Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 4/2014, úrskurður 18. febrúar 2014

Mál nr. 4/2014
Eiginnafn: Júní

Hinn 18. febrúar 2014 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 4/2013 en erindið barst nefndinni 31. janúar:

Eiginnafnið Júní er ekki á mannanafnaskrá sem kvenmannsnafn. Það er hins vegar á þeirri skrá sem karlmannsnafn. Hefur því verið óskað afstöðu mannanafnanefndar um hvort nafnið fullnægi skilyrðum laga um mannanöfn nr. 45/1996 til að vera tekið á skrána sem kvenmannsnafn.

Til þess að fallist sé á eiginnafn og það fært á mannanafnaskrá verður öllum skilyrðum 5. gr. laga um mannanöfn að vera fullnægt.

Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 er kveðið á um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Í þessu ákvæði felst ekki bann við því að nafn sé hvorutveggja karlmannsnafn og kvenmannsnafn. Það á til dæmis við um eiginnöfnin Blær og Auður. Ef nafn telst hins vegar einvörðungu vera annaðhvort karlmannsnafn eða kvenmannsnafn í íslensku máli leiðir hins vegar af 2. mgr. 5. gr. að slíkt nafn má ekki gefa einstaklingi af gagnstæðu kyni.

Öll heiti hinna tólf mánaða, sem almennt eru notuð í tímatali hér á landi, eru tökuorð úr latínu og þiggja kyn sitt af orðinu mánuður. Sjálf eru þau kynlaus í íslensku og beygjast ekki. Mánaðarheitin marsjúlí og ágúst eru á mannanafnaskrá sem eiginnöfn karla en apríl er þar skráð sem kvenmannsnafn. Þótt mánaðarheitin beygist ekki taka eiginnöfnin Júlí og Ágúst eignarfallsendingu eins og önnur sambærileg nöfn (til Júlís/Ágústs) en Mars getur ekki bætt við sig eignarfalls s-i af hljóðfræðilegum ástæðum. Apríl er í eignarfalli Aprílar.

Eiginnafnið Júní er á mannanafnaskrá sem karlkyns eiginnafn (samþykkt 16. október 2008). Annað mánaðarheiti, Júlí, er einnig á mannanafnaskrá sem karlkyns eiginnafn en þó finnst dæmi um að það í íslensku að það hafi verið notað sem kvenkyns eiginnafn. Þótt hið umbeðna nafn, Júní, hafi sem fyrr segir verið notað hér á landi sem eiginnafn karlmanns telur mannanafnanefnd að ekki verði á því byggt með vissu að nafnið geti ekki í íslensku máli einnig verið kvenmannsnafn. Nafnið tekur eignarfallsendingu (Júníar). Það er  einnig ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls og ekki verður séð að það geti verið nafnbera til ama. Þess má einnig geta að í enskumælandi löndum hefur nafnmyndin June áunnið sér hefð sem kvenmannsnafn, en í ljósi lítillar hefðar orðsins sem mannsnafns hér á landi telur nefndin að líta beri til þess sjónarmiðs, meðal annarra, við mat á nafninu. Í þessu ljósi verður ekki séð að eiginnafnið Júní sem kvenmannsnafn brjóti í bág við íslenskt málkerfi. Mannanafnanefnd er því á grundvelli laga um mannanöfn ekki heimilt að hafna nafninu sem eiginnafni kvenmanns.

Eiginnafnið Júní (kvk.) tekur íslenska eignarfallsendingu, Júníar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Júní (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum