Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 11/2017

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 20. mars 2018 í máli nr. 11/2017.
Fasteign: Illagil […] Grímsnes- og Grafningshreppur, fnr. […].
Kæruefni: Gjaldflokkur fasteignar.

Árið 2018, 20. mars, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 11/2017 kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR

Með bréfi, dags. 15. nóvember 2017, kærðu X, kt. […], Y, kt. […] og Z, kt. […], álagningu fasteignaskatts vegna sumarhúss þeirra að Illagili […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], fyrir árið 2017.

Með bréfi, dags. 23. nóvember 2017, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögn frá Grímsnes- og Grafningshreppi vegna kærunnar sem barst með bréfi, dags. 12. desember 2017.

Umsögn sveitarfélagsins var send kærendum með bréfi, dags. 13. desember 2017, og var þeim gefinn kostur á að gera við hana athugasemdir. Athugasemdir bárust frá kærendum við umsögn sveitarfélagsins með bréfi, dags. 29. janúar 2018, og voru þær sendar sama dag til sveitarfélagsins til kynningar.

Engar frekari athugasemdir bárust.

Málið var tekið til úrskurðar 20. febrúar 2018.

I.              Málavextir.

Fasteign kærenda, sem er sumarhús, Illagil […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr[…], hefur að hluta til verið nýtt til skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Sótt hefur verið um rekstrarleyfi til sölu gistinga í flokki II í fasteigninni samkvæmt lögum nr. 85/2007 en af framlögðum gögnum málsins má ráða að þeirri umsókn hafi verið synjað. Með álagningarseðli fasteignagjalda fyrir árið 2017, dags. 22. febrúar 2017, tilkynnti Grímsnes- og Grafningshreppur kærendum um álagningu fasteignagjalda ársins 2017 vegna fasteignarinnar. Fasteignaskattur eignarinnar var að öllu leyti ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga þar sem sveitarfélagið taldi að fasteignin væri nýtt fyrir ferðaþjónustu.

Í kjölfar álagningarinnar höfðu kærendur samband við sveitarfélagið og komu því á framfæri að einungis hluti fasteignarinnar væri leigður út til ferðamanna og þá hluta úr ári. Kjallari fasteignarinnar væri ekki nýttur til útleigu. Að fengnum þessum upplýsingum ákvað Grímsnes- og Grafningshreppur þann 26. maí 2017 að breyta álagningu fasteignaskatts vegna eignarinnar fyrir árið 2017. Breytingin fólst í því að sá hluti fasteignarinnar sem skráður er sem kjallari var færður úr gjaldflokki c-liða 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga yfir í gjaldflokk a-liðar sömu greinar og gilti breytingin fyrir allt árið 2017.

II.           Sjónarmið kærenda.

Kærendur gera þá kröfu að yfirfasteignamatsnefnd ákvarði hlutfallslega skiptingu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra að Illagili […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], fyrir árið 2017, milli gjaldflokka a- og c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Til vara gera kærendur kröfu um að fasteignaskattur eignarinnar verði alfarið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Kærendur byggja kröfur sínar á því að þeir leigi sumarhúsið og svefnloft þess út til gistingar hluta úr ári en kjallari sumarhússins, sem ekki sé hluti af sumarhúsinu sem slíku, sé hins vegar ekki leigður út. Leigjendur sumarhússins hafi þannig ekki aðgang að kjallararýminu en hvorki er innangengt á milli rýmanna né ganga sömu lyklar að skrám beggja útihurða.

Kærendur benda á að þeir hafi ítrekað sótt um að fá sumarhúsið skráð sem gististað í flokk II, gististað án veitinga, samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Sveitarfélagið hafi hins vegar synjað þeirri umsókn en þess í stað lagt fasteignaskatt á eignina eins og um atvinnuhúsnæði sé að ræða. Álagning sveitarfélagsins byggi alfarið á því að fasteignin falli í gjaldflokk c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Kröfum sínum til stuðnings vísa kærendur til meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem og til 8. gr. reglugerðar um fasteignaskatt nr. 1160/2005.

III.        Sjónarmið Grímsnes- og Grafningshrepps.

Í umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps, dags. 12. desember 2017, kemur fram að fasteign kærenda að Illagili […], samanstandi af 90,6 m2 kjallara, 95,6 m2 sumarhúsi og 25m2 svefnlofti. Fasteignin sé nýtt til skammtímaleigu fyrir ferðamenn og sé auglýst á heimasíðunni www.homeaway.co.uk.

Sveitarfélagið hafi fengið þær upplýsingar um áramótin 2016-2017 að mannvirkið væri nýtt fyrir ferðaþjónustu og þá hafi verið ákveðið að heimfæra allt mannvirkið undir gjaldflokk c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga við álagningu fasteignagjalda ársins 2017 í stað a-liðar sömu lagagreinar eins og áður hafði verið gert, m.a. á árunum 2014 – 2016.

Kærendur hafi hins vegar í kjölfar álagningarinnar upplýst sveitarfélagið um að kjallari mannvirkisins væri ekki nýttur til útleigu sem hafi þá leiðrétt álagninguna. Hlutfallsleg skipting fasteignaskatts milli gjaldflokka a- og c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 hafi verið byggð á hlutfalli milli birts flatarmál kjallarans af heildarflatarmáli mannvirkisins.

Sveitarfélagið bendir á að í kærunni sé aðallega farið fram á að sveitarfélagið byggi hlutfallslega skiptingu fasteignaskattsins milli a- og c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á rúmmáli rýma eða eininga mannvirkisins en ekki á flatarmáli. Af hálfu sveitarfélagsins er vakin athygli á því að í 6. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga komi fram að ef afnotum fasteignar, sem metin sé sem ein heild, sé á þann veg háttað að greiða beri fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki ákveði byggingarfulltrúi viðkomandi sveitarfélags hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka. Engar leiðbeiningar komi hins vegar fram í athugasemdum við frumvarp það er varð að lögum nr. 140/2005 sem breyttu lögum nr. 4/1995 um við hvaða viðmið hlutfallsleg skipting skuli byggja á. Af orðalagi ákvæðisins megi þó að ráða að ákvörðun um skiptingu sé alfarið í höndum byggingarfulltrúa hlutaðeigandi sveitarfélags.

Að mati sveitarfélagsins er skipting eftir flatarmáli bæði málefnaleg og í nánum tengslum við fasteignamat fasteigna almennt þar sem heildarflatarmál fasteigna hafi meiri þýðingu við mat á gangverði fasteigna en rúmmál. Þá sé það viðmið einnig notað í tengslum við útreikning á nýtingarhlutfalli. Þá verði ekki annað ráðið af úrskurðarframkvæmd yfirfasteignamatsnefndar en að önnur sveitarfélög hafi lagt flatarmál til grundvallar hlutfallslegri skiptingu mannvirkja á milli gjaldflokka, samanber t.d. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 22. desember 2016 í máli nr. 21/2016. Sveitarfélagið telur einnig rétt í þessu samhengi að benda á úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 5. febrúar 2009 í máli nr. 9/2008 þar sem nefndin taldi að það félli utan valdsviðs síns að ákvarða hlutfallslega skiptingu matsverðs fasteignar.

Vegna varakröfu kærenda um að heimfæra beri mannvirkið alfarið undir a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 er bent á að það sé óumdeilt að kærendur hafi boðið ferðamönnum gistingu í sumarhúsi sínu gegn endurgjaldi á árinu 2017. Af fyrirliggjandi auglýsingu á vefsíðunni www.homeaway.co.uk megi sjá að mannvirkið sé leigt að lágmarki til tveggja nátta allan ársins hring. Þessu hafi kærendur ekki andmælt né lagt fram gögn fyrirfram vegna ársins 2017 um að hluti mannvirkisins sé leigður einvörðungu hluta úr árinu. Það hvernig eigendum fasteigna takist að nýta mannvirki í atvinnurekstri sínum geti ekki ráðið ákvörðun um álagningu fasteignaskatts heldur byggi hún á raunverulegri nýtingu hluta mannvirkisins.

Að mati sveitarfélagsins breytir það engu þó kærendur hafi ekki enn fengið gefið út rekstrarleyfi á grundvelli laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald fyrir sumarhúsið. Eftir sem áður sé fasteignin nýtt til útleigu fyrir ferðamenn þannig að kærendur teljist hafa nýtt hana fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995, samanber til hliðsjónar úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 19. september 2016 í máli nr. 13/2016.

IV.        Athugasemdir kærenda vegna umsagnar sveitarfélagsins.

Með bréfi, dags. 22. janúar 2018, gerðu kærendur athugasemdir við umsögn Grímsnes- og Grafningshrepps vegna málsins.

Þar kemur fram að kærendur hafi til lengri tíma óskað eftir því að tekið væri tillit til þess við álagningu fasteignaskatts á sumarhús þeirra að eingöngu verði lagðar álögur á þann rýmishluta eignarinnar sem sé til útleigu. Kærendur telja ekki eðlilegt að fasteignagjöld taki til þess hluta fasteignarinnar sem ekki hafi verið og verði aldrei til útleigu. Umrætt rými er kjallari fasteignarinnar, rými merkt nr. 01 0001 sem er með sérinngangi og með öllu óaðgengilegur fyrir þann hluta eignarinnar sem ætlaður er til útleigu, en það rými er merkt sem sumarhús eða rými nr. 01 0101 og svefnloft eða rými nr. 01 0102.

Kærendur benda á að sveitarfélagið hafi ávallt hafnað málaleitan þeirra en afstöðu sveitarfélagsins megi sjá meðal annars í bréfi sýslumannsins á Suðurlandi, dags. 22. maí 2017, þar sem sýslumaður skírskoti til afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins í tölvupósti þann 20. apríl 2017 þar sem fram kom að umsókn um rekstrarleyfi til sölu gistinga í flokki II sé hafnað þar sem ekki sé heimilt að leigja út hluta húss. Einnig vitni heilbrigðiseftirlit Suðurlands í umsögn sinni til fyrrgreindrar afstöðu skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins.

Kærendur vísa til þess að í umsögn sveitarfélagsins komi fram að upplýst hafi verið að kjallari fasteignarinnar sé ekki nýttur til útleigu og í ljósi þess hafi sveitarfélagið ákveðið að leiðrétta álagningu fasteignaskatts eignarinnar fyrir árið 2017. Hafi sú leiðrétting falið í sér lækkun fasteignagjalda ársins 2017 um kr. 240.746.- Kærendur telja þessa ákvörðun sveitarfélagsins jákvæða þó hún sé ekki í samræmi við málsmeðferðina frá fyrri tíma af hálfu sveitarfélagsins og í reynd megi halda því fram að afstaða sveitarfélagsins hafi til lengri tíma verið í samræmi við áðurnefndan rökstuðning skipulags- og byggingafulltrúa sveitarfélagsins. Ráða megi af umsögn sveitarfélagsins að þegar því var ljóst að hluti fasteignarinnar væri ekki til útleigu hafi verið ákveðið að breyta álagningunni. Þessi viðsnúningur sveitarfélagsins sé ekki í samræmi við fyrri afgreiðslu þess en sé engu að síður til eftirbreytni og í samræmi við þær reglur sem kærendur hafi ávallt vísað til.

Kærendur benda á að í kæru þeirra, dags. 15. nóvember 2017, hafi þeir óheppilega notað orðið rúmmál þegar hugsun þeirra hafi eðli máls samkvæmt verið notkun rýmiseininga og fallast kærendur á tilvísun sveitarfélagsins um að miða beri við flatarmál en ekki rúmmál við skiptingu eignarinnar milli gjaldflokka. Um hafi verið að ræða augljósa villu af hálfu kærenda.

 V.           Niðurstaða.

Kærendur gera þá meginkröfu að yfirfasteignamatsnefnd ákvarði hlutfallslega skiptingu fasteignaskatts vegna fasteignar þeirra að Illagili […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], fyrir árið 2017, milli gjaldflokka a- og c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Til vara gera kærendur kröfu um að fasteignaskattur eignarinnar verði alfarið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Með hliðsjón af málsástæðum kærenda og framsetningu á kærunni að öðru leyti lítur yfirfasteignamatsnefnd svo á að aðalkrafa þeirra lúti fyrst og fremst að því að ákveða beri fasteignaskatt af kjallara í sumarhúsi þeirra samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, fyrir árið 2017.

Kveðið er á um álagningu fasteignaskatts í II. kafla laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. laganna er það í höndum sveitarstjórna að ákveða fyrir lok hvers árs skatthlutfall innan þeirra marka sem greinir í stafliðum a til c í ákvæðinu. Þá er það í höndum byggingarfulltrúa að ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka þegar það á við, sbr. 6. gr. sömu laga.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um sumarbústaði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar sömu greinar. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að lagður sé fasteignaskattur allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum utan þeirra fasteigna sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind „iðnaðar-, skrifstofu- og verslunarhúsnæði, fiskeldismannvirki, veiðihús og mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Þá er sveitarstjórnum veitt heimild í 4. mgr. 3. gr. laganna til að hækka um allt að 25% álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laganna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga en samkvæmt skilgreiningu Hagstofu Íslands er ferðaþjónusta í raun ekki ein stök atvinnugrein heldur tekur til margra þjónustugreina og þar með talið hvers konar gistiþjónustu. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-liður 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi laga nr. 85/2007 eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að heimilt sé að skipta álagningu fasteignaskatts milli einstakra gjaldflokka innan hvers gjaldárs. Hefur í því sambandi m.a. verið vísað til 6. gr. laga nr. 4/1995, þar sem fram kemur að ef afnot fasteignar sem metin er sem ein heild er með þeim hætti að greiða skuli fasteignaskatt af henni samkvæmt fleiri en einum gjaldflokki sbr. 3. mgr. 3. gr. laganna þá skuli byggingarfulltrúi ákveða hlutfallslega skiptingu milli gjaldflokka. Má í þessu sambandi m.a. vísa til úrskurðar yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 4/2015.

Þá hefur yfirfasteignamatsnefnd jafnframt komist að þeirri niðurstöðu í fyrri úrskurðum að sveitarfélögum sé heimilt að leggja á fasteignaskatt samkvæmt gjaldflokki c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 á frístundahús (sumarbústaði) sem nýtt eru hluta úr ári sem gististaðir til ferðamanna á grundvelli tilskilinna rekstrarleyfa samkvæmt lögum nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Skal álagning samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 í slíkum tilvikum taka mið af þeim dagafjölda á ári hverju sem eignin er nýtt fyrir ferðaþjónustu en eigendum ber að tilkynna fyrirfram um það tímabil innan hvers árs sem þeir ætla að nýta eignina með fyrrgreindum hætti, sbr. m.a. úrskurðir yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 18/2015 og nr. 1/2016.

Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu kærenda að fasteign þeirra að Illagili […], hafi verið leigð út til ferðamanna og hafi í því skyni m.a. verið auglýst til útleigu á vefsíðunni www.homeaway.co.uk. Þannig virðist það vera óumdeilt að fasteign kærenda hafi að hluta til verið nýtt fyrir ferðaþjónustu á árinu 2017 og getur það ekki ráðið úrslitum við það mat hvort veitt hafi verið leyfi til reksturs gististaðar í eigninni samkvæmt lögum nr. 85/2007 eða ekki. Af gögnum málsins virðist það einnig óumdeilt að kærendur hafi ekki tilkynnt heilbrigðiseftirliti fyrirfram um aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar fasteignar sinnar á árinu 2017. Samkvæmt framansögðu ber að ákvarða fasteignaskatt vegna þess hluta eignarinnar sem nýttur er fyrir ferðaþjónustu samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Af kæru má ráða að kærendur telja óréttmætt að fasteignaskattur á kjallara sumarhús þeirra sé ákvarðaður samkvæmt c-lið 3. mgr. 3.gr. laga nr. 4/1995 þar sem hann sé ekki nýttur til útleigu til ferðamanna. Í umsögn sveitarfélagsins frá 12. desember 2017 kemur fram að sveitarfélagið hafi í kjölfar upplýsinga frá kærendum leiðrétt álagningu fasteignaskatts vegna ársins 2017 og ákvarðað fasteignaskatt vegna kjallarans samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Hlutfallsleg skipting milli gjaldflokka a- og c-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 hafi verið miðuð við hlutfall birts flatarmál kjallarans af heildarflatarmáli mannvirkisins. Við þessa breytingu hafi fasteignagjöld ársins 2017 lækkað um kr. 240.746.-. Að mati yfirfasteignamatsnefndar verður ekki annað séð en að eftir fyrrgreinda breytingu af hálfu sveitarfélagsins á álagningu fasteignaskatts vegna eignarinnar sé fasteignaskattur vegna hennar réttilega ákvarðaður.

Með hliðsjón af athugasemdum kærenda frá 22. janúar 2018 verður ekki séð að ágreiningur sé milli málsaðila um að miða skuli við flatarmál við hlutfallslega skiptingu fasteignarinnar á milli gjaldflokka. Í ljósi þess er ekki ástæða til frekari umfjöllunar um það atriði af hálfu yfirfasteignamatsnefndar.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið er álagður fasteignaskattur vegna sumarbústaðar kærenda að Illagili […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], fyrir árið 2017, eins og honum var breytt af hálfu sveitarfélagsins þann 26. maí 2017, staðfestur.

 

Úrskurðarorð

Álagður fasteignaskattur vegna sumarbústaðar að Illagili […], Grímsnes- og Grafningshreppi, fnr. […], fyrir árið 2017, eins og honum var breytt 26. maí 2017, er staðfestur.

 

 

_________________________________

Ásgeir Jónsson

 ______________________________           ________________________________

Björn Jóhannesson                                  Valtýr Sigurðsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum