Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd útlendingamála

Nr. 446/2018 - Úrskurður

Ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja um að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar á grundvelli c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og endursenda hann til Frakklands er staðfest.

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 25. október 2018 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 446/2018

í stjórnsýslumáli nr. KNU18090022

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 14. september 2018 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fæddur […] og vera ríkisborgari […] (hér eftir nefndur kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. ágúst 2018, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er krafist að hin kærða ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar á grundvelli sérstakra ástæðna, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 20. maí 2018. Þar sem kærandi var með vegabréfsáritun til Frakklands var, þann 29. maí 2018, send beiðni um viðtöku kæranda og umsóknar hans um alþjóðlega vernd til yfirvalda í Frakklandi, sbr. 2. eða 3. mgr. 12. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 604/2013 (hér eftir nefnd Dyflinnarreglugerðin). Þann 28. júní 2018 barst svar frá frönskum yfirvöldum þess efnis að þau samþykktu viðtöku kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar. Útlendingastofnun ákvað þann 29. ágúst 2018 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 4. september 2018 og kærði kærandi ákvörðunina þann 14. september 2018 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 25. september 2018 ásamt fylgigögnum.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar var sú að umsókn kæranda um alþjóðlega vernd yrði ekki tekin til efnismeðferðar hér á landi og hann skyldi fluttur til Frakklands. Flutningur kæranda til Frakklands fæli ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. og 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar aðstæður væru fyrir hendi þannig að ástæða væri til að beita ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi var ekki talinn í sérstaklega viðkvæmri stöðu sem áhrif hefði á mál hans. Var umsókn kæranda um alþjóðlega vernd því synjað um efnismeðferð, sbr. c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi skyldi yfirgefa Ísland og bæri að senda hann til Frakklands.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð sinni vísar kærandi til endurrits af viðtali hans hjá Útlendingastofnun þar sem fram komi lýsing á ástæðum þess að hann hafi flúið frá heimaríki. Þar komi fram lýsing kæranda á þeirri andúð sem fjölskylda eiginkonu hans hafi til hjónabands þeirra […]. Kærandi telji að bræður eiginkonu hans hafi myrt bróður sinn og að þeir hafi veitt kæranda þá áverka sem hann beri enn þann dag í dag. Þá lýsi kærandi því hve stressaður hann sé vegna stöðu sinnar, deilna hans og ofbeldis af hálfu fjölskyldu eiginkonu sinnar og þeirrar staðreyndar að […]. Kærandi geri athugasemdir við að vera sendur aftur til Frakklands enda viti hann um einstaklinga sem sér standi ógn af.

Í greinargerð kæranda er að finna almenna umfjöllun um hæliskerfið í Frakklandi. Í alþjóðlegum skýrslum komi m.a. fram að mikil aukning hafi verið á umsóknum um alþjóðlega vernd þar í landi, að hlutfall neikvæðra niðurstaðna umsókna hafi aukist auk þess sem það taki langan tíma fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd að komast inn í kerfið vegna tafa við skráningu umsókna. Þá fari biðin eftir úrræðum langt yfir veitta fresti. Búsetuúrræði fyrir umsækjendur séu í lamasessi og margir umsækjendur hafist við í hreysum. Sökum álags á kerfinu sé ekki hægt að útvega öllum búsetu sem á þurfi að halda og hafi umsækjendum verið komið fyrir í tímabundnum úrræðum, s.s. miðstöðvum fyrir heimilislausa auk þess sem aðrir þurfi að sofa á götunni.

Kærandi bendir á að opinber aðstoð við umsækjendur um alþjóðlega vernd sé af skornum skammti. Umsækjendur eigi almennt rétt á húsnæði, grunnframfærslu og heilbrigðisþjónustu, en þrátt fyrir það hafi frönsk stjórnvöld ekki getað séð öllum fyrir aðstoðinni. Frönsk stjórnvöld hafi gengið hart fram í því skyni að loka ólöglegum búsetuúrræðum og þekkist þess dæmi að svefnpokar, teppi og aðrar eigur umsækjenda um alþjóðlega vernd séu gerðar upptækar. Kærandi bendi á að franska heilbrigðiskerfið verði aðgengilegt umsækjendum um alþjóðlega vernd eftir skráningu en í reynd geti slík þjónusta verið takmörkunum háð auk þess sem kærandi bendi á annmarka á veittri geðheilbrigðisþjónustu. Þá hafi færst í aukana að umsækjendur um alþjóðlega vernd séu hnepptir í varðhald en frönsk lög geri ekki ráð fyrir varðhaldi nema brottvísun sé yfirvofandi. Þá glími innflytjendur við mismunun í Frakklandi sökum uppruna síns og þá hafi ofbeldi gegn innflytjendum, sérstaklega múslimum, aukist mikið í kjölfar nýlegra hryðjuverkaárása í Frakklandi.

Í greinargerð sinni fjallar kærandi almennt um sérstakar ástæður í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga og vísar í því sambandi til lagaáskilnaðarreglu 2. málsl. 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 sem hann telji að setji stjórnvöldum afar þröngar skorður við setningu stjórnvaldsfyrirmæla vegna meðferðar umsókna um alþjóðlega vernd. Kærandi telji einnig að nýleg reglugerð nr. 276/2018, um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017, brjóti gegn lögmætisreglunni. Þar séu að finna skilyrði vegna sérstakra ástæðna sem ekki hafi stoð í settum lögum og önnur sem beinlínis gangi gegn ákvæðum laga um útlendinga. Í því ljósi telji kærandi að litið skuli framhjá umræddri reglugerð í máli hans. Þá vísar kærandi til lögskýringargagna máli sínu til stuðnings og kveður að stjórnvöld hér á landi hafi við túlkun sína á hugtakinu sérstakar ástæður horft í of ríkum mæli til mannréttindasáttmála Evrópu og notað dómafordæmi alþjóðadómstóla til að skerða réttindi umsækjenda um alþjóðlega vernd. Í ljósi markmiðs laga um útlendinga, sbr. 4. mgr. 2. gr. laganna, um að tryggja beri mannúðlega meðferð stjórnvalda í málefnum útlendinga hér á landi, hafni kærandi því að við mat á sérstökum ástæðum hafi sjónarmið um skilvirkni umsóknarferilsins og mikilvægi samvinnu aðildarríkja Dyflinnarsamstarfsins nokkurt vægi. Þá bendi kærandi á að hvergi í lögskýringargögnum sé að finna kröfur um hátt alvarleikastig erfiðleika, alvarlega mismunun, verulegar og óafturkræfar neikvæðar afleiðingar á andlega eða líkamlega heilsu eða að meðferð sjúkdóms sé aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki. Þessar kröfur hafi enga stoð í lögum og gangi gegn lögmætisreglunni.

Kærandi byggir á því að afar líklegt sé að hann fái synjun á umsókn sinni um alþjóðlega vernd í Frakklandi og verði því sendur aftur til heimaríkis. Kærandi telji að meðferð umsókna einstaklinga frá […]í Frakklandi annars vegar og á Íslandi hins vegar sé ekki sambærileg og geri kærandi athugasemd við að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki verið fjallað um þá málsástæðu. Þá verði að hafa í huga þær slæmu aðstæður sem kærandi muni búa við í Frakklandi við mat á því hvort hann muni eiga erfitt uppdráttar þar. Við það einstaklingsbundna mat sem fara þurfi fram sé mikilvægt að haft sé í huga það mikla ofbeldi og hótanir sem hann hafi búið við í heimaríki og erfiðar fjölskylduaðstæður hans.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í 1. mgr. 36. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt c-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef heimilt sé að krefja annað ríki sem tekur þátt í samstarfi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar um að taka við umsækjanda.

Fyrir liggur í máli þessu að frönsk stjórnvöld hafa samþykkt viðtöku á kæranda á grundvelli 2. mgr. 12. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, en Ísland skuldbatt sig til að fylgja reglugerðinni með samningi Íslands, Noregs og Evrópusambandsins frá 19. janúar 2001, um viðmiðanir og fyrirkomulag við að ákvarða hvaða ríki skuli fara með beiðni um alþjóðlega vernd sem lögð er fram í aðildarríki eða á Íslandi eða í Noregi. Í III. kafla Dyflinnarreglugerðarinnar koma fram viðmið, í ákveðinni forgangsröð, um hvaða ríki skuli bera ábyrgð á umsókn um alþjóðlega vernd. Samþykki Frakklands er byggt á því að kærandi hafi verið með gilda vegabréfsáritun til Frakklands. Eru skilyrði c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga uppfyllt.

Í 2. mgr. 36. gr. kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli þó taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Ef meira en 12 mánuðir hafa liðið frá því að umsókn um alþjóðlega vernd barst fyrst íslenskum stjórnvöldum og tafir á afgreiðslu hennar eru ekki á ábyrgð umsækjanda sjálfs skal taka hana til efnismeðferðar.

Í 32. gr. a-b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017 koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í 32. gr. a kemur m.a. fram að með sérstökum ástæðum sé átt við einstaklingsbundnar ástæður er varða umsækjanda sjálfan, aðrar en þær sem myndu að jafnaði rúmast innan 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Þá er m.a. nefnt í dæmaskyni ef umsækjandi mun eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar, ef umsækjandi af sömu ástæðu getur vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki og ef umsækjandi glímir við mikil og alvarleg veikindi sem meðferð við er aðgengileg hér á landi en ekki í viðtökuríki.

Þá er í 3. mgr. 36. gr. laga um útlendinga tekið fram að ef beiting 1. mgr. myndi leiða til þess að brotið væri gegn 42. gr., t.d. vegna aðstæðna í því landi sem senda á umsækjanda til, skuli taka umsókn til efnismeðferðar. Í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga er kveðið á um að ekki sé heimilt að senda útlending eða ríkisfangslausan útlending til svæðis þar sem hann hefur ástæðu til að óttast ofsóknir, sbr. 37. og 38. gr., eða vegna svipaðra aðstæðna og greinir í flóttamannahugtakinu er í yfirvofandi hættu á að láta lífið eða verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð. Þá segir í 2. mgr. ákvæðisins að 1. mgr. eigi einnig við um sendingu útlendings til svæðis þar sem ekki er tryggt að hann verði ekki sendur áfram til slíks svæðis sem greinir í 1. mgr.

Við mat á því hvort senda eigi umsækjanda um alþjóðlega vernd til ríkis, sem hefur samþykkt að taka við honum á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, ber stjórnvöldum að leggja sjálfstætt mat á hvort aðstæður þar brjóti gegn 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sem kveður á um að enginn maður skuli sæta pyndingum eða ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu hefur verið lagt til grundvallar að sú meðferð, sem einstaklingur eigi von á, verði að ná tilteknu lágmarks alvarleikastigi til þess að falla undir 3. gr. sáttmálans. Við það mat verði að horfa til allra aðstæðna í fyrirliggjandi máli, svo sem lengdar og eðlis meðferðar, andlegra og líkamlegra áhrifa hennar og í einhverjum tilvikum kyns, aldurs og heilsufars viðkomandi. Þá ber stjórnvöldum að leggja mat á hvort málsmeðferð vegna umsókna um alþjóðlega vernd tryggi umsækjendum raunhæfa leið til að ná fram rétti sínum, sbr. 13. gr. sáttmálans. Í samræmi við framkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu skal mat á meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og móttöku og aðbúnaði umsækjenda í viðtökuríki taka mið af einstaklingsbundnum aðstæðum í hverju máli.

Greining á hvort kærandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi […] kvæntur og barnlaus karlmaður sem er almennt við góða andlega og líkamlega heilsu. Þá kemur fram að kærandi glími við stress og höfuðverki vegna þeirra atburða sem hann hafi orðið fyrir í heimaríki.

Það er mat kærunefndar að gögn málsins, þ. á m. framlagðar komunótur og frásögn kæranda, beri ekki með sér að heilsufar kæranda sé svo alvarlegt að hann teljist í sérstaklega viðkvæmri stöðu, sbr. 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga.

Aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður og málsmeðferð í Frakklandi, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:

 • 2017 Country Reports on Human Rights Practices – France (United States Department of State, 20. apríl 2018),
 • 4th quarterly activity report 2016 by Nils Muižnieks, Council of Europe Commissioner for Human Rights (1 October to 31 December 2016) (Council of Europe, 22. febrúar 2017),
 • Amnesty International Report 2017/18 – France (22. febrúar 2018),
 • Annual Report 2017 – Paris (International Committee of the Red Cross (ICRC), 13. júní 2018),
 • Asylum Information Database, Country Report – France (European Council on Refugees and Exiles, 13. febrúar 2018),
 • Dublin II Regulation & Asylum in France – Guide for Asylum Seekers – 2012 (Forum réfugiés, European Refugee Fund, 2012),
 • First Steps for Demanding Asylum (Dom‘Asile, nóvember 2015),
 • Freedom in the World 2018 – France (Freedom House, 28. maí 2018),
 • Guide for Asylum Seekers in France (Ministry of the Interior, General Directorate for Foreign Nationals in France, 1. nóvember 2015),
 • Stjórnarskrá Frakklands (aðgengileg á ensku á vefsíðu stjórnlagaráðs Frakklands, http://www.conseil-constitutionnel.fr/),
 • Universal Periodic Review. National report submitted in accordance with paragraph 5 of the annex to Human Rights Council resolution 16/21 – France (United Nations Human Rights Council, 13. nóvember 2017),
 • Vefsíða innanríkisráðuneytis Frakklands (https://www.police-nationale.interieur.gouv.fr) og
 • World Report 2018 – European Union (Human Rights Watch, 18. janúar 2018).

Í framangreindum gögnum kemur fram að þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd eru sendir til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar fær umsókn þeirra hefðbundna meðferð í hæliskerfi landsins. Umsækjendur geti sótt um alþjóðlega vernd hjá stjórnsýslustofnun (f. Préfecture) eða þar til bærum undirstofnunum. Umsækjendur um alþjóðlega vernd eiga rétt á viðtali hjá sérstakri stofnun (f. Office français de l’immigration et de l’intégration (OFII)) þar sem fram fer greining á því hvort umsækjandi sé í sérstaklega viðkvæmri stöðu eða hafi sérstakar þarfir. Önnur stjórnsýslustofnun, OFPRA (f. Office français de protection des réfugiés et des apatrides), tekur svo efnisákvörðun í málinu. Umsækjendur sem greindir hafa verið í sérstaklega viðkvæmri stöðu af OFII eiga rétt á sérstökum ráðstöfunum varðandi málsmeðferð sína og móttökuaðstæður. Til að mynda eiga þolendur pyndinga eða ofbeldis rétt á sérstökum ráðstöfunum varðandi viðtalið sitt og starfsmenn OFPRA eru sérstaklega þjálfaðir til að vinna með umsækjendum í sérstaklega viðkvæmri stöðu. Jafnframt getur OFPRA forgangsraðað málsmeðferð umsókna frá viðkvæmum einstaklingum. Þá eru læknisfræðileg gögn notuð til stuðnings málsástæðum umsækjenda og gögnin notuð til að sannreyna frásögn umsækjanda.

Umsækjendur sem hafa fengið synjun á umsókn sinni hjá OFPRA geta kært niðurstöðuna til sérstaks stjórnsýsludómstóls (f. Cour nationale du droit d’asile (CNDA)). Kæra til dómstólsins frestar almennt réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar, en dómstóllinn endurskoðar bæði málsástæður og lagarök í hverju máli. Niðurstöðu CNDA er hægt að áfrýja til héraðsdómstóls (f. Conseil d’Etat) þar sem fram fer formleg endurskoðun. Þeim umsækjendum sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd eiga möguleika á því að leggja fram viðbótarumsókn um alþjóðlega vernd. Ef nýjar upplýsingar eða gögn liggja fyrir í máli kæranda geta skilyrði viðbótarumsóknar verið uppfyllt. Þá eiga umsækjendur þess kost að leggja fram beiðni fyrir Mannréttindadómstól Evrópu um bráðabirgðaráðstöfun skv. 39. gr. málsmeðferðarreglna dómstólsins, telji þeir endanlega niðurstöðu um synjun á umsókn um alþjóðlega vernd hafa í för með sér hættu á ofsóknum eða meðferð sem brýtur í bága við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

Umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eiga almennt ekki rétt á lögfræðiaðstoð við að leggja fram umsókn um alþjóðlega vernd. Þegar umsókn hefur verið lögð fram eiga umsækjendur rétt á gistiplássi í móttökumiðstöð en í framangreindum skýrslum kemur fram að umsækjendur um alþjóðlega vernd í Frakklandi eiga möguleika á því að fá annaðhvort húsaskjól í hefðbundnum móttökumiðstöðvum eða í tímabundnum gistiskýlum á vegum stjórnvalda á meðan þeir eru á biðlista eftir plássi í móttökumiðstöð. Þeir sem endursendir eru til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar geta leitað til CAO (f. Centre d’accueil et d’orientation) eða PRAHDA (f. d’accueil et d’hébergement des demandeurs d’asile) móttökumiðstöðvanna. Auk þess standa þeim til boða önnur tímabundin neyðarúrræði á meðan beðið er eftir plássi í móttökumiðstöðvum. Í CAO móttökumiðstöðvunum fá umsækjendur aðstoð félagsráðgjafa í tengslum við umsókn sína um alþjóðlega vernd. Fái þeir ekki pláss í slíkum miðstöðvum geta umsækjendur leitað til frjálsra félagasamtaka sem bjóða meðal annars upp á lögfræðiaðstoð í tengslum við umsóknir um alþjóðlega vernd. Þá mega umsækjendur hafa lögfræðing eða annan fulltrúa frá frjálsum félagasamtökum með sér í viðtölum hjá OFII og OFPRA. Þegar umsækjendur kæra neikvæða niðurstöðu til CNDA stjórnsýsludómstólsins eigi þeir rétt á lögfræðiaðstoð sem í mörgum tilvikum er gjaldfrjáls. Í framangreindum gögnum segir að umsækjendur um alþjóðlega vernd eigi rétt á því að hafa túlk viðstaddan við málsmeðferð þrátt fyrir að það geti verið vandkvæðum bundið að fá túlkaþjónustu þegar um sjaldgæf tungumál er að ræða.

Í fyrrgreindum skýrslum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður og aðbúnað umsækjenda í Frakklandi kemur fram að umsækjendum um alþjóðlega vernd þar í landi er tryggður aðgangur að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu samkvæmt frönskum lögum. Umsækjendur sem sæta hefðbundinni málsmeðferð hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu á grundvelli sjúkratryggingakerfisins þar í landi (f. Protection Universelle Maladie (PUMA)) en þeir þurfa þó að sækja um aðgang að kerfinu. Jafnvel þótt umsækjendur séu ekki komnir með aðgang að sjúkratryggingakerfinu geti þeir engu að síður leitað til opinberra heilsugæslustöðva (f. Permanence d’accès aux soins de santé (PASS)) sem séu til staðar á öllum opinberum spítölum og fengið þar aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu.

Þá benda framangreind gögn jafnframt til þess að löggæsluyfirvöld í Frakklandi veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd aðstoð og vernd gegn einstaklingum sem þeir óttist.

Athugun kærunefndar á aðstæðum umsækjenda um alþjóðlega vernd í Frakklandi hefur ekki leitt í ljós gögn sem gefa tilefni til að líta svo á að aðstæður eða móttökuskilyrði þeirra þar í landi séu þess eðlis að hætta sé á að endursending kæranda þangað brjóti í bága við 1. eða 2. mgr. 42. gr. laga um útlendinga eða 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þá benda öll gögn til þess að kæranda séu tryggð úrræði til að leita réttar síns í Frakklandi bæði fyrir landsrétti og fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, sbr. 13. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Enn fremur er haft til hliðsjónar að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur ekki lagst gegn endursendingu umsækjenda um alþjóðlega vernd til Frakklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda

Áður hefur verið greint frá aðstæðum kæranda. Það er mat kærunefndar, á grundvelli gagna málsins, að aðstæður kæranda teljist ekki til mikilla og alvarlegra veikinda sem meðferð sé aðgengileg við hér á landi en ekki í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þá er það mat nefndarinnar að ekki sé fyrir hendi ástæða í máli kæranda er varðar heilsufar hans sem sé svo einstaklingsbundin og sérstök að ekki verði framhjá henni litið, sbr. 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér um aðstæður í Frakklandi eiga umsækjendur um alþjóðlega vernd rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu samkvæmt frönskum lögum.

Að mati kærunefndar bera gögn málsins ekki með sér að kærandi muni eiga erfitt uppdráttar í viðtökuríki vegna alvarlegrar mismununar eða að kærandi geti af sömu ástæðu vænst þess að staða hans verði verulega síðri en staða almennings í viðtökuríki, sbr. viðmið í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Af framangreindum gögnum um aðstæður í Frakklandi verður ráðið að verði kærandi fyrir mismunun á grundvelli kynþáttar geti hann leitað ásjár franskra yfirvalda vegna þess. Þá hefur kærandi greint frá því að hann óttist um öryggi sitt í Frakklandi og að þar búi vinur bróður eiginkonu sinnar sem honum standi ógn af. Af framangreindum gögnum um aðstæður í Frakklandi verður ráðið að verði kærandi fyrir ofbeldi eða hótunum um ofbeldi þar í landi geti hann leitað ásjár franskra yfirvalda vegna þeirra. Þá ber kærandi m.a. fyrir sig að synjunarhlutfall stjórnvalda í Frakklandi á umsóknum ríkisborgara […] um alþjóðlega vernd sé hátt. Þau gögn sem kærunefnd hefur kynnt sér benda til þess að málsmeðferð franskra yfirvalda sé fullnægjandi og veiti umsækjendum um alþjóðlega vernd viðunandi úrræði til að tryggja að réttur sé ekki á þeim brotinn og að einstaklingsbundið mat verði lagt á aðstæður þeirra. Ekkert bendi til þess að […] umsækjendum sé synjað sjálfkrafa um alþjóðlega vernd í Frakklandi eða þeir endursendir til heimaríkis án þess að leyst sé úr málum þeirra á einstaklingsgrundvelli.

Að teknu tilliti til einstaklingsbundinna aðstæðna kæranda er það mat kærunefndar að ekki séu fyrir hendi sérstakar ástæður sem mæli með því að mál hans verði tekið til efnismeðferðar hér á landi, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Kærandi kvaðst í viðtali hjá Útlendingastofnun þann 25. júlí 2018 ekki hafa sérstök tengsl við Ísland. Þar að auki er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að kærandi hafi slík tengsl við landið að beita beri ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Þá telur kærunefnd ljóst að síðari málsliður 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga eigi ekki við í máli kæranda þar sem ekki eru liðnir 12 mánuðir frá því að kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, en hann lagði fram umsókn sína þann 20. maí 2018.

Gildistaka breytinga á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017

Með reglugerð nr. 276/2018, sem tók gildi 14. mars 2018, voru gerðar breytingar á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Af greinargerð kæranda verður ráðið að hann telji ákvæði reglugerðar nr. 540/2017, sbr. reglugerð nr. 276/2018, ekki eiga sér viðhlítandi stoð í lögum og ganga gegn lögmætisreglunni. Þá telji hann að skilyrði reglugerðarinnar varðandi sérstakar ástæður séu mun þrengri en kveðið sé á um í lögum og úrskurðum kærunefndar.

Tilvitnuð ákvæði reglugerðar nr. 276/2018 eru sett með stoð í 4. mgr. 36. gr. laga um útlendinga þar sem segir að ráðherra hafi heimild til að setja reglugerð um framkvæmd 36. gr. laganna. Löggjafinn hefur því framselt ráðherra vald til að útfæra framangreind ákvæði nánar og ljóst að reglugerðina skortir ekki lagastoð. Eins og að framan greinir hefur kærunefnd lagt einstaklingsbundið mat á umsókn kæranda og komist að niðurstöðu um að synja honum um efnismeðferð með vísan til ákvæða laga um útlendinga eins og þau hafa verið útfærð í reglugerð um útlendinga. Er niðurstaða í málinu byggð á túlkun kærunefndar á framangreindum ákvæðum og sjónarmiðum sem nefndin telur málefnaleg eins og að framan hefur verið lýst. Að mati kærunefndar er því ekki tilefni til frekari umfjöllunar um þessar athugasemdir kæranda.

Frávísun

Kærandi kom hingað til lands þann 20. maí 2018 og sótti um alþjóðlega vernd sama dag. Eins og að framan greinir hefur umsókn hans um alþjóðlega vernd verið synjað um efnismeðferð og hefur hann því ekki tilskilin leyfi til dvalar enda verður að líta á umsókn hans um alþjóðlega vernd sem áform um að dveljast í landinu meira en 90 daga, sbr. til hliðsjónar 3. mgr. 42. gr. reglugerðar um útlendinga. Verður kæranda því vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, sbr. 2. og 5. mgr. 106. gr. laganna, enda hafði hann verið hér á landi í innan við níu mánuði þegar málsmeðferð umsóknar hans hófst hjá Útlendingastofnun.

Kærandi skal fluttur til Frakklands eigi síðar en 6 mánuðum eftir birtingu þessa úrskurðar, sbr. til hliðsjónar 29. gr. Dyflinnarreglugerðarinnar, nema ákveðið verði að fresta réttaráhrifum úrskurðar þessa að kröfu kæranda, sbr. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga.

Samantekt

Í máli þessu hafa frönsk stjórnvöld fallist á að taka við kæranda og umsókn hans um alþjóðlega vernd á grundvelli ákvæða Dyflinnarreglugerðarinnar. Í ljósi alls ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að rétt sé að synja því að taka til efnismeðferðar umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi og senda kæranda til Frakklands með vísan til c-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Ákvörðun Útlendingastofnunar er því staðfest.

Athygli kæranda er vakin á því að skv. 6. mgr. 104. gr. laga um útlendinga frestar málshöfðun fyrir dómstólum til ógildingar á endanlegri ákvörðun um að útlendingur skuli yfirgefa landið ekki framkvæmd hennar. Að kröfu útlendings getur kærunefnd útlendingamála þó ákveðið að fresta réttaráhrifum endanlegrar ákvörðunar sé talin ástæða til þess. Krafa þess efnis skal gerð ekki síðar en sjö dögum frá birtingu endanlegrar ákvörðunar. Skal frestun bundin því skilyrði að útlendingur beri málið undir dómstóla innan fimm daga frá birtingu ákvörðunar um frestun réttaráhrifa úrskurðar og óski eftir að það hljóti flýtimeðferð. Nú er beiðni um flýtimeðferð synjað og skal þá mál höfðað innan sjö daga frá þeirri synjun. Þó getur kærunefnd útlendingamála tekið ákvörðun um að fresta framkvæmd ef sýnt er fram á að verulega breyttar aðstæður hafi skapast frá því að endanleg ákvörðun var tekin.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Árni Helgason Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira