Hoppa yfir valmynd
Endurupptökunefnd

Mál nr. 23/2013

Hinn 31. janúar 2014 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 23/2013:

Beiðni um endurupptöku
hæstaréttarmáls nr. 80/1979

Birgir Guðjónsson

gegn

nefnd samkvæmt 33. gr., 1. mgr. laga nr. 56 27. apríl 1973 um heilbrigðisþjónustu, þeim Ólafi Ólafssyni, Guðmundi Jóhannessyni og Þorvaldi Veigari Guðmundssyni, heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra f.h. heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytisins og til réttargæslu Þórði Harðarsyni og gagnsök


og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

 

I.         Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 27. nóvember 2013 fór Sigmundur Hannesson hrl. þess á leit fyrir hönd Birgis Guðjónssonar að mál nr. 80/1979, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 27. febrúar 1981, yrði endurupptekið. Endurupptökunefnd sendi fyrirspurn til Hæstaréttar Íslands, dags. 6. desember 2013, og barst svar með bréfi dags. 16. desember 2013.

Með vísan til 34. gr. laga um dómstóla nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Þórdís Ingadóttir.

II.        Málsatvik

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 80/1979, sem dæmt var 27. febrúar 1981, var dómkröfum Birgis Guðjónssonar hafnað og gagnáfrýjendur sýknaðir af öllum kröfum hans. Birgir hafði skotið málinu til Hæstaréttar og haft uppi margþætta kröfugerð, þar á meðal kröfu um að röðun stöðunefndar á umsækjendum um stöðu yfirlæknis lyflæknisdeildar Borgarspítalans í Reykjavík yrði dæmd ómerk. Endurupptökubeiðandi var á meðal umsækjenda um stöðuna og var talinn fimmti hæfasti af sex umsækjendum. Hvað varðar þennan kröfulið taldi Hæstiréttur að nefndinni hafi hvorki verið óheimilt að lögum að skipa umsækjendum í röð eftir hæfni né heldur hefði verið sýnt fram á að hún hafi skipað umsækjanda, sem ekki hafi fullnægt lögmæltum skilyrðum til að gegna stöðunni, ofar en áfrýjanda. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóm að þessu leyti.

Að fram kominni beiðni um endurupptöku hæstaréttarmálsins beindi endurupptökunefnd fyrirspurn til Hæstaréttar Íslands, þar sem óskað var eftir upplýsingum um hvort réttinum hefði borist beiðni um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 80/1979. Með bréfi Hæstaréttar dags. 16. desember 2013 var greint frá því að réttinum hefði borist beiðni um endurupptöku á framangreindu máli. Þeirri beiðni hafi verið synjað 15. janúar 1998.

III.      Grundvöllur beiðni

Af beiðni endurupptökubeiðanda má ráða að hann telji skilyrðum laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 vera fullnægt til endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 80/1979 þótt ekki sé vísað til ákvæða laganna. Beiðni endurupptökubeiðanda lýtur einvörðungu að framangreindri dómkröfu um að röðun stöðunefndar á umsækjendum um stöðu yfirlæknis lyflæknisdeildar Borgarspítalans í Reykjavík verði dæmd ómerk.

Málsástæður endurupptökubeiðanda eru að forsendur stöðunefndar fyrir röðun hafi ekki verið ekki réttar. Í fyrsta lagi hafi röðun umsækjenda ekki staðist með tilliti til menntunar og reynslu endurupptökubeiðanda miðað við tvo aðra umsækjendur. Í öðru lagi hafi vísindavinna endurupptökubeiðanda verið gróflega vanmetin og annarra ofmetin. Í þriðja lagi hafi stöðunefnd ýkt verðleika hins útvalda og í síðasta lagi hafi stöðunefnd síðar með sama formanni lofað þá verðleika sem ekki voru taldir skipta máli þegar endurupptökubeiðandi átti í hlut. Endurupptökubeiðandi tekur fram að hann hefur ítrekað reynt að rétta sinn hlut en án árangurs.

V.        Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er leyst úr máli þessu á grundvelli XXVII. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Í 1. mgr. 169. gr. laganna segir að endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla geti leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr. laganna. Samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laganna getur aðili ekki sótt um endurupptöku máls samkvæmt 1. mgr. nema einu sinni. Þá segir í 3. mgr. 169. gr. laganna að ákvæði 1. – 3. mgr. 168. gr. skuli gilda um umsókn um endurupptöku, meðferð umsóknar, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku. Samkvæmt 2. mgr. 168. gr. laganna skal endurupptökunefnd synja þegar í stað um endurupptöku ef beiðni er bersýnilega ekki á rökum reist.

Fyrir liggur að endurupptökubeiðandi hefur áður beðið um að hæstaréttarmál nr. 80/1979 yrði endurupptekið. Hæstiréttur Íslands synjaði þeirri beiðni 15. janúar 1998 eins og áður greinir. Einungis er unnt að sækja um endurupptöku einu sinni, sbr. fyrrgreind skilyrði 2. mgr. 169. gr. laganna. Því skortir lagaskilyrði til að fjalla um endurupptökubeiðni þessa og er henni því hafnað þegar í stað, sbr. 2. mgr. 168. gr. laganna.

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Birgis Guðjónssonar um endurupptöku hæstaréttarmáls nr. 80/1979 sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 27. febrúar 1981 er hafnað.


Ragna Árnadóttir formaður

Björn L. Bergsson

Þórdís Ingadóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum