Hoppa yfir valmynd
Yfirfasteignamatsnefnd

Mál nr. 16/2018

Úrskurður yfirfasteignamatsnefndar 22. febrúar 2019 í máli nr. 16/2018. 
Fasteign: Hraunteigur [], fnr. [], Borgarbyggð.
Kæruefni: Gjaldflokkur.
 

 

Árið 2019, 22. febrúar, var af yfirfasteignamatsnefnd í máli nr. 16/2018 kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Með erindi, dags. 28. nóvember 2018, kærði X fyrir hönd eigenda fasteignarinnar að Hraunteig [], Borgarbyggð, fnr. [], álagningu fasteignaskatta eignarinnar fyrir árin 2017 og 2018 og gerði kröfu um að krafa vegna álagðra skatta yrði felld niður.

 

Með bréfum, dags. 30. nóvember 2018, óskaði yfirfasteignamatsnefnd eftir umsögnum frá Þjóðskrá Íslands og sveitarfélaginu Borgarbyggð vegna kærunnar.

 

Með bréfi, dags. 5. desember 2018, barst umsögn Borgarbyggðar og þann 7. desember 2018, barst umsögn Þjóðskrár Íslands. Umsagnirnar voru sendar kærendum til upplýsinga.

 

Yfirfasteignamatsnefnd óskaði eftir frekari upplýsingum og gögnum frá kærendum með tölvubréfum, dags. 21. desember 2018 og 7. janúar 2019. Frekari gögn og upplýsingar vegna málsins bárust frá kærendum þann 8. janúar 2019.

 

Málið var tekið til úrskurðar 8. febrúar 2019.

 

  1. Málavextir

    Kærendur keyptu sumarhúsið að Hraunteigi [], Borgarbyggð, af móður þeirra á síðari hluta ársins 2016. Þau búa öll erlendis og mun umboðsmaður kærenda vera sá eini þeirra sem hefur íslenska kennitölu. Móðir þeirra hefur bankareikning hér á landi og tók að sér að ganga frá gjöldum eftir að kærendur keyptu eignina. Kærendur hafa upplýst að þau hafi ekki gætt að því að Borgarbyggð hefði heimilisfang þeirra og því hafi allir reikningar frá sveitarfélaginu vegna fasteignarinnar farið til móður þeirra.

    Með bréfi, dags. 25. júlí 2016, tilkynnti Borgarbyggð móður kærenda, að þar sem sumarhúsið væri nýtt til útleigu í atvinnuskyni yrði álagningarprósentu fasteignaskatts af eigninni breytt og fasteignin skattlögð samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga. Að sögn kærenda barst umrætt bréf til móður þeirra ekki fyrr en 11. október 2018, þar sem bréfið var sent á eldra heimilisfang hennar. Fasteignagjöldin af sumarhúsinu voru hins vegar greidd af húsinu til loka ársins 2016 án athugasemda.

    Í september 2018 barst föður kærenda tölvupóstur frá lögmanni Borgarbyggðar þar sem sett var fram krafa um að fasteignagjöld sumarhússins fyrir árin 2017 og 2018 yrðu greidd. Að sögn kærenda hafði faðir þeirra hins vegar aldrei verið eigandi sumarhússins. Móðir kærenda átti í framhaldinu fund með fulltrúa sveitarfélagsins vegna málsins. Á þeim fundi kom fram að sögn kærenda að ástæða hækkunar á fasteignaskatti fasteignarinnar mætti rekja til þess að eignin hefði verið auglýst til útleigu á vefsíðunni www.airbnb.com.

    Þann 15. október 2018 sendi móðir kærenda tilkynningu til Borgarbyggðar þar sem fram kom að sumarhúsið yrði eftirleiðis ekki leigt út. Eftir nánari athugun sveitarfélagsins var það staðfest og álagning fasteignaskatts á eignina lækkuð vegna ársins 2018 þar sem álagningin miðaðist við a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá og með 2. október 2018.

    Kærendur sendu erindi til yfirfasteignamatsnefndar, dags. 1. október 2018, sem móttekið var hjá nefndinni 13. nóvember 2018. Formleg kæra vegna álagningar fasteignaskatts eignarinnar fyrir árin 2017 og 2018 ásamt kröfu um niðurfellingu álagðra fasteignaskatta barst yfirfasteignamatsnefnd síðan þann 28. nóvember 2018.

  2. Sjónarmið kærenda.

    Kærendur gera kröfu um að álagning fasteignaskatts vegna sumarhúss þeirra að Hraunteigi [], Borgarbyggð, fnr. [], vegna áranna 2017 og 2018 verði felld niður og að fasteignaskattur vegna eignarinnar verði ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

    Kærandi byggir á því að fasteignin hafi verið í eigu móður þeirra allt þar til í nóvember 2016 en þá hafi kærendur keypt fasteignina í sameiningu. Í kjölfarið tók móðir kærenda að sér að ganga frá tilskyldum gjöldum af eigninni þar sem hún hafi verið með bankareikning hér á landi. Kærendur hafi hins vegar ekki gætt þess að Borgarbyggð hefði heimilisfang þeirra og því hafi allir reikningar verið sendir móður þeirra.

    Þann 3. október 2018 barst föður kærenda tölvupóstur frá lögmanni Borgarbyggðar með kröfu um að greiða fasteignagjöld fasteignarinnar fyrir árin 2017 og 2018. Hann hafi þó aldrei verið eigandi sumarhússins.

    Í kæru kemur fram að álagning fasteignaskatts hafi hækkað úr kr. 68.000.- . á árinu 2016 í kr. 300.000.- á árinu 2018. Kærendur gagnrýna að hafa ekki fengið viðvörun um hækkunina og að kröfu vegna ógreiddra fasteignagjalda skuli ekki hafa verið beint að þeim fyrr en faðir þeirra hafi fengið framangreindan tölvupóst síðastliðið haust.

    Kærendur vísa til þess að móður þeirra hafi verið greint frá því á fundi með fulltrúum Borgarbyggðar, að ástæða hækkunar á fasteignaskatti fasteignarinnar væri sú að eignin hafi verið auglýst til útleigu á vefsíðunni www.airbnb.com. Kærendur benda í því sambandi á að fasteignin hafi aðeins verið leigð út yfir blá sumarið og því einungis verið leigð í örfá skipti. Vatnið sé tekið af eigninni á veturna og ekki sé snjómokstur heim að eigninni yfir vetrartímann, hún liggi utan alfararvegar og því sé leigan lægri en fasteignar sem sé nær byggð. Telur kærandi þessa hækkun ekki standast þar sem tekjur eignarinnar séu ekki miklar. Leigutekjurnar séu nýttar til reksturs og viðhalds fasteignarinnar. Þá tekur kærandi fram að þau hafi ekki haft arð af tekjunum.

    Að mati kærenda er hækkunin á fasteignaskattinum ekki í hlutfalli við leigutímann og þær tekjur sem þau hafa haft af leigunni, auk þess sem þau hafi ekki fengið neina viðvörun. Nú skuldi þau fasteignaskatt fyrir árin 2017 og 2018 sem þau hafi ekki haft hugmynd um. Þá hafi þau nú tekið fasteignina af leiguskrá og hún sé ekki lengur til útleigu.

    Þá telja kærendur það óskiljanlegt að þeir þurfi að greiða fasteignaskatt samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 fyrir allt árið þegar ekki er hægt að leigja fasteignina út nema hluta úr ári.

  3. Sjónarmið Þjóðskrár Íslands.

    Í umsögn Þjóðskrár Íslands, dags. 7. desember 2018, kemur fram að Þjóðskrá Íslands hafi ekki borist beiðni um endurmat fasteignamats fyrir umrædda fasteign og því telji stofnunin ekki tilefni til efnislegrar umfjöllunar um málið.

  4. Sjónarmið Borgarbyggðar

    Í umsögn Borgarbyggðar, dags. 5. desember 2018, kemur fram að sumarið 2016 hafi verið gert átak í því að kanna hvaða húsnæði í Borgarbyggð væri leigt út til ferðamanna og auglýst sem slíkt. Hafi það verið gert þar sem að álagning fasteignaskatts á slíkt húsnæði eigi að vera samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 44/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

    Þá kemur fram að eitt af þeim húsum, sem í ljós hafi komið að hafi verið auglýst til útleigu á vefsíðunni www.airbnb.com hafi verið fasteign kærenda að Hraunteig [], Borgarbyggð, fnr. []. Þáverandi eiganda fasteignarinnar, móðir kærenda, hafi verið ritað bréf, dags. 25. júlí 2016, þar sem tilkynnt hafi verið að þar sem notkun á húsinu væri í atvinnuskyni yrði álagning fasteignaskatts af eigninni samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

    Frestur eiganda eignarinnar til að gera athugasemd við þessa breytingu hafi runnið út 17. ágúst 2016 og hafði engin athugasemd borist fyrir þann tíma. Í framhaldi af því hafi álagningu fasteignaskattsins verið breytt og lagt á samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995. Fasteignagjöldin hafi verið greidd af húsinu til loka ársins 2016 án þess að gerð hafi verið athugasemd við breytinguna.

    Þá er vísað til þess að eigninni hafi verið afsalað til kærenda þann 1. september 2016. Álagning fasteignaskatts hafi verið á nafni móður kærenda fyrir árið 2016 en á árunum 2017 og 2018 hafi álagningin hins vegar voru á nöfnum kærenda enda hafi þeir þá verið eigendur eignarinnar.

    Þann 15. október 2018 hafi móðir kærenda sent tilkynningu til Borgarbyggðar þar sem tilkynnt hafi verið að húsið yrði ekki nýtt frekar til útleigu. Þá hafi sveitarfélagið gengið úr skugga um hvort húsið væri enn auglýst til leigu á vefsíðunni www.airbnb.com og hafi svo ekki reynst vera. Því hafi álagning fasteignaskatts á eignina verið lækkuð og fasteignaskattur lagður á samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga frá og með 2. október 2018.

    Þá kemur fram að Borgarbyggð sendi álagningarseðla fasteignagjalda í bréfpósti til fasteignaeigenda sem eru 67 ára eða eldri svo og til fyrirtækja og lögaðila. Allir álagningarseðlarnir séu aðgengilegir á ,,mínum síðum“ á vefsíðunni www.island.is og þar komi fram álagning gjaldanna.

  5. Niðurstaða

Kærendur gera kröfu um að ógreidd fasteignagjöld vegna fasteignar þeirra að Hraunteig [], Borgarbyggð, fnr. [], fyrir árin 2017 og 2018 verði felld niður og að fasteignaskattur eignarinnar fyrir fyrrgreind ár verði ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

I.

Álitaefni þessa máls snýr að því hvort greiða skuli fasteignaskatt af sumarhúsi kærenda samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga eða samkvæmt c-lið sömu lagagreinar. Yfirfasteignamatsnefnd sker úr þeim ágreiningi, sbr. 3. málsl. 3. mgr. 4. gr. sömu laga. Kærunni er því réttilega beint til yfirfasteignamatsnefndar.

 

II.

Í lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga er ekki kveðið á um kærufrest til æðra stjórnvalds og fer því um hann samkvæmt 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í 1. mgr. 27. gr. laganna segir að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun, nema lög mæli á annan veg. Í 28. gr. sömu laga er síðan kveðið á um hvernig með skuli fara þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Í 1. mgr. ákvæðisins kemur fram að ef kæra berst að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Í 2. mgr. þess segir svo að kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Forsenda fyrir kæru til yfirfasteignamatsnefndar er að fyrir liggi ákvörðun sveitarfélags um greiðsluskyldu, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 4/1995. Ljóst er af fyrirliggjandi gögnum að meira en ár var liðið frá álagningu fasteignaskatts ársins 2017 á fasteign kærenda og þar til kærendur kærðu álagninguna til yfirfasteignamatsnefndar. Með vísan til 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kröfu kærenda vegna álagningar fasteignaskatts fyrir árið 2017 því vísað frá yfirfasteignamatsnefnd. Varðandi álagningu ársins 2018 þá telur yfirfasteignamatsnefnd það afsakanlegt að kæran hafi ekki borist nefndinni innan kærufrests þar sem fyrir liggur að kærendur fengu ekki upplýsingar um álagninguna fyrr en langt var liðið á árið 2018.

III.

Ákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 sem fjallar meðal annars um sumarbústaði er undantekningarákvæði eins og ákvæði b-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Af orðalagi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna verður ráðið að á allar aðrar fasteignir en þær sem sérstaklega eru taldar upp í stafliðum a og b verður lagður fasteignaskattur, allt að 1,32% af fasteignamati og lóðarréttindum. Í dæmaskyni eru þar meðal annars tilgreind „mannvirki sem nýtt eru fyrir ferðaþjónustu“. Þá er með 4. mgr. 3. gr. laganna sveitarstjórn veitt heimild til þess að hækka um allt að 25% hundraðshluta álagningu á þær eignir sem falla undir a- og c-liði 3. mgr. 3. gr. laganna.

Kærendur hafa í kæru vísað til þess að fasteign þeirra að Hraunteigi [], Borgarbyggð hafi einungis verið leigð út til ferðamanna í skamman tíma yfir sumarmánuðina. Vísa kærendur til þess að óeðlilegt sé að þeim verði gert að greiða fasteignaskatt samkvæmt c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga fyrir þá mánuði ársins sem fyrir liggur að fasteignin hafi ekki verið í útleigu til ferðamanna.

Hugtakið ferðaþjónusta er ekki skilgreint sérstaklega í lögum um tekjustofna sveitarfélaga en það hefur hins vegar verið skilgreint af Hagstofu Íslands þannig að ferðaþjónusta teljist ekki sérstök atvinnugrein heldur samanstandi hún af mörgum atvinnugreinum. Þannig hefur almennt verið talið að til ferðaþjónustu teljist meðal annars hvers konar gistiþjónusta. Um sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, sbr. a-lið 2. mgr. 1. gr. laganna. Gististaðir í skilningi laganna eru þeir staðir þar sem boðin er gisting til lengri eða skemmri tíma gegn endurgjaldi, svo sem á hótelum, gistiheimilum, í gistiskálum, íbúðum og sumarhúsum, með eða án veitinga, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.

Gögn málsins gefa til kynna að kærendur hafi á árinu 2018 boðið ferðamönnum gistingu í fasteign þeirra gegn endurgjaldi. Telja verður að fasteign þeirra hafi þannig á því ári með ákveðnum hætti verið nýtt til ferðaþjónustu þó svo að ákveðnar takmarkanir kunni að hafa verið á útleigu eignarinnar auk þess sem kærendur hafa upplýst að eignin hafi ekki verið í útleigu til ferðamanna nema hluta úr árinu.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur áður komist að þeirri niðurstöðu að gisting sem boðin er á vefsíðunni www.airbnb.com sé leyfisskyld, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 4/2015 og 18/2015, enda sé um að ræða sölu á gistingu sem telst til ferðaþjónustu. Um slíka sölu á gistingu gilda lög nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þannig verða kærendur að teljast hafa nýtt fasteign sína, sem ella félli undir undanþáguákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga, fyrir ferðaþjónustu í skilningi c-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna.

Yfirfasteignamatsnefnd hefur í fyrri úrskurðum sínum komist að þeirri niðurstöðu að til þess að unnt sé að skipta álagningu og reikna eftir a- og c-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 verði að tilgreina aðgreind tímabil útleigu og tímabil eigin notkunar sérstaklega til heilbrigðiseftirlits viðkomandi sveitarfélags fyrir fram, sbr. úrskurði yfirfasteignamatsnefndar í málum nr. 3/2013, 4/2013 og 4/2015. Það fyrirkomulag að eigendur geti tilkynnt í lok hvers árs hvernig aðgreiningu útleigutímabila hafi verið háttað er að mati yfirfasteignamatsnefndar andstæð lögum nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga sem og jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. úrskurð yfirfasteignamatsnefndar í máli nr. 18/2015.

Fyrir liggur að kærendur tilkynntu ekki um slíka aðgreiningu fyrir fram fyrir árið 2018. Þá hafa ekki verið lögð fram fullnægjandi gögn um aðgreiningu tímabila útleigu annars vegar og eigin notkunar hins vegar og skýringar að því leyti er ekki að finna á vefsíðunni www.airbnb.com.

Er því ekki unnt að fallast á kröfu kærenda um að felld verði niður álagning fasteignaskatts á árinu 2018 á téða eign né að álagningin verði alfarið ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga.

Með hliðsjón af framangreindu telst álagning fasteignaskatts fyrir árið 2018 vegna fasteignar kærenda að Hraunteigi [], Borgarbyggð, fnr. [], réttilega ákvörðuð en fyrir liggur að eftir að kærendur tilkynntu sveitarfélaginu um að útleigu á eigninni hefði verið hætt var álagningu fasteignaskatts breytt og hún ákvörðuð samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995 frá og með 2. október 2018. Kröfu kærenda um niðurfellingu álagðra fasteignagjalda ársins 2018 er því hafnað svo og kröfu kærenda um að fasteignaskattur ársins 2018 verði alfarið ákvarðaður samkvæmt a-lið 3. mgr. 3. gr. laga nr. 4/1995.

Úrskurðarorð

Kröfum kærenda varðandi álagðan fasteignaskatt á fasteign þeirra að Hraunteigi [], Borgarbyggð, fnr. [] fyrir árið 2017 er vísað frá yfirfasteignamatsnefnd. Kröfum kærenda varðandi álagðan fasteignaskatt eignarinnar fyrir árið 2018 er hafnað.

 

__________________________________

Hulda Árnadóttir

 

______________________________           ________________________________

Ásgeir Jónsson                                  Björn Jóhannesson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum