Hoppa yfir valmynd

Nr. 149/2018 - Úrskurður

Örorkumat

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 149/2018

Miðvikudaginn 20. júní 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 13. apríl 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 5. mars 2018 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni metinn örorkustyrkur tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með umsókn, dags. 21. desember 2017. Með örorkumati, dags. 5. mars 2018, var umsókn kæranda synjað en hún var talin uppfylla skilyrði örorkustyrks frá 1. febrúar 2018 til 31. janúar 2020.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 14. maí 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. maí 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að þess sé krafist að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að meta kæranda örorkustyrk en synja henni um örorkulífeyri verði endurskoðuð. Óskað er eftir að við skoðun málsins verði ekki síst haft í huga andlegt heilsufar hennar samanber læknisvottorð B, dags. 4. desember 2017.

Í kæru segir að kærandi hafi lokið X mánaða endurhæfingu en það vanti enn upp á meiri vinnufærni. Kærandi sé nú í hlutastarfi í verslun[...], atvinnu með stuðningi, og hún treysti sér enn sem komið er illa í meiri vinnu. Hætta sé á að hún hrökkvi í sama farið verði álagið of mikið. Kærandi hafi lokið umtalsverðu prógrammi á vegum göngudeildar geðdeildar, starfsendurhæfingu og farið í gegnum VIRK. Þunglyndiseinkenni hennar hafi á margan hátt látið undan síga og þá helst fyrir tilstilli öflugrar endurhæfingar. Kærandi glími þó enn við kvíða sem sé hamlandi og þungbær, hún sé nú í langtíma meðferðarhópi á göngudeild geðdeildar.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kært sé örorkumat Tryggingastofnunar, dags. 5. mars 2018.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Við matið sé stuðst við staðal Tryggingastofnunar sem skiptist í tvo hluta, líkamlegan og andlegan. Til þess að standast efsta stig örorku samkvæmt staðli þurfi umsækjandi að fá fimmtán stig í líkamlega hlutanum eða tíu stig í þeim andlega, þó nægi að umsækjandi fái sex stig í hvorum hluta fyrir sig. Heimilt sé að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Fyrirliggjandi gögn séu umsókn, dags. 21. desember 2017, læknisvottorð B, dags. 4. desember 2017, spurningalisti, móttekinn 28. desember 2017 og skýrsla skoðunarlæknis, dags. 19. janúar 2018. Kærandi hafi fengið greiddan endurhæfingarlífeyri í X mánuði.

Í læknisvottorði séu sjúkdómsgreiningar kæranda félagsfælni, almenn kvíðaröskun, endurtekin geðlægðarröskun, yfirstandandi lota væg, brot á öðrum og ótilgreindum hlutum lendarhryggs og mjaðmagrindar og hypothyroidism, unspecified.

Í spurningalista hafi kærandi svarað fyrstu fjórum liðunum varðandi líkamlega færniskerðingu, þ.e. að sitja á stól, að standa upp af stól, að beygja sig og krjúpa og að standa með því að hún fái verki í rófubein og bak, mjöðm eða hægra læri. Kærandi hafi svarað liðnum um sjón með því að hún sé smá nærsýn. Varðandi andlega færniskerðingu hafi hún sagst vera með þunglyndi, kvíða og félagsfælni. Hún sé á lyfjum við þunglyndi og út af svefnvandamálum og uppgjöf og grun um geðhvarfasýki. Að auki hafi kærandi gert þá athugasemd að hún sé einnig komin á lyf fyrir vanvirkum skjaldkirtli en hann hafi samt sem áður áhrif á líðan og heilsu.

Í skýrslu skoðunarlæknis hafi kærandi fengið þrjú stig í líkamlega hluta staðalsins fyrir að geta ekki setið nema eina klukkustund án þess að neyðast til að standa upp. Í andlega hluta staðalsins hafi kærandi fengið tvö stig fyrir að andlegt álag (streita) hafi átt þátt í að hún lagði niður starf, eitt stig fyrir að finnast oft að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis og eitt stig fyrir að hún ergi sig yfir því, sem ekki hefði angrað hana áður en hún varð veik.

Kærandi hafi því fengið þrjú stig í líkamlega hluta staðalsins og fjögur stig í þeim andlega. Þetta nægi ekki til að uppfylla skilyrði efsta stigs samkvæmt staðli en kærandi hafi verið talin uppfylla skilyrði um örorkustyrk og hafi hann því verið veittur.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 5. mars 2018, þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur en henni veittur tímabundinn örorkustyrkur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. sömu laga skal Tryggingastofnun ríkisins að tilteknum skilyrðum uppfylltum veita einstaklingi örorkustyrk ef örorka hans er metin að minnsta kosti 50%.

Samkvæmt 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun ríkisins örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat metur tryggingayfirlæknir örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins samkvæmt staðli sem byggður er á læknisfræðilega viðurkenndum sjúkdómum eða fötlun. Fyrri hluti örorkustaðalsins fjallar um líkamlega færni og þarf umsækjandi að fá fimmtán stig samanlagt til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Síðari hluti staðalsins lýtur að andlegri færni og þarf umsækjandi að fá tíu stig til að teljast að minnsta kosti 75% öryrki. Nái umsækjandi ekki tilskildum stigafjölda í öðrum hluta staðalsins getur hann samt verið metinn að minnsta kosti 75% öryrki nái hann að minnsta kosti sex stigum í hvorum hluta staðalsins. Samkvæmt 3. gr. reglugerðarinnar skal Tryggingastofnun, þegar umsókn og læknisvottorð hafa borist, að jafnaði senda umsækjanda staðlaðan spurningalista. Örorkumat er síðan unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar og annarra gagna sem tryggingayfirlæknir telur nauðsynlegt að afla.

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 4. desember 2017. Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær frá X og að sjúkdómsgreiningar hennar séu eftirfarandi:

„Félagsfælni

Almenn kvíðaröskun

Endurtekin geðlægðarröskun, yfirstandandi lota væg,

Brot á öðrum og ótilgreindum hlutum lendahryggs og mjaðmagrindar

Hypothyroidism, unspecified“

Þá segir í læknisvottorðinu í lýsingu læknisskoðunar, dags. 4. desember 2017:

„Þau vandamál sem sjúklingur glímir við sbr. örorkumats staðal eru fyrst og fremst það sem varðar álagsþol, þ.e. andleg streita hefur átt þátt í því að umsækjandi getur ekki unnið, iðulega hræðsla án augljósrar ástæðu, hefur forðast hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að það valdi álagi, föst í venjum, breytingar á rútínu erfiðar. Kvíðir því að sjúkleiki versni við það að fara aftur að vinna. Geðræn vandamál / félagskvíði valda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Finnst auðveldast að vera ein með […], út í margmenni fer hún helst ekki án fylgdar.“

Álit læknis á vinnufærni og horfum kæranda er sem hér segir:

„Samsettur langvinnur vandi, slæmur kvíðavandi allt frá því X, síðan alvarlegur vímuefnavandi sem hún náði tökum á fyrir ca. X árum. Secundert við þetta endurteknar geðlægðir. Stoðkerfisverkir í tengslum við rófubeinsbrot […] þrálátir verkir neðst í baki, leiðni niður í mjöðm og upp í bak hægra megin. Umtalsverð endurhæfing og meðferð átt sér stað bæði hér á C en einnig í tengslum við VIRK, hefur miðað vel áfram með sjúkling en hins vegar er það mat meðferðaraðila nú að hún sé ekki færum til að sjá fyrir sér á almennum vinnumarkaði og því styðjum við eindregið hennar umsókn um örorku. Jafnvel telur undirritaður allar líkur á því að óvissa í tengslum við framfærslu muni kynda undir hennar geðröskun, kvíða, og fljótt geta leitt til versnunar.

Við örorkumatið lá fyrir spurningalisti með svörum kæranda vegna færniskerðingar sem kærandi skilaði til Tryggingastofnunar ríkisins í tengslum við umsókn sína. Kærandi lýsir heilsuvanda sínum þannig að hún sé með verki í rófubeini, mjöðm og baki. Þá sé hún með kvíða þunglyndi, Hashimoto sjúkdóm og vanvirkan skjaldkirtil. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að sitja á stól þannig að verkir komi frá rófubeini og baki. Ef hún sitji of lengi geti komið verkir í hægra læri, það fari samt mikið eftir stólum hversu miklir eða litlir þeir verði. Núna hafi hún verið að stunda nám í [skóla] og reynst erfitt að sitja þar lengi. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa upp af stól þannig að yfirleitt eigi hún ekki í neinum vandræðum með að standa upp af stól en ef verkir í rófubeini séu mjög miklir þá geti verið mjög vont að standa upp og setjast niður. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að beygja sig eða krjúpa og rétta sig upp aftur þannig að yfirleitt sé það ekki erfitt en ef verkir í rófubeini (aðallega) og mjöðm/baki séu miklir þá geti það reynst erfitt. Kærandi svarar spurningu um það hvort hún eigi í erfiðleikum með að standa þannig að standi hún of lengi án þess að fá að setjast niður geti það valdið verkjum í rófubeini, mjöðm og baki. Kærandi svarar spurningu um það hvort sjónin bagi hana þannig að hún sé smá nærsýn. Þá svarar kærandi spurningu um það hvort hún eigi við geðræn vandamál að stríða játandi. Fram kemur að hún sé með þunglyndi, kvíða og félagsfælni. Þá segir að hún sé á lyfjum við þunglyndi og vegna svefnvandamála.

Skýrsla D skoðunarlæknis liggur fyrir í málinu en hann átti viðtal við kæranda og skoðaði hana að beiðni Tryggingastofnunar ríkisins þann 19. janúar 2018. Samkvæmt skýrslunni mat skoðunarlæknir líkamlega færniskerðingu kæranda þannig að hún geti ekki setið nema í eina klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp og þá geti hún ekki staðið nema 30 mínútur án þess að ganga um. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við líkamlega færniskerðingu. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að andlegt álag hafi átt þátt í að hún lagði niður starf. Kæranda finnist oft að hún hafi svo mörgu að sinna að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Þá ergi kærandi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik. Að öðru leyti telur skoðunarlæknir að kærandi búi ekki við andlega færniskerðingu.

Skoðunarlæknir lýsir geðheilsu kæranda svo í skoðunarskýrslu:

„Saga um félagsfælni, kvíðaröskun, geðlægð og önnur geðræn vandamál. Tekur Miron fyrir svefninn. Er í eftirliti og meðferð hjá geðlækni.“

Um núverandi líðan og vinnugetu kæranda segir:

„Aðalvandamálin líkamlega eru verkir í rófubeini, bæði við langar stöður, setur en einnig við hreyfingar. Andlega er það aðallega kvíði þunglyndi og félagsfælni. Verið til meðferðar hjá sálfræðingi og geðlækni. Er nú í hóp vikulega á vegum E. Geðlæknir hennar B stýrir þeim hóp.“

Í lýsingu á fótaferð kæranda segir:

„Vaknar milli 7 og 8 fer þá á fætur. Vaknar við klukku. Fer í rúmið um kl. 23 - 24. Sefur ekki vel. Tekur svefnlyf. Vaknar stundum. Vaknar ekki úthvíld. Leggur sig stundum á daginn.“

Í samantekt skoðunarlæknis segir:

„X kona með sögu um verki í rófubeini, kvíða, þunglyndi og félagsfælni. Meðferð hefur farið fram og stendur reyndar yfir. Endurhæfingu telst að mestu lokið. Niðurstaða viðtals og skoðunar að nokkru leyti í samræmi við læknisvottorð og spurningarlista umsækjanda. Líkamleg færniskerðing er væg og andleg sömuleiðis.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, hefur yfirfarið mat á örorku kæranda á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Er þá metin skerðing á getu vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma samkvæmt sérstökum örorkustaðli. Eins og áður hefur komið fram er staðallinn hluti af reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat sem sett er með skýrri lagastoð. Staðlinum er ætlað að mæla líkamlega og andlega færni á grundvelli staðlaðra spurninga og svara við þeim. Úrskurðarnefndin er bundin af staðlinum eins og hann hefur verið ákveðinn. Úrskurðarnefndin hefur lagt mat á skoðunarskýrslu matslæknis og virt hana í ljósi annarra læknisfræðilegra gagna sem liggja fyrir í málinu. Samkvæmt skoðunarskýrslu er líkamleg færniskerðing kæranda, svo sem hún er mæld samkvæmt örorkustaðli, sú að kærandi geti ekki setið nema í eina klukkustundir án þess að neyðast til að standa upp. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi geti ekki staðið nema í 30 mínútur án þess að ganga um. Slíkt gefur þrjú stig samkvæmt örorkustaðli. Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því líkamleg færniskerðing kæranda metin til sex stiga samtals. Hvað varðar andlega færniskerðingu kæranda telur skoðunarlæknir að andlegt álag hafi átt þátt í að kærandi lagði niður starf. Slíkt gefur tvö stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kæranda finnist svo margt þurfi að gera að hún gefist upp vegna þreytu, sinnuleysis eða áhugaleysis. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli. Skoðunarlæknir metur það svo að kærandi ergi sig yfir því sem ekki hafi angrað hana áður en hún varð veik. Slíkt gefur eitt stig samkvæmt örorkustaðli Á grundvelli skýrslu skoðunarlæknis er því andleg færniskerðing kæranda metin til fjögurra stiga samtals.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat er heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar eða muni sannanlega hljóta slíka örorku. Um undantekningarákvæði er að ræða sem skýra verður þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki er í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið á við, en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mælir fyrir um staðlað mat verður að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Slíkt er að mati úrskurðarnefndarinnar aðeins heimilt ef líkamleg og andleg færni er svo mikið skert að augljóst er að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða fötlun hans verði jafnað til þess. Að mati nefndarinnar á það ekki við í tilviki kæranda.

Úrskurðarnefnd velferðarmála leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Við það mat skiptir máli hvort gögnin komi frá hlutlausum aðila og enn fremur hvort þau séu vel rökstudd. Loks horfir nefndin til þess hvort áverkar, fötlun eða sjúkdómar leiði almennt til þeirra einkenna sem lýst er í gögnum málsins og hvort einkennin fái stoð í lýsingu atvika daglegs lífs. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að mikils misræmis gæti í gögnum málsins varðandi mat á andlegri færni kæranda.

Að mati úrskurðarnefndar velferðarmála er lýsing á andlegri færni kæranda mjög ólík í læknisvottorði B, dags. 4. desember 2017, og skoðunarskýrslu. Eins og fram er komið segir í skoðunarskýrslu að líkamleg færniskerðing kæranda sé væg og andleg sömuleiðis. Í læknisvottorði B kemur fram að kærandi sé með eftirfarandi sjúkdómsgreiningar: Félagsfælni, almenna kvíðaröskun, endurtekna geðlægðarröskun, yfirstandandi lota væg, brot á öðrum og ótilgreindum hlutum lendarhryggs og mjaðmagrindar og „hypothyroidism, unspecified“. Í framangreindu læknisvottorði segir að iðulega sé um að ræða hræðslu hjá kæranda án augljósrar ástæðu. Aftur á móti metur skoðunarlæknir það svo að kærandi sé ekki oft hrædd eða felmtruð án tilefnis. Í rökstuðningi fyrir því mati segir að metið sé út frá skoðunarfundi og að kærandi kveðist ekki fá hræðsluköst/ofsakvíðaköst án tilefnis. Þá segir í framangreindu læknisvottorði að kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að það valdi álagi. Aftur á móti er það mat skoðunarlæknis að kærandi forðist ekki hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi. Skoðunarlæknir rökstyður það mat með vísan til viðtals á skoðunarfundi og að ekki sé um framtaksleysi eða driftleysi að ræða. Kærandi geri það sem þurfi að gera án vandræða og að henni finnist dagleg verkefni ekki vera sérlega íþyngjandi. Í framangreindu læknisvottorði segir að kærandi sé föst í venjum og að breytingar á rútínu séu henni erfiðar. Aftur á móti er það mat skoðunarlæknis að kærandi ráði við breytingar á daglegum venjum. Í rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu segir að það sé metið út frá viðtali á skoðunarfundi. Kærandi hafi mætt á skoðunarfund og segi það ekki hafa verið erfitt og þá kveðist hún vel ráða við léttar til miðlungs breytingar en stórar breytingar valdi kvíða. Í framangreindu læknisvottorði segir að kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni við það að fara aftur að vinna. Aftur á móti er það mat skoðunarlæknis að kærandi kvíði því ekki að sjúkleiki hennar versni fari hún aftur að vinna. Rökstuðningur fyrir því mati skoðunarlæknis er á þá leið að það hafi verið metið út frá viðtali á skoðunarfundi. Þá segir að kærandi óttist ekki neikvæð geðræn áhrif af starfi ef hún færi að vinna sem sé reyndar ekki á döfinni sem stendur. Í læknisvottorði kemur fram að geðræn vandamál/félagskvíði valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Hins vegar er það mat skoðunarlæknis að geðræn vandamál valdi kæranda ekki erfiðleikum í tjáskiptum við aðra. Rökstuðningur skoðunarlæknis er á þá leið að metið hafi verið út frá viðtali á skoðunarfundi. Henni gangi vel að tjá sig við aðra og koma hugsun sinni til skila. Hún sé skýr í tjáningu í viðtali. Í læknisvottorði kemur fram að kæranda finnist auðveldast að vera ein með […] og í margmenni fari hún helst ekki án fylgdar. Mat skoðunarlæknis er hins vegar að kærandi sé ekki hrædd við að fara ein út. Í rökstuðningi skoðunarlæknis er vísað til skoðunarfundar og að hún fari allra sinna ferða oft ein, hafi komið ein á skoðunarfund. Að lokum segir í skoðunarskýrslu í lýsingu á dæmigerðum degi að kærandi sofi ekki vel. Hún taki svefnlyf, vakni stundum og vakni ekki úthvíld. Samt sem áður er það mat skoðunarlæknis að svefnvandamál hafi ekki áhrif á dagleg störf kæranda. Rökstuðningur skoðunarlæknis er á þá leið að hún sofi að jafnaði vel og sé ekki í starfi.

Úrskurðarnefndin telur að fyrirliggjandi gögn gefi til kynna að skerðing á andlegri færni kæranda sé meiri en fram kemur í mati skoðunarlæknis. Í skoðunarskýrslunni er einungis að hluta tekin afstaða til þess sem misræmið lýtur að. Ef fallist yrði á að svefnvandamál hafi áhrif á dagleg störf kæranda, kærandi sé oft hrædd eða felmtruð án tilefnis, kærandi forðist hversdagsleg verkefni á þeim forsendum að þau muni valda of mikilli þreytu eða álagi, kærandi ráði ekki við breytingar á daglegum venjum, kærandi kvíði því að sjúkleiki hennar versni við að fara aftur að vinna, geðræn vandamál valdi kæranda erfiðleikum í tjáskiptum og að kærandi hræðist að fara ein út án fylgdar fengi kærandi allt að tíu stigum til viðbótar samkvæmt staðli og uppfyllti læknisfræðileg skilyrði fyrir greiðslu örorkulífeyris. Þess ber að gæta að kærandi hefur fengið sex stig samkvæmt líkamlega hluta staðalsins og vantar því aðeins tvö stig til viðbótar samkvæmt þeim andlega til að uppfylla skilyrði fyrir örorkulífeyri.

Í ljósi mikils misræmis á milli skýrslu skoðunarlæknis og læknisvottorðs er það mat úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki verði hjá því komist að nýtt mat fari fram á örorku kæranda. Er æskilegt að í örorkumatinu verði tekin rökstudd afstaða til þess sem misræmi lýtur að. Hafa ber í huga að miklir hagsmunir eru því tengdir fyrir kæranda hvort hún uppfyllir skilyrði örorkulífeyris.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar felld úr gildi. Málinu er vísað aftur til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur er felld úr gildi. Málinu er heimvísað til stofnunarinnar til nýrrar meðferðar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef
Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds.
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira