Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 25/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 25/2015

Miðvikudaginn 29. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 25. september 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. september 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 30. september 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 1. október 2015.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 5. október 2015 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kæranda, sbr. 1. gr. laga 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 9. júní 2011 var A veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt lge. og var honum í framhaldi skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum. Alls hafa fimm umsjónarmenn komið að máli kæranda síðan þá.

Kærandi er fæddur 1969. Hann er [...] og býr í B. Heildarskuldir hans samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara eru 72.107.133 krónur. Til helstu skuldbindinga var stofnað á árunum 2006 og 2007.

Með bréfi til umboðsmanns skuldara 23. mars 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarheimildir kæranda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Kröfuhafar hefðu gert athugasemdir við búsetu kæranda í B og hefði umsjónarmaður óskað skýringa á þessu frá kæranda. Kærandi hafi greint frá því að hann gæti ekki sagt til um hvernig búsetu hans erlendis yrði háttað en að hans mati væri ekki hægt að lifa af þeim launum sem í boði væru á Íslandi. Með tölvupóstum 25. og 26. febrúar 2015 hafi umsjónarmaður upplýst kæranda um skilyrði lge. að því er varðaði tímabundna búsetu erlendis og óskað eftir gögnum sem sýndu fram á að kærandi uppfyllti þau skilyrði, þ.e. að búseta hans erlendis væri tímabundin. Kærandi hafi þá greint frá því að hann væri ráðinn til starfa með þriggja mánaða uppsagnarfresti. Ráðningarsamningur hans gilti frá 1. ágúst 2014 til 1. nóvember 2015. Við lok þess tímabils tæki við ótímabundin ráðning. Kærandi kvaðst mundu dvelja íB í 18 til 24 mánuði, læra tungumálið og vera að því loknu betur í stakk búinn til þess að sinna [...] á Íslandi. Kærandi hafi ekki stutt skýringar sínar neinum gögnum.

Fram komi í 4. mgr. 2. gr. lge. að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og séu búsettir á Íslandi. Frá þessu megi víkja ef sá sem leiti greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi áður átt lögheimili og verið búsettur á Íslandi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi til hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili. Í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 14/2011 komi fram að við túlkun á framangreindu ákvæði lge. beri að líta til þess að reglan feli í sér undantekningu frá meginreglu sem ekki sé ætlað að ná til allra þeirra sem flytji til útlanda um ótiltekinn tíma. Miða verði við að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða gert líklegt að búsetu erlendis hafi í upphafi verið markaður ákveðinn tími. Þegar flutt sé til annars lands vegna starfs verði að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram sé markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði geri það líklegt að um tímabundna ráðstöfun sé að ræða. Búseta sé ekki álitin tímabundin í þessu samhengi geti skuldari ekki stutt fullyrðingu um hana viðhlítandi gögnum. Ekki sé fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja til Íslands einhvern tímann í framtíðinni sem óvíst sé hvenær verði.

Með vísan til framangreinds hafi umsjónarmaður ekki séð sér annað fært en að tilkynna umboðsmanni skuldara um að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun væri heimil á grundvelli lge. þar sem búseta kæranda í B gæti ekki talist tímabundin.

Með bréfi umboðsmanns skuldara 31. júlí 2015 til kæranda var honum gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn máli sínu til stuðnings, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge., áður en ákvörðun yrði tekin um hvort fella skyldi niður heimild til greiðsluaðlögunar. Svör kæranda bárust með tölvupósti 28. ágúst 2015 en þá lagði hann fram gögn frá fyrrum vinnuveitanda sínum.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 11. september 2015 var heimild kæranda til að leita greiðsluaðlögunar felld niður með vísan til 15. gr. lge., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr. og 4. mgr. 2. gr. sömu laga.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst mannréttinda og réttlátrar málsmeðferðar af hálfu umboðsmanns skuldara. Þetta verður að skilja svo að kærandi krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Kærandi kveðst ekki hafa getað brauðfætt fjölskyldu sína á Íslandi. Hann telur að þrátt fyrir að hann hafi álpast með fjölskyldu sína til B hefði umboðsmaður skuldara átt að ljúka málinu löngu áður en hann flutti þangað í X 2014.

Kærandi gerir athugasemd við langan málsmeðferðartíma og fjölda umsjónarmanna í málinu.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í a-lið 1. mgr. 6. gr. segi að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýni ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna.

Samkvæmt 4. mgr. 2. gr. lge. geti þeir einir leitað greiðsluaðlögunar sem eigi lögheimili og séu búsettir á Íslandi. Í sömu grein segi að heimilt sé að víkja frá þessu skilyrði ef sá sem leitar greiðsluaðlögunar er íslenskur ríkisborgari sem sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda að uppfylltum öðrum skilyrðum greinarinnar.

Samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár sé lögheimili kæranda erlendis. Einnig hafi hann staðfest það í samskiptum við umsjónarmann sinn að hann búi og starfi erlendis. Komið hafi fram í málflutningi kæranda að hann sé ekki „á heimleið“ í bili. Þá kveðst kærandi ekki vita hvernig búsetu hans verði háttað. Í tölvupósti frá kæranda til umsjónarmanns 19. mars 2015 segi „hugmyndin var að vera í B í 18 til 24 mánuði. Læra tungumálið og vera a[ð] því leytinu betur í stakk búinn hvað varða[r] [...] á Íslandi. Eins og einhvers staðar kemur fram vann ég hjá C og hygg á að snúa þangað aftur, með [...] í huga.“ Í sama tölvupósti kemur fram að kærandi hafi gert ótímabundinn ráðningarsamning sem kveði á um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Samningurinn hafi upphaflega verið tímabundinn frá 1. ágúst 2014 til 1. nóvember 2015 en það hafi verið svokallaður „prufutími“.

Framangreind samskipti og upplýsingar virtust ekki benda til þess að búsetu kæranda hafi verið fyrirfram markaður tími í upphafi, hvorki hafi verið um tímabundið starf að ræða né hafi kærandi farið utan til náms. Kærandi hafi lagt fram staðfestingu fyrrum vinnuveitanda á Íslandi þar sem fram komi að kærandi hafi samið við hann um að fá aftur starf þegar hann kæmi til Íslands „sem hann áætlaði í mesta [lagi að væri eftir] tvö ár“.

Til leiðbeininga megi benda á úrskurð kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli nr. 14/2011 en þar hafi verið úrskurðað í máli þar sem uppi var ágreiningur um hvort líta ætti á búsetu kæranda erlendis sem tímabundna þannig að undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. laganna ætti við. Eins og komi fram í úrskurðinum teljist það eitt að lýsa því yfir að aðilar hyggist snúa aftur heim til Íslands, án þess að styðja það neinum gögnum, ekki nægilegt til að sýna fram á að um tímabundna búsetu erlendis sé að ræða og því skipti ekki sköpum nú hvort kærandi hyggist flytja aftur til Íslands við fyrsta tækifæri.

Kærandi hafi hvorki tekist á hendur tímabundið starf né sinni hann tímabundnum verkefnum sem fyrir liggi hvenær ljúki. Þrátt fyrir að kærandi kveðist ætla að flytja til baka til Íslands liggi ekki fyrir hvort né hvenær það verði. Embætti umboðsmanns skuldara telur því að aðstæður kæranda séu ekki með þeim hætti að undantekningarheimild í 4. mgr. 2. gr. lge. eigi við.

Heimild kæranda til greiðsluaðlögunar hafi því verið felld niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 6. gr., sbr. 4. mgr. 2. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara krefst þess að ákvörðun hans um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. laganna.

Samkvæmt orðanna hljóðan nær 15. gr. lge. yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunarumleitanir sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp það, er varð að lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Í a-lið 1. mgr. 6. gr. lge. kemur fram að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skuldari uppfylli skilyrði laganna til að leita greiðsluaðlögunar. Í 4. mgr. 2. gr. lge. segir að þeir einir geti leitað greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum sem eigi lögheimili og séu búsettir hér á landi. Frá þessu megi þó víkja, meðal annars á þeim grundvelli að sá sem leiti greiðsluaðlögunar sé tímabundið búsettur erlendis vegna náms, starfa eða veikinda og hafi átt lögheimili og verið búsettur hér á landi í að minnsta kosti þrjú ár samfleytt, enda leiti hann einungis greiðsluaðlögunar vegna skuldbindinga sem stofnast hafi hér á landi við lánardrottna sem eigi hér heimili.

Til skýringar á hugtakinu „tímabundin búseta erlendis“ í skilningi lge. verður líta til þess að heimildin í 4. mgr. 2. gr. lge. er undantekning frá meginreglu. Af orðalagi ákvæðisins má ráða að því er ekki ætlað að ná til þeirra sem flytja til annarra landa í ótiltekinn tíma, til dæmis vegna atvinnu. Við það verður að miða að með tímabundinni búsetu sé átt við það að sýnt sé fram á eða það gert líklegt að búsetu erlendis sé í upphafi markaður ákveðinn tími. Þegar flutt er til útlanda vegna starfs verður því að miða við það að viðkomandi hafi þegið tímabundið starf eða tekist á hendur verkefni sem fyrirfram er markaður ákveðinn tími eða einhver önnur atriði valdi því að ráðstöfunin teljist vera tímabundin. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður ekki litið svo á að um tímabundna búsetu sé að ræða ef sú staðhæfing er ekki studd neinum gögnum. Því sé ekki fullnægjandi í þessu sambandi að viðkomandi lýsi því yfir að hann hyggist flytja aftur til Íslands einhvern tímann í framtíðinni, til dæmis við breyttar aðstæður, sem óvíst er hvort og þá hvenær verði.

Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að kærandi er búsettur og með lögheimili í B. Meðal gagna málsins er tölvupóstur frá fyrrum vinnuveitanda kæranda á Íslandi. Þar segir að þegar kærandi hafi undirbúið starfslok þar sumarið 2014 hafi þeir samið um að kærandi fengi vinnu aftur eftir veru sína í B sem hann áætlaði í mesta lagi tvö ár. Enginn samningur liggur þó fyrir í málinu þessu til staðfestingar. Þá liggja fyrir launaseðlar kæranda frá B vinnuveitanda hans vegna nóvember og desember 2014 og janúar 2015. Í málinu hefur ekkert komið fram sem að mati úrskurðarnefndarinnar staðfestir frásögn kæranda um að búseta hans í B sé tímabundin. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að starf hans sé tímabundið og hefur einungis greint frá því að hann hefði líklega íhugað betur búferlaflutninga sína hefði hann vitað að þeir gætu haft áhrif á greiðsluaðlögunarumleitanir hans. Að mati kærunefndarinnar getur búseta kæranda því ekki talist tímabundin í skilningi laganna.

Af öllu ofangreindu má ráða að kærandi uppfyllir ekki skilyrði lge. um lögheimili eða búsetu hér á landi, sbr. 4. mgr. 2. gr. lge. Þá verður búseta hans í B ekki talin tímabundin í skilningi a-liðar 4. mgr. 2. gr. lge. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli ekki skilyrði laga um greiðsluaðlögun einstaklinga til að leita greiðsluaðlögunar. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 6. gr. sömu laga verður því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum