Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 20/2014

Úrskurður

 

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 2. júní 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður vegna kröfu um endurupptöku í máli A, nr. 20/2014.

1. Málsatvik og kæruefni

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða kvað upp úrskurð í máli A. Í úrskurði nefndarinnar komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kæra kæranda hafi borist að liðnum kærufresti og var málinu vísað frá nefndinni. Úrskurðurinn byggir á því að kæra kæranda, dags. 16. febrúar 2014, barst úrskurðarnefndinni 17. febrúar 2014, en hinar kærðu ákvarðanir Vinnumálastofnunar koma fram í bréfum frá 18. júní 2013 og 9. júlí 2013. Barst kæra þannig rúmum sjö mánuðum eftir að kæranda var tilkynnt um kæruna. Kærandi bar því hins vegar við að fyrri kæra sem endurskoðandi hennar sendi hafi týnst í pósti. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, er meginregla að berist stjórnsýslukæra að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá. Frá þessari meginreglu eru tvær undantekningar. Annars vegar að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, eða hins vegar að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Kærandi kveður ástæðu þess að fyrri kæran hafi ekki borist úrskurðarnefndinni vera þá að hún hefði týnst í pósti. Kærandi lagði hins vegar ekki fram nein gögn þess efnis, svo sem umslag með póststimpli, kvittun póstafgreiðslustöðvar eða annað sem varpað gæti ljósi á að fyrri kæran hafi ekki skilað sér. Þá greindi kærandi ekki frá neinum veigamiklum ástæðum sem mælt geti með því að kæran yrði tekin til meðferðar, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga. Með vísan til þessa barst kæran að liðnum kærufresti og málinu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Kærandi óskaði eftir því með tölvupósti til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 4. maí 2015, að mál hennar verði tekið upp aftur fyrir nefndinni á grundvelli tölvupóstsamskipta hennar við endurskoðanda sinn, þar sem fram komi sönnun á því að upphafleg kæra hennar hafi farið frá B endurskoðanda, bréfleiðis, innan þess frests sem kemur fram í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006. Segir kærandi að hún hafi sent úrskurðarnefndinni kæru um leið og fyrsta bréfið frá Vinnumálastofnum hafi borist, en svo virðist sem sú kæra hafi ekki skilað sér til úrskurðarnefndarinnar. Nú óski hún eftir endurupptöku þar sem hún hafi fundið tölvupóstsamskipti við endurskoðanda sinn sem sanni að bréfið hafi farið í póst.

2. Niðurstaða

Um heimild til endurupptöku máls er fjallað í 24. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, en þar segir að aðili máls eigi rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Kærandi skilaði inn til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, samhliða beiðni um endurupptöku, tölvupóstsamskiptum milli sín og endurskoðanda síns, þar sem endurskoðandinn segir að hann hafi sent kæru fyrir hönd kæranda bréfleiðis þann 15. júlí 2013. Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þessi tölvupóstsamskipti ekki sönnun fyrir því að umrædd kæra hafi farið frá kæranda innan kærufrests og týnst í pósti. Kærandi hefur að eigin sögn engin önnur gögn sem styður það, svo sem umslag með póststimpli eða kvittun póstafgreiðslustöðvar. Hefur kærandi því ekki leitt að því líkur að fyrri úrskurður úrskurðarnefndarinnar sé byggður á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum.

Með vísan til þess sem að ofan er ritað telur nefndin ekki forsendur fyrir endurupptöku á máli kæranda og er beiðninni því hafnað.

Úrskurðarorð

Kröfu A um endurupptöku úrskurðar í máli hennar fyrir úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða frá 24. júlí 2014 þess efnis að kæru hennar var vísað frá úrskurðarnefndinni, er hafnað.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum