Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtlendingam%C3%A1la

nr. 516/2019 - Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 30. október 2019 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 516/2019

í stjórnsýslumáli nr. KNU19070028

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 12. júlí 2019 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. júlí 2019, um að synja henni um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga. Kærandi krefst þess aðallega að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara er þess krafist að kæranda verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi þann 20. febrúar 2019. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun 12. og 13. júní 2019 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun, dags. 2. júlí 2019, synjaði Útlendingastofnun kæranda um alþjóðlega vernd ásamt því að synja henni um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Var sú ákvörðun kærð til kærunefndar útlendingamála þann 12. júlí 2019. Kærunefnd barst greinargerð kæranda þann 18. júlí 2019 ásamt fylgigögnum. Kærandi kom til viðtals hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. október 2019 ásamt talsmanni sínum og túlki.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki [...]. Þá byggir kærandi á því að hún sé í hættu vegna stjórnmálaskoðana og aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi.

Niðurstaða ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli kæranda var sú að kærandi sé ekki flóttamaður og henni skuli synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi skv. ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða skv. 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.

Kæranda var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra frestaði réttaráhrifum ákvörðunarinnar, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kemur fram að kærandi sé fædd og uppalin í [...]. Þar hafi hún búið að stærstum hluta ævi sinnar þar til hún hafi neyðst til að flýja landið í febrúar sl.

Í viðtölum hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá aðstæðum sínum [...]. [...] Kærandi hafi greint frá því að móðir hennar hafi látist [...] árið 2014 og að hún hafi komið að föður sínum látnum [...] árið 2017. [...] Kærandi og sambýlismaður hennar hafi óttast um líf sitt í [...] . [...].

Kærandi hafi ákveðið að flýja landið og lagt af stað 1. febrúar sl. Hún hafi greitt smyglara til að aðstoða hana við að fara yfir innri landamærin. Hún hafi dvalið í borginni [...] í um tvær vikur á meðan hún hafi beðið eftir að vegabréf hennar væri tilbúið. Kærandi hafi greint frá því að á meðan dvöl hennar hafi staðið hafi fjórir menn setið um hana. [...]. . Þeir hafi viljað fá hana til að aðstoða þá við að fá sambýlismann hennar til þeirra. Kærandi hafi greint frá því að mennirnir hafi hótað henni og sagt henni að ef hún yrði ekki samvinnuþýð yrði mál búið til á hendur henni, hún misnotuð kynferðislega, myrt og lík hennar látið hverfa. Mennirnir hafi gefið henni viku til að verða við kröfum þeirra. Í kjölfarið hafi kærandi farið á lögreglustöð í [...] til að leggja fram kæru en að lögreglumennirnir hafi neitað henni um aðstoð [...]. Kærandi hafi skrifað bréf til yfirstofnunar saksóknara daginn eftir en ekki fengið svar. Kærandi telji að hún geti ekki fengið vernd [...] og það sé ómögulegt fyrir hana að búa [...] yfirvalda [...] Kærandi óttist bæði yfirvöld og almenning í heimalandi sínu. [...] [...]. [...]

Kærandi krefst þess aðallega að henni verði veitt viðbótarvernd á grundvelli 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Ástæður flótta kæranda frá heimaríki sé fyrst og fremst vegna ástands [...] [...] . Þar hafi ríkt stríðsástand allt frá því að átök hafi brotist út [...]. Þeir sem þar eru búi við raunverulega hættu á að sæta pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða verða fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum.

Hvað varði möguleika á flutningi kæranda innanlands í heimaríki vísar kærandi til þess að við það mat skuli hafa til hliðsjónar leiðbeiningar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Í þeim komi m.a. fram að flutningur komi ekki til greina verði einstaklingur ennþá berskjaldaður fyrir ofsóknum á hinum nýja stað. Þá skuli skoða sögu einstaklings um þær ofsóknir sem hann hafi orðið fyrir og jafnframt hvort grundvallarmannréttindi séu virt í heimaríki. Þá skuli samkvæmt athugasemdum með 4. mgr. 37. gr. í frumvarpi sem varð að lögum um útlendinga nr. 80/2016 fara fram einstaklingsbundið mat á aðstæðum umsækjanda og þeim aðstæðum sem séu í heimaríki hans. Kærandi hafi greint frá því að hún geti ekki búið annars staðar í heimaríki og verið örugg enda væri hún [...]. [...] Óttist hún bæði líkamlegt ofbeldi og að vera sett í fangelsi. Þá sé almenningur í [...] óvinveittur fólki frá yfirráðasvæði [...]. Enn fremur hafi hún greint frá því að áður en hún hafi verið formlega skráð [...], hafi hún tvívegis freistað þess að skrá sig [...]. Ljóst sé að kærandi geti ekki skráð sig hjá [...]. Í greinargerðinni kemur fram að vegalausir einstaklingar frá [...] búi við töluverða mismunun á yfirráðasvæði [...] og eigi almennt í erfiðleikum með að finna húsnæði og vinnu auk þess sem þeim hafi reynst erfitt að sækja ýmisleg réttindi á borð við menntun, læknisþjónustu og félagslegar bætur. Áætlanir sem hafi miðað að því að bæta stöðu þeirra hafi ekki skilað árangri enda skorti á að nægilegu fjármagni og mannauði sé varið í að hrinda slíkum áætlunum í framkvæmd.

Í greinargerð er vakin athygli á ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 11. júní 2018 í máli nr. 2017- 05591 [...] Kærandi telur að þau sjónarmið sem lögð hafi verið til grundvallar í framangreindri ákvörðun eigi einnig við í hennar máli. Kærandi telur að það sé ótækt að láta reyna á innri flutning þegar fyrir liggi samkvæmt framangreindri ákvörðun og fyrirliggjandi landaupplýsingum að sú meðferð sem bíði hennar af hálfu bæði yfirvalda og almennings í heimaríki sé með öllu óforsvaranleg. Þá er vakin athygli á því að með vísan til leiðbeininga Flóttamannastofnunar beri að gefa umsækjanda um alþjóðlega vernd augljósa og fullnægjandi tilkynningu um að viðkomandi stjórnvald sé að íhuga hvort flutningur hans innanlands sé raunhæft og sanngjarnt úrræði áður en ákvörðun í máli hans sé tekin og honum gefið tækifæri á að koma fram með andsvör við því.

Þá myndi endursending kæranda til heimaríkis hennar jafnframt brjóta gegn grundvallarreglu þjóðarréttar um non-refoulement sem lögfest sé í 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga.

Til vara gerir kærandi þá kröfu að henni verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Ákvæðið geti samkvæmt athugasemdum með frumvarpi sem varð að núgildandi lögum um útlendinga tekið til óvenjulegra aðstæðna á borð við langvarandi stríðsástand í heimaríki. Þá heimili ákvæðið einnig að veita dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða ef útlendingur getur sýnt fram á ríka þörf fyrir vernd svo sem vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi telur að þegar aðstæður hennar séu metnar heildstætt sé ljóst að yrði henni gert að snúa aftur til heimaríkis bíði hennar afar erfiðar félagslegar aðstæður þar [...] Með hliðsjón af því sem hafi verið rakið, almennum aðstæðum í heimaríki kæranda og félagslegum aðstæðum hennar, telur kærandi að skilyrði 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga til að veita henni dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða séu uppfyllt.

Kærandi gerir í greinargerð athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar í máli hennar. Er í fyrsta lagi gerð athugsemd við þá ályktun sem stofnunin dregur af ferðalagi kæranda til [...] [...] Með tilliti til ástandsinsog framlagðra gagna hafi verið sýnt fram á að hæfilegu marki að dvöl í [...] yrði henni óbærileg. Allan vafa beri að túlka kæranda í hag. Þá hafi í ákvörðun Útlendingastofnunar verið tiltekið að það skjóti skökku við að kærandi hafi fengið útgefið ferðaskilríki frá [...] þegar tekið sé mið af staðhæfingu hennar um að hún sé á skrá [...]. Kærandi hafi lýst því hvernig henni hafi tekist að fá umrædd vegabréf útgefið. Hún hafi leitað til aðila sem hafi mútað starfsmönnum yfirvalda til þess að fá vegabréfið hratt og örugglega og hún og sambýlismaður hennar hafi greitt háar fjárhæðir fyrir.

Í öðru lagi gerir kærandi athugasemd við mat á möguleikum á innri flutningi. Ljóst sé að kærandi hefur búið á [...] ár og hún hafi lýst sálrænum áhrifum þess að fara að sofa á hverju kvöldi óviss um að hún myndi vakna daginn eftir. Útlendingastofnun taki fram í ákvörðun sinni að kærandi sé við ágæta heilsu og vinnufær og að öllum sé tryggður réttur til heilbrigðisþjónustu samkvæmt stjórnarskrá ríkisins. Að mati kæranda hafi stofnunin ekki tekið tillit til þeirra erfiðleika sem vegalausir standi frammi fyrir þegar komi að því að finna atvinnu, útvega húsnæði og nálgast heilbrigðisþjónustu. Þá sé staða kæranda enn verri en hins almenna vegalausa borgara enda hafi hún starfað fyrir fyrrnefnda [...]. Leiða megi líkur að því að þau tengsl geri hana sérstaklega berskjaldaða gagnvart [...]. Að öllu framangreindu virtu sé ljóst að persónulegar aðstæður kæranda myndu valda því að innri flutningur yrði henni ótilhlýðilega þungbær og því sé íslenskum stjórnvöldum ekki stætt á öðru en að veita kæranda vernd.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Lagagrundvöllur

Í máli þessu gilda einkum ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016, reglugerð nr. 540/2017 um útlendinga, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Jafnframt ber að líta til ákvæða alþjóðasamnings um stöðu flóttamanna frá 1951, ásamt viðauka við samninginn frá 1967, og annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

Auðkenni

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að til að sanna á sér deili hafi kærandi framvísað [...] vegabréfi. Telur kærunefndin því ljóst að kærandi sé [...] ríkisborgari.

Landaupplýsingar

Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður í [...] m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum:

[...][...] Innanríkisráðuneytið í [...] ber ábyrgð á innra öryggi landsins og hefur eftirlit með lögreglu og öðrum lögregluyfirvöldum. Í landinu sé auk þess starfrækt leyniþjónusta [...] sem hafi það hlutverk að tryggja öryggi ríkisins m.a. með því að sporna við hryðjuverkum. Í framangreindum gögnum segir að lögregluyfirvöld hafi verið sökuð um pyndingar og grimmilega meðferð á borgurum landsins, svo sem á einstaklingum í varðhaldi, í þeim tilgangi að þvinga fram játningu. [...] Fram kemur að refsileysi vegna spillingar og brotalama í réttarvörslukerfinu sé umtalsvert vandamál í landinu, en yfirvöld hafi sjaldan gripið til aðgerða til að refsa vegna ofbeldis af hálfu löggæsluyfirvalda. Þá kveði mannréttindasamtök og Sameinuðu þjóðirnar að rannsóknum á brotum löggæsluyfirvalda á mannréttindum, [...].

Þá kemur fram í gögnum, m.a. ofangreindri skýrslu bandaríska utanríkisráðuneytisins, að spilling sé viðvarandi vandamál í [...] og birtist helst innan löggæslu- og dómskerfisins. Þá séu margar stofnanir sem starfi við að rannsaka og ákæra í spillingarmálum. Samtökin [...] rannsaki spillingu hjá yfirvöldum á meðan lögreglan annist rannsókn spillingarmála á lægri stigum löggæslu. Í skýrslunni komi fram að [...] rannsaki spillingu með skilvirkum hætti en rannsókn lögreglunnar hafi ekki verið mjög árangursrík. Þá veigri margir íbúar landsins sér við því að tilkynna spillingu innan stjórnkerfisins vegna skorts á viðeigandi úrræðum til að veita þeim stuðning og vernd. Þá kemur fram í ofangreindri skýrslu kanadísku útlendingamálanefndarinnar frá 2017 að í [...] sakamálalögum sé kveðið á um framkvæmd þess að leggja fram kvörtun til lögreglu og saksóknarembættisins. Þá sé í sakamálalögum kveðið á um við hvaða aðstæður heimilt sé að áfrýja athöfnum eða athafnaleysi lögreglu, falla undir þau tilvik m.a. ákvörðun lögreglu um að neita að rannsaka brotlega háttsemi, stöðva rannsókn eða fella rannsókn niður.

Ákvæði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sem byggir á A-lið 1. gr. flóttamannasamningsins, segir:

Flóttamaður samkvæmt lögum þessum telst vera útlendingur sem er utan heimalands síns af ástæðuríkum ótta við að vera ofsóttur vegna kynþáttar, trúarbragða, þjóðernis, aðildar að tilteknum þjóðfélagshópi eða vegna stjórnmálaskoðana og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta færa sér í nyt vernd þess lands; eða sá sem er ríkisfangslaus og er utan þess lands þar sem hann áður hafði reglulegt aðsetur vegna slíkra atburða og getur ekki eða vill ekki vegna slíks ótta hverfa aftur þangað, sbr. A-lið 1. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna frá 28. júlí 1951 og bókun við samninginn frá 31. janúar 1967, sbr. einnig 38. gr. laga þessara.

Í 38. gr. laga um útlendinga eru sett fram viðmið um það hvað felist í hugtakinu ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr., á hvaða grundvelli ofsóknir geta byggst og hvaða aðilar geta verið valdir að þeim. Í 1. mgr. ákvæðisins segir:

Ofsóknir skv. 1. mgr. 37. gr. eru þær athafnir sem í eðli sínu eða vegna þess að þær eru endurteknar fela í sér alvarleg brot á grundvallarmannréttindum, einkum ófrávíkjanlegum grundvallarmannréttindum á borð við réttinn til lífs og bann við pyndingum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, bann við þrældómi og þrælkun og bann við refsingum án laga. Sama á við um samsafn athafna, þ.m.t. ólögmæta mismunun, sem hafa eða geta haft sömu eða sambærileg áhrif á einstakling.

Í 2. mgr. 38. gr. laga um útlendinga er fjallað um í hverju ofsóknir geta falist. Þá eru þær ástæður sem ofsóknir þurfa að tengjast skilgreindar nánar í 3. mgr. 38. gr. laganna.

Í 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga kemur fram að þeir aðilar sem geta verið valdir að ofsóknum eða ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð séu:

a. ríkið,

b. hópar eða samtök sem stjórna ríkinu eða verulegum hluta landsvæðis þess,

c. aðrir aðilar, sem ekki fara með ríkisvald, ef sýnt er fram á að ríkið eða hópar eða samtök skv. b-lið, þ.m.t. alþjóðastofnanir, geti ekki eða vilji ekki veita vernd gegn ofsóknum eða meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr., m.a. með því að ákæra og refsa fyrir athafnir sem fela í sér ofsóknir.

Orðasambandið „ástæðuríkur ótti við við að vera ofsóttur“ í 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga inniheldur huglæga og hlutlæga þætti og þarf að taka tillit til hvors tveggja þegar mat er lagt á umsókn um alþjóðlega vernd. Mat á því hvort ótti umsækjanda sé ástæðuríkur getur verið byggt á persónulegri reynslu umsækjanda sem og á upplýsingum um ofsóknir sem aðrir í umhverfi hans eða þeir sem tilheyra sama hópi hafa orðið fyrir. Umsækjandi sem hefur sýnt fram á að hann hafi þegar orðið fyrir ofsóknum í heimaríki, sbr. 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga, eða beinum og marktækum hótunum um slíkar ofsóknir, yrði almennt talinn hafa sýnt fram á ástæðuríkan ótta við slíkar ofsóknir snúi hann aftur til heimaríkis nema talið verði að miklar líkur séu á því að slíkar ofsóknir yrðu ekki endurteknar, t.d. þar sem aðstæður í heimaríki hans hafi breyst. Þótt umsækjandi um alþjóðlega vernd skuli njóta vafa upp að ákveðnu marki, verður umsækjandinn með rökstuddum hætti að leiða líkur að því að hans bíði ofsóknir í heimaríki. Frásögn umsækjanda og önnur gögn um einstaklingsbundnar aðstæður hans verða því almennt að fá stuðning í hlutlægum og áreiðanlegum upplýsingum um heimaríki umsækjanda, stjórnvöld, stjórnarfar og löggjöf þess. Þá er litið til sambærilegra upplýsinga um ástand, aðstöðu og verndarþörf þess hóps sem umsækjandi tilheyrir eða er talinn tilheyra.

Kærunefnd hefur við mat sitt á umsókn kæranda haft til hliðsjónar handbók Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna um málsmeðferð og viðmið við mat á umsókn um alþjóðlega vernd (Handbook and Guidelines on Procedures and Criteria for Determining Refugee Status, Genf 2011). Þá hefur aðferðarfræði trúverðugleikamats kærunefndar tekið mið af skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og Flóttamannasjóðs Evrópusambandsins um trúverðugleikamat, eftir því sem við á (Beyond Proof: Credibility Assessment in EU Asylum Systems, Brussel 2013).

Kærandi hefur borið fyrir sig að hún sé í hættu í [...] heimaríki vegna vopnaðra átaka sem þar eigi sér enn stað.

Í viðtali hjá kærunefnd þann 8. október 2019 greindi kærandi frá því að hún hafi unnið ýmis störf fyrir [...], yfirmann sinn [...], [...] [...] .

Kærandi hafi farið [...] í febrúar sl. með aðstoð smyglara[...]. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá áreiti og hótunum af hendi fjögurra einstaklinga. Þegar kærandi hafi leitað til lögreglunnar hafi þeir ekki viljað taka við kæru hennar [...]. Hún hafi því skrifað bréf til yfirstofnunar saksóknara en ekki fengið svar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun kvað kærandi atvikið hafa átt sér stað þann 10. febrúar 2019, en hún hafi farið á lögreglustöðina daginn eftir og sent bréf til yfirstofnunar saksóknara daginn eftir það, þann 12. febrúar s.á. Hún hafi fengið vegabréf tveimur dögum seinna, þann 14. febrúar s.á. og yfirgefið landið í kjölfarið, þann 17. febrúar 2019. Ljóst er að tiltölulega skammur tími leið frá umræddu atviki og þar til kærandi yfirgaf heimaríki.

Eins og fram hefur komið þá kom kærandi í viðtal hjá kærunefnd og greindi frá atvikum máli sínu til stuðnings. Að mati kærunefndar var framburður kæranda trúverðugur og verður ekki dregið í efa að kærandi [...] Það er þó mat kærunefndar að kærandi hafi ekki orðið fyrir eða eigi á hættu að verða fyrir áreiti af hálfu [...] stjórnvalda sem nái því marki að teljast ofsóknir í skilningi 1. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur ekki borið fyrir sig að sú hætta sem hún telji sig vera í [...] tengist ástæðum sem 1. mgr. 37. gr. vísar til, sbr. 3. mgr. 38. gr. laganna. Þá benda önnur gögn málsins, þ.m.t. skýrslur um heimaríki kærenda, ekki til þess að grundvöllur þeirrar hættu tengist nefndum ástæðum. Af því leiðir að sú hætta sem kærandi kann að vera í [...] geti ekki verið grundvöllur til veitingar alþjóðlegrar verndar með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til ofangreinds er það niðurstaða kærunefndar að kærandi hafi ekki með rökstuddum hætti leitt líkur að því að hún hafi ástæðuríkan ótta við ofsóknir í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga, sbr. 1. mgr. 38. gr. laganna.

Telur kærunefnd því ljóst að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga fyrir viðurkenningu á stöðu sem flóttamaður hér á landi.

Ákvæði 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga er útlendingur einnig flóttamaður ef, verði hann sendur aftur til heimaríkis síns, raunhæf ástæða er til að ætla að hann eigi á hættu að sæta dauðarefsingu, pyndingum eða annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu eða hann verði fyrir alvarlegum skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki er greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka. Sama gildir um ríkisfangslausan einstakling.

Í ákvörðun sinni féllst Útlendingastofnun á að kærandi ætti á hættu að verða fyrir meðferð sem lýst er í 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga [...]. Að virtum framburði kæranda hjá Útlendingastofnun og framangreindum upplýsingum um aðstæður [...] telur kærunefnd að ekki séu forsendur til þess að hnekkja mati Útlendingastofnunar um að kærandi eigi á hættu að verða fyrir meðferð sem fellur undir 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga á því svæði.

Mat á möguleika á flutningi innanlands

Í 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga segir að ef útlendingur getur fengið raunverulega vernd í öðrum landshluta heimalands síns en hann flúði frá, viðkomandi getur ferðast þangað á öruggan og löglegan hátt og hægt er með sanngirni að ætlast til þess af viðkomandi að hann setjist að á því svæði getur verið að 1. og 2. mgr. eigi ekki við í þeim tilvikum og hann teljist ekki flóttamaður. Niðurstaða um hvort útlendingur geti fengið raunverulega vernd í öðrum hluta heimalands skuli byggð á einstaklingsbundnu mati á persónulegum aðstæðum útlendingsins og þeim aðstæðum sem séu í því landi. Við mat á því hvort hægt sé með sanngirni að ætlast til þess að útlendingur setjist að á því svæði sem talið er öruggt samkvæmt ákvæði þessu skuli tekið tillit til ýmissa þátta, svo sem aldurs, kyns, heilsu, fjölskylduaðstæðna, trúar, menningar sem og möguleika viðkomandi útlendings á vinnu eða menntun. Við mat samkvæmt ákvæðinu skuli m.a. höfð hliðsjón af leiðbeiningum flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (Guidelines on International Protection: „Internal Flight or Relocation Alternative“ within the Context og Article 1A(2) of the 1951 Convention and/or 1967 Protocol relating to the Status of Refugees, frá 23. júlí 2003).

Í leiðbeiningunum, sem varða möguleika á flutningi innanlands þegar einstaklingur hefur flúið heimaríki af ástæðuríkum ótta við ofsóknir, er lagt til grundvallar að mat á því hvort möguleiki sé á að einstaklingur geti flust búferlum til annars svæðis í heimaríki sé tvíþætt. Annars vegar verði að kanna hvort flutningur innanlands sé raunhæft úrræði. Að því er mál kæranda varðar kemur í þessu sambandi einkum til athugunar hvort það svæði sem lagt er til að hún flytjist til sé aðgengilegt á öruggan og löglegan hátt og hvort flutningur hennar þangað skapi hættu á að kærandi verði fyrir ofsóknum eða alvarlegum skaða. Hins vegar beri að kanna hvort viðkomandi geti, með hliðsjón af aðstæðum í heimaríki hans, lifað tiltölulega eðlilegu lífi án þess að standa frammi fyrir óþarfa erfiðleikum. Við þann þátt matsins verður m.a. að horfa til persónulegra aðstæðna viðkomandi, t.a.m. félags- og efnahagslegra aðstæðna á því svæði sem lagt er til. Í leiðbeiningunum segir m.a. um síðastnefnt atriði að það sé ósanngjarnt að ætlast til þess lífsviðurværi einstaklings verði lægra en það sem talist geti viðunandi eða að viðkomandi búi við eymd.

Kærandi hefur borið fyrir sig að verða fyrir mismunun [...]. Þau gögn sem kærunefnd hefur kannað um , [...] aðstæður á yfirráðasvæði úkraínskra yfirvalda styðja þá frásögn kæranda að einstaklingar frá svæðum sem séu undir [...] verði fyrir einhverri mismunun og áreitni. Í þeim gögnum sem kærunefnd hefur kynnt sér kemur fram að átök í [...]. Þá er ljóst að ferðafrelsi fólks frá þeim héruðum yfir til þess hluta [...] sem lýtur stjórn [...] er að einhverju leyti takmarkað. Hins vegar kemur fram í gögnum að fjöldi fólks hafi flust frá átakasvæðum [...] og sest að í öðrum í héruðum [...].

Samkvæmt stjórnarskrá [...] hafa ríkisborgarar landsins og aðrir sem séu í löglegri dvöl þar frelsi til frjálsrar farar innanlands og til að ráða búsetustað sínum. Af framangreindum gögnum má jafnframt ráða að [...] hafa reynt að aðstoða vegalausa við að setjast að á yfirráðasvæðum sínum.

Að mati kærunefndar bendir ekkert til annars en að önnur svæði í heimaríki kæranda, sem eru undir stjórn [...] stjórnvalda, séu henni aðgengileg á raunhæfan, öruggan og löglegan hátt. Þá liggur fyrir að kærandi er stödd hér á landi, er handhafi [...] vegabréfs sem hún hefur lagt fram hjá íslenskum stjórnvöldum og ætti því ekki að vera vandkvæðum bundið fyrir hana að komast til [...] Að uppfylltu fyrra skilyrði við mat á möguleika á flutningi innanlands verður því næst að taka afstöðu til þess hvort unnt sé, með hliðsjón af einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda og aðstæðum í heimaríki hennar, að ætlast með sanngirni til þess að kærandi setjist að á öðru svæði í [...].

Samkvæmt framangreindum gögnum stendur ríkisborgurum [...] sem skrá sig sem vegalausa til boða fjárhagsaðstoð og húsnæði á yfirráðasvæði [...] stjórnvalda. Hins vegar er ljóst af sömu gögnum að einstaklingar, sem hafa flust [...] eigi í mörgum tilvikum erfitt um vik með að aðlagast á nýjum stað. Samkeppni um atvinnu og húsnæði hafi leitt af sér mismunun gegn þeim á húsnæðis- og vinnumarkaði og þá fyrirfinnist gremja í garð þeirra sem koma frá [...].

Kærandi hefur borið fyrir sig að hún geti ekki flust til [...] úkraínskra stjórnvalda þar sem hún sé á svörtum lista hjá [...] vegna starfa sinna fyrir [...]. Kærandi hefur greint frá því að hún hafi í þrígang farið á yfirráðasvæði [...]. Í fyrsta skiptið árið [...] en þá hafi hún dvalið í eina viku. Árið [...] hafi hún farið á skrá sem vegalaus einstaklingur innan landsins og fengið úthlutað húsnæði og fjárhagsaðstoð. Málum sé hins vegar öðruvísi háttað núna, þar sem hún sé komin á lista [...]. Kærandi hafi í þriðja skiptið farið yfir innri landamærin með aðstoð smyglara til að verða sér úti um ferðaskilríki. Fjórir aðilar hafi ráðist inn til hennar þegar hún hafi verið stödd í [...] og einn þeirra hafi sagst vera starfsmaður [...]. Kærandi hafi reynt að leggja fram kæru vegna atviksins en lögreglan hafi ekki aðstoðað hana frekar.

Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 8. október 2019 og greindi nánar frá málsatvikum og aðstæðum sínum í heimaríki. [...] Að mati kærunefndar hefur framburður hennar verið stöðugur og laus við mótsagnir. Þá er frásögn hennar [...] ennfremur studdur trúverðugum gögnum. [...] Með hliðsjón af framangreindu, gögnum málsins og skýrslum um heimaríki kæranda megi leiða að því líkur að kærandi eigi á hættu að verða fyrir áreiti og auknu eftirliti [...]. Þá er það mat kærunefndar að af þeim sökum muni kærandi eiga erfiðara með að fá aðstoð [...] við að setjast að á nýjum stað innan [...], s.s. fjárhagslega aðstoð og aðstoð við að finna sér húsnæði og atvinnu auk þess sem kærandi nýtur ekki stuðnings fjölskyldu í heimaríki sínu. Einnig megi telja líklegt að kærandi hafi, [...] takmarkaðra aðgengi að viðeigandi vernd stjórnvalda en aðrir einstaklingar á innri flótta í [...] Með vísan til framangreinds er það mat kærunefndar að ekki sé hægt með sanngirni að ætlast til þess að kærandi setjist að annars staðar [...], sbr. 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framansögðu er það mat kærunefndar að skilyrði 4. mgr. 37. gr. laga um útlendinga um flutning innanlands séu ekki uppfyllt og telst kærandi því flóttamaður.

Alþjóðleg vernd á grundvelli 40. gr. laga um útlendinga

Þar sem kærunefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að kærandi eigi ekki möguleika á flutningi innanlands telst hún flóttamaður skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og á rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi skv. 40. gr. laganna, enda er hún stödd hér á landi og fellur ekki undir ákvæði 2. mgr. 40. gr. sömu laga.

Samantekt

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið og forsendna hinnar kærðu ákvörðunar þykir rétt að fella ákvörðun Útlendingastofnunar úr gildi.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Kærandi telst flóttamaður skv. 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og er veitt alþjóðleg vernd með vísan til 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að veita kæranda dvalarleyfi á grundvelli 73. gr. laga um útlendinga.

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The appellant is a refugee according to Article 37, paragraph 2, of the Act on Foreigners, and is granted international protection according to Article 40, paragraph 1, of the same law. The Directorate is instructed to issue to the appellant a residence permit on the basis of Article 73 of the Act on Foreigners.

Hjörtur Bragi Sverrisson

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                       Þorbjörg Inga Jónsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum