Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 19/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 19/2016

Fimmtudaginn 18. ágúst 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 12. janúar 2016, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. janúar 2016, um innheimtu ofgreiddra bóta að fjárhæð 222.805 kr.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysistrygginga frá Vinnumálastofnun þann 20. ágúst 2015 og var umsókn hans samþykkt.

Með bréfi, dags. 7. desember 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda að við samkeyrslu tölvugagna Vinnumálastofnunar og ríkisskattstjóra hafi virst sem hann hafi haft tekjur í X, án þess að gera grein fyrir þeim, á sama tíma og hann hafi þegið atvinnuleysisbætur frá Vinnumálastofnun. Umræddar tekjur væru frá B að fjárhæð 470.000 kr. Var jafnframt óskað eftir upplýsingum um umræddar tekjur svo að hægt væri að meta rétt kæranda til atvinnuleysistrygginga.

Vinnumálastofnun barst tölvupóstur frá B þann X þar sem fram kemur að kærandi hafi fengið greiðslu í X vegna lækniskostnaðar að fjárhæð 31.429 kr. Hann hafi í X fengið greiðslu að fjárhæð 470.000 kr. sem hafi í raun verið styrkur vegna [...] hans. Í X hafi hann fengið greiðslu að fjárhæð 470.000 kr. sem hafi verið sjúkradagpeningar vegna X. Í X hafi hann svo fengið greiðslu að fjárhæð 470.000 kr. sem hafi verið sjúkradagpeningar vegna X. Hann eigi síðan rétt á áframhaldandi greiðslum að fjárhæð 470.000 kr. á mánuði svo framarlega að hann sé með gilt læknisvottorð.

Með bréfi, dags. 6. janúar 2016, var kæranda tilkynnt sú ákvörðun Vinnumálastofnunar að hann uppfyllti ekki skilyrði fyrir greiðslum atvinnuleysistrygginga þann tíma sem hann hafi þegið greiðslu sjúkradagpeninga og að honum bæri að endurgreiða þær bætur sem honum hafi verið greiddar fyrir tímabilið 20. ágúst 2015 til 30. september 2015, samtals að fjárhæð 222.805 kr. sem innheimtar yrðu samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 12. janúar 2016. Með bréfi, dags. 26. janúar 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 11. mars 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 17. mars, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kæranda kemur fram að hann óski eftir því að skuld hans við Vinnumálastofnun verði felld niður eða minnkuð verulega. Þá segir að um hafi verið að ræða sjúkradagpeninga frá B sem búið hafi verið að láta vita af. Hann hafi orðið fyrir miklu áfalli X og hafi verið óvinnufær síðan. Hann hafi ekki verið í neinu ástandi til að hugsa um fjármál eða önnur mál sem tilheyri daglegu lífi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið lúti að 1. mgr. 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Samkvæmt a-lið 14. gr. laganna sé það skilyrði fyrir því að teljast tryggður samkvæmt lögunum að vera fær til flestra almennra starfa. Því sé skýrt kveðið á um það í 51. gr. laganna að greiðslur sem eigi að bæta óvinnufærni að fullu séu ósamrýmanlegar greiðslum atvinnuleysistrygginga. Það liggi fyrir að kærandi hafi fengið greidda sjúkradagpeninga samhliða greiðslum atvinnuleysistrygginga. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið á meðan hann hafi þegið sjúkradagpeninga og verið óvinnufær.

Vinnumálastofnun bendi á að ákvörðun stofnunarinnar í máli kæranda lúti eingöngu að mánuðunum X og X. Kæranda hafi verið gert að endurgreiða þær atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið greiddar frá umsóknardegi þann X til X að fjárhæð 222.805 kr. í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Í ákvæðinu segi að hafi atvinnuleitandi fengið hærri atvinnuleysisbætur en hann hafi átt rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Þá segi að hið sama skuli gilda um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Taka beri fram að kærandi hafi ekki verið gert að greiða 15% álag samkvæmt ákvæðinu.

Kærandi hafi haldið áfram að þiggja greiðslur atvinnuleysisbóta í X og X. Af frekari gögnum frá ríkisskattstjóra megi sjá að kærandi hafi einnig fengið greidda sömu upphæð frá stéttarfélagi sínu í X og X. Þá hafi kærandi fært fram læknisvottorð, dags. X, þar sem fram komi að kærandi hafi verið óvinnufær frá X. Í læknisvottorði komi enn fremur fram að áætluð tímalengd meðferðar hans sé X til X mánuðir.

Í ljósi framangreindra upplýsinga verði því ekki séð að kærandi hafi heldur átt rétt til atvinnuleysistrygginga í X og X. Vinnumálastofnun hafi ekki tekið ákvörðun í máli kæranda varðandi greiðslur til hans í X og X. Að öllu framangreindu virtu telur Vinnumálastofnun að kærandi beri að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur sem hann hafi fengið greiddar á tímabilinu X til X að fjárhæð 222.805 kr.

IV.  Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 222.805 kr.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur X. Samkvæmt læknisvottorði, dags. X, var kærandi óvinnufær frá X í X til X mánuði vegna áfalls. Þá liggur fyrir að kærandi fékk greidda sjúkradagpeninga frá B vegna B og B.

Í 51. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað greiðslur sem eru ósamrýmanlegar atvinnuleysisbótum og hljóðar 1. mgr. lagagreinarinnar svo:

„Hver sá sem nýtur slysadagpeninga samkvæmt lögum um slysatryggingar almannatrygginga, sjúkradagpeninga samkvæmt lögum um sjúkratryggingar, endurhæfingarlífeyris samkvæmt lögum um félagslega aðstoð eða greiðslna úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga sem koma til vegna óvinnufærni að fullu telst ekki tryggður samkvæmt lögum þessum á sama tímabili.“

Í 13. gr. og 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum launamanna, en í þessum lagaákvæðum kemur meðal annars fram að atvinnuleitanda beri að vera í virkri atvinnuleit og vera fær til flestra almennra starfa, sbr. a-lið 1. mgr. 13. gr. og a-lið 1. mgr. 14. gr. laganna.

Af framangreindum ákvæðum laga um atvinnuleysistryggingar er ljóst að kærandi á ekki rétt á greiðslum atvinnuleysistrygginga á meðan hann er óvinnufær og fær greidda sjúkradagpeninga frá B.

Um endurgreiðslu ofgreiddra bóta er fjallað í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Ákvæðið er svohljóðandi:

„Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.“

Kærandi uppfyllti ekki skilyrði til greiðslu atvinnuleysisbóta frá X til X þar sem hann var óvinnufær og fékk greidda sjúkradagpeninga frá B á því tímabili, sbr. 1. mgr. 51. gr., a-lið 1. mgr. 13. gr. og a-lið 1. mgr. 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því ber honum samkvæmt 2. málsl. 2. mgr. 39. gr. laganna að endurgreiða ofgreiddar bætur vegna þess tímabils. Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laganna um endurgreiðslu ofgreiddra bóta er fortakslaust að því er varðar skyldu til að endurgreiða ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í máli kæranda hefur 15% álag ekki verið lagt á skuldina og því er ekki ágreiningur um það atriði.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 222.805 kr., staðfest.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 6. janúar 2016, í máli A, um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur, samtals að fjárhæð 222.805 kr., er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum