Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

789/2019. Úrskurður frá 31. maí 2019

Úrskurður

Hinn 31. maí 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 789/2019 í máli ÚNU 18100006.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 14. október 2018, kærði A afgreiðslu Tryggingastofnunar ríkisins („TR“) á beiðni um aðgang að gögnum.

Í kæru kemur fram að þann 24. september 2018 hafi kærandi sent TR beiðni um aðgang að persónuupplýsingum um sig í gegnum „mínar síður“. TR hafi hafnað beiðninni á þeirri forsendu að stofnunin hafi engar persónuupplýsingar um kæranda. Kærandi hafi hins vegar undir höndum gögn úr vörslum TR sem innihaldi persónuupplýsingar um sig.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 16. október 2018, var kæran kynnt TR og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var þess óskað að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té í trúnaði afrit af þeim gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn TR, dags. 2. nóvember 2018, kemur fram að kærandi þiggi ekki bætur eða greiðslur frá stofnuninni og hafi ekki sótt um slíkt vegna sín. Engin gögn hafi því borist frá kæranda varðandi hann sjálfan og stofnunin hafi ekki tekið umsóknir til afgreiðslu. Því hafi TR engar upplýsingar um kæranda í kerfum stofnunarinnar. Hins vegar sé vísað til kæranda í gögnum sem borist hafa vegna umsóknar barnsmóður hans um umönnunargreiðslur með syni þeirra. Kærandi hafi fengið aðgang að þeim gögnum með ákvörðun TR, dags. 20. september 2018. Einnig hafi TR bent kæranda á að upplýsingar stofnunarinnar um hann komi fram á „mínum síðum“ stofnunarinnar, þ.e. um búsetu, fjölskylduaðstæður og þau bréf er stofnunin hafi sent honum.

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2018, var umsögn TR kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Þær bárust þann 3. desember 2018. Kærandi segir að TR hafi safnað viðkvæmum persónuupplýsingum um sig og þær birtist ekki á „mínum síðum“. Þess vegna óski kærandi eftir öllum upplýsingum um sig sem TR hafi undir höndum. TR hafi ekki reynt að takmarka umfang beiðninnar með neinum hætti eða reynt að finna flöt á því hvernig hægt sé að svara henni með einföldum hætti.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að persónuupplýsingum um hann í vörslum TR. Af hálfu TR hefur komið fram að stofnunin hafi veitt kæranda aðgang að gögnum sem hafi að geyma upplýsingar um kæranda með ákvörðun, dags. 20. september 2018. Einnig hafi TR bent kæranda á upplýsingar sem fram komi á svonefndum „mínum síðum“ sem kærandi hafi aðgang að hjá stofnuninni en að öðru leyti hafi TR engar upplýsingar um kæranda í kerfum stofnunarinnar.

Réttur aðila til aðgangs að gögnum er varða hann sjálfan tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 14. gr. og 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 20. gr. þeirra laga er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds á beiðni um að veita aðgang að fyrirliggjandi gögnum. Af þessu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar um upplýsingamál er í þessum tilvikum afmarkað við að fjalla um réttmæti synjunar á beiðni um aðgang að fyrirliggjandi gögnum samkvæmt lögunum. Þegar svo háttar til að umbeðin gögn eru ekki til staðar og afhending þeirra kemur af þeim sökum ekki til greina, telst ekki vera um synjun stjórnvalds í skilningi 20. gr. að ræða og ber úrskurðarnefndinni að vísa kæru þar að lútandi frá.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki forsendur til að rengja þá fullyrðingu TR að ekki hafi verið frekari upplýsingar um kæranda í fórum stofnunarinnar þegar beiðni kæranda barst. Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 14. október 2018, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum