Hoppa yfir valmynd

Norðankaldi slf. kærir ákvörðun Fiskistofu, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Brjánslækjar í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Storms BA-500, (6301).

Stjórnsýslukæra

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru frá Breka Bjarnasyni f.h. Norðankalda slf., Auðshaugi, Patreksfirði, dags. 11. janúar 2013, sem barst ráðuneytinu 16. sama mánaðar, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Brjánslækjar í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Storms BA-500, skipaskrárnúmer 6301.


Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Brjánslækjar í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Storms BA-500 (6301) og jafnframt að lagt verði fyrir Fiskistofu að úthluta byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins í samræmi við kröfur og málsástæður í stjórnsýslukærunni.

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 7. desember 2012, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 8. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 í nokkrum byggðarlögum, m.a. á Brjánslæk í Vesturbyggð, en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 21. desember 2012. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hafði þá úthlutað 282 þorskígildistonnum af byggðakvóta til sveitarfélagsins Vesturbyggðar á grundvelli reglugerðar nr. 629/2012, um úthlutun byggðakvóta til byggðarlaga á fiskveiðiárinu 2012/2013, sem skiptust á byggðarlögin Patreksfjörð, 164 þorskígildistonn og Bíldudal, 118 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt sveitarfélaginu Vesturbyggð með bréfi, dags. 19. október 2012. Einnig var flutt yfir á fiskveiðiárið 2012/2013 1 þorskígildistonn sem úthlutað hafði verið til byggðarlagsins Brjánslækjar í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 en þar sem ekki höfðu verið uppfyllt skilyrði fyrir úthlutun þess á því fiskveiðiári var það aflamark einnig til úthlutunar á fiskveiðiárinu 2012/2013, sbr. 9. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


Kærandi sótti um úthlutun byggðakvóta fyrir bátinn Storm BA-500 (6301) með umsókn til Fiskistofu, dags. 20. desember 2012.


Hinn 7. janúar 2013 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta í Vesturbyggð, m.a. á Brjánslæk, ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Kæranda var tilkynnt að hafnað væri umsókn hans um úthlutun byggðakvóta til bátsins Storms BA-500 (6301). Ákvörðun Fiskistofu var byggð á því að samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013, skuli eigandi fiskiskips gera skriflegan samning við fiskkaupanda um vinnslu afla sem landað verði hjá viðkomandi vinnslu, sem mótframlagi byggðakvóta. Samningurinn skuli undirritaður af eiganda/útgerðaraðila skipsins, fiskkaupanda, fiskverkanda og einnig skuli samningurinn vera áritaður fyrir hönd sveitarstjórnar. Afrit af samningi þessum skuli fylgja umsókn um byggðakvóta, sem ekki teljist gild nema hann fylgi með. Samningur samkvæmt umræddu ákvæði hafi ekki borist með umsókn um byggðakvóta fyrir skipið Storm BA-500 (6301), þannig að ekki komi til úthlutunar byggðakvóta til skipsins.

Þá kom fram í ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu.

 

Málsástæður í stjórnsýslukæru o.fl.

Með stjórnsýslukæru, dags. 11. janúar 2013, sem barst ráðuneytinu 16. sama mánaðar, kærði Breki Bjarnason f.h. Norðankalda slf. til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins framangreinda ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun af byggðakvóta Brjánslækjar í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Storms BA-500 (6301).


Í stjórnsýslukærunni segir m.a. að viðmiðun vegna byggðakvóta bátsins Storms BA-500 (6301) sé fengin með grásleppuveiðum en á þeim tíma sem kæra til ráðuneytisins var dagsett hafði enn engin reglugerð verið gefin út um grásleppuveiðar fyrir fiskveiðiárið 2012/2013. Því hafi ekki verið mögulegt að gera samning um vinnslu á grásleppu og hrognum þegar ekki hafi verið víst hvort veiðar yrðu leyfðar og þá hvort starfrækt yrði vinnsla í byggðarlaginu. Krafa um samning um vinnslu á þessu stigi væri því íþyngjandi og samrýmdist ekki meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins komi fram að ákvæði um byggðakvóta hafi á sínum tíma verið sett m.a. með hliðsjón af því markmiði að treysta atvinnu og byggð í landinu öllu. Það stangist á við yfirlýst markmið byggðakvótans að ekki sé unnt að úthluta byggðakvóta til einstakra aðila vegna ákvæða sem ekki sé mögulegt að uppfylla.


Með bréfi, dags. 17. janúar 2013, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.


Í umsögn Fiskistofu, dags. 5. febrúar 2013, segir m.a. að samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013, skuli eigandi fiskiskips gera skriflegan samning við fiskkaupanda um vinnslu afla sem landað verði hjá viðkomandi vinnslu, sem mótframlagi byggðakvóta. Kærandi hafi ekki framvísað slíkum samningi og því ekki uppfyllt skilyrði framangreindrar reglugerðar. Það skuli áréttað að framangreint skilyrði eigi við um vinnslu bolfisks. Þótt kærandi hafi aflað sér réttinda til byggðakvóta með grásleppuveiðum og þá að uppfylltum öðrum skilyrðum sem lög áskilji, sé vinnsla þess byggðakvóta óháð því hvernig stjórnvöld hagi leyfum til grásleppuveiða hverju sinni. Þá sé ekki fallist á að ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 um framvísun samnings um vinnslu fari í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða feli í sér ómöguleika. Slík regla styrki þau markmið sem lögum um byggðakvóta sé ætlað að ná, sem séu að efla vinnslu sjávarafla í viðkomandi byggðarlagi. Þótt stjórnvöld hafi ekki ákveðið með hverjum hætti grásleppuveiðar verði leyfðar árið 2013 feli það ekki í sér ómöguleika til samningsgerðar um vinnslu afla sem veiddur sé til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta.


Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins í ljósritum: staðfest afrit af hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013, yfirlit um úthlutun byggðakvóta á Brjánslæk í Vesturbyggð, dags. 7. janúar 2013, umsókn kæranda, dags. 20. desember 2012 o.fl.

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2013, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu til kæranda og veitti honum kost á að gera athugasemdir við umsögnina, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Frestur til þess var veittur til og með 7. mars 2013.


Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá kæranda, Norðankalda slf., um framangreinda umsögn Fiskistofu.


Með tölvubréfi frá 19. febrúar 2014 bárust ráðuneytinu einnig tiltekin gögn frá Fiskistofu.

 

Rökstuðningur

I. Stjórnsýslukæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum en þar kemur fram að ákvarðanir Fiskistofu um úthlutun aflaheimilda samkvæmt greininni sé heimilt að kæra til ráðuneytisins, þ.e. nú atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Að mati ráðuneytisins verður að skýra ákvæðið með hliðsjón af ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem einnig gilda um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Kæruheimild samkvæmt ákvæðinu byggir því að mati ráðuneytisins á því með sama hætti og gert er ráð fyrir í 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að kærðar séu tilteknar ákvarðanir sem teknar hafa verið um úthlutun aflaheimilda eða höfnun umsókna um aflaheimildir í byggðarlögum til einstakra fiskiskipa til þess að fá þær felldar úr gildi eða þeim breytt. Í 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir m.a. að lögin gildi þegar stjórnvöld, þar á meðal stjórnsýslunefndir, taki ákvarðanir um rétt eða skyldu manna en einnig kemur þar fram að þau gildi þó ekki um samningu reglugerða né annarra stjórnvaldsfyrirmæla.


Það er mat ráðuneytisins að málsástæður í stjórnsýslukæru í máli þessu varði að hluta aðeins efni reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013.


Ekki er unnt að kæra með stjórnsýslukæru til ráðuneytisins setningu reglugerða og annarra stjórnvaldsfyrirmæla, sbr. framangreint ákvæði 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ráðuneytið hafnar þegar af þeirri ástæðu kröfum kæranda um að breytt verði ákvæðum reglugerðar nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Stjórnsýslukæran beinist hins vegar jafnframt að tiltekinni ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013, um að hafna umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Storms BA-500 (6301) en umrædd ákvörðun er kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins samkvæmt framangreindu ákvæði 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006.


Með vísan til framanritaðs telur ráðuneytið ekki ástæðu til að vísa frá því kæruefni samkvæmt framangreindri stjórnsýslukæru og verður stjórnsýslukæran tekin til efnismeðferðar.


II. Um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 gildir ákvæði 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Í 5. mgr. greinarinnar er ráðherra falið að setja með reglugerð almenn skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda til fiskiskipa innan einstakra byggðarlaga. Skulu þau skilyrði m.a. varða skráningarstað, skráningartíma, eignarhald, skiptingu milli fiskiskipa, lágmarksverð, tryggingar fyrir greiðslum og framkvæmd úthlutunar.


Á grundvelli framangreinds ákvæðis hefur ráðherra sett reglugerð nr. 628/2012, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2012/2013. Í 1. gr. reglugerðarinnar eru talin upp almenn skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta á umræddu fiskveiðiári en þau eru: a) að skip hafi haft leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests, sbr. 4. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, b) að skip hafi verið skráð í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2012 og c) að skip hafi verið í eigu eða leigu einstaklinga eða lögaðila með heimilisfang í viðkomandi byggðarlagi 1. júlí 2012. Miðað skal við lögheimili einstaklinga samkvæmt þjóðskrá og heimilisfang lögaðila samkvæmt fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra.


Einnig eru í 4. gr. reglugerðarinnar viðmiðanir um úthlutun aflaheimilda til einstakra fiskiskipa en samkvæmt ákvæðinu er gert ráð fyrir að úthlutun aflaheimilda skuli fara fram til einstakra fiskiskipa sem uppfylla skilyrði reglugerðarinnar og reglur um sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í einstökum sveitarfélögum sem ráðuneytið hefur staðfest, eftir því sem við á, og skuli úthlutað hlutfallslega af því aflamarki sem fallið hefur til viðkomandi byggðarlags, miðað við allan landaðan botnfiskafla í tegundum sem hafa þorskígildisstuðla, í þorskígildum talið innan viðkomandi byggðarlags á tímabilinu 1. september 2011 til 31. ágúst 2012. Komi minna en 100 þorskígildiskíló í hlut fiskiskips samkvæmt framangreindum reglum fellur niður hlutur þess og skiptist hlutur þess milli annarra fiskiskipa frá sama byggðarlagi sem uppfylla skilyrði fyrir úthlutun í samræmi við skiptingu samkvæmt úthlutunarreglum. Ennfremur koma fram í ákvæðinu nokkrar reglur um úthlutun byggðakvóta miðað við tiltekin skilyrði o.fl.


Samkvæmt 5. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 getur ráðherra heimilað á grundvelli rökstuddra tillagna sveitarstjórnar að sett verði sérstök skilyrði fyrir úthlutun aflaheimilda í einstökum byggðarlögum sem víkja frá eða eru til viðbótar hinum almennu skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð, enda séu þau byggð á málefnalegum og staðbundnum ástæðum og í samræmi við hagsmuni viðkomandi byggðarlaga. Sambærilegt ákvæði er í 2. gr. reglugerðar nr. 628/2012.


Sett hafa verið sérstök skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta í Vesturbyggð, m.a. á Brjánslæk fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 samkvæmt framangreindu ákvæði með auglýsingu (III) nr. 1045/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta, sem ekki hafa áhrif á niðurstöðu þessa máls.


Um skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa á Brjánslæk í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 fer því eftir 10. gr. laga nr. 116/2006, ákvæðum reglugerðar nr. 628/2012 og auglýsingu (III) nr. 1045/2012.


Í 7. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006 kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga afla sem nemi í þorskígildum talið tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað skv. 2. tölul. 1. mgr. greinarinnar og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur. Ráðherra er heimilt að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna.


Í 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 er sambærilegt ákvæði og framangreint ákvæði en þar kemur fram að fiskiskipum sé skylt að landa til vinnslu innan hlutaðeigandi byggðarlaga á tímabilinu frá 1. september 2012 til 31. ágúst 2013 afla sem nemi, í þorskígildum talið, tvöföldu magni þeirra aflaheimilda sem þau fá úthlutað samkvæmt reglugerðinni og að úthlutun til þeirra skuli ekki fara fram nema að því leyti sem það skilyrði sé uppfyllt. Ráðherra er heimilt að fengnum rökstuddum tillögum sveitarstjórnar að víkja frá þessu skilyrði enda sé það gert á grundvelli málefnalegra og staðbundinna ástæðna. Einnig kemur fram í 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 að eigandi fiskiskips skuli gera skriflegan samning við fiskkaupanda um magn sem landað verði til vinnslu hjá viðkomandi vinnsluaðila, þar sem komi fram að vinnsluaðili skuldbindi sig til að vinna aflann og skal bæjar- eða sveitarstjórn árita samninginn til staðfestingar.


Umsókn kæranda um úthlutun byggðakvóta til bátsins Storms BA-500 (6301) fylgdi ekki samningur í samræmi við framangreint ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012 en samkvæmt því uppfyllti umsóknin ekki skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta fiskveiðiárið 2012/2013. Þá er ekki fallist á að framangreint ákvæði 6. gr. reglugerðar nr. 628/2012, fari í bága við meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða feli í sér ómöguleika til samningsgerðar um vinnslu afla til að uppfylla skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta.


Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013, um að hafna umsókn kæranda, Norðankalda slf., um úthlutun af byggðakvóta Brjánslækjar í Vesturbyggð fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Storms BA-500 (6301).


Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

 

Úrskurður

Ráðuneytið staðfestir ákvörðun Fiskistofu, dags. 7. janúar 2013, um að hafna umsókn kæranda, Norðankalda slf., um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2012/2013 til bátsins Storms BA-500, skipaskrárnúmer 6301.


Fyrir hönd ráðherra


Jóhann Guðmundsson.

Sigríður Norðmann.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum