Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 26/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 26/2016

Miðvikudaginn 22. júní 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir formaður, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 19. janúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 4. janúar 2016 þar sem umsókn kæranda um greiðsluaðlögun var hafnað.

Með bréfi 2. febrúar 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 4. febrúar 2016. Greinargerðin var send kæranda til kynningar samdægurs og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fæddur 1969. Hann er einhleypur X barna faðir og býr ásamt X sínum í eigin íbúð að B, sem er 125,7 fermetrar að stærð.

Kærandi starfar í 50% starfi hjá C ehf. ásamt því að starfa launalaust að [...].

Heildarskuldir kæranda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 4. janúar 2016 eru 154.425.288 krónur.

Að sögn kæranda má rekja skuldavanda hans til fasteignaverkefna sem hann vann að. Við hrunið 2008 hafi forsendubrestur leitt til vanefnda af hálfu kaupenda og fjármögnun verkefna hafi farið út um þúfur.

Kærandi lagði fram umsókn um greiðsluaðlögun 29. júní 2011, en með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. október 2012 var umsókn hans hafnað þar sem fjárhagur hans þótti ekki nægilega glöggur samkvæmt b-lið 2. mgr. 6. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Þá ákvörðun kærði kærandi til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi ákvörðun umboðsmanns skuldara úr gildi með úrskurði 20. nóvember 2014 þar sem forsendur í málinu voru breyttar. Umboðsmaður skuldara tók þá mál kæranda til efnislegrar meðferðar á ný og tók hina kærðu ákvörðun þess efnis að hafna umsókn kæranda um greiðsluaðlögun 4. janúar 2016, eins og fram hefur komið.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar þess að farið verði vel yfir þær greinargerðir og fylgigögn sem hann hafi lagt fram til umboðsmanns skuldara og málið metið að nýju. Skilja verður þetta svo að þess sé krafist að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Að mati kæranda skilji umboðsmaður skuldara ekki, eða vilji ekki skilja mikilvæga þætti sem öllu máli skipti um ákvarðanir kæranda að skuldsetja sig á sínum tíma. Heildarskuldir hans og ábyrgðir haustið 2008 hafi verið um 85.000.000 króna. Hefði ekki komið til hruns hefðu tekjur kæranda í lok árs 2008 og byrjun árs 2009 numið um 152.000.000 króna. Auk þess hafi hann fengið skuldabréf að fjárhæð 95.000.000 króna fyrir sölu eignar en unnið hafði verið að [...] í tengslum við eignina með D í þrjú ár.

Á þessum tíma hafi viðskiptabankar kæranda verið vel upplýstir og hafi hann notið fulls trausts hjá þeim vegna þeirra verkefna sem hann hafi verið með í vinnslu.

Þá gerir kærandi athugasemdir við langan málsmeðferðartíma.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun umboðsmanns skuldara kemur fram að við mat á því hvort veita skuli heimild til greiðsluaðlögunar beri umboðsmanni að kanna hvort fyrir liggi ástæður sem komið geta í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimiluð, sbr. 6. gr. lge. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana.

Í b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. komi fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinga var stofnað.

Kærandi hafi fest kaup á fasteigninni að B, í apríl 2006. Hann hafi fjármagnað kaupin með þremur bankalánum samtals að fjárhæð 27.172.000 krónur. Samkvæmt upplýsingum frá lánveitendum hafi mánaðarlegar afborganir lánanna verið alls 196.503 krónur árið 2006. Í skattframtali ársins 2007 vegna tekna ársins 2006 komi fram að nettótekjur kæranda hafi verið 1.250.255 krónur á því ári. Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur hafi því numið 104.188 krónum að meðaltali. Framfærslukostnaður kæranda hafi verið áætlaður 107.717 krónur á mánuði á árinu 2006 miðað við að kærandi hafi verið einn í heimili. Samkvæmt því hafi tekjur ekki hrokkið til greiðslu framfærslukostnaðar og þá heldur ekki til afborgana af lánum, þar með talið nýstofnaðra fasteignaveðlána. Greiðslugeta kæranda, miðað við framfærslukostnað og greiðslubyrði framangreindra fasteignaveðlána, hafi því verið neikvæð um 201.032 krónur á mánuði. Kærandi hafi bent á að veðlán hans hafi verið í skilum á þessum tíma og veitt þá skýringu að hann hafi verið með yfirdráttarheimild fyrir persónulega framfærslu og afborganir fasteignaveðlána. Til hafi staðið að greiða yfirdráttarskuldina niður á árunum 2008 og 2009 með ágóða af fasteignaverkefnum.

Þegar metnar séu þær fjárhagslegu skuldbindingar sem kærandi hafi tekist á hendur á árinu 2006, bæði fasteignaveðlán og ábyrgðarskuldbindingar, verði ekki hjá því komist að líta til þess að tekjur hans hafi verið mjög lágar á þessum tíma. Þrátt fyrir þær skýringar kæranda að hann hafi framfleytt sér og greitt af veðkröfum með yfirdráttarláni þyki það ekki gefa til kynna að hann hafi verið gjaldfær þegar hann skuldsetti sig vegna ofangreindra fasteignakaupa. Væntanlegur ágóði fasteignaverkefna þyki heldur ekki sýna fram á að kærandi hafi verið fær um að standa við fjárskuldbindingar sínar á þeim tíma er hann stofnaði til skuldanna, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. hafi fjárhagsstaða kæranda samkvæmt skattframtölum verið eftirfarandi á árunum 2006 til 2009 í krónum:

2006 2007 2008 2009
Meðaltekjur á mán. (nettó) 104.188 419.942 47.706 264.834
Eignir alls: 76.146.000 86.843.547 93.683.209 89.997.710
· Fasteignir 65.566.000 63.710.000 63.710.000 84.000.000
· Ökutæki og aðrar eignir 10.080.000 21.471.000 20.841.900 5.095.710
· Hlutir í félögum 500.000 500.000 500.000 750.000
· Bankainnstæður o.fl. 0 1.162.547 8.631.309 152.000
Skuldir 80.315.506 110.588.288 266.975.509 295.735.525
Nettó eignastaða -4.169.506 -23.744.741 -173.292.300 -205.737.815
Höfuðstóll ábyrgðarskuldbindinga 16.000.000 24.007.830 26.507.830 30.507.830

Gögn málsins gefi að mati embættisins til kynna að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er hann hafi stofnað til skuldbindinga, gengist í ábyrgðir og veðsett fasteign sína vegna fasteignaverkefna, á árunum 2006 til 2009. Hlutfall skulda kæranda, sem tengist atvinnustarfsemi, nemi að minnsta kosti 80.205.368 krónum eða 65% af heildarskuldum hans, þar með talið ábyrgðarskuldbindingum. Um er að ræða eftirtaldar skuldir: Lánssamning við Landsbankann, upphaflega að fjárhæð 70.000.000 króna, ábyrgðarskuldbindingu vegna E hjá Landsbankanum, upphaflega að fjárhæð 300.972 krónur, auk skulda einkahlutafélaga sem kærandi hafi ýmist ábyrgst sem ábyrgðarmaður eða veðsett fasteign sína fyrir, upphaflega að fjárhæð samtals 30.507.830 krónur. Þessar kröfur nemi nú samtals 134.303.561 krónu. Telja megi að kæranda hafi mátt vera ljóst hver fjárhagsstaða félaganna var á þessum tíma, enda hafi hann gegnt þar ábyrgðarstöðum. Skattframtöl beri það með sér að tekjur kæranda hafi verið lágar, nema árið 2007, þegar hann hafi haft umtalsverðar fjármagnstekjur, en það ár hafi hann enn fremur stofnað til stærstu skuldbindinganna. Þá beri skattframtöl með sér að eignastaða kæranda hafi verið neikvæð öll árin.

Kærandi hafi lagt fram ýmis gögn varðandi fasteignaviðskipti sín í D og F. Þá hafi hann lagt fram tölvupóstsamskipti við Landsbankann til stuðnings þeirri skýringu sinni að ekki hafi staðið til að hann stæði sjálfur undir 70.000.000 króna láni hjá bankanum sem stofnað hafi verið til árið 2007. Lánið hafi verið svokallað kúlulán og veitt til eins árs. Ekki verði dregið í efa að aðstæður á árinu 2008 hafi haft veruleg áhrif á þá stöðu sem kærandi komst í eftir bankahrunið eða að þróunin hafi verið ófyrirséð. Það breyti þó ekki þeirri staðreynd að kærandi hafi stofnað til persónulegrar skuldar að fjárhæð 70.000.000 króna árið 2007. Þótt hann hafi aðeins verið greiðandi samningsins til málamynda sé hann sannanlega lántakinn og ábyrgur sem slíkur. Þar með þyki kærandi hafa tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hafi verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til skuldbindinganna var stofnað, samkvæmt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt niðurstöðu kærunefndar greiðsluaðlögunarmála í máli númer 19/2011 verði ábyrgðarskuldbindingar vegna þriðja aðila ekki lagðar að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt þyki að veita skuldara heimild til að leita greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Í úrskurði nefndarinnar komi fram að sá sem gangist í ábyrgðarskuldbindingar þurfi vissulega að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild þótt ekki verði gengið svo langt að gera þá kröfu að ábyrgðaraðili gangi fortakslaust út frá því að hann muni á endanum þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hafi ábyrgst efndir á. Því verði að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum hafi kærandi gengist undir eftirfarandi ábyrgðarskuldbindingar í krónum vegna atvinnurekstrar á árunum 2006 til 2009:

Skuldari Útgefið Kröfuhafi Tegund Upphafleg
fjárhæð
G 10.4.2006 Arion banki Sjálfskuldarábyrgð 2.000.000
H 20.12.2006 Íslandsbanki Tryggingabréf/lánsveð 14.000.000
E 5.3.2007 Landsbankinn Tryggingabréf/lánsveð 3.400.000
H 12.12.2007 Landsbankinn Sjálfskuldarábyrgð 4.607.830
E 5.3.2008 Landsbankinn Tryggingabréf/lánsveð 2.500.000
J 25.5.2009 Íslandsbanki Sjálfskuldarábyrgð 4.000.000
Alls: 30.507.830

Þrátt fyrir að kærandi hafi ekki gengist í sjálfskuldarábyrgð vegna þeirra krafna, sem tryggðar séu með veði í fasteign hans, hefði hann þurft að hafa fjárhagslegt svigrúm til að taka yfir skuldirnar í því skyni að forða því að gengið yrði að eigninni vegna vanefnda skuldarans.

G hafi síðast skilað ársreikningi vegna ársins 2006 en samkvæmt reikningnum hafi eignastaða félagsins verið neikvæð og tap á rekstrinum. Félagið hafi síðan orðið gjaldþrota árið 2009. H hafi síðast skilað ársreikningi vegna rekstrarársins 2007 en félagið hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2010. Samkvæmt ársreikningi félagsins vegna rekstrarársins 2006 hafi eignastaða félagsins verið neikvæð og tap á rekstrinum. Ársreikningur vegna rekstrarársins 2007 sýni á hinn bóginn jákvæða eignastöðu og hagnað af rekstri. Hreint veltufé hafi verið neikvætt sem gefi til kynna að félagið hafi skort veltufjármuni til að standa undir skammtímaskuldum. E hafi síðast skilað ársreikningi vegna rekstrarársins 2007. Samkvæmt reikningnum hafi eignastaða félagsins verið neikvæð og tap á rekstrinum. J hafi verið stofnað í X 2008 og aðeins skilað ársreikningi vegna þess árs. Þar hafi komið fram að engin starfsemi hafi verið í félaginu. Engar upplýsingar liggi fyrir um stöðu félagsins er kærandi gekkst í ábyrgðir fyrir það.

Ársreikningar og skortur á þeim gefi til kynna að staða félaganna hafi verið þannig að kærandi hafi tekið fjárhagslega áhættu með því að gangast í ábyrgðir fyrir þau og með því að veðsetja fasteign sína fyrir skuldum þeirra. Undan sé skilin staða H árið 2007. Þá sé það mat umboðsmanns skuldara að á þeim tíma, er kærandi hafi stofnað til verulegra skulda og gengist í ofangreindar ábyrgðir vegna atvinnurekstrar á árunum 2006 til 2009, hafi hann greinilega verið ófær um að standa við fjárskuldbindingar sínar.

Kærandi hafi sjálfur metið það svo að áhætta hans hafi ekki verið slík að það varði við c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. þar sem væntanlegur hagnaður af fjárfestingarverkefnum hefði átt að standa undir skuldunum. Ekki verði fram hjá því litið að fasteignaviðskipti séu í eðli sínu áhættusöm og þegar skuldsett fasteignaviðskipti séu fyrir hendi sé áhættan þeim mun meiri. Kærandi hafi ekki getað gefið sér að verkefnin myndu skila þeim hagnaði sem hann vænti. Skýringar kæranda og þau gögn sem hann hafi lagt fram breyti ekki því mati umboðsmanns skuldara að persónuleg fjárhagsstaða kæranda hafi verið þannig að hann hafi tekið fjárhagslega áhættu í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. með því að gangast í ábyrgðir og lána veð í fasteign sinni. Einnig sé litið til þess að ekki hafi verið um að ræða skuldir vegna fjármögnunar á húsnæði til eigin búsetu heldur viðskiptaskuldir.

Í athugasemdum við frumvarp það er varð að lge. komi fram að því sé fyrst og fremst ætlað að ná til heimilisrekstrar einstaklinga en mikilvægt sé að mæta aðstæðum þeirra sem séu með atvinnurekstur samofinn heimilisrekstri. Það sé þó ekki vilji löggjafans að einstaklingar, sem fyrst og fremst eigi í vanda vegna atvinnurekstrar, geti nýtt sér úrræðið. Í þessu sambandi hafi verið lögð sérstök áhersla á að aðstæðum einyrkja og bænda væri mætt. Samkvæmt athugasemdunum hafi félags- og tryggingamálanefnd Alþingis sérstaklega horft til þess að ákvæði 6. gr. frumvarpsins, sem kveði á um hvenær skylt sé að synja umsókn um greiðsluaðlögun og hvenær heimilt sé að synja umsókn, girti fyrir að einstaklingur í atvinnurekstri fengi greiðsluaðlögun hefði hann hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans eða tekið á sig fjárskuldbindingar sem hann greinilega var ófær um að standa við þegar hann stofnaði til þeirra.

Að því er varði c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. megi vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010, en þar hafi rétturinn skýrt ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem sé sambærilegt við c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli hafi 81% heildarskulda verið vegna ábyrgðarskuldbindinga sem fallið höfðu á skuldara, en þegar til skuldbindinganna var stofnað hafi tekjur hans verið litlar sem engar. Hæstiréttur hafi einnig litið til þess hvernig eignastaða hafi verið þegar til skuldbindinga var stofnað. Heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið hafnað og talið ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki hefði verið í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til fjárhagsskuldbindinga var stofnað.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat umboðsmanns skuldara að skuldbindingar þær, er kærandi ábyrgðist og/eða veðsetti fasteign sína fyrir á árunum 2006 til 2009 ásamt þeirri skuldbindingu sem kærandi hafi persónulega stofnað til vegna einkahlutafélags árið 2007, hafi verið svo miklar að telja verði að þær hafi verið í ósamræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma er til þeirra var stofnað. Í ljósi þess að um 65% af samanlagðri fjárhæð skulda og ábyrgðarskuldbindinga kæranda megi rekja til atvinnurekstrar og þess að fyrirliggjandi gögn gefi til kynna að fjárhagsstaða kæranda hafi ekki verið þannig að hann gæti staðið undir skuldunum eða tekið yfir ábyrgðarskuldbindingar, kæmi til þess að þær féllu á hann, þyki aðstæður í málinu þannig að óhæfilegt sé að veita kæranda heimild til greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt öllu ofangreindu hafi ekki verið hjá því komist að synja umsókn kæranda um að leita greiðsluaðlögunar samkvæmt b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á b- og c-liðum 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt b-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari stofnað til skulda á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt c-lið er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt eða tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindingarinnar var stofnað.

Vísað er til þess sem fram kemur í málatilbúnaði umboðsmanns skuldara um fjárhagsstöðu kæranda árin 2006 til 2009 samkvæmt skattframtölum og öðrum gögnum málsins. Á þessum tíma jukust skuldir kæranda verulega og eignir minnkuðu. Öll fyrrgreind ár voru launatekjur kæranda lágar. Árið 2007 hafði hann umtalsverðar fjármagnstekjur og því voru heildartekjur hans það ár mun hærri en hin árin sem til skoðunar eru.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum eru skuldir kæranda eftirtaldar í krónum:

Kröfuhafi Ár Tegund Upphafleg Staða Vanskil
fjárhæð 2012 frá
Innheimtustofnun sveitarfélaga 2003 Meðlag 403.991 3.042.747 2003
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2006 Erlent veðskuldabréf 11.336.000 18.619.570 15.4.2011
Frjálsi fjárfestingarbankinn 2006 Erlent veðskuldabréf 11.336.000 19.623.762 15.6.2011
Íslandsbanki 2006 Veðskuldabréf 4.500.000 9.962.007 15.12.2008
Íslandsbanki 2006 Yfirdráttur 8.300.000 7.107.271 2009
Íslandsbanki Greiðslukort 628.767
Tollstjóri 2006 Dómsekt/Sakarkostn. 2.633.210 2.633.210 2006
Landsbankinn 2007 Erlent lán 70.000.000 2008
Landsbankinn Greiðslukort 483.069 2008
Tryggingamiðstöðin 2007 Bílalán 5.465.320 5.912.014 2009
Tryggingamiðstöðin 2009 Tryggingar 281737 131.774 2009
Samtals 114.256.258 68.144.191

Í 6. gr. lge. er gerð grein fyrir þeim atriðum sem geta komið í veg fyrir að greiðsluaðlögun verði heimiluð. Í 2. mgr. 6. gr. kemur fram að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar ef óhæfilegt þyki að veita hana. Í því lagaákvæði eru í sjö stafliðum rakin atriði sem umboðsmaður skuldara skal sérstaklega líta til við mat á slíku. Þetta eru ástæður sem eiga það sameiginlegt að ekki sé viðeigandi að skuldari eigi kost á greiðsluaðlögun verði vandi hans að einhverju leyti eða öllu rakinn til atvika sem hann ber sjálfur ábyrgð á með framgöngu sinni, sbr. athugasemdir með frumvarpi til lge. Meðal þeirra atriða eru b- og c-liðir 2. mgr. 6. gr. lge., sem þegar hefur verið gerð grein fyrir, en umboðsmaður skuldara synjaði kæranda um heimild til greiðsluaðlögunar á grundvelli þessara ákvæða.

Árið 2006 tók kærandi tvö erlend lán. Hvort lánið um sig var að fjárhæð 11.336.000 krónur eða samtals 22.672.000 krónur. Annað lánið var til 40 ára en hitt til 7 ára. Miðað við gögn málsins var greiðslubyrði af höfuðstól lánanna í upphafi samtals 158.569 krónur á mánuði. Þá tók kærandi einnig veðlán að fjárhæð 4.500.000 krónur árið 2006 en greiðslubyrði þess liggur ekki fyrir. Sama ár tók kærandi einnig yfirdráttarlán. Á þessum tíma voru laun kæranda 104.188 krónur á mánuði. Framfærslukostnaður og annar mánaðarlegur kostnaður samkvæmt neysluviðmiði umboðsmanns skuldara var 108.717 krónur. Mánaðarleg greiðslubyrði kæranda var því að minnsta kosti neikvæð um 163.000 krónur. Eins og komið er fram var eignastaða kæranda neikvæð þannig að hann átti ekki eignir fyrir skuldum.

Árið 2007 tókst kærandi á hendur erlent kúlulán að fjárhæð 70.000.000 króna til eins árs en lánið notaði hann til kaupa á fasteign. Þetta lán kom til viðbótar við þau lán sem kærandi tók 2006. Kærandi hefur greint frá því að félagið K sem hafi verið tengt honum, hafi ætlað að kaupa X fasteignir við L í F og hafi Landsbankinn ætlað að fjármagna kaupin. Kærandi hefur greint frá því að árið 2007 hafi hann persónulega keypt eina þessara fasteigna fyrir K en það hafi verið til þess að áform K spyrðust ekki út. Kærandi tók einnig fyrrnefnt lán til kaupanna, en hann kveður félagið hafa átt að verða eiganda eignarinnar og greiðanda að láninu áður en að gjalddaga kæmi. Í málinu liggja ekki fyrir gögn er staðfesta þessa fullyrðingu kæranda og verður því ekki við annað miðað en að kærandi sjálfur hafi tekið lánið til persónulegra nota. Samkvæmt skattframtali kæranda vegna tekjuársins 2007 voru skuldir kæranda umfram eignir tæplega 24.000.000 krónur í lok ársins og ráðstöfunartekjur hans á árinu um 5.000.000 króna en þar af voru fjármagnstekjur rúmar 4.000.000 króna. Liggur samkvæmt þessu fyrir að kærandi gat hvorki greitt skuldir, sem hann hafði stofnað til, með tekjum né með sölu eigna.

Í málatilbúnaði kæranda kemur fram að hann hafi átt von á miklum tekjum árin 2008 og 2009 sem renna hafi átt til hans vegna greiðslu samkvæmt skuldabréfi útgefnu 7. ágúst 2007. Skuldabréfið hafi upphaflega verið að fjárhæð 40.000.000 króna og hafi verið hluti af greiðslu fyrir lóð og byggingarrétt að M í D. Þessar fullyrðingar kæranda eru ekki í samræmi við gögn málsins. Kröfuhafi skuldabréfsins var ekki kærandi heldur H. Engin gögn liggja fyrir um að kærandi hafi eignast bréfið eða að hann hafi átt að fá greiðslur samkvæmt því. Úrskurðarnefndin telur því ekki unnt að líta svo á að kærandi hafi átt von á greiðslum samkvæmt skuldabréfinu.

Með vísan til þess sem hér hefur komið fram telur úrskurðarnefndin að á árunum 2006 og 2007 hafi kærandi tekist á hendur skuldbindingar sem augljóslega voru umfram það sem greiðslugeta hans og eignastaða gaf tilefni til. Því er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi stofnað til skuldbindinga á þeim tíma er hann var greinilega ófær um að standa við þær í skilningi b-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. má vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 198/2010 en þar skýrði rétturinn ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 63. gr. d. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991 sem er sambærilegt c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í því máli leit Hæstiréttur meðal annars til þess hvernig eignastöðu var háttað þegar til skuldbindinga var stofnað og hafnaði heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar þar sem talið var ljóst að skuldari hefði tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma þegar til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað.

Kærandi gekkst í eftirtaldar sjálfskuldarábyrgðir á tímabilinu 2006 til 2009:

Skuldari Útgefið Kröfuhafi Tegund Upphafleg
fjárhæð í krónum
G 9.2.2006 Arion banki Sjálfskuldarábyrgð 2.000.000
H* 12.12.2007 Landsbankinn Sjálfskuldarábyrgð í CHF 5.409.000
J 9.6.2009 Íslandsbanki Sjálfskuldarábyrgð 4.000.000
Alls: 11.409.000

*Miðað við miðgengi Seðlabanka Íslands 12. desember 2007.

Við mat á því hvort beita skuli c-lið 2. mgr. 6. gr. lge. ber að líta til samspils tekna og skuldbindinga skuldara á viðkomandi tímabili. Þegar hefur verið gerð grein fyrir tekjum og eignastöðu kæranda þegar hann stofnaði til skuldbindinga árin 2006 og 2007.

Ábyrgðarskuldbindingar er ekki alltaf hægt að leggja að jöfnu við beinar fjárhagslegar skuldbindingar við mat á því hvort óhæfilegt sé að veita heimild til greiðsluaðlögunar í skilningi 2. mgr. 6. gr. lge. Sá einstaklingur sem gengst undir ábyrgðarskuldbindingar þarf þó að gera ráð fyrir þeim möguleika að kröfum vegna þeirra verði beint að honum að hluta til eða í heild. Þótt ekki verði gengið fortakslaust út frá því að ábyrgðaraðili muni þurfa að greiða allar þær skuldbindingar sem hann hefur ábyrgst efndir á verður engu að síður að meta áhættuna í hverju tilviki fyrir sig.

Að mati úrskurðarnefndarinnar skiptir eignastaða kæranda ekki síður miklu máli en tekjur þegar metið er hvort óhæfilegt sé að heimila honum að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge. Í úrskurðum kærunefndar greiðsluaðlögunarmála hefur niðurstaðan jafnan verið sú að þegar kærendur takast á hendur fjárhagsskuldbindingar, sem engar líkur eru á að þeir geti greitt af miðað við tekjur og að teknu tilliti til framfærslukostnaðar og annarra fjárskuldbindinga á þeim tíma sem til skuldbindinga var stofnað, leiði það til þess að umboðsmanni skuldara sé heimilt að synja um greiðsluaðlögun.

Á árinu 2006 tókst kærandi á hendur 2.000.000 króna sjálfskuldarábyrgð fyrir G. Á þeim tíma var félagið rekið með tapi og eigið fé þess neikvætt. Þá hafði félagið ekki handbært fé til að greiða af skuldum. Kæranda gat því vart dulist að töluverðar líkur væru á því að á ábyrgðina reyndi. Ekki liggja fyrir rekstrarupplýsingar um J en kærandi ábyrgðist 4.000.000 króna vegna þess árið 2009. Í ljósi þess að félagið var tekið til gjaldþrotaskipta árið 2010 verður að telja að á þeim tíma er kærandi gekkst í ábyrgðina hafi fjárhagur félagsins verið slæmur. Eins og rakið hefur verið stofnaði kærandi til skulda á árinu 2006 án þess að geta greitt af þeim skuldbindingum. Á þessum tíma var eignastaða hans neikvæð. Á árinu 2009 var eignastaða hans sömuleiðis neikvæð og greiðslugeta ekki nægileg til að standa undir greiðslu skulda. Kærandi hefði þannig hvorki getað greitt af ábyrgðarskuldingunum með tekjum sínum né eignum, færi svo að þær féllu á hann.

Þegar þetta er virt telur úrskurðarnefndin að með því að takast á hendur framangreindar skuldir og ábyrgðarskuldbindingar hafi kærandi hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt og tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu hans á þeim tíma sem til fjárhagsskuldbindinganna var stofnað í skilningi c-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Samkvæmt öllu framanrituðu telur úrskurðarnefndin að A hafi réttilega verið synjað um heimild til að leita greiðsluaðlögunar með vísan til b- og c- liða 2. mgr. 6. gr. lge. Ber því að staðfesta hina kærðu ákvörðun.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að synja A um heimild til að leita greiðsluaðlögunar er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum