Hoppa yfir valmynd

4/2011

Mál nr. 4/2011.
Úrskurðarnefnd skv. 31. gr. laga nr. 7/1998.


Ár 2011, fimmtudaginn 5. maí, kom úrskurðarnefnd samkvæmt 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 saman til fundar á skrifstofu formanns nefndarinnar að Lágmúla 7 í Reykjavík. Mætt voru Steinunn Guðbjartsdóttir, Gunnar Eydal og Guðrún Helga Brynleifsdóttir. Fyrir var tekið mál nr. 4/2011 Íris Helga Valgeirsdóttir, Dalsbrún 25, Hveragerði gegn sýslumanninum á Selfossi.

Vegna kröfu í málinu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar er kveðinn upp svofelldur
úrskurður:


I. Aðild kærumáls og kröfur

Með stjórnsýslukæru, dags. 21. mars 2011, kærði Sigurður Jónsson, hrl., f.h. Írisar Helgu Valgeirsdóttur (hér eftir nefnd kærandi) ákvörðun sýslumannsins á Selfossi (hér eftir nefndur kærði) frá 16. mars 2011 þess efnis að aflífa skuli rottweilartíkina Chrystel. Þann 7. apríl 2011 setti kærandi fram kröfu um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar.


II. Málmeðferð

Kæra málsins er dagsett 21. mars 2011 og byggir hún á kæruheimild í 31. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998. Kæran barst úrskurðarnefndinni frá kæranda þann 28. mars 2011. Jafnframt því að senda kæru til úrskurðarnefndarinnar kærði kærandi ákvörðun kærða til innanríkisráðuneytisins. Þann 25. mars 2011 tók innanríkisráðuneytið ákvörðun um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar á meðan ráðuneytið hefði málið til meðferðar. Þann 29. mars 2011 framsendi innanríkisráðuneytið málið til úrskurðarnefndarinnar og tilkynnti jafnframt að ákvörðun ráðuneytisins um frestun réttaráhrifa hefði ekki lengur gildi. Úrskurðarnefndin kynnti kærða framkomna kæru með bréfi, dags. 6. apríl 2011 og óskaði eftir greinargerð hans í málinu. Þann 8. apríl 2011 kynnti úrskurðarnefndin kærða kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa, gaf honum kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum vegna þeirrar kröfu og veitti frest í því skyni til 13. apríl 2011. Kærði hefur ekki gert úrskurðarnefndinni grein fyrir sjónarmiðum sínum vegna framkominnar kröfu um frestun réttaráhrifa.


III. Málsatvik

Samkvæmt gögnum málsins beit hundur sá sem mál þetta varðar, þann 4. mars 2011, konu til blóðs er hún kom að húsi eiganda hundsins í Hveragerði. Þegar atburðurinn gerðist var hundurinn, sem þá var óskráður og leyfislaus, bundinn fyrir utan húsið og lá taumurinn inn í gegnum bréfalúgu á heimili eigandans. Atburðurinn var tilkynntur lögreglu og tók lögreglustjórinn á Selfossi ákvörðun um að aflífa skyldi hundinn. Áður en ákvörðunin var tekin hafði verið aflað álits héraðsdýralæknis sem taldi að samkvæmt skapgerðarmati kynni hundurinn að bíta aftur. Hundurinn var fluttur í vistun af hálfu yfirvalda þann 4. mars 2011. Samkvæmt upplýsingum sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni var hundurinn fjarlægður án leyfis úr þeirri vistun aðfararnótt 3. maí 2011 og mun honum hafa verið komið til eiganda hans, sem nú býr á Akureyri og hefur neitað að afhenda lögreglu hundinn á ný.

IV. Málstæður og rök kærenda

Í erindi því sem úrskurðarnefndinni barst frá kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar er ekki að finna rökstuðning fyrir kröfunni. Þá verður ekki séð í gögnum málsins að kærandi hafi rökstutt slíka kröfu við innanríkisráðuneytið áður en ráðuneytið tók ákvörðun um að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar.


V. Málsástæður og rök kærða

Kærði hefur ekki nýtt sér það tækifæri sem honum var veitt til að koma á framfæri við úrskurðarnefndina sjónarmiðum sínum vegna kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar. Af gögnum málsins verður heldur ekki séð að kærði hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri við innanríkisráðuneytið áður en ráðuneytið tók ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

VI. Álit og niðurstaða úrskurðarnefndar

Í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er kveðið á um réttaráhrif kærðrar ákvörðunar. Þar er í 1. mgr. kveðið á um þá meginreglu að stjórnsýslukæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar, en í 2. mgr. er lögfest undantekningarheimild fyrir æðra stjórnvald til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál er til meðferðar í þeim tilvikum þegar ástæður mæla með því.

Í athugasemdum við frumvarp til gildandi stjórnsýslulaga kemur fram varðandi ákvæði 2. mgr. 29. gr. laganna að nauðsynlegt hafi þótt að lögin geymdu heimild til að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar meðan mál væri til meðferðar þar sem kæruheimild gæti í raun orðið þýðingarlaus ef æðra stjórnvald hefði ekki heimild til þess að fresta réttaráhrifum ákvörðunar.

Í athugasemdum við frumvarpið segir jafnframt að ávallt verði að vega og meta í hverju tilviki fyrir sig hvort réttlætanlegt sé að fresta réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og að við slíkt mat beri að líta til réttmætra hagsmuna hjá öllum aðilum málsins. Enn fremur segir að líta beri til þess hversu langt sé um liðið frá því hin kærða ákvörðun var tilkynnt aðilum, en einnig til þess hversu líklegt það sé að ákvörðuninni verði breytt. Þá segir auk þess í athugasemdum við frumvarpið að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili séu að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta eða ef til staðar séu mikilvægir almannahagsmunir, t.d. þar sem ákvörðun hafi að markmiði að koma í veg fyrir hættuástand. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum tjóni. Þá segir að þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu, enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af hinu æðra stjórnvaldi. Loks megi svo nefna þau tilvik þar sem kæruheimild yrði í raun þýðingarlaus yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað.

Fyrir liggur í máli þessu að kærði tók þann 16. mars 2011 ákvörðun um að aflífa skyldi rottweilartíkina Chrystel. Áður en sú ákvörðun var tekin lá fyrir álit héraðsdýralæknis sem taldi að samkvæmt skapgerðarmati kynni hundurinn að bíta aftur. Hundurinn var fluttur í vistun af hálfu yfirvalda þann 4. mars 2011 en fyrir liggur að hundurinn hefur nú verið numinn á brott úr þeirri vistun. Þar með telur úrskurðarnefndin að ekki hafi tekist að fyrirbyggja þá hættu sem kunni að stafa af hundinum og því telur úrskurðarnefndin sér ekki fært að taka ákvörðun um að fresta réttaráhrifum ákvörðunar kærða um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel og er beiðni kæranda þess efnis því hafnað.





Úrskurðarorð:


Hafnað er beiðni um frestun réttaráhrifa ákvörðunar sýslumannsins á Selfossi um að aflífa skuli rottweilertíkina Chrystel.




Steinunn Guðbjartsdóttir


Gunnar Eydal

Guðrún Helga Brynleifsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum