Hoppa yfir valmynd

Stykki hf. kærir ákvörðun Fiskistofu að svipta bátinn Fríðu SH-565, (1565) leyfi til grásleppuveiða í eina viku á fiskveiðiárinu 2012/2013.

Stjórnsýslukæra

    Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 17. desember 2012, frá Páli Aðalsteinssyni f.h. Stykkis hf., Reitavegi 3, 340 Stykkishólmi, þar sem kærð er sú ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. nóvember 2012, að svipta bátinn Fríðu SH-565, skipaskrárnúmer 1565 leyfi til grásleppuveiða í eina viku á fiskveiðiárinu 2012/2013 en samkvæmt ákvörðuninni skal leyfissviptingin taka gildi frá og með næsta útgáfudegi veiðileyfis.
    Kæruheimild er í 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum.


Kröfur kæranda

    Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. nóvember 2012, um að svipta bátinn Fríðu SH-565 (1565) leyfi til grásleppuveiða í eina viku á fiskveiðiárinu 2012/2013 en samkvæmt ákvörðuninni skal leyfissviptingin taka gildi frá og með næsta útgáfudegi veiðileyfis.


Málsatvik

    Málsatvikum er lýst í bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 24. október 2012, þar sem kæranda var veittur andmælaréttur áður en hin kærða ákvörðun var tekin en þar er vísað til skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu, dags. 14. júní 2012. Þar segir m.a. að eftirlitsmenn Fiskistofu hafi farið um borð í Fríðu SH-565 (1565) er skipið var að veiðum með grásleppunet þann 29. maí 2012. Þar hafi sést að lambamerki á niðurstöðum hafi verið merkt sitt hvorum bátnum, önnur hliðin merkt Önnu Karin SH-316 (2316) og hin hliðin Fríðu SH-565 (1565). Skipstjóri hafi sagt að það yrði ekki lagfært fyrr en á næstu vertíð. Hinn 31. maí 2012 hafi eftirlitsmenn fengið ábendingu um að net Önnu Karin SH-316 (2316) hafi ekki verið tekin upp og einnig hafi þeim borist upplýsingar um að skipt hafi verið um flögg á baujunum og þær merktar Fríðu SH-565 (1565) en sömu eigendur eru að bátunum. Grásleppuveiðileyfi Fríðu SH-565 (1565) hafi tekið gildi sama dag og leyfi Önnu Karinar SH-316 (2316) rann út eða 31. maí 2012. Einnig er vísað til 11. gr. reglugerðar nr. 165/2012, um hrognkelsaveiðar, en þar kemur fram m.a. að allar niðurstöður skuli, með varanlegri merkingu, vera greinilega merktar umdæmisnúmeri eða skipaskrárnúmeri þess skips sem þær noti. Þá kemur fram í bréfinu að brot gegn framangreindum reglum varði viðurlögum samkvæmt lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands. Það sé mat Fiskistofu að gögn málsins bendi til þess að brotið hafi verið gegn ofangreindum lögum og reglum. Áður en ákvörðun verði tekin um framhald málsins, þ.m.t. hvort Fríða SH-565 (1565) verði svipt veiðileyfi eða áminningu beitt samkvæmt 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, væri kæranda gefinn kostur á að skila skriflegum skýringum eða athugasemdum til Fiskistofu eigi síðar en 8. nóvember 2012.
    Engar athugasemdir bárust frá kæranda vegna framangreinds bréfs.
    Með bréfi Fiskistofu til kæranda, dags. 22. nóvember 2012, tók Fiskistofa ákvörðun um að svipta bátinn Fríðu SH-565 (1565) leyfi til grásleppuveiða í eina viku og skyldi leyfissviptingin koma til framkvæmda á fiskveiðiárinu 2012/2013. Í ákvörðuninni segir m.a.:

"Vísað er til bréfs Fiskistofu dags. 24. október 2012, en þar segir að eftirlitsmaður Fiskistofu hafi farið um borð í Fríðu SH-565 (1565), er skipið var að veiðum með grásleppunet þann 14. júní s.l. Fyrir liggur skýrsla eftirlitsmanns Fiskistofu dags. 20. júní 2012.
Í framangreindu bréfi Fiskistofu var málavöxtum lýst og aðila málsins gefinn kostur á að gera athugasemdir. Engar athugasemdir bárust.
Í skýrslu eftirlitsmanns Fiskistofu kemur m.a. fram að hann hafi verið við eftirlit þann 14. júní 2012 og farið um borð í Fríðu SH 565 (1565). Sást þá að lambamerki á niðurstöðum voru merkt sitt hvorum bátnum, önnur hliðin merkt Önnu Karin SH-316 (2316) og hin hliðin Fríðu SH-565 (1565). Þann 29. maí s.l. höfðu eftirlitsmenn haft afskipti af bátnum Önnu Karin SH-316, þar sem trossur voru merktar bæði þeim báti og Fríðu SH-565. Skipstjóri Fríðu SH-565 [...] sem einnig var skipstjóri á Önnu Karin þann 29. og 31. maí sl. sagðist ekki ætla að laga þetta fyrr en á næstu vertíð.
Í 11. gr. reglugerðar nr. 165/2012 um hrognkelsaveiðar segir m.a. "Allar niðurstöður skulu, með varanlegri merkingu, vera greinilega merktar umdæmisnúmeri eða skipaskrárnúmeri þess skips sem þær notar."
Brot gegn framangreindum reglum varða viðurlögum samkvæmt lögum nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum og lögum nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða með síðari breytingum. [...]
Í 21. gr. laga nr. 79/1997 segir m.a.: "Fiskistofa skal svipta skip leyfi, sem veitt hefur verið skv. 6. eða 7. gr. laga þessara, ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim. Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal veiðileyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár. Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæðí 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu."
Með hliðsjón af framanrituðu hefur Fiskistofa ákveðið að svipta Fríðu SH-565, skipaskrárnúmer 1565, leyfi til grásleppuveiða í eina viku samkvæmt 1. sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997, sem er stysti lögmælti tími veiðileyfissviptingar samkvæmt greininni.
Fríða SH-565, skipaskrárnúmer 1565, fékk sérveiðileyfi til grásleppuveiða útgefið af Fiskistofu þann 25. maí 2012 og gilti leyfið frá 31. maí til og með 19. júlí 2012. Grásleppuveiðitímabilinu er því lokið.
Fríða SH-565, skipaskrárnúmer 1565, er svipt leyfi til grásleppuveiða í eina viku og mun sviptingin taka gildi frá og með næsta útgáfudegi veiðileyfis.
Ákvörðun þessi er kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Skúlagötu 4, 150 Reykjavík, innan eins mánaðar frá því að yður berst ákvörðun þessi, samkvæmt 5. mgr. 21. gr. laga nr. 79/1997 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands með síðari breytingum. Kæra frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunar."


Málsrök með stjórnsýslukæru o.fl.

    Með stjórnsýslukæru, dags. 17. desember 2012, sem barst ráðuneytinu 19. sama mánaðar, kærði Páll Aðalsteinsson f.h. Stykkis hf. framangreinda ákvörðun Fiskistofu til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins.
    Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að Stykki hf. hafi gert út tvo báta til grásleppuveiða á vertíðinni 2012, þ.e. Önnu Karin SH-316 (2316) frá 12.04.2012 til 31.5.2012 og Fríðu SH-565 (1565) frá 31.5.2012 til 19.07.2012. Fyrirtækið hafi gert út báða bátana til grásleppuveiða frá árinu 2009 en ekki á sama tíma, og notað sömu veiðarfæri fyrir báða bátana. Kærandi telji að öllum ætti að vera ljóst hvaða bát þessi veiðarfæri hafi tilheyrt. Það hafi tekið 1 til 2 mánuði að fá afgreidd lambamerki til að merkja niðurstöður. Ef þetta teljist brot á 11. gr. reglugerðar nr. 165/2012 þá telji kærandi það vera minni háttar og sé óskað eftir að hin kærða ákvörðun Fiskistofu verði endurskoðuð.
    Með bréfum, dags. 19. desember 2012 og 26. febrúar 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
    Með bréfi, dags. 28. febrúar 2013, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu um málið. Þar segir m.a. að það sem kemur fram í stjórnsýslukærunni um að kærandi hafi notað sömu veiðarfæri fyrir báða ofangreinda báta sem ekki hafi verið gerðir út á sama tíma sé ekki í samræmi við gögn málsins, m.a. skýrslur eftirlitsmanna Fiskistofu. Afhendingartími á lambamerkjum geti ekki leitt til þess að heimilt sé að fara ekki eftir reglum um merkingu veiðarfæra. Báðir ofangreindir bátar hafi verið gerðir út af sama aðila og um sama skipstjóra hafi verið að ræða á báðum bátum. Þá kemur þar fram að svipting veiðileyfis samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu muni taka gildi frá og með næsta útgáfudegi veiðileyfis til grásleppuveiða. Þar sem veiðitímabil grásleppu sé stutt sé í flestum tilvikum ómögulegt að ljúka málsmeðferð brotamála og beita sviptingu á sama veiðitímabili og brot á sér stað. Það sé því nauðsynlegt að sviptingin taki gildi í byrjun næsta veiðitímabils. Ef ekki væri unnt að láta sviptingu taka gildi í byrjun næsta veiðitímabils væri ekki mögulegt að beita sviptingum gagnvart sérveiðileyfum sem gildi í stuttan tíma í senn. Þar með myndi viðurlagaákvæði 21. gr. laga nr. 79/1997 missa marks að stórum hluta og draga myndi úr þeirri vernd sem lögunum væri ætlað að veita nytjastofnum innan íslenskrar fiskveiðilandhelgi, sbr. m.a. úrskurð ráðuneytisins í máli nr. SLR11100213/0.5.3. Með hliðsjón af framangreindu og afstöðu skipstjóra þyki Fiskistofu rétt að beita útgerð ofangreindra skipa viðurlögum samkvæmt 21. gr. laga nr. 79/1997. Fiskistofa telji þó að komið geti til álita að milda að einhverju leyti þau viðurlög sem ákveðin voru með hinni kærðu ákvörðun.
    Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. nóvember 2012, 2) bréf Fiskistofu, dags. 24. október 2012 o.fl.


Rökstuðningur

    Um veiðar á grásleppu gildir ákvæði 7. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, en í 1. mgr. greinarinnar segir m.a. að grásleppuveiðar skuli vera háðar sérstöku leyfi Fiskistofu og að þeir bátar eigi einir kost á slíku leyfi sem rétt hafi átt til leyfis á grásleppuvertíðinni 1997 samkvæmt reglum þar um. Einnig kemur þar fram að ráðherra skuli í reglugerð kveða nánar á um skipulag grásleppuveiða og veiðitíma, m.a. geti ráðherra ákveðið að leyfin séu bundin við ákveðið svæði og að aðeins hljóti leyfi til veiða á tilteknu svæði skip sem skráð séu á því svæði. Einnig giltu um veiðar á grásleppu á fiskveiðiárinu 2011/2012 ákvæði reglugerðar nr. 165/2012, um hrognkelsaveiðar, með síðari breytingum, sem sett er samkvæmt heimild í lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en þar eru m.a áréttuð framangreind ákvæði. Í 1. gr. reglugerðarinnar kemur fram að allar veiðar á grásleppu í fiskveiðilandhelgi Íslands eru óheimilar nema með sérstöku leyfi Fiskistofu. Í 2. gr. reglugerðarinnar kemur fram að aðeins sé heimilt að veita þeim bátum leyfi til grásleppuveiða, sem rétt áttu til slíkra leyfa á vertíðinni 1997 eða leiða rétt sinn frá þeim bátum, sbr. reglugerð nr. 58/1996, enda hafi þeir leyfi til veiða í atvinnuskyni, sbr. lög nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Í 3. gr. reglugerðarinnar kemur fram að grásleppuveiðileyfi hvers báts skuli gefið út til 50 samfelldra daga og skuli bundið við ákveðið veiðisvæði og veiðitímabil sem tilgreint er í greininni. Í 1. mgr. 9. gr. reglugerðarinnar kemur fram að hverjum bát sé heimilt að hafa tiltekinn fjölda neta í sjó. Þá segir í 1. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar að brot gegn ákvæðum reglugerðarinnar varði refsingu samkvæmt ákvæðum laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, og laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða. Loks segir í 2. mgr. 15. gr. reglugerðarinnar að Fiskistofu sé jafnframt heimilt að svipta báta heimild til veiða á grásleppu eða rauðmaga í tiltekinn tíma vegna brota á reglum um hrognkelsaveiðar, sbr. ákvæði laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu er gert ráð fyrir að báturinn Fríða SH-565 (1565) verði sviptur leyfi til grásleppuveiða og að sviptingin komi til framkvæmda frá og með útgáfudegi næsta leyfis til grásleppuveiða á fiskveiðiárinu 2012/2013.
    Ákvörðun Fiskistofu í máli þessu er byggð á 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, með síðari breytingum, en þar er svohljóðandi ákvæði:

    "Fiskistofa skal svipta skip leyfi, sem veitt hefur verið skv. 6. eða 7. gr. laga þessara, ef útgerð eða áhöfn skips eða aðrir þeir sem í þágu útgerðar starfa hafa brotið gegn ákvæðum laganna eða reglum settum samkvæmt þeim.
    Við fyrsta brot, sem varðar sviptingu veiðileyfis, skal leyfissvipting ekki standa skemur en eina viku og ekki lengur en tólf vikur eftir eðli og umfangi brots. Við ítrekuð brot skal svipting ekki standa skemur en fjórar vikur og ekki lengur en eitt ár.
    Við fyrsta minni háttar brot skal Fiskistofa, þrátt fyrir ákvæði 1. og 2. mgr., veita hlutaðeigandi útgerð skriflega áminningu.
    Áminningar og sviptingar veiðileyfa, sem ákveðnar eru samkvæmt þessari grein, skulu hafa ítrekunaráhrif í tvö ár."
    
        Eins og gerð hefur verið grein fyrir hér að framan eru leyfi til grásleppuveiða gefin út samkvæmt umsóknum leyfishafa og gilda fyrir tiltekið tímabil. Í 3. gr. reglugerðar nr. 165/2012 kemur fram að grásleppuveiðileyfi hvers báts skuli gefið út til 50 samfelldra daga og skuli bundið við ákveðið veiðisvæði og veiðitímabil sem tilgreint er í greininni. Ekki er því um að ræða leyfi sem gilda til lengri tíma.
        Einnig kemur fram í framangreindu ákvæði 21. gr. laga nr. 79/1997 að Fiskistofa skuli svipta skip leyfi, "sem veitt hefur verið skv. 6. eða 7. gr.".
        Leyfi kæranda til grásleppuveiða fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 féll úr gildi þann 19. júlí 2012 samkvæmt framangreindu ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 165/2012. Ekki hafði verið gefið út leyfi til grásleppuveiða til bátsins á fiskveiðiárnu 2012/2013 þegar hin kærða ákvörðun Fiskistofu í máli þessu var tekin þann 22. nóvember 2012.
        Það er mat ráðuneytisins að ekki séu fyrir hendi forsendur eða heimildir til að fella úr gildi leyfi til grásleppuveiða sem ekki hefur verið gefið út en samkvæmt því verður ákvörðun Fiskistofu um það efni ekki byggð á framangreindu ákvæði 21. gr. laga nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands.
    Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það niðurstaða ráðuneytisins að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. nóvember 2012, í máli þessu.
    Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.


Úrskurður

    Ákvörðun Fiskistofu, dags. 22. nóvember 2012, um að svipta bátinn Fríðu SH-565, skipaskrárnúmer 1565, leyfi til grásleppuveiða á fiskveiðiárinu 2012/2013 í eina viku, er felld úr gildi.

Fyrir hönd ráðherr

Ingvi Már Pálsson.
Sigríður Norðmann.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum