Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A6%C3%B0ingar-%20og%20foreldraorlof

Nr. 111/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 111/2018

Miðvikudaginn 4. júlí 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 21. mars 2018, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. febrúar 2018.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 6. desember 2017, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í þrjá mánuði vegna væntanlegrar barnsfæðingar X 2018. Umsókn kæranda var samþykkt og honum kynnt greiðsluáætlun með ákvörðun, dags. 6. febrúar 2018, þar sem fram kom að mánaðarleg greiðsla til hans sem sjálfstætt starfandi einstaklings yrði 164.003 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 21. mars 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 28. mars 2018, og var send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 6. apríl 2018. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir að greiðslur til hans úr Fæðingarorlofssjóði verði reiknaðar út frá tekjuárinu 2017 en ekki 2016, á þeim forsendum að foreldrar hafi lágar tekjur og að barn þeirra hafi fæðst X. Kærandi vísar til þess að hann hafi byrjað eigin rekstur í febrúar 2016 og vel hafi gengið að koma rekstrinum af stað. Það sé þó umtalsverður tekjumunur á rekstrarárunum 2016 og 2017. Áætlaður fæðingardagur barns hafi verið X 2018 en það hafi fæðst X 2017. Í kjölfarið þurfi fjölskyldan að líða fyrir þann fjárhagslega hnykk sem því fylgi séu greiðslur reiknaðar út frá tekjum ársins 2016.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr. laganna. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miðað við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 er sjálfstætt starfandi einstaklingur sá sem starfar við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að honum er gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi. Óumdeilt sé að kærandi uppfylli skilyrði 1. mgr. 13. gr. og eigi tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem sjálfstætt starfandi einstaklingur samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laganna.

Í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 kemur fram að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til sjálfstætt starfandi einstaklings, sbr. 3. mgr. 7. gr., skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af og skuli miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns eða því ári er barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Að öðru leyti gildi ákvæði 2.-4. mgr. eins og við geti átt. Þá sé kveðið á um lágmarksgreiðslu í 7. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 til foreldra í 25-49% starfi og 50-100% starfi, sbr. einnig 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 og b-lið 1. gr. reglugerðar nr. 850/2016 sem eigi við um fæðingardag barns kæranda.

Í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 komi fram að útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila samkvæmt 2., 5. og 6. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda hafi verið X 2017 og því skuli mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, reiknast sem 80% af meðaltali reiknað endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af og skuli miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í skrám Ríkisskattstjóra um tekjur hans tekjuárið 2016 og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á því að þær hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Meðaltekjur kæranda tekjuárið 2016 hafi verið 139.844 kr. en til samræmis við 7. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000, sbr. einnig 6. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1218/2008 og b-lið 1. gr. reglugerðar nr. 850/2016, hafi þær verið hækkaðar í 164.003 kr. Þrátt fyrir að hægt sé að hafa fullan skilning á aðstæðum í máli kæranda sé skýrt kveðið á um það að útreikningur skuli taka mið af tekjuárinu á undan fæðingarári barns. Hvorki í lögum nr. 95/2000 né reglugerð nr. 1218/2008 sé að finna heimild til að víkja frá því skilyrði.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að greiðsluáætlun til kæranda, dags. 6. febrúar 2018, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til hans.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 6. febrúar 2018, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda sem sjálfstætt starfandi einstaklings yrði 164.003 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Í 1. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um gildissvið laganna, en þar segir að lögin taki til réttinda foreldra á innlendum vinnumarkaði til fæðingar- og foreldraorlofs. Þau eigi við um foreldra sem séu starfsmenn eða sjálfstætt starfandi.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 5. mgr. 8. gr. laganna. Til að finna vinnuframlag sjálfstætt starfandi foreldris skuli miða við skil á tryggingagjaldi af reiknuðu endurgjaldi fyrir sama tímabil. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir skilyrði 1. mgr. 13. gr. laganna um sex mánaða samfellt starf á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns og á tilkall til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem sjálfstætt starfandi einstaklingur.

Í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um útreikning á mánaðarlegri greiðslu til sjálfstætt starfandi einstaklings. Þar segir að mánaðarleg greiðsla skuli nema 80% af meðaltali reiknaðs endurgjalds sem greitt hafi verið tryggingagjald af og skuli miða við tekjuárið á undan fæðingarári barns. Barn kæranda fæddist X 2017 og voru greiðslur til hans því reiknaðar út frá tekjuárinu 2016.

Kærandi hefur óskað eftir að greiðslur til hans úr Fæðingarorlofssjóði verði reiknaðar út frá tekjuárinu 2017 en ekki 2016, á þeim forsendum að foreldrar séu tekjulágir og að barn þeirra hafi fæðst X. Skýrt er kveðið á um það í 5. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 að miða skuli við tekjuárið á undan fæðingarári barns við útreikning á mánaðarlegri greiðslu til sjálfstætt starfandi einstaklings. Hvorki í lögum nr. 95/2000 né reglugerð nr. 1218/2008, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks, er að finna heimild til að víkja frá framangreindu viðmiðunartímabili við þann útreikning. Þá er ekkert í lögskýringargögnum með 5. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 sem gefur tilefni til að ætla að hana beri að túlka á annan hátt en orðalag hennar gefur til kynna. Þannig er ljóst að útreikningur Fæðingarorlofssjóðs í greiðsluáætlun, dags. 6. febrúar 2018, er í fullu samræmi við ákvæði laga nr. 95/2000. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 6. febrúar 2018, um mánaðarlegar greiðslur til A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum