Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 173/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

nr. 173/2015

 

Ár 2015, fimmtudaginn 7. maí, er tekið fyrir mál nr. 21/2015; kæra A, dags. 7. janúar 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána sinna þann 19. maí 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og framkvæmd hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð lána kæranda var 1.880.883 kr., en frádráttarliðir námu 1.837.902 kr. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var því 42.981 kr. og var hún birt kæranda 11. nóvember 2014. Ráðstöfun leiðréttingarinnar var síðan birt kæranda 30. desember 2014.

Með kæru, dags. 7. janúar 2015, hefur kærandi kært fjárhæð leiðréttingar, sbr. 9. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í kæru krefst kærandi þess að fyrri niðurfærslur vegna 110% leiðar og sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu, samtals 1.837.902 kr., verði færðar til lækkunar á skuldaleiðréttingunni til jafns hjá skuldara og fyrrverandi eiginmanni hennar, B, með þeim hætti að frádráttur á hendur kæranda verði lækkaður um 918.951 kr. og færður á B. Kærandi segir að hún og fyrrverandi eiginmaður hennar hafi skilið og fasteignalán í dag sé eingöngu á nafni kæranda. Þá telur kærandi að fyrrverandi eiginmaður hennar fái óskerta leiðréttingu að fjárhæð 1.880.883 og ekki sé tekið tillit til fyrri niðurfærsla samkvæmt 110% leiðinni eða sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu hjá honum heldur aðeins hjá henni.

Með bréfi, dags. 9. mars 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá bankanum X um frádráttarlið vegna 110% leiðar. Í svari bankans X, dags. 18. mars 2015, kom fram að þann 1. mars 2011 hefði lán nr. 1 verið lækkað um 1.562.965 kr. Að mati bankans voru upplýsingar sem sendar voru ríkisskattstjóra um frádráttarliði í samræmi við lög nr. 35/2014. Með svarinu fylgdi afrit af umsókn um leiðréttingu fasteignaveðláns í íslenskum krónum, dags. 8. febrúar 2011.

Með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 23. mars 2015, voru gögn sem aflað var frá bankanum X, send kæranda. Þá var kæranda sérstaklega bent á að samkvæmt þeim upplýsingum sem ríkisskattstjóri byggði á hafi hún ekki verið í hjúskap á árinu 2011. Í svari kæranda, dags. 28. mars 2015, kom fram að kærandi hefði verið gift þann 1. mars 2011 þegar afskrift á láni vegna 110% leiðar var framkvæmd. Kærandi greinir frá því að það hafi ekki verið fyrr en á árinu 2012 sem hún og fyrrverandi eiginmaður hennar sóttu endanlega um lögskilnað. Þá ítrekaði kærandi kröfu sína um að frádráttur kæmi til jafns á hana og fyrrverandi eiginmann hennar.

Með bréfi, dags. 31. mars 2015, óskaði úrskurðarnefndin aftur eftir umsögn bankans X í málinu. Á grundvelli upplýsinga frá Þjóðskrá Íslands, um að kærandi hafi verið í hjónabandi þann 1. mars 2011 þegar lán hennar var lækkað samkvæmt 110% leið, var óskað eftir skýringum á því hvers vegna niðurfærslan væri færð alfarið á kæranda en ekki til helminga. Í svari bankans, sem barst samdægurs, kemur fram að upplýsingar um heimilissögu kunni að hafa verið rangar sem hafi leitt til þess að gagnaskilakerfi hafi ekki deilt frádráttarliðum á báða aðila. Þá kemur fram að bankinn hafi brugðist við á þann hátt að skrá niðurfærsluna til helminga á hvort um sig.

Úrskurðarnefndin leitaði umsagnar ríkisskattstjóra þann 31. mars 2015 um hvort embættið teldi frádráttarlið vegna sérstakrar vaxtaniðurgreiðslu vera réttan þar sem kærandi hafi verið í hjúskap til nóvembermánaðar 2011 samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Í svari ríkisskattstjóra kemur fram að einungis hluti kæranda en ekki heildarfjárhæð hjóna í sérstakri vaxtaniðurgreiðslu komi til frádráttar leiðréttingu hennar. Í tilviki kæranda kunni þó að reynast villandi að hlutfall hennar í frádrættinum er skráð 100%. Ríkisskattstjóri bendir á að samkvæmt álagningarseðlum kæranda vegna áranna 2011 og 2012 hefðu henni verið greiddar þær fjárhæðir sem fram koma sem frádráttarliðir við útreikninga leiðréttingar, þ.e. 93.000 kr. árið 2011 og 181.937 kr. árið 2012. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að unnt sé að nálgast álagningarseðla fyrir umrædd ár á vefsíðunni www.skattur.is og því gæti kærandi skoðað upplýsingar um greiðslurnar.

 

II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að fjárhæð leiðréttingar. Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár Íslands var kærandi á tímabili desembermánaðar 2005 til nóvembermánaðar 2011 gift B. Í forsendum ríkisskattstjóra er þó gert ráð fyrir að kærandi hafi verið ein í heimili frá 31. desember 2010. Fjárhæð leiðréttingar fyrrverandi eiginmanns kæranda er ekki til umfjöllunar í máli þessu.

Ljóst er að útreiknuð leiðrétting lána kæranda samkvæmt 7. gr. laga nr. 35/2014 er 1.880.883 kr. Af hálfu kæranda eru ekki gerðar athugasemdir við útreikning ríkisskattstjóra á  leiðréttingu lána og verður hann lagður til grundvallar.

Frá útreiknaðri leiðréttingu dragast frádráttarliðir, sbr. 8. gr. laga nr. 35/2014, samtals að fjárhæð 1.837.902 kr. Þar af ber helst að nefna niðurfærslu samkvæmt 110% leið af láni bankans X, samtals 1.562.965 kr. Nánar tiltekið er um að ræða lækkun skulda samkvæmt c-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Einnig er um að ræða sérstakar vaxtabætur sem kæranda voru ákvarðaðar árið 2011, 93.000 kr., og árið 2012, 181.937 kr. Þar er um að ræða frádrátt, sbr. f-lið 1. mgr. 8. gr. sömu laga.

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014 kemur fram að frádráttur einstaklings samkvæmt 1. mgr. þeirrar greinar taki mið af hjúskapar- eða heimilisstöðu, sbr. 6. mgr. 7. gr. laganna eins og hún var við framkvæmd niðurfellingar.

Í tilviki kæranda hefur því ekki verið mótmælt að lækkun láns bankans X hafi verið framkvæmd þann 1. mars 2011, heldur byggir hún mál sitt á því að hún hafi þá verið í hjúskap. Upplýsingar kæranda eru í samræmi við skráningu Þjóðskrár Íslands. Útreikningur á frádrætti einstaklings tekur mið af hjúskapar- og heimilisstöðu við framkvæmd niðurfellingar. Útreiknuð fjárhæð leiðréttingar kæranda er því ekki í samræmi við framangreind lagafyrirmæli sem um hana gilda. Samkvæmt ákvörðun ríkisskattstjóra er frádráttur 1.562.965 kr., vegna lækkunar skulda samkvæmt samkomulagi lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, dags. 15. janúar 2011, sbr. c-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Með vísan til framangreinds lækkar sá frádráttur um 781.483 kr., sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Ekki er tilefni til að hnekkja ákvörðun ríkisskattstjóra um frádrátt vegna sérstakra vaxtaniðurgreiðslu, sbr. f-lið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 35/2014. Frádráttur frá útreiknaðri leiðréttingu lána er því ákvarðaður samtals 1.056.420 kr.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Leiðréttingarfjárhæð kæranda, að teknu tilliti til frádráttarliða, hækkar um 781.483 kr. og skal vera 824.463 kr.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum