Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 315/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 315/2016

Fimmtudaginn 24. nóvember 2016

A

gegn

Velferðarþjónustu Árnesþings

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. ágúst 2016, kærir B, f.h. A til úrskurðarnefndar velferðarmála, synjun sveitarfélagsins, dags. 10. ágúst 2016, á umsókn hennar um ferðaþjónustu fatlaðra.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 7. ágúst 2016, sótti kærandi um ferðaþjónustu fatlaðra frá Velferðarþjónustu Árnesþings til að sækja vinnu, sértæka þjónustu og stunda tómstundir. Með bréfi Velferðarþjónustunnar, dags. 10. ágúst 2016, var umsókn kæranda synjað á þeirri forsendu að hún gæti nýtt sér almenningssamgöngur.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. ágúst 2016. Með bréfi, dags. 25. ágúst 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð sveitarfélagsins þar sem meðal annars kæmi fram rökstuðningur fyrir hinni kærðu ákvörðun. Greinargerð sveitarfélagsins barst úrskurðarnefndinni þann 30. september 2016 og var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. október 2016. Athugasemdir bárust frá kæranda þann 17. október 2016 og voru þær sendar sveitarfélaginu til kynningar með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 18. október 2016. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Málsástæður kæranda

Í kæru er greint frá því að kærandi sé búsett á C en næsta biðstöð strætisvagns sé í níu kílómetra fjarlægð frá heimili hennar. Kærandi þurfi að ganga þá vegalengd til að nýta almenningssamgöngur þar sem hún hafi hvorki bílpróf né bíl til umráða. Hún þurfi því að öllu leyti að reiða sig á aðstoð til að komast frá heimili sínu. Kærandi tekur fram að hún hafi sótt nám á D og þurfi einnig að sækja alla heilbrigðisþjónustu fjarri heimili sínu. Með því að veita kæranda ekki ferðaþjónustu sé verið að einangra hana algjörlega og koma í veg fyrir að hún geti sótt skóla, tómstundir, heilbrigðisþjónustu og fleira. Kærandi bendir á að sveitarfélagið hafi tekið fram að akstursþjónustu fatlaðra sé ætlað að jafna aðstöðumun fatlaðra og ófatlaðra. Samkvæmt því ætti kærandi að fá ferðaþjónustu þar sem hún sé ekki jafn vel sett og ófatlaðir íbúar sveitarfélagsins.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð sveitarfélagsins kemur fram að kærandi hafi samþykkt að flytja á C árið 2012 til reynslu í eitt ár. Hún vilji ekki búa þar og hafi sótt um húsnæði hjá velferðarþjónustunni frá þeim tíma en ekki fengið úrlausn sinna mála. Það sé því alveg ljóst að kærandi hafi ekki kosið að vera búsett á C heldur sé það eina úrræðið sem velferðarþjónustan hafi getað boðið henni. Það að hún hafi getað gengið á milli staða þar sem öll þjónusta sé í göngufæri og reglulegar almenningssamgöngur sé ekki sambærilegt við að búa á C.

III. Sjónarmið Velferðarþjónustu Árnesþings

Í greinargerð Velferðarþjónustu Árnesþings er greint frá því að kærandi hafi flutt á C haustið 2012 en áður hafi hún búið í sjálfstæðri búsetu á D. Þá hafi hún ekki átt rétt á ferðaþjónustu þar sem hún hafi verið fær um að ganga á milli staða án aðstoðar. Tekið er fram að þegar umsókn um ferðaþjónustu berist sé lagt mat á getu og færni umsækjanda og möguleika til að nýta sér þjónustu almenningssamgangna eða annarra ferðamöguleika. Þrátt fyrir að kærandi eigi rétt á ákveðinni þjónustu samkvæmt lögum um málefni fatlaðs fólks hafi umsókn hennar um ferðaþjónustu verið hafnað þar sem hún sé talin fær um að nýta sér almenningssamgöngur og ferðast með lítilli aðstoð. Við mat á umsókn um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk fari fram fjölþætt mat á því hvort umsækjandi hafi þörf fyrir akstursþjónustu og ef ekki, hvort umsækjandi sé fær um að nýta sér almenningssamgöngur. Sömu sjónarmið liggi að baki afgreiðslu á umsókn hvort sem almenningssamgöngur í heimabyggð umsækjanda séu góðar eða slæmar. Skipti þá engu að umsækjandi búi í dreifbýli, þar sem almenningssamgöngur séu ekki jafn góðar og í þéttbýli. Sú staðreynd að umsækjandi búi í dreifbýli með verra aðgengi að almenningssamgöngum gefi umsækjanda ekki rétt á ferðaþjónustu fatlaðra.

Sveitarfélagið tekur fram að litið sé svo á að það sé val að búa á C með þeim kostum og göllum sem fylgi því að búa þar. Þrátt fyrir að almenningssamgöngur í sveitarfélagi kunni að vera lélegar sé umsækjendum ekki mismunað við ófatlaða einstaklinga í sveitarfélaginu sem ekki geti nýtt sér einkabíla. Í sveitarfélaginu sé til dæmis fjöldi aldraðra og ófatlaðra einstaklinga sem ekki aki bifreið og sé því í sömu stöðu og kærandi varðandi það að þurfa að nýta sér almenningssamgöngur. Það sé val hvers og eins einstaklings að búa í dreifbýli með þeim kostum og göllum sem því fylgi.

IV. Niðurstaða

Í máli þessu er ágreiningur um synjun Velferðarþjónustu Árnesþings á umsókn kæranda um ferðaþjónustu fatlaðra.

Fjallað er um réttindi fatlaðs fólks í lögum nr. 59/1992 um málefni fatlaðs fólks. Markmið laganna er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi. Samkvæmt 7. gr. laganna skal fatlað fólk eiga rétt á allri almennri þjónustu ríkis og sveitarfélaga. Ávallt skuli leitast við að veita fötluðu fólki þjónustu samkvæmt almennum lögum á sviði menntunar og heilbrigðis- og félagsþjónustu. Reynist þjónustuþörf fatlaðs einstaklings meiri en svo að henni verði fullnægt innan almennrar þjónustu skal hann fá þjónustu samkvæmt lögunum. Við framkvæmd laganna skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sbr. 2. mgr. 1. gr. laganna. Í 4. gr. laganna kemur fram að sveitarfélög beri ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk, þar með talið gæðum þjónustunnar sem og kostnaði vegna hennar, samkvæmt lögum þessum nema annað sé tekið fram eða leiði af öðrum lögum.

Í 35. gr. laga um málefni fatlaðs fólks er fjallað um rétt fatlaðra til ferðaþjónustu en þar segir í 1. mgr. að sveitarfélög skuli gefa fötluðu fólki kost á ferðaþjónustu en markmið hennar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningsfarartæki vegna fötlunar kleift að stunda atvinnu og nám og njóta tómstunda. Þá kemur einnig fram í 2. mgr. 35. gr. að fatlað fólk skuli eiga rétt á ferðaþjónustu á vegum sveitarfélaga vegna aksturs á þjónustustofnanir og vegna annarrar sértækrar þjónustu sem því er veitt sérstaklega. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar er sveitarstjórnum heimilt að setja reglur um þjónustuna.

Í 2. gr. reglna Velferðarþjónustu Árnesþings um ferðaþjónustu fyrir fatlað fólk kemur fram að markmið ferðaþjónustunnar sé að gera þeim sem ekki geti nýtt sér almenningssamgöngur kleift að stunda nám, vinnu, hæfingu, sækja heilbrigðisþjónustu og njóta tómstunda. Þá segir að haft sé að leiðarljósi að aðstoða fatlað fólk til fullrar þátttöku í samfélaginu og sjálfstæðs lífs eins og kostur er hverju sinni. Akustursþjónusta sé veitt innan marka lögheimilis-sveitarfélags notandans, auk þess sem hún nái til miðlægra þjónustueininga á D.

Í 3. gr. reglnanna kemur meðal annars fram að ferðaþjónustan sé fyrir þá sem ekki geta nýtt sér almenningssamgöngur vegna fötlunar. Þar segir einnig að heimilt sé að veita undanþágu frá því skilyrði samkvæmt mati starfsfólks velferðarþjónustunnar vegna sérstakra aðstæðna. Í 3. mgr. 4. gr. er tekið fram að ef sótt er um ferðaþjónustu sem ekki falli undir reglurnar skuli umsókn tekin fyrir á teymisfundi velferðarþjónustunnar. Í 4. mgr. 5. gr. reglnanna er kveðið á um að umsóknir þeirra sem búa í dreifbýli skuli teknar fyrir á teymisfundi og metnar út frá þörfum hvers einstaklings. Leitast skuli við að samnýta ferðir eins og kostur er og sýna sveigjanleika með því að semja við einkaaðila.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um ferðaþjónustu með umsókn dagsettri 7. ágúst 2016 og fékk svar við umsókninni með bréfi velferðarþjónustunnar dagsettu 10. ágúst 2016. Gögn málsins bera hvorki með sér að sveitarfélagið hafi tekið umsókn kæranda fyrir á teymisfundi né að lagt hafi verið sérstakt mat á aðstæður hennar, sbr. 4. mgr. 5. gr. framangreindra reglna. Þá verður ekki séð að sveitarfélagið hafi kannað sérstaklega hvort kærandi uppfyllti skilyrði undanþáguákvæðis 3. gr. reglnanna. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggur því fyrir að aðstæður kæranda voru ekki rannsakaðar með fullnægjandi hætti, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga, þannig að hægt væri að taka upplýsta ákvörðun um hvort hún ætti rétt á ferðaþjónustu fatlaðra á grundvelli 35. gr. laga nr. 59/1992, sbr. reglur Velferðarþjónustu Árnesþings um ferðaþjónustu fatlaðra. Hin kærða ákvörðun er því felld úr gildi og málinu vísað aftur til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Velferðarþjónustu Árnesþings, dags. 10. ágúst 2016, um synjun á umsókn A um ferðaþjónustu fatlaðra er felld úr gildi og málinu vísað til sveitarfélagsins til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum