Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 11/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 11/2018

Miðvikudaginn 29. ágúst 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 8. janúar 2018, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 16. október 2017 um innheimtu ofgreiddra bóta vegna ársins 2016.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 21. júní 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2016 hafi leitt í ljós ofgreiðslu að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Í bréfinu kom fram sú tillaga að endurgreiðslu að frádráttur af greiðslum kæranda frá Tryggingastofnun ríkisins yrði X kr. á mánuði frá 1. september 2017 þar til skuldin væri að fullu endurgreidd. Með erindi til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. júní 2017, andmælti kærandi endurreikningi og uppgjöri tekjutengdra bóta ársins 2016. Með bréfi, dags. 16. október 2017, var kæranda tilkynnt um að krafan yrði ekki felld niður þar sem hún væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar ástæður væru ekki talin vera fyrir hendi. Þá var kæranda greint frá því að endurgreiðslunni yrði dreift þannig að X kr. yrðu dregnar mánaðarlega af greiðslum hennar þar til krafan yrði að fullu greidd. Í kjölfar kæru var kæranda tilkynnt með bréfi, dags. 5. júní 2018, að stofnuninni hafi ekki verið heimilt að skuldajafna lífeyrisréttindum hennar hjá stofnuninni vegna hluta kröfunnar. Kærandi fengi því endurgreiddar X kr. Í bréfinu segir að krafa til innheimtu sé X kr. Heimilt sé að skuldajafna kröfu að fjárhæð X kr. þar sem upplýsingar um réttar fjármagnstekjur hafi ekki legið fyrir við greiðslu réttinda á árinu 201[6]. Sá hluti kröfu sem hafi myndast vegna mistaka við skráningu á tekjuáætlun væri X kr. Í bréfinu er farið fram á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 13. janúar 2018. Með bréfi, dags. 18. janúar 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 14. febrúar 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. febrúar 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 16. apríl 2018, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. apríl 2018. Viðbótargreinargerð, dags. 6. júní 2018, barst frá Tryggingastofnun ríkisins og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 18. júní 2018, og voru þær sendar Tryggingastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júní 2018. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlega kröfu í málinu en ráða má af kæru að óskað sé eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um innheimtu á ofgreiddum bótum vegna ársins 2016 verði endurskoðuð.

Í kæru segir að kærandi hafi x 2016 afhent Tryggingastofnun ríkisins tekjuáætlun ásamt fylgigögnum líkt og stofnunin hafi lagt upp með, þar með talið skattkort, í tengslum við umsókn hennar um greiðslu ellilífeyris. Engin greiðsla hafi borist 1. maí sama ár. Við eftirgrennslan kæranda 3. maí hafi í framhaldinu verið lögð inn á reikning hennar upphæð sem hún hafi móttekið í góðri trú um að rétt væri reiknuð. Sama upphæð hafi verið lögð inn á reikning hennar mánuðina sem á eftir komu, þ.e. júní, júlí og ágúst. Nokkrum dögum síðar hafi kæranda borist bréf frá stofnuninni, einnig dagsett 3. maí 2016, um að umsókn hennar um greiðslu ellilífeyris frá 7. mars 2016 hefði verið samþykkt. Að öðru leyti hafi hún ekki velt efni bréfsins fyrir sér.

Þann 12. ágúst 2016 hafi kæranda borist tilkynning frá Tryggingastofnun ríkisins þess efnis að á þessum fjórum mánuðum hefði myndast ofgreiðsla að fjárhæð X kr. sem kæranda bæri að endurgreiða. Af því tilefni hafi kærandi farið á fund starfsmanns stofnunarinnar sem hafi fullyrt að engin skuld væri fyrir hendi og ekkert slíkt að sjá á „Mínum síðum“ á vefsvæði kæranda hjá stofnuninni. Hafi starfsmaður því talið að ekki væri um neina endurgreiðslukröfu á hendur henni að ræða.

Nokkrum dögum síðar hafi kæranda borist bréf frá stofnuninni, dags. 12. ágúst 2016, með fyrirsögninni „breyting á tekjuáætlun“, þar sem fullyrt hafi verið að ný tekjuáætlun hefði borist frá henni og bótaréttur endurreiknaður. Hið rétta sé að hún hafi aldrei sótt um neina breytingu á tekjuáætlun, enda hafi öll gögn legið fyrir hjá stofnuninni í upphafi umsóknar kæranda um afgreiðslu ellilífeyris X 2017. Þessi staðreynd og mistök stofnunarinnar í kjölfarið blasi við af gögnum málsins, nánar tiltekið af handskrifaðri tekjuáætlun frá X 2016 sem sé undirrituð af kæranda, en hún hafi legið til grundvallar umræddi umsókn hennar um greiðslu ellilífeyris.

Í byrjun september, október og nóvember 2016 hafi verið lagðar inn á reikning kæranda um X kr. Hafi kærandi talið að um væri að ræða upphæð að frádreginni meintri skuld hennar á ofgreiddum bótum, eins og bréf Tryggingastofnunar frá 12. ágúst 2016 hafi borið með sér. Þó hafi hún talið upphæðina of lága og hafi því farið á fund stofnunarinnar að nýju og hitt fyrir sama starfsmann og áður til að grennslast fyrir um hvort skattkort hennar væri nýtt að því leyti sem heimildir hafi staðið til.

Þá hafi starfsmaðurinn upplýst að skattkort hennar lægi ekki fyrir hjá Tryggingastofnun og um væri að ræða 100% skatttöku á greiðslum til kæranda frá stofnuninni hingað til. Hið rétta sé að skattkortið hafi legið fyrir í fórum stofnunarinnar og hafi gert frá upphafi umsóknar og það fundist skömmu síðar við leit starfsmanna. Í framhaldinu hafi verið lagðar inn á reikning kæranda X kr. án skýringa bréflega eða inn á „Mínum síðum“ á vefsvæði kæranda hjá stofnuninni. Hafi hún því talið að um væri að ræða einhvers konar uppgjör í tengslum við ofgreiddan skatt úr því að skattkortið hefði komið í leitirnar.

Í júní 2017 hafi svo borist enn eitt bréfið, dags. 21. júní 2017, þess efnis að ofgreiddar bætur fyrir árið 2016 næmu nú X kr. og íþyngjandi tillaga sett fram af hálfu Tryggingastofnunar um endurgreiðslu. Hafi þessum ráðahag verið mótmælt skriflega af hálfu kæranda 22. júní 2017 og settar fram spurningar í nokkrum liðum, auk þess sem hún hafi farið fram á niðurfellingu ofgreiðslukröfunnar. Þess megi geta að svör við spurningunum hafi aldrei borist frá stofnuninni.

Í október 2017 hafi Tryggingastofnun ríkisins komist að þeirri niðurstöðu að hafna umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfunnar. Í ákvörðun stofnunarinnar hafi meðal annars verið fullyrt að tilurð hinnar meintu ofgreiðslukröfu mætti rekja til vanhalda af hálfu kæranda að skila inn umbeðnum og réttum gögnum við upphaflega umsókn um greiðslu ellilífeyris í X 2016.

Líkt og fram komi í ákvörðun Tryggingastofnunar sé ákvörðun um synjun á niðurfellingu ofgreiðslukröfu á hendur kæranda hafnað á þrenns konar forsendum og séu þær eftirfarandi.

Í fyrsta lagi að „forsendur [fyrir útreikningi] voru ekki í samræmi við þá tekjuáætlun sem þú skilaðir inn í X 2016 en þær voru kynntar þér með bréfi dags. 3. maí 2016 og engar athugasemdir bárust frá þér“ og í öðru lagi að „ný tekjuáætlun barst frá þér þann 11. ágúst 2016 […] með bréfi 12. ágúst 2016 var þér tilkynnt um þessar breyttu forsendur.

Því sé einfaldlega til að svara að kærandi hafi staðið skil á öllum gögnum í X 201[6], sem krafa hafi verið gerð um af hálfu Tryggingastofnunar, til að ljá réttum útreikningi á ellilífeyrisbótum brautargengi. Kærandi hafi búist við og hafi mátt með réttu búast við að útreikningur stofnunarinnar yrði réttur. Svo hafi ekki reynst vera vegna mistaka af hálfu stofnunarinnar.

Kærandi hafði einfaldlega enga ástæðu til að kanna útreikning sem gefi að líta í bréfi stofnunarinnar, dags. 3. maí 2016, og hafi mátt telja að umsókn hennar hefði með réttu verið samþykkt eins og upphafsorð bréfsins beri með sér. Í þessum efnum gildi hið fornkveðna: „Konungurinn gerir ekki rangt“. Ljóst sé að bótaþegar séu seinþreyttir til vandræða í þessum efnum, enda taki þeir almennt á móti bótum fyrirvaralaust (rétt út reiknuðum, vangreiddum eða ofgreiddum) að undangengnu umsóknarferli lögum samkvæmt í þeirri trú að þær séu rétt út reiknaðar.

Bótaþegar hljóti þannig almennt að geta treyst því að bætur séu rétt út reiknaðar, enda hafi öll gögn legið fyrir eins og lög áskilji. Þá blasi gífurlegur aðstöðumunur á milli bótaþega annars vegar og Tryggingastofnunar hins vegar, en ljóst sé hvor aðilinn hafi yfir að búa gífurlegri sérfræðiþekkingu á yfirgripsmiklum lagabálkum og flóknu regluverki og útreikningi á fjárhæð bóta á grundvelli þess. Undantekningarákvæði laga og reglugerða um endurgreiðslu ofgreiddra bóta og skilyrði þess að ofgreiðslukröfu verði haldið til streitu, renni enn fremur stoðum undir þennan skilning.

Allur málatilbúnaður stofnunarinnar og tilkynningar eftir á með fyrirsögnum um einhverja „breytingu á tekjuáætlun“ af hálfu kæranda árið 2016 og yfirlýsingar um að „engar athugasemdir hafi borist“ frá henni í kjölfar samþykktrar umsóknar hennar frá 3. maí 2016, sé því einfaldlega fyrirsláttur. Hér sé beinlínis verið að draga í efa með ómaklegum hætti góða trú hennar á móttöku greiðslnanna og tilraun stofnunarinnar til að þrælbeygja málavexti þannig að falli utan við undantekningarákvæði almannatryggingalaga og reglugerðar um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta um ofgreiddar bætur, í þeirri viðleitni að draga fjöður yfir eigin mistök. Ljóst sé að hér sé á ferðinni algjör vangá, sem ekki verði rakin til annars en mistaka starfsmanna stofnunarinnar við útreikning, þar sem öll gögn hafi legið fyrir en í slíkum tilvikum hafi verið litið svo á að endurgreiðslukrafa af hálfu stofnunarinnar sé ekki fyrir hendi. Um þetta vísar kærandi til úrskurða úrskurðarnefndar almannatrygginga í málum nr. 314/2005 og 224/2001.

Í þriðja lagi segi í ákvörðuninni: „Ákveðið var að synja umsókninni. Krafan sé réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um alveg sérstakar ástæður eru ekki talin vera fyrir hendi.

Eins og fram hafi komið hafi kærandi tekið við hinum meinta ofgreidda ellilífeyri í góðri trú í framhaldi af umsókn hennar þar um í X 2016. Í almannatryggingalögum og reglum, settum með stoð í þeim, gefi að líta undantekningar frá meginreglunni um endurkröfu ofgreiddra bóta. Ljóst sé að í ákvörðun Tryggingastofnunar frá október 2017 sé hvorki með nokkru móti farið ofan í saumana á skilyrðum þeim, sem þar séu fram sett, né tilraun gerð til að bera saman við persónulegar aðstæður kæranda og hversu íþyngjandi fyrirhuguð endurgreiðsla sé henni. Þess í stað sé umsókn hennar um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar flaustrað af án nokkurra útskýringa eða rökstuðnings, á skjön við lagareglur og sjónarmið um skyldubundið mat stjórnvalda.

Að öllu framangreindu virtu telji kærandi að Tryggingastofnun hafi haft rangt við gagnvart sér og hún mótmæli greiðsluskyldu sinni á hinni meintu ofgreiðslu sem haldið sé fram af hálfu stofnunarinnar. Hún leggi málið fyrir úrskurðarnefnd velferðarmála þar sem hún vænti þess og treysti að mál hennar fái vandaða og sanngjarna umfjöllun eins og réttur hennar standi ríkulega til lögum samkvæmt.

Í athugasemdum kæranda frá 16. apríl 2018 segir að kjarna málsins megi finna í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins þar sem segir „Kærandi hafði skilað inn tekjuáætlun. Við vinnslu greiðslna kæranda voru forsendur þeirrar tekjuáætlunar því miður ekki notaðar.“ Enn fremur segi að „fyrir mistök starfsmanns Tryggingastofnunar voru rangar forsendur skráðar inn í kerfi stofnunarinnar sem olli kröfu að fjárhæð X kr.“

Allur málflutningur Tryggingastofnunar um að 11. ágúst 2016 hafi borist „ný tekjuáætlun“ frá kæranda sé ekkert annað en átylla og undanbrögð af hálfu stofnunarinnar, enda sú tekjuáætlun að öllu leyti samhljóða þeirri tekjuáætlun sem kærandi hafi skilað X 2016. Sé ljóst að stofnunin hafi lagt að henni að fylla út „nýja“ tekjuáætlun til að draga fjöður yfir eigin mistök.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segi: „var kæranda einnig kynnt að það lægi fyrir ætluð ofgreiðsla að fjárhæð X […] Ekki bárust athugasemdir frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar.“ Þessari staðhæfingu sé mótmælt sem rangri. Í samskiptum kæranda við starfsmenn stofnunarinnar hafi þeir framan af talið að ekki væri um neina kröfu á hendur henni að ræða fyrr en í ársbyrjun 2017. Umræddri meintri ofgreiðslukröfu hafi verið mótmælt af hálfu kæranda frá upphafi.

Í umfjöllun Tryggingastofnunar um túlkun 55. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009, felli stofnun atvik málsins undir undantekningarákvæði 11. gr. reglugerðarinnar og beri við að „eignastaða kæranda [sé] afar góð“ og því ekki tilefni til að fallast á niðurfellingarbeiðni. Þessum rökstuðningi sé mótmælt.

Kærandi vísar til 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar þar sem segi að ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögunum séu ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skuli það sem sé ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlist rétt til. Samkvæmt síðari málslið sama ákvæðis sé frádrátturinn aðeins heimill ef tekjur á ársgrundvelli séu hærri en lagt hafi verið til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt stofnunni um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður.

Samkvæmt þessu sé ljóst að tvö skilyrði þurfi að vera uppfyllt svo að Tryggingastofnun sé unnt að draga meinta ofgreiðslu frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist rétt til síðar. Hvorugt skilyrðið sé uppfyllt í máli þessu.

Varðandi fyrra skilyrðið bendir kærandi á að í tilfelli þessu snúist mistök stofnunarinnar um að hafa ekki tekið inn í útreikning upplýsingar um lífeyrissjóðsgreiðslur, sem þó hafi legið fyrir að öllu leyti ásamt öðrum gögnum, til grundvallar réttum útreikningi. Skilyrðið um að „tekjur á ársgrundvelli [séu] hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta“ sé því einfaldlega ekki uppfyllt því til „grundvallar útreikningi“ samkvæmt ákvæðinu hljóti að liggja gögn sem öll hafi legið fyrir frá upphafi.

Hvað varði seinna skilyrðið um að „bótaþegi [hafi] ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukningu eða aðrar breyttar aðstæður“ blasi við að hvorugt þeirra skilyrða séu fyrir hendi í tilfelli þessu. Tryggingastofnun ríkisins bresti því einfaldlega lagaheimild til að krefja kæranda um greiðslu hinna ofgreiddu bóta og skuldajöfnuður sá, sem stofnunin hafi þvingað hana til að sæta á mánaðarlegri framfærslu, sé í andstöðu við lög.

Í athugasemdum kæranda frá 18. júní 2018 segir að í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar frá 6. júní 2018 gefi að líta viðurkenningu stofnunarinnar á því að óheimilt hafi verið að beita skuldajöfnuði á meirihluta kröfu þeirrar sem deilt sé um í málinu eins og gert hafi verið. Hún hafi fengið þann hluta kröfunnar endurgreiddan, X kr.

Hvað varði þær X kr. sem eftir standi sé því haldið fram af hálfu stofnunarinnar að heimild til skuldajafnaðar sé ekki fyrir hendi þar sem upplýsingar um réttar fjármagnstekjur hafi ekki legið fyrir við greiðslu réttinda árið 2017. Þessari staðhæfingu sé mótmælt. Hún hafi innt öll gögn af hendi til Tryggingastofnunar ríkisins til grundvallar réttum útreikningi á lífeyrisréttindum sínum. Þess sé farið á leit að Tryggingastofnun ríkisins verði gert að endurgreiða þann hluta kröfunnar einnig.

Í umræddri viðbótargreinargerð endurkrefji Tryggingastofnun kæranda enn um X kr. Kröfum stofnunarinnar í þá veru sé mótmælt og vísað til áður framlagðra gagna auk lagareglna og sjónarmiða því til stuðnings.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laganna. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. laganna og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar sem sé svohljóðandi:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun eða eftir atvikum sjúkratryggingastofnunin [endurkröfurétt] á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.”

Á árinu 2016 hafi kærandi notið ellilífeyris og tengdra greiðslna frá X til 31. desember 2016.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2017 vegna tekjuársins 2016 hafi farið fram, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur byggist á upplýsingum á skattframtölum bótaþega lögum samkvæmt.

Umsókn kæranda um ellilífeyri hafi verið samþykkt í maí 2016. Kærandi hafi skilað inn tekjuáætlun. Við vinnslu greiðslna kæranda hafi forsendur þeirrar tekjuáætlunar því miður ekki verið notaðar. Kæranda hafi verið send greiðsluáætlun þar sem fram komu tekjuforsendur þær sem stofnunin miðaði við með bréfi frá 3. maí 2016. Í tekjuáætluninni hafi verið gert ráð fyrir því að kærandi hefði X kr. í fjármagnstekjur, en engar tekjur. Tryggingastofnun bendir á að í bréfinu hafi verið búið að taka tillit til 50% hlutfalls maka af fjármagnstekjum og að tekjurnar hafi verið á ársgrundvelli, en samanlagt hafi verið gert ráð fyrir að fjármagnstekjur kæranda og maka væru X kr. á ársgrundvelli. Ekki hafi borist athugasemdir við tekjuáætlunina frá kæranda og hafi henni verið greitt á grundvelli hennar fyrir tímabilið X til 31. ágúst 2016.

Þann 11. ágúst 2016 hafi Tryggingastofnun borist ný tekjuáætlun frá kæranda. Í þeirri tekjuáætlun hafi verið búið að gera ráð fyrir þeim tekjum sem einnig komu fram í tekjuáætlun kæranda frá X 2016. Tekjuáætlunin hafi gert ráð fyrir að kærandi hefði X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í séreignarsparnað og óbreyttum fjármagnstekjum. Kæranda hafi verið kynnt þessi nýja tekjuáætlun með bréfi, dags. 12. ágúst 2016. Í því bréfi hafi kæranda einnig verið kynnt að það lægi fyrir áætluð ofgreiðsla að fjárhæð X kr. sem ekki yrði innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins 2017. Ekki hafi borist athugasemdir frá kæranda vegna þessarar tekjuáætlunar og hafi henni verið greitt á grundvelli hennar frá 1. september 2016 til 31. desember 2016.

Á tímabilinu X til 31. desember 2016 hafi Tryggingastofnun gert ráð fyrir því að kærandi væri með X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í séreignarsparnað og X kr. í sameiginlegar fjármagnstekjur með maka, en hluti kæranda hefði þá verið X kr. í fjármagnstekjum á því tímabili.

Við bótauppgjör ársins 2016 hafi komið í ljós að tekjur kæranda voru hærri en gert hafði verið ráð fyrir í tekjuáætluninni. Á tímabilinu X til 31. desember 201[6] hafði kærandi verið með X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í greiðslur séreignarsparnaðar og X kr. í sameiginlegar fjármagnstekjur með maka, en hluti kæranda hafi því verið X kr. í fjármagnstekjum. 

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið sú að kærandi hafi fengið greitt á árinu X kr. en hefði átt að fá greiddar X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu, í bótaflokkunum tekjutryggingu, framfærsluuppbót og orlofs- og desemberuppbót.

Tryggingastofnun hafi borist andmæli frá kæranda, dags. 22. júní 2017. Útreikningur greiðslna ársins 2016 hafi verið skoðaður og þar sem forsendur útreiknings og útreikningurinn hafi verið réttur hafi verið ákveðið að taka andmælin fyrir á grundvelli 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 og þau því tekin fyrir af samráðsnefnd um meðferð ofgreiðslna. Við afgreiðslu samráðsnefndar hafi meðal annars, ásamt fyrirliggjandi gögnum, verið skoðuð ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.

Fjallað sé um innheimtu ofgreiddra bóta í 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra það þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda, með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umrædd krafa hafi stofnast við endurreikning greiðslna ársins 2016. Eins og meðfylgjandi gögn beri með sér sé ljóst að ástæða ofgreiðslu hafi verið rangar tekjuáætlanir. Fyrir mistök starfsmanns Tryggingastofnunar hafi rangar forsendur verið skráðar inn í kerfi stofnunarinnar sem ollu kröfu að fjárhæð X kr. Þrátt fyrir þessi mistök hafi kæranda verið kynntar forsendurnar og hafi hún ekki brugðist við fyrr en fjórum mánuðum síðar. Kærandi hafi sannarlega fengið greiddar bætur sem hún hafi ekki átt rétt á lögum samkvæmt og beri Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Kröfurnar séu réttmætar. Það hafi verið mat nefndarinnar að ástæða ofgreiðslu væri ekki svo sérstök að hún réttlæti niðurfellingu á grundvelli skilyrðis 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um góða trú.

Samráðsnefnd hafi einnig metið fjárhags- og félagslegar aðstæður kæranda á grundvelli upplýsinga sem Tryggingastofnun hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfuna. Einkum hafi verið horft til þess að eignastaða kæranda sé afar góð. Boðið hafi verið upp á að semja um greiðsludreifingu.

Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að fjárhags- og félagslegar aðstæður kæranda væru ekki nægilega sérstakar að þær uppfylltu undanþáguákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins en telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun á ósk kæranda um niðurfellingarbeiðni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að í erindi kæranda hafi komið fram athugasemd um að stofnuninni sé eingöngu heimilt að skuldajafna kröfu vegna ofgreiddra tekjutengdra bóta af tekjutengdum bótum sem bótaþegi öðlist síðar rétt til ef krafan stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt stofnuninni um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 2. mgr. 55. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar. Þetta skilyrði hafi kærandi talið að ekki væri uppfyllt í hennar tilfelli.

Þessi athugasemd kæranda um skuldajöfnuð sé réttmæt að hluta, þ.e. Tryggingastofnun hafi ekki haft heimild til að skuldajafna af lífeyrisréttindum kæranda hjá stofnuninni vegna hluta kröfunnar. Eftir sem áður hafi verið ákveðið að endurkrefja kæranda um heildarofgreiðslu á grundvelli almennra reglna um kröfurétt, sbr. 1. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar.

Í ljósi þessara breyttu forsendna hafi fyrirkomulagi innheimtu nú verið breytt gagnvart kæranda. Forsendur málsins séu að öðru leyti óbreyttar og vísað sé til fyrri greinargerðar Tryggingastofnunar.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um innheimtu á ofgreiddum bótum til kæranda vegna ársins 2016.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 7. mgr. 16. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Kærandi sótti um ellilífeyri og tengdar greiðslur með umsókn, dags. X 2016. Með umsókninni fylgdi tekjuáætlun kæranda þar sem gert var ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum, séreignarsparnaði og tekjum vegna vaxta og verðbóta. Umsókn kæranda var samþykkt 3. maí 2016 en við afgreiðslu umsóknarinnar var ekki tekið mið af áætluðum lífeyrissjóðstekjum og séreignarsparnaði í tekjuáætlun kæranda við útreikning á tekjutengdum greiðslum kæranda. Kærandi fékk greitt samkvæmt þeim forsendum í maí, júní, júlí og ágúst. Af gögnum málsins má ráða að kærandi skilaði inn nýrri tekjuáætlun 11. ágúst 2016 og er hún að mestu leyti sambærileg þeirri tekjuáætlun sem hún skilaði inn X 2016. Þann 12. ágúst 2016 tilkynnti Tryggingastofnun kæranda um hina nýja tekjuáætlun. Í bréfinu kom jafnframt fram að fyrir lægi ofgreiðsla að fjárhæð X kr. sem yrði ekki innheimt fyrr en að loknu uppgjöri bóta ársins haustið 2017. Tryggingastofnun tilkynnti kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2016 með bréfi, dags. 21. júní 2017. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hennar hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfuna megi rekja að mestu leyti til mistaka Tryggingastofnunar ríkisins við afgreiðslu á umsókn kæranda X 2016 þar sem lífeyrissjóðstekjur kæranda á tekjuáætlun hennar voru ekki skráðar inn við útreikning á greiðslum.

Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni beri að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Aðstæður verða að vera sérstakar. Við mat á því hvort aðstæður séu sérstakar skal einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort bótaþegi hafi verið í góðri trú þegar hann tók við hinum ofgreiddu bótum. Tryggingastofnun ríkisins hefur hafnað því að heimild tilvitnaðs reglugerðarákvæðis eigi við í tilviki kæranda.

Í máli þessu er ekki deilt um fjárhæð endurkröfunnar heldur lýtur ágreiningurinn aðallega að synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu á eftirstöðvum endurgreiðslukröfu sem hafði myndast vegna ofgreiddra bóta ársins 2016.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að örorkulífeyrir og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Af gögnum málsins má sjá að kærandi upplýsti um tekjur sínar í upphaflegri tekjuáætlun frá 7. mars 2016, en við útreikning á greiðslum kæranda hafði Tryggingastofnun ekki tekið tillit til áætlaðra lífeyrissjóðstekna og séreignarsparnaðar í tekjuáætluninni. Fékk kærandi greitt samkvæmt því þar til breyting á tekjuáætlun kæranda var gerð 12. ágúst 2016. Aftur á móti telur úrskurðarnefnd að líta verði til þess að í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 3. maí 2016, varðandi afgreiðslu á umsókn kæranda um ellilífeyri, kemur fram við hvaða tekjur útreikningur Tryggingastofnunar miðast. Þar voru engar lífeyrissjóðstekjur tilgreindar. Þá er í bréfinu einnig ítrekuð upplýsingaskylda kæranda og að greiðslur séu reiknaðar út frá þeim upplýsingum sem birtast í bréfinu. Þrátt fyrir að mistök hafi verið gerð af hálfu Tryggingastofnunar við afgreiðslu umsóknar kæranda er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála, að virtum þeim upplýsingum sem fram komu í bréfi stofnunarinnar frá 3. maí 2017, að kærandi hafi mátt vita að gleymst hefði að taka tillit til lífeyrissjóðstekna kæranda. Þá má líta til þeirrar upplýsingaskyldu sem hvíldi á kæranda samkvæmt 39. laga um almannatryggingar.

Við mat á því hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður kæranda gefi tilefni til niðurfellingar lítur úrskurðarnefndin til þess að meðaltekjur kæranda síðustu sex mánuði áður en Tryggingastofnun tók niðurfellingarbeiðni hennar til skoðunar voru samkvæmt staðgreiðsluskrá X kr. á mánuði. Af gögnum málsins verður ráðið að eignir kæranda samkvæmt skattframtali séu umtalsverðar, auk þess sem skuldir séu óverulegar. Með hliðsjón af þessu telur úrskurðarnefnd að geta til endurgreiðslu sé fyrir hendi. Þá verður ekki ráðið af gögnum málsins að kærandi búi við erfiðar félagslegar aðstæður. Úrskurðarnefndin lítur til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar.

Af málatilbúnaði kæranda verður jafnframt ráðið að hún sé ósátt við fyrirkomulag innheimtunnar en með hinni kærðu ákvörðun var kveðið á um að frádráttur frá greiðslum hennar frá Tryggingastofnun yrði X kr. á mánuði frá 1. nóvember 2017 þar til skuldin yrði að fullu endurgreidd. Í kjölfar athugasemda kæranda var fyrirkomulagi innheimtunnar breytt. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. júní 2018, var kæranda tilkynnt um að stofnuninni hafi ekki verið heimilt að skuldajafna lífeyrisréttindum hennar hjá stofnuninni vegna hluta kröfunnar. Kærandi fékk í kjölfarið endurgreiðslu að fjárhæð X kr. Í bréfinu segir að krafa til innheimtu sé X kr. Heimilt sé að skuldajafna kröfu að fjárhæð X kr. þar sem upplýsingar um réttar fjármagnstekjur hafi ekki legið fyrir við greiðslu réttinda á árinu 201[6]. Sá hluti kröfu sem hafi myndast vegna mistaka við skráningu á tekjuáætlun væri X kr. Í bréfinu er farið fram á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar.

Í athugasemdum kæranda frá 18. júní 2018 er þeirri staðhæfingu Tryggingastofnunar ríkisins mótmælt að heimild sé til skuldajöfnunar vegna kröfu að fjárhæð X kr. Farið er fram á að Tryggingastofnun ríkisins verði einnig gert að endurgreiða þann hluta kröfunnar.

Ákvæði 1. og 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar hljóðar svo:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.

Ef tekjutengdar bætur samkvæmt lögum þessum eru ofgreiddar af Tryggingastofnun eða umboðum hennar skal það sem er ofgreitt dregið frá öðrum tekjutengdum bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Þetta á eingöngu við ef tekjur á ársgrundvelli eru hærri en lagt var til grundvallar við útreikning bóta og ofgreiðsla stafar af því að bótaþegi hefur ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður, sbr. 39. gr.“

Samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar er það meðal annars skilyrði fyrir því að Tryggingastofnun sé heimilt að draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi öðlast síðar rétt til að ofgreiðslan stafi af því að bótaþegi hafi ekki tilkynnt Tryggingastofnun um tekjuaukninguna eða aðrar breyttar aðstæður.

Stærsti hluti kröfunnar á hendur kæranda, þ.e. krafa að fjárhæð X kr., stofnaðist vegna þess að á tímabilinu frá 1. maí 2016 til 31. ágúst 2016 var henni greitt líkt og hún hefði engar lífeyrissjóðstekjur. Aftur á móti er hluti kröfunnar, þ.e. að fjárhæð X kr., að rekja til þess að fjármagnstekjur kæranda voru hærri heldur en kærandi gerði ráð fyrir í tekjuáætlun. Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála stafar síðarnefnda krafan af því að kærandi tilkynnti Tryggingastofnun ekki um tekjuaukninguna. Því er heimilt að draga þá ofgreiðslu frá ellilífeyrisgreiðslum kæranda frá stofnuninni, sbr. 2. málsl. 2. mgr. 55. gr. laga um almannatryggingar.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að innheimta ofgreiddar bætur vegna ársins 2016 er staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að innheimta ofgreiddar bætur til A, vegna ársins 2016, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum