Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 83/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 83/2015

Fimmudaginn 18. ágúst 2016

A

gegn

Vinnumálastofnun


Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni þann 11. desember 2015, kærði A, til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 12. nóvember 2015, um að fella niður bótarétt hennar frá og með 13. nóvember 2015 í tvo mánuði.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 11. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. júli 2015 og var umsókn hennar samþykkt. Samkvæmt tölvupósti milli starfsmanna Vinnumálastofnunar frá 30. september 2015 bárust þær upplýsingar frá B að kærandi hefði hafnað starfi með þeim skýringum að hún hefði ekki áhuga á svona starfi.

Með bréfi, dags. 2. október 2015, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda á ástæðum höfnunar hennar á atvinnutilboði hjá B þann 30. september 2015. Skýringar bárust frá kæranda með bréfi, mótteknu 26. október 2015, þar sem kemur fram að hún hafi verið veik á þessu tímabili í X daga vegna sjúkdóms sem hún eigi við að stríða. Sjúkdómurinn ætti það til að skjóta upp kollinum X til X í mánuði, jafnvel oftar. Kærandi hafi skýrt frá skertri starfsgetu í umsókn sinni um atvinnuleysisbætur. Með bréfi, dags. 12. nóvember 2015, var kæranda tilkynnt um að bótaréttur hennar væri felldur niður frá og með 13. nóvember 2015 í tvo mánuði sem ella hefðu verið greiddar atvinnuleysisbætur fyrir með vísan til 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Starfsmaður úrskurðarnefndar velferðarmála hafði samband við kæranda þann 10. júní 2016 og greindi frá því að nefndin teldi nauðsynlegt að afla frekari upplýsinga frá B um símtalið við kæranda. Spurt var hvort kærandi væri samþykk því að úrskurðarnefndin sendi B bréf með fyrirspurn um framangreint og kærandi samþykkti það. Kærandi ítrekaði við þetta tilefni að um mjög stutt símtal hefði verið að ræða þar sem henni hafi hvorki verið boðin vinna né atvinnuviðtal.

Með bréfi, dags. 10. júní 2016, til B óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum um hvað nákvæmlega hefði farið fram á milli viðkomandi starfsmanns skólans og kæranda þegar haft var samband við hana í lok september 2015 vegna starfs við [...] hjá B. Þá var sérstaklega óskað eftir upplýsingum um hvort kæranda hafi verið boðið starf eða atvinnuviðtal og hvernig viðbrögð kæranda hefðu verið. Með bréfi, dags. 14. júní 2016, frá B var greint frá því að skrifstofustjóri B hefði óskað eftir upplýsingum frá Vinnumálastofnun vegna ráðningar í starf [...] við B og þeim hafi borist listi með tíu nöfnum. B hafi haft samband við þá einstaklinga en kærandi hafi verið einn þeirra. Samkvæmt skráningu B hafi svar kæranda verið „ég hef ekki áhuga á svona starfi. Aðrar upplýsingar hafi B ekki um þetta samtal.

Kæra barst úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 11. desember 2015. Með bréfi, dags. 14. desember 2015, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 2. febrúar 2016. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi sætti sig ekki við hina kærðu ákvörðun og krefst þess að hún verði felld úr gildi. Þá segir að á þeim tímapunkti sem hún hafi verið beðin um að vinna í B hafi hún verið veik. Þessi veikindi séu ekki viðvarandi ástand, heldur komi í köstum. Hún hafi ekki verið beðin um að koma í viðtal út af þessu. Þá tekur hún það fram að hún hafnaði aldrei starfi með þeim orðum að hún hefði ekki áhuga á svona starfi.

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að málið varði 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. eigi jafnt við um þann sem hafni starfi sem og þann sem hafni því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum bjóðist eða sinni ekki atvinnuviðtali. Eitt af skilyrðum þess að umsækjandi um atvinnuleysisbætur eigi rétt til greiðslna atvinnuleysistrygginga sé að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé kveðið nánar á um hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Þar sé tekið fram að umsækjandi þurfi meðal annars að vera reiðubúinn að taka hvert það starf sem greitt sé fyrir, vera reiðubúinn að taka starfi hvar sem er á Íslandi án sérstaks fyrirvara og hafa til þess vilja og getu. Þegar atvinnuleitandi sé boðaður í starfsviðtal í þeim tilgangi að fá hann til starfa en hann reynist óreiðubúinn til að ganga í þau störf líti Vinnumálastofnun svo á að hann eigi að sæta viðurlögum á grundvelli 57. gr. laga nr. 54/2006.

Í 3. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar séu tilgreindar ástæður sem geti komið til greina sem gildar skýringar við höfnun á starfi.  Gert sé ráð fyrir að Vinnumálastofnun sé heimilt að líta til aldurs, félagslegra aðstæðna tengdum skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima við ákvörðun um hvort hinn tryggði skuli sæta viðurlögum samkvæmt ákvæðinu. Enn fremur sé heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar í boði er starf fjarri heimili hans sem geri kröfur um að hlutaðeigandi flytji búferlum. Þá sé heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem geti ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis.

Það liggi fyrir að kærandi hafi verið boðuð í atvinnuviðtal hjá B. Samkvæmt atvinnurekanda hafi kærandi gefið þau svör að hún hafi ekki haft áhuga á því starfi sem í boði hafi verið. Þegar Vinnumálastofnun hafi leitað eftir athugasemdum frá kæranda hafi hún sagst hafa verið veik á þeim tíma sem atvinnuviðtal hafi farið fram. Kærandi hafi ekki haldið því fram að hún sé almennt ófær um að sinna störfum við [...], enda hafi hún skráð [...] sem óskastarf í umsókn sinni um atvinnuleysistryggingar. Síðasta starf hennar áður en hún hafi sótt um atvinnuleysisbætur hafi einnig verið [...].

Vinnumálastofnun telur að skýringar kæranda, sem lúti að því að hún hafi verið veik á þeim tíma sem atvinnuviðtal hafi farið fram, geti ekki réttlætt höfnun á starfi. Kærandi hafi ekki tjáð atvinnurekanda að hún væri veik þegar haft hafi verið samband við hana vegna atvinnutilboðs. Þess í stað hafi kærandi sagst ekki hafa áhuga á að starfa fyrir B. Það hafi því aldrei komið til skoðunar að fresta samtali milli kæranda og atvinnurekanda þar til kærandi hafi jafnað sig á tímabundnum veikindum sínum heldur hafi atvinnutilboði verið hafnað á afgerandi hátt. 

Það sé mat stofnunarinnar, að teknu tilliti til skýringa kæranda, að hún hafi í umrætt sinn hafnað starfi hjá B. Vinnumálastofnun bendi á að ríkar kröfur séu gerðar til atvinnuleitanda að þeir taki þeim störfum sem þeim kunni að bjóðast, enda eigi ekki að þiggja atvinnuleysisbætur í stað þess að gegna launuðu starfi. Beri að líta til þess að kærandi hafi ekki verið með annað starf í hendi á umræddum tíma. Þar sem kærandi hafi hafnað atvinnutilboði í skilningi 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 og beri henni að sæta viðurlögum á grundvelli ákvæðisins.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að fella niður bótarétt kæranda í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 57. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hljóðar svo:

 „Sá sem hafnar starfi sem honum býðst með sannanlegum hætti eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 5. mgr. Hið sama á við um þann sem hafnar því að fara í atvinnuviðtal vegna starfs sem honum býðst með sannanlegum hætti eða sinnir ekki atvinnuviðtali án ástæðulausrar tafar.“

Þá segir svo í 4. mgr. 57. gr. laganna:

„Vinnumálastofnun skal meta við ákvörðun um viðurlög skv. 1. mgr. hvort ákvörðun hins tryggða um að hafna starfi hafi verið réttlætanleg vegna aldurs hans, félagslegra aðstæðna sem tengjast skertri vinnufærni eða umönnunarskyldu vegna ungra barna eða annarra náinna fjölskyldumeðlima. Enn fremur er Vinnumálastofnun heimilt að líta til heimilisaðstæðna hins tryggða þegar hann hafnar starfi fjarri heimili sínu sem og til ráðningar hans í ótímabundið starf innan tiltekins tíma. Þá er heimilt að taka tillit til aðstæðna þess sem getur ekki sinnt tilteknum störfum vegna skertrar vinnufærni samkvæmt vottorði sérfræðilæknis. Getur þá komið til viðurlaga skv. 59. gr. hafi hinn tryggði vísvitandi leynt upplýsingum um skerta vinnufærni.“

Við mat á því hvort heimilt sé að beita viðurlögum samkvæmt 1. mgr. 57. gr. laganna kemur til skoðunar hvort kærandi hafi hafnað starfi eða atvinnuviðtali með sannanlegum hætti. Í tölvupósti milli starfsmanna Vinnumálastofnunar frá 30. september 2015 kemur fram að borist hefðu þær upplýsingar frá B að kærandi hefði hafnað starfi með þeim skýringum að hún hefði ekki áhuga á svona starfi. Þá er staðfest í bréfi frá B að haft hafi verið samband við kæranda vegna starfs við skólann og samkvæmt skráningu skólans hafi svar kæranda verið að hún hefði ekki áhuga á svona starfi.

Kærandi greindi frá því í bréfi til Vinnumálastofnunar, mótteknu 25. október 2015, að hún hefði verið veik á þessu tímabili í X daga vegna sjúkdóms sem hún eigi við að stríða. Þá liggur fyrir læknisvottorð frá C, dags. X, þar sem fram kemur að kærandi hafi verið óvinnufær með öllu frá X til X. Einnig segir í fyrrgreindu bréfi að samkvæmt upplýsingum sem hafi fylgt umsókn sé kærandi með skerta vinnugetu. Fyrir liggur læknisvottorð D, dags. X, þar sem fram kemur að kærandi sé að mestu vinnufær en vegna læknisfræðilegra orsaka geti hún ekki unnið erfiðisstörf.

Í kæru kemur meðal annars fram að á þeim tímapunkti sem kærandi hafi verið beðin um að vinna í B hafi hún verið veik. Þá tekur hún það fram að hún hafnaði aldrei starfinu með þeim orðum að hún hefði ekki áhuga á svona starfi. Í samtali við starfsmann úrskurðarnefndar velferðarmála þann 10. júní 2016 greindi kærandi frá því að henni hafi hvorki verið boðin vinna né atvinnuviðtal hjá B.

Af framangreindu má ráða að óumdeilt sé að haft var samband við kæranda vegna starfs hjá B. Samkvæmt upplýsingum frá Vinnumálastofnun bárust þær upplýsingar frá B að kærandi hefði hafnað starfi við B með þeim rökum að hún hefði ekki áhuga á svona starfi. Þá er staðfest í bréfi B, dags. X, að haft hafi verið eftir kæranda í samtali B við hana að hún hefði ekki áhuga á svona starfi. Einnig viðurkennir kærandi í kæru að hún hafi verið beðin um að vinna í B. Þrátt fyrir að kærandi hafi síðar dregið þau ummæli til baka í samtali við starfsmann úrskurðarnefndar velferðarmála telur nefndin að ráða megi af öllu framangreindu að kærandi hafi hafnað starfi sem henni hafi boðist með sannanlegum hætti, sbr. 1. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur mögulegt með hliðsjón af læknisfræðilegum gögnum málsins að kærandi hafi ekki verið fær um að sinna viðkomandi starfi hjá B. Af gögnum málsins verður hins vegar ekki ráðið að það sé ástæða þess að kærandi hafnaði starfinu. Gögn málsins gefa til kynna að ástæðan hafi verið áhugaleysi kæranda fyrir starfinu og veikindi á þeim tíma þegar haft var samband við hana frá B. Kæranda var í lófa lagði að tilkynna starfsmanni B um veikindi sín. Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefndin að höfnum kæranda á starfinu hafi ekki verið réttlætanleg með hliðsjón af 4. mgr. 57. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Með hliðsjón af framangreindu er hin kærða ákvörðun staðfest.


Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 12. nóvember 2015, í máli A, um að fella niður bótarétt kæranda frá og með 13. nóvember 2015 í tvo mánuði, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum