Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A9lags%C3%BEj%C3%B3nusta%20og%20h%C3%BAsn%C3%A6%C3%B0ism%C3%A1l

Nr. 412/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 412/2018

Fimmtudaginn 24. janúar 2019

A

gegn

Hafnarfjarðarbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 20. nóvember 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Hafnarfjarðarbæjar frá 26. október 2018 á umsókn hennar um afturvirka fjárhagsaðstoð.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 24. september 2018, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð frá Hafnarfjarðarbæ og var samþykkt að greiða henni fjárhagsaðstoð frá umsóknardegi. Með símtali 10. október 2018 óskaði kærandi eftir að fá greidda fjárhagsaðstoð frá 1. ágúst 2018 þar sem hún hafi verið tekjulaus frá þeim tíma. Beiðni kæranda var synjað með bréfi fjölskylduþjónustunnar í Hafnarfirði, dags. 25. október 2018, með vísan til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ. Kærandi áfrýjaði niðurstöðunni til fjölskylduráðs Hafnarfjarðar sem tók áfrýjun kæranda fyrir á fundi þann 26. október 2018 og staðfesti synjunina. 

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 20. nóvember 2018. Með bréfi, dags. 22. nóvember 2018, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Hafnarfjarðarbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Hafnarfjarðarbæjar barst með bréfi, dags. 11. desember 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 13. desember 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hún hafi verið tekjulaus frá 1. ágúst 2018 og því sé nauðsynlegt fyrir hana að fá afturvirka framfærslu. Kærandi hafi ekki haft tök á að sækja fyrr um fjárhagsaðstoð þar sem símanum hennar og öllum skilríkjum hafi verið stolið. Hún hafi hvorki getað sótt um fjárhagsaðstoð né bókað fund með félagsráðgjafa þar sem það fari fram á netinu á „Mínum síðum“ og til þess þurfi rafræn skilríki. Kærandi hafi á þessum tíma leigt herbergi og gert ráð fyrir framfærslu frá sveitarfélaginu. Þar sem hún hafi ekki fengið framfærsluna hafi hún misst herbergið og skuldi þriggja mánaða leigu. Kærandi bendir á að hún þurfi nauðsynlega að fá húsnæði fyrir sig og börnin sín og þurfi því á afturvirkri fjárhagsaðstoð að halda.

III. Sjónarmið Hafnarfjarðarbæjar

Í greinargerð Hafnarfjarðarbæjar er greint frá því að kærandi hafi lagt inn umsókn um fjárhagsaðstoð þann 24. september 2018 og fengið greidda fjárhagsaðstoð frá þeim tíma. Þann 10. október 2018 hafi hún sótt um afturvirka fjárhagsaðstoð frá 1. ágúst og borið því við að hún hafi ekki sótt um fyrr þar sem hún hafi verið net- og símalaus og fengið upplýsingar um að aðeins væri hægt að sækja um fjárhagsaðstoð rafrænt. Beiðni kæranda hafi verið synjað með vísan til 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ þar sem hún hafi ekki sýnt fram á að fjárhagsaðstoðin hefði verið henni nauðsynleg á því tímabili.

Hafnarfjarðarbær bendir á að kærandi hafi verið skjólstæðingur fjölskylduþjónustunnar um árabil, hafi áður sótt um fjárhagsaðstoð og átt í ýmiss konar samskiptum við starfsmenn í símaviðtölum og með tölvupósti og hafi því átt að vera fullljóst að þær leiðir væru færar. Einnig ætti kæranda að vera kunnugt um að unnt sé að skilja eftir skilaboð í þjónustuveri Hafnarfjarðarbæjar til félagsráðgjafa með beiðni um að hringja. Það hafi því legið fyrir að kæranda hafi verið fullkunnugt um að hægt væri að komast í samband við ráðgjafa í fjárhagsaðstoðarteymi þrátt fyrir að leiðin í gegnum „Mínar síður“ væri ekki greið. Því hafi beiðni kæranda um afturvirka fjárhagsaðstoð verið synjað.

IV. Niðurstaða

Kærð er synjun Hafnarfjarðarbæjar á umsókn kæranda um afturvirka fjárhagsaðstoð.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr. Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til að meta sjálf, miðað við aðstæður á hverjum stað, hvers konar þjónustu þau vilja veita. Í samræmi við þetta og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri nauðsyn að meginstefnu til lagt í hendur þeirrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, enda byggist það á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að aldrei sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ er samhljóða ákvæði, auk þess sem þar er einnig gert að skilyrði að rökstuddar ástæður verði að réttlæta aðstoð aftur í tímann og verði skilyrðum fjárhagsaðstoðar að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

Af hálfu kæranda hefur komið fram að hún hafi ekki haft tök á að sækja fyrr um fjárhagsaðstoð þar sem símanum hennar og öllum skilríkjum hafi verið stolið. Hún hafi hvorki getað sótt um fjárhagsaðstoð né bókað fund með félagsráðgjafa þar sem það fari fram rafrænt og til þess þurfi rafræn skilríki. Af hálfu Hafnarfjarðarbæjar hefur komið fram að kærandi hafi verið skjólstæðingur fjölskylduþjónustunnar um árabil og því átt að vera fullkunnugt um að hægt væri að komast í samband við ráðgjafa, þrátt fyrir að rafræna leiðin væri ekki fær.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við það mat Hafnarfjarðarbæjar að ekki séu til staðar rökstuddar ástæður sem réttlæti fjárhagsaðstoð aftur í tímann til handa kæranda. Úrskurðarnefndin bendir á að samkvæmt 8. gr. reglna um fjárhagsaðstoð hjá Hafnarfjarðarbæ skal umsókn um fjárhagsaðstoð undirrituð á sérstakt umsóknareyðublað og lögð fram hjá félagsþjónustunni. Samkvæmt því er ekki nauðsynlegt að sækja um fjárhagsaðstoð með rafrænum hætti. Að því virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 7. gr. reglnanna. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.   


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Hafnarfjarðarbæjar, dags. 26. október 2018, um synjun á umsókn A, um afturvirka fjárhagsaðstoð er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 Kári Gunndórsson

 

 

 

                                                                    

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum