Hoppa yfir valmynd

Ólafsfjarðarbær - Snjómokstur innan þéttbýlis, jafnræðisregla

Brimnes Hótel ehf.
29. maí 2006
FEL06040026

Sæunn Axelsdóttir, framkvæmdastjóri

Bylgjubyggð 2

625 Ólafsfirði

Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dags. 6. apríl 2006, þar sem kvartað er undan því að

Ólafsfjarðarbær moki ekki snjó við hús sem eru hluti af Brimnes Hóteli ehf., Ólafsfirði, sem er

í eigu yðar og eiginmanns yðar.

Erindið var sent Ólafsfjarðarbæ til umsagnar með bréfi ráðuneytisins, dags. 18. apríl 2006.

Umsögn Ólafsfjarðarbæjar, dags. 28. apríl sl., barst ráðuneytinu 2. maí sl. og var yður gefinn

frestur til 12. maí sl. til andsvara. Athugasemdir bárust ekki.

Í umsögn Ólafsfjarðarbæjar kemur fram að bærinn hafi þann 11. mars 2004 sett reglur um

snjómokstur sem bornar hafi verið í hvert hús og kynntar á heimasíðu sveitarfélagsins.

Samkvæmt þeim reglum sjái bærinn um snjómokstur á sínum eigin eignum, þ.e. götum

bæjarins og gangstéttum. Einnig sjái hann um og tryggi aðkomu íbúa Ólafsfjarðarbæjar að

stofnunum bæjarins og þeim húsum sem hann leigi aðstöðu í og lögbundin þjónustustarfsemi

fari fram. Tryggð sé fær akstursleið milli heimilis heilsugæslulæknis og heilsugæslustöðvar

sem og aðgengi að sjúkrabíl sem staðsettur sé í húsnæði heilsugæslustöðvarinnar. Þá hafi

Ólafsfjarðarbær gert samning við Vegagerð ríkisins um mokstur Aðalgötu sem er þjóðvegur í

þéttbýli.

Með hliðsjón af framangreindu sjái Ólafsfjarðarbær ekki um snjómokstur við íbúðarhús og

fyrirtæki sem tengjast ekki starfsemi bæjarins. Þó séu fjarlægðir snjóruðningar sem geti

myndast fyrir framan heimkeyrslur og bílastæði, en lengra sé að óheimilt að ganga, enda þá

komið inn á einkalóðir. Eigendur verði að sjá um snjómokstur á sínum lóðum. Það gildi um

Brimnes Hótel með sama hætti og aðrar slíkar eignir í einkaeigu.

Af þessu tilefni tekur ráðuneytið fram:

Ekki er kveðið sérstaklega á um snjómokstur sveitarfélaga í lögum. Snjómokstur er eitt af

sameiginlegum velferðarmálum sveitarfélaga sem varðar íbúa þeirra og sveitarfélög vinna að

skv. 2. mgr. 7. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.

Eins og áður var vikið að hefur Ólafsfjarðarbær sett sér reglur um snjómokstur. Eru þær reglur

aðgengilegar á heimasíðu Ólafsfjarðarbæjar auk þess sem þeim hefur verið dreift til bæjarbúa.

Ráðuneytið telur að reglur Ólafsfjarðarbæjar um snjómokstur, sem undanskilji lóðir og

heimkeyrslur í einkaeigu, séu í samræmi við venjubundnar skyldur sveitarfélaga í þessum

efnum, þ.e. að halda götum og gangstéttum greiðfærum, auk aðkomu að stofnunum í eigu

sveitarfélagsins eða þar sem þjónusta sveitarfélagsins fer fram. Gerir ráðuneytið því ekki

athugasemdir við reglur Ólafsfjarðarbæjar um snjómokstur eða framkvæmd þeirra sem lýst er í

umsögn bæjarins til ráðuneytisins.

Með hliðsjón af framangreindu telur ráðuneytið ekki þörf á að hafa frekari afskipti af máli

þessu.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Þorgerður Benediktsdóttir (sign.)

29. maí 2006 - Ólafsfjarðarbær - Snjómokstur innan þéttbýlis, jafnræðisregla (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum