Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 15/2016

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 30. nóvember 2016 í máli nr. 15/2016.
Fasteign: Endurmat vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar í landi Laugavalla, Fljótsdalshéraði, lnr. 223696, fnr. 235-7931, og lóðinni Valþjófsstaður A2 216731, Fljótsdalshreppi, fnr. 231-8082.
Kæruefni: Fasteignamat

Árið 2016, 30. nóvember, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 15/2016 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með erindi, dags. 22. apríl 2016, kærði Landsvirkjun, kt. 420269-1299, ákvörðun Þjóðskrár Íslands um fasteignamat vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar. Kærandi gerir aðallega kröfu um að ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015 um mat vatnsréttinda og annarra réttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar verði í heild sinni felld úr gildi. Verði ekki fallist á fyrrgreinda kröfu kæranda er sú krafa gerð til vara að sá hluti ákvörðunar Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015, sem lítur að endurmati og framkvæmd endurmats vatnsréttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar verði felld úr gildi.

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði með bréfum, dags. 6. maí 2016, eftir umsögn Fljótsdalshrepps og Þjóðskrár Íslands vegna kærunnar, og með bréfi, dags. 20. maí 2016, eftir umsögn Fljótsdalshéraðs. Umbeðnar umsagnir bárust frá Fljótsdalshéraði 1. júní 2016, frá Þjóðskrá Íslands 6. júní 2016 og frá Fljótsdalshreppi, 10. júní 2016. Í umsögnum umræddra aðila var gerð krafa um frávísun málsins.

Fyrrgreindar umsagnir voru sendar kæranda 13. júní 2016 og honum gefinn kostur á að gera við þær athugasemdir. Með bréfum, dags. 4. júlí 2016, bárust frekari athugasemdir af hálfu kæranda. Athugasemdir kæranda voru kynntar Fljótsdalshreppi, Fljótsdalshéraði og Þjóðskrá Íslands. Með bréfi, dags. 2. ágúst 2016, ítrekaði Fljótsdalshreppur kröfur sínar og rökstuðning frá 10. júní 2016 og var athugasemdum kæranda mótmælt í heild sinni. Með tölvubréfi, dags. 10. ágúst 2016, tilkynnti Fljótsdalshérað að ekki væri tilefni til frekari athugasemda en vísaði til umsagnar þess frá 1. júní 2016. Athugasemdir bárust frá Þjóðskrá Íslands 4. október 2016. Umræddar athugasemdir voru kynntar kæranda. Málið var tekið til úrskurðar 16. september 2016.

Málavextir
Með lögum nr. 38/2002 var kæranda veitt heimild til að reisa og reka vatnsaflsvirkjun í Fljótsdal og virkja til þess vatnsföllin Jökulsá á Dal og Jökulsá í Fljótsdal (Kárahnjúka-virkjun). Forsætisráðuneytið gaf út 30. júlí 2002 leyfi til kæranda þar sem honum var heimiluð nýting vatnsréttinda, náma og annarra jarðefna til framkvæmda við Kárahnjúka-virkjun, að svo miklu leyti sem nýtingarlandið teldist þjóðlenda. Leyfið var veitt á grundvelli laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Með samningi, dags. 13. desember 2005, milli kæranda og fulltrúa vatnsréttarhafa í Jökulsá á Dal, Jökulsá í Fljótsdal og Kelduá, framseldu vatnsréttarhafar til kæranda vatnsréttindi fyrrgreinda vatnsfalla, eins og þau hefðu verið látin af hendi hefði komið til eignarnáms þessara réttinda. Ágreiningur um verðmæti réttindanna var lagður fyrir sérstaka matsnefnd. Nefndin kvað upp úrskurð 22. ágúst 2007 um fjárhæð bóta vegna hinna framseldu vatnsréttinda. Nokkrir landeigendur létu reyna á niðurstöðu matsnefndarinnar fyrir dómstólum. Niðurstaða matsnefndarinnar var staðfest með dómi Hæstaréttar Íslands frá 18. október 2012 í máli nr. 233/2011.

Í júní 2008 óskaði Fljótsdalshérað eftir því við Þjóðskrá Íslands, að fyrrgreind vatnsréttindi allra jarða við Jökulsá á Dal yrðu metin fasteignamati óháð stöðu þeirra samkvæmt þinglýsingu. Þjóðskrá Íslands sendi erindi Fljótdalshéraðs til kæranda og gaf honum kost á því að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna málsins. Með bréfi kæranda til Þjóðskrár Íslands í febrúar 2009 lagðist kærandi gegn því að vatnsréttindin yrðu skráð og metin. Með ákvörðun Þjóðskrár Íslands 21. desember 2009 var fallist á kröfu Fljótdalshéraðs um skráningu og mat þeirra vatnsréttinda sem framseld höfðu verið kæranda. Kærandi kærði fyrrgreinda ákvörðun Þjóðskrár Íslands til innanríkisráðuneytisins en með úrskurði ráðuneytisins 10. febrúar 2012 var hin kærða ákvörðun Þjóðskrár Íslands staðfest.

Kærandi höfðaði í desember 2012 mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur til ógildingar á úrskurði innanríkisráðuneytisins frá 10. febrúar 2012. Héraðsdómur féllst á kröfur kæranda og felldi úrskurð ráðuneytisins úr gildi. Málinu var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands og með dómi Hæstaréttar 8. október 2015 var niðurstöðu héraðsdóms snúið við og voru Þjóðskrá Íslands og Fljótdalshéraðs sýknuð af öllum kröfum kæranda í málinu.

Að fengnum fyrrnefndum dómi Hæstaréttar Íslands frá 8. október 2015 í máli nr. 22/2015 tók Þjóðskrá Íslands ákvörðun um að skrá og meta til fasteignamats vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar. Með bréfi Þjóðskrár Íslands til kæranda, dags. 28. desember 2015, var kæranda tilkynnt um skráningu og fasteignamat vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar. Fram kom í fyrrgreindu bréfi Þjóðskrár Íslands að vegna skráningar vatnsréttindanna á Fljótdalshéraði hefði verið stofnuð sérstök lóð úr landi Laugavalla (landnúmer 156919) með landnúmerið 223696 og væru vatnsréttindin skráð sem vatnsorkuréttindi með fastanúmerið 235-7931. Þá kom fram í bréfinu að í ljósi þess að ákvörðun um eignarnám þess lands sem hér um ræðir hefði ekki verið þinglýst yrðu eigendur þeirra jarða sem lóðin væri tekin úr (eigendur Laugavalla) skráðir eigendur fasteignarinnar og tilheyrandi réttinda í fasteignaskrá en kærandi yrði hins vegar skráður sem gjaldandi vegna vatnsorkuréttindanna í álagningaskrá sveitarfélaganna. Varðandi skráningu og mat vatnsréttinda í Fljótsdalshreppi yrðu vatnsorkuréttindin skráð á fastanúmerið 231-8082 á lóðinni Valþjófsstaður lóð A2, landnúmer 216731, sem er í eigu kæranda. Með bréfi Þjóðskrár Íslands fylgdu tilkynningar um fasteignamat, annars vegar tilkynning um nýtt fasteignamat og hins vegar tilkynning um fasteignamat ársins 2016. Í fyrrgreindum tilkynningum kom fram að hægt væri að óska eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni innan 14 daga frá móttöku tilkynningarinnar í samræmi við ákvæði 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá kom einnig fram að hægt væri að fara fram á endurmat en krafa um slíkt skyldi vera skrifleg, studd rökum og nauðsynlegum gögnum.

Með bréfi kæranda til Þjóðskrár Íslands, dags. 8. janúar 2016, óskaði kærandi eftir frekari skýringum og rökstuðningi vegna fyrrgreindrar ákvörðunar Þjóðskrár Íslands um skráningu og mat vatnsréttindanna. Þá áskildi kærandi sér rétt til að koma að frekari athugasemdum að fengnum skýringum og röksemdum Þjóðskrár Íslands. Þjóðskrá Íslands fundaði með fulltrúum kæranda vegna málsins 18. janúar 2016 og í kjölfar þess sendi Þjóðskrá Íslands bréf til kæranda 25. janúar 2016 þar sem nánari skýringar voru gefnar á skráningu og mati vatnsorkuréttindanna. Með bréfum kæranda til Þjóðskrár Íslands, dags. 11. febrúar 2016 og 8. apríl 2016, gerði kærandi þær athugasemdir að skýringar og rökstuðningur Þjóðskrár Íslands væri mjög takmarkaður og engan veginn fullnægjandi. Ítrekaði kærandi beiðni sína um að Þjóðskrá Íslands rökstyddi ákvörðun sína um meðferð og framkvæmd skráningar vatnsréttinda kæranda á Kárahnjúkasvæðinu. Fulltrúar Þjóðskár Íslands og kærenda áttu annan fund vegna málsins 17. febrúar 2016 þar sem frekari skýringar voru gefnar af hálfu Þjóðskrár Íslands. Í áðurnefndu bréfi kæranda til Þjóðskrár Íslands frá 8. apríl 2016 var farið yfir málið í heild sinni og gerð grein fyrir helstu sjónarmiðum og málsástæðum kæranda. Kærandi ítrekaði fyrri beiðni sína um rökstuðning og óskaði jafnframt eftir leiðbeiningum Þjóðskrár Íslands um kæruheimildir og kæruleiðir. Þá óskaði kærandi eftir upplýsingum um hvort Þjóðskrá Íslands liti svo á að með bréfi sínu frá 25. janúar 2016 hefði falist endanlegur rökstuðningur Þjóðskrár Íslands vegna skráningar og mats vatnsréttindanna eða hvort til stæði að gefa frekari rökstuðning. Óskaði kærandi eftir svari frá Þjóðskrá Íslands eigi síðar en 15. apríl 2016 en engin frekari svör bárust frá Þjóðskrá Íslands utan tölvubréfs 19. apríl 2016 þar sem fram kom að unnið væri að svari.

Kærandi vill ekki una framangreindri ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015 og hefur því með bréfi, dags. 22. apríl 2016, kært hana til yfirfasteignamatsnefndar líkt og að framan greinir. 

Sjónarmið kæranda
Kærandi gerir aðallega kröfu um að ákvörðun Þjóðskrár Íslands, dags. 28. desember 2015, um endurmat vatnsréttinda og annarra réttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar verði í heild sinni felld úr gildi. Til vara gerir kærandi kröfu um að sá hluti ákvörðunar Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015, sem lýtur að endurmati og framkvæmd endurmats vatnsréttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar, verði felld úr gildi.

Í kæru sinni til yfirfasteignamatsnefndar rekur kærandi ákvæði 34. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og vísar meðal annars til umfjöllunar um fyrrgreint lagaákvæði í greinargerð með frumvarpi til laga nr. 83/2008 um breytingu á lögum nr. 6/2001, en þar hafi meðal annars komið fram að með ákvæðinu væri verið að lögfesta rétt eigenda til að skjóta öllum ákvörðunum um endurmat fasteignamats til æðra stjórnvalds í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga. Því sé ljóst að eigendur fasteigna hafi rétt til að skjóta öllum ákvörðunum Þjóðskrár Íslands um endurmat fasteigna til æðra stjórnvalds. Kæran varði skiptingu matsfjárhæðar endurmats sem og framkvæmd þess. Að mati kæranda taki kæruheimild 34. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna því ekki aðeins til matsfjárhæðar endurmats. Kæruheimildin nái einnig til annarra þátta endurmats eins og til dæmis breytinga á skráningu í fasteignaskrá. Í þessu tilviki sé skráningin órjúfanlegur þáttur endurmatsins þar sem matsfjárhæðir einstakra eininga eða einda taki mið af slíkri skráningu. Að mati kæranda megi jafnframt færa rök fyrir því að ákvörðun Þjóðskrár Íslands í máli þessu sé endurmat vatnsréttinda sem áður hafi verið metin með einstökum jörðum. 

Kærandi rekur að endurmat á vatnsréttindum Kárahnjúkavirkjunar hafi verið framkvæmt með þeim hætti að niðurstaða Hæstaréttar Íslands í máli nr. 233/2011, um verðmat umræddra vatnsréttinda, hafi verið lögð til grundvallar við ákvörðun á fasteignamatsgrunni þeirra. Kærandi gerir athugasemdir við skráningu Þjóðskrár Íslands að skrá vatnsréttindi kæranda innan Fljótsdalshérað undir nýstofnaða lóð úr landi Laugavalla sem vatnsorkuréttindi með ákveðið fastanúmer sem og vatnsréttindi innan Fljótsdalshrepps á lóðina Valþjófsstað lóð A, sem sé í eigu kæranda. Kærandi telur aðskrá hafi átt viðkomandi vatnsréttindi fyrir hverri jörð eða innan þeirrar þjóðlendu sem þau hafi verið hluti af. 

Kærandi telur að fyrrgreind framkvæmd Þjóðskrár Íslands við endurmatið eigi sér ekki lagastoð. Þjóðskrá Íslands hafi skipt vatnsréttindunum upp í ákveðnum hlutföllum á milli sveitarfélaganna tveggja. Þannig hafi vatnsréttindi innan Fljótsdalshéraðs verið í heild sinni skráð undir nýrri lóð í landi Laugavalla, sem ekki er í eigu kæranda, og hvorki hluti af þeirri lóð né tengd með nokkrum hætti. Þá hafi öll vatnsréttindi innan Fljótsdalshrepps, jafnt innan sem utan þjóðlendna, verið flutt frá viðkomandi jörðum á lóð kæranda í Valþjófsstað. Með vísan til 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna beri að skrá vatnsréttindi sem og öll önnur réttindi tengd fasteignum sem „eind“ í fasteignaskrá fyrir hverri jörð sem réttindin tengjast, óháð eignarhaldi umræddra réttinda, og vísar til skráningar sambærilegra réttinda því til stuðnings.

Með hliðsjón af framangreindu telur kærandi ljóst að framkvæmd endurmats af hálfu Þjóðskrár Íslands sé hvorki lögum samkvæmt, né í samræmi við þær venjur sem þekktar séu við skráningu sambærilegra réttinda.

Þá telur kærandi að sú ákvörðun Þjóðskrár Íslands að skrá og endurmeta vatnsréttindi sem tilheyra þjóðlendu, sem hluta af annarri fasteign, vera ólögmæt, með hliðsjón af ákvæði 2. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta (þjóðlendulög) um réttindi íslenska ríkisins innan þjóðlendna, sem og samningum við íslenska ríkið þar sem kærandi hafi fengið heimild til nýtingar á vatnsréttindum innan þjóðlendunnar í þágu Kárahnjúkavirkjunar. Kærandi sé hins vegar ekki eigandi umræddra réttinda og geti ekki öðlast eignarrétt að þeim samkvæmt þjóðlendulögum, og þar af leiðandi geti Þjóðskrá Íslands ekki einhliða tekið slík réttindi í eigu ríkisins og flutt til með skráningu. Þá taki skipting matsfjárhæða ekki mið af skiptingu réttinda innan þjóðlendu annars vegar og annarra vatnsréttinda hins vegar. Að lokum að íslenska ríkinu hafi ekki verið gefinn kostur á að taka afstöðu til ákvörðunar Þjóðskrár Íslands um að skrá og meta vatnsréttindi í eigu þess.

Kærandi byggir einnig á því að ákvörðun Þjóðskrár Íslands um skráningu og endurmat vatnsréttinda á Kárahnjúkasvæðinu hafi verið í ósamræmi við ákvæði laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna.

Þannig hafi frummat og endurmat sömu réttinda verið tilkynnt sama daginn. Kærandi telur að slík framkvæmd samrýmist ekki ákvæðum V. kafla laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sem fjalli um fasteignamat og framkvæmd þess. Þjóðskrá Íslands hafi borið að tilkynna kæranda um frummat réttindanna og í framhaldinu hafi kærandi átt rétt á því að óska eftir endurmati í samræmi við ákvæði 31. gr. laganna en með málsmeðferð Þjóðskrár Íslands hafi kærandi í raun verið sviptur þeim rétti sem hann hafi til að óska eftir endurmati samkvæmt lögunum. Endurmat réttindanna hafi fyrst átt að fara fram 31. maí 2016, sbr. 32. gr. a. laga um skráningu og mat fasteigna. Þess í stað hafi Þjóðskrá Íslands gefið út frummat og endurmat vatnsréttinda sama daginn og verði ekki séð að slík málsmeðferð eigi sér lagastoð. Að mati kæranda séu verulegir annmarkar á formhlið málsins, sem brjóti bæði gegn ákvæðum laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sem og lögmætis- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, og því beri að fella ákvörðunina úr gildi.

Þá er af hálfu kæranda jafnframt byggt á því að framkvæmd Þjóðskrár Íslands við endurmat vatnsréttindanna fari gegn markmiðum laga nr. 6/2001 og geti skapað hættu á ósamræmi á milli Landskrá fasteigna annars vegar og þinglýsinga hins vegar ef skráning matshluta vatnsréttinda sé ekki skráð undir hverri og einni jörð.

Kærandi bendir jafnframt á að við yfirtöku kæranda á hinum margumræddu vatnsréttindum hafi yfirlýsingum þess efnis verið þinglýst á allar viðkomandi jarðir. Í samræmi við ákvæði laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna telur kærandi að skráning á eignarhaldi vatnsréttindanna eigi að koma fram undir fasteignamati viðkomandi jarða. Ekki sé skýr lagagrundvöllur fyrir því að flytja þessi réttindi af viðkomandi jörðum, þar sem réttindin sannanlega séu, og skrá þau á tvær einstakar lóðir sem réttindin séu ekki hluti af. Slíkt fyrirkomulag sé til þess fallið að draga verulega úr samræmi, öryggi og réttarvernd í viðskiptum með viðkomandi fasteignir þar sem réttindin hafi verið framseld, sbr. dómar Hæstaréttar Íslands í málum nr. 388/2005 og 334/2013.

Til vara gerir kærandi kröfu um að sá hluti ákvörðunar Þjóðskrár Íslands sem snýr að endurmati vatnsréttindanna og framkvæmd endurmatsins verði felld úr gildi. Kærandi vísar varðandi málsástæður og röksemdir fyrir varakröfu til sömu sjónarmiða og fram koma vegna aðalkröfu.

Sjónarmið Þjóðskrár Íslands
Í umsögn Þjóðskrár Íslands, dags. 6. júní 2016, er rakin forsaga málsins sem og helstu ákvæði V. kafla laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna er fjalla um fasteignamat og framkvæmd þess.

Þjóðskrá Íslands bendir á að í tilkynningu til kæranda frá 28. desember 2015 hafi komið fram að skráning og fasteignamat vatnsréttinda og annarra réttinda kæranda sem nýtt væru vegna Kárahnjúkavirkjunar hefðu annars vegar verið skráð á lóð úr landi Laugavalla á Fljótsdalshéraði og hins vegar á lóðina Valþjófsstaður lóð A2 í Fljótsdalshreppi. Um hafi verið að ræða frummat fyrir árið 2015 á grundvelli 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001. Þá hafi einnig fylgt með fyrrgreindri tilkynningu áætlun fasteignamats sömu eigna fyrir árið 2016 byggt á fyrra mati (frummati). Tilkynningar um áætlun fasteignamatsins hafi byggst á 2. mgr. 32. gr. a. sömu laga. Fyrrgreindar tilkynningar hafi ekki falið í sér endurmat í skilningi 31. gr. laga nr. 6/2001 enda hafi krafa þess efnis ekki borist Þjóðskrá Íslands. Þar sem endurmat samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði hafi ekki farið fram lítur Þjóðskrá Íslands svo á að kæran snúi að ákvörðun um frummat vatnsréttinda og annarra réttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar.

Þjóðskrá Íslands kveðst hafa metið vatnsréttindi og önnur réttindi kæranda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar frummati samkvæmt 30. gr. laga nr. 6/2001. Endurmat þessara sömu réttinda samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laganna hefur ekki farið fram. Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um frummat eigna sæta ekki kæru til yfirfasteignamatsnefndar og því beri að vísa kærunni frá yfirfasteignamatsnefnd, sbr. mál yfirfasteignamatsnefndar nr. 14/2015.

Sjónarmið Fljótsdalshéraðs
Í umsögn Fljótsdalshéraðs, dags. 1. júní 2016, kemur fram sú afstaða sveitarfélagsins að vísa beri kærunni frá yfirfasteignamatsnefnd, en ella að hafna beri kröfum kæranda.

Sveitarfélagið telur að í kæru sé byggt á því að frummat vatnsréttinda vegna Kárahnjúkavirkjunar og endurmat sömu réttindanna vegna ársins 2016 hafi farið fram sama dag, sbr. bréf Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015.

Vísar sveitarfélagið til þess að samkvæmt 32. gr. a. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna sé endurmat skráðra fasteigna vegna gildistöku fasteignamats fyrir komandi ár lögbundið. Frestur til athugasemda við slíkt endurmat sé einn mánuður. Ekki verði séð af bréfi kæranda til Þjóðskrár Íslands, dags. 8. janúar 2016, að það hafi falið í sér kröfu um endurmat eða endurskoðun á ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015, heldur hafi kærandi einungis farið fram á rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Í bréfinu er beinlínis áskilinn réttur til að koma að athugasemdum innan lögbundins athugasemdafrests. Það hafi kærandi hins vegar ekki gert og fresturinn því runnið út. Í bréfi kæranda til Fljótsdalshéraðs, dags. 9. febrúar 2016, hafi komið fram með skýrum hætti að kærandi hafi ákveðið að gera ekki athugasemdir við fasteignamat vatnsréttindanna að því er varðaði Fljótsdalshérað.

Sveitarfélagið telur að í ljósi þess að fasteignamat vegna komandi árs skuli jafnan vera tilbúið fyrir 31. maí hvers árs að tilkynning um fasteignamat ársins 2016, hafi í raun verið frummat eignar, sbr. 30. gr. laga um skráningu og mat fasteigna. Frummat verði ekki kært til yfirfasteignamatsnefndar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 14/2015. Að mati sveitarfélagsins verði því ekki séð að málið eigi undir yfirfasteignamatsnefnd þar sem ekkert raunverulegt endurmat hafi farið fram af hálfu Þjóðskrár Íslands.

Þá er jafnframt bent á það af hálfu sveitarfélagsins að kæran feli í aðalatriðum í sér athugasemd við skráningu vatnsréttinda, en ekki við fjárhæð fasteignamats. Málsmeðferð vegna athugasemda við skráningu eigi að fara eftir ákvæðum 21. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, þar sem fjallað sé um rétt eigenda fasteigna og annarra aðila sem telja sig eiga hagsmuna að gæta, varðandi rétta lýsingu á fasteign eða fasteignum. Kærandi hafi ekki lagt mál þetta í þann farveg sem fyrrgreint lagaákvæði kveður á um og því beri einnig að vísa málinu frá yfirfasteignamatsnefnd af þeim sökum.  

Sveitarfélagið bendir á að eftir dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015 hafi Þjóðskrá Íslands borið að skrá og meta vatnsréttindi kæranda samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Eðli málsins samkvæmt geti framkvæmd skráningar og mats vatnsréttinda tekið mið af þeim sérsjónarmiðum að vatnsréttindi séu ekki sjálfstæðar fasteignir, sbr. meðal annars umfjöllun í dómi Hæstaréttar í máli nr. 22/2015. Nýting vatnsréttinda sé hins vegar ætíð háð nýtingu lands. Þetta sé í raun einkenni fasteignarréttinda og megi líkja við ýmis konar sérgreindan nýtingarrétt sem skilin hafi verið frá landi tímabundið eða varanlega. Sveitarfélagið telur að vatnsorkuréttindi kæranda í Jökulsá á Dal sem nýtt séu vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi allt í senn lagaleg, samningsréttarleg og efnisleg tengsl við Laugavelli, eignarnámslóð.

Þá vekur sveitarfélag athygli á ákvæði g-liðar 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, þar sem fram kemur að skrá skuli önnur réttindi tengd fasteignum sem eind tiltekinnar fasteignar. Í reglugerð um fasteignaskráningu nr. 406/1978 með síðari breytingum komi fram að við skráningu á fasteign skuli meðal annars skrá réttindi til nota af öðru landi. Með hliðsjón af því telur sveitarfélagið eðli máls samkvæmt að það feli í sér að eign sem slíkur notkunarréttur hvíli á, sé skráð þannig að gert sé grein fyrir því að réttindi yfir eignum hafi verið undanskilin, svo sem á grunni þinglýstrar yfirlýsingar, kvaðar eða annarra samningsforma. Skráning vatnsorkuréttinda Jökulsár á Dal á eignarnámslóð úr landi Laugavalla sé þannig í beinu samræmi við gildandi reglur um skráningu fasteigna og auk þess haganleg.

Að mati sveitarfélagsins sé skráning vatnsréttindanna rétt bæði að því er varðar þau réttindi sem skilin hafi verið varanlega frá jörðum við Jökulsá á Dal svo og varðandi þau réttindi sem kæranda hafi verið veitt til nýtingar innan þjóðlendna. Ef ástæða væri til að breyta einhverju í skráningu Þjóðskrár Íslands, þá væri það einungis sá þáttur hvort skrá ætti réttindin í einu lagi, eða réttindi eftir upprunalegum náttúrulegum tengslum við jarðir og þjóðlendu.

Sveitarfélagið telur það samræmast við reglur um skráningu og mat fasteigna að gerð sé grein fyrir nýtingarrétti kæranda á vatnsréttindum innan þjóðlendu á eignarnámslóð úr landi Laugavalla. Þjóðlendulög nr. 58/1998 feli ekki í sér neinar sérreglur varðandi skráningu og mat fasteigna og fari því eftir þeim almennu reglum sem gildi við skráningu og mat eigna þegar sérgreindur afnotaréttur er veittur. Dómur Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015 hafi fjallað um matsskyldu vatnsréttinda sem hafi verið skilin frá landi og eðli máls samkvæmt verði ályktað frá dómnum að til staðar sé matsskylda vatnsréttinda í öðrum tilvikum.

Af hálfu sveitarfélagsins er bent á að það sé í samræmi við g-lið 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna og 1. gr. reglugerðar um fasteignaskráningu og fasteignamat, að gerð sé grein fyrir afnotarétti vatnsréttinda samkvæmt afnotaréttarsamningum á fasteign þar sem stíflur í vatnsföllum séu. Með sama hætti beri að skrá og meta sérstaklega sérgreind vatnsorkuréttindi úr þjóðlendu.

Sjónarmið Fljótsdalshrepps
Í umsögn Fljótsdalshrepps, dags. 10. júní 2016, er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá yfirfasteignamatsnefnd en til vara að öllum kröfum kæranda verði hafnað.

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að samkvæmt 34. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna geti hagsmunaaðilar kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Ekki verði hins vegar séð að kæruefni máls þessa varði ákvörðun sem teljist til endurmats í skilningi 32. gr. eða 32. gr. a. laganna enda ekki ágreiningur uppi um matsgrunn eða fasteignamatið sem slíkt. Samkvæmt úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 14/2015 sæta ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um frummat eigna samkvæmt 30. gr. fyrrgreindra laga ekki kæru til yfirfasteignamatsnefndar.

Sveitarfélagið telur ágreining málsins snúast í raun um það hvort Þjóðskrá Íslands hafi fært vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar með réttum hætti í fasteignaskrá en slíkum ágreiningi verði ekki skotið til yfirfasteignamatsnefndar, hvorki á grundvelli 34. gr. laga nr. 6/2001 né annarra lagaákvæða.

Verði ekki fallist á framangreint byggir sveitarfélagið á því að mögulegur kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra barst yfirfasteignamatsnefnd enda verði að miða upphaf kærufrestsins við það tímamark þegar tilkynnt hafi verið um hina kærðu ákvörðun, sbr. 1. mgr. 27. gr. laga nr. 37/1993. Hvorki bréf kæranda frá 8. janúar 2016 né bréf Þjóðskrár Íslands frá 25. janúar 2016 hafi verið lögð fram í málinu og því geti sveitarfélagið ekki lagt mat á það hvort fyrrnefnda bréfið hafi falið í sér beiðni um rökstuðning né hvort það síðarnefnda hafði að geyma rökstuðning, sbr. 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Þá telur sveitarfélagið að ágreiningur málsins snúi fyrst og fremst að tvennu, annars vegar að því hvort að skráning vatnsréttinda innan þjóðlendu sé röng þar sem kærandi fari ekki með eignarhald þeirra og hins vegar að því hvort ólögmætt hafi verið að skrá vatnsréttindi Jökulsár í Fljótsdal og Kelduár í Fljótsdalshreppi sem kærandi nýti við starfrækslu Kárahnjúkavirkjunar í einu lagi sem matshluta á fasteigninni Valþjófsstað lóð A2, fnr. 231-8082. Þessi ágreiningur varðar því ekki endurmat fasteignamats heldur skráningu í fasteignaskrá og á því ekki undir yfirfasteignamatsnefnd.

Hljóti málið hins vegar efnismeðferð þá telur sveitarfélagið rétt að benda á að fullyrðing kæranda fáist ekki staðist að Þjóðskrá Íslands hafi tekið öll vatnsréttindi Kárahnjúkavirkjunar og skipt þeim upp til hægðarauka á milli Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps án þess að sú skipting hafi verið rökstudd eða skýrð sérstaklega. Skipting vatnsréttindanna hafi ráðist af því hvaðan þau stöfuðu og í samræmi við landfræðilega skiptingu þeirra.

Hvað varðar kröfu kæranda að skylt verði að skrá vatnsréttindin sem sérstaka eind í fasteignaskráningu þeirra jarða sem réttindin hafi stafað frá þá bendir sveitarfélagið á að vatnsréttindin hafi verið skilin frá umræddum jörðum og hafi því ekki þau tengsl við þær jarðir sem vísað sé til í 2. mgr. 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Af forsendum dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015 og 4. mgr. 5. gr. reglugerðar um fasteignaskráningu og fasteignamat megi ljóst vera að skrá og meta skuli sérstaklega vatnsréttindi sem ekki fylgi ákveðinni fasteign.

Hvað varði skráningu og mat vatnsréttinda sem tilheyri þjóðlendu liggur fyrir að skráning Þjóðskrár Íslands í fasteignaskrá vegna vatnsorkuréttinda í Fljótsdalshreppi hafi tekið mið af því að á sama hátt væri farið með vatnsréttindi innan og utan þjóðlendna og þar með hvort réttindin hafi verið skilin frá landareign eða ekki. Fljótsdalshreppur telur að nýtingarréttur kæranda á vatnsorkuréttindum innan þjóðlendna sé svo ríkur og ótakmarkaður að í honum felist í reynd einkaeignarréttur kæranda á réttindunum í skilningi 2. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1988.

Ákvörðun Þjóðskrár Íslands geti samkvæmt framansögðu hvorki verið ólögmæt á þeim grundvelli að vatnsréttindi í eigu íslenska ríkisins hafi verið skráð og metin sem hluti af jörð í eigu kæranda né á þeim grundvelli að vatnsorkuréttindi innan þjóðlendna séu undanþegin sköttum og gjöldum sem þjóðlenda í skilningi 7. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1988.

Varðandi þá málsástæðu kæranda að skýran lagagrundvöll skorti fyrir því að umrædd vatnsréttindi hafi verið flutt brott af viðkomandi jörðum, vísar sveitarfélagið til forsendna dóms Hæstaréttar Íslands frá 14. maí 2009 í máli nr. 562/2008, sbr. einnig dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015. Í forsendum fyrrgreinds dóms hafi efni 1. mgr. 16. gr. vatnalaga nr. 15/1923 verið rakið fyrir þá breytingu sem gerð var á ákvæðinu með lögum nr. 132/2011. Þar hafi komið fram að löggjafinn hafi ekki litið svo á að vatnsréttindi sem væru látin af hendi án þess að land fylgdi væru sjálfstæð eign. Þannig yrði skylda til skráningar aðskilinna vatnsréttinda í fasteignaskrá ekki leidd af stöðu þeirra sem sjálfstæðrar fasteignar í skilningi laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Jafnframt komi fram í forsendum áðurnefnds dóms að með hinni sérstöku reglu 1. mgr. 16. gr. vatnalaga sem þá hafi gilt hafi verið ákveðið að vatnsréttindi sem skilin væru frá landareign skyldu engu að síður lúta sömu reglum og fasteignir í stað þess að fara eftir reglum sem gildi um óbein eignarréttindi í fasteign annarra.

Í dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 22/2015 hafi verið lagt til grundvallar að það væri enn vilji löggjafans að vatnsréttindi sem skilin hefðu verið frá landareignum skyldi skrá í fasteignaskrá. Því hafi Hæstiréttur í samræmi við fyrirmæli 1. málsl. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 6/2001 fallist á að skrá skyldi vatnsréttindi kæranda í Jökulsá á Dal í fasteignaskrá. Á grundvelli dómsins hafi Þjóðskrá Íslands síðan tekið ákvörðun um að skrá og meta vatnsréttindi kæranda í Fljótsdalshreppi til fasteignamats.

Á grundvelli framangreindra dóma Hæstaréttar í málum nr. 562/2008 og 22/2015 hafi borið að leggja til grundvallar að fara eigi með umrædd vatnsorkuréttindi með sama hætti og eftir sömu reglum og gildi um fasteignir. Samkvæmt því fáist það ekki staðist sem kærandi haldi fram að skráning á eignarhaldi vatnsorkuréttindanna eigi að koma fram undir fasteignamati þeirra jarða sem vatnsréttindin hafi áður tilheyrt. Þau vatnsréttindi hafi verið framseld kæranda til eignar og/eða afnota og séu því ekki lengur hluti af þeim jörðum sem þau hafi áður tilheyrt. Vatnsréttindin tengist því ekki lengur þeim landareignum, eða þeirri nýtingu eða starfsemi sem fram fari á þeim, sem þau áður hafi tilheyrt auk þess sem að vatnið renni ekki lengur í þeim farvegi sem það áður hafi runnið.

Sveitarfélagið er ósammála því mati kæranda að með fyrrgreindu fyrirkomulagi skapist ósamræmi milli skráningar eignarheimilda í þinglýsingabækur annars vegar og skráningar í fasteignamati hins vegar. Fullt samræmi er þar á milli sé rétt staðið að skráningu upplýsinga um eignarhald og nýtingarrétt vatnsorkuréttinda í þinglýsingabækur og hljóti kærandi, sem eigandi og/eða umráðaaðila þeirra réttinda, að bera ábyrgð á því að slíkt sé gert.

Athugasemdir kæranda við umsagnir Þjóðskrár Íslands, Fljótdalshéraðs og Fljótsdals-hrepps
Með bréfum, dags. 4. júlí 2016, gerði kærandi athugasemdir við umsagnir Þjóðskrár Íslands, Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps í málinu.

Kærandi mótmælir því að ákvörðun Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015 um fasteignamat vatnsréttinda hafi verið frummat samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 en ekki endurmat í skilningi 31. gr. sömu laga. Kærandi telur að í raun sé um endurmat réttinda að ræða þar sem vatnsréttindin hafi áður verið metin sem hluti af mati viðkomandi jarða. Kærandi vísar til þess að hann hafi fengið tvö matsvottorð þann 28. desember 2015, annars vegar frummat fyrir árið 2015 þar sem fram hafi komið að unnt væri að óska eftir endurmati innan 30 daga samkvæmt 31. gr. laga nr. 6/2001 og hins vegar hafi verið um að ræða endurmat á vatnsréttindunum fyrir árið 2016. Í matsvottorðinu fyrir árið 2016 hafi ekki komið fram að heimilt væri að óska eftir endurmati, líkt og í tilkynningu um frummat, og því sé ljóst að um endurmat á umræddum eignum hafi verið að ræða.

Kærandi kveðst hafa brugðist við fyrrgreindum tilkynningum Þjóðskár Íslands með eðlilegum hætti. Gerðar hafi verið athugasemdir innan tiltekins frests auk þess sem óskað var eftir rökstuðningi. Enginn rökstuðningur hafi hins vegar borist frá Þjóðskrá Íslands. Því til viðbótar telur kærandi að framkvæmd Þjóðskrár Íslands við mat á vatnsréttindunum sé haldin verulegum annmörkum sem ein og sér ætti að leiða til ógildingar á ákvörðunum í heild sinni og Þjóðskrá Íslands beri því að taka málið upp að nýju með nýrri og lögmætri ákvörðun.

Kærandi telur að framkvæmd Þjóðskrár Íslands varðandi fasteignamat vatnsréttindanna hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 6/2001 varðandi frummat og endurmat eigna. Sú framkvæmd að gefa út frummat aftur í tímann fyrir árið 2015 og endurmat fyrir árið 2016 sama dag eigi sér ekki lagastoð. Þá verður heldur ekki séð að unnt sé að gefa út frummat fasteigna í tvígang, sama daginn fyrir tvö ár í einu, og það með afturvirkum hætti.

Þá telur kærandi að mál yfirfasteignamatsnefndar nr. 14/2015 hafi ekki fordæmisgildi í því máli sem hér um ræðir þar sem málin séu ekki sambærileg.

Að mati kæranda verður að líta svo á að umrædd vatnsréttindi hafi verið hluti af jörðum og metin með þeim, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 22/2015, áður en aðskilnaður þeirra átti sér stað. Þannig sé ekki um frummat umræddra réttindanna að ræða, heldur endurmat, þar sem umrædd réttindi hafi áður verið metin sem hluti af umræddum jörðum.

Jafnframt hafnar kærandi því að kærufrestur hafi verið liðinn þegar kæra var send yfirfasteignamatsnefnd og vísar meðal annars til þess að hann hafi ítrekað óskað eftir rökstuðningi frá Þjóðskrá Íslands, en án árangurs. Í ljósi þess að rökstuðningur hafi ekki borist hafi kærandi ekki átt annarra kosta völ en að fara með málið fyrir yfirfasteignamatsnefnd og það hafi kærandi gert innan tilskilins frests samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Af hálfu kæranda er bent á að þjóðlenduleyfi forsætisráðuneytis, dags. 30. júlí 2002, feli í sér heimild til nýtingar réttinda innan þjóðlendu en ekki sé um framsal eignaréttar að ræða.

Þá hafnar kærandi því að vatnsréttindin hafi lagaleg, samningsleg og efnisleg tengsl við eignarnámslóðina úr landi Laugavalla. Í ákvæðum vatnalaga sé kveðið á um að ekki skuli veita öllu vatni úr árfarvegi vegna orkunýtingar og að því skuli veitt í fornan farveg á ný þegar afnotum ljúki. Að mati kæranda þýði það að vatnsréttindi hafi bein tengsl við umræddar jarðir, óháð eignarhaldi þeirra. Með framsali á eignarhaldi á vatnsréttindum felist ekki að réttindin séu færð undan viðkomandi jörðum, heldur eingöngu að eignarhaldið skipti um hendur. Það sé því rangt að halda því fram að vatnsréttindi séu skilin undan jörðunum og séu ekki lengur hluti þeirra, þ.e. færð úr farvegi sínum.

Varðandi tilvísun Fljótsdalshéraðs til reglugerðar nr. 406/1978 í tengslum við framkvæmd skráningar fasteignamats þá telur kærandi að ákvæði reglugerðarinnar eigi ekki við þar sem reglugerðin taki til skráningar lands en augljóst sé að vatnsréttindi falli ekki undir þá skilgreiningu að vera land. Kærandi telur að fram komi í dómi Hæstaréttar í máli nr. 22/2015 að vatnsréttindi beri að skrá sem eind undir hverri jörð og meta sem hluta af þeim. Þannig hafi átt að meta réttindin með umræddum jörðum áður en til framsal þeirra kom. Vegna framsalsins hafi borið að breyta skráningu á eignarhaldi og meta fasteignamat umræddrar eindar sjálfstætt en ekki með fasteignamati viðkomandi jarðar, vegna breytingar á eignarhaldi. Hvorki í lögum né í dómi Hæstaréttar sé gert ráð fyrir því að umrædd réttindi séu færð frá viðkomandi jörð og þau skráð sem sérstök eind á annari jörð sem sé ótengd réttindum.

Þá mótmælir kærandi því að skráning vatnsréttinda innan þjóðlendu skuli fara með sama hætti og utan þjóðlendu. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 58/1988 er íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar landréttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki séu háð einkaeignarrétti. Að mati kæranda verði ekki séð að sveitarfélagið né Þjóðskrá Íslands hafi sýnt fram á að lagaheimild sé fyrir hendi til þess að færa réttindi í eigu ríkisins undan þjóðlendu á lóð í eigu þriðja aðila, sbr. 18. gr. laga nr. 58/1988 um forræði ráðherra á skráningu réttinda innan þjóðlendna sem og þinglýsingu þeirra. 

Kærandi mótmælir sérstaklega þeim sjónarmiðum Fljótsdalshrepps að ágreiningur máls þessa lúti að skráningu í fasteignaskrá og eigi því ekki undir yfirfasteignamatsnefnd. Vísar kærandi til þess að í 34. gr. laga nr. 6/2001, komi fram að hagsmunaaðilar geti kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar. Kærandi ítrekar þá málsástæðu að samkvæmt greinargerð með frumvarpi til laga nr. 83/2008 um breytingu á lögum nr. 6/2001 sé ljóst að eigandi fasteignar hafi rétt til að skjóta öllum ákvörðunum Þjóðskrár Íslands um endurmat fasteigna til æðra stjórnvalds. Þannig taki kæruheimildin ekki einvörðungu til matsfjárhæðar heldur einnig til annarra þátta endurmats, svo sem til breytinga á skráningu í fasteignaskrá.

Kærandi bendir á að ekki liggi fyrir af hálfu Þjóðskrár Íslands hvernig skipting vatns-réttindanna sé háttað milli sveitarfélaga eða milli eignarlanda og þjóðlendna.  Kærandi hafi einungis öðlast beinan eignarrétt yfir vatnsréttindum jarða innan eignarlanda sem ekki hafi verið í eigu ríkisins. Var réttindunum afsalað til kæranda samkvæmt þinglýstum heimildum. Öll vatnsréttindi í eigu ríkisins, hvort heldur innan eignarlanda eða þjóðlendna, hafa hins vegar ekki verið framseld til kæranda til eignar, einungis er um nýtingarrétt að ræða. Kærandi vísar jafnframt til þess að vatnsréttindin hafi ekki verið færð undan jörðunum með framsali á eignarhaldi þeirra. Í framsalinu fólst eingöngu að eignarhaldið skipti um hendur en réttindin eru eftir sem áður hluti af viðkomandi jörðum. Það er því að rangt að halda því fram að vatnsréttindin hafi verið tekin undan jörðunum og að þau séu ekki lengur hluti þeirra. 

Kærandi mótmælir því að leggja beri til grundvallar að fara eigi með vatnsréttindi með sama hætti og eftir sömu reglum og gilda um fasteignir en ekki sem hlunnindi. Í umsögn Fljótsdalshrepps er vísað til dóma Hæstaréttar í máli nr. 562/2008 og í máli nr. 22/2015 í þessu sambandi. Kærandi telur að í fyrrnefnda dómnum hafi ekki verið fjallað um það hvort skilgreina ætti vatnsréttindi sem hlunnindi. Í síðarnefnda dómnum hafi verið fjallað um þá ákvörðun Þjóðskrár Íslands að skrá vatnsréttindin en þar hafi ekki verið tekin afstaða til þess hvort túlka megi vatnsréttindi sem hlunnindi eða ekki. Í nýlegum dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. E-32/2015 hafi hins vegar verið komist að þeirri niðurstöðu að vatnsréttindi skuli talin til hlunninda viðkomandi jarða samkvæmt landskiptagerð.

Niðurstaða
Að gengnum dómi Hæstaréttar Íslands frá 8. október 2015 í máli nr. 22/2015, bar Þjóðskrá Íslands að taka vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar til skráningar og mats samkvæmt lögum nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Í dóminum segir að ráða mætti af fyrirliggjandi gögnum að vatnsréttindin hefðu ekki á þeim tíma sem þau voru hluti viðkomandi jarða verið sérstaklega sundurgreind í fasteignamati jarðanna með sama hætti og land, byggingar eða önnur mannvirki.

Í V. kafla laga nr. 6/2001 er fjallað um fasteignamat og framkvæmd þess. Samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laganna skal Þjóðskrá Íslands hlutast til um að allar nýjar eða breyttar eignir, sem upplýsingar berast um samkvæmt 19. gr. sömu laga, skuli metnar frummati innan tveggja mánaða frá því að upplýsingar um þær berast Þjóðskrá Íslands nema sérstakar ástæður hamli. Samkvæmt 3. mgr. sömu lagagreinar skal nýtt matsverð skráð í fasteignaskrá og gildir það með þeim almennu breytingum sem á því geta orðið eða þar til því er hrundið með nýju mati. Í 1. mgr. 31. gr. laganna kemur fram að aðili, sem verulega hagsmuni geti átt í matsverði eignar og sættir sig ekki við skráð mat samkvæmt 29. og 30. gr., geti krafist nýs úrskurðar Þjóðskrár Íslands um matið. Krafa um slíkt endurmat skal vera skrifleg, studd rökum og nauðsynlegum gögnum. Samkvæmt 3. mgr. 31. gr. áðurnefndra laga gilda ákvæði 13., 14. og 18. gr. stjórnsýslulaga ekki við meðferð mála samkvæmt 30. og 31. gr. laganna, en eiganda skal tilkynnt um nýtt eða breytt fasteignamat. Sætti eigandi sig ekki við ákvörðun fasteignamats getur hann gert skriflega og rökstudda kröfu um endurupptöku málsins innan eins mánaðar frá tilkynningu ákvörðunar. Í 1. mgr. 32. gr. a. laganna er fjallað um árlegt endurmat allra skráðra fasteigna en þar kemur fram að Þjóðskrá Íslands skuli endurmeta skráð matsverð allra fasteigna 31. maí ár hvert. Skal það verð talið fasteignamatsverð frá og með 31. desember þess árs til jafnlengdar næsta árs nema sérstök matsgerð komi til. Matsgerðir sem framkvæmdar eru á tímabilinu júní til desember ár hvert skulu taka bæði til skráðs matsverðs og fyrirhugaðs matsverðs. Þjóðskrá Íslands skal eigi síðar en í júní ár hvert gera viðkomandi sveitarfélagi og hverjum eiganda grein fyrir niðurstöðum endurmats samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 sem þá tekur gildi næsta 31. desember. Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. laga nr. 6/2001 geta hagsmunaðilar kært niðurstöðu endurmats til yfirfasteignamatsnefndar.

Með bréfi Þjóðskrár Íslands til kæranda 28. desember 2015 var kæranda tilkynnt um að vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdalshreppi og á Fljótsdalshéraði hefðu verið skráð í fasteignaskrá í samræmi við ákvæði 2. og 3. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna. Bent var á að sú tilhögun hefði verið viðhöfð varðandi skráningu vatnsréttinda kæranda á Fljótsdalshéraði að stofnuð hefði verið sérstök lóð úr landi Laugavalla með landnúmerið 223696 og þar hefðu öll vatnsréttindi kæranda innan þess sveitarfélags verið skráð. Vatnsréttindi kæranda innan Fljótsdalshrepps hefðu hins vegar öll verið skráð á lóðina Valþjófsstaður lóð A2, sem er í eigu kæranda. Með áðurnefndu bréfi Þjóðskrár Íslands fylgdu tilkynningar (matsvottorð) sem annars vegar báru yfirskriftina „Tilkynning um nýtt fasteignamat“ og hins vegar „Tilkynning um fasteignamat 2016“. Fyrrgreindar tilkynningar gáfu til kynna matsfjárhæðir fyrrgreindra vatnsréttinda kæranda innan Fljótsdalshéraðs annars vegar og Fljótsdalshrepps hins vegar. Ljóst er að þær tilkynningar sem báru yfirskriftina; Tilkynning um nýtt fasteignamat, höfðu að geyma frummat vatnsréttindanna samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001, en í tilkynningunni kom fram að frestur til endurupptöku samkvæmt 3. mgr. 31. gr. laganna væri einn mánuður og þá væri jafnframt hægt að óska eftir endurmati samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laganna. Tilkynningar um fasteignamat vatnsréttindanna fyrir árið 2016 báru það hins vegar með sér að vera ákvarðanir um fyrirhugað matsverð ársins 2016, sbr. 4. málsliður 1. mgr. 32. gr. laga nr. 6/2001, enda kemur fram í fyrrgreindu lagaákvæði að matsgerðir sem framkvæmdar eru á tímabilinu júní til desember skuli taka bæði til skráðs matsverðs og fyrirhugaðs matsverðs.

Með hliðsjón af framansögðu verður ekki annað ráðið en að fyrrgreindar tilkynningar (matsvottorð) Þjóðskrár Íslands hafi annars vegar verið tilkynning um frummat vatnsréttindanna samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 og hins vegar endurmat á skráðu matsverði vatnsréttindanna fyrir árið 2016 samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a sömu laga. Þá verður ekki annað séð en að fyrrgreind tilhögun Þjóðskrár Íslands, hafi að öllu leyti verið í samræmi við ákvæði laga nr. 6/2001 þar sem skýrt er kveðið á um það í 4. ml. 1. mgr. 32. gr. laganna að þær matsgerðir sem framkvæmdar eru á tímabilinu júní til desember ár hvert, eins og í því tilviki sem hér um ræðir, skulu bæði taka til skráðs matsverðs (frummats) og fyrirhugaðs matsverðs (árlegs endurmats).

Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um frummat eigna samkvæmt 1. mgr. 30. gr. laga nr. 6/2001 sæta ekki kæru til yfirfasteignamatsnefndar. Fyrirliggjandi gögn málsins gefa til kynna að kærandi hafi ekki óskað eftir endurmati samkvæmt 1. mgr. 31. gr. laga nr. 6/2001 vegna þess frummats sem Þjóðskrá Íslands framkvæmdi á vatnsréttindum kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar, sbr. matsvottorð Þjóðskrár Íslands, dags. 28. desember 2015 (Tilkynning um nýtt fasteignamat). Fyrrgreindar ákvarðanir Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015 varðandi frummat fyrrgreindra vatnsréttinda kæranda sæta því ekki kæru til yfirfasteignamatsnefndar og koma því ekki til endurskoðunar af hálfu nefndarinnar.

Ákvarðanir Þjóðskrár Íslands, dags. 28. desember 2015, er varða fasteignamat vatnsréttinda kæranda fyrir árið 2016 voru hins vegar ákvarðanir um endurmat skráðs matsverðs samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001. Með lögum nr. 83/2008 voru gerðar ákveðnar breytingar á lögum nr. 6/2001 og var þá meðal annars lögfest að eigandi fasteignar hefur rétt til að skjóta öllum ákvörðunum um endurmat matsverðs til æðra stjórnvalds í samræmi við meginreglur stjórnsýslulaga. Þannig sæta allar ákvarðanir Þjóðskrár Íslands um endurmat hvort heldur er samkvæmt 1. mgr. 31. gr. eða 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 kæru til yfirfasteigna-matsnefndar samkvæmt 1. mgr. 34. gr. sömu laga.

Með bréfi, dags. 8. janúar 2016, óskaði kærandi eftir skýringum og rökstuðningi á skráningu og mati Þjóðskrár Íslands á vatnsréttindum kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar samkvæmt fyrrgreindum tilkynningum Þjóðskrár Íslands frá 28. desember 2015. Þjóðskrá Íslands svaraði með bréfi, dags. 25. janúar 2016, þar sem nánari skýringar voru gefnar. Kærandi óskaði í framhaldinu eftir frekari skýringum og átti meðal annars fund með starfsmönnum Þjóðskrár Íslands vegna málsins þar sem afstaða Þjóðskrár Íslands var skýrð enn frekar. Með hliðsjón af framansögðu og með vísan til 3. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga verður að líta svo á að kærufrestur vegna ákvarðana Þjóðskrár Íslands um endurmat vatnsréttinda kæranda samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 hafi fyrst byrjað að líða 25. janúar 2016 og því hafi kærufrestur ekki verið liðinn er kærandi sendi yfirfasteignamatsnefnd kæru þann 22. apríl 2016 vegna málsins.

Endurmat skráðs matsverðs samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 varðar árlegt endurmat allra fasteigna og hlunninda í fasteignaskrá. Með lögum nr. 83/2008 var sú breyting gerð á framkvæmd árlegs endurmats að Fasteignaskrá Íslands (nú Þjóðskrá Íslands) var fengið það hlutverk að endurmeta skráð matsverð en áður hafði yfirfasteignamatsnefnd ákveðið í nóvember ár hvert, framreiknistuðla fyrir komandi ár sem endurmatið byggðist á. Með fyrrgreindri lagabreytingu var Þjóðskrá Íslands gert að safna og halda til haga ýmsum gögnum og upplýsingum sem síðan voru lögð til grundvallar ákvörðun Þjóðskrár Íslands að árlegu endurmati, s.s. upplýsingar um verðþróun fasteigna og þróun byggingarkostnaðar svo dæmi séu nefnd. Endurmati samkvæmt 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 er þannig ætlað að endurspegla þær verðbreytingar sem verða á fasteignum milli ára.

Ráða má af kæru kæranda frá 22. apríl 2016 að ekki séu gerðar athugasemdir við matsfjárhæðir endurmatsins heldur snýr kæran fyrst og fremst að skiptingu matsfjárhæðar endurmatsins sem og að framkvæmd þess. Vísar kærandi meðal annars til þess að skipting vatnsréttindanna milli sveitarfélaganna, Fljótsdalshéraðs og Fljótsdalshrepps, sé óskýr og án rökstuðnings. Þá sé umtalsverður hluti vatnsréttindanna innan þjóðlendna, sem séu í eigu íslenska ríkisins, en kærandi telur ólögmætt að skrá og endurmeta þau réttindi sem hluta af annarri fasteign. Þá gerir kærandi jafnframt athugasemdir við með hvaða hætti Þjóðskrá Íslands skráði vatnsréttindin í fasteignaskrá, þ.e. að skrá öll vatnsréttindin undir tvær lóðir innan sveitarfélaganna, en ekki sem réttindi eða eind af hverri jörð sem réttindin tengjast, óháð eignarhaldi þeirra. Því til viðbótar bendir kærandi á að önnur þessara lóða, þ.e. lóðin Laugavellir, með landnúmerið 233696, sé stofnuð úr jörð sem ekki er í eigu kæranda. Telur kærandi að kæruheimild 34. gr. laga nr. 6/2001 um skráningu og mat fasteigna, taki ekki einungis til matsfjárhæðar endurmats, heldur einnig til annarra þátta endurmats eins og til dæmis breytinga á skráningu í fasteignaskrá sem sé í þessu tilviki órjúfanlegur þáttur endurmatsins, þar sem matsfjárhæðir einstakra eininga eða einda taki mið af slíkri skráningu.

Ljóst er af framansögðu að ágreiningur máls þessa varðar fyrst og fremst það hvort vatnsréttindi kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi verið skráð með réttum hætti í fasteignaskrá. Með hliðsjón af skýru orðalagi og tilurð 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 verður ekki séð að ágreiningur um tilhögun og framkvæmd skráningar í fasteignaskrá falli undir fyrrgreint lagaákvæði enda varði það ekki endurmat matsverðs í skilningi 1. mgr. 32. gr. a laga um skráningu og mat fasteigna. Samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga nr. 6/2001 getur eigandi fasteignar eða annar aðili, sem telur sig eiga hagsmuna að gæta í lýsingu fasteignar eða mati, krafist endurskoðunar á upplýsingum eða lýsingu fasteigna í fasteignaskrá ef viðkomandi telur að fyrirliggjandi upplýsingar gefi ekki rétta lýsingu á viðkomandi fasteign eða fasteignum. Kröfu um endurskoðun samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði skal beint til Þjóðskrár Íslands. Telja verður að ágreiningur um tilhögun og framkvæmd skráningar í fasteignaskrá falli ekki undir ákvæði 1. mgr. 32. gr. a. laga nr. 6/2001 og kemur því ekki til úrlausnar yfirfasteignamatsnefndar með þeim hætti sem krafa er gerð um af hálfu kæranda í því máli sem hér um ræðir.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er kæru Landsvirkjunar frá 22. apríl 2016 vegna endurmats vatnsréttinda kæranda vegna Kárahnjúkavirkjunar, vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

Úrskurðarorð

Kæru Landsvirkjunar, dags. 22. apríl 2016, vegna mats vatnsréttinda og annarra réttinda sem nýtt eru vegna Kárahnjúkavirkjunar í Fljótsdalshéraði og Fljótsdalshreppi, samkvæmt ákvörðunum Þjóðskrár Íslands, dags. 28. desember 2015, er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd.

 

 

__________________________________

Ásgeir Jónsson

 

 ______________________________           ________________________________

   Valtýr Sigurðsson                                  Björn Jóhannesson

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum