóðstig frá bílaumferð við íbúðarhúsnæði verði ekki hærra en viðmiðunar- og leiðbeiningargildið 55 (45) dB(A). Ennfremur verði framkvæmdaraðilum gert að taka tillit til séríslenskra aðstæðna þ.e. raunverulegs umferðarhávaða, nagladekkja og ríkjandi vindátta við hljóðstigsútreikninga, að reglubundnar hávaðamælingar fari fram til að sannreyna að umferðarhávaði sé innan marka, að hljóðstig á útivistarsvæðinu milli byggðarinnar og Reykjanesbrautar verði innan marka reglugerðarinnar og að samráð verði haft við íbúana um hljóðvarnir.

2. Kærendur Eskiholti 7.

Guðberg Þórhallsson og Sigrún Stefánsdóttir, Eskiholti 7, Garðabæ, hér eftir nefnd kærendur Eskiholti 7, krefjast þess að sá möguleiki verði skoðaður að leggja Reykjanesbraut í lokaðan stokk á kafla milli Bæjargils og Eskiholts og að Hnoðraholtsvegur verði færður yfir stokkinn og byggðin beggja vegna Reykjanesbrautar þannig sameinuð.

3. Kærendur Eskiholti 3.

Skúli Eggert Þórðarson og Dagmar Elín Sigurðardóttir, Eskiholti 3, Garðabæ, hér eftir nefnd kærendur Eskiholti 3, gera eftirtaldar kröfur:

1. Að umhverfisráðherra meti sjálfstætt aðra möguleika á tvöföldun Reykjanesbrautar, svo sem að vegurinn verði lækkaður, lagður í stokk, miðeyja verði minnkuð eða aðrir kostir kannaðir í því skyni að vegurinn valdi ekki eins miklum umhverfisspjöllum og útlit sé fyrir.

2. Að við framkvæmdir á tvöföldun Reykjanesbrautar verði framkvæmdaraðila gert skylt að standa þannig að hönnun mannvirkja að hávaði verði sem minnstur.

3. Að staðfest verði sú meginniðurstaða í úrskurði Skipulagsstofnunar, um að framkvæmdaraðili skuli haga mannvirkjagerð þannig að virt verði leiðbeiningargildi hljóðstigs 45 dB(A) utanhúss og 30 dB(A) innanhúss.

4. Að framkvæmdaraðila verði gert skylt að leita samráðs og samkomulags við íbúa Eskiholts 3, í Garðabæ um gerð hljóðmannvirkja sem ætlað er að sporna við því að hljóðstig fari upp fyrir 55 dB(A) utanhúss og 30 dB(A) innanhúss

5. Að framkvæmdaraðila verði gert skylt að haga gerð mótvægismannvirkja þannig að þau rýri ekki möguleika íbúa á að njóta útsýnis af efri hæð húss.

6. Að framkvæmdaraðila verði gert skylt að láta hljóðmælingar fara fram reglulega fyrir og eftir fyrirhugaða framkvæmd og slíkar aðgerðir verði gerðar í samráði við íbúa.

7. Að framkvæmdaraðila verði gert skylt að bæta eigendum Eskiholts 3, Garðabæ þá verðrýrnun sem verða kann á húsinu vegna framkvæmdarinnar.

8. Að úrskurður Skipulagsstofnunar verði staðfestur að öðru leyti.

9. Að ekki verði fallist á að heimila tvöföldun Reykjanesbrautar nema um leið verði gerð mislæg gatnamót við Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg.

4. Kærendur í Hnoðraholti

Fjörtíu og tveir íbúar í Eskiholti, Háholti og Hrísholti í Garðabæ, hér eftir nefndir kærendur í Hnoðraholti, krefjast þess að umhverfisráðherra meti aðra möguleika en fram koma í hinum kærða úrskurði svo sem að Reykjanesbraut verði lögð í stokk í stað þess sem nú er lagt til í matsskýrslu.

5. Kærendur við Sunnuflöt.

Tíu íbúar við Sunnuflöt í Garðabæ, hér eftir nefndir kærendur í Sunnuflöt, krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þá leið að framkvæmdaraðila verið gert skylt að miða við leiðbeinandi gildi reglugerðar um hávaða og tryggja að hljóðstig verði ekki yfir 45 dB(A) á þeim kafla sem snýr að Flatahverfi.

III. Einstök kæruatriði og umsagnir um þau

1. Hljóðvist, hljóðstigsútreikningar, lækkun vegar og lagning í stokk.

Kærendur Eskiholti 3 telja að ekki hafi verið nægileg umfjöllun í matsskýrslu um hljóðstig og mótvægisaðgerðir gagnvart hávaða. Er í því sambandi vísað til matsskýrslu um tvöföldun Reykjanesbrautar gegnum Hafnarfjörð til samanburðar. Kærendur telja rökstuðning skorta fyrir því í skýrslunni að miðað sé við 65 dB(A) hávaðamörk sbr. þau viðmiðunarmörk sem gert er ráð fyrir í úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar frá 13. maí 2002. Kærendur telja matskýrslu einnig áfátt að því leyti að nokkuð sé um villur í henni, ekki getið um atriði sem skipti máli og ekki kannaðir aðrir kostir við veglagningu svo sem að vegurinn verði lækkaður eða lagður í stokk. Telja kærendur vinnubrögð við undirbúning framkvæmdarinnar með þeim hætti að vafasamt sé að byggja ákvörðun um málið á þeim. Vísað er til bréfs Skipulagsstofnunar til framkvæmdaraðila, dags. 21. ágúst 2002, þar sem óskað er eftir upplýsingum um hljóðvarnir sem miði að því að tryggja að hljóðstig fari ekki yfir 55 dB(A). Framkvæmdaraðili hafi svarað, þann 11. nóvember 2002, með nýjum gögnum sem eðlilegt hefði verið að legið hefðu fyrir í matsskýrslu. Fram hafi komið að framkvæmdaraðili teldi eðlilegt að tryggt yrði að hávaði verði ekki yfir 65 dB(A) næstu 5 til 10 árin. Kærendur telja svar framkvæmdaraðila hafa verið í ósamræmi við erindi Skipulagsstofnunar, lög og þá úrskurði sem gengið hafa um hávaðamörk.

Liður 1 í kröfugerð kærenda Eskiholti 3 er að umhverfisráðherra meti sjálfstætt aðra möguleika á tvöföldun Reykjanesbrautar, svo sem að vegurinn verði lækkaður, lagður í stokk, miðeyja verði minnkuð eða aðrir kostir kannaðir í því skyni að vegurinn valdi ekki eins miklum umhverfisspjöllum og útlit sé fyrir. Segir í kæru að skort hafi á undirbúning málsins í heild sinni. Lögð hafi verið fram ófullkomin gögn, kynning á verkinu hafi miðast við mislæg gatnamót án teljandi hljóðvarna og mikil óvissa sé um væntanlegt umferðarmagn. Upphaflega hafi verið gert ráð fyrir 72.000 bifreiða umferð árið 2024, nú sé farið að ræða um allt niður í 50.000 bifreiða umferð fyrir 2020 og í öðrum gögnum sé hins vegar reiknað með allt að 75.000 bifreiðum á ári. Ekki hafi komið skýrt fram hvaða forsendur liggi þarna að baki og hinar endurskoðuðu umferðarspár ekki mjög traustur grunnur til að byggja á. Engar hljóðprófanir hafi verði framkvæmdar á matstímanum til að kanna núverandi ástand. Látið hafi verið við það sitja að reikna hávaðamörk. Þannig skorti á að viðhlítandi rannsóknir hafi verið gerðar. Mjög skorti á að horft sé heildstætt á málið m.t.t. fyrirhugaðrar byggðar í norður- og suðurhluta Hnoðraholts og útivistarmöguleika. Með því að færa veginn neðar í landið, ýmist með því að setja hann þegar í stað í stokk eða haga hönnun hans þannig að slíkt sé mögulegt síðar sé svæðið Bæjagil, Hæðir og Hnoðraholt í Garðabæ meðhöndlað sem ein heild og því líklegra að svæðið verði heilsteyptara og umhverfisvænna en ella. Í umfjöllun framkvæmdaraðila um kostnað sé ekki litið til ávinningsins né heldur þess að með áformuðum framkvæmdum muni stór hluti norðurhluta Hnoðarholts ekki verða byggilegur sem íbúðarsvæði en það gangi þvert á samþykkt skipulag. Kostnaður af lagningu vegarins í stokk hafi ekki verði metinn og því alveg óvíst að staðhæfing um að lagning vegarins í stokk sé of kostnaðarsöm sé litið heildstætt á málið. Það sé heldur ekki trúverðug niðurstaða að lækkun vegarins muni engu skipta um hávaða í nágrenni vegarins. Það sé t.d. ekki í samræmi við niðurstöðu annarar verkfræðistofu hvað varðar þann hluta Reykjanesbrautar í gegnum Hafnarfjörð þar sem lækkun vegarins er talin hafa verulega þýðingu hvað hljóðmengun varðar. Verði ekki fallist á lið 1 í kröfugerð kærenda verði framkvæmdaraðila gert skylt að standa þannig að hönnun mannvirkja að hávaði verði sem minnstur (liður 2.). Framkvæmdaraðili hafi möguleika á því að koma hljóðmengun niður fyrir lögbundin mörk með því að haga staðsetningu vegarins, halla hans, breidd miðreinar og hljóðvarnarveggjum með þeim hætti að hávaði verði sem minnstur af veginum til framtíðar.

Kærendur Eskiholti 7 krefjast þess að sá möguleiki verði skoðaður að leggja Reykjanesbraut í lokaðan stokk á kafla milli Bæjargils og Eskiholts og að Hnoðraholtsvegur verði færður yfir stokkinn og byggðin beggja vegna Reykjanesbrautar þannig sameinuð. Telja kærendur að ekki sé tekið nægilegt tillit til umhverfisáhrifa s.s. hljóðvistar, loft- og sjónmengunar né umsagnar Hollustuverndar ríkisins. Í matsskýrslu komi fram að 65 dB(A) hávaði verði við nokkur hús við Bæjargil og Eskiholt og þurfi því að gera sérstakar ráðstafanir varðandi þau hús. Kærendur telja að á 2. hæð húsa við neðanvert Eskiholt muni hljóðvist ekki verða viðunandi nema með sérhæfðum aðgerðum við viðkomandi hús. Stór og falleg hús séu í Hnoðraholti, ætíð hafi verið prýði af þessari byggð en vegna úrskurðar Skipulagsstofnunar muni þessar fasteignir falla í verði og verða erfiðari í sölu. Í skipulagi Garðabæjar sé gert ráð fyrir frekari byggð í Hnoðraholti ásamt því að tæknigarður eigi að rísa ekki langt frá. Við þetta aukist umferðin til muna eins og fram komi í úrskurði Skipulagsstofnunar. Kærendur telja að verði breikkun Reykjanesbrautar eins og úrskurður Skipulagsstofnunar gerir ráð fyrir, verði framkvæmt eitt mesta umhverfisslys sem um getur þar sem ljóst sé hver áhrifin verði og er í því sambandi vísað til Miklubrautar og Hringbrautar í Reykjavík.

Kærendur í Lunda- og Búðahverfi telja að nægilegt rými sé til að koma fyrir hljóðvörnum meðfram brautinni sem ekki skerði að marki útsýni frá byggðinni. Lækkun brautarinnar ætti að vera vænlegur og e.t.v. besti kosturinn. Ekki ætti að skapa vandamál þótt undirgöng um Hnoðraholtsbraut hverfi. Við fyrirhugaða breikkun Reykjanesbrautarinnar þurfi að sýna meiri framsýni en fram kemur í matsskýrslu framkvæmdaraðila og úrskurði Skipulagsstofnunar.

Kærendur í Lunda- og Búðahverfi krefjast þess að framkvæmdaraðilum verði gert að taka tillit til séríslenskra aðstæðna þ.e. raunverulegs umferðarhávaða, nagladekkja og ríkjandi vindátta við hljóðstigsútreikninga, að reglubundnar hávaðamælingar fari fram til að sannreyna að umferðarhávaði sé innan marka, að hljóðstig á útivistarsvæðinu milli byggðarinnar og Reykjanesbrautar verði innan marka reglugerðarinnar og að samráð verði haft við íbúana um hljóðvarnir.

Krafa kærenda í Hnoðraholti er að umhverfisráðherra meti aðra möguleika en fram koma í hinum kærða úrskurði svo sem að Reykjanesbraut verði lögð í stokk í stað þess sem lagt er til í matsskýrslu.

Í umsögn Skipulagsstofnunar um aðalkröfu kærenda Eskiholti 3 er vísað til 8. og 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, um að framkvæmdaraðili meti umhverfisáhrif framkvæmdar á grundvelli afmörkunar sem fram kemur í matsáætlun. Vísað er til 11. og 13. gr. laganna um úrskurðarkosti Skipulagsstofnunar og ráðherra. Síðan segir að samkvæmt gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum sé ráðherra ekki heimilt að meta á kærustigi umhverfisáhrif annarra útfærslna framkvæmda en fjallað hefur verið um á lægra stjórnsýslustigi þ.e. hjá Skipulagsstofnun. Í umsögn Skipulagsstofnunar um kröfu kærenda Eskiholti 7 er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði um hljóðstig miðað við mismunandi útfærslur hljóðvarna og um lækkun Reykjanesbrautar. Talið hafi verið að þrátt fyrir lækkun vegarins á þeim kafla sem kæran lítur að yrði hljóðstig ekki mjög frábrugðið hljóðstigi miðað við þá legu vegarins sem matsskýrslan geri ráð fyrir enda miði aðgerðir fyrst og fremst við að reyna að lækka hljóðstigið á jarðhæð húsa og í húsagörðum. Því þurfi eftir sem áður að grípa til sértækra aðgerða til úrlausnar hljóðstigi við 2. hæð húsa. Einnig komi fram í hinum kærða úrskurði að framkvæmdaraðili telji lækkun Reykjanesbrautar á kaflanum frá Arnarnesvegi að Vífilsstaðavegi ekki vera raunhæfan valkost þar sem vegtenging um Hnoðraholtsbraut leggist af og vegna aukins kostnaðar.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að í umsögn um matsskýrslu hafi Hollustuvernd ríkisins talið miður að þar væru ekki skoðuð áhrif þess á hljóðstig og aðra nýtingu að grafa veginn niður eða leggja í stokk. Í umsögninni kemur þó fram að áhrif þess að leggja Reykjanesbraut í stokk séu tiltölulega ljós. Hljóðstig verði minna en kostnaður mun meiri. Umhverfisáhrif verði því minni og út frá því sjónarmiði teldi Umhverfisstofnun það mun æskilegri lausn. Stofnunin taki þó ekki afstöðu í þessu atriði á vægi kostnaðar í þeirri ákvörðun. Umhverfisstofnun bendir þó á að í úrskurði Skipulagsstofnunar er gerð krafa um að hávaði í Hnoðraholti verði undir 55 dB(A) viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða og telur stofnunin það viðunandi lausn.

Jafnframt kemur fram í umsögn Umhverfisstofnunar að stofnunin standi við fyrri umsögn Hollustuverndar ríkisins um þá niðurstöðu framkvæmdaraðila að loftmengun verði innan viðmiðunarmarka. Að mati stofnunarinnar er hugtakið „sjónmengun“ sem slíkt ekki hluti af skilgreiningu á hugtakinu „mengun“ í lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Telur stofnunin sig ekki hafa forsendur til að meta sjónræn áhrif hljóðvarna vegna vegagerðar í þéttbýli enda sé um manngert umhverfi að ræða. Stofnunin telur nauðsynlegt að íbúar við veginn séu þegar á matsstigi upplýstir um útlit, legu og gerð framkvæmdar og mótvægisaðgerða, svo sem hljóðvarna, og áhrif þeirra t.d. á útsýni. Stofnunin bendir á að í samnorrænu reiknilíkani, sem styðjast skal við skv. reglugerð um hávaða, sé miðað við meðalnotkun naglalausra hjólbarða. Hávaði frá nagladekkjum á auðri jörð sé meiri en forsendur reiknilíkansins gera ráð fyrir. Hins vegar komi ýmis önnur atriði til frádráttar. Ef snjór sé á jörðu þá dempist hávaði frá nagladekkjum og meira vindgnauð á vetrum geri hávaða frá slíkum dekkjum minna áberandi.

Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að samkvæmt umferðarspá sem unnin er á grundvelli svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins 2002 muni umferð aukast á þeim kafla Reykjanesbrautarinnar sem liggur að íbúðabyggð í Garðabæ úr 22.000 bílum á sólarhring í 45-50.000 bíla árið 2024. Í matsskýrslu hafi upphaflega verið gert ráð fyrir að umferð gæti orðið allt að 72.000 bílar á sólahring árið 2024, en þá hafi vinna við áðurnefnt svæðisskipulag verið á byrjunarstigi. Kemur fram í umsögninni að til að bera 72.000 bíla umferð þurfi sex akreina veg. Að mati Vegagerðarinnar bætir framkvæmdin í heild hljóðvist frá því sem nú er.

Vegagerðin vísar í umsögn sinni til ítarlegrar athugunar Hnits hf. um hljóðvist sem unnin hafi verið vegna beiðni Skipulagsstofnunar. Þar sé hljóðstig umferðar reiknað miðað við tvenns konar aðstæður út frá mismunandi legu akbrauta, annars vegar fyrir óbreytta hæðarlegu brautarinnar og hins vegar fyrir lækkaða veglínu. Ennfremur hafi verið reiknað hljóðstig miðaða við mismunandi umferðarmagn, 50.000 bifreiðir á sólarhring annars vegar og 72.000 bifreiðir hins vegar. Helstu niðurstöður skýrslunnar hafi verið að með lækkun brautarinnar um allt að 4,5 m og mótvægisaðgerðum næðist ekki það markmið að tryggja 55 dB(A) á efri hæðum húsa sem liggja að Reykjanesbraut, miðað við umferðarspár til 2024. Ávinningur af lækkun brautarinnar væri lítill miðað við kostnað af þeirri aðgerð, sem Vegagerðin áætlaði að myndi nema 500-600 milljónum króna. Sýnt væri fram á, að unnt verði í næstum öllum tilvikum að tryggja með mótvægisaðgerðum að hljóðstig miðað við 50.000 bíla umferð haldist innan við 55 dB(A) í íbúðabyggð við veginn miðað við óbreytta legu hans. Vegagerðin telur ekki ástæðu til að leggja nýja akbraut nær fyrirliggjandi vegi en nauðsyn krefur vegna öryggissjónarmiða, þar sem öryggissvæði milli brautanna sé áhrifarík aðferð til að draga úr hættu á alvarlegum slysum. Auk þess sé fyrirsjáanlegt að yrði sá kostur valinn þyrfti að færa til hljóðmön með tilheyrandi kostnaði og raski þegar að því kæmi að þrefalda brautina. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að ekki hafi verið kannaður sérstaklega sá möguleiki að byggja yfir Reykjanesbraut og leggja hana þannig í stokk á umræddum kafla. Könnun sem fram hafi farið í tengslum við mat á umhverfisáhrifum lagningar Hallsvegar í Reykjavík hafi leitt í ljós að kostnaður við slíkt mannvirki yrði á bilinu 500-1.000 m.kr/km. Með úrskurði ráðherra í því máli hafi því verið hafnað að leggja þá skyldu á framkvæmdaraðila að ráðast í gerð svo kostnaðarsams mannvirkis.

Fram kemur í umsögn Garðabæjar að bærinn líti svo á að Vegagerðin sé eini framkvæmdaraðili verksins. Ljóst sé að Garðabær muni ekki koma á neinn hátt að framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautar, sem sé stofnvegur í veghaldi Vegagerðarinnar. Garðabær lítur svo á að aðgerðir vegna hljóðvistar séu alfarið á kostnað og ábyrgð Vegagerðarinnar. Hlutdeild Garðabæjar í undirbúningi framkvæmdanna hafi verið í formi samráðs vegna legu göngustíga. Garðabær tekur undir þau sjónarmið í kærum íbúa bæjarins að án undantekninga beri að tryggja að hljóðvist íbúðahverfa við Reykjanesbraut sé í samræmi við lög og reglugerðir. Leggur bærinn einnig áherslu á að Vegagerðin tryggi hljóðvist við útivistarsvæði meðfram Reykjanesbraut. Því beri að hanna hljóðvarnir nær Reykjanesbrautinni en fram kemur í gögnum þeim sem Vegagerðin hafi látið vinna. Mikilvægt sé að Vegagerðinni verði gert skylt að hanna hljóðvarnir miðað við umferðarspár næstu árin, a.m.k. 10 ár fram í tímann, til að tryggja hag íbúanna til lengri tíma. Við útgáfu framkvæmdaleyfis skv. 27. gr. skipulags- og byggingarlaga muni Garðabær kanna og áskilja sér að við framkvæmdina verði gætt laga og reglugerða sem eftir atvikum komi til álita, sbr. 5. mgr. gr. 9.1. í skipulagsreglugerð nr. 400/1998.

2. Viðmiðunar- og leiðbeiningagildi reglugerðar um hávaða.

Kærendur Eskiholti 3 krefjast þess að staðfest verði sú meginniðurstaða í úrskurði Skipulagsstofnunar, um að framkvæmdaraðili skuli haga mannvirkjagerð þannig að virt verði leiðbeiningargildi hljóðstigs 45 dB(A) utanhúss og 30 dB(A) innanhúss. Jafnframt segir í kæru að nauðsynlegt sé að skýrt komi fram í úrskurði ráðuneytisins hvert viðmiðunargildi hávaða skuli vera. Framkvæmdaraðili virðist skilja hinn kærða úrskurð svo að heimilt sé að miða framkvæmdina við 65 dB(A). Kærendur telji þann skilning fráleitan.

Kærendur í Lunda- og Búðahverfi krefjast þess að úrskurður Skipulagsstofnunar verði felldur úr gildi hvað varðar hljóðvist í Lunda- og Búðahverfi. Krefjast kærendur þess að framkvæmdaraðilum verði gert skylt að uppfylla meginreglu reglugerðar um hávaða, nr. 933/1999, um að draga úr og koma í veg fyrir hávaða þannig að hljóðstig frá bílaumferð við íbúðarhúsnæði verði ekki hærra en viðmiðunar- og leiðbeiningargildið 55 (45) dB(A). Allir kostir þess séu fyrir hendi. Vísað er til matsskýrslu þar sem fram kemur að framkvæmdaraðilar líti svo á að um sé að ræða verulega breytingu á umferðaræð í byggð sem fyrir er og því falli hún undir frávikstilvik hávaðareglugerðar og úrskurðar Skipulagsstofnunar þar sem fram kemur að stofnunin telji að Lunda- og Búðahverfi falli undir tilgreinda fráviksreglu en ekki Hnoðraholt, Bæjargil, og Hæðarhverfi sem byggð voru síðar. Telja kærendur að leyfi heilbrigðisnefndar þurfi til að koma svo heimilt sé að beita umræddu fráviksákvæði en ekki komi fram í matsskýrslu að þess hafi verið aflað. Er í því sambandi vísað til 8. gr. reglugerðar um hávaða. Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis leggist reyndar gegn þessu í umsögn sinni, dags. 24. júní 2002, um matsskýrsluna. Einnig segir í kærunni að til séu eldri skipulagsgögn en Skipulagsstofnun lagði til grundavallar í úrskurði sínum sem bendi til þess að Reykjanesbraut hafi verið komin á skipulag áður en íbúðabyggð var skipulögð í Lunda- og Búðahverfi. Í því sambandi er nefnt aðalskipulag Reykjavíkur 1962-1983, skipulagsuppdráttur af Garðahreppi dagsettur í desember 1963, skipulagsuppdráttur af Garðahreppi dags. 7. nóvember 1969 og deiliskipulagsuppdráttur af Búðahverfi í Garðahreppi dagsettur í september 1975. Vísað er til matsskýrslu þar sem fram kemur að við upphaflega hönnun Reykjanesbrautar hafi verið gert ráð fyrir fjórum akreinum með möguleika á tveimur akreinum til viðbótar. Kærendur telji að með fyrirhugaðri tvöföldun brautarinnar sé verið að byggja annan áfanga brautar sem var skipulögð fyrir u.þ.b. 40 árum, áður en umrædd byggð var skipulögð. Með þeim rökum að verja eigi byggð fyrir umferðarhávaða ef brautin kemur á skipulag eða sé byggð á undan aðliggjandi íbúðarbyggð virðist augljóst að viðmiðunargildið 55dB(A) og leiðbeiningargildið 45 dB(A) ætti að gilda fyrir Lunda- og Búðahverfi, jafnt og önnur hverfi. Segja megi að í úrskurði Skipulagsstofnunar gæti ekki samræmis og jafnræðis á milli íbúanna. Að lokum er vísað til þess að á ráðstefnu félaga arkitekta, verkfræðinga og tæknifræðinga þann 10. október 2002, hafi komið fram rökstutt álit um að hljóðvist hafi verið vanrækt hér á landi og mikið væri orðið af annars flokks íbúðarhúsnæði vegna versnandi hljóðvistar. Fram hafi komið að ásættanlegur umferðarhávaði í íbúðabyggð væri talinn 45 dB(A) en 55 dB(A) væri óásættanlegur. Rétt sé að taka tillit til þessa álits samtaka sérfræðinga á þessu sviði enda falli þau vel að markmiðum reglugerðar um hávaða, nr. 933/1999.

Kæra íbúa við Sunnuflöt lýtur eingöngu að þeim hluta fyrirhugaðrar framkvæmdar sem liggur meðfram Flatahverfi Garðabæjar. Kærendur krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þá leið að framkvæmdaraðila verið gert skylt að miða við leiðbeinandi gildi reglugerðar um hávaða og tryggja að hljóðstig verði ekki yfir 45 dB(A) á þeim kafla sem snýr að Flatahverfi. Kærendur telja að til þess að miða við frávikstilvik reglugerðarinnar í þessu tilviki þurfi framkvæmdaraðilar að sýna fram á að óheyrilegur kostnaður og/eða jarðrask fylgi því að uppfylla ákvæði um leiðbeinandi gildi reglugerðarinnar. Ekki sé nægilegt að vitna til gamalla uppdrátta og líta á hluta af svæðinu sem veg í nýrri byggð og hluta sem veg í eldri byggð. Í úrskurði Skipulagsstofnunar komi skýrt fram að vegstæði Reykjanesbrautar sé í jaðri byggðar á þessum kafla og því mjög hagstætt að koma við mótvægisaðgerðum vegna hávaða án mikils kostnaðar eða jarðrasks. Þeir uppdrættir sem Skipulagsstofnun vísi til séu frá 1974 og 1977. Kærendum hafi verið bent á að til séu uppdrættir frá því snemma á 6. áratugnum sem sýna Reykjanesbrautina eins og hún liggur í dag. Séu þeir til hljóti niðurstöðu Skipulagsstofnunar að verða hnekkt og öll hverfi á þessu svæði falli undir leiðbeinandi gildi reglugerðar um hávaða. Í kærunni segir einnig að samkvæmt óformlegum upplýsingum hafi framkvæmdaraðili ekki í hyggju að fara að tilmælum Skipulagsstofnunar í hinum kærða úrskurði um að fara eftir viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða og tryggja að hljóðstig fari ekki yfir 55 dB(A).

Skipulagsstofnun vísar í umsögn sinni til niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að framkvæmdaraðila beri að leitast við að uppfylla leiðbeiningargildi eða 45 dB(A) og tryggja að hljóðstig verði undir viðmiðunargildi eða 55 dB (A) við húsvegg á jarðhæð utan við opnanlegan glugga og utan við 2. hæð húsa með gerð hljóðvarna í íbúðarbyggð á Hnoðraholti, Hæðahverfi og Bæjargili. Enn fremur verði tryggt að hljóðstig í þeim hverfum verði innan við 30 dB(A) innan húss með sértækum aðgerðum á 2. hæð húsa. Einnig er vísað til umfjöllunar í hinum kærða úrskurði um óvissu umferðaspáa og áherslu á hávaðamælingar. Skipulagsstofnun telji að ekki þurfi að afla sérstaks undanþáguleyfis heilbrigðisnefndar skv. 8. gr. reglugerðar um hávaða nema hljóðstig á tilteknum svæðum fari yfir frávikstilvik reglugerðarinnar. Stofnunin telji ekki heimilt að gera strangari kröfur til framkvæmdaraðila en að uppfylla lágmarksákvæði um hljóðstig þó æskilegt væri að leiðbeiningargildi væri uppfyllt. Í umsögninni er bent á að kærendur vísi til Aðalskipulags Reykjavíkur 1962-1983 þar sem Reykjanesbraut er sýnd. Þrátt fyrir að í greinargerð með því skipulagi sé fjallað um aðkomu að Reykjavík um Reykjanesbraut felist ekki í því bindandi skipulagsákvörðun í Kópavogi eða Garðabæ. Gögn um skipulag í Garðahreppi frá 7. áratugnum bendi ekki til þess að bindandi ákvörðun hafi verði tekin um Reykjanesbraut fyrr en með staðfestu skipulagi Reykjanesbrautar frá Breiðholti að Vífilsstaðavegi sbr. auglýsingu í Stjórnartíðindum nr. 366/1974. Varðandi málsástæðu kærenda um að ekki sé gætt samræmis og jafnræðis milli íbúa segir að Skipulagsstofnun líti svo á að stofnunin telji að hljóðvistarkröfur beri að miða við þá tímasetningu þegar ákvörðun um vegarlagningu hefur formlega verið tekin samhliða eða áður en ákvörðun um uppbyggingu viðkomandi íbúðarbyggðar er tekin í skipulagi. Stofnunin telji það ekki hafa þýðingu þó framkvæmdir við umferðaræð hefjist ekki fyrr en eftir að íbúðarbyggð byggist upp. Að mati stofnunarinnar er ekkert í reglugerð um hávaða sem bendir til þess að frávikstilvik I eða II eigi eingöngu við ef erfiðleikar fylgja því að uppfylla viðmiðunargildi.

Umhverfisstofnun leggur áherslu á í umsögn sinni að hljóðstigi utan við vegg íbúðarhúsa verði haldið innan marka sem kveðið er á um í reglugerð um hávaða. Telur stofnunin að í nýskipulögðum íbúðarhverfum skuli unnið út frá því að hljóðstig fari ekki yfir 45 dB(A) leiðbeiningargildi reglugerðarinnar sé þess nokkur kostur. Íbúar eigi að geta gert ráð fyrir því að yfirvöld geri ráðstafanir til þess að svo verði. Gerð skipulagsáætlana sé á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga og því á þeirra ábyrgð að við skipulagningu íbúðarhverfa verði hönnun umferðaræða og hljóðvarna og legu húsa háttað þannig að gildið sé uppfyllt eins og frekast er kostur. Stofnunin telur að 55 dB(A) sé almennt viðmiðunargildi sem miði við hljóðstig frá umferð í fyrirliggjandi íbúðarhverfi enda verði ekki komið við 45 dB(A) hljóðstigi t.d. þar sem byggð er þegar komin áður en lagning vegar hefst. Að mati stofnunarinnar er heimilt að miða við 65 dB(A) fráviksgildi við breytingu á skipulagi þannig að það leiði af sér aukna umferð, t.d. vegna tvöföldunar, auknum umferðarhraða eða hávaða frá umferð við fyrirliggjandi íbúðarhverfi. Umhverfisstofnun telur ekki að fráviksgildi falli undir 8. gr. reglugerðarinnar heldur sé um að ræða einn flokk viðmiðunarmarka miðað við ákveðið ástand. Sú grein eigi eingöngu við um tilvik þegar ekki er hægt að halda framangreind viðmiðunarmörk og þá í einstökum undantekningartilvikum. Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að Hollustuvernd ríkisins hafi í umsögn sinni til Skipulagsstofnunar miðað við að framkvæmdin teldist til umfangsmikillar breytingar á fyrirliggjandi umferðaræð í þéttbýli og því ætti frávikstilvik I við um alla framkvæmdina.

Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að Vegagerðin lítur svo á að í úrskurðarorði Skipulagsstofnunar felist að fallist sé á framkvæmdina án tiltekinna skilyrða og því sé heimilt að veita framkvæmdaleyfi vegna hennar eins og henni er lýst af framkvæmdaraðilum. Vegagerðin er ósammála þeirri túlkun Skipulagsstofnunar sem fram kemur í niðurstöðukafla úrskurðarins að frávikstilvik I, 65 dB(A), gildi aðeins í Lundahverfi, Sunnuflöt, Búðahverfi og á athafnasvæði hestamannafélagsins Gusts, en viðmiðunargildi 55 dB(A) í öðrum hverfum. Bendir Vegagerðin á að þessi túlkun styðjist einnig við álit Hollustuverndar ríkisins, enda sé um hefðbundinn skilning á reglugerðinni að ræða. Með hliðsjón af þessu hefur framkvæmdaraðili miðað mótvægisaðgerðir við að tryggja að jafngildishljóðstig frá umferð verði eftir framkvæmdina a.m.k. innan við 65 dB(A) og er sýnt fram á í matinu, að unnt er að koma við mótvægisaðgerðum sem tryggja hljóðstig innan þessara marka til ársins 2024 miðað við óbreyttar forsendur varðandi umferðarhávaða, fyrirliggjandi skipulagsáætlanir og umferðarspár. Tvöföldun Reykjanesbrautar og mótvægisaðgerðir sem gripið verður til muni bæta hljóðvist við brautina miðað við núverandi umferð. Hljóðstig við brautina og þörf á mótvægisaðgerðum muni svo ráðast af því hver aukning umferðar verður í framtíðinni. Eins og fram hafi komið áður verði í nær öllum tilvikum unnt að tryggja að hljóðstig verði innan við 55 dB(A) í hverfunum meðfram brautinni í Garðabæ.

Vegagerðin segir jafnframt í umsögn sinni að hafa verði í huga að fyrirhuguð framkvæmd muni sem slík ekki auka þann vanda sem nú þegar sé til staðar við Reykjanesbrautina vegna þess að byggð hafi í gegnum tíðina verið skipulögð of nálægt brautinni. Eftir tvöföldun brautarinnar færist hluti umferðarinnar á akbraut fjær íbúðarhverfum vestan brautarinnar sem væntanlega muni draga úr hávaða frá umferð í þeim. Ennfremur muni draga úr hávaða frá umferð austan brautarinnar í Hnoðraholtshverfi með mótvægisaðgerðum sem framkvæmdaraðili hyggist grípa til, þ.e. með gerð jarðvegsmana. Að mati Vegagerðarinnar er um misskilning að ræða hjá kærendum að leyfi heilbrigðisnefndar þurfi til að unnt sé að beita frávikstilviki samkvæmt viðauka reglugerðar um hávaða. Líta beri til 5. gr. reglugerðarinnar varðandi beitingu frávikstilviks en 8. gr. heimili hins vegar undanþágur frá reglum hennar þegar sérstaklega standi á.

Í umsögn Kópavogsbæjar kemur fram að bæjaryfirvöld í Kópavogi líta svo á að fyrirhuguð framkvæmd falli að öllu leyti undir frávikstilvik I, veruleg breyting á umferðaræð sem fyrir er, sbr. reglugerð um hávaða. Bæjaryfirvöld geta fallist á að þeim tilmælum verði beint til framkvæmdaraðila að leitast verði við að ná hljóðstigi niður fyrir 55 dB(A), þar sem því verður við komið án umtalsverðs kostnaðar. Vegna mikils kostnaðar sé fráleitt að lækka veginn eða setja hann í stokk.

Heilbrigðisnefnd Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis vísar í umsögn sinni til 1. gr. laga nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, þar sem fjallað er um markmið þeirra laga. Það sé hlutverk nefndarinnar að standa vörð um þessi markmið og þá óháð búsetu íbúa eða öðrum aðstæðum þeirra. Nefndin telur að túlkun Skipulagsstofnunar á ákvæðum reglugerðar um hávaða sé í mótsögn við markmið laganna. Er þá vísað til þess að stofnunin hafi fallist á að framkvæmdaraðili geti án frekari raka vísað til hæstu frávikstilvika í reglugerð varðandi hávaðamörk ef um er að ræða breytingar á vegum. Nefndin telur að gera eigi þá kröfu að við hönnun nýrra vega, sem breytinga á eldri vegum, að gengið sé út frá leiðbeinandi gildi reglugerðarinnar. Aðeins eigi að fallast á frávik frá þeirri reglu, þ.e. miðað verði við viðmiðunargildi í stað leiðbeiningargildis, ef sýnt hafi verið fram á að meiri hljóðvarnir hafi í för með sér verulega aukin útgjöld eða skerðingu á öðrum lífsgæðum. Í matsskýrslunni sé gert ráð fyrir að hávaðamörk fari enn hærra eða upp í gildi sem skv. reglugerð teljist til frávikstilvika og það án þess að sýnt hafi verið fram á nauðsyn slíks. Nefndin ítrekar fyrri afstöðu um að nauðsyn sé á umræddri framkvæmd en að við hönnun vegarins eigi að taka mið af leiðbeinandi reglum fyrir íbúðabyggð meðfram öllu vegstæðinu. Um þá túlkun sé ágreiningur milli heilbrigðisnefndar og Skipulagsstofnunar. Telur heilbrigðisnefnd nauðsynlegt að ráðherra úrskurði um hvaða hávaðastig íbúar við stofnbrautina þurfi að sætta sig við og setji framkvæmdinni skilyrði í framhaldi af því.

3. Hljóðvarnir og samráð við íbúa

Kærendur Eskiholti 3 krefjast þess að framkvæmdaraðila verði gert skylt að leita samráðs og samkomulags við íbúa Eskiholts 3 um gerð hljóðmannvirkja sem ætlað er að sporna við því að hljóðstig fari upp fyrir 55 dB(A) utanhúss og 30 dB(A) innanhúss, en fram hafi komið að framkvæmdaraðili telji að í samráði felist kynning á áformum en ekki samkomulag. Því sé farið fram á að gert verið að skilyrði að leitað verði samráðs og samkomulags við íbúa. Um sértækar aðgerðir innanhúss sé ljóst að þreföldun á gleri, yfirbygging svala og skermun opnanlegra gluggafaga sé í eðli sínu þannig að við húseigendur verði að vera fullt samkomulag. Kærendur krefjast þess að framkvæmdaraðila verði gert skylt að haga gerð mótvægismannvirkja þannig að þau rýri ekki möguleika íbúa á að njóta útsýnis af efri hæð húss, en nauðsynlegt sé að tryggja að jarðvegsmanir verði ekki svo háar að þær hindri útsýni heldur verði notaðar aðrar aðferðir ef nauðsynlegar reynast svo sem að setja vegg úr hertu gleri ofan á jarðvegsmanir. Einnig krefjast kærendur þess að framkvæmdaraðila verði gert skylt að láta hljóðmælingar fara fram reglulega fyrir og eftir fyrirhugaða framkvæmd og slíkar aðgerðir verði gerðar í samráði við íbúa. Kærendur telja að það skjóti skökku við að engar hljóðmælingar hafi verið framkvæmdar til þessa nema þær sem íbúar hafa hlutast til um fyrir nokkrum árum. Þær hafi verið gerðar af heilbrigðiseftirliti Hafnarfjarðar í júlí 1997 og þá hafi komið fram að hávaði fór upp í 70 dB(A) við Eskiholt 3. Reiknaður hávaði hafi alltaf verið mun lægri. Að öðru leyti er um þetta atriði vísað til forsendna Skipulagsstofnunar.

Fram kemur í umsögn Skipulagsstofnunar að kveðið hafi verið á um samráð við íbúa um útfærslu hljóðvarna í hinum kærða úrskurði. Í niðurstöðu úrskurðarins komi jafnframt fram að reglubundnar mælingar á hávaða í íbúðahverfum við Reykjanesbraut frá Fífuhvammsvegi að Álftanesvegi fari fram á vegum Heilbrigðiseftirlits Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis sbr. 9. gr. reglugerðar um hávaða. Einnig segir að Skipulagsstofnun telji að sveitarstjórn geti í framkvæmdaleyfi tryggt að hávaðamælingar muni fara fram.

Í umsögn Umhverfisstofnunar kemur fram að stofnunin hafi iðulega fjallað um nauðsyn þess að útlit, hæð og virkni hljóðvarna sé lýst í matsskýrslu. Hafi stofnunin t.a.m. varað við því að ef íbúar telja að sjónræn áhrif hljóðvarna verði óásættanleg þegar á hólminn er komið sé hætta á að þeim verði breytt. Þá sé orðið of seint að bregðast við á annan hátt, s.s. með breyttu skipulagi, lögun eða legu vegar. Umhverfisstofnun bendir á að skv. reglugerð um hávaða beri heilbrigðisnefnd að láta framkvæma reglulegar eftirlitsmælingar á hávaða. Stofnunin telur hins vegar eðlilegt að heilbrigðisnefnd og Vegagerðin hafi samstarf um hávaðamælingar og um viðeigandi aðgerðir, sbr. 7. gr. reglugerðarinnar.

Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram það álit að í samráði felist að kynna íbúum fyrirhugaðar aðgerðir, gefa þeim kost á að koma að athugasemdum og ábendingum, taka tillit til framkominna athugasemda og ábendinga og fara eftir þeim ef þess er kostur nema málefnalegar ástæður leiði til annars. Ljóst sé að komi til sértækra aðgerða á einstökum eignum verði ekki ráðist í þær nema með samþykki viðkomandi eiganda. Um aðrar mótvægisaðgerðir, svo sem byggingu jarðvegsmana eða hljóðveggja, eigi framkvæmdaaðila, eftir atvikum Vegagerðin eða viðkomandi sveitarfélag, lögum samkvæmt ákvörðunarvald um og þurfi ekki að leita samþykkis einstakra eigenda eigna vegna þeirra. Vegagerðin telur ljóst að útilokað sé annað en að fórna að einhverju leyti útsýni við gerð hljóðvarna, hvort sem um jarðvegsmanir eða hljóðveggi sé að ræða. Hins vegar muni Vegagerðin leitast við að haga mannvirkjum með þeim hætti að sem minnst útsýnisskerðing hljótist af þeim án þess að dregið sé um of úr hljóðvarnargildi þeirra. Varðandi hljóðmælingar þá segir í umsögninni að Vegagerðin telji það hlutverk viðkomandi heilbrigðisyfirvalda að fylgjast með mengun og annast mælingar á henni. Samkvæmt 9. gr. reglugerðar um hávaða annist viðkomandi heilbrigðisnefnd reglubundnar eftirlitsmælingar á hávaða.

Fram kemur í umsögn Garðabæjar að mikilvægt sé að Vegagerðin eigi náið samráð við íbúana og Garðabæ um hönnun hljóðvarna, m.a. þannig að tekið sé tillit til útsýnis frá þeim húsum þar sem hljóðvarnir verða umfangsmestar.

4. Áhrif framkvæmdar á verðmæti eigna

Kærendur í Lunda- og Búðahverfi telja að ef umferðarhávaði hækki til muna á þessu svæði verði fasteignir ekki jafn eftirsóttar og áður og falli í verði auk þeirra óþæginda sem af umferðarhávaðanum stafar fyrir íbúana. Umferðarhávaðinn muni tvöfaldast frá núverandi ástandi verði úrskurði Skipulagsstofnunar ekki hnekkt að þessu leyti. Í Lunda- og Búðahverfi séu íbúar tuga fasteigna sem ætlað er að búa við umferðarhávaða yfir 55 dB(A) frá Reykjanesbrautinni og ef miðað sé við 45 dB(A) mörkin snerti þetta íbúa hundruða fasteigna í Garðabæ. Sölutregða og verðlækkun eignanna vegna verri hljóðvistar muni skipta hundruðum milljóna króna.

Kærendur Eskiholti 3 krefjast þess að framkvæmdaraðila verði gert skylt að bæta eigendum Eskiholts 3, Garðabæ þá verðrýrnun sem verða kann á húsinu vegna framkvæmdarinnar, en kærendur telja að hús þeirra hafi þá sérstöðu að fara verst út úr fyrirhugaðri framkvæmd þar sem það standi næst veginum og breikkun hans komi nær því en öðrum húsum í hverfinu.

Í umsögn Skipulagsstofnunar kemur fram að fyrirhuguð framkvæmd sé í samræmi við skipulagsáætlanir en bótaréttur kunni að stofnast ef í ljós kemur að ekki verði mögulegt að uppfylla gildandi hljóðvistarkröfur.

Um bótaskyldu telur Vegagerðin í umsögn sinni ekki ástæðu til að ætla að húseignin Eskiholt 3 rýrni í verði við framkvæmdirnar. Komi til þess að bótaskylt tjón verði á eigninni við framkvæmdirnar fari meðferð þess máls eftir IX. kafla vegalaga nr. 45/1994 og um bótaskyldu vegna skipulags gildi ákvæði 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Ekki eigi við að fjalla um hugsanlega bótaskyldu framkvæmdaraðila í mati á umhverfisáhrifum framkvæmda.

5. Mislæg gatnamót

Kærendur Eskiholts 3 gera þær kröfur að ekki verði fallist á að heimila tvöföldun Reykjanesbrautar nema um leið verði gerð mislæg gatnamót við Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg. Tvöföldun Reykjanesbrautar á þeim kafla sem hinn kærði úrskurður lítur að hafi ávallt verið kynnt þannig að samhliða verði gerð mislæg gatnamót annars vegar við Arnarnesveg og hins vegar við Vífilsstaðaveg. Nú hafi heyrst að áformað sé að tvöfalda Reykjanesbraut fyrst og fresta gerð mislægra gatnamóta. Þetta sé alvarlega ámælisvert. Sé þetta rétt sé verið að hafa að engu forsendur Skipulagsstofnunar í úrskurði hennar um framkvæmdina, breyta forsendum kynningar á málinu og gera ranga grein fyrir málsatvikum. Ekki sé hægt með neinu móti að fallast á slík vinnubrögð.

Í umsögn Skipulagsstofnunar segir að gengið hafi verið út frá því í hinum kærða úrskurði að mislæg gatnamót yrðu gerð við Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg. Verði horfið frá þeim áætlunum og aðeins sótt um leyfi til tvöföldunar Reykjanesbrautar kunni að þurfa að taka afstöðu til matsskyldu breytingarinnar, sbr. lið 13 a í 2. viðauka og 6. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum.

Varðandi mislæg gatnamót við Arnarnesveg segir í umsögn Vegagerðarinnar að fram komi í úrskurði Skipulagsstofnunar að hin fyrirhugaða framkvæmd verði áfangaskipt og ekki hafi verði tekin ákvörðun um hvenær verði ráðist í einstaka áfanga hennar að því frátöldu að fyrirhugað sé að bjóða út tvöföldun brautarinnar frá Fífuhvammsvegi að Vífilsstaðavegi. Ekki verði séð að umhverfisleg rök mæli sérstaklega með einum kosti frekar en öðrum hvað mögulega áfangaskiptingu varðar. Ákvörðun um einstaka áfanga verksins sé í höndum samgönguyfirvalda að fenginni fjárheimild Alþingis. Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003-2014 sé gert ráð fyrir því að breikkun Reykjanesbrautar á umræddum kafla verði á fyrsta tímabili, þ.e. 2003-2006, en mislæg vegamót verði gerð á 2. tímabili, þ.e. 2007-2010.

6. Málsmeðferð ráðuneytisins og framlagning frekari gagna

Við meðferð málsins fóru starfsmenn ráðuneytisins á vettvang og könnuðu aðstæður í íbúðarhverfum við Reykjanesbraut. Einnig fundaði ráðuneytið með Vegagerðinni og þrisvar með fulltrúum kærenda. Vegna framlagningar nýrra gagna við meðferð málsins hjá ráðuneytinu sendi ráðuneytið Vegagerðinni bréf dags. 10. júní 2003, þar sem óskað var eftir að Vegagerðin gerði grein fyrir fyrirætlunum sínum varðandi hönnun hljóðvarna og hvaða hávaðamörk væri miðað við. Einnig óskaði ráðuneytið skýringa á breytingum á umferðarspá sem orðið höfðu frá gerð matskýrslu.

Ráðuneytinu bárust við meðferð málsins eftirfarandi gögn:

1. Bréf frá Vegagerðinni, dags. 17. maí 2003, ásamt minnisblaði og teikningum með upplýsingum um hljóðvist og hönnun hljóðvarna.

2. Bréf frá Garðabæ, dags. 20. maí 2003, ásamt lögfræðiáliti Andra Árnasonar hrl. varðandi reglur um hljóðvist og ábyrgð á kostnaði við gerð hljóðvarna. Í bréfi sveitarfélagsins er þeirri afstöðu Vegagerðarinnar mótmælt að heimilt sé að miða við 65 dB(A) í öllum íbúahverfum meðfram Reykjanesbraut.

3. Bréf frá Garðabæ, dags. 3. júní 2003, þar sem vísað er til nýrra áforma Vegagerðarinnar um að hún hyggist gera hljóðmanir samhliða breikkun Reykjanesbrautar með það að leiðarljósi, að hávaði verði ekki yfir 55 dB(A) við íbúðarhús miðað við 80 km/klst viðmiðunarhraða í útreikningum hljóðstigs. Telur sveitarfélagið að þessi áform séu ásættanleg.

4. Bréf frá Vegagerðinni 10. júní 2003, þar sem ráðuneytinu er sent afrit af bréfi Vegagerðarinnar til Garðabæjar sem vísað er til í lið 3 hér að framan.

5. Bréf frá Vegagerðinni 18. júní 2003, þar sem svarað er fyrirspurn ráðuneytisins varðandi fyrirætlanir Vegagerðarinnar við hönnun hljóðvarna og hvaða hávaðamörk verði miðað við. Einnig svarað spurningum ráðuneytisins varðandi umferðarspá og þeim breytingum sem orðið hafa á henni frá gerð matskýrslu.

Framangreind gögn voru send kærendum til athugasemda með bréfi þann 20. júní 2003 og barst sameiginlegt svar frá þeim þann 28. júní 2003. Í athugasemdum kærenda er því harðlega mótmælt að með framlagningu nýrra gagna sé öllum fyrri forsendum um umferðarmagn og hraða umferðarinnar kollvarpað. Bent er á að nýr ráðgjafi hafi verið tekinn inn í málið án skýringa. Eitt sé þó óbreytt, upphafleg áform Vegagerðarinnar til varnar hávaða, sem í matskýrslu voru talin duga til að halda hávaða við eða innan 65 dB(A) séu nú talin nothæf fyrir 55 dB(A) með breyttum forsendum, minnkun umferðarmagns og lækkun meðalhraða. Telja kærendur málið í heild sinni vanupplýst og vinnubrögð framkvæmdaraðila alvarlega ámælisverð. Uppdrættir séu afar ófullkomnir, inn á þá vanti útreikning fyrir hljóðvist við mörg hús og jarðvegsmanir séu einungis auðkenndar með þéttleika hæðarlína sem ómögulegt sé að átta sig á. Varðandi breytingar á umferðarspá benda kærendur á að í minnisblaði VST sé gengið út frá því að uppbygging þekkingarþorps í Urriðaholti verði öðruvísi en skipulagsyfirvöld gera ráð fyrir. Jafnframt benda kærendur á að starfsemi í Smáralind sé ekki komin í fullan gang og ekki sé gert ráð fyrir þeirri miklu uppbyggingu sem í undirbúningi séu m.a. með byggingu 20 hæða stórhýsis í Smárahverfinu. Ekki sé heldur gert ráð fyrir uppbyggingu á næstu árum á svæðum í grennd við bæinn eða því að líklegt verði að teljast að við tvöföldun Reykjanesbrautar muni umferð flytjast þangað af Hafnafjarðarvegi. Kemur fram í athugasemdunum að krafa kærenda sé að úrskurður ráðherra taki til afkastagetu vegarins hverju sinni á líftíma hans en að ekki sé horft til ákveðinna ára hvað hljóðvarnir varðar.

Í athugasemdum kærenda er einnig gagnrýnt að ekkert samhengi sé milli hinna nýju útreikninga VST og útreikninga Hnits frá október 2002. Bent er á að fyrir hinum síðarnefndu hafi verið færð ítarleg rök og hljóðvist rækilega tíunduð við hvert hús, en ekkert slíkt sé með hinum nýju útreikningum. Gera kærendur í athugasemdum sínum nákvæma grein fyrir þeim atriðum sem þeir telja að sé áfátt við hina nýju hljóðstigsútreikninga og forsendur þeirra. Einnig gagnrýna þeir þversniðsmyndir sem séu villandi og ófullkomnar, allir nýir útreikningar miðist við svokölluð ljósastýrð plangatnamót en ekki mislæg. Bent er á að þrátt fyrir yfirlýsingar Vegagerðarinnar um vilja til samráðs hafi ekkert slíkt samráð verið haft. Er því sérstaklega mótmælt að samráð við íbúa fari fram í gegn um sveitarfélagið. Kærendur telja ljóst að þegar til lengri tíma er litið sé ljóst að viðunandi hljóð-, loft- og sjónmengunarvarnir muni ekki nást með óbreyttri hæðarlegu vegarins.

Þann 11. júlí 2003 barst ráðuneytinu frá Vegagerðinni gögn þar sem lýst er nánar þeim hljóðmönum og -veggjum sem komu fram á þeim teikningum sem sendar voru kærendum þann 20. júní 2003. Jafnframt kemur þar fram að enn er unnið að nánari hönnun hljóðvarnanna og hafa hljóðvarnir neðan Eskiholts verið færðar nær veginum þannig að útsýni verði áfram af efri hæð húsa við Eskiholt.

IV. Niðurstaða

1. Hljóðvist, hljóðstigsútreikningar, lækkun vegar og lagning í stokk

1.1

Í kæru íbúa Eskiholti 3 kemur fram að kærendur telja að ferli málsins í heild sinni hafi verið áfátt. Lögð hafi verið fram ófullkomin gögn, kynning á verkinu hafi miðast við mislæg gatnamót án teljandi hljóðvarna og mikil óvissa sé um væntanlegt umferðarmagn. Engar hljóðprófanir hafi verið framkvæmdar á matstímanum. Mjög skorti á að horft sé heildstætt á málið eða skoðaðir aðrir kostir. Gera þeir þá kröfu að ráðherra meti aðra möguleika á legu vegarins, svo sem að hann verði lækkaður, lagður í stokk, miðeyja minnkuð eða aðrir kostir kannaðir. Kærendur Eskiholti 7 krefjast þess að sá möguleiki verði skoðaður að leggja Reykjanesbraut í lokaðan stokk á kafla milli Bæjargils og Eskiholts og að Hnoðraholtsvegur verði færður yfir stokkinn og byggðin beggja vegna Reykjanesbrautar þannig sameinuð. Telja kærendur að ekki sé tekið nægilegt tillit til umhverfisáhrifa s.s. hljóðvistar, loft- og sjónmengunar né umsagnar Hollustuverndar ríkisins. Krafa kærenda í Hnoðraholti er að umhverfisráðherra meti aðra möguleika en fram koma í hinum kærða úrskurði svo sem að Reykjanesbraut verði lögð í stokk í stað þess sem lagt er til í matsskýrslu.

Í matsskýrslu er kynnt tvöföldun Reykjanesbrautar á um 4 km kafla frá Fífuhvammsvegi í Kópavogsbæ að Álftanesvegi í Garðabæ. Fyrirhugað er að leggja nýja, tveggja akreina akbraut austan núverandi akbrautar og jafnframt að gera þrjú mislæg vegamót á vegkaflanum; við Arnarnesveg, Vífilsstaðaveg og við fyrirhugaða Urriðaholtsbraut. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru megináhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar áhrif á hljóðvist. Fram kemur í matsskýrslu að umferð vélknúinna ökutækja um Reykjanesbraut mun aukast á komandi árum, bæði vegna tilkomu verslunar- og þjónustukjarna á svæðinu og einnig vegna almennrar fjölgunar fólks í sveitarfélögunum í kring. Í matsskýrslu er á því byggt að hávaði vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar falli undir frávikstilvik I í reglugerð nr. 933/1999, um hávaða, þannig að hávaði megi ekki vera meiri en 65 dB(A) á jarðhæð við íbúðarhúsnæði og við útivistarsvæði í þéttbýli. Í matsskýrslunni er gerð grein fyrir með hvaða hætti unnt er að tryggja að hávaði fari ekki yfir þessi mörk miðað við að umferð um veginn árið 2020 verði 72.000 bifr./sólarhr. Tekið er fram að ekki sé um endanlega hönnun hljóðvarna að ræða, heldur einungis sýnt fram á að unnt sé að koma við slíkum hljóðvörnum og þær geti borið árangur.

Eftir að Skipulagsstofnun fékk matskýrslu Vegagerðarinnar til meðferðar óskaði stofnunin eftir upplýsingum frá Vegagerðinni um hljóðvarnir sem miðuðu að því að tryggja að hljóðstig færi ekki yfir 55 dB(A) viðmiðunargildi í núverandi íbúðarbyggð í Hnoðraholti, Bæjargili og Hæðahverfi miðað við forsendur í umferðarspá til ársins 2020 og nánari upplýsingum um þær hljóðstigsbreytingar sem breytt hæðarlega fyrirhugaðrar akbrautar myndi hafa í för með sér. Í viðbótarskýrslu Hnits hf. frá október 2002 (hér eftir nefnd viðbótarskýrsla Hnits hf.), er gerð grein fyrir ýmsum útfærslum hljóðvarna við Reykjanesbraut, miðað við framangreindar forsendur. Annars vegar var reiknað hljóðstig miðað við 50.000 bifr./sólarhr. sem er hámarksumferð sem 4 akreina vegur annar, og hins vegar miðað við 72.000 bifr./sólarhr. sem er hámarksumferð sem 6 akreina vegur annar.

Eftir að úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til ráðherra hafa borist nýir hljóðstigsútreikningar byggðir á frekari hönnun vegarins og nánari útfærslu hljóðvarna. Í þeim gögnum er miðað við umferð 44.000 bifr./sólarhr. og ýmist 70 eða 80 km/klst hraða. Fram kom í bréfi Vegagerðarinnar til ráðuneytisins dags. 18. júní 2003 að Vegagerðin hafi látið kanna möguleika á því að koma við mótvægisaðgerðum, svo sem jarðvegsmönum, miðað við að jafngildishljóðstig utan húss verði að hámarki 55 dB eftir framkvæmdir við íbúðarhús við brautina. Samkvæmt fyrirliggjandi niðurstöðum telur Vegagerðin að með raunhæfum aðgerðum sé unnt að tryggja að jafngildishljóðstig verði að hámarki 55 dB(A) næstu árin eftir framkvæmdir, a.m.k. til ársins 2012, en þá er talið að umferð um veginn verði um 44.000 bifr./sólahr.

Í k-lið 3. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000, eru umhverfisáhrif skilgreind sem áhrif framkvæmdar og starfsemi sem henni fylgir á umhverfi. Í matsskýrslu skal tilgreina þau áhrif, uppsöfnuð og samvirk, bein og óbein, sem fyrirhuguð framkvæmd og starfsemi sem henni fylgir kann að hafa á umhverfi og samspil einstakra þátta í umhverfinu, sbr. 1. ml. 1. mgr. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum. Þá skal gera grein fyrir því hvaða forsendur liggi til grundvallar matinu, sbr. 2. ml. sömu málsgreinar. Eins og áður segir eru megináhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar áhrif á hljóðvist. Áhrif umferðar á hljóðstig til framtíðar eru að mörgu leyti óviss. Í framangreindum gögnum er hljóðvist reiknuð út frá mismunandi forsendum. Áður en lagt er mat á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar er nauðsynlegt að mati ráðuneytisins að ákveða við hvaða forsendur er rétt að miða við útreikning á hljóðvist við Reykjanesbraut til framtíðar. Ber að mati ráðuneytisins að miða við forsendur sem byggja á bestu þekkingu á hverjum tíma, þannig að sem líklegust niðurstaða fáist um væntanleg umhverfisáhrif.

Fram kemur í matsskýrslu að hönnunarhraði Reykjanesbrautar verður 100 km/klst og reiknað er með að leyfilegur hámarkshraði á umræddum kafla Reykjanesbrautar eftir tvöföldun verði 80 km/klst (skiltaður hraði). Hönnunarhraði rampa verður á bilinu 50-60 km/klst og skiltaður hraði 40-50 km/klst. Í matsskýrslu og viðbótarskýrslu Hnits hf. er hljóðstig til framtíðar reiknað út frá 80 km/klst á Reykjanesbraut, 60 km/klst á Arnarnesvegi og 50 km/klst á Vífilsstaðavegi og telur ráðuneytið þær forsendur eðlilegar.

Í matsskýrslu kemur fram að umferðarmagn hafi verið reiknað á grundvelli forsenda sem fram hafi komið í vinnu við gerð svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og jafnframt að mismunandi forsendur hafi verið skoðaðar. Gerð er grein fyrir nokkrum atriðum sem hafa veruleg áhrif á niðurstöður um áætlað umferðarmagn svo sem tilkoma jarðganga um Kópavog að Hlíðarfæti í Reykjavík, uppbygging verslunarhúsnæðis í Kópavogi og tilkoma hátækniþorps í Garðabæ. Við útreikningana var notað líkan sem unnið var fyrir svæðisskipulag á höfuðborgarsvæðinu (líkan MR). Í matsskýrslunni er umferðarmagn reiknað fyrir árið 2010 annars vegar og árið 2020 hins vegar. Gert er ráð fyrir að árið 2010 verði uppbyggingu verslunarhúsnæðis í Smáranum lokið og uppbygging hátækniþorps hafin, jafnframt að árið 2020 verði áhrif uppbyggingar hátækniþorps og jarðganga á umferðarmagn veruleg. Á grundvelli þessa áætlar framkvæmdaaðili umferðarmagn 50.000 bíla á sólarhring árið 2010 og 72.000 bíla á sólarhring 2020.

Í ársbyrjun 2001 voru umferðarspár endurskoðaðar (líkan M98), áætlað umferðarmagn árið 2024 norðan Urriðaholtstengingar lækkaði úr 72.000 bílum á sólarhring í 50.000 einkum vegna endurskoðunar á áhrifum fyrirhugaðs hátækniþorps í Urriðaholti. Í tengslum við svæðisskipulag 2002 voru umferðarspár endurskoðaðar (líkan MN) “Umferðarspár höfuðborgarsvæðisins” skýrsla VST, júní 2002. Samkvæmt því hefur áætlað umferðarmagn minnkað úr 50.000 bílum á sólarhring í 47.000 bíla í lok skipulagstímabilsins árið 2024 og jafnframt að áætlað umferðarmagn árið 2012 verði 36.000 bílar á sólarhring. Á grundvelli umferðartalningar hefur áætlað umferðarmagn síðan verið endurskoðað og er nú miðað við að umferðarmagn um Reykjanesbraut sunnan Arnarnesvegar verði 44.000 bílar á sólarhring árið 2012 og 55.000 árið 2024 sbr. bréf Vegagerðarinnar dags. 18. júní s.l. Ráðuneytið fellst á skýringar Vegagerðarinnar á þeim breytingum sem orðið hafa á umferðarspám frá því að matskýrsla var gerð og telur spárnar trúverðugar.

Gildandi svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins nær til ársins 2024. Eins og fram kemur hér að framan er gert ráð fyrir að umferð um Reykjanesbraut á umræddum kafla árið 2024 verði 55.000 bifr./sólarhr. Fram kemur í matsskýrslu að hámarksflutningsgeta fjögurra akreina vegar er u.þ.b. 50.000 bifr./sólarhr. Líklegt verður því að telja að á skipulagstímabilinu þurfi að koma til þreföldun á Reykjanesbraut á umræddum kafla, gangi framangreindar umferðarspár eftir. Sú framkvæmd er hins vegar ekki til umfjöllunar í máli þessu. Ráðuneytið telur því rétt að miðað sé við hámarks flutningsgetu tvöfaldrar Reykjanesbrautar við útreikninga á hljóðvist til framtíðar, þ.e. 50.000 bifr./sólahr., enda benda nýjustu umferðarspár til þess að því marki verði náð innan tuttugu ára.

Útreikninga á hljóðvist til framtíðar miðað við framangreindar forsendur er að finna í viðbótarskýrslu Hnits hf. og telur ráðuneytið rétt að líta til þeirra við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Ráðuneytið telur að nýir hljóðstigsútreikningar sem bárust ráðuneytinu við meðferð málsins þar sem hljóðvist er reiknuð út frá öðrum forsendum en þeim sem að framan greinir, séu einungis til upplýsinga um áframhaldandi hönnun vegarins og mótvægisaðgerða og um áhrif framkvæmdarinnar í nánustu framtíð.

1.2.

Samkvæmt 5. gr. reglugerðar um hávaða skal hávaði vera undir þeim viðmiðunarmörkum sem fram koma í viðauka við reglugerðina, sbr. þó 8. gr. Ennfremur skal leitast við að uppfylla þau leiðbeiningarmörk sem fram koma í viðauka. Ef um er að ræða nýbyggingarsvæði í eldri byggð eða svæði þar sem skipulag eða starfsemi er fyrir, má þó heimila frávik sem lýst er í viðauka. Fram kemur í lið 2.4. í viðaukanum að viðmiðunargildi er það gildi sem verður að uppfylla til þess að ástandið geti talist viðunandi. Ef þetta viðmiðunargildi er samt sem áður ekki uppfyllt, skal skilgreina hvernig hægt verður að uppfylla það innan ákveðins tíma. Leiðbeiningargildi er samkvæmt lið 2.5. sama viðauka það gildi sem ákjósanlegt er að uppfylla eða stefna að því að uppfylla sem langtímamarkmið, en leitast skal við að uppfylla það þar sem þess er nokkur kostur. Að mati ráðuneytisins er enginn efnismunur á hugtökunum viðmiðunargildi eða viðmiðunarmörk annars vegar og leiðbeiningargildi og leiðbeiningarmörk hins vegar.

Í 1. lið viðaukans eru almenn ákvæði þar sem segir að við nýskipulag hverfa skuli taka mið af töflu 1, sem sýnir viðmiðunargildi og leiðbeiningargildi varðandi hljóðstig frá bílaumferð og atvinnustarfsemi. Samkvæmt töflu 1 er viðmiðunargildi fyrir hljóðstig fyrir íbúðarhúsnæði í nýskipulögðu hverfi, 55 dB(A) og leiðbeiningargildi 45 dB(A) vegna hávaða frá umferð. Í 5. lið viðaukans er síðan nánar fjallað um hljóðstig frá umferð. Þar er m.a. að finna frávik frá framangreindu viðmiðunargildi þegar um er að ræða verulega breytingu á umferðaræð í byggð sem fyrir er (frávik I). Fráviksgildið þegar þannig stendur á er 65 dB(A) fyrir íbúðarhúsnæði og útivistarsvæði í þéttbýli. Í 8. gr. reglugerðarinnar segir síðan að heilbrigðisnefnd geti, vegna sérstakra, óviðráðanlegra aðstæðna og að höfðu samráði við Hollustuvernd ríkisins, nú Umhverfisstofnun, leyft að á ákveðnum, afmörkuðum svæðum megi hávaði vera yfir viðmiðunarmörkum samkvæmt viðauka. Að mati ráðuneytisins er um sitt hvora undanþáguheimildina að ræða annars vegar í 5. gr., sbr. viðauki og hins vegar í 8. gr.

Markmið reglugerðar um hávaða er samkvæmt 1. mgr. 1. gr. að draga úr og koma í veg fyrir hávaða. Samkvæmt 1. mgr. 6. gr. reglugerðarinnar skulu hávaðavarnir á hverjum tíma vera slíkar að hávaði sé innan viðmiðunarmarka samkvæmt 5. gr., sbr. þó 8. gr. Eins og áður segir er viðmiðunargildi það gildi sem verður að uppfylla til þess að ástandið geti talist viðunandi. Ef þetta viðmiðunargildi er samt sem áður ekki uppfyllt, skuli skilgreina hvernig hægt verður að uppfylla það innan ákveðins tíma. Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið ljóst að meginreglan samkvæmt reglugerðinni sé sú að hávaði í íbúðarhverfum skuli vera innan viðmiðunarmarkanna 55 dB(A). Ráðuneytið telur að skýra verði orðalagið „...má þó heimila frávik...“ í 3. ml. 5. gr. þannig að afla þurfi sérstakrar heimildar til beitingar fráviksgilda viðaukans. Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar hefur heilbrigðisnefnd eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, nú Umhverfisstofnunar. Því telur ráðuneytið ljóst að heilbrigðisnefnd sé það stjórnvald sem veita verður slíkt leyfi, enda er það í samræmi við heimild heilbrigðisnefndar til að veita leyfi skv. 8. gr. Með hliðsjón af framangreindu ber því að mati ráðuneytisins við hönnun mótvægisaðgerða vegna vegalagningar að taka mið af 55 dB(A) viðmiðunarmörkum nema fyrir liggi leyfi heilbrigðisnefndar til fráviks frá þeim viðmiðunarmörkum.

Ekki liggur fyrir heimild heilbrigðisnefndar til fráviks skv. framangreindu ákvæði en fyrir liggur umsögn heilbrigðisnefndar þar sem gagnrýnd er sú hönnun hljóðvarna sem byggt er á í matskýrslu og miðar við að hávaði fari ekki yfir 65 dB(A) í aðliggjandi íbúðarhverfum og útivistarsvæðum. Vegagerðin hefur eftir að málið barst ráðuneytinu lýst því yfir að hún muni tryggja hljóðstig undir 55 dB(A) í öllum aðliggjandi hverfum við Reykjanesbraut a.m.k. þar til umferð nær 44.000 bifr./sólarhr. Að mati ráðuneytisins hefur Vegagerðin lýst yfir vilja sínum til að halda 55 dB(A) í öllum framangreindum hverfum en ekki liggur fyrir hvort hún muni sækja um heimild til fráviks frá viðmiðunargildi reglugerðarinnar þegar 44.000 bifr./sólahr. markinu er náð. Jafnframt liggur ekki fyrir afstaða heilbrigðisnefndar til veitingar slíkrar heimildar verði þess óskað og þá hvort hún yrði veitt. Veiting slíks leyfis er sérstök stjórnsýsluákvörðun sem er kæranleg til úrskurðarnefndar skv. 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og telur ráðuneytið það því ekki á sínu valdsviði að taka afstöðu til slíkrar leyfisveitingar í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur því eins og gögn þessa máls liggja fyrir að leggja verði til grundvallar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að hljóðstig við Reykjanesbraut verði innan við 55 dB(A) í öllum aðliggjandi íbúðarhverfum og útivistarsvæðum.

Með hliðsjón af framangreindum ákvæðum reglugerðar um hávaða telur ráðuneytið ljóst að við hönnun hávaðavarna vegna vegalagningar ber að leitast við að halda viðmiðunarmörkin 55 dB(A) eftir því sem unnt er, sbr. 6. gr. reglugerðar um hávaða og liður 2.4 í viðauka hennar. Beiting fráviksheimildarinnar er undantekning frá meginreglu reglugerðar um hávaða, sem er að draga úr eða koma í veg fyrir hávaða. Að mati ráðuneytisins er það galli á upphaflegri matsskýrslu í máli þessu að ekki hafi verið gerð grein fyrir því hvort og þá hvernig unnt væri að tryggja að hljóðvist væri innan viðmiðunargildis 55 dB(A) við Reykjanesbraut. Hins vegar telur ráðuneytið að bætt hafi verið úr þessum ágalla við meðferð málsins hjá Skipulagsstofnun með framlagningu viðbótarskýrslu Hnits hf. Ráðuneytið telur því að unnt sé að meta áhrif framkvæmdarinnar á hljóðvist út frá fyrirliggjandi gögnum.

1.3.

Í viðbótarskýrslu Hnits hf. kemur fram að verulegar hljóðvarnir þurfi til að unnt sé að nálgast 55 dB(A) viðmiðunargildi reglugerðar um hávaða í aðliggjandi íbúðarhverfum miðað við óbreytta hæðarlegu vegar. Gerð er grein fyrir útfærslu þeirra hljóðvarna í kafla 3.1 í skýrslunni. Á mynd 3 í viðauka við skýrsluna er sýnd hljóðvist miðað við þá útfærslu hljóðvarna, óbreytta hæðarlegu vegar og að umferð verði 50.000 bifr./sólarhr. og umferðarhraði 80 km/klst. Fram kemur í kafla 4.1 að við Sunnuflöt, Lundahverfi og Holtsbúð muni hljóðstig vera undir 55 dB(A) en nyrst í Ásbúð og við austustu hús í Bæjargili fari hávaði yfir 55 dB(A) vegna þess að hljóð „leki“ meðfram Hnoðraholtsbraut. Ráðuneytið telur að gögn um frekari hönnun hljóðvarna við brautina sem bárust ráðuneytinu við meðferð málsins bendi til þess að unnt verði að koma í veg fyrir þennan „hljóðleka“. Samkvæmt viðbótarskýrslu Hnits hf. mun hljóðstig við Eskiholt fara niður fyrir 55 dB(A) á jarðhæð en á annarri hæð húsa við Eskiholt, að undanskildu húsi númer 4, fari hljóðstig upp fyrir 55 dB(A). Þar þurfi því að grípa til sértækra aðgerða, svo sem breytinga á gluggum. Af hálfu Vegagerðarinnar er nú unnið að frekari hönnun vegarins og hljóðvarna, þar sem m.a. er gert ráð fyrir að hljóðvarnir verði fjær húsum í Eskiholti en gert var ráð fyrir í viðbótarskýrslu Hnits hf.

Í viðbótarskýrslu Hnits hf. er jafnframt að kröfu Skipulagsstofnunar gerð grein fyrir áhrifum þess á hljóðvist að lækka brautina um allt að 4,5 m á kaflanum milli Vífilsstaðavegar og Arnarnesvegar. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að vegurinn liggi þá í steinsteyptum stokki. Miðað við að umferð verði 50.000 bifr./sólarhr. er niðurstaða skýrslunnar að með slíkri lækkun vegar verði unnt að halda hljóðstigi innan 55 dB(A) í öllum hverfum og draga heldur úr hljóðvörnum á yfirborði og bæta útsýni frá húsum. Vegna óheppilegrar legu brautarinnar þurfi eftir sem áður umtalsverðar aðgerðir við flest aðliggjandi íbúðarhverfi. Hljóðmön við Eskiholt verði án veggjar og þ.a.l. lægri og mön lækki nokkuð við Búðir í Garðabæ. Hins vegar þurfi að klæða vegg í stokki með hljóðdeyfandi efni og að auki að gera vegg meðfram öllum stokknum. Hljóðstig verði þó eftir sem áður yfir viðmiðunarmörkum í nýskipulagi nyrst í Hnoðraholti og áfram verði að grípa til sértækra aðgerða til úrlausnar hljóðstigi á 2. hæð nokkurra húsa við Bæjargil, Eskiholt, Holtsbúð og fleiri götur. Með lækkun vegarins leggst af núverandi tenging milli íbúðarhverfa austan og vestan Reykjanesbrautar um Hnoðraholtsbraut sem liggur undir Reykjanesbrautina og göngustígar í undirgöngum hverfa.

Ráðuneytið telur að í framangreindum gögnum sé áhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar á hljóðvist nægjanlega lýst og telur ráðuneytið þau áhrif ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Að mati ráðuneytisins hefur verið sýnt fram á með trúverðugum hætti að unnt er að halda hljóðstigi innan 55 dB(A) í aðliggjandi íbúðarhverfum og útivistarsvæðum. Ráðuneytið bendir hins vegar á að ætli Vegagerðin að halda sig við óbreytta hæðarlegu vegar verður hún áður en framkvæmdaleyfi er veitt að sýna fram á að með nýrri útfærslu hljóðvarna verði unnt að halda hljóðstigi neðan við 55 dB(A) í öllum aðliggjandi íbúðarhverfum, miðað við 50.000 bifr./sólahr. umferð, þ.á m. nyrst í Ásbúð og við austustu hús í Bæjargili.

1.4.

Kærendur telja að rannsóknir skorti þar sem ekki hafi verið framkvæmdar hljóðprófanir á matstímanum til að kanna núverandi ástand heldur látið við það sitja að reikna hávaðamörk.

Upplýsingar um núverandi hljóðstig í matsskýrslu og öðrum gögnum málsins byggja á útreiknuðu hljóðstigi út frá umferðartalningum en ekki beinum mælingum á raunverulegum hávaða. Fram kemur í 5. lið viðauka reglugerðar um hávaða að hljóðstig frá umferð sé mælt og markgildi sett sem svokallað jafngildishljóðstig í dB(A) fyrir heilan sólarhring. Samkvæmt lið 2.2. í viðaukanum er jafngildishljóðstig, Leq ákveðið meðaltalshljóðstig, sem samsvarar sömu hljóðorku á mælitímanum og hinn raunverulegi breytilegi hávaði. Viðmiðunar- og leiðbeiningargildi fyrir umferðarhávaða er jafngildishljóðstig miðað við einn sólarhring. Við athuganir á hljóðstigi frá umferð skal mæla samkvæmt samræmdum norrænum mæliaðferðum (NT=Nordtest), þ.e. NT ACOU 039: „Road traffic: Noise“ eða NT ACOU 056: „Road traffic: Noise - Simplified method“, sbr. liður 3.2.1 í viðauka reglugerðarinnar. Útreiknað hljóðstig skal hins vegar fundið með samnorrænu reiknilíkani fyrir umferðarhávaða: „Nordisk beräkningsmodell för vägtrafikbuller“, sbr. liður 3.2.2 í viðauka. Ráðuneytið telur ljóst að í ákvæðum reglugerðar um hávaða um leiðbeiningar-, viðmiðunar- og fráviksmörk vegna hávaða frá umferð, mælt sem jafngildishljóðstig í dB(A) yfir einn sólarhring, er átt við raunverulegan hávaða sem frá umferðinni stafar. Útreikningar Vegagerðarinnar á hljóðstigi byggja að mati ráðuneytisins á þeim aðferðum sem viðurkenndar eru samkvæmt ákvæðum reglugerðar um hávaða. Athuganir og mælingar sem ráðuneytinu er kunnugt um að hafi verið gerðar hafa sýnt að framangreint reiknilíkan fyrir hávaða gefur vísbendingu um raunverulegan hávaða með góðri nákvæmni. Því telur ráðuneytið ekki ástæðu til að ætla annað en að útreikningar Vegagerðarinnar sýni hljóðstig sem er nálægt raunverulegu hljóðstigi við Reykjanesbraut. Hins vegar er það rétt hjá kærendum að líkanið tekur ekki mið af hávaða frá nagladekkjum eða veðurfarslegum séraðstæðum. Ráðuneytið telur því að æskilegt hefði verið að Vegagerðin gerði beinar mælingar á hljóðvist við Reykjanesbraut þannig að fyrir lægi með meiri vissu hver hinn raunverulegi hávaði frá brautinni er. Ráðuneytið telur því rétt að setja það skilyrði að gerðar verði tvennar mælingar á hljóðstigi við Reykjanesbraut með viðurkenndum mæliaðferðum, sbr. liður 3.2.1. í viðauka reglugerðar um hávaða, annars vegar að vetri til og hins vegar að sumri, þannig að unnt verði að meta hugsanleg frávik frá útreikningum samkvæmt reiknilíkani og taka mið af þeim við hönnun mótvægisaðgerða.

Skilyrði: Framkvæmdaraðili láti, annars vegar nú þegar á þessu sumri og hins vegar á komandi vetri, í samráði við heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, gera tvennar mælingar á hljóðstigi við Reykjanesbraut með viðurkenndum mæliaðferðum, sbr. liður 3.2.1. í viðauka reglugerðar um hávaða, þannig að unnt verði að meta hugsanleg frávik frá útreikningum á hljóðstigi samkvæmt reiknilíkani og taka mið af þeim við hönnun mótvægisaðgerða.

1.5.

Í matsskýrslu kemur fram að ekki hafi verið skoðaðir aðrir kostir hvað legu sjálfrar Reykjanesbrautar varðar, enda bjóði aðstæður vart upp á það. Í viðbótarskýrslu Hnits hf. var að kröfu Skipulagsstofnunar gerð grein fyrir áhrifum þess á hljóðvist að lækka brautina um allt að 4,5 m á kaflanum milli Vífilsstaðavegar og Arnarnesvegar. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að vegurinn liggi þá í steinsteyptum stokki. Miðað við að umferð verði 50.000 bifr./sólarhr. er niðurstaða skýrslunnar að með slíkri lækkun vegar verði unnt að halda hljóðstigi innan 55 dB(A) og draga heldur úr hljóðvörnum á yfirborði og bæta útsýni frá húsum. Vegna óheppilegrar legu brautarinnar þurfi eftir sem áður umtalsverðar aðgerðir við flest aðliggjandi íbúðarhverfi. Hljóðmön við Eskiholt verði án veggjar og þ.a.l. lægri og mön lækki nokkuð við Búðir í Garðabæ. Hins vegar þurfi að klæða vegg í stokki með hljóðdeyfandi efni og að auki að gera vegg meðfram öllum stokknum. Hljóðstig verði þó eftir sem áður yfir viðmiðunarmörkum í nýskipulagi nyrst í Hnoðraholti og áfram verði að grípa til sértækra aðgerða til úrlausnar hljóðstigi á 2. hæð nokkurra húsa við Bæjargil, Eskiholt, Holtsbúð og fleiri götur. Með lækkun vegarins leggst af núverandi tenging milli íbúðarhverfa austan og vestan Reykjanesbrautar um Hnoðraholtsbraut sem liggur undir Reykjanesbrautina og göngustígar í undirgöngum hverfa. Ráðuneytið telur engin efni til að draga í efa þá niðurstöðu í viðbótarskýrslu Hnits hf. að til umtalsverðra hljóðvarna þurfi að grípa þrátt fyrir lækkun vegarins, enda ljóst að staðhættir eru þannig að byggð vestan brautarinnar stendur mjög nærri henni, byggð í Hnoðraholti stendur mun hærra en vegurinn þannig að hún er í beinni sjónlínu frá vestari akbraut Reykjanesbrautar auk þess sem lækkun vegar um 4,5 m er óveruleg miðað við breidd vegar.

Fram kemur í umsögn Vegagerðarinnar að ávinningur af lækkun vegar sé lítill miðað við kostnað af þeirri aðgerð. Áætlar Vegagerðin að lækkun brautarinnar myndi kosta um 500-600 milljónir króna. Gerir Vegagerðin því ráð fyrir óbreyttri hæðarlegu brautarinnar. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur einnig fram að ekki hafi verið kannað sérstaklega möguleikar á því að byggja yfir Reykjanesbraut og leggja hana þannig í stokk á umræddum kafla. Slík könnun hafi hins vegar farið fram í tengslum við mat á umhverfisáhrifum Hallsvegar og var kostnaður talinn nema á bilinu 500-1.000 milljónir kr/km. Þess vegna telji Vegagerðin þann möguleika ekki koma til greina.

Framkvæmdaraðili metur arðsemi framkvæmdarinnar og að mati ráðuneytisins fellur það utan sviðs laga um mat á umhverfisáhrifum að fjalla um arðsemi hennar í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum, sbr. úrskurður ráðuneytisins frá 20. desember 2001, um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar. Þó að ekki hafi verið gerð nákvæm grein fyrir kostnaði sem af lækkun vegarins hlýst telur ráðuneytið ekki efni til að draga í efa það mat Vegagerðarinnar að sá kostnaður nemi hundruðum milljóna króna, enda kemur fram í viðbótarskýrslu Hnits hf. að lækka þyrfti núverandi akbraut og steypa stoðveggi meðfram hinum lækkaða vegi auk þess sem tryggja þyrfti með nýjum hætti umferð gangandi vegfarenda milli hverfa sitt hvoru megin við brautina. Gerð var grein fyrir áætluðum kostnaði við gerð lokaðs stokks í mati á umhverfisáhrifum Hallsvegar, sbr. úrskurður ráðuneytisins frá 13. maí 2002, og telur ráðuneytið ekki efni til að draga í efa þá áætlun, en talið er að um svipaðan kostnað væri að ræða í máli þessu. Ráðuneytið telur að á grundvelli fyrirliggjandi gagna séu líkur á að unnt verði að fullnægja kröfum um hljóðvist með öðrum og vægari hætti fyrir framkvæmdaraðila, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Telur ráðuneytið því ekki forsendur til að gera fortakslaust kröfu um lækkun brautarinnar eða lagningu hennar í stokk.

1.6.

Ráðuneytið ítrekar að markmið laga um mat á umhverfisáhrifum er skv. a. lið 1. gr. að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd, sem kann vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Hins vegar er það hlutverk sveitarfélags sem skipulagsyfirvalds að taka ákvörðun um framtíðarnotkun lands og fyrirkomulag byggðar, sbr. 9. mgr. 2. gr. og 16. gr. skipulags- og byggingarlaga. Í skipulagsáætlunum er mörkuð stefna um landnotkun og þróun byggðar, auk þess sem þar eru sett fram markmið um einstaka þætti varðandi íbúðarbyggð, samgöngur ofl., sbr. 2. mgr. 9. gr. laganna. Ráðuneytið telur því að það sé ekki á verksviði ráðuneytisins í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum að fjalla um áhrif framkvæmdarinnar á skipulag og heildarmynd svæðisins meðfram Reykjanesbraut.

Gert hefur verið ráð fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar á skipulagi síðan 1974, áður en íbúðabyggð í norðanverðu Hnoðraholti var skipulögð. Í skipulagsreglugerð nr. 400/1998, segir í 7. mgr. greinar 3.1.1. að við skipulagsgerð skuli þess ávallt gætt að sérstökum kröfum sem gerðar eru í öðrum lögum og reglugerðum, s.s. kröfum um hljóðvist fyrir mismunandi landnotkun og starfsemi í mengunarvarnareglugerð sé unnt að framfylgja. Ljóst er að það kann að verða erfiðleikum háð að tryggja að hljóðvist verði innan 55 dB(A) í hinum óbyggða hluta Hnoðraholts. Að mati ráðuneytisins er það viðkomandi skipulagsyfirvalda að tryggja að við uppbyggingu þess hverfis verði farið að þeim reglum sem þá munu gilda um hljóðvist.

1.7.

Í matsskýrslu kemur fram að samkvæmt mengunarspá verði losun kolmóxíðs (CO), köfnunarefnisdíoxíðs (NO2), brennisteinsdíoxíðs (SO2) og svifryks vel undir viðmiðunarmörkum reglugerða miðað við áætlaða umferð árið 2020. Ráðuneytið telur að í matskýrslu sé gerð nægjanleg grein fyrir umhverfisáhrifum loftmengunar vegna fyrirhugaðrar framkvæmdar og telur þau áhrif ekki veruleg.

1.8.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar framkvæmdar sé nægjanlega lýst í matskýrslu og viðbótarskýrslu Hnits hf. og að þau séu ekki umtalsverð í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum. Ráðuneytið telur að þær forsendur sem þar er miðað við séu eðlilegar en við mat á umferðarmagni til framtíðar sé rétt að miða við hámarks flutningsgetu vegarins, þ.e 50.000 bifr./sólahr. Ráðuneytið telur eins og gögn þessa máls liggja fyrir að leggja verði til grundvallar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að hljóðstig við Reykjanesbraut verði innan við 55 dB(A) í öllum aðliggjandi íbúðarhverfum og útivistarsvæðum og hefur að mati ráðuneytisins verið sýnt fram á með trúverðugum hætti að það sé mögulegt. Ráðuneytið bendir hins vegar á að ætli Vegagerðin að halda sig við óbreytta hæðarlegu vegar verður hún áður en framkvæmdaleyfi er veitt að sýna fram á að með nýrri útfærslu hljóðvarna verði unnt að halda hljóðstigi neðan við 55 dB(A) í öllum aðliggjandi íbúðarhverfum og útivistarsvæðum, miðað við 50.000 bifr./sólahr. umferð, þ. á m. nyrst í Ásbúð og við austustu hús í Bæjargili. Ráðuneytið telur að á grundvelli fyrirliggjandi gagna séu líkur á að unnt verði að fullnægja kröfum um hljóðvist með öðrum hætti en með lækkun brautarinnar. Telur ráðuneytið því ekki forsendur til að gera fortakslaust kröfu um lækkun brautarinnar eða lagningu hennar í stokk. Þeim kröfum kærenda er því hafnað. Varðandi lið 2 í kæru íbúa Eskiholts 3 vísar ráðuneytið til umfjöllunar um túlkun ákvæða reglugerðar um hávaða og skilyrðis í lið 3 hér á eftir.

2. Viðmiðunar- og leiðbeiningagildi reglugerðar um hávaða.

Kærendur Eskiholti krefjast þess að staðfest verði sú niðurstaða í úrskurði Skipulagsstofnunar, um að framkvæmdaraðili skuli haga mannvirkjagerð þannig að virt verði leiðbeiningargildi hljóðstigs 45 dB(A) utanhúss og 30 dB(A) innanhúss. Jafnframt segir í kæru að nauðsynlegt sé að skýrt komi fram í úrskurði ráðuneytisins hvert viðmiðunargildi hávaða skuli vera. Kærendur í Lunda- og Búðahverfi krefjast þess að úrskurður Skipulagsstofnunar verði felldur úr gildi hvað varðar hljóðvist í Lunda- og Búðahverfi. Krefjast kærendur þess að framkvæmdaraðilum verði gert skylt að uppfylla meginreglu reglugerðar um hávaða, nr. 933/1999, um að draga úr og koma í veg fyrir hávaða þannig að hljóðstig frá bílaumferð við íbúðarhúsnæði verði ekki hærra en viðmiðunar- og leiðbeiningargildið 55 (45) dB(A). Kærendur við Sunnuflöt krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði breytt á þá leið að framkvæmdaraðila verið gert skylt að miða við leiðbeinandi gildi reglugerðar um hávaða og tryggja að hljóðstig verði ekki yfir 45 dB(A) á þeim kafla sem snýr að Flatahverfi.

Eins og fram kemur í lið 1. hér að framan telur ráðuneytið að afla verði sérstakrar heimildar heilbrigðisnefndar ef miða á útfærslu mótvægisaðgerða við vegalagningu við 65 dB(A) fráviksgildi reglugerðar um hávaða en ekki hefur verið sótt um slíka heimild af hálfu Vegagerðarinnar og ekki gerð grein fyrir að hvaða marki hennar kunni að verða aflað. Liggi heimild ekki fyrir gildir meginregla reglugerðarinnar um 55 dB(A) viðmiðunarmörk í íbúðarhverfum og á útivistarsvæðum í þéttbýli vegna hávaða frá umferð. Jafnframt kemur þar fram að ráðuneytið telur það ekki á sínu valdsviði að taka afstöðu til slíkrar leyfisveitingar í úrskurði um mat á umhverfisáhrifum. Eins og gögn þessa máls liggja fyrir verði að leggja til grundvallar við mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar að hljóðstig við Reykjanesbraut verði innan við 55 dB(A) í öllum aðliggjandi íbúðarhverfum og útivistarsvæðum. Ráðuneytið telur því ekki nauðsynlegt að taka afstöðu til þess hvort framangreind hverfi við Reykjanesbraut geti fallið undir fráviksheimild reglugerðar um hávaða.

Hvað varðar leiðbeiningargildi reglugerðarinnar þá segir í lið 2.5. í viðauka hennar að það sé það gildi sem ákjósanlegt sé að uppfylla eða stefna að því að uppfylla sem langtímamarkmið, en leitast skuli við að uppfylla það þar sem þess er nokkur kostur. Viðmiðunargildi er hins vegar það gildi sem verður að uppfylla til að ástandið geti talist viðunandi, sbr. liður 2.4. Ákvæði 2.5. um leiðbeiningagildi er í anda markmiðs reglugerðarinnar um að draga úr eða koma í veg fyrir hávaða. Ráðuneytið telur að viðmiðunargildi reglugerðarinnar sé það gildi sem skylt er að halda nema fengist hafi heimild til fráviks skv. 5. gr. reglugerðarinnar eða undanþága skv. 8. gr. Ráðuneytið telur hins vegar ekki unnt að skylda framkvæmdaraðila til að halda leiðbeiningargildi reglugerðarinnar, þó að leitast skuli við að uppfylla það þar sem þess er nokkur kostur.

3. Hljóðvarnir og samráð við íbúa

Kærendur Eskiholti 3 krefjast þess að framkvæmdaraðila verði gert skylt að leita samráðs og samkomulags við þá um gerð hljóðvarna, að skylt verði að haga gerð þeirra þannig að þær rýri ekki möguleika íbúa á að njóta útsýnis af efri hæð hússins og að framkvæmdaraðila verði gert skylt að láta hljóðmælingar fara fram reglulega fyrir og eftir fyrirhugaða framkvæmd í samráði við íbúa.

Fram kemur í viðbótarskýrslu Hnits hf. um útreikninga á hljóðstigi við Reykjanesbraut að verulegar hljóðvarnir þurfi til að unnt verði að ná 55 dB(A) viðmiðunarmörkum við Reykjanesbraut, miðað við óbreytta hæðarlegu vegar, 50.000 bifreiðar á sólarhring og 80 km/klst umferðarhraða. Hljóðvarnir við Hnoðraholt felast samkvæmt skýrslunni í 980 m langri og 4 m hárri jarðvegsmön og 2 m háum hljóðvegg þar ofan á, staðsett rétt neðan við lóðamörk fasteigna við Eskiholt. Vegagerðin segir í umsögn sinni að leitast verði við að haga mannvirkjum með þeim hætti að sem minnst útsýnisskerðing hljótist af þeim án þess að dregið sé um of úr hljóðvarnargildi þeirra. Við frekari hönnun hljóðvarna af hálfu Vegagerðarinnar hafa hljóðmanir í þessu skyni verið færðar nær veginum. Ljóst er að sjónræn áhrif þessara mótvægisaðgerða verða þó nokkur. Í lögum eða reglugerðum eru ekki sérstök ákvæði um takmörk á sjónrænum áhrifum vegna framkvæmda. Ráðuneytið bendir á að um er að ræða vegalagningu í þéttbýli þar sem nánast allt umhverfi er manngert og ekki unnt að ganga út frá því sem vísu að útsýni haldist ávallt óbreytt. Slíkt er að mati ráðuneytisins fyrst og fremst mál skipulagsyfirvalda. Í úrskurði ráðuneytisins frá 13. maí 2002 vegna mats á umhverfisáhrifum Hallsvegar, var sett það skilyrði að framkvæmdaraðilar hefðu samráð við fulltrúa íbúa við Garðhús og kirkjugarðsyfirvöld um hönnun og útfærslu mótvægisaðgerða og að leitast yrði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst. Ráðuneytið bendir á að þeir sem verða fyrir skerðingu útsýnis eru jafnframt þeir sömu og verið er að vernda gegn hávaða með mótvægisaðgerðum. Telja verður því afar mikilvægt að samráð verði haft við þá íbúa sem málið varðar með svo beinum hætti og leitað verði samkomulags eftir því sem unnt er. Ráðuneytið telur því rétt að samskonar skilyrði verði sett í máli þessu og gert var vegna mats á umhverfisáhrifum Hallsvegar.

Skilyrði: Framkvæmdaraðili hafi samráð við fulltrúa íbúa aðliggjandi íbúðarhverfa um hönnun og útfærslu hljóðvarna og að leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. reglugerðar um hávaða hefur heilbrigðisnefnd eftirlit með framkvæmd reglugerðarinnar undir yfirumsjón Hollustuverndar ríkisins, nú Umhverfisstofnunar. Í 2. mgr. 9. gr. segir jafnframt að heilbrigðisnefnd framkvæmi eða láti framkvæma reglubundnar eftirlitsmælingar á hávaða. Ráðuneytið telur því að hljóðmælingar við Reykjanesbraut og eftirlit með því að uppfyllt séu hljóðstigsmörk reglugerðar um hávaða við veginn sé í höndum viðkomandi heilbrigðisnefndar. Þeirri kröfu kærenda er því hafnað.

4. Áhrif framkvæmdar á verðmæti eigna

Fram kemur í kæru íbúa í Lunda- og Búðahverfi að ef umferðarhávaði hækki til muna á þessu svæði muni fasteignir þeirra falla í verði. Kærendur Eskiholti 3 krefjast þess í sinni kæru að framkvæmdaraðila verði gert skylt að bæta þeim þá verðrýrnun sem kann að verða á húsinu vegna framkvæmdarinnar.

Eins og áður hefur komið fram er markmið laga um mat á umhverfisáhrifum að tryggja að áður en leyfi er veitt fyrir framkvæmd sem kann, vegna staðsetningar, starfsemi sem henni fylgir, eðlis eða umfangs að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif, hafi farið fram mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar. Bótaákvæði eru í vegalögum og skipulags- og byggingarlögum. Að mati ráðuneytisins fellur það utan sviðs laga um mat á umhverfisáhrifum að fjalla um hugsanlegan bótarétt vegna fjárhagstjóns einstaklinga af völdum fyrirhugaðrar framkvæmdar, sbr. úrskurður ráðuneytisins frá 5. júlí 2002, um mat á umhverfisáhrifum Villinganesvirkjunar og frá 14. mars 2003, um mat á umhverfisáhrifum Sultartangalínu 3.

5. Mislæg gatnamót

Kærendur Eskiholti 3 gera þær kröfur að ekki verði fallist á að heimila tvöföldun Reykjanesbrautar nema um leið verði gerð mislæg gatnamót við Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg. Í umsögn Vegagerðarinnar kemur fram að hin fyrirhugaða framkvæmd verði áfangaskipt og ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvenær ráðist verði í einstaka áfanga hennar, en það sé í höndum samgönguyfirvalda að fenginni fjárheimild Alþingis. Í tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2003 sé gert ráð fyrir breikkun Reykjanesbrautar á árunum 2003-2006 en mislæg vegamót verði gerð á árunum 2007-2010. Í matskýrslu er í kafla 2.7. gerð grein fyrir hugsanlegri áfangaskiptingu framkvæmdarinnar, m.a. þeirri sem lýst er í ofangreindri umsögn Vegagerðarinnar. Þar segir að ekki þyki ástæða til að meta sérstaklega framkvæmdir vegna tímabundinna planvegamóta.

Að mati ráðuneytisins ber framkvæmdaraðila að tryggja að hljóðstig fari ekki yfir viðmiðunarmörk á framkvæmdatíma á meðan ekki hefur verið lokið við mislæg gatnamót við Arnarnesveg og Vífilsstaðaveg. Á það ekki einungis við um Reykjanesbrautina sjálfa heldur einnig áhrifasvæði hinna mislægu gatnamóta sem fjallað var um í matskýrslu. Útreikningar á hljóðstigi í viðbótarskýrslu Hnits hf. miðast við hámarksflutningsgetu vegarins en þeirri umferð verður ekki náð fyrr en eftir að mislæg gatnamót hafa verið gerð, gangi áætlanir eftir. Ráðuneytið telur ekki ástæðu til að draga í efa að ráðist verði í gerð mislægra gatnamóta eins og Vegagerðin áætlar og kemur fram í matsskýrslu. Ráðuneytið telur því að ekki beri að taka til greina framangreinda kröfu kærenda.

6. Niðurstaða ráðuneytisins

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins, að staðfesta þá niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 27. nóvember 2002 að fallast á fyrirhugaða tvöföldun Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Álftanesvegi í Garðabæ, eins og henni er lýst í framlögðum gögnum framkvæmdaraðila miðað við þær forsendur að hávaði vegna umferðar á veginum verði ekki meiri en 55 dB(A) í aðliggjandi íbúðarhverfum, með eftirfarandi skilyrðum:

1. Framkvæmdaraðili láti, annars vegar nú þegar á þessu sumri og hins vegar á komandi vetri, í samráði við heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, gera tvennar mælingar á hljóðstigi við Reykjanesbraut með viðurkenndum mæliaðferðum, sbr. liður 3.2.1. í viðauka reglugerðar um hávaða, þannig að unnt verði að meta hugsanleg frávik frá útreikningum á hljóðstigi samkvæmt reiknilíkani og taka mið af þeim við hönnun hljóðvarna.

2. Framkvæmdaraðili hafi samráð við fulltrúa íbúa aðliggjandi íbúðarhverfa um hönnun og útfærslu hljóðvarna og að leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst.

Úrskurðarorð

Úrskurður Skipulagsstofnunar frá 27. nóvember 2002 um mat á umhverfisáhrifum tvöföldunar Reykjanesbrautar frá Fífuhvammsvegi í Kópavogi að Álftanesvegi í Garðabæ, er staðfestur með eftirfarandi skilyrðum miðað við þær forsendur að hávaði vegna umferðar á veginum verði ekki meiri en 55 dB(A) í aðliggjandi íbúðarhverfum:

1. Framkvæmdaraðili láti, annars vegar nú þegar á þessu sumri og hins vegar á komandi vetri, í samráði við heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis, gera tvennar mælingar á hljóðstigi við Reykjanesbraut með viðurkenndum mæliaðferðum, sbr. liður 3.2.1. í viðauka reglugerðar um hávaða, þannig að unnt verði að meta hugsanleg frávik frá útreikningum á hljóðstigi samkvæmt reiknilíkani og taka mið af þeim við hönnun hljóðvarna.

2. Framkvæmdaraðili hafi samráð við fulltrúa íbúa aðliggjandi íbúðarhverfa um hönnun og útfærslu hljóðvarna og að leitast verði við að haga hljóðvörnum með þeim hætti að óæskileg umhverfisáhrif verði sem minnst.

F. h. r.

Magnús Jóhannesson

Sigríður Auður Arnardóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum