Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 235/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

 nr. 235/2015


Ár 2015, miðvikudaginn 3. júní, er tekið fyrir mál nr. 226/2015; kæra A, dags. 9. mars 2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

 I.

Málavextir eru þeir að kærandi sótti um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þann 30. júní 2014. Kæranda var birt ákvörðun um útreikning leiðréttingarfjárhæðar og ráðstöfun hennar sitt í hvoru lagi. Útreiknuð leiðréttingarfjárhæð kæranda var samtals 1.455.415 kr. og var sú fjárhæð birt honum 8. nóvember 2014. Kæranda var tilkynnt að leiðréttingarfjárhæð skyldi ráðstafað inn á lán bankans X nr. 1.

Með kæru, dags. 9. mars 2015, er kærð framkvæmd leiðréttingar, sbr. 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Kærandi greinir nánar frá því að ákvörðun ríkisskattstjóra, um að ráðstafa heildarleiðréttingarfjárhæð kæranda og sambýliskonu hans, B, inn á lán á nafni hennar, sé kærð. Kærandi krefst þess að framkvæmd leiðréttingarinnar verði breytt á þann veg að leiðréttingarfjárhæð B, 2.084.570 kr. verði ráðstafað inn á lán bankans X nr. 2 en leiðréttingarfjárhæð kæranda, 1.455.415 kr., verði ráðstafað inn á lán bankans Y  nr. 3.

Í kæru kemur fram að kærandi og B hafi hafið óvígða sambúð í ágúst 2012 og samkvæmt skráningu Þjóðskrár Íslands er miðað við byrjun ágústmánaðar 2012. Þá er greint frá því að B hafi keypt fasteignina F1 í febrúar 2008. B er skráð fyrir 85% eignarhluta í þeirri íbúð og Þ fyrir 15%. Hún hafi tekið verðtryggt fasteignaveðlán hjá bankanum X vegna kaupanna. Þá kemur fram að kærandi hafi keypt fasteignina F2 í febrúar 2007 og hafi yfirtekið verðtryggð fasteignaveðlán hjá bankanum Y. Kærandi sé eini eigandi fasteignarinnar. Kærandi bendir á að hann og B hafi aldrei átt fasteign saman, þau séu ekki ábyrg fyrir lánsskuldbindingum hvors annars og eigi hvorugt réttindi né beri skyldur vegna fasteigna hvors annars. Jafnframt bendir kærandi á að hann og B séu ekki í hjúskap og eigi því ekki lögerfðarétt vegna fráfalls hvors annars og beri ekki gagnkvæma framfærsluskyldu gagnvart hvort öðru. Þau hafi aðskilin fjárhag en deili kostnaði vegna reksturs sameiginlegs heimilis. Kærandi telur óeðlilegt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð vegna leiðréttingar á verðtryggðum lánum sínum inn á lán sem B er skuldari að og mótmælir því framkvæmd leiðréttingarinnar. Þá telur kærandi það ekki geta staðist að lánveitendur B njóti góðs umfram lánveitendur sína af því lán séu greidd niður á grundvelli lántöku hans. Þá megi færa fyrir því rök að hin kærða framkvæmd skerði eignarréttindi kæranda, þar sem veðskuldir hans muni ekki lækka.

Að lokum bendir kærandi á að í 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána komi fram skilyrði um að sambýlisfólk sé samskattað eigi að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð inn á lán óháð því hvort er formlega ábyrgt fyrir láninu og hvort hlutaðeigandi hafi sótt sameiginlega um. Kærandi greinir frá því að hann og B hafi sótt um leiðréttingu í sitthvoru lagi, enda hafi þau ekki verið í sambúð á leiðréttingartímabilinu, þ.e frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2009. Kærandi og B hafi óskað eftir því að vera sérsköttuð og hyggist skila skattframtölum vegna tekna ársins 2014 sitt í hvoru lagi. Þau hafi eingöngu verið samsköttuð 2013 og 2014 vegna tekna áranna 2012 og 2013. Kærandi muni því á samþykktardegi framkvæmdar leiðréttingar ekki vera samskattaður sambýliskonu sinni.

Með athugasemd til ríkisskattstjóra, í aprílmánuði 2015, óskaði kærandi eftir því að hann og B yrðu ekki samsköttuð vegna tekna ársins 2014. Kærandi skilaði skattframtali árið 2015 í maímánuði 2015. Skattframtal hans ber með sér að hann sé í sambúð en ekki samskattaður.


II.

Ágreiningsefni máls þessa snýr að framkvæmd leiðréttingar. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ákvörðun ríkisskattstjóra um ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar byggist á, er kærandi skuldari að einu láni á fyrsta veðrétti, láni bankans Y nr. 3 sem tryggt er með veðrétti í fasteigninni F2. Eftirstöðvar þess láns þann í desembermánuði 2014 voru 10.687.326 kr. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun skal ráðstafa leiðréttingarfjárhæð kæranda inn á lán frá bankanum X nr. 1 sem tryggt er með fyrsta veðrétti í fasteigninni F1. Sambýliskona kæranda, B, er skuldari þess láns og eigandi veðs. Eftirstöðvar þess láns voru  24.356.811 kr. í maímánuði 2015.

Í málinu liggur fyrir að kærandi sótti um leiðréttingu 30. júní 2014 og var þá skráður í sambúð með B.

Um framkvæmd leiðréttingar er fjallað í 11. gr. laga nr. 35/2014, um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ef sú leiðréttingarfjárhæð sem eftir stendur skv. 1. mgr. greinarinnar er hærri en 200.000 kr. skal leiðréttingin fara fram með lækkun á verðtryggðum og/eða óverðtryggðum fasteignaveðlánum í íslenskum krónum samkvæmt þessari grein. Að öðrum kosti fer um framkvæmd leiðréttingar skv. 12. gr. laganna. Í 3. mgr. greinarinnar kemur fram að lánveitandi fasteignaveðláns á fremsta veðrétti skuli skipta láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingahluta. Ef frumhluti fasteignaveðláns á fremsta veðrétti tæmist en hluta leiðréttingarfjárhæðar er enn óráðstafað skal lánveitandi  á næsta veðrétti á eftir á fasteign umsækjanda skipta því láni í tvo hluta, frum- og leiðréttingarhluta, og svo koll af kolli þar til leiðréttingarfjárhæð er náð eða frumhluti láns tæmist. Fasteignaveðlán umsækjanda sem tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings skulu einungis koma til skiptingar ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Nánar er fjallað um framkvæmd leiðréttingar í 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014, um samræmt verklag og viðmið við leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána. Í 2. mgr. þeirrar greinar kemur fram að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar til að lækka höfuðstól fasteignaveðlána umsækjanda samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 skal fara eftir veðröð þeirra lána sem hvíla á fasteign eða fasteignum umsækjanda. Ef tvö eða fleiri lán hvíla á sama veðrétti fasteignar eða fasteigna umsækjanda skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka það lán sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar, því næst til að lækka lán sem með næst hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi og svo koll af kolli. Ef tvö eða fleiri fasteignaveðlán eru tryggð með sama tryggingarbréfi skal leiðréttingarfjárhæð fyrst ráðstafað til að lækka þá kröfu sem er með hæstu eftirstöðvar á samþykktardegi. Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 verður leiðréttingarfjárhæð aðeins ráðstafað til að lækka fasteignaveðlán umsækjanda sem hann er skráður skuldari að og tryggð eru með veði í fasteign annars einstaklings eða annarra einstaklinga samkvæmt 3. mgr. 11. gr. laga nr. 35/2014 ef ekki er unnt að ráðstafa leiðréttingarfjárhæð að fullu inn á fasteignaveðlán sem hvíla á fasteign umsækjanda.

Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014 skal leiðréttingarfjárhæð hjóna og samskattaðra sambúðaraðila á samþykktardegi framkvæmdar/ráðstöfunar leiðréttingarfjárhæðar ráðstafað óháð því hvort hjóna eða sambúðaraðila er formlega ábyrgt fyrir lánum og hvort hlutaðeigandi sóttu saman um leiðréttingu. Reglugerðin er sett samkvæmt heimild í 7. mgr. 11. gr. laga nr. 25/2014, en ráðherra er þar heimilað að setja nánari reglur um framkvæmd leiðréttingar.

Óumdeilt er að kærandi er í sambúð með B. Sambýliskona kæranda er skuldari að láni bankans X nr. 1 sem tryggt er með fyrsta veðrétti í fasteigninni F1. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi ekki skuldari þess láns. Ef ráðstafa á leiðréttingarfjárhæð sambúðaraðila inn á lán óháð því hvort hann er formlega ábyrgur fyrir því er sett það skilyrði að sambýlisfólk sé samskattað á samþykktardegi, sbr. 4. mgr. 8. gr. reglugerðar nr. 698/2014. Í málinu liggur fyrir að kærandi óskaði ekki eftir því að vera samskattaður með sambýliskonu sinni. Kærandi og sambýliskona hans verða því ekki samsköttuð við álagningu opinberra gjalda vegna ársins 2014, gjaldárið 2015. Þar sem kærandi hefur ekki samþykkt ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar er ljóst að hann verður ekki samskattaður sambýliskonu sinni, B, á samþykktardegi. Kærandi er skráður skuldari að láni nr. 3 hjá bankanum Y sem hvílir á fyrsta veðrétti fasteignarinnar F2.

Með vísan til framangreinds er ljóst að ráðstöfun leiðréttingarfjárhæðar inn á lán bankans X nr. 1 er ekki í samræmi við framangreind laga- og reglugerðarfyrirmæli sem um hana gilda. Fallist er á kröfu kæranda um að leiðréttingarfjárhæð hans, 1.455.415 kr., skuli ráðstafað inn á lán nr. 3 hjá bankanum Y.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Leiðréttingarfjárhæð kæranda skal ráðstafað inn á lán nr. 3 hjá bankanum Y.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum