Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 2/2013.

 

Miðvikudaginn 8. maí 2013 var á fundi kærunefndar barnaverndarmála tekið fyrir mál nr. 2/2013, A gegn barnaverndarnefnd D. Málið varðar tilkynningu til barnaverndarnefndar undir nafnleynd vegna dætra kæranda, þeirra B og C. Upp var kveðinn svofelldur

 

 

 

Ú R S K U R Ð U R:

 

Með bréfi, dags. 21. febrúar 2013, kærði A, ákvörðun barnaverndarnefndar D frá 24. janúar 2013. Með ákvörðuninni var ákveðið að hafna beiðni um að aflétt yrði nafnleynd vegna barnaverndartilkynningar, sbr. bréf barnaverndarnefndar D, dags. 1. desember 2011, sem varðaði dætur kæranda, þær C, og B.

 

Kærandi krefst þess að nafnleyndinni verði aflétt. Kærandi kærir einnig þá fullyrðingu í bókun barnaverndarnefndar D frá 24. janúar 2013 að ekki liggi fyrir grunur um að tilkynnendur hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi tilkynningum. Loks er það kært að brotinn hafi verið trúnaður gagnvart kæranda.

 

Af hálfu barnaverndarnefndar D er bent á að virða beri ósk tilkynnanda um nafnleynd nema sérstakar ástæður mæli gegn því, sbr. 19. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Mál kæranda hefur þrívegis verið til meðferðar hjá kærunefnd barnaverndarmála og eru númer málanna 15/2011, 18/2012 og 2/2013. Gögn þessara mála eru meðal gagna síðastnefnda málsins sem hér er til meðferðar.

 

I

Málsmeðferð

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, 25. janúar 2012, var staðfest ákvörðun Barnaverndar D frá 1. desember 2011 um að synja beiðni kæranda um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna dætra kæranda. Kærandi fór þess á leit við kærunefnd barnaverndarmála, með bréfi dags. 18. september 2012, að hún endurupptæki úrskurð sinn þar sem sá ágalli hafi verið á ákvörðun Barnaverndar D að hún hafi ekki verið tekin af barnaverndarnefndinni sjálfri, með úrskurði, heldur af einum starfsmanni nefndarinnar. Kærunefnd barnaverndarmála tók málið fyrir að nýju og með úrskurði sínum frá 16. janúar 2013 var málinu vísað til barnaverndarnefndar D til löglegrar meðferðar. Barna­verndar­nefnd D tók málið fyrir að nýju og tók ákvörðun í því 24. janúar 2013. Kærandi skaut þeirri ákvörðun til kærunefndar barnaverndarmála með bréfi, dags. 21. febrúar 2013, og er það sú ákvörðun sem hér er til meðferðar.

 

Kærunefnd barnaverndarmála sendi barnaverndarnefnd D kæruna með bréfi, dags. 28. febrúar 2013, og óskaði eftir greinargerð af þessu tilefni. Svar barnaverndarnefndar D barst kærunefndinni, dags. 15. mars 2013, ásamt frekari gögnum málsins, og var það sent kæranda með bréfi, dags. 20. mars 2013. Kæranda var gefinn kostur á að koma frekari athugasemdum á framfæri fyrir sína hönd, en hún hefur ekki nýtt sér það.

 

Hin kærða bókun er svohljóðandi:

Barnavernd D ber að virða ósk tilkynnenda um nafnleynd nema sérstakar ástæður mæli gegn því sbr. 19. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Tilgangur nafnleyndar tilkynnenda er að tryggja virkni og árangur í barnaverndarstarfi og vegur það sjónarmið þyngst hvað þetta varðar. Jafnframt vísar löggjafinn til þess sjónarmiðs að verði tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd muni það fæla þá frá að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hag barna þó full þörf væri á afskiptum hennar. Í þessu tilviki liggur ekki fyrir grunur um að tilkynnendur hafi vísvitandi komið á framfæri röngum og villandi tilkynningum þannig að ástæða sé til að grípa til refsiákvæða barnaverndarlaga. Þrátt fyrir að ekki sé dregið í efa að það sé A mikilvægt að vita hver tilkynnandi er, þá er það ákvörðun barnaverndarnefndar D að ekki séu fyrir hendi skilyrði til að aflétta megi nafnleynd.“

 

II

Helstu málavextir

 

Kærandi býr ásamt tveimur dætrum sínum, þeim B og C. Fram kemur að mál barna kæranda hafi verið til vinnslu hjá barnaverndarnefnd D með hléum allt frá árinu 2003 þegar fyrsta tilkynning barst um aðbúnað eldri bróður stúlknanna, E, sem fæddur er árið 1993. Margar barnaverndartilkynningar hafa borist síðan vegna dætra kæranda. Nú er kært vegna barnaverndartilkynningar sem varðar stúlkurnar. Enn fremur barst tilkynning frá lögreglu 26. nóvember 2011 og aðrar nafnlausar tilkynningar bárust barnaverndarnefndinni 28. nóvember 2011.

 

Barnaverndarnefnd hóf könnun málsins í nóvember 2011 skv. 5. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Rætt var við kæranda og 30. nóvember s.á. voru send bréf til skóla stúlknanna og Heilsugæslunnar í F þar sem farið var fram á upplýsingar um líðan og aðbúnað stúlknanna. Stúlkurnar gengu báðar í G í F. Í bréfi frá skólanum, dags. 19. desember 2011, vegna B, kemur fram að stúlkan sé hress og glöð og virtist henni líða vel. Hún komi í hreinum fötum í skólann og sé með þau námsgögn sem til sé ætlast. B mæti vel í skólann, hún sinni náminu vel og sé námsleg staða hennar góð. Kennurum og starfsmönnum skólans beri saman um að hegðun B sé mjög góð. Hún komi vel fram við starfsfólk og nemendur skólans. Fram kemur að umsjónarkennari hafi verið í samskiptum við móður stúlkunnar og hafi þau samskipti gengið vel. Móðir hennar hafi mætt á þá fundi sem hún hafi verið boðuð á. Í bréfi yngra stigs G vegna C, móttekið af Félagsþjónustu F 6. janúar 2012, kemur fram að líðan í skóla virðist almennt vera nokkuð góð. Stúlkan virki oftast glöð og kát. Hún sé þó ekki sérlega vel stödd félagslega, sé ekki vinamörg og eigi ekki alltaf samleið með bekkjarsystkinum vegna þroskamunar. Stúlkan sé hrein og hárið vel greitt, fötin hrein og hún sé með góð útiföt. Hún skili heimavinnu og mæti með gögn í skólann. C mæti nokkuð vel og sé stundvís. Námsleg staða sé slakari en jafnaldra en hún sýni jafnar og nokkuð góðar framfarir í náminu. Hún vinni heimavinnu og skili henni. Hegðun stúlkunnar sé góð en hún eigi stundum í erfiðleikum með samskipti við önnur börn. Hún hafi ekki þroska á við jafnaldra og gangi betur í samskiptum við yngri börn.

 

Samskipti við móður stúlkunnar hafi verið með besta móti síðastliðin tvö ár. Þau hafi ekki verið eins átakalítil við upphaf skólagöngu og árin á eftir.

 

Í tveimur bréfum frá Heilsugæslunni H, báðum dagsettum 5. desember 2012, er gerð ítarleg grein fyrir aðkomu heilsugæslunnar að málefnum beggja stúlknanna allt frá ungbarnaeftirliti þar til bréfin voru skrifuð.

 

III

Sjónarmið kæranda

 

Kærandi greinir frá því að tilkynnandi hafi lagt fram ósannar og meiðandi fullyrðingar og hafi það verið gert af annarlegum hvötum og til þess fallnar að vekja upp efasemdir og ótta hjá kæranda og börnum hennar sem af augljósum ástæðum hafi skynjað að ekki hafi allt verið með felldu þegar Barnavernd D hafi hafið og unnið sínu vondu verk. Kærandi heldur því fram að rangfærsla eða bein lygi komi fram í bókun barnaverndarnefndar D þess efnis að „ekki liggur fyrir grunur um að tilkynnendur hafi vísvitandi komið á framfæri röngum eða villandi tilkynningum“. Þarna sé sagt rangt frá enda hafi Barnavernd D í engu bent á atriði sem betur hafi mátt fara í uppeldi og umhirðu barna kæranda. Tilkynningu um lokun málsins hafi kærandi fengið í hendur eftir ítrekaðar beiðnir um að henni yrðu kynnt málalok og hafi tilkynningin borist 14. maí 2012 eða mörgum mánuðum eftir að Barnavernd D hafi hafið könnun sína á börnunum, skólagöngu þeirra og heilsufari, kæranda og heimilishögum og hafi engin ásökun eða aðfinnsla verið í þeirri lokaniðurstöðu, aðeins að málinu væri lokið.

 

Trúnaðarbrot, gert kæranda til lítillækkunar, hafi augljóslega verið framkvæmt án nokkurs tilefnis og án vitundar hennar þegar Barnavernd D lét fengnar upplýsingar er varði börn hennar í hendur þriðja aðila, þ.e. málið virðist hafa verið sérstaklega kynnt stuðningsfulltrúa hennar sem eigi engan rétt á því enda um utanaðkomandi aðila að ræða sem í engu komi nálægt daglegum rekstri heimilis kæranda og barna hennar. Kærandi tekur fram að þessa vitneskju hafi hún frá lestri af úttekt Barnaverndarstofu á verkum Barnaverndar D. Þá tekur kærandi fram að hún hafi engar upplýsingar um úttekt Barnaverndar D á börnum hennar eða öðrum þáttum könnunar Barnaverndar D.

 

 

IV

Sjónarmið barnaverndarnefndar D

 

Af hálfu barnaverndarnefndar D kemur fram að ákvörðun um að hefja könnun máls sé ávallt tekin með hagsmuni barns í huga. Mál barna kæranda hafi verið í vinnslu hjá barnaverndarnefnd D með hléum allt frá árinu 2003 vegna eldri bróður stúlknanna sem fæddur er 1993. Í ljósi þeirrar reynslu og þekkingar sem Barnavernd D hafi af heimilisaðstæðum kæranda hafi verið talin ástæða til þess að hefja könnun máls skv. 5. mgr. 21. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Í máli þessu hafi Barnavernd D metið það svo að engar sérstakar ástæður mæli með því að nafnleynd verði aflétt. Í 19. gr. barnaverndarlaganna sé farin sú leið að byggja á nafnleynd tilkynnanda sem aðalreglu. Það byggist á því að sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi vegi þyngst þeirra sjónarmiða sem upp eru talin í frumvarpi til barnaverndarlaga. Nauðsynlegt sé að upplýsingar um aðbúnað barna berist greiðlega til barna­verndarnefndar. Sé tilkynnendum ekki tryggð nafnleynd mundi það fæla þá frá að tilkynna. Afleiðingin yrði sú að barnaverndarnefnd fengi ekki upplýsingar um hagi barna þótt full þörf væri á afskiptum hennar. Ákvæði núgildandi laga og frumvarpsins um nafnleynd endurspegli sérstöðu barnaverndarmála innan stjórnsýslunnar, að börn séu ekki talin þess umkomin að gæta hagsmuna sinna sjálf með því að snúa sér til barnaverndaryfirvalda.

 

Tekið er fram að barnaverndarnefnd D hafi ekki ástæðu til að ætla að tilkynnendur hafi vísvitandi ætlað að koma á framfæri rangri eða villandi tilkynningu og sé því ekki ástæða til að aflétta nafnleyndinni, sbr. 13. gr. reglugerðar um málsmeðferð fyrir barnaverndarnefnd, nr. 56/2004.


 

V

Niðurstaða

 

Í 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, er kveðið á um tilkynningarskyldu almennings. Þar segir að hverjum þeim sem hafi ástæðu til að ætla að barn búi við óviðunandi uppeldisaðstæður, verði fyrir áreitni eða ofbeldi, eða stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu sé skylt að tilkynna það barnaverndarnefnd. Um tilkynningarskyldu þeirra sem sinna börnum vegna stöðu sinnar eða starfa er hins vegar fjallað í 17. og 18. gr. laganna.

 

Í 2. mgr. 19. gr. barnaverndarlaga kemur fram sú meginregla að óski tilkynnandi samkvæmt 16. gr. eftir nafnleynd gagnvart öðrum en barnaverndarnefnd skuli það virt nema sérstakar ástæður mæli gegn því.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið gildir sú meginregla að allir þeir sem beina tilkynningu til barnaverndarnefndar njóta nafnleyndar, ef eftir því er óskað, nema þeir sem sinna börnum vegna starfa sinna og taldir eru upp í 17. og 18. gr. laganna. Þetta á því við um allan almenning án þess að undanskildir séu þeir sem eru venslaðir eða tengdir barni. Í athugasemdum við 19. gr. í greinargerð sem fylgdi frumvarpi til barnaverndarlaga er því nánar lýst að tvö sjónarmið vegist á varðandi nafnleynd tilkynnanda. Annars vegar kemur til skoðunar sjónarmið um réttláta málsmeðferð, þar sem upplýsingar um hver hafi tilkynnt um ófullnægjandi aðbúnað barns geti skipt máli svo andmælaréttur þess sem tilkynning beinist að verði virtur. Hins vegar kemur til skoðunar sjónarmiðið um virkni og árangur í barnaverndarstarfi þar sem síður megi gera ráð fyrir að tilkynningar berist ef nafnleynd er ekki virt. Var síðarnefnda sjónarmiðið lagt til grundvallar í núgildandi barnaverndarlögum, þó þannig að unnt er að aflétta nafnleynd tilkynnanda ef sérstakar ástæður mæla gegn því að hún verði virt.

 

Þegar tilkynning berst barnaverndaryfirvöldum um grun um óviðunandi aðstæður barns hvílir sú skylda á barnaverndarnefnd að hefja könnun máls og komast til botns í því hvort sá grunur er á rökum reistur. Könnun í máli því sem hér er til meðferðar hjá Barnavernd D hófst í kjölfar tilkynningar er barst um slæman aðbúnað dætra kæranda. Aflað var upplýsinga um stúlkurnar, líðan þeirra og aðbúnað. Þótt könnun hafi lokið án þess að taka þyrfti ákvörðun um sérstök úrræði samkvæmt barnaverndarlögum verður slíkt ekki talið til marks um það að tilkynningin sem barst barnaverndinni hafi verið byggð á því að tilkynnandi hafi með henni komið á framfæri vísvitandi röngum eða villandi upplýsingum. Þótt brotinn hafi verið trúnaður gagnvart kæranda af hálfu barnaverndar D er þar ekki um kæranlega ákvörðun að ræða og kemur það atriði því ekki til álita við úrlausn á kærunni.

 

Með vísan til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin, um að virkni og árangri í barna­verndarstarfi geti verið stefnt í voða, verði nafnleynd tilkynnanda ekki virt, verður kröfu kæranda um afléttingu nafnleyndar hafnað, enda verður ekki talið þegar litið er til þess sem fram hefur komið í málinu að sérstakar ástæður séu hér fyrir hendi sem mæla gegn því að nafnleynd tilkynnanda verði virt.

 

Hin kærða ákvörðun barnaverndarnefndar D er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

 

Ákvörðun barnaverndarnefndar D frá 24. janúar 2013 þess efnis að synja kröfu A um að aflétta nafnleynd tilkynnanda vegna dætra hennar, þeirra C og B, er staðfest.

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

formaður

 

 

 

Guðfinna Eydal                     Jón R. Kristinsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum