Hoppa yfir valmynd
Kærunefnd jafnréttismála

Mál nr. 6/2019 - Úrskurður

Úrskurður kærunefndar jafnréttismála

 

A

gegn

Seðlabanka Íslands

 

Ráðning í starf. Hæfnismat. Sönnun.

Kærandi, sem er kona, taldi að brotið hefði verið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu kærða á karli í stöðu upplýsingafulltrúa. Að mati kærunefndarinnar töldust nægar líkur hafa verið leiddar að því í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kyns þannig að sú skylda yrði lögð á kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun hans. Heilt á litið nægðu þau sjónarmið sem kærði setti fram í málinu ekki til þess að ályktað yrði að sá karl sem ráðinn hefði verið hefði staðið kæranda framar við ráðningu í umrætt starf. Taldist kærði því ekki hafa sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hefðu legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starfið, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Taldist kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.

  1. Á fundi kærunefndar jafnréttismála hinn 17. desember 2019 er tekið fyrir mál nr. 6/2019 og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:
  2. Með rafrænni kæru, dagsettri 13. ágúst 2019, kærði A ákvörðun Seðlabanka Íslands um að ráða karl í starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra. Kærandi telur að með ráðningunni hafi Seðlabanki Íslands brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Verði sú niðurstaða staðfest af kærunefnd jafnréttismála krefst kærandi þess að kærða verði gert að greiða kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefndinni, sbr. 5. mgr. 5. gr. laganna.
  3. Kæran, ásamt fylgigögnum, var kynnt kærða með bréfi, dagsettu 15. ágúst 2019, og óskað eftir afstöðu hans. Í samræmi við beiðni kærða var frestur til þess að skila greinargerð framlengdur til 16. september 2019. Greinargerð kærða barst með bréfi, dagsettu 16. september 2019, og var hún kynnt kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 18. september 2019.
  4. Kærunefndinni barst bréf kæranda, dagsett 7. október 2019, með athugasemdum við greinargerð kærða. Var bréfið kynnt kærða með erindi kærunefndar, dagsettu 9. október 2019. Athugasemdir kærða bárust nefndinni með bréfi, dagsettu 22. október 2019, og voru þær kynntar kæranda með bréfi kærunefndar, dagsettu 23. október 2019.

    MÁLAVEXTIR

  5. Kærði auglýsti starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra í apríl 2019. Í auglýsingunni kom fram að óskað væri eftir að ráða metnaðarfullan einstakling til að vinna að nýsköpun í upplýsinga- og kynningarstarfi bankans. Í auglýsingunni var helstu verkefnum starfsins lýst svo: Umsjón með nýmiðlun í kynningarstarfi bankans; nýsköpun í upplýsinga- og kynningarefni bankans; gerð og miðlun upplýsinga um helstu verkefni bankans; umsjón með gerð myndræns kynningarefnis; eftirfylgni upplýsingastefnu og markmiða í upplýsingamálum; ráðgjöf og aðstoð við efnisgerð vegna kynningar-, fræðslu- og útgáfumála. Þá voru eftirfarandi hæfniskröfur skilgreindar í auglýsingunni: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; reynsla af kynningarstarfi og fjölmiðlun; góðir samskiptahæfileikar; góð kunnátta og ritfærni í íslensku og ensku; góð þekking á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum er kostur; drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt.
  6. Alls bárust 51 umsókn um starfið, en tveir umsækjendur drógu umsóknir sínar til baka. Umsóknir 49 umsækjenda voru því metnar og ákveðið að boða sjö umsækjendur í fyrstu viðtöl, þar af fjórar konur og þrjá karla. Kærandi var þar á meðal. Að viðtölunum loknum voru þrír umsækjendur, ein kona og tveir karlar, metnir hæfastir og þeir beðnir um að leysa tiltekin verkefni og skila úrlausnum til kærða. Í framhaldinu voru þeir boðaðir í seinna viðtal. Kærandi var ekki þar á meðal. Að síðari viðtölunum afstöðnum var ákveðið að bjóða einum umsækjendanna, karli, starfið sem hann þáði.
  7. Með tölvupósti, sendum 3. júní 2019, óskaði kærandi eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni um ráðningunni. Með bréfi kærða, dagsettu 18. júní 2019, var kæranda veittur rökstuðningur fyrir ákvörðuninni um ráðningu í starfið. Þar segir að við ákvörðun um ráðninguna hafi hæfniskröfur verið metnar heildstætt. Sá karl sem ráðinn hafi verið í starfið hafi lokið BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2017. Hann hafi starfað sem sjónvarpsfréttamaður frá 2018 hjá Stöð 2, útvarpsfréttamaður á Bylgjunni á árunum 2016 til 2018 og blaðamaður á Fréttablaðinu í rúmlega eitt ár þar sem honum hafi verið falið að skrifa meðal annars um stjórnmál, kjaramál og mál af erlendum vettvangi. Hann hafi í þrjá mánuði á árinu 2012 verið í starfsnámi á upplýsinga- og fjölmiðlasviði hjá Jafnaðarmannaflokknum á Evrópuþinginu og komið að gerð fréttatilkynninga, gerð örmyndbanda, tekið viðtöl þar sem stefna flokksins hafi verið skýrð, verið í samskiptum við fjölmiðlafólk og unnið með mál flokksins á samfélagsmiðlum. Þá hafi hann öðlast reynslu í að koma upplýsingum til ungs fólks með setu í stjórn Norðurlandaráðs æskunnar frá 2014 til 2015 og sem formaður Ungra jafnaðarmanna um nokkurra ára skeið. Hann hafi góða þekkingu á forritum á borð við Adobe Photoshop og InDesign sem gagnist við hönnun, myndvinnslu og umbrot. Þá muni reynsla hans af framsetningu efnis á samfélagsmiðlum nýtast vel við nýsköpun í upplýsingastarfi kærða. Á þessum grundvelli hafi það verið mat kærða að þessi umsækjandi hafi uppfyllt best þær kröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingunni um starfið. Menntun og starfsreynsla hans passi mjög vel við starfið auk þess sem umsagnir hafi verið jákvæðar. Frammistaða hans í viðtölum, þ.e. framkoma hans, svör við spurningum og úrlausn verkefnis, hafi verið mjög góð. Þess vegna hafi honum verið boðið starfið.
  8. Með tölvupósti, sendum 19. júní 2019, óskaði kærandi eftir umsókn þess sem ráðinn var, auk upplýsinga um nöfn hinna tveggja umsækjendanna sem taldir hefðu verið hæfastir að viðtölum loknum. Með tölvupósti, sendum 21. júní 2019, ítrekaði kærandi beiðnina og óskaði jafnframt eftir upplýsingum um mat kærða á umsókn hennar um starfið. Með bréfi kærða, dagsettu 25. júní 2019, voru kæranda sendar umbeðnar upplýsingar. Með tölvupósti, sendum 29. júní 2019, óskaði kærandi eftir nánari upplýsingum um þá tvo umsækjendur sem jafnframt voru metnir hæfastir að loknum viðtölum. Kærði sendi kæranda umbeðnar upplýsingar með bréfi, dagsettu 2. júlí 2019.

    SJÓNARMIÐ KÆRANDA

  9. Kærandi segir að viðtal við hana hafi farið fram 16. maí 2019 og tekið um það bil eina klukkustund. Síðan hafi kærandi ekkert frekar heyrt af málinu fyrr en 3. júní 2019 þegar tilkynnt hafi verið um hver hefði fengið starfið.
  10. Kærandi rekur rökstuðning kærða fyrir ákvörðun um ráðninguna, sbr. umfjöllun um þann rökstuðning hér að framan. Í bréfi kærða, dagsettu 25. júní 2019, komi fram að „engin eiginleg gögn liggja fyrir um mat bankans“ á umsögn kæranda umfram mat á menntun, hæfni og reynslu og hún borin saman við þá eiginleika sem hafi verið taldir mikilvægir fyrir umrætt starf.
  11. Kærandi telji að við ráðningu í starfið hafi kærði brotið brotið gegn 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og kynferði verið látið ráða við ákvörðunina fremur en hæfni til starfans. Verði sú niðurstaða staðfest af kærunefnd jafnréttismála óski kærandi eftir því að nefndin beiti ákvæðum 5. mgr. 5. gr. laganna.
  12. Kæra í máli þessu byggi á heimild í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 10/2008 þar sem segi að markmið laganna sé að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allir einstaklingar skuli eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.
  13. Þótt fulltrúar kærða hafi boðað þrjá umsækjendur í annað viðtal sé augljóst að kærandi beri höfuð og herðar yfir þann sem ráðinn hafi verið sé litið til menntunar og reynslu. Kærandi telji sig uppfylla vel allar hæfniskröfur sem gerðar hafi verið og mun betur en sá sem ráðinn hafi verið.
  14. Hér á eftir fari tafla þar sem eiginleikar þess sem ráðinn hafi verið og kæranda séu bornir saman, miðað við rökstuðning kærða, ferilskrá kæranda og þess sem ráðinn hafi verið:

    Hæfniskröfur

    Sá sem ráðinn var (hann)

    Kærandi (hún)

    Samanburður

    Háskólamenntun sem nýtist í starfi

    BA-gráða í stjórnmálafræði, HÍ 2017

    BA-gráða í mannfræði, HÍ 2002

    Diplóma í hagnýtri fjölmiðlun, HÍ, 2004

    MBA-gráða, HR, 2016.

    Kærandi hefur lokið þremur háskólagráðum, þar af diplómagráðu og annarri á meistaragráðustigi.

    Sá sem ráðinn var lauk BA-gráðu og stundaði námið með hléum á árunum 2009-2017.

    Reynsla af kynningarstarfi

    1. Starfsnám hjá Jafnaðarmanna-flokknum á Evrópuþinginu á uppýsinga– og fjölmiðlasviði frá febrúar–maí 2012. Þar kom hann að gerð fréttatilkynninga, vann örmyndbönd, tók viðtöl og var í samskiptum við fjölmiðlafólk og vann að samfélagsmiðlum.

    1. Kærandi var talsmaður/upplýs-ingafulltrúi stærsta fjarskiptafélags landsins í rúm fimm ár, frá 2012-2018. Auk þess að svara fyrirspurnum fjölmiðla ritaði kærandi allar fréttatilkynningar og birti á vef og bloggi félagsins og sendi fjölmiðlum, sá um innri upplýsingamiðlun til mörg hundruð starfsmanna, undirbjó efni á starfsmannafundi og upplýsingar til kauphallar. Ritaði einnig allan almennan texta í ársskýrslu félagsins og samfélags- ábyrgðarskýrslur, sem og fundargerðir framkvæmdastjórnar. Vann einnig með erlendum félögum að ritun fréttatilkynninga; Spotify, Ericsson og Comarch. Hún kom fram í eigin nafni sem talsmaður fyrirtækisins.

    2. Kærandi hefur unnið sjálfstætt með fyrirtækjum í almannatengslum í rúmt ár.

    3. Kærandi hefur sett upp og stýrt viðburðum FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu, til að auka sýnileika kvenna í fjölmiðlum.

    Kærandi hefur í það minnsta fimm árum lengri reynslu en sá sem ráðinn var af kynningarstarfi en reynsla hans þar kemur eingöngu úr starfsnámi.

    Kærandi hefur í 5,5 ár svarað fjölmiðlum sem upplýsingafulltrúi. Þá reynslu hefur sá sem ráðinn var ekki.

    Reynsla af fjölmiðlum

    1. Fjölmiðlareynsla á árunum 2016-2019.

    2. Gegnt starfi sjónvarps-fréttamanns frá mars 2018.

    3. Útvarpsfrétta-maður um tveggja ára skeið og blaðamaður á fréttamiðlinum Vísi.

    4. Blaðamaður á Fréttablaðinu frá febrúar 2015-maí 2016. Fréttaöflun og ritun.

    5. Setti inn fréttir á samfélagsmiðla fyrir Stöð 2, Vísi og Bylgjuna.

    6. Hefur góða þekkingu á Photoshop og InDesign.

    1. Fjölmiðlareynsla á árunum 2004-2012, 2018-2019.

    2. Gegndi starfi sjónvarps-fréttamanns sumarið 2010 á RÚV. Stýrði viðtalsþáttum í sjónvarpi 2009.

    3. Útvarpsfréttamaður sumarið 2010. Stýrði útvarpsþáttum Fréttablaðsins 2005, hádegisþáttum og morgunþáttum.

    4. Vann á árunum 2004 til október 2012 hjá Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, RÚV, Blaðinu/24 stundum og Fréttatímanum. Var blaðamaður, vaktstjóri, kvöldfréttastjóri, fréttastjóri og ritstjóri.

    5. Vann á mbl.is og setti inn fréttir á Vísi.

    6. Tilnefnd til verðlauna fyrir rannsóknar-blaðamennsku.

    7. Ritar nú viðtöl og fréttir, gerir hlaðvörp og tekur ljósmyndir og vinnur þær fyrir Læknablaðið frá 2018. Setur inn fréttir á samfélagsmiðla.

    8. Hefur þekkingu bæði á Photoshop og InDesign en var ekki í viðtalinu spurð sérstaklega um forrit tengd blaðamennsku aðeins sjónvarp.

    1. Kærandi hefur sent starfandi fjölmiðlum ógrynni fréttatilkynninga. Það hefur sá sem ráðinn var ekki gert.

    2. Kærandi hefur unnið að gerð fréttatilkynninga með erlendum stórfyrirtækjum. Það hefur sá sem ráðinn var ekki gert.

    3. Kærandi hefur reynslu af því að bregðast við og hafa samband við fjölmiðla vegna umfjöllunar. Þá reynslu hefur sá sem ráðinn var ekki.

    4. Kærandi hefur reynslu af skýrsluskrifum. Þá reynslu hefur sá sem ráðinn var ekki.

    Starfstími kæranda á fjölmiðlum er þrefalt lengri en starfstími þess sem ráðinn var. Sá starfstími kæranda er allur eftir grunnnám en hjá þeim sem ráðinn var er lengsti hluti starfstíma hans meðan hann var í námi.

    Kærandi hefur mun víðtækari reynslu umfram þann sem ráðinn var á dagblöðum landsins, svo munar sjö árum. Sá sem ráðinn var hefur hins vegar um árs lengri reynslu af útvarpsfréttamennsku en kærandi.

    Kærandi var stjórnandi; fréttastjóri og ritstjóri með yfirsýn yfir allar unnar fréttir hvern dag í starfi. Sá sem ráðinn var hefur ekki þá reynslu.

    Kærandi hefur verið tilnefnd til verðlauna fyrir blaðamennsku. Slíka tilnefningu hefur sá sem ráðinn var ekki.

    Kærandi hefur reynslu af ljósmyndun í starfi og af gerð hlaðvarpa. Þá reynslu hefur sá sem ráðinn var ekki.

    Góðir samskipta-hæfileikar

    1. Formaður Ungra jafnaðarmanna.

    2. Sat í stjórn Norðurlandaráðs æskunnar 2014-2015.

    3. Formaður Ungra Evrópusinna.

    4. Alþjóðafulltrúi Landssambands æskulýðsfélaga.

    5. Gjaldkeri Stúdentaráðs Háskóla Íslands.

    6. Formaður Sambands íslenskra framhaldsskóla-nema.

    7. Forseti Nemendafélags FG.

    8. Sveitaforingi í skátafélaginu Svönum.

    1. Talsmaður fjarskiptafyrirtækis á markaði.

    2. Hefur þróast í starfi og verið treyst fyrir mannaforráðum.

    3. Situr í dómnefnd fyrir Blaðamannafélag Íslands.

    4. Framkvæmdanefnd FKA til að auka hlut kvenna í fjölmiðlum.

    5. Treyst til leiðaraskrifa í fjórum dagblöðum landsins.

    6. Var formaður nemendafélags Grunnskólans á Hólmavík til tveggja ára, en kom ekki fram í ráðningarferli.

    1. Sá sem ráðinn var talaði sem formaður ungra jafnaðarmanna og hefur verið í framvarðasveit í skólapólitík og annarri. Kærandi hefur verið talsmaður félags með 30 milljarða árlega veltu í markaði.

    2. Kæranda hefur verið treyst til að stýra mannskap á vinnustað. Það á ekki við um þann sem ráðinn var.

    Góð kunnátta og ritfærni í íslensku og ensku

    1. Þriggja ára fréttamennska í innlendum og erlendum fréttum gengi ekki án góðrar tungumála-kunnáttu.

    1. Fimmtán ára reynsla í fjölmiðlum og almannatengslum gengi ekki án góðrar tungumála-kunnáttu.

    2. MBA nám HR er allt kennt á ensku.

     

    Góð þekking á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum er kostur.

    1. Ritaði erlendar fréttir, einnig um utanríkismál, stjórnmál og kjaramál.

    1. Fréttastýrt bæði innlendum og erlendum fréttum. Hefur einnig ritað fréttir um kjaramál, utanríkismál, stjórnmál og vísitöluna.

    2. Lauk efnahags- og fjármálatengdum áföngum í MBA–náminu, þar á meðal í bókhaldi, markaðsfræði og þjóðhagfræði.

    3. Upplýsingafulltrúi í skráðu félagi.

    Kærandi hefur lokið áföngum í MBA–námi sem sanna góða þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum.

    Sá sem ráðinn var hefur enga sambærilega menntun.

    Drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt.

    1. Forsenda góðrar blaða- og fréttamennsku.

    1. Forsenda góðrar blaða- og fréttamennsku.

    2. Kærandi heldur utan um eigin rekstur.

    3. Kærandi rak og stýrði ritstjórn og hélt utan um og kom með hugmyndir fréttastofu.

    4. Stundaði MBA– nám samhliða vinnu og barnauppeldi.

    Bæði uppfylla örugglega þessa kröfu hvort á sinn hátt.

    Kærandi lauk þó námsframvindu á háskólastigi á hefðbundnum og eðlilegum námshraða. Það gerði sá sem ráðinn var ekki heldur lauk hann á þreföldum tíma námi sem telst þriggja ára nám.

     

     

  15. Augljóst sé af þessari samanburðartöflu að sá sem ráðinn hafi verið hafi uppfyllt með mun lakari hætti en kærandi hlutlægar kröfur til starfsins. Kærandi telji því að karlinn hefði aldrei átt að ná svo langt í ráðningarferlinu sem raun hafi borið vitni. Hlutlægum mælikvörðum hafi verið vikið til hliðar og ráðningin byggð á huglægum sjónarmiðum. Það sem mesta athygli veki í rökstuðningi kærða sé eftirfarandi:
    • Þriggja mánaða starfsnám á upplýsinga- og fjölmiðlasviði hjá Jafnaðarmannaflokknum á Evrópuþinginu á árinu 2012 vegi þyngra en diplómagráða í hagnýtri fjölmiðlun og MBA–gráða, samtals þriggja ára framhaldsnám í Háskóla sem kærandi hafi lokið umfram þann sem ráðinn hafi verið.
    • Upplýsingagjöf í þriggja mánaða starfsnámi sé talin veigameiri en öll sú hagnýta reynsla sem kærandi hafi umfram þann sem ráðinn hafi verið sem upplýsingafulltrúi/talsmaður stórs og öflugs hlutafélags á markaði í rúm fimm ár, skýrsluskrif á þeim tíma, innri upplýsingagjöf og samskipti við fjölmiðla. Einskis sé metin reynsla kæranda sem sjálfstætt starfandi við almannatengsl.
    • Reynsla þess sem ráðinn hafi verið sem blaða- og sjónvarpsfréttamaður á árunum 2016-2019 sé metin veigameiri en reynsla kæranda sem blaða- og sjónvarpsfréttamaður, vaktstjóri, kvöldfréttastjóri, fréttastjóri og ritstjóri á árunum 2004-2012 og aftur sem blaðamaður frá árinu 2018.
    • Sérstök áhersla sé lögð á þekkingu þess sem ráðinn hafi verið á InDesign og Photoshop. Kærandi hafi ekki verið spurð um þekkingu sína á þessum forritum sem unnið sé samhliða með í núverandi starfi kæranda. Blaðið/24 stundir, Fréttatíminn og Læknablaðið séu öll sett upp í InDesign. Kærandi hafi því einnig þekkingu á þessum forritum.
    • Fyrir liggi að sá sem nú gegni stöðu ritstjóra kærða sé karlmaður. Það hefði því átt að vera eftirsóknarvert fyrir kærða að ráða konu í þetta starf þannig að störf sem tengist almannatenglum á vegum kærða væru skipuð bæði karli og konu.
  16. Í rökstuðningi kærða sé lögð áhersla á að tekið hefði verið sérstakt tillit til eðli starfsins sem sé nýtt innan kærða og snúi að nýmiðlun og nýsköpun í upplýsinga- og kynningarstarfi. Ekkert í hæfniskröfum um starfið krefjist þó sérstakrar þekkingar á því sviði. Við samanburð umsókna þess sem ráðinn hafi verið og kæranda standi hann ekki framar kæranda í reynslu á því sviði. Kærandi leggi áherslu á að í starfi hennar hjá fjarskiptafyrirtæki á markaði hafi hún komið að gerð efnis á þessa miðla. Í núverandi starfi hjá Læknablaðinu framleiði kærandi og setji inn efni á samfélagsmiðil Læknablaðsins. Kærandi hafi unnið bæði að gerð myndbandaframleiðslu og texta og hafi góða þekkingu á framsetningu efnis á þessa miðla.
  17. Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 sé atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Kærandi telji að með framangreindu hafi hún leitt sterkar líkur að því að við ráðningu í starfið hafi henni verið mismunað á grundvelli kyns, sbr. 4. mgr. 26. gr. laganna.
  18. Ráðningarferlið standist ekki grunnkröfur stjórnsýslulaga um jafnræði á meðal umsækjenda þegar af þeim ástæðum sem nefndar hafi verið að framan. Þá endurspegli rökstuðningur kærða á hve huglægum sjónarmiðum annars vegar og kynbundnum hins vegar ráðningin hafi verið byggð.
  19. Kærandi hafi lokið þremur háskólagráðum, öllum á eðlilegum námstíma. Sá sem hafi verið ráðinn hafi eina háskólagráðu sem hann hafi lokið á mjög löngum tíma, nálægt þrisvar sinnum lengri en eðlilegt sé talið. Kærandi hafi bæði lengri og mun víðtækari reynslu á fjölmiðlum landsins en sá sem ráðinn hafi verið. Kæranda hafi verið treyst fyrir veigameiri stöðum innan þeirra. Kærandi hafi reynslu af almannatengslum, bæði sjálfstætt starfandi og fyrir skráð félag á markaði, og verið í tengslum við starfandi fjölmiðla vegna þess starfs, ólíkt þeim sem hafi verið ráðinn. Sá sem hafi verið ráðinn hafi í raun eingöngu tveggja ára starfsreynslu eftir námslok. Öll önnur starfsreynsla hans sé starfsreynsla á námstíma.
  20. Í auglýsingu hafi verið krafist góðrar samskiptahæfni, drifkrafts, frumkvæðis og getu til að vinna faglega og sjálfstætt. Kærandi hafi unnið sjálfstætt og sýnt mælanlegan árangur í starfi. Hún hafi stýrt ritstjórnum og rekið þær fjárhagslega; haldið utan um og komið með hugmyndir fyrir fréttastofu og þá blaðamenn sem þar vinni dag frá degi.
  21. Þekking á InDesign og Photoshop (sem kennd sé annars vegar þrisvar í viku á þremur vikum hjá Promennt og hins vegar tvisvar í viku á hálfum mánuði, og kærandi nýti meðal annars í núverandi starfi) og þátttaka þess sem hafi verið ráðinn frá ungum aldri í pólitík, eins og nefnt sé í rökstuðningi við ráðningu hans, geti ómögulega í huga kæranda vegið þyngra en áralöng reynsla og menntun hennar, sambönd og þekking sem hún hafi á starfinu.
  22. Kærði gegni veigamiklu hlutverki í íslensku samfélagi. Honum farnist best þegar hann byggi ákvarðanir sínar á faglegum forsendum. Það geri hann þegar hann skipi menntaðasta og reynsluríkasta fólkið sem hann hafi völ á hverju sinni. Þá megi ekki gleyma því að verið sé að útdeila gæðum þegar ráðið sé í störf á vegum ríkisins. Fólk þurfi að standa jafnfætis og frammi fyrir skýrum leikreglum þegar þeim sé úthlutað. Þetta sé banki landsmanna allra.

    SJÓNARMIÐ KÆRÐA

  23. Kærði segir að um hafi verið að ræða nýtt starf innan bankans til hliðar við þann starfsmann bankans sem farið hafi fyrir upplýsingamálum í bankanum, svokallaðan ritstjóra.
  24. Í upphafi hafi umsóknir verið yfirfarnar af fjórum aðilum innan kærða með tilliti til þeirra þátta sem hægt hafi verið að meta hlutlægt út frá fyrirliggjandi gögnum, þ.e. ferilskrám og kynningarbréfum umsækjenda. Á þessu fyrsta stigi hafi því verið horft til þeirra hæfniskrafna sem hafi komið fram í auglýsingu um starfið. Umsækjendur hafi verið metnir út frá þeim þáttum sem þar hafi komið fram og hver og einn aðili sem hafi farið yfir umsóknirnar metið umsækjendur ýmist „mjög hæfa“, „hæfa“ eða „minna hæfa“. Að loknu því matsferli hafi verið ákveðið að kalla þá umsækjendur í viðtal sem að minnsta kosti þrír af fjórum aðilum hafi talið „hæfa“ og þar af að minnsta kosti tveir talið „mjög hæfa“. Því hafi sjö aðilar verið boðaðir í fyrsta viðtal, þar af fjórar konur og þrír karlar.
  25. Í næsta skrefi, viðtölunum, hafi verið leitast eftir að leggja mat á þá hæfni sem væri matskenndari en sú sem hafi verið horft til á fyrsta stigi og sérstaklega leitast eftir að meta sérþekkingu og aðra sérstaka hæfileika sem kæmu að notum við þau verkefni sem undir starfið heyri og lýst hafi verið í auglýsingu. Þá hafi einnig verið höfð í huga starfslýsing áðurnefnds ritstjóra sem nýr upplýsingafulltrúi myndi starfa við hlið og sérþekking á þeim verkefnum sem undir hann heyri gefið minna vægi, svo sem reynsla af samskiptum við fjölmiðla. Tekið hafi verið fram í upphafi viðtals að starfið sem um ræði væri til hliðar við ritstjóra sem einnig sinnti upplýsingamálum.
  26. Undir þann upplýsingafulltrúa (ritstjóra) sem hafi verið fyrir falli eftirtalin verkefni:
    • Regluleg samskipti við fjölmiðlafólk.
    • Umsjón með samskiptum fjölmiðla við starfsfólk bankans.
    • Svörun fyrirspurna sem beinast að bankanum.
    • Umsjón með efni sem SÍ sendir frá sér á samfélagsmiðlum og ytri vef.
    • Umsjón með kynningum bankans til ytri aðila.
    • Verkefnastjórn/ritstjórn útgáfu ársskýrslu.
    • Ýmis skrif og yfirferð á textum, þar með talið vegna heimasíðu bankans.
  27. Undir auglýsta stöðu upplýsingafulltrúa falli aftur á móti eftirtalin verkefni:
    • Umsjón með nýmiðlun í kynningarstarfi bankans.
    • Nýsköpun í upplýsinga- og kynningarefni bankans.
    • Gerð og miðlun upplýsinga um helstu verkefni bankans.
    • Umsjón með gerð myndræns kynningarefnis.
    • Eftirfylgni upplýsingastefnu og markmiða í upplýsingamálum.
    • Ráðgjöf og aðstoð við efnisgerð vegna kynningar-, fræðslu- og útgáfumála.
  28. Því hafi, þrátt fyrir að gerðar hafi verið ákveðnar almennar hæfniskröfur um háskólamenntun sem nýtist í starfi, reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun og fleira, ekki síður verið litið til þess að umsækjendur hefðu mismikla reynslu af þess konar upplýsingamiðlun sem um ræði í viðkomandi starfi. Lýsing á þessum verkefnum komi skýrt fram í auglýsingu þar sem óskað hafi verið eftir metnaðarfullum einstaklingi til að vinna að nýsköpun í upplýsinga- og kynningarstarfi bankans. Í viðtölum hafi því sérstaklega verið leitast eftir að afla upplýsinga um þekkingu og reynslu umsækjenda af eftirfarandi:
    • Nýsköpun í upplýsinga- og kynningarstarfi.
    • Umsjón með nýmiðlun í kynningarstarfi.
    • Framleiðslu á myndefni, myndböndum eða myndrænu efni t.a.m. fyrir samfélagsmiðla.
    • Hvernig meta skuli árangur nýmiðlastefnu.
  29. Auk þess að reyna að draga fram þekkingu umsækjenda á þessum sviðum hafi þau verið spurð út í mat sitt á núverandi upplýsingamiðlun kærða og hvernig þau sæju fyrir sér nýmiðlun í kynningarstarfi bankans í framtíðinni út frá sinni reynslu af sambærilegum verkefnum. Sömu spurningar hafi verið lagðar fyrir alla umsækjendur í viðtölunum og komi svör þeirra fram í fylgigögnum ásamt minnispunktum úr viðtölum við kæranda og þann sem hafi verið ráðinn.
  30. Að fyrstu umferð lokinni hafi þrír umsækjendur verið metnir hæfastir til að gegna starfinu; tveir karlar og ein kona. Af þeim sem hafi ekki verið metnir hæfastir hafi, ásamt kæranda, verið einn karl sem líkt og kærandi hafi verið með meiri háskólamenntun og lengri starfsreynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun en sá sem hafi verið ráðinn. Því hafi það ekki verið kyn sem hafi haft áhrif á það hvaða aðilar hafi verið metnir hæfastir eftir fyrstu umferð viðtala heldur hafi það verið áðurnefndir þættir, sérþekking og reynsla á sviði starfsins.
  31. Þau þrjú sem hafi verið metin hæfust hafi öll sýnt fram á skýra sýn á upplýsingamiðlun kærða og hvernig ætti að móta nýmiðlastefnu til framtíðar. Þau hafi haft reynslu af sambærilegum verkefnum og nefnt hvernig framkvæmdinni ætti að vera háttað og hvernig ætti að meta árangur slíkrar stefnu. Þau þrjú hafi því öll sýnt fram á meiri þekkingu á áðurnefndum atriðum en aðrir umsækjendur og hafi þeim því verið boðið að vinna verkefni þar sem þau gætu sýnt betur fram á þessa getu sína. Þau hafi verið beðin um að leysa tiltekin verkefni og skila úrlausnum til bankans. Í framhaldinu hafi umræddir umsækjendur verið boðaðir í seinna viðtal.
  32. Við mat á verkefnum þessara þriggja umsækjenda hafi verið leitað til sjö einstaklinga innan kærða með mismunandi sérsvið. Þeir hafi komist að þeirri niðurstöðu að tveir umsækjendur, karl og kona, hefðu skilað góðum verkefnum sem hafi sýnt mikinn skilning á efninu og getu til að koma því á framfæri með einföldum hætti. Jafnframt hafi þeir komist að þeirri niðurstöðu að sá sem hafi verið ráðinn bæri þar af þar sem hann hafi nálgast viðfangsefnið á annan hátt en hingað til hafi verið gert innan kærða og hafi því verið talið að hann væri góð viðbót við teymi kærða. Nálgun hans hafi verið einstaklega frumleg og skemmtileg. Hann hafi því ekki einungis búið yfir sérþekkingu á þessum þáttum heldur einnig sérstökum hæfileikum sem komi sér vel fyrir nýsköpun í upplýsinga- og kynningarefni.
  33. Í ljósi framangreinds hafi það verið niðurstaða kærða að ráða þann sem ráðinn hafi verið í starf upplýsingafulltrúa með umsjón með nýmiðlun og nýsköpun í upplýsinga- og kynningarefni kærða. Ráðningarferlið hafi því falið í sér, líkt og áður segi, margþætt mat á hæfni þess sem ráðinn hafi verið, hann hafi uppfyllt áðurnefndar almennar hæfniskröfur upp að nægjanlegu marki, hann hafi útskrifast með BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2017, haft reynslu sem sjónvarpsfréttamaður, útvarpsfréttamaður og blaðamaður. Hann hafi verið í starfsnámi á upplýsinga- og fjölmiðlasviði hjá Jafnaðarmannaflokknum á Evrópuþinginu þar sem hann hafi komið að gerð fréttatilkynninga, unnið örmyndbönd, tekið viðtöl þar sem stefna flokksins hafi verið skýrð, verið í samskiptum við fjölmiðlafólk og unnið með mál flokksins á samfélagsmiðlum, svo eitthvað sé nefnt. Hann hafi einnig reynslu af nýmiðlun í ýmsu félagsstarfi og framleiðslu myndræns efnis og hafi góða þekkingu á ýmsum forritum, til dæmis Adobe (til dæmis Photoshop og InDesign) sem nýtast muni við hönnun, í umbroti og myndvinnslu. Enn fremur hafi hann unnið í áhugaverðum verkefnum í frítíma sínum, svo sem hlaðvarpsþátttinn Pendúlinn.
  34. Umfram það að fylla nauðsynlegar hæfniskröfur nægjanlega hafi frammistaða hans í viðtölum verið mjög góð og hann sýnt fram á þekkingu og reynslu af sérsviði þessa starfs upplýsingafulltrúa sem eigi að hafa umsjón með nýmiðlun og nýsköpun í kynningarstarfi og sýnt enn fremur að hann hefði skýra sýn fyrir slíkt starf hjá kærða til framtíðar. Þá hafi verkefni hans verið mjög gott og sýnt fram á metnað, frumleika og mikla getu í starfið sem um ræði. Þá hafi einnig umsagnir utanaðkomandi aðila verið mjög góðar.
  35. Hluti af undirbúningi veitingarvaldshafa fyrir stöðuveitingu á íslenskum vinnumarkaði felist í því að afla sambærilegra upplýsinga og gagna frá öllum umsækjendum til þess að hægt sé að bera þá saman og leggja heildstætt mat á þekkingu þeirra, reynslu og hæfni. Það sé því mikilvægt að endanleg ákvörðun um stöðuveitingu sé byggð á samanburði á öllum þeim þáttum sem lagðir séu til grundvallar við undirbúning hennar, svo sem innsendum gögnum, hæfnismati, umsögnum, viðtölum og prófum. Á þetta heildstæða mat hafi verið lögð áhersla í dómum á mismunandi dómsstigum, sem og álitum umboðsmanns Alþingis.
  36. Hjá kærða starfi 156 sérfræðingar og sé kynjahlutfallið 51% karlar (80 starfsmenn) og 49% konur (76 starfsmenn). Starfandi framkvæmdastjórar séu 11, þar af 6 karlar og 5 konur. Á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu bankastjóra starfi 10 sérfræðingar, 6 konur og 4 karlar.
  37. Ekki hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 10/2008 við framangreinda stöðuveitingu. Kæran sé því tilefnislaus. Kærða hafi verið frjálst að velja þann einstakling sem metinn hafi verið hæfastur á grundvelli þeirra viðmiða sem hafi komið fram í auglýsingu og með vísan til þess heildstæða mats sem hafi farið fram hjá kærða.
  38. Eins og lýst hafi verið hér að framan hafi farið fram mjög vandað ferli á umsóknum sem hafi borist vegna starfsins. Við fyrsta val úr hópi umsækjenda hafi verið valdir sjö einstaklingar og það val farið fram af fjórum einstaklingum innan kærða. Við það hafi verið horft til eftirgreindra atriða: Háskólamenntun sem nýtist í starfi, reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun, þekkingu á efnahags- og peningamálum (gefið minna vægi, þ.e. tekið fram í auglýsingu að slík þekking væri kostur en ekki nauðsyn) og rithæfni. Þeir einstaklingar sem hafi talist hæfastir vegna þessara þátta hafi verið boðaðir í viðtal.
  39. Í þessu ljósi sé einnig rétt að draga fram að sé einungis horft til ferilskrár við mat á hæfni fólks í ákveðin störf þá leiði það af sér að viðtöl séu almennt óþörf og rétt sé að ráða þann sem sé með lengsta starfsreynslu samkvæmt ferilskrá. Slík vinnubrögð séu þó almennt ekki viðhöfð við ráðningar, enda margir aðrir þættir sem horfa þurfi til.
  40. Einnig sé ljóst að margir ólíkir aðilar hafi komið að ráðningunni og leitast hafi verið við að hafa sanngirni að leiðarljósi í gegnum allt ferlið. Eins og að framan greini hafi verið vandað mjög til þess að velja einstaklinga í það starf sem mál þetta varði. Sá einstaklingur sem hafi verið hæfastur til starfsins hafi verið valinn og ekki hafi verið með neinu móti brotið gegn lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla við ráðningu í starf upplýsingafulltrúa.

    ATHUGASEMDIR KÆRANDA

  41. Kærandi segir að hún telji að kærði hafi bæði brotið gegn lögum nr. 10/2008 og réttmætisreglunni sem eigi að koma í veg fyrir að geðþótti og tilviljun ráði för við töku stjórnvaldsákvarðana. Það hafi kærði gert þegar hann hafi kosið að horfa fram hjá starfsreynslu og menntun hennar og sækjast eftir öðrum eiginleikum við ráðninguna en kveðið hafi verið á um í hæfniskröfum auglýsingar.
  42. Af greinargerð kærða sé ljóst að hann hafi ákveðið að gefa meginþáttum hæfniskrafna sem farið hafi verið fram á í auglýsingu, þ.e. menntun og reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun, minna vægi en eðlilegt geti talist og horfa heldur til huglægra þátta, sem ekki hafi verið meðal hæfniskrafna, án þess að umsækjendum væri mögulegt að gera sér grein fyrir því. Þá hafi stofnunin ekki kannað ítarlega hvort kærandi byggi yfir þeirri hæfni á nýmiðlum sem hann hafi nefnt, sem virðist hafa ráðið úrslitum um valið á þeim sem hafi verið ráðinn, og ekki gert kröfu um menntun á því sviði.
  43. Kærandi telji að kærði hafi í greinargerð sinni vikið sér undan því að útskýra af hverju sá sem ráðinn hafi verið, hafi yfirleitt verið í hópi þeirra sem teknir hafi verið í viðtal því af greinargerðinni megi ráða að allmargir í hópnum hafi verið með umtalsvert meiri menntun og starfsreynslu en hann. Fyrir liggi að sá sem hafi verið ráðinn hafi fullnægt eingöngu menntunarkröfum með einni háskólagráðu, á meðan kærandi sé með þrjár. Þá hafi hann aðeins komið að kynningarmálum í starfsnámi en ekki eftir að námi hafi lokið. Af auglýsingu hafi ekki mátt ráða að það væri nóg, enda hafi auglýsingin fyrst greint frá því að hafa þyrfti menntun við hæfi, þá reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun. Venja sé að skoða starfsreynslu að námi loknu. Af því síðastnefnda megi sjá að sá sem hafi verið ráðinn hafi ekki fullnægt þeim almennu hæfnisskilyrðum sem gerð hafi verið krafa um í auglýsingu starfsins og hefði því ekki átt að koma til greina í það.
  44. Lýsing kærða á starfinu sé ekki í samræmi við auglýsinguna þar sem ekki hafi verið beðið um sérstaka þekkingu á nýmiðlun, þótt þeir heyrðu til helstu verkefna. Í vinnslu á umsóknum virðist kærði vinsa út helstu hæfnisþætti og einblína á huglæga þætti í von um að sníða starfsmann í kringum þekkingu ritstjórans. Með þessu vinnulagi, að velja minna menntaðan karl með enga eiginlega reynslu af kynningarmálum og enga menntun í nýmiðlun, en telja takmarkaða reynslu hans af þeirri miðlun vega meira en kæranda, telji hún að kærði hafi brotið lög nr. 10/2008.
  45. Umboðsmaður Alþingis hafi ítrekað bent á að stjórnvöldum beri að fara með umsóknir í samræmi við þau sjónarmið sem fram komi í auglýsingu og meta hæfni umsækjenda með hliðsjón af þeim. Í skýrslu umboðsmann fyrir árið 2017 sé til dæmis komið inn á þetta.
  46. Í tilviki kæranda hafi kærði gert lítið með þá þekkingu sem ætla hafi mátt að hefði mest vægi með hliðsjón af auglýsingunni og valið bæði reynsluminni og minna menntaðan karlmann. Takmörkuð þekking hans á miðlun efnis á samfélagsmiðlum og myndbandagerð, sem hann hafi hvorki menntun til né mikla reynslu, hafi verið talin vega þyngra en menntun og reynsla kæranda.
  47. Af þeim gögnum sem kærði hafi sent sé augljóst að eingöngu huglægir þættir hafi ráðið því hver hafi verið ráðinn því gagnvart formlegum hæfniskröfum hafi viðkomandi staðið langt að baki kæranda.
  48. Út frá gögnum málsins hafi kærandi gert athugasemd við að endanleg rök fyrir ráðningu þess sem hafi verið ráðinn séu byggð á frammistöðu hans í verkefni sem hún hafi ekki fengið tækifæri til að spreyta sig á. Bent sé á umfjöllun umboðsmanns Alþingis í áliti hans í máli nr. 8956/2016.
  49. Af öllum þeim upplýsingum, sem kærandi hafi afhent og sagt kærða frá í ráðningarferlinu, hefði honum átt að vera ljóst að kærandi hafi ekki síður en sá sem hafi verið ráðinn reynslu af samfélagsmiðlum og myndbandagerð, þótt hún hafi hugsanlega gert minna úr því en hann. Kærandi hafi til að mynda sagt frá því í ráðningarviðtalinu að hún hefði verið í teymi sem hafi unnið að stórri herferð fyrir Símann og Samgöngumiðstöð, Höldum fókus. Kærandi telji ástæðu til að nefna að átakið Höldum fókus hafi hlotið íslensku auglýsingarverðlaunin Lúður sem herferð ársins 2013. Átakið hafi einnig verið endurtekið í Noregi.
  50. Þessar upplýsingar um verkefni sem kærandi hafi komið að hafi greinilega ekki vegið þungt í viðtalsferlinu á sama tíma og sérstaklega sé tínt til hjá þeim sem hafi verið ráðinn vinna hans í frístundum við hlaðvarpsþátt. Þá veki athygli endurtekin áhersla kærða á stutt starfsnám þess sem hafi verið ráðinn hjá Jafnaðarmannaflokknum á Evrópuþingi. Greinilegt sé að sú reynsla hafi vegið þungt við ráðninguna því hún sé bæði tilgreind í upphaflegum rökstuðningi kærða sem og greinargerð hans. Kærandi hafi ekki gert sér grein fyrir að flokkspólitíkt starfsnám skipti máli og telji að þess hefði átt að geta í auglýsingunni miðað við það vægi sem þetta stutta starfsnám þess sem ráðinn hafi verið, sé gefið.
  51. Það hafi bæði komið fram í ferilskrá og viðtali að kærandi hefði einnig unnið sem sjónvarps- og útvarpsfréttamaður eins og sá sem hafi verið ráðinn, verið með útvarps- og sjónvarpsþætti, sett inn efni á Facebook-síðu Læknablaðsins og unnið fyrir það hlaðvörp. Kærandi telji að hefði hún fengið tækifæri til að leysa verkefni eins og sá sem ráðinn hafi verið hafi fengið að gera, hefði þessi reynsla hennar komið glögglega fram.
  52. Þar sem kærði hafi ekki leitað allra leiða til að ganga úr skugga um að hann væri að ráða hæfasta umsækjandann í starfið heldur látið huglægt mat sitt ráða niðurstöðunni hafi hann brotið gegn lögum nr. 10/2008. Kærði hafi gengið fram hjá betur menntaðri og reynslumeiri kvenmanni og valið karl með takmarkaða þekkingu og enga menntun á samfélagsmiðlum eða myndbandagerð og metið veigameiri huglæga kosti hans um leið og litið hafi verið fram hjá minni menntun hans og starfsreynslu. Vert sé að benda á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 2699/1999 í þessu samhengi.
  53. Kærði segi að umsagnir utanaðkomandi aðila hafi verið mjög góðar í rökstuðningi fyrir ráðningunni. Þessi rök standist ekki skoðun þar sem fyrir liggi að kærði hafi ekki aflað umsagna meðmælenda kæranda.
  54. Þar sem kærandi hafi ekki fengið tækifæri til að leysa lokaverkefni geti kærði ekkert fullyrt um betri hæfni þess sem ráðinn hafi verið gagnvart samfélagsmiðlum. Þá bendi kærandi, vegna þessarar fullyrðingar, á álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 6614/2011.
  55. Það sé óviðunandi að verulega meiri menntun, starfsreynsla og þekking kæranda sé sópað út af borðinu fyrir meinta kunnáttu þess sem ráðinn hafi verið á sviðum sem hafi verið látin fá meiri vigt en frumkröfur samkvæmt auglýsingu til starfsins, þ.e. menntun og starfsreynsla. Til viðbótar komi að þekking kæranda á þeim sviðum sem virðast ráða úrslitum um ráðninguna umfram kæranda hafi ekki verið könnuð að nokkru ráði.
  56. Vegna þess sem kemur fram í greinargerð kærða um mat á umsækjendum í viðtölunum sé minnt á að kærandi hafi sagt frá því í viðtali sínu að hún hafi í starfi náð þeim árangri fyrir fyrri vinnuveitanda að ná hlutfalli neikvæðra frétta úr fjórðungi í 0% sem hefði verið staðan síðustu fimmtán mánuði í starfinu. Hún hafi verið fréttastjóri í stjórnendateymi sem hafi náð lestri Blaðsins úr rétt rúmum 30% í 45% á fjórum mánuðum árið 2006. Hún hafi ritstýrt næststærsta dagblaði landsins og hafi verið fréttastjóri á þeim miðli í tæp tvö ár. Hún hafi verið kvöldfréttastjóri og ritað leiðara í Morgunblaðið. Hún hafi verið í teymi sem hafi stofnað Fréttatímann og náð blaðinu í um 40% lestur. Hún hafi unnið sjálfstætt með fyrirtækjum í kynningarstarfi. Hún hafi stýrt útvarps- og viðtalsþáttum í sjónvarpi. Hún hafi einnig sagt frá því að hún hafi unnið hlaðvörp fyrir Læknablaðið og birt færslur frá miðlinum á Facebook. Í ferilskrá hafi komið fram að hún hefði verið tilnefnd til rannsóknarblaðamannaverðlauna. Á matsblaði sé ekki að sjá að viðmælendum hafi þótt neitt af þessu nógu merkilegt.
  57. Kærði hafi boðað sjö umsækjendur í viðtal, fjórar konur og þrjá karla. Í greinargerð kærða sé því lýst hvernig huglægt mat nokkurra innan kærða hafi ráðið því hvernig umsækjendur hafi lent í þessum sjö manna hópi. Kærði geri aftur á móti enga tilraun til að útskýra hvað hafi orðið til þess að þau sjö sem hafi verið valin hafi verið talin hæfust og sýni með engum hætti að þau hafi, hvað menntun og starfsreynslu snerti, verið jafn hæf.
  58. Kærandi árétti því fyrri athugasemd um það að kærði hafi með engum hætti útskýrt hvernig sá sem hafi verið ráðinn hafi komist í þennan sjö manna hóp. Kærandi telji að það hljóti að vera hluti af skoðun málsins að kanna hvaða sjónarmiðum hafi verið beitt til þess að tryggja honum þann sess.
  59. Hér hefði verið gagnlegt að fá rökstuðning fyrir því hvað hafi ráðið því að sá sem hafi verið ráðinn hafi komist í hópinn. Þar hafi hlutlægir þættir ekki ráðið úrslitum eins og beri að gera í þessu vali. Af greinargerðinni verði ekki annað ráðið en að þetta mat hafi meira verið huglægt en byggt á menntun og starfsreynslu. Kærandi óski eftir því að fá að vita hvaða mat þau sjö sem hafi verið boðuð hafi fengið í þessu ferli og samanborið við þá sem ekki hafi komist í viðtal.
  60. Kærandi telji þetta nauðsynlegt til að sjá hvort þessar upplýsingar séu í raun til. Í svari kærða til kæranda frá 25. júní 2019 segi að engin eigindleg gögn liggi fyrir um mat kærða á umsókn hennar um starfið umfram það sem þegar hafi komið fram, þ.e. eftir að umsókn hennar hafi verið metin með tilliti til menntunar, hæfni og reynslu, og hún borin saman við þá eiginleika sem hafi verið taldir mikilvægir fyrir umrætt starf, hafi verið ákveðið að bjóða henni í viðtal.
  61. Þetta svar sé einnig athyglisvert sé litið til þess að með greinargerðinni hafi fylgt tafla sem sýni matsþætti út frá starfslýsingu sem kærandi hafi ekki fengið á fyrri stigum. Þar sé áhugavert að sjá að svör þess sem hafi verið ráðinn hafi almennt fengið mun meira vægi og gerð ítarlegri skil en kæranda, þótt innihaldið sé, huglægt metið, ekki endilega betra.
  62. Kærði segi í greinargerð sinni að leitast hafi verið við í viðtölum að leggja mat á þá hæfni sem væri matskenndari og þá sérstaklega leitast eftir að meta sérþekkingu og aðra sértæka hæfileika sem kæmu að notum við þau verkefni sem undir starfið heyri og lýst hafi verið í auglýsingu. Þá hafi starfslýsing ritstjóra, sem nýr upplýsingafulltrúi eigi að starfa við hlið, verið höfð í huga og þáttum sem undir hann heyra gefið minna vægi. Þá megi hafa í huga álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5757/2009, sbr. einnig álit umboðsmanns Alþingis í máli nr. 7144/2012.
  63. Auglýsing kærða um starfið standist ekki þessar forsendur sem umboðsmaður segi að gera verði kröfur um. Starfstitillinn einn og sér, upplýsingafulltrúi, bendi til þess að ætlast sé til haldgóðrar þekkingar og reynslu í almannatengslum og gefi ekki til kynna að þeir þættir séu minna metnir en sértæk þekking á birtingu efnis á nýmiðlun umfram umsjón með framleiðslu þess, þvert á móti.
  64. Það sé meginregla að fyrst sé metið hvernig umsækjendur fullnægi frumkröfum til starfa. Í hóp þess sem valin séu í viðtöl séu valdir þeir sem hafi mesta menntun og lengsta starfsreynslu. Þetta telji kærandi að megi lesa út úr bæði álitum umboðsmanns sem og niðurstöðum kærunefndar jafnréttismála. Huglægir þættir skipti svo máli þegar farið sé að meta á milli umsækjenda sem standi sambærilega að vígi gagnvart frumkröfum til starfsins. Þess vegna telji kærandi svo mikilvægt að kærði verði látinn upplýsa nákvæmlega hvernig þau sjö sem hafi verið valin í fyrsta viðtalið standi gagnvart þeim frumkröfum. Það að horfa fram hjá öðru menntuðu fólki gefi kærða ekki leyfi til að brjóta lög nr. 10/2008.
  65. Einnig sé lögð áhersla á að viðurkennt sé í greinargerð kærða að bæði menntun og starfsreynsla hafi verið látin víkja og aðeins einblínt á svokallaða sérþekkingu þess sem hafi verið ráðinn. Hún sé fábrotin, ekki byggð á menntun eða langri reynslu, og ekki mikilsverðari en þekking og reynsla kæranda á því sviði.
  66. Miðað við þær tilvísanir í umboðsmann Alþingis sem kærandi hafi dregið fram finnist henni vísun kærða í álit hans beinlínis villandi þar sem hún telji að því fari fjarri að kærði hafi farið eftir þeim leiðbeiningum sem í þeim felist. Kærði hafi ekki aflað sambærilegra upplýsinga og gagna frá öllum umsækjendum til að bera þá saman og til að leggja heildstætt mat á þekkingu þeirra, reynslu og hæfni líkt og umboðsmaður leggi jafnan áherslu á í málum sem þessum. Í því samhengi megi benda á álit umboðsmanns í máli nr. 5864/2009 sem lýsi því hvernig ekki megi vinsa frá þekkingu og reynslu eins og kærði hafi gert.
  67. Huglægt mat kærða hafi verið ósanngjarnt í garð kæranda og haft af henni tækifæri til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína enn frekar. Það sé einmitt markmið laga nr. 10/2008. Tækifærið hafi fengið karlmaður sem hafi bæði búið að síðri menntun og margfalt minni reynslu.
  68. Í ráðningarferlinu hafi kærði horft fram hjá menntun kæranda, þekkingu og starfsreynslu, líka af nýmiðlun. Þar með hafi 26. gr. laganna verið brotin. Reynsla karla sé ekki merkilegri en kvenna.
  69. Af gögnum málsins verði ekki séð á hvaða forsendum kærandi hafi ekki verið metin á meðal þeirra hæfustu. Af því sem fram komi í samanburði á henni og þeim sem hafi verið ráðinn, sem sé honum í óhag, komi ekki annað til greina en kynferði.

    ATHUGASEMDIR KÆRÐA

  70. Í athugasemdum kærða segir að athugasemdir kæranda lúti margar hverjar að þáttum sem ekki falli undir svið kærunefndar jafnréttismála, þar á meðal hvort önnur lög en lög nr. 10/2008 hafi verið brotin við ráðninguna eða að mismunað hafi verið á milli þess sem hafi verið ráðinn og annarra umsækjenda en kæranda. Kærði muni ekki bregðast við þessum athugsemdum hér heldur einungis þeim atriðum sem kærunefnd jafnréttismála sé bær til að úrskurða um.
  71. Áður en ráðning hafi verið ákveðin hafi farið fram vandað ferli á umsóknum sem hafi borist kærða. Ákvörðun um það hver yrði ráðinn til starfsins hafi byggst á heildstæðu mati á því hvaða umsækjandi væri best til þess fallinn að gegna starfinu. Við matið hafi bæði verið litið til almennra hæfniskrafna sem hafi verið útlistaðar í auglýsingu, auk þess sem horft hafi verið til sérþekkingar á þeim þáttum sem hafi verið tilgreindir sem verkefni upplýsingafulltrúa í auglýsingu.
  72. Í greinargerð sinni saki kærandi kærða um að hafa vikið sér undan því að útskýra hvernig fyrsta matið á umsækjendum hafi verið framkvæmt þar sem farið hafi verið yfir ferilskrár og kynningarbréf og ákvarðanir teknar um hvaða umsækjendur yrðu boðaðir í viðtal. Í greinargerð kærða hafi þó verið útlistað rækilega hvernig það mat hafi farið fram. Í því ferli hafi það verið niðurstaða kærða að bæði kærandi og sá sem hafi verið ráðinn til starfsins hafi verið hæf. Því hafi bæði verið boðuð til viðtals. Til að árétta það sem komi fram í fyrri greinargerð sé bent á að á fyrsta stigi umsóknarferilsins hafi umsóknir verið yfirfarnar af fjórum aðilum innan kærða með tilliti til þeirra þátta sem hægt hafi verið að meta hlutlægt út frá fyrirliggjandi gögnum, þ.e. ferilskrám og kynningarbréfum umsækjenda. Á þessu fyrsta stigi hafi því verið horft til eftirfarandi hæfniskrafna sem hafi komið fram í auglýsingu:
    • Háskólamenntun sem nýtist í starfi.
    • Reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun.
    • Þekkingu á efnahags- og peningamálum (gefið minna vægi, þ.e. tekið fram í auglýsingu að slík þekking væri kostur en ekki nauðsyn).
    • Rithæfni.
  73. Á þessu fyrsta stigi umsóknarferilsins hafi allar umsóknir verið yfirfarnar með framangreinda þætti í huga til að tryggja að umsækjendur uppfylltu tilgreindar hæfniskröfur, þ.e. væru með menntun við hæfi og reynslu af fjölmiðlun og kynningarstarfi, en að öðru leyti hafi verið gefnar nokkuð frjálsar hendur um hvernig matsaðilar hafi metið umsækjendur út frá hæfniskröfunum. Aðilarnar hafi verið beðnir um að lista umsækjendur upp í þrjá hópa út frá hæfniskröfunum, þá sem þeir hafi talið mjög „mjög hæfa“, „hæfa“ og „minna hæfa“. Hver og einn aðili sem hafi verið með ólíkan bakgrunn og sýn hafi unnið það mat fyrir sig og hafi niðurstöðurnar verið nokkuð ólíkar.
  74. Minnihluti umsækjenda hafi verið með einhverja reynslu af kynningarstarfi eða fjölmiðlun. Mismunandi hafi verið hvort matsaðilar hafi horft til einhvers annars en reynslu og menntunar á þessu stigi eða horft sérstaklega til þess hvers konar reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun umsækjendur hefðu, og þess hvort gefið væri sérstakt vægi hefði viðkomandi unnið á fjölmiðli eða hefði reynslu af nýmiðlun. Sumir matsaðilar hafi auk þess horft sérstaklega til ritfærni og aðrir gefið þekkingu á efnahags- og peningamálum meira vægi en hinir. Við samanburð á niðurstöðum matsaðila hafi verið ákveðið að sjö einstaklingar yrðu boðaðir í viðtal.
  75. Matsaðilarnir fjórir hafi jafnframt allir farið yfir þá umsækjendur sem þeir hafi sammælst um að boða í viðtal og verið sammála um að allir sjö hafi uppfyllt tilgreindar hæfniskröfur. Fjórir þeirra einstaklinga sem hafi verið boðaðir í viðtal hafi verið konur og þrír karlar.
  76. Sú ásökun kæranda að sá sem hafi verið ráðinn hafi ekki staðist hæfnisskilyrði standist ekki skoðun. Ekki hafi verið gerð krafa um ákveðið háskólanám, meistaragráðu eða sem flestar háskólagráður, einungis háskólanám sem nýtist í starfi. Sá sem hafi verið ráðinn hafi það. Þá hafi krafan um reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun einnig augljóslega verið uppfyllt þar sem sá sem hafi verið ráðinn hafi verið blaða- eða fréttamaður í rúm fjögur ár, auk þess að hafa aðra reynslu af kynningarstarfi og búa yfir reynslu af kynningarstarfi og nýmiðlun í ýmsu félagsstarfi. Í félagsstarfi hafi sá sem hafi verið ráðinn einmitt reynslu af því að koma efni á framfæri með frumlegum leiðum, til að mynda á samfélagsmiðlum. Ekki verði séð að það hafi nein áhrif á reynslu hans af þessum störfum á hvaða tímapunkti hann hafi lokið námi.
  77. Kærandi byggi á því að kærði hafi mismunað henni og þeim sem hafi verið ráðinn þar sem haft hafi verið samband við meðmælendur þess sem hafi verið ráðinn og verkefni lagt fyrir hann. Vegna þessa sé bent á að það séu almenn vinnubrögð af hálfu kærða að hafa ekki samband við meðmælendur fyrr en á lokastigum umsóknarferils. Í tilviki kæranda hafi það verið gert eftir aðra umferð viðtala og eftir að þeir aðilar sem metnir hafi verið hæfastir í fyrstu viðtölunum höfðu skilað verkefnum. Þá hafi verið haft samband við meðmælendur þessara þriggja einstaklinga.
  78. Í þeim þriggja manna hópi einstaklinga sem verkefni hafi verið lögð fyrir hafi verið einstaklingar af báðum kynjum. Því hafi ekki verið mismunað á grundvelli kyns við mat kærða á fyrstu viðtölum umsækjenda.
  79. Kærði telji ekki ástæðu til að bregðast ítarlega við ásökunum er varði aðra þætti en þá sem kærunefnd jafnréttismála taki til skoðunar en vilji þó ítreka eftirtalin atriði um ráðningarferlið.
  80. Auglýsing um starfið hafi innihaldið allar nauðsynlegar upplýsingar um eðli starfans sem hafi verið auglýst. Verkefnum sem heyri undir starfið hafi verið rækilega lýst og því komið skýrt á framfæri að verið væri að leita að einstaklingi sem væri best til þess fallinn að sinna verkefnum tengdum nýmiðlun, þ.e. umsjón með nýmiðlun og nýsköpun í upplýsinga- og kynningarefni kærða. Því verði ekki séð að auglýsingin hafi gefið annað en rétta mynd af eðli starfsins. Þá hafi verið eðlilegt að kærði liti sérstaklega til þeirra sem hafi haft sérþekkingu á sambærilegum verkefnum og sýnt fram á áhuga og sýn fyrir kærða í þessum efnum.
  81. Allir umsækjendur sem hafi verið boðaðir í viðtal hafi fengið sambærileg tækifæri til að miðla þekkingu sinni á framangreindum atriðum; bæði kærandi og sá sem hafi verið ráðinn hafi fengið tækifæri til að svara sömu spurningum svo sem hvernig þeir sæju fyrir sér nýmiðlun kærða og fleira því tengdu, bæði hafi fengið upplýsingar um þetta þegar í upphafi viðtals og að staðan væri til hliðar við ritstjóra og starfið fæli í sér þau verkefni sem tekin hafi verið fram í auglýsingu. Mat kærða hafi verið á þann veg að sá sem hafi verið ráðinn hafi, auk tveggja annarra umsækjenda, svarað þeim með betri hætti en kærandi.
  82. Kærði telji sig hafa sýnt fram á að ráðningin í starfið tengist á engan hátt kyni þess sem hafi verið ráðinn. Kærði hafi lýst því hvernig ferlinu hafi verið háttað og hvað hafi ráðið því hvaða einstaklingar hafi verið fengnir til þess að ljúka verkefni sem hafi verið byggt á frammistöðu í viðtölunum. Þar hafi kyn ekki haft áhrif, enda bæði kyn fengin til að ljúka verkefninu. Líkt og áður hafi komið fram hafi það verið aðrir þættir sem þar hafi ráðið úrslitum.
  83. Viðurkennt sé í niðurstöðum kærunefndar jafnréttismála, svo sem í úrskurði í máli nr. 1/2019, að almennt verði að játa stjórnvaldi eða þeim aðila sem ráði einstakling í starf nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og hvaða aðferð sé beitt til að kanna það hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram.
  84. Kærði hafi lagt í vandað ferli eins og lýst sé hér að framan og í greinargerð hans til að raða umsækjendum um starfið, sem hafi þótt koma til greina, eftir því sem þeir hafi þótt fullnægja hverri hæfniskröfu.

     

  85. Eftir að farið hafði verið yfir öll gögn og upplýsingar um umsækjendur sem hafi legið fyrir, hafi kærði lagt mat á það hvort kærandi ásamt öðrum umsækjendum hefði þá persónulegu eiginleika til starfsins sem kærði hafi leitað eftir. Niðurstaðan hafi verið sú að sá sem hafi verið ráðinn til starfsins hefði þá eiginleika til þess sem kærði hafi talið henta best. Sú niðurstaða hafi verði tekin að vel ígrunduðu máli og faglegu mati en með engu móti tengst kynferði þess sem hafi verið ráðinn.

    NIÐURSTAÐA

  86. Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla kemur fram að markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Samkvæmt 1. mgr. 26. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kyns. Ef leiddar eru líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis skal atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans, sbr. 4. mgr. 26. gr. sömu laga. Við nánara mat á þessu skal taka mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum sérstökum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu, sbr. 5. mgr. 26. gr laganna. Verkefni kærunefndar jafnréttismála er að taka erindi til meðferðar og kveða upp skriflegan úrskurð um hvort ákvæði laga nr. 10/2008 hafi verið brotin, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna. Samkvæmt 18. gr. laganna skulu atvinnurekendur og stéttarfélög vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði.
  87. Ákvörðun kærða um ráðningu í starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra var matskennd stjórnvaldsákvörðun. Í samræmi við það verður almennt að játa kærða nokkurt svigrúm við mat hans á því hvaða málefnalegu sjónarmið skuli lögð til grundvallar og þá hvernig einstakir umsækjendur falli að slíkum sjónarmiðum, enda sé að öðru leyti sýnt fram á að fullnægjandi upplýsingar hafi legið fyrir til að slíkt mat geti farið fram, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 8/2018.
  88. Í auglýsingu kærða á umræddu starfi kom fram, eins og áður greinir, að óskað væri eftir að ráða metnaðarfullan einstakling til að vinna að nýsköpun í upplýsinga- og kynningarstarfi bankans. Í auglýsingunni var helstu verkefnum starfsins lýst svo: Umsjón með nýmiðlun í kynningarstarfi bankans; nýsköpun í upplýsinga- og kynningarefni bankans; gerð og miðlun upplýsinga um helstu verkefni bankans; umsjón með gerð myndræns kynningarefnis; eftirfylgni upplýsingastefnu og markmiða í upplýsingamálum; ráðgjöf og aðstoð við efnisgerð vegna kynningar-, fræðslu- og útgáfumála. Þá voru eftirfarandi hæfniskröfur skilgreindar í sex liðum í auglýsingunni: Háskólamenntun sem nýtist í starfi; reynsla af kynningarstarfi og fjölmiðlun; góðir samskiptahæfileikar; góð kunnátta og ritfærni í íslensku og ensku; góð þekking á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum er kostur; drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt.
  89. Eins og áður greinir óskaði kærandi eftir rökstuðningi frá kærða vegna ráðningarinnar. Með bréfi kærða, dagsettu 18. júní 2019, rökstuddi hann hvernig sá karl sem starfið hlaut hefði að mati kærða uppfyllt best þær kröfur sem gerðar hefðu verið í auglýsingu kærða á starfinu. Fram kemur í bréfinu að karlinn hafi lokið BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands árið 2017. Hann hafi starfað sem sjónvarpsfréttamaður frá 2018 hjá Stöð 2, útvarpsfréttamaður á Bylgjunni á árunum 2016 til 2018 og blaðamaður á Fréttablaðinu í rúmlega eitt ár þar sem honum hafi verið falið að skrifa meðal annars um stjórnmál, kjaramál og mál af erlendum vettvangi. Hann hafi á árinu 2012 verið í starfsnámi á upplýsinga- og fjölmiðlasviði hjá Jafnaðarmannaflokknum á Evrópuþinginu og komið að gerð fréttatilkynninga, gerð örmyndbanda, tekið viðtöl þar sem stefna flokksins hafi verið skýrð, verið í samskiptum við fjölmiðlafólk og unnið með mál flokksins á samfélagsmiðlum. Þess skal getið að umrætt starfsnám stóð í þrjá mánuði, frá 1. febrúar 2012 til 1. maí sama ár. Þá kemur fram í bréfinu að karlinn hafi öðlast reynslu í að koma upplýsingum til ungs fólks með setu í stjórn Norðurlandaráðs æskunnar frá 2014 til 2015 og sem formaður Ungra jafnaðarmanna um nokkurra ára skeið. Hann hafi góða þekkingu á forritum á borð við Adobe Photoshop og InDesign sem gagnist við hönnun, myndvinnslu og umbrot. Þá muni reynsla hans af framsetningu efnis á samfélagsmiðlum nýtast vel við nýsköpun í upplýsingastarfi kærða. Á þessum grundvelli hafi það verið mat kærða að þessi umsækjandi hafi uppfyllt best þær kröfur sem gerðar hafi verið í auglýsingunni um starfið. Menntun hans og starfsreynsla passi mjög vel við starfið auk þess sem umsagnir hafi verið jákvæðar. Frammistaða hans í viðtölum, þ.e. framkoma hans, svör við spurningum og úrlausn verkefnis hafi verið mjög góð. Þess vegna hafi honum verið boðið starfið.
  90. Fyrsta hæfniskrafan sem birtist í fyrrgreindri auglýsingu sneri að háskólamenntun sem nýttist í starfi. Hvað þetta varðaði þá bjó kærandi að umfangsmeiri háskólamenntun en sá karl er hlaut umrætt starf. Karlinn lauk BA-námi í stjórnmálafræði en kærandi lauk BA-gráðu í mannfræði, diplóma-námi í hagnýtri fjölmiðlun og MBA-námi. Enda þótt menntun umsækjandanna tveggja hafi verið á ólíkum sviðum telur kærunefndin að fallast megi á það með kæranda að hún hafi staðið umræddum karli framar við mat á menntun þeirra í umsóknarferlinu, enda hefur kærði ekki fært rök fyrir því að eitthvað sérstakt hafi mælt með því að ljá umræddri menntun kæranda minna vægi en almennt á við um slíka menntun. Í þessum efnum skiptir einnig máli að með MBA-gráðu kæranda var viðbúið að hún hefði öðlast nokkra þekkingu sem félli undir hæfniskröfu kærða um góða þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum, en slík þekking var í auglýsingu kærða sögð kostur.
  91. Önnur hæfniskrafan sem birtist í fyrrgreindri auglýsingu var tvíþætt og sneri að reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun. Hvað þetta varðaði þá státaði kærandi af umtalsvert meiri reynslu en téður karl í báðum þáttum þessa flokks. Þannig hafði hún starfað sem upplýsingafulltrúi stórfyrirtækis í rúmlega fimm ár en téður karl státaði í þessum efnum af þriggja mánaða starfsnámi. Kærandi starfaði á árunum 2004 til október 2012 hjá Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, RÚV, Blaðinu/24 stundum og Fréttatímanum. Gegndi hún á þessu tímabili ýmist starfi blaðamanns, vaktstjóra, kvöldfréttastjóra, fréttastjóra eða ritstjóra. Frá 2018 hefur hún verið í hálfu starfi við útgáfu hjá Læknablaðinu. Karlinn hóf störf hjá Fréttablaðinu í hlutastarfi í febrúar 2015 en tók síðan við fullu starfi þar. Starfaði hann síðar hjá Bylgjunni. Af umsókn karlsins verður ráðið að þessum störfum sinnti hann að einhverju marki samhliða háskólanámi sínu. Eftir að störfum karlsins hjá Bylgjunni lauk hóf hann störf hjá Stöð 2 og starfaði þar fram til þess tíma er hann hlaut umrætt starf hjá kærða. Þá kemur fram í umsókn hans að hann hafi verið ritstjóri framhaldsskólablaðs um nokkurra ára skeið. Að öllu framangreindu virtu verður að telja að kærandi hafi staðið umræddum karli framar við mat á þeirri reynslu sem áskilin var, sbr. einkum fyrrgreindan mun á umsækjendunum tveimur varðandi reynslu þeirra af kynningarstörfum, enda liggja engar upplýsingar fyrir í málinu sem skjóta stoðum undir það að eitthvað sérstakt hafi mælt með því að ljá umræddri reynslu kæranda minna vægi en almennt á við. Hér skal þess loks getið að kærði, sem er stjórnvald, aflaði ekki umsagna frá umsagnaraðilum kæranda við mat á þessum þætti, enda þótt kærði teldi hana í hópi þeirra sjö umsækjenda sem boða skyldi í viðtal af þeim 51 umsækjanda sem sóttust eftir starfinu, en nánar er vikið að þessu atriði hér á eftir.
  92. Í málatilbúnaði kærða fyrir kærunefndinni hefur komið fram að hann taldi karlinum sem starfið hlaut til tekna góða þekkingu á forritum á borð við „Adobe (t.d. Photoshop og InDesign)“. Starfsumsókn hans ber þó ekki með sér að hann hafi sérstaka menntun á því sviði. Kærandi byggir á því fyrir nefndinni að hún hafi ekki verið spurð um þekkingu sína á þessum forritum sem unnið sé samhliða með í núverandi starfi kæranda. Blaðið/24 stundir, Fréttatíminn og Læknablaðið séu til dæmis öll sett upp í „InDesign“. Kærandi hafi því einnig þekkingu á þessum forritum. Staðhæfingum þessum hefur kærði ekki andmælt fyrir nefndinni og verður ekki önnur ályktun dregin en sú að kærði hafi að þessu leyti ekki kannað nægilega vandlega færni kæranda að þessu leyti þannig að hún nyti sannmælis í ráðningarferlinu. Hróflar mat kærða á þekkingu téðs karls á þessum forritum því ekki við framangreindri niðurstöðu nefndarinnar um samanburð umsækjendanna tveggja samkvæmt fyrstu tveimur hæfniskröfunum í auglýsingu kærða.
  93. Til viðbótar fyrrnefndum hæfniskröfum um menntun og reynslu voru áskilin í auglýsingu kærða fjögur atriði, þ.e. góðir samskiptahæfileikar; góð kunnátta og ritfærni í íslensku og ensku; góð þekking á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum, sem væri kostur; og drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt.
  94. Tungumálakunnátta annars vegar og þekking á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum hins vegar eru þættir sem unnt er að meta með fremur hlutlægum hætti, svo sem með könnun á menntun og spurningum í viðtölum. Ekkert liggur fyrir um mat kærða á þessum þáttum eða samanburð á milli kæranda og þess karls sem starfið hlaut. Ekkert í menntun karlsins sem hlaut umrætt starf gefur til kynna að hann standi kæranda framar hvað þetta varðar. Raunar kann MBA-nám kæranda jafnvel að mæla með því að setja hana skör hærra en karlinn að þessu leyti. Í öllu falli leiða gögn málsins ekki í ljós að umræddur karl hafi staðið kæranda framar í þessum tveimur þáttum.
  95. Samskiptahæfileikar, drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt eru huglægir þættir. Um þetta ritar kærði í rökstuðningi sínum til kæranda að umsagnir hafi verið jákvæðar um téðan karl. Frammistaða hans í viðtölum, þ.e. framkoma hans, svör við spurningum og úrlausn verkefnis, hafi verið mjög góð. Þess vegna hafi honum verið boðið starfið.
  96. Þegar meta á huglæg atriði á borð við þau sem að framan greinir verður að leggja til grundvallar að umsagnir fyrri vinnuveitenda, eða eftir atvikum samstarfsmanna sem bent er á í slíkum tilgangi, séu jafnan nauðsynlegur þáttur í slíku mati. Þetta á sérstaklega við þegar umrædd huglæg atriði hafa verið sett fram sem fortakslausar hæfniskröfur í starfsauglýsingu, sbr. til hliðsjónar úrskurð kærunefndar jafnréttismála í máli nr. 8/2018. Fyrir liggur þó að kærði leitaði ekki umsagna um kæranda í ráðningarferlinu og henni stóð ekki til boða að leysa af hendi fyrrgreint verkefni. Af þessum sökum liggur ekki fyrir mat kærða á því hvernig kærandi fullnægði þessum hæfniskröfum sem þó voru áskildar í auglýsingu kærða.
  97. Í gögnum málsins er að finna samantekt ráðningarviðtala kærða við kæranda og þann karl sem starfið hlaut. Samantektir þessar eru ritaðar með samræmdum hætti og spurt opinna spurninga þannig að svör þessara aðila hafa nokkuð ólíka ásýnd og upplýsingar þær sem hafðar eru eftir þeim eru ólíkar að inntaki. Virðist kærandi þannig ekki hafa verið innt sérstaklega eftir nánari upplýsingum, til dæmis um þekkingu á hugbúnaði sem kynni að nýtast í starfi. Þá getur að líta í gögnunum upplýsingar um stigagjöf sem kærði veitti umsækjendum fyrir starfsviðtalið sem kærandi og sex aðrir umsækjendur voru boðaðir í. Í þeirri stigagjöf lagði kærði mat á fjóra eftirfarandi þætti: Mat á núverandi upplýsingamiðlun kærða og ábendingar; reynsla og þekking á að útbúa myndefni, svo sem myndbönd eða myndrænt efni, til að mynda fyrir samfélagsmiðla; framtíðarsýn fyrir nýmiðlun í kynningarstarfi kærða; og reynsla og þekking á því hvernig meta skuli árangur nýmiðlastefnu.
  98. Af samantektum kærða um það sem fram kom í viðtölunum virðist kærði ekki hafa lagt viðhlítandi grunn að mati sínu, enda aflaði hann ekki nauðsynlegra upplýsinga til að mat gæti farið fram á reynslu og þekkingu kæranda á því að útbúa myndefni eða að vinna að umbroti prentmiðla. Þá verður að leggja til grundvallar að þættir á borð við framtíðarsýn karlsins sem starfið hlaut og huglægt mat á frammistöðu hans í viðtölum geti ekki ein og sér fengið slíkt vægi við hæfnismat að þeir ryðji almennt séð úr vegi öðrum umsækjanda sem hlutlægt séð hefur meiri menntun og starfsreynslu á því sviði sem ráðningin snýr að, enda sé ekki bent á sérstök sjónarmið sem réttlæti þá niðurstöðu, en svo er ekki í máli þessu.
  99. Að öllu framangreindu virtu teljast nægar líkur hafa verið leiddar að því í skilningi 4. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 að kæranda hafi verið mismunað á grundvelli kyns þannig að sú skylda verði lögð á kærða að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
  100. Eins og áður greinir telur nefndin að fyrir liggi að kærandi hafi staðið umræddum karli framar varðandi fyrstu tvær hæfniskröfurnar í ráðningarferlinu, þ.e. annars vegar menntun og hins vegar reynslu af kynningarstarfi og fjölmiðlun. Þá hefur kærða ekki tekist að sýna fram á að umræddur karl hafi staðið kæranda framar varðandi næstu tvær hæfniskröfur, þ.e. varðandi tungumálakunnáttu og þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum, en hvoru tveggja eru þættir sem unnt er að meta með fremur hlutlægum hætti. Jafnframt væri að mati kærunefndarinnar nærtækast að álykta sem svo að kærandi hafi staðið karlinum framar varðandi þekkingu á efnahags- og peningamálum og fjármálamörkuðum í ljósi MBA-menntunar hennar, enda hefur ekki verið sýnt fram á nokkuð um þekkingu eða reynslu karlsins að þessu leyti sem gæti gert það að verkum að hann yrði metinn skör hærra en kærandi. Eftir standa þá aðeins þeir huglægu þættir sem áður er vikið að, þ.e. samskiptahæfileikar, drifkraftur, frumkvæði og geta til að vinna faglega og sjálfstætt. Í þeim efnum hefur kærði látið nægja að fjalla um hæfni þess sem ráðinn var á fremur almennan hátt, þ.e. einkum með vísan til þess að frammistaða hans í viðtölum hafi verið mjög góð og umsagnir um hann hafi verið góðar. Nefndin hefur þó þegar rakið að mat kærða sé þeim annmarka háð að engra umsagna var leitað um kæranda auk þess sem frammistaða karlsins í viðtölum getur ekki, án frekari rökstuðnings um frammistöðu kæranda, hróflað við þeirri niðurstöðu nefndarinnar að ósannað telst að kærandi hafi staðið umræddum karli að baki í viðtali. Loks var kæranda ekki gefinn kostur á að þreyta verkefnið sem karlinum og tveimur öðrum umsækjendum var falið að þreyta. Er því ekki unnt að draga þá ályktun að heildstæður samanburður hafi í raun farið fram af hálfu kærða á kæranda og þeim karli sem starfið hlaut, enda þótt hlutlægir þættir hafi bent til þess að hún stæði karlinum framar.
  101. Heilt á litið nægja þannig þau sjónarmið sem kærði hefur dregið fram í málinu ekki til þess að ályktað verði að sá karl sem ráðinn var hafi staðið kæranda framar við ráðningu í umrætt starf.
  102. Að öllu framangreindu virtu hefur kærði ekki sýnt fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðningu í starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra, sbr. 4. og 5. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008. Telst kærði því hafa brotið gegn 1. mgr. 26. gr. laganna.
  103. Kærandi krefst þess að kærða verði gert að greiða henni kostnað við að hafa kæruna uppi fyrir kærunefndinni, sbr. 5. mgr. 5. gr. laga nr. 10/2008. Ekki liggur fyrir að kærandi hafi orðið fyrir kostnaði vegna reksturs málsins fyrir kærunefndinni og verður kröfu hennar að þessu leyti því hafnað.
  104. Uppkvaðning úrskurðarins hefur dregist vegna anna nefndarinnar og frestveitingar undir rekstri málsins.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð

Við ráðningu í starf upplýsingafulltrúa á sviði alþjóðasamskipta og skrifstofu seðlabankastjóra, sem auglýst var 11. apríl 2019, braut kærði, Seðlabanki Íslands, gegn 1. mgr. 26. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Kröfu kæranda, A, um málskostnað úr hendi kærða er hafnað.

 

Arnaldur Hjartarson

 

Björn L. Bergsson

 

Guðrún Björg Birgisdóttir

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum