Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20h%C3%BAsam%C3%A1la

Nr. 127/2018 - Álit

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 127/2018

 

Kostnaður vegna sjálfsábyrgðar.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 28. nóvember 2018, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við Húsfélagið að B, hér eftir nefnt gagnaðili.

Gagnaðila var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 80. gr. laga um fjöleignarhús, nr. 26/1994.

Auk álitsbeiðni voru greinargerð gagnaðila, dags. 9. janúar 2019, og athugasemdir álitsbeiðanda, dags. 31. janúar 2019, lagðar fyrir nefndina.

Málið var tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 11. mars 2019.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Um er að ræða fjöleignarhúsið B, alls sjö eignarhluta. Álitsbeiðandi er eigandi íbúðar á þriðju hæð hússins. Ágreiningur er um hvort álitsbeiðanda eða húsfélaginu beri að greiða reikning tryggingafélags vegna sjálfsábyrgðar.

Kærunefnd telur kröfu álitsbeiðanda vera:

Að viðurkennt verði að gagnaðila beri að greiða reikning vegna sjálfsábyrgðar.

Í álitsbeiðni kemur fram að sumarið 2018 hafi fundist leki úr lofti í sameign. Eftir skoðun hafi komið í ljós að lekinn hafi átt uppruna sinn undir baðkari í íbúð álitsbeiðanda. Vatnið hafi runnið þaðan ca. 30-40 cm og niður stokk sem sé hluti af sameign. Tryggingafélag hafi verið látið vita og menn á vegum þess gert við lekann og allt sem að honum hafi komið. Húsfélagið hafi fengið reikning fyrir sjálfsábyrgðinni á húseigendatryggingunni sem álitsbeiðandi hafi verið krafinn um. Á húsfundi hafi sá vilji verið viðraður að fá metið hvor væri réttur greiðandi sjálfsábyrgðarinnar, álitsbeiðandi eða húsfélagið.

Í greinargerð gagnaðila segir að þar sem uppruni lekans hafi verið frá vatnslás undir baðkari í íbúð álitsbeiðanda telji húsfélagið að eigendur íbúðarinnar séu réttmætir greiðendur sjálfsábyrgðar húseigendatryggingarinnar. Nánar tiltekið sé um að ræða húseigendatryggingu sem húsfélagið sé með. Þótt lekinn hafi komið út í sameign hafi uppruni hans verið frá íbúð álitsbeiðanda.

Í athugasemdum álitsbeiðanda segir að lekinn hafi orðið í lokuðu rými undir baðkari í íbúð hans. Ekki sé lokaður veggur milli rýmisins undir baðkarinu og rými stokksins þar sem lagnir upp og niður sameignina liggi. Þess vegna hafi vatnið lekið niður stokkinn og komið út í kjallara en ekki íbúð álitsbeiðanda. Í greinargerðinni gæti orðalagið misskilist sem svo að leki hafi orðið innan rýmis í íbúð hans og því verið sjáanlegur þaðan sem hann hafi ekki verið fyrr en búið hafi verið að brjóta hliðarvegg baðkarsins.

III. Forsendur

Aðila greinir á um hvorum þeirra beri að greiða kostnað vegna sjálfsábyrgðar tryggingafélags vegna tjóns af völdum leka. Ágreiningslaust virðist að vatnstjónið hafi verið að rekja til leka frá vatnslás. Tjónið fellur undir húseigendatryggingu gagnaðila hjá tryggingafélagi, sem var rétt að beina kröfu um greiðslu sjálfsábyrgðar til gagnaðila sem vátryggingartaka.

Ákvæði 51. gr. laga um fjöleignarhús kveður á um að eigandi séreignar sé meðal annars ábyrgur gagnvart öðrum eigendum hússins vegna fjártjóns sem verður á eignum þeirra og stafar af bilun á búnaði séreignar og lögnum þótt eiganda verði ekki um það kennt. Samkvæmt 2. mgr. ákvæðisins nær bótaábyrgðin einnig til afleidds tjóns. Í 52. gr. er fjallað um skaðabótaábyrgð húsfélags. Ákvæði 53. gr. laganna kveður á um að eigendur og húsfélag skulu jafnan, eftir því sem kostur er, kaupa vátryggingu til að mæta ábyrgð og áhættu samkvæmt 51. og 52. gr. laganna. Ljóst er að gagnaðili hefur keypt slíka vátryggingu fyrir húsið, þ.e. fyrir alla séreignarhluta og sameign. Í lögunum er ekki kveðið á um hvernig fara skuli með greiðslu sjálfsábyrgðar slíkrar tryggingar.

Þar sem eigandi ber ábyrgð á tjóni sem verður vegna bilunar á búnaði í séreign, svo sem vatnslási undir baðkari, gagnvart öðrum eigendum hússins, bæði beinu tjóni og afleiddu, telur kærunefnd að álitsbeiðanda beri að bæta öðrum eigendum það fjártjón sem þeir hafi orðið fyrir við það að á gagnaðila féll krafa um sjálfsábyrgð.

 

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar að álitsbeiðanda beri að greiða reikning vegna sjálfsábyrgðar.

 

Reykjavík, 11. mars 2019

 

Auður Björg Jónsdóttir

 

Valtýr Sigurðsson                                           Eyþór Rafn Þórhallsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum