Hoppa yfir valmynd

Nr. 347/2017- Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 22. júní 2017 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 347/2017

í stjórnsýslumáli nr. KNU17050050

Kæra [...] á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.         Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 17. apríl 2017 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari [...] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. mars 2017, um að synja honum um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Af greinargerð kæranda má ráða að hann krefjist þess að ákvörðunin verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi.

Fyrrgreind ákvörðun var kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.           Málsatvik og málsmeðferð

Í hinni kærðu ákvörðun kom fram að kærandi hafi þann 11. október 2016 lagt fram umsókn um dvalar- og atvinnuleyfi hér á landi vegna sérstakra tengsla við landið. Kærandi hafi aldrei verið búsettur hér á landi en að móðir hans hafi verið búsett hér frá árinu 2009. Greint er frá því að móðir kæranda hafi styrkt hann fjárhagslega þar sem kærandi sé án heimilis og atvinnu í heimaríki. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 29. mars 2017, var kæranda synjað um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærandi kærði ákvörðunina þann 17. apríl 2017, en kæru fylgdi jafnframt greinargerð kæranda.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar var vísað til þess að samkvæmt 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga geti útlendingur í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þrátt fyrir að hafa ekki dvalist hér á landi þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiði til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið séu til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra. Var það mat Útlendingastofnunar, með hliðsjón af gögnum málsins og aðstæðum kæranda í heild, að kærandi hefði ekki svo sérstök tengsl við Ísland að réttlátt væri að beita fyrrnefndri undantekningarreglu 78. gr. laga um útlendinga.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi byggir umsókn um dvalarleyfi m.a. á tengslum við móður sína sem er búsett hér á landi. Í greinargerð kæranda er rakið að móðir hans hafi áður verið búsett í 18 ár í [...] vegna atvinnu og kærandi hafi á þeim tíma dvalið hjá ömmu hans í heimaríki. Samkvæmt greinargerð sem lögð var fram við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun kvaðst móðir kæranda hafa á þeim tíma hitt hann í um tvær vikur á tveggja ára fresti og viðhaldið góðu sambandi við kæranda. Aðstæður kæranda í heimaríki séu nú breyttar m.a. vegna þess að heilsu ömmu hans hefur hrakað. Hann þurfi að leita sér að svefnstað hverja nótt og sé algjörlega upp á góðvild annarra kominn. Kærandi hafi heimsótt móður sína hér á landi og endurfundir þeirra hafi verið afar tilfinningaríkir. Að mati kæranda uppfylli hann skilyrði 55. og 78. gr. laga um útlendinga þar sem honum standi til boða vinna hér á landi og hafi tengsl við landið í gegnum móður sína og stjúpföður.

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort rétt sé að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga.

Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi á grundvelli þess að hann teljist hafa sérstök tengsl við landið, að fullnægðum skilyrðum 1. og 2. mgr. 55. gr., sé hann eldri en 18 ára og falli ekki undir ákvæði um önnur dvalarleyfi samkvæmt lögum þessum eða fullnægi ekki skilyrðum þeirra.

Þrátt fyrir að útlendingur hafi ekki dvalist hér á landi getur hann í undantekningartilvikum talist hafa sérstök tengsl við landið þegar heildstætt mat á aðstæðum hans leiðir til þess, t.d. ef rík umönnunarsjónarmið eru til staðar og bersýnilega væri ósanngjarnt að veita umsækjanda ekki dvalarleyfi á grundvelli þeirra, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í athugasemdum um 78. gr. í frumvarpi til laga um útlendinga segir að ákvæðið geti t.d. átt við þegar einstaklingur sé einn eftir án fjölskyldumeðlima í heimaríki og þarfnist umönnunar og aðstoðar fjölskyldumeðlima sem búi hér á landi. Ákvæði 4. mgr. 78. gr. laganna er samkvæmt orðalagi sínu undantekning frá þeirri almennu reglu að sérstök tengsl myndist á meðan á löglegri dvöl stendur. Ber að mati kærunefndar að túlka ákvæðið þröngt.

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi, sem er [...] ára gamall, hefur aldrei dvalist hér á landi utan stuttrar heimsóknar til móður sinnar og eiginmanns hennar. Þegar útlendingur, sem hefur ekki dvalist hér á landi, sækir um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið verður að leggja heildstætt mat á aðstæður viðkomandi, sbr. 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Í slíkum málum geta þannig komið til álita ytri aðstæður útlendings í heimaríki sem yrðu ekki lagðar til grundvallar við úrlausn um dvalarleyfi ef viðkomandi hefði dvalist hér á landi, en við þær aðstæður eru aðeins metin tengsl viðkomandi við landið, sbr. 3. mgr. 78. gr. laga um útlendinga.

Umsókn kæranda um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið er aðallega reist á því að hann eigi móður sem sé búsett hér á landi og að hann eigi erfitt uppdráttar í [...]. Kærandi sé þar án atvinnu og þurfi að leita á náðir fjölskyldu og vina með næturgistingu. Virðist meginmarkmið umsóknar kæranda þannig vera að sameina kæranda við móður hans hér á landi, enda hafi þau verið aðskilin um langa hríð, og skapa honum betri lífskjör.

Þótt kærandi eigi móður sem er búsett hér á landi, og styður hann fjárhagslega í heimaríki, liggur fyrir að kærandi er ungur og vinnufær og nýtur aðstoðar frá fjölskyldu í heimaríki. Að mati kærunefndar eru því ekki fyrir hendi rík umönnunarsjónarmið sem lúta að tengslum kæranda við fjölskyldu hér á landi. Þá er það mat kærunefndar að þær efnahagslegu aðstæður sem kærandi býr við í heimaríki séu ekki þess eðlis að bersýnilega ósanngjarnt sé að beita ekki undantekningarákvæði 4. mgr. 78. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt framangreindu verður ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

 

Úrskurðarorð

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Anna Tryggvadóttir

 

Anna Valbjörg Ólafsdóttir                                                                                                       Árni Helgason

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum