Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 39/2015

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 39/2015

Miðvikudaginn 28. september 2016

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 17. desember 2015 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A, og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 11. desember 2015 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 23. desember 2015 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 22. janúar 2016.

Greinargerðin var send kærendum til kynningar með bréfi 29. janúar 2016 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

Þann 1. janúar 2016 tóku gildi lög nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála og tók nefndin yfir frá þeim tíma þau mál sem áður voru til meðferðar hjá kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, þ.m.t. mál kærenda, sbr. 1. gr. laga nr. 85/2015 og 32. gr. laga nr. 101/2010 um greiðsluaðlögun einstaklinga (lge.), sbr. 13. gr. laga nr. 85/2015.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1975 og 1974. Þau búa ásamt X börnum sínum í eigin íbúð að C, sem er 69 fermetrar að stærð

Heildarskuldir kærenda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara, eru 23.081.970 krónur.

Kærendur rekja fjárhagserfiðleika sína til atvinnuleysis, tekjulækkunar og offjárfestingar.

Kærendur lögðu fram umsókn um greiðsluaðlögun 24. maí 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 28. júní 2012 var þeim veitt heimild til greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra. Í fylgiskjali með ákvörðun umboðsmanns var upplýst um skyldur skuldara við greiðsluaðlögun samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Tveir umsjónarmenn hafa komið að máli kærenda.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 19. mars 2015 lagði umsjónarmaður til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. þar sem fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil. Kærendur hefðu meðal annars brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem væri umfram það sem þau hafi þurft til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hafi lagt fyrir 26.070 krónur á tímabili frestunar greiðslna, svokallaðs greiðsluskjóls, en samkvæmt útreikningum umsjónarmanns hefðu þau átt að geta lagt fyrir 1.990.058 krónur frá 28. júní 2012. Kærendur hafi lagt fram skýringar á því hvers vegna vantaði upp á sparnað þeirra en þau telji óvænt útgjöld á tímabilinu nema 1.613.930 krónum. Þar af telji umsjónarmaður unnt að taka tillit til útgjalda að fjárhæð 924.630 krónur. Því vanti enn 1.039.881 krónu upp á sparnað kærenda.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kærenda 27. ágúst 2015 var þeim var gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr., sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur komu andmælum sínum á framfæri með tölvupósti 1. september 2015 og lögðu fram gögn 10. september 2016.

Með bréfi til kærenda 11. desember 2015 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur gera ekki kröfur í málinu en skilja verður kæru þeirra svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara verði felld úr gildi.

Þegar kærendum hafi verið kynnt greiðsluaðlögun hafi verið talað um að þau ættu að leggja fyrir um 40.000 krónur á mánuði. Ef þau þyrftu að kaupa eitthvað skyldu þau taka nótu. Aldrei hafi verið talað um að samþykkja þyrfti kaupin svo lengi sem þau væru nauðsynleg. Síðan hafi komið í ljós að þau hefðu átt að leggja meira til hliðar og hafi þeim verið kynnt það fyrir um sex mánuðum.

Að mati kærenda sé það rangt að þau hafi ekki lagt fyrir í samræmi við skyldu sína. Þau hafi farið eftir þeirri áætlun sem þau hafi fengið síðast. Þá hafi komið í ljós að þau hefðu átt að leggja fyrir meira en áður. Upplýsingarnar frá umboðsmanni skuldara séu því mjög skrýtnar. Þá hafi hluti tekna kærenda verið vegna yfirvinnu og eigi því ekki að taka tillit til þeirra við útreikning á sparnaði. Aldrei hafi verið talað um að þau mættu ekki vinna aukalega.

Kærendur telja að framfærsluviðmið ættu að taka tillit til kostnaðar vegna jóla og afmæla en mikinn kostnað megi rekja til þess. Viðmiðin séu of lág.

Kærendur gera athugasemd við málsmeðferð, málsmeðferðartíma og telja að útskýra hefði mátt ferlið betur fyrir þeim.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna umboðsmanni skuldara um það sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin. Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara meðan hann njóti greiðsluskjóls. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól kærenda hafi staðið yfir í rúmlega 37 mánuði en miðað sé við tímabilið frá 1. júlí 2012 til 31. júlí 2015. Upplýsingar um laun byggi á staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra, öðrum opinberum gögnum og skattframtölum og tekið sé mið af öllum tekjum, þar á meðal barna- og vaxtabótum. Í eftirfarandi sundurliðun útreikninga sé lagt til grundvallar að mismunur meðaltekna á mánuði og framfærslukostnaðar sé lagður saman. Sú fjárhæð sé nefnd greiðslugeta.

Samkvæmt gögnum málsins hafi kærendur haft neðangreindar tekjur á tímabilinu í krónum:

Tekjur 2015 2014 2013 2012 Tekjur alls
Launatekjur 3.001.048 5.323.974 5.112.614 2.221.990 15.659.626
Barna/vaxtabætur o.fl. 274.599 388.895 261.906 242.628 1.168.028
Leigutekjur e. skatt 349.998 170.690 475.000 995.688
Samtals 3.275.647 6.062.867 5.545.210 2.939.618 17.823.342
Sparnaður 2015 2014 2013 2012 Alls
Heildartekjur á ári 3.275.647 6.062.867 5.545.210 2.939.618 17.823.342
Meðaltekjur á mán. 467.950 505.239 462.101 489.936 1.925.226
Framfærslukostn. á mán. 407.134 407.134 407.134 407.134 1.628.536
Greiðslugeta á mán. 60.816 98.105 54.967 54.967 268.854
Áætlaður sparnaður 425.709 1.177.259 659.602 496.814 2.759.384

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum megi ætla að mánaðarleg heildarútgjöld kærenda hafi verið 407.134 krónur á mánuði á tímabili greiðsluskjóls. Miðað sé við nýjustu framfærsluviðmið kærendum í hag. Samkvæmt því sé miðað við framfærslukostnað ágústmánaðar 2015 fyrir hjón/sambýlisfólk með X börn og umgengni við eitt barn aðra hvora helgi. Gengið sé út frá því að kærendur hafi alls haft heildartekjur að fjárhæð 17.823.342 krónur á framangreindu tímabili og hafi átt að geta lagt fyrir 2.759.384 krónur.

Umsjónarmaður hafi tekið tillit til framlagðra reikninga vegna viðgerðarkostnaðar, húsgagna- og raftækjakaupa, flutninga o.fl., samtals að fjárhæð 933.630 krónur. Ekki sé unnt að taka tillit til kostnaðar við þinglýsingar og skólavörur að fjárhæð 7.630 krónur þar sem það sé talið falla innan framfærsluviðmiða undir liðnum „önnur þjónusta“. Samkvæmt framfærsluviðmiðinu sé reiknað með að sá kostnaður nemi 14.315 krónum á mánuði. Þá hafi kaup á hjóli fyrir 42.670 krónur ekki verið talin nauðsynleg og því ekki tekið tillit til þeirra. Ekki hafi verið lögð fram gögn vegna kostnaðar að fjárhæð 630.000 krónur og því sé ekki mögulegt að taka tillit til hans. Þá hafi kærendur greitt 1.000.000 króna í húsaleigu á tímabilinu. Kærendur kveðist hafa lagt fyrir 26.070 krónur og skorti því 799.684 krónur upp á sparnað þeirra á tímabilinu (2.759.384 - 933.630 - 1.000.000 - 26.070).

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, fasteignagjöld, samskiptakostnað og fleira þess háttar. Í fylgiskjölum með ákvörðun umboðsmanns skuldara um heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda. Meðan á frestun annarra greiðslna standi sé skuldara ætlað að greiða gjöld og kostnað vegna framfærslu sé greiðslugeta hans jákvæð í mánuði hverjum, enda markmið með greiðsluaðlögun að koma jafnvægi á skuldir og greiðslugetu.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Sé umsjónarmanni almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar að við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna standi sé þeim jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir almennan heimilisrekstur samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Gera verði þá kröfu til einstaklinga, sem glími við svo verulega fjárhagserfiðleika að íhlutunar sé þörf, að þeir dragi úr útgjöldum sem ætla megi að hægt sé að komast hjá eða fresta og sérstaklega á meðan þeir standi í greiðsluaðlögunarumleitunum vegna endurskipulagningar fjármála sinna. Skuldurum í greiðsluaðlögun séu settar ákveðnar skorður á ráðstöfun fjár í greiðsluskjóli. Þeim sé í fyrsta lagi skylt að leggja fyrir það fé sem sé umfram framfærslukostnað og í öðru lagi að ráðstafa ekki því fé sem gagnast gæti lánardrottnum sem greiðsla.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi ekki verið hjá því komist að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna sem fram komi í henni.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge., þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skal skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum samkvæmt 1. mgr. skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Eins og fram er komið tilkynnti umsjónarmaður með bréfi til umboðsmanns skuldara 19. mars 2015 að hann teldi að kærendur hefðu brugðist skyldum sínum við greiðsluaðlögunarumleitanir. Umsjónarmaður vísaði þar meðal annars til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og taldi að fella ætti niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Í framhaldi af þessu felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður 11. desember 2015.

Að mati umboðsmanns skuldara vantaði 799.684 krónur upp á sparnað kærenda þegar þau höfðu gert grein fyrir útgjöldum sínum eftir að umsókn þeirra um greiðsluaðlögun var samþykkt, nánar tiltekið fyrir tímabilið 1. júlí 2012 til 31. júlí 2015. Kærendur telja sig hafa lagt til hliðar í samræmi við skyldur sínar.

Samkvæmt fyrirliggjandi álagningarseðlum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, hafa mánaðartekjur kærenda í krónum verið eftirfarandi í greiðsluskjóli á neðangreindu tímabili:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 31. desember 2012: Sex mánuðir
Nettótekjur A 1.221.492
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 203.582
Nettótekjur B 1.000.498
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 166.750
Nettótekjur alls 2.221.990
Mánaðartekjur alls að meðaltali 370.332
Tímabilið 1. janúar 2013 til 31. desember2013: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.561.420
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 213.452
Nettótekjur B 2.551.194
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 212.600
Nettótekjur alls 5.112.614
Mánaðartekjur alls að meðaltali 426.051

Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. desember 2014: 12 mánuðir
Nettótekjur A 2.094.968
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 174.581
Nettótekjur B 3.229.006
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 269.084
Nettótekjur alls 5.323.974
Mánaðartekjur alls að meðaltali 443.665
Tímabilið 1. janúar 2015 til 30. nóvember 2015: Ellefu mánuðir
Nettótekjur A 2.017.085
Nettó mánaðartekjur A að meðaltali 183.371
Nettótekjur B 3.291.398
Nettó mánaðartekjur B að meðaltali 299.218
Nettótekjur alls 5.308.483
Mánaðartekjur alls að meðaltali 482.589
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.967.061
Nettó mánaðartekjur alls að meðaltali í greiðsluskjóli 438.221

Sé miðað við framfærslukostnað umboðsmanns skuldara og tekjur kærenda var greiðslugeta kærenda þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. júlí 2012 til 30. nóvember 2015: 41 mánuður
Nettótekjur alls í greiðsluskjóli 17.967.061
Bótagreiðslur 1.223.974
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 19.191.035
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 468.074
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns 407.134
Greiðslugeta kærenda á mánuði 60.940
Alls sparnaður í 41 mánuð í greiðsluskjóli x 60.940 2.498.540

Samkvæmt ofangreindu hefðu kærendur átt að geta lagt til hliðar 2.498.540 krónur á tímabilinu.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna stendur er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Kærendur hafa lagt fram 42 kvittanir vegna óvæntra útgjalda á tímabili greiðsluskjóls og er fjárhæð þeirra samtals 959.034 krónur. Þá hafa verið lagðar fram tvær millifærslukvittanir kæranda B til barnsmóður hans vegna [...], samtals að fjárhæð 135.000 krónur. Loks fluttu kærendur á tímabilinu, leigðu út íbúð sína og tóku annað húsnæð á leigu. Nemur sú fjárhæð sem þau greiddu í húsaleigu umfram húsaleigutekjur í heild 91.787 krónum. Alls eru þetta útgjöld að fjárhæð 1.185.821 króna. Kærendur hafa ekki sýnt fram á neinn sparnað.

Jafnvel þó að tekið yrði tillit til allra framangreindra útgjalda að fjárhæð 1.185.821 króna vantar enn 1.312.719 krónur (2.498.540 - 1.185.821) upp á sparnað kærenda.

Þegar umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var samþykkt fengu kærendur sérstakt upplýsingaskjal þar sem greint var frá skyldum skuldara í greiðsluskjóli í samræmi við 12. gr. lge. Þar á meðal var greint frá því að skuldurum bæri að leggja fyrir fé sem væri umfram það sem þau þyrftu til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Einnig fylgdi með skjal sem bar heitið „Umsókn vegna greiðsluaðlögunar. Almennar upplýsingar.“ Þar var meðal annars yfirlit yfir tekjur, framfærslukostnað og þá fjárhæð sem kærendur hefðu átt að hafa aflögu miðað við þáverandi forsendur. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að kærendum hafi mátt vera það ljóst, með vísan til framangreinds að þeim hafi borið skylda til þess samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Það hafa þau ekki gert í samræmi við þær skyldur sem á þeim hvíldu samkvæmt lagaákvæðinu sbr. framangreinda útreikninga.

Samkvæmt þessu fellst úrskurðarnefndin á þá niðurstöðu umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. á meðan þau nutu greiðsluskjóls.

Í ljósi alls þessa verður að líta svo á að umboðsmanni skuldara hafi borið samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.


ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum