Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 367/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 367/2017

Miðvikudaginn 21. febrúar 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 7. október 2017, kærði B hdl., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. ágúst og 4. september 2017 þar sem kæranda var synjað um heimilisuppbót.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um heimilisuppbót frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 11. janúar. 2017, samhliða umsókn um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Tryggingastofnun samþykkti greiðslu heimilisuppbótar frá 1. mars 2017 til 31. maí 2017 með bréfi, dags. 29. ágúst 2017. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 4. september 2017, var kæranda synjað um áframhaldandi greiðslu heimilisuppbótar. Kærandi óskaði eftir rökstuðningi Tryggingastofnunar fyrir ákvörðuninni með tölvubréfi 15. september 2017 og var hann veittur með bréfi, dags. 11. október 2017. Undir rekstri þessa máls tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun í málinu, dags. 6. desember 2017, þar sem samþykkt var greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. júní 2017 til 28. febrúar 2018.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 11. október 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. nóvember 2017, barst greinargerð Tryggingastofnunar og var hún kynnt lögmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Með bréfi, dags. 15. nóvember 2017, bárust athugasemdir frá lögmanni kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 21. nóvember 2017. Greinargerð Tryggingastofnunar barst með bréfi, dags. 7. desember 2017. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 11. desember 2017, var greinargerð Tryggingastofnunar send lögmanni kæranda og óskað eftir afstöðu hans til greinargerðarinnar. Með bréfi, dags. 21. desember 2017, bárust athugasemdir lögmanns kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. janúar 2017. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru segir að kærðar séu ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. ágúst 2017 og 15. september 2017, um að synja kæranda um greiðslu heimilisuppbótar frá 1. júní 2017.

Aðalkrafa kæranda er sú að framangreindar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins verði felldar úr gildi og úrskurðað verði að stofnuninni beri að greiða kæranda heimilisuppbót frá og með 1. júní 2017. Til vara er þess krafist að framangreindar ákvarðanir verði felldar úr gildi og úrskurðað verði að stofnuninni beri skylda til að greiða kæranda heimilisuppbót frá 1. ágúst 2017. Til þrautavara krefst kærandi að nefndin felli úr gildi framangreindar ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins og vísi máli kæranda aftur til stofnunarinnar til löglegrar meðferðar.

Í kæru segir að kærandi hafi sótt um örorkulífeyri ásamt heimilisuppbót og verið metinn 14. ágúst 2017 með 75% örorku. Kæranda hafi verið synjað um greiðslu heimilisuppbótar með ákvörðun, dags. 29. ágúst 2017. Með tölvupósti, dags. 15. september 2017, hafi verið farið fram á rökstuðning fyrir ákvörðun stofnunarinnar og þau svör hafi fengist að leigusamningur kæranda væri tímabundinn til 30. maí 2017 og væri því fallinn úr gildi. Ekki væri hægt að verða við umsókninni fyrr en öðrum leigusamningi væri skilað inn. Með tölvupósti, dags. 24. ágúst 2017, hafi kærandi sent Tryggingastofnun þinglýst eintak af umræddum leigusamningi.

Kærandi hafi bent á að hann hafi haldið áfram að nýta húsnæðið í X vikur eftir 30. maí 2017 og hafi greitt samkvæmt leigusamningnum. Samningurinn hafi því öðlast gildi sem ótímabundinn leigusamningur á grundvelli 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994. Hann hafi því uppfyllt skilyrði reglugerðar nr. 1052/2009, laga nr. 99/2007 og nr. 100/2007, auk þess sem yfirlýsingunni hafi verið þinglýst áður en hún hafi verið send Tryggingastofnun. Varðandi málsástæður og réttarheimildir í málinu sé í fyrsta lagi bent á að kærandi uppfylli öll skilyrði laga nr. 99/2007, nr. 100/2007 og reglugerðar nr. 1052/2009 til þess að fá greidda heimilisuppbót.

Í öðru lagi telji kærandi að Tryggingastofnun hafi ekki lagaheimild til að hafna umsókn hans á þeim grundvelli sem hún hafi gert. Af ákvæðum viðeigandi laga og reglugerða sé ekki að sjá að sérstök efnis- eða formskilyrði séu gerð um leigusamninga eða önnur skjöl sem nýtt séu til sönnunar um aðstæður umsækjanda um heimilisuppbót.

Samkvæmt 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 8. gr. reglugerðar nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, skuli greiða þeim sem sæki um heimilisuppbót slíka uppbót, ef hann uppfylli skilyrði framangreindra ákvæða og önnur skilyrði laga nr. 100/2007 og nr. 99/2007. Í framangreindum lögum og reglugerð sé hvergi fjallað um formskilyrði og efnisskilyrði leigusamninga eða leigusamninga sem skilyrði fyrir bótum, eins og fjallað hafi verið um í úrskurði úrskurðarnefndar um almannatryggingar nr. 130/2011.

Í lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins felist annars vegar að stjórnvald þurfi stoð/heimild í lögum fyrir ákvörðun sinni og hins vegar að ákvörðun þess megi ekki stangast á við lög. Lagastoð þurfi að vera fyrir því að gildum leigusamningi sé hafnað sem tækri sönnun fyrir aðstæðum sem uppfylli skilyrði framangreindra laga og reglugerðar.

Þá þurfi slík synjun jafnframt að standast próf málefnaleika þegar horft sé til undirliggjandi grundvallarreglna íslensks réttar um félagslega aðstoð og jafnræði á milli þeirra sem leita til Tryggingastofnunar, sbr. 76. og 65. gr. stjórnskipunarlaga nr. 33/1944, sbr. afleiddar reglur stjórnsýsluréttarins og laga nr. 99/2007 og nr. 100/2007.

Kærandi bendi á að Tryggingastofnun hefði verið mögulegt að óska eftir því að hann framvísaði greiðslukvittunum fyrir leigugreiðslum, enda hefðu slíkar kvittanir falið í sér sönnun fyrir því að hann væri að nýta og bera kostnað af heimili sem uppfylli skilyrði framangreindra laga og reglugerðar.

Með vísan til framangreinds telji kærandi að hvorugt framangreindra skilyrða lögmætisreglunnar séu uppfyllt. Af því leiði að fella beri úr gildi ákvörðunina og meta aðstæður kæranda samkvæmt fyrirliggjandi ákvæðum laga og reglugerða.

Í þriðja lagi byggi kærandi á því að leigusamningur hans hafi fullt gildi samkvæmt 59. gr. laga nr. 36/1994, sbr. 30. gr. laga nr. 63/2016. Tryggingastofnun geti ekki, svo að lögmætt sé, byggt á því að leigusamningur kæranda sé ekki gildur og þannig ekki fullnægjandi sönnun fyrir leigu á húsnæði. Hæstiréttur Íslands hafi í nýlegu máli nr. 251/2017 staðfest stöðu og gildi framangreindrar reglu í íslenskum leigurétti. Með framangreindu lagaákvæði hafi verið kveðið á um að tímabundinn leigusamningur skyldi við tilteknar aðstæður fá inntak ótímabundins leigusamnings. Skilyrðin hafi verið þau að leigjandi héldi áfram að nýta hið leigða húsnæði í átta vikur eftir að leigutíma hafi átt að ljúka og að leigjandi hafi greitt á sama tíma leigufjárhæð í samræmi við ákvæði samningsins. Kærandi bendi á að bæði þessi skilyrði séu uppfyllt í málinu, auk þess sem hann hafi fengið þinglýst yfirlýsingu um ótímabundna leigu á leiguhúsnæðinu.

Kærandi telji með vísan til framangreindra réttarheimilda að Tryggingastofnun geti ekki valið hvaða leigusamning hún telji gildan að almannatryggingarétti nema hafa sérstaka heimild í lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð. Kærandi telji slíka heimild ekki vera til staðar og geti vinnureglur stofnunarinnar ekki leitt til þess að stofnuninni sé þetta heimilt.

Þá bendi kærandi á að á meðan ekki séu sérákvæði um húsaleigusamninga í lögum um almannatryggingar eða lögum um félagslega aðstoð þá séu húsaleigulög sérlög um gildi leigusamninga með tilliti til laga nr. 99/2007 og nr. 100/2007. Með vísan til almennra reglna um gildisvið laga telji kærandi að húsaleigulög gildi um fyrirliggjandi álitaefni.

Kærandi telji að leiða megi af meginreglu íslensks réttar um innbyrðis samband lagabálka að húsaleigulög skuli kveða á um gildi leigusamninga og að önnur lög skuli viðurkenna gildi þeirra svo lengi sem sérákvæði í öðrum lögum leiði ekki til annars. Þá verði einnig að horfa til þess að lög nr. 63/2016 séu yngri lögum nr. 99/2007 og nr. 100/2007 og ættu forgangsreglur að leiða til þess að almenn framkvæmd á grundvelli síðarnefndu laganna víki fyrir hinni nýju reglu.

Varðandi samband aðal- og varakröfu geri kærandi í báðum tilfellum kröfu um afturvirka greiðslu heimilisuppbótar. Munurinn sé sá að aðalkrafan byggi á því að kærandi hafi allan tímann uppfyllt skilyrði almannatryggingaréttar fyrir heimilisuppbót á meðan varakrafan byggi á því að átta vikum frá 30. maí 2017 hafi stofnast réttur til heimilisuppbótar.

Þrautavarakrafa um heimvísun til Tryggingastofnunar sé byggð á því að stofnunin hafi ekki með fullnægjandi hætti rækt málsmeðferðarskyldur við afgreiðslu umsóknar kæranda, þ.e. skyldur stofnunarinnar samkvæmt 9. gr., 37. og 38. gr. laga nr. 100/2007 og 47. gr sömu laga, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Í athugasemdum kæranda við greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 9. nóvember 2017, segir að stofnunin hafi vísað til þess að ekki liggi fyrir upplýsingar í málinu um greidda leigu en stofnunin hafi ekki fyrr komið fram með ósk um slíkt heldur hafi ætíð sagt að skilyrði greiðslna væri nýr leigusamningur. Séu því lagðir fram greiðsluseðlar fyrir tímabilið 1. apríl 2017 til dagsins í dag.

Bent sé á að Tryggingastofnun beri leiðbeiningarskyldu gagnvart kæranda sem komi fram í 37. gr. laga um almannatryggingar, sbr. b. lið 2. mgr. 9. gr. sömu laga. Þá sé jafnframt vísað til rannsóknarskyldu stofnunarinnar sem fram komi í 38. gr. laga um almannatryggingar. Báðar framangreindar reglur eigi sér svo almennan grundvöll í 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig sé bent á að Tryggingastofnun sé bundin af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttarins hvað skilyrði fyrir heimilisuppbót varðar. Ásamt því sem Tryggingastofnun þurfi að gæta að jafnræði á milli þeirra sem leigja húsnæði annars vegar og þeirra sem eigi húsnæði hins vegar.

Í svari lögmanns kæranda við frávísunarkröfu Tryggingastofnunar segir að ákvörðun stofnunarinnar hljóði upp á greiðslur fyrir tímabilið 1. júní 2017 til 30. nóvember 2017. Í kæru sé gerð sú aðalkrafa að nefndin felli úr gildi ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. ágúst 2017 og 15. september 2017, og úrskurði að stofnuninni sé skylt að greiða kæranda heimilisuppbót frá og með deginum 1. júní 2017.

Í framangreindri kröfu felist viðurkenningarkrafa um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar á heimilisuppbót til kæranda á meðan uppfyllt séu skilyrði laga. Kæranda sé því ófært að falla frá kröfunni nema til staðar sé viðurkenning Tryggingastofnunar á ofangreindri greiðsluskyldu.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um stöðvun og/eða synjun áframhaldandi heimilisuppbótar frá 4. september 2017.

Kærandi hafi fengið samþykkta heimilisuppbót 29. ágúst 2017 í framhaldi af örorkumati hjá skoðunarlækni Tryggingastofnunar, dags. 4. júlí 2017. Gildistími örorkumats kæranda sé frá 1. mars 2017 til 28. febrúar 2019. Með bréfi, dags. 23. ágúst 2017, hafi kæranda verið sagt að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til lífeyrisþega sem búi einir að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og að leigjendur þurfi að skila inn húsaleigusamningi. Með bréfi, dags. 29. ágúst 2017, hafi verið samþykkt heimilisuppbót á grundvelli leigusamnings kæranda. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 4. september 2017, hafi kæranda verið synjað um áframhaldandi greiðslur heimilisuppbótar frá og með 1. [júní] 2017 þar sem að frá þeim tíma hafi kærandi ekki haft lengur gildan leigusamning.

Í áðurnefndu bréfi Tryggingastofnunar frá 4. september 2017 hafi kæranda jafnframt verið veittur frestur til andmæla og til að skila inn nýjum leigusamningi. Með tölvupósti lögmanns kæranda, mótteknum 24. ágúst 2017, hafi því verið lýst yfir að samkvæmt 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 væri kominn á ótímabundinn leigusamningur og því þyrfti ekki lengur leigusamning í tilviki kæranda. Einnig hafi komið fram að leigjandi greiði leigu til leigusala með því að greiða greiðsluseðla en hins vegar hafi engir slíkir greiðsluseðlar verið lagðir fram heldur einungis lýst yfir af leigjanda að þeir væru greiddir. Málinu til frekari stuðnings hafi verið lögð fram þinglýst yfirlýsing, dags. 24. ágúst 2017, þess efnis að kominn væri á ótímabundinn leigusamningur samkvæmt 59. gr. laga nr. 36/1994 án neinnar aðkomu leigusalans. Einnig hafi Tryggingastofnun ríkisins borist bréf frá lögmanni kæranda, dags. 23. ágúst 2017, og tölvupóstur, móttekinn 15. september 2017, þar sem óskað hafi verið eftir skýringum varðandi mál kæranda hjá stofnunni. Þeim erindum hafi verið svarað með bréfi stofnunarinnar, dags. 11. október 2017.

Fjallað sé um heimilisuppbót í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Þar segi að Tryggingastofnun sé heimilt að greiða þeim einhleypingi heimilisuppbót til viðbótar við tekjutrygginguna sem njóti óskertrar tekjutryggingar samkvæmt lögum um almannatryggingar og sé einn um heimilisrekstur, án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað.

Í reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri sé að finna almenn ákvæði um heimilisuppbót og aðrar uppbætur í I. kafla reglugerðarinnar og sérstakar reglur um heimilisuppbót í II. kafla.

Jafnframt komi fram 1. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð að ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar gildi um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við eigi.

Tryggingastofnun sé falið lögum samkvæmt að annast greiðslur almannatrygginga samkvæmt lögum um almannatryggingar svo og lögum um félagslega aðstoð. Stofnunin hafi auk þess eftirlitsskyldu með því að réttar bætur séu greiddar, sbr. 45. gr. sömu laga. Til þess að stofnuninni sé mögulegt að gegna hlutverki sínu sé henni nauðsynlegt að hafa aðgang að tilteknum upplýsingum. Umsækjanda og bótaþega sé því skylt að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta auk þess sem stofnunin hafi víðtækar heimildir til að afla upplýsinga frá öðrum aðilum, sbr. 43. gr. laga um almannatryggingar. Jafnframt sé bent á að samkvæmt 41. gr. laga um almannatryggingar sé Tryggingastofnun heimilt að fresta eða synja greiðslum ef umsækjandi veiti ekki upplýsingar sem nauðsynlegar séu til að ákvarða um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá segi í 39. gr. laga um almannatryggingar að umsækjanda og bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta.

Samkvæmt framlögðum gögnum málsins og þeim skilyrðum, sem lög og reglugerðir um heimilisuppbót setji, hafi Tryggingastofnun ekki verið heimilt að greiða kæranda heimilisuppbót eftir að leigusamningurinn rann út án þess að eitthvað meira kæmi til eins og einhverjar aðrar staðfestingar á því að kærandi hafi vissulega verið að greiða leigu á íbúð sem málið snúist um. Slíkar frekari staðfestingar gætu til dæmis verið yfirlýsing leigusala um að leigjandi væri að leigja hjá honum eða að fram yrðu lagðir greiðsluseðlar vegna leigu eða hreinlega yrði gerður nýr leigusamningur með framvirku leigutímabili. Í samskiptum við Tryggingastofnun hafi lögmanni verið leiðbeint um þetta.

Í bréfi Tryggingastofnunar til lögmanns kæranda, dags. 11. október 2017, hafi verið tekið sérstaklega fram að ein meginástæða þess stofnunin hafi ekki getað fallist á að einhliða yfirlýsing um að ótímabundinn leigusamningur væri kominn á væri ómöguleiki í eftirliti Tryggingastofnunar og þess vegna yrði að hafa virkan leigusamning til að geta veitt heimilisuppbót. Einnig hafi Tryggingastofnun bent á að 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 gæti aftur á móti veitt kæranda réttindi gagnvart sínum leigusala. Þrátt fyrir það yrði Tryggingastofnun að fá gildan leigusamning eða einhverskonar yfirlýsingu frá leigusala um að kærandi leigði í húsnæðinu og ef kærandi vildi endurnýja eða sækja um heimilisuppbót að nýju hjá Tryggingastofnun þá þyrfti hann að láta gera nýjan leigusamning með framvirku tímabili. Sjá meðal annars í þessu samhengi 39. gr. laga um almannatryggingar en þar komi fram að umsækjanda og bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun ríkisins allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta.

Í greinargerð kæranda í þessu máli sé fullyrt af hálfu lögmanns kæranda að samkvæmt hæstaréttardómi nr. 251/2017 sé hægt að draga þá reglu út frá úrskurði dómsins að ætíð sé komin á ótímabundinn leigusamningur ef leigjandi haldi áfram að greiða leigu í átta vikur eftir að tímabundinn leigusamningur renni út og leggi því fram til sönnunar staðfestingar á þeim leigugreiðslum frá leigjenda til leigusala. Í því samhengi vill Tryggingastofnun taka fram að kærandi hafi aldrei á neinum tímapunkti lagt fram neinar staðfestingar á því að leiga sé greidd til leigusala heldur hafi kærandi einungis lagt fram einhliða þinglýsta yfirlýsingu lögmanns síns til sýslumanns, án nokkurrar aðkomu leigusala um að ótímabundinn leigusamningur hafi komist á. Þrátt fyrir að Tryggingastofnun telji dóm Hæstaréttar í fyrrgreindu máli alls ekki neina fyrirmynd í úrskurðarmáli þessu, þar sem atvik dómsmálsins séu að allt öðrum toga og fjalli um einkamál á milli tveggja aðila í útburðarmáli vegna framleigu, vilji stofnunin á hinn bóginn undirstrika það sem hafi komið fram í fyrrnefndu bréfi stofnunarinnar að 59. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 gæti hins vegar veitt leigjandanum réttindi á hendur leigusala sínum.

Af því sögðu telji Tryggingastofnun að stöðvun/synjun stofnunarinnar á heimilisuppbót til kæranda vegna þess að leigusamningur hans hafi runnið út, hafi að fullu og öllu verið í samræmi við lög og þær reglugerðir sem gildi um heimilisuppbót. Enda verði samkvæmt því sem hafi komið fram hér áður að vera hægt fyrir Tryggingastofnun ríkisins að halda uppi eftirliti með því að bætur og önnur afleidd réttindi eins og heimilisuppbót séu rétt ákvarðaðar af stofnuninni. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta ákvörðun sinni.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar segir að borist hafi viðbótargögn í málinu í formi bankayfirlits kæranda og að fallist hafi verið á greiðslu heimilisuppbótar frá 1. júní 2017 til 28. febrúar 2018, sbr. bréf stofnunarinnar, dags. 6. desember 2017. Tryggingastofnun fari því fram á frávísun málsins hjá nefndinni.

IV. Niðurstaða

Kærðar er ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. ágúst og 4. september 2017 þar sem kæranda var synjað um greiðslur heimilisuppbótar.

Undir rekstri málsins lagði kærandi fram ný gögn sem leiddu til nýrrar ákvörðunar Tryggingastofnunar ríkisins þar sem fallist var á kröfu kæranda um áframhaldandi greiðslur heimilisuppbótar frá 1. júní 2017 til 28. febrúar 2018. Þá óskaði stofnunin eftir því í greinargerð, dags. 7. desember 2017, að úrskurðarnefnd velferðarmála vísaði kærunni frá þar sem fallist hafi verið á málsástæður kæranda um heimilisuppbót. Með bréfi, dags. 11. desember 2017, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til frávísunarkröfu Tryggingastofnunar. Afstaða kæranda barst með bréfi, dags. 21. desember 2017, þar sem kærandi hafnaði því að málinu yrði vísað frá í ljósi þess að krafa kæranda væri sú að nefndin felldi úr gildi kærðar ákvarðanir stofnunarinnar og að í þeirri kröfu fælist viðurkenningarskylda um greiðsluskyldu Tryggingastofnunar á heimilisuppbót til kæranda á meðan uppfyllt væru skilyrði laga.

Úrskurðarnefnd velferðarmála kveður upp úrskurði um tiltekin ágreiningsefni sem kunna að rísa á grundvelli laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 14. gr. laganna. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé til staðar á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins um heimilisuppbót til kæranda á tímabilinu 1. júní 2017 til 28. febrúar 2018. Eftir stendur ágreiningur um gildistíma ákvörðunar um rétt til heimilisuppbótar, þ.e. ágreiningur lýtur að tímabilinu frá 1. mars 2018. Þar sem enn er fyrir hendi ágreiningur á milli kæranda og Tryggingastofnunar ríkisins fellst úrskurðarnefndin ekki á frávísunarkröfu stofnunarinnar.

Í 8. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, með síðari breytingu, segir að heimilt sé að greiða heimilisuppbót til einhleyps lífeyrisþega sem býr einn og er einn um heimilisrekstur án þess að njóta fjárhagslegs hagræðis af sambýli eða samlögum við aðra um húsnæðisaðstöðu eða fæðiskostnað. Reglugerð nr. 1052/2009 um heimilisuppbót og uppbætur á lífeyri, með síðari breytingum var sett á grundvelli 5. mgr. 9. gr., sbr. 2. mgr. 14. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 8. og 9. gr. reglugerðarinnar eru skilyrði greiðslna heimilisuppbótar nánar útfærð.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Í 38. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um skyldu Tryggingastofnunar til þess að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin og þar á meðal að öll nauðsynleg gögn liggi fyrir. Þá er kveðið á um rétt og skyldu greiðsluþega til að taka þátt í meðferð máls, meðal annars með því að veita nauðsynlegar upplýsingar svo að hægt sé að taka ákvörðun í máli hans. Samkvæmt 45. gr. sömu laga er Tryggingastofnun skylt að sannreyna réttmæti bóta, greiðslna og upplýsinga sem ákvörðun um réttindi byggist á.

Samkvæmt greinargerð Tryggingastofnunar féllst stofnunin á að kvittanir um greiðslu fyrir leigu á húsnæði væru fullnægjandi gögn til að samþykkja áframhaldandi greiðslu heimilisuppbótar. Lögmaður kæranda heldur því fram, með vísan til fordæmis hæstaréttardóms í máli nr. 251/2017, að kominn væri á bindandi húsaleigusamningur á milli kæranda og leigusala. Í ljósi þess og þar sem þinglýst hafi verið einhliða yfirlýsingu þess efnis á leigða fasteign eigi Tryggingastofnun að afgreiða heimilisuppbót til handa kæranda.

Í 8. gr. laga um félagslega aðstoð eru tilgreind ákveðin skilyrði sem lífeyrisþegar þurfa að uppfylla til að öðlast rétt á heimilisuppbót. Í þeim tilvikum þegar einstaklingar eru leigjendur eru engin formskilyrði um eðli staðfestinga til að sýna fram á að umsækjendur séu einir um heimilisrekstur. Framlagning húsaleigusamnings er því ekki eitt af þeim skilyrðum sem þarf að uppfylla til að fá heimilisuppbót greidda. Lögum samkvæmt ber Tryggingastofnun skylda til að framkvæma skyldubundið mat í hverju tilviki fyrir sig til ákveða hvaða gögn eru talin nægjanleg staðfesting á því að skilyrði greiðslna séu uppfyllt. Ekki skiptir máli hvort húsaleigusamningur liggur fyrir eða önnur gögn svipaðs eðlis, til dæmis greiðsluseðlar. Stofnunin metur einnig í hverju tilviki fyrir sig til hversu langs tíma greiðslur eru samþykktar, enda er ekkert fjallað um gildistíma í lögunum. Af greinargerð Tryggingastofnunar má ráða að stofnunin hugi að eftirlitshlutverki sínu með réttmæti greiðslna þegar ákvarðanir eru teknar. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur það málefnalegt sjónarmið og gerir ekki athugasemd við þá framkvæmd.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála staðfesta fyrirliggjandi greiðsluseðlar að kærandi hefur verið að leigja umrædda fasteign og að síðasta greiðsla hafi verið framkvæmd 1. nóvember 2017. Að teknu tilliti til eðlis staðfestingarinnar á leigu gerir úrskurðarnefnd velferðarmála ekki athugasemd við það að gildistími ákvörðunar Tryggingastofnunar sé ekki lengri en til 28. febrúar 2018, þ.e. þremur mánuðum lengur en síðasta greiðsla var framkvæmd. Úrskurðarnefndin bendir á að kærandi getur sótt um áframhaldandi greiðslur þegar gildistímanum lýkur.

Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. desember 2017 um greiðslu heimilisuppbótar til kæranda til 28. febrúar 2018 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 6. desember 2017 þess efnis að A, skuli fá greidda heimilisuppbót til 28. febrúar 2018, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum