Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Barnaverndarm%C3%A1l

Mál nr. 27/2012.

 

 

Á fundi kærunefndar barnaverndarmála, 10. apríl 2013, var tekið fyrir mál A hjá kærunefnd barnaverndarmála varðandi umgengni við son hans, B, nr. 27/2012.

 

Kveðinn var upp svofelldur

 

Ú R S K U R Ð U R

 

I. Málsmeðferð og kröfugerð

 

Með bréfi, dags. 21. desember 2012, skaut Guðríður Lára Þrastardóttir hdl., fyrir hönd A, úrskurði barnaverndarnefndar C frá 21. nóvember 2012 til kærunefndar barnaverndarmála. Úrskurðurinn varðar umgengni kæranda við son sinn, B. Úrskurðarorð eru svohljóðandi:

 

Barnaverndarnefnd C ákveður að B skuli hafa umgengni við föður sinn, A, laugardaginn 15. desember 2012, laugardaginn 23. mars 2013 og laugardaginn 14. desember 2013. Umgengni skal eiga sér stað hálftíma í senn kl. 12.30 – 13.00, samtímis umgengni föðurins við eldri bróður barnsins, D, sbr. úrskurð barnaverndarnefndar C, dags. 22. febrúar 2012.

Umgengni skal fara fram í húsnæði E nema samkomulag sé um annan stað og skal eiga sér stað undir eftirliti barnaverndarstarfsmanns og að viðstöddu öðru eða báðum fósturforeldrum barnsins. Faðir skal koma til fundar við starfsmann barnaverndarnefndar á Fjölskyldudeild eigi síðar en á hádegi daginn áður, nema samkomulag verði um annað. Hann skal þá láta í té þvagsýni vegna vímuefnaleitar ef þess verður krafist.

Frá og með árinu 2014 verður umgengni á sömu dögum og úrskurður í máli D segir til um og vari jafn lengi. Þá er eins og í máli D heimilt að hnika til umgengnisdegi í samkomulagi aðila, sé það gert með hæfilegum fyrirvara.

Ekki er gert ráð fyrir símtölum við barnið.“

 

Kærandi krefst þess að ákvörðun barnaverndarnefndar C verði felld úr gildi og úrskurðað um ríkari og reglulegri umgengni.

 

Barnaverndarnefnd C vísar til hins kærða úrskurðar varðandi þær málsástæður sem liggja honum að baki auk greinargerðar F, dags. 9. nóvember 2012.

 

Fósturforeldrar B telja ekki ástæðu til þess að breyta hinum kærða úrskurði.

  

II. Helstu málavextir.

 

B og er því eins og hálfs árs gamall. Drengurinn var ófeðraður við fæðingu, en 28. ágúst 2012 var kærandi þessa máls úrskurðaður faðir hans. Móðir B er G. B var ráðstafað í fóstur fljótlega eftir fæðingu til hjónanna H og I og kvað barnaverndarnefnd C upp úrskurð um fóstrið 17. október 2011. Með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 7. desember 2012 var fallist á kröfu barnaverndarnefndar C um að móðir drengsins verði svipt forsjá hans. Í bréfi F, dags. 15. janúar 2012, kemur fram að 18. desember 2012 hafi barnaverndarnefndin gert samning við fósturforeldrana um að fóstra barnið þar til það yrði lögráða.

 

Eldri albróðir drengsins, D, er einnig í fóstri hjá sömu hjónum samkvæmt ákvörðun barnaverndarnefndar. Foreldrar drengsins voru sviptir forsjá hans með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra 26. desember 2011. Dómurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar 27. september 2012.

 

Í hinum kærða úrskurði kemur fram að kærandi hafi gert kröfu um umgengni við barnið með bréfi lögmanns hans 13. september síðastliðinn. Fjallað var um erindið á fundum nefndarinnar og var ákveðið að boða kæranda til fundar, meðal annars til að kanna hvort samningar gætu tekist um umgengnina og til að fá upplýsingar um kæranda og aðstæður hans. Í úrskurðinum er því lýst að kærandi hafi komið á fundinn 31. október sl. og hann hafi ekki viljað ræða efni málsins eða hugsanlegan samning. Hann hafi heldur ekki gefið upplýsingar um aðstæður sínar. Hann var aftur boðaður á fund 7. nóvember sl. en mætti ekki en lögmaður hans mætti og gerði grein fyrir sjónarmiðum kæranda og athugasemdum.

 

Kærandi hefur í mörg ár átt við fíkniefnavanda að stríða, eins og fram kemur í gögnum málsins. Í framangreindum dómi Hæstaréttar frá 27. september 2012 kemur meðal annars fram að gögn hafi verið lögð fram um að kærandi hafi setið í gæsluvarðhaldi frá 25. mars til 13. júní 2012 vegna rannsóknar lögreglu á tíu brotum sem hann hafi verið undir rökstuddum grun um að hafa átt aðild að og fangelsisrefsing lægi við, þar á meðal að hafa ráðist að barnsmóður sinni með hamri og veitt henni áverka, hótað starfsfólki barnaverndarnefndar lífláti, auk fjárkúgunar, vörslu fíkniefna, hlutdeildar í vopnuðu ráni, aksturs undir áhrifum fíkniefna, líkamsárása, hótana og þjófnaðar. Einnig að hann hafi með dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra [...] 2012 verið sakfelldur fyrir umferðar- og fíkniefnalagabrot og dæmdur í tíu mánaða fangelsi, óskilorðsbundið, og bíði afplánunar refsingarinnar.

 

Ekki liggja fyrir upplýsingar um núverandi aðstæður kæranda, svo sem búsetu og heimilishagi og um það hvort hann sé virkur í neyslu vímuefna eða hafi leitað sér aðstoðar vegna vanda síns.

  

III. Sjónarmið kæranda.

 

Kærandi byggir kröfu sína um umgengni við drenginn á 70. og 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002. Hann vísar til þess að þar sé sérstaklega tekið fram að barn í fóstri eigi rétt á umgengni við foreldra og aðra sem því séu nákomnir. Um sé að ræða sjálfstæðan rétt barns sem beri að virða enda í samræmi við mannréttindaákvæði og alþjóðasamninga sem Ísland hafi fullgilt.

 

Þá segi í 2. mgr. 74. gr. laganna að foreldrar eigi rétt til umgengni við barn í fóstri nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt sé að með ráðstöfun þess í fóstur. Samkvæmt ákvæðinu verði bæði skilyrði að vera fyrir hendi svo unnt sé að takmarka umgengni með öllu. Í niðurstöðu úrskurðar barnaverndarnefndar C komi ekki fram að umgengni drengsins við kæranda sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum hans. Engin gögn málsins bendi til þess að drengnum stafi ógn af kæranda en hann hafi aldrei skaðað börn sín.

 

Kærandi bendir á að í athugasemdum við 2. mgr. 74. gr. frumvarps til barnaverndarlaga komi fram að réttur til umgengni við barn sé mjög ríkur þegar um kynforeldra sé að ræða. Barna­verndar­nefnd C hafi úrskurðað að kærandi skuli hafa umgengni við drenginn einu sinni á árinu 2012 en tvisvar á árinu 2013, í hálftíma í senn. Það sé ljóst að umgengni fósturbarns við kynforeldri verði ekki ákveðin minni en hér og megi í raun segja að umgengni kæranda við barnið sé svo lítil að ekki sé um raunverulega umgengni að ræða. Ljóst sé að ómögulegt sé að mynda tilfinningatengsl á hálftíma tvisvar á ári.

 

Kærandi óski þess að úrskurður barnaverndarnefndar C verði ógiltur og að kærunefnd barnaverndarmála úrskurði honum rýmri umgengni við son sinn þar sem gagnkvæmur réttur fósturbarns og kynforeldris sé virtur.

 

 

 IV. Sjónarmið barnaverndarnefndar C

 

Barnaverndarnefnd C bendir á að í hinum kærða úrskurði og í greinargerð F, dags. 9. nóvember 2012, séu raktar þær málsástæður sem liggi til grundvallar hinni kærðu ákvörðun.

 

Fram kemur af hálfu barnaverndarnefndar og er lýst í framangreindri greinargerð að þegar nefndin úrskurðaði um umgengni D við föður sinn 22. febrúar 2012 hafi meðal annars verið litið til aðstæðna föðurins og persónulegra þátta. Hafi það verið álit nefndarinnar að ferill föðurins og aðstæður hafi bent til þess að rúm umgengni barnsins við hann gæti verið andstæð hagsmunum þess. Samkvæmt þeim gögnum sem þá hafi legið fyrir nefndinni hafi maðurinn átt sér sögu um langvarandi neyslu ávana- og fíkniefna auk þess sem ýmsir geðrænir og persónulegir þættir gætu einnig haft áhrif. Þannig segi í skýrslu Ágústu Gunnarsdóttur sálfræðings sem hafi verið kvödd af héraðsdómi til að meta forsjárhæfni kæranda að hann eigi í miklum erfiðleikum með tilfinningastjórnun og einnig að hann viti lítið um þroska barnsins og hafi takmarkaða uppeldisþekkingu. Þá sé í dómi Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem staðfestur hafi verið í Hæstarétti, tekið fram að sálfræðiathuganir á manninum bendi til töluverðra geðrænna erfiðleika, jafnvel persónuleikaröskunar og mælist forsjárhæfni hans talsvert undir meðallagi. Þá megi heita svo að hann sé reynslulaus í foreldrahlutverkinu. Þetta sýni að hæfni mannsins til þess að umgangast ungt barn hafi ekki verið með besta móti fyrr á þessu ári. Að sama brunni beri ýmis atvik sem getið sé um í skýrslum lögreglu af honum og tengist meðferð fíkniefna, hótunum og ofbeldi, meðal annars líkamsárás á barnsmóður hans, fyrr á árinu. Þá hafi hann sjálfur, til dæmis á fundi barnaverndarnefndar 8. febrúar 2012 lýst því yfir að hann noti fíkniefni daglega. Ekkert liggi fyrir um að aðstæður mannsins hafi nú breyst til hins betra hvað þetta varði. Hafi hann meðal annars hafnað því að gefa nefndinni upplýsingar á fundi hennar 31. október 2012 og hafnað boði um að mæta á fund hennar viku síðar.

 

Af framangreindu sé dregin sú ályktun að í þessu máli séu fyrir hendi þær aðstæður að hagsmunir barnsins kunni að krefjast þess að umgengni við kynforeldri verði takmörkuð allverulega svo sem segi í skýringum við 74. gr. gildandi barnaverndarlaga, enda sé það markmið fósturráðstöfunarinnar að barnið aðlagist og tilheyri fósturfjölskyldu sem tekur að sér uppeldi þess.

 

Í greinargerðinni er lagt til að fremur takmörkuð umgengni verði ákvörðuð sem falli í svipaðan farveg og umgengni D, þ.e. á sömu dögum eða samtímis umgengni hans. Þó beri að athuga að fyrst um sinn, meðan barnið er það ungt að það geti ekki haft vitund um stöðu sína og tengsl við kynföður sinn, sé rétt að umgengni verði sjaldnar en þrisvar á ári. Mikilvægt sé að í úrskurði verði ákvæði um að heimilt sé að krefja föðurinn um þvag- eða blóðsýni vegna vímuefnaleitar og að stöðva megi umgengni ef hann reynist vera undir áhrifum. Einnig verði úrskurðað um að umgengni fari fram undir eftirliti og að fósturforeldrum barnsins viðstöddum, a.m.k. fyrstu árin.

 

 

 

V. Sjónarmið fósturforeldra

 

Fósturforeldrar B eru hjónin I og H. Auk B eru þau með eldri bróður hans, D, í varanlegu fóstri. Hjá þeim kemur fram að þeim hafi verið falin umsjá B þegar eftir fæðingu hans. Tilgangur ráðstöfunarinnar hafi fyrst og fremst verið sá að veita honum öruggt og eðlilegt umhverfi til uppvaxtar og þroska, en að undangengnum endurteknum matsgerðum og vitnisburði sérfræðinga vegna kæru kynforeldra, hafi neyðarráðstöfun barnaverndaryfirvalda verið dæmd lögmæt af Héraðsdómi Norðurlands eystra og réttmæt í þágu barnsins. Þeim dómi hafi verið áfrýjað til Hæstaréttar og beðið sé fyrirtöku og niðurstöðu á því dómstigi.

 

Fram kemur af hálfu fósturforeldra að rýmri umgengni sé ekki í samræmi við tilgang fóstursins. Þeir horfi fyrst og fremst til upprunalegs tilgangs fóstursins, ungs aldurs barnsins, forsögu ráðstöfunarinnar og þeirrar staðreyndar að drengurinn þekki ekki aðra fjölskyldu en þá sem hann hafi alist upp hjá frá fæðingu. Þvert á móti telji þeir að slíkt gæti truflað þroskaferil hans og eðlilegan uppvöxt. Þegar hann eldist og öðlist vit, að ekki sé talað um hæfileika til að tjá sig og skilja, myndist forsendur til að upplýsa hann um uppruna sinn, samkvæmt réttindum hans.

 

 

VI. Niðurstaða.

 

Eins og fram kemur í 1. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga á barn í fóstri rétt á umgengni við kynforeldra og kynforeldrar eiga með sama hætti rétt á umgengni við barn sitt skv. 2. mgr. sömu lagagreinar nema umgengni sé bersýnilega andstæð hagsmunum og þörfum barnsins og ósamrýmanleg þeim markmiðum sem stefnt er að með ráðstöfun þess í fóstur. Við mat á því hvað teljist hæfileg umgengni ber meðal annars að líta til þess hversu lengi vistun er ætlað að vara, til aldurs barnsins og þess hvort ástæða sé til að ætla að umgengni geti á einhvern hátt raskað stöðugleika og jafnvægi barnsins.

 

 


 

Í máli þessu er um að ræða eins og hálfs árs gamlan dreng, B, sem barnaverndarnefnd tók í umsjá sína tveggja daga gamlan og ráðstafaði til núverandi fósturforeldra. Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra frá 7. desember 2012 var móðir drengsins svipt forsjá hans að kröfu barnaverndarnefndar. Eins og áður er komið fram var gerður samningur við fósturforeldrana um varanlegt fóstur drengsins hjá þeim.

 

Kærandi hefur átt við langvarandi fíkniefnavanda að etja. Sonur kæranda, sem kærandi krefst að fá rýmri umgengni við en barnaverndarnefndin hefur ákveðið, þekkir ekki föður sinn og hefur aldrei haft samskipti eða reglubundin dagleg tengsl við hann. Drengurinn getur því ekki hafa myndað tilfinningaleg eða stöðug tengsl við hann en slík tengsl eru honum mjög mikilvæg til þess að hann nái þroska og verði heilbrigður einstaklingur.

 

Kærandi hefur ekki upplýst um núverandi aðstæður sínar og hann hefur verið ósamvinnu­þýður í garð barnaverndarnefndar og starfsmanna hennar eins og fram kemur í gögnum málsins.

 

Drengurinn hefur verið í fóstri frá því að hann var nokkurra daga gamall. Hann hefur myndað fjölskyldutengsl við fósturfjölskyldu sína og stefnt er að því að hann verði áfram hjá henni þar til hann verður lögráða.

 

Við ákvörðun á inntaki umgengnisréttar drengsins við föður sinn ber að meta hagsmuni drengsins og þarfir. Telja verður að drengurinn hafi ekki hagsmuni af því að mynda tilfinningatengsl við kæranda.

 

Þegar virtar eru framangreindar aðstæður drengsins og þarfir hans fyrir stöðugleika svo og það sem vitað er um aðstæður kæranda verður að telja að það sé bersýnilega andstætt hagsmunum og þörfum drengsins að umgengni verði ákveðin rýmri en í hinum kærða úrskurði. Einnig verður að telja rýmri umgengi ósamrýmanlega þeim markmiðum sem að er stefnt með fóstrinu.

 

Með vísan til þessa ber að hafna kröfu kæranda um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að ákveðin verði rýmri umgengni kæranda við drenginn en þar er ákveðin. Ber samkvæmt því að staðfesta úrskurðinn með vísan til 1. og 2. mgr. 74. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

 

Úrskurðarorð

 

Hinn kærði úrskurður barnaverndarnefndar C frá 21. nóvember 2012 um umgengni B við kynföður sinn, A, er staðfestur.

 

 

 

Sigríður Ingvarsdóttir,

 formaður

 

 

Guðfinna Eydal                     Jón R. Kristinsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum