Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

Nr. 624/2017 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 14. nóvember 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 624/2017

Í stjórnsýslumáli nr. KNU17090054

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 27. september 2017, kærði [...], lögfr., f.h. [...], kt. [...], ríkisborgara [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. september 2017, um að synja kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi vegna náms.

Kærandi gerir aðallega þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kærunefnd útlendingamála vísi málinu aftur til Útlendingastofnunar til réttrar meðferðar. Til vara krefst kærandi þess að kærunefndin veiti kæranda endurnýjað dvalarleyfi á grundvelli yfirstandandi náms.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti fyrst um dvalarleyfi á grundvelli náms þann 20. desember 2016 og fékk leyfið veitt með gildistíma frá 28. apríl 2017 til 15. júlí 2017. Kærandi sótti um dvalar- og atvinnuleyfi vegna skorts á starfsfólki 4. maí 2017 en dró þá umsókn til baka 23. júní 2017. Þann 14. júní sótti kærandi um endurnýjun á dvalarleyfi fyrir námsmenn. Kærandi lagði inn námsferilsyfirlit frá Háskólanum á Bifröst, dags. 23. júní 2017, þar sem fram kom að kærandi náði engum einingum á vorönn 2017. Kærandi var skráður í sumaráfanga við háskólann sem hann lauk ekki samkvæmt upplýsingum Útlendingastofnunar. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 7. september 2017, var kæranda synjað um endurnýjun dvalarleyfis vegna náms. Ákvörðunin var afhent kæranda þann 14. september 2017. Framangreind ákvörðun var kærð til kærunefndar útlendingamála þann 27. september 2017. Kærunefnd óskaði þann 29. september 2017 eftir athugasemdum stofnunarinnar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd 6. október 2017. Greinargerð kæranda auk fylgigagna bárust kærunefnd með kæru þann 27. september 2017. Þann 17. október 2017 óskaði kærunefnd eftir upplýsingum frá Útlendingastofnun varðandi gögn málsins. Upplýsingarnar bárust daginn eftir.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar er byggð á því að kærandi uppfylli ekki skilyrði b-liðar 2. mgr. 65. gr. laga um útlendinga, sbr. 5. mgr. 65. gr. laganna, þar sem kærandi hafi ekki lokið a.m.k. 75% af fullu námi og þannig ekki sýnt fram á viðunandi námsárangur til endurnýjunar dvalarleyfis vegna náms. Fullt nám sé 30 einingar á önn og hafi kærandi ekki lokið neinum einingum. Að mati stofnunarinnar teljist útskýringar sem fram komu í námsyfirliti kæranda ekki til óviðráðanlegra aðstæðna, einkum í ljósi þess að um sé að ræða undanþágu sem skýra beri þröngt.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda byggir hann á því að ákvörðun Útlendingastofnunar sé gölluð að forminu til þar sem ákvörðunin byggi á röngum málsatvikum. Í ákvörðun Útlendingastofnunar sé byggt á því að kærandi hafi stundað nám á vor- og sumarönn sem hvorri hafi lokið með engum árangri. Grundvöllur ákvörðunarinnar byggi þannig á að hann hafi stundað nám tvær annir en ekki hafi verið um tvær annir að ræða (vor- og sumarönn). Kærandi hafi aðeins verið skráður í eitt samfellt nám frá febrúar til júlí sem sjáist berlega af fylgiskjali nr. 1 frá 5. desember 2016.

Fyrir liggi að kærandi hafi ekki lokið námi með viðunandi hætti en kærandi byggi á því að ómöguleiki hafi verið til staðar þar sem dvalarleyfið hafi verið veitt of seint sem hafi orsakað það að kærandi hafi ekki fengið að taka lokapróf í þeim áföngum sem hann hafi verið skráður í. Kærandi telji að orðalag lokamálsliðar 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga beri það með sér að ekki sé um tæmandi talningu að ræða. Eins og að framan greini hafi það verið kæranda óviðráðanlegt að Útlendingastofnun hafi tekið lengri tíma í umsóknina en ætla hafi mátt. Þá hafi það einnig verið honum óviðráðanlegt að Háskólinn á Bifröst hafi meinað kæranda að taka próf vegna þess hve seint dvalarleyfið hafi verið samþykkt.

Kærandi bendi á að frá fyrstu umsókn hafi legið fyrir að námið hafi átt að hefjast í byrjun febrúar en þrátt fyrir það hafi Útlendingastofnun ekki veitt dvalarleyfi fyrr en í lok mars. Ef gætt hefði verið að rannsóknarreglu stjórnsýslulaga hefðu starfsmenn stofnunarinnar ef til vill gert sé grein fyrir því að ómöguleiki gæti skapast fyrir kæranda og hefðu því ef til vill aldrei átt að veita dvalarleyfið í upphafi, vitandi það að námið hafi hafist mánuði áður en dvalarleyfið hafi verið veitt kæranda.

Þá byggi kærandi einnig á því að hann hafi fengið inngöngu á haustönn við Háskólann á Bifröst og að hann hafi verið í góðri trú um að fá áframhaldandi dvalarleyfi til að stunda nám þar sem ómöguleiki hafi verið fyrir hann að ljúka námi með þeim hætti sem lagt hafi verið upp með í upphafi. Kærandi telji ákvörðun Útlendingastofnunar sérstaklega íþyngjandi fyrir hann í ljósi þess að hann hafi þegar greitt fyrir námið og sé búinn að stunda það í rúmar fimm vikur er greinargerðin var lögð fram.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Mál þetta lýtur að því hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja umsókn kæranda frá 14. júní 2017 um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga.

Í 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga kemur fram að dvalarleyfi samkvæmt 65. gr. skal að jafnaði ekki veitt til lengri tíma en tólf mánaða í senn. Heimilt er að endurnýja dvalarleyfi samkvæmt ákvæðinu á námstíma ef útlendingur fullnægir áfram skilyrðum 1. og 2. mgr. og getur sýnt fram á viðunandi námsárangur, þar sem þess er krafist. Við fyrstu endurnýjun dvalarleyfis telst námsárangur viðunandi hafi útlendingur lokið samanlagt a.m.k. 75% af fullu námi á námsárinu. Heimilt er að víkja frá kröfunni um viðunandi námsárangur ef um er að ræða óviðráðanlegar ytri aðstæður, svo sem slys eða alvarleg veikindi.

Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga nr. 80/2016 kemur m.a. fram að sett hafi verið inn heimild til að endurnýja dvalarleyfi ef óviðráðanlegar ástæður valda því að fullnægjandi námsárangri hafi ekki verið náð. Þessar ástæður þurfa að vera óviðráðanlegar fyrir námsmanninn, svo sem alvarleg veikindi eða ef nauðsynleg námskeið falla niður. Það telst ekki til óviðráðanlegra ástæðna ef námsmaður er t.d. að vinna það mikið meðfram námi að hann nær ekki prófum, en nær að stunda vinnu þrátt fyrir veikindi. Við endurnýjun dvalarleyfis, sbr. 5. mgr., þarf að sýna fram á fullnægjandi námsárangur en með því er átt við að útlendingur hafi staðist samanlagt 75% af heildareiningafjölda tveggja anna og er nóg að leyfishafi nái t.d. 50% af heildareiningafjölda fyrstu annar ef hann nær a.m.k. 100% á næstu önn. Er þannig komið til móts við þá erlendu námsmenn sem kunna af ýmsum ástæðum að eiga erfitt með að fóta sig í náminu á fyrstu mánuðunum í nýju landi og við nýjar aðstæður eða ef skortur á framboði á námskeiðum í háskóla hamlar þátttöku í fullu námi.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum lauk kærandi engum ECTS einingum á fyrstu námsönn sinni, vorönn 2017. Kærandi lauk heldur engum einingum á sumarönn 2017 en samkvæmt gögnum málsins var hann skráður í einn 6 ECTS eininga áfanga sem hann lauk ekki. Samkvæmt upplýsingum frá Háskólanum á Bifröst var kærandi þátttakandi í sumarönn frá 22. maí til 30. júní en á þeim tíma hafi aðeins tvö námskeið verið í boði á ensku. Kærunefndin fellst því ekki á það með kæranda að grundvöllur ákvörðunar Útlendingastofnunar hafi verið rangur líkt og haldið er fram í greinargerð, enda hafi nám kæranda staðið yfir tvær annir. Jafnvel þótt kærandi myndi ná 100% námsárangri á næstu önn, þ.e. haustönn 2017, þá myndi það ekki duga til að fullnægja skilyrðinu um viðunandi námsárangur þar sem kærandi myndi þannig aðeins hafa staðist 50% af heildareiningafjölda á tveimur önnur og því á hann ekki möguleika á að standast 75% af heildareiningafjölda á tveimur önnum líkt og 5. mgr. 65. gr. laga um útlendinga gerir kröfu um. Hann hefur því ekki uppfyllt skilyrði 5. mgr. 65. gr. laganna um viðunandi námsárangur. Þá hefur kærandi að mati kærunefndar ekki sýnt fram á að óviðráðanlegar ytri aðstæður hafi valdið því að hann hafi ekki fullnægt þeirri kröfu.

Þá bendir kærunefnd á að á heimasíðu Útlendingastofnunar kemur fram að umsókn um námsmannadvalarleyfi þurfi að berast stofnuninni í síðasta lagi fyrir 1. nóvember ár hvert fyrir vorönn og fyrir 1. júní ár hvert fyrir haustönn, til að tryggt sé að leyfið verði afgreitt áður en skólahald hefst. Kærandi sótti hins vegar ekki um dvalarleyfi fyrr en 20. desember 2017. Á heimasíðu stofnunarinnar stendur jafnframt að ef umsókn berst of seint eða fylgigögn hennar eru ófullnægjandi, sé ekki unnt að tryggja að námsmannaleyfi verði afgreitt fyrir upphaf skólahaldsins.

Að öllu framangreindu virtu ber að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Kæranda ber að yfirgefa landið eigi síðar en 30 dögum frá móttöku þessa úrskurðar. 

 

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                   Árni Helgason


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum