Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 29/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 6. desember 2019
í máli nr. 29/2019:
Ridango AS
gegn
Strætó bs. og
Fara AS

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 17. nóvember 2019 kærir Ridango AS útboð Strætó bs. nr. 14580 auðkennt „Rafrænt greiðslukerfi fyrir Strætó bs“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála felli úr gildi ákvörðun Strætó bs. (hér eftir vísað til sem varnaraðila) frá 28. október 2019 um að velja tilboð Fara AS í hinu kærða útboði. Þá er þess krafist að varnaraðila verði gert að velja tilboð kæranda. Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi varnaraðila. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Varnaraðili krefst þess að stöðvunarkröfu kæranda verði hafnað, en athugasemdir hans bárust nefndinni 26. nóvember sl. Jafnframt bárust athugasemdir frá Fara AS hinn 5. desember sl. og er þess krafist að stöðvunarkröfunni verði hafnað.

Í júní 2019 auglýsti varnaraðili forval vegna lokaðs útboðs með möguleika á samningaviðræðum vegna innkaupa á rafrænu greiðslukerfi. Forvalinu lauk með tilkynningu varnaraðila 19. ágúst 2019 um þá aðila sem var boðið að taka þátt í innkaupaferlinu og rann frestur til að skila tilboðum út 3. október sama ár. Kærandi var á meðal þeirra fjögurra þátttakenda sem skiluðu tilboði í lokuðu útboði. Varnaraðili fól VSÓ ráðgjöf að fara yfir tilboðin og er minnisblað vegna þessa frá 23. október 2019 á meðal gagna málsins. Þar kemur meðal annars fram að tilboð Fara AS sé lægst að fjárhæð og hafi varnaraðili áskilið sér rétt til að taka því tilboði sem sé fjárhagslega hagstæðast án þess að fara í samningaviðræður, sbr. grein 1.1.3 í útboðsgögnum. Með tölvubréfi Innkaupaskrifstofu Reykjavíkurborgar 28. október 2019 var bjóðendum tilkynnt að stjórn varnaraðila hefði ákveðið að taka tilboði Fara AS. Hinn 8. nóvember 2019 var bjóðendum tilkynnt að tilboð Fara AS hefði verið endanlega samþykkt.

Kærandi byggir að meginstefnu til á því að tilboð Fara AS hafi verið ógilt þar sem það hafi ekki uppfyllt kröfur útboðsgagna, auk þess sem borið hafi að hafna því sem óeðlilega lágu. Af hálfu varnaraðila er vísað til þess að komist hafi á bindandi samningur á milli hans og Fara AS hinn 8. nóvember 2019. Beri þegar af þeirri ástæðu að hafna stöðvunarkröfu kæranda, sbr. 114. gr. laga nr. 120/2016, en jafnframt séu önnur skilyrði fyrir stöðvun ekki uppfyllt.

Niðurstaða

Samkvæmt 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup getur kærunefnd útboðsmála stöðvað innkaupaferli um stundarsakir þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru. Eftir að bindandi samningur samkvæmt lögunum hefur komist á verður hann þó ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt, sbr. 1. mgr. 114. gr. laganna. Eins og rakið hefur verið var ákvörðun um val tilboðs kynnt bjóðendum 28. október 2019 og að loknum biðtíma, sbr. 1. mgr. 86. gr. laganna, var tilboð Fara AS endanlega samþykkt hainn 8. nóvember sama ár. Hefur þannig komist á bindandi samningur samkvæmt 1. mgr. 114. gr. laganna og er þegar af þeirri ástæðu ekki unnt að stöðva samningsgerð. Kröfu kæranda um stöðvun samningsgerðar er því hafnað.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Ridango AS, um stöðvun samningsgerðar vegna útboðs varnaraðila, Strætó bs., auðkennt „Rafrænt greiðslukerfi fyrir Strætó bs“ er hafnað.


Reykjavík, 6. desember 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum