Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Nr. 435/2018 - Úrskurður

Örorkumat

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 435/2018

Miðvikudaginn 27. febrúar 2019

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 5. desember 2018, kærði B félagsráðgjafi f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. september 2018 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins frá 7. september 2018 með rafrænni umsókn, móttekinni 7. september 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. september 2018, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 10. desember 2018. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 18. desember 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt umboðsmanni kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 19. desember 2018. Með bréfi, dags. 20. desember 2018, bárust athugasemdir frá umboðsmanni kæranda og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 2. janúar 2019. Með bréfi, dags. 17. janúar 2019, barst viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún send umboðsmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. janúar 2019. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að fá örorkulífeyri frá X 2017. Til vara er beðið um álit úrskurðarnefndar á því hvort að Tryggingastofnun sé óheimilt, vegna fyrirliggjandi 50% örorkumats, að samþykkja 75% örorkumat fyrir tímabilið X 2017 til X 2018 og svo endurhæfingarlífeyri eftir það á meðan vinnufærni kæranda skýrist.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi leitað aðstoðar hjá félagsráðgjafa á C í X 2018, nú umboðsmanni vegna þessa kærumáls, vegna óvinnufærni í kjölfar veikinda [...] sem hann hafi verið greindur með í X 2017. Í gegnum tíðina hafi kærandi starfað sem [...] en á þessum tíma hafi hann verið launalaus. Framfærsla kæranda séu [...].

Kæranda hafi verið ráðlagt að sækja um 75% örorkumat hjá Tryggingastofnun og lífeyrissjóði þar sem ljóst hafi verið að um langvarandi óvinnufærni væri að ræða. Sú ráðlegging hafi verið byggð á lögum nr. 100/2007, sbr. 1. mgr. b-lið, þar sem segi að rétt til örorkulífeyris eigi þeir sem metnir séu til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Umboðsmaður kæranda viti um fordæmi þess að Tryggingastofnun hafi túlkað orðalagið ,,til langframa” svo, að það geti átt við örorkumat (að lágmarki) í eitt ár. Kærandi hafi sótt um örorkumat frá greiningu, þ.e. frá X 2017, en heimilt sé að sækja um allt að tvö ár aftur í tímann og hafi framlagt læknisvottorð rökstutt afturvirkar greiðslur.

Í X 2018 hafi kæranda verið synjað um 75% örorkumat en samþykktur hafi verið örorkustyrkur frá X 2017 til X 2020. Í svari Tryggingastofnunar hafi komið fram að við matið hafi legið fyrir eftirtalin gögn: Umsókn, dags. X 2018, spurningalisti, dags. X 2018, læknisvottorð, dags. X 2018, og skoðunarskýrsla, dags. X 2018.

Forsendur matsins hafi verið að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði staðals um örorkulífeyri en að færni til almennra starfa hafi verið talin skert að hluta. Athygli sé vakin á því að þrátt fyrir ofangreind gögn virðist mat stofnunarinnar eingöngu hafa byggst á skoðunarskýrslu læknis sem hafi lagt fyrir staðal í spurnarformi. Tryggingastofnun sé þó heimilt að meta umsækjanda að minnsta kosti 75% öryrkja án þess að byggja á staðli, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999. Í 3. gr. reglugerðarinnar komi einnig fram að örorkumat sé unnið á grundvelli svara umsækjanda, læknisvottorðs og ef þurfa þykir læknisskoðunar hjá tryggingayfirlækni og öðrum gögnum sem tryggingayfirlæknir telji nauðsynlegt að afla.

Kærandi eigi fjölda göngudeildarkoma sem og innlagnir á C frá greiningu og ætla megi að hann hafi á þessum tíma (frá X 2017) verið í læknismeðferð sem hafi miðað að því að bæta heilsu hans fremur en að stuðla að aukinni vinnufærni. Á þessu tvennu sé munur, sbr. 7. gr. laga nr. 99/2007, en þar segi meðal annars að skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Þegar kærandi hafi sótt um örorkumatið hafi hann verið byrjaður í [...]. Hann hafi ekki verið vinnufær eins og komi fram í vottorði D, dags. X 2018. Í vottorði D, dags. X 2018, komi fram að kærandi hafi ekki getað stundað reglulega líkamsrækt eða vinnu frá því í X 2017 sem gæti bent til að hann hafi heldur ekki verið fær um að vera í starfsendurhæfingu.

Kærandi hafi ekki greint umboðsmanni frá ákvörðun Tryggingastofnunar fyrr en í X 2018. Umboðsmaður kæranda hafi þá haft samband við Tryggingastofnun símleiðis og hafi verið ráðlagt að senda inn beiðni um að fá málið tekið upp aftur. Þeirri beiðni hafi verið svarað með því að kærandi þyrfti að sækja aftur um en áður en til þess hafi komið hafi hann verið kallaður í [...]. Eftir heimkomu hafi kærandi sótt um örorkumat á ný en þá hafi umsókn hans verið synjað á þeim forsendum að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Þann 8. október 2018 hafi umboðsmaður kæranda sent erindi til F tryggingalæknis og beðið um að niðurstaðan yrði endurskoðuð. Erindið hafi verið ítrekað þann 31. október 2018. Í millitíðinni hafi umboðsmaður kæranda rætt við tryggingalækna í síma þar sem meðal annars hafi komið fram að tímabundið örorkumat væri óæskilegt þar sem að það fæli í sér hættu á að umsækjendur ,,festust á örorku”. Í erindi umboðsmanns kæranda frá 31. október sé því lagt til að kærandi myndi fá 75% örorkumat frá X 2017 til X 2018 og síðan endurhæfingarlífeyri eftir það á meðan betur skýrðist hver vinnufærni hans yrði eftir [...]. Með því móti hefði verið komið í veg fyrir að kærandi ,,festist á örorku” en um leið tekið tillit til þess að hann hafi verið alveg óvinnufær frá X 2017. Tillaga þessi hafi einnig verið í samræmi við að örorkumat sé næstum alltaf tímabundið og þegar það renni út beri að skoða stöðu umsækjanda upp á nýtt.

Ekki hafi borist formlegt svar við þessu erindi en í símtali við tryggingalækni í nóvember hafi meðal annars komið fram að samkvæmt áliti lögfræðinga Tryggingastofnunar væri ekki mögulegt að meta kæranda til 75% örorku fyrir umrætt tímabil þar sem að hann væri með 50% örorkumat í gildi til X 2020.

Hér komi á óvart að 2. mgr. 48. gr. laga nr. 100/2007 eigi ekki við en þar segi að ,,Eigi greiðsluþegi rétt á fleiri tegundum bóta en einni samkvæmt lögum þessum …  sem ekki geta farið saman skal greiða honum hærri eða hæstu bæturnar”. Sérkennilegt sé að túlkun laga geri ekki ráð fyrir að veikindaleg staða sjúklings geti breyst á þremur árum á þann hátt að hann ,,eigi rétt” eða uppfylli skilyrði til hærri bóta en örorkustyrks. Geri lögin ekki ráð fyrir því, sé þá réttlætanlegt að viðkomandi ,,festist “ á 50% örorku í þetta langan tíma? 

Í dag sé kærandi enn í þéttu eftirliti hjá D [lækni] og G hjúkrunarfræðingi á C og séu frekari læknisaðgerðir fyrirhugaðar.

Kærandi hafi verið greindur með langvarandi sjúkdóm í X 2017 og verði undir læknishendi allt sitt líf af þeim sökum, þrátt fyrir [...] þann X 2018. Honum hafi tvívegis verið synjað um 75% örorkumat hjá Tryggingastofnun þó læknisvottorð staðfesti óvinnufærni frá greiningu.

Í læknisvottorði D, dags. X 2018, sem barst úrskurðarnefnd þann X 2019, kemur fram að kærandi hafi greinst í X 2017 með [...] og hafi verið í eftirliti hjá honum síðan í X 2017. Kæranda hafi verið synjað um 75% örorku meðal annars á þeirri forsendu að endurhæfing hafi ekki verið fullreynd.

Strax við greiningu hafi kærandi farið í [...]. Það sé ljóst að endurhæfing hefði á engan hátt getað snúið við framangreindu ferli eða haft áhrif á starfsgetu kæranda. Þá sé það mat læknisins að kærandi hafi verið óvinnufær í kjölfar greiningar á [...].

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að kærð sé afgreiðsla stofnunarinnar á örorku. Ekki hafi verið talið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd. 

Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eigi þeir rétt á örorkulífeyri sem uppfylla tiltekin skilyrði. Þar segi:

„Rétt til örorkulífeyris eiga þeir sem hafa verið búsettir á Íslandi, eru á aldrinum 18-67 ára og

a)    hafa verið búsettir á Íslandi a.m.k. þrjú síðustu árin áður en umsókn er lögð fram eða í sex mánuði ef að starfsorka var óskert er þeir tóku hér búsetu,

b)    eru metnir til a.m.k. 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar.“

Þá segi í 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að Tryggingastofnun sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð segi meðal annars að heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18 til 67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil um allt að 18 mánuði ef sérstakar aðstæður séu fyrir hendi, sbr. 2. mgr.[7]. gr.

Mál þetta varði synjun Tryggingastofnunar á örorkumati. Ekki hafi verið talið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd. Í gögnum málsins komi fram að kærandi þjáist af [...] og hafi farið í  [...].

Kærandi hafi áður sótt um örorkulífeyri með umsókn X 2018. Skilyrði staðals um örorkulífeyri hafi ekki verið uppfyllt en kærandi hafi verið talinn uppfylla skilyrði til örorkustyrks með gildistíma frá X 2017 til X 2020. Kærandi hafi ekki fengið stig fyrir líkamlega þáttinn en átta stig fyrir andlega þáttinn. Kærandi hafi nú farið í [...] og sé talið að færni hans aukist eftir endurhæfingu, sbr. læknisvottorð dags. X 2018.

Orðalag 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar sé skýrt að því leyti að löggjafinn telji heimilt að setja það skilyrði að endurhæfing sé reynd áður en til mats á örorku komi. Mikilvægt sé að einstaklingar sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá. Endurhæfing sé metin út frá heilsufarsvanda hverju sinni.

Þeim heilsufarsvandamálum sem nefnd séu í læknisvottorði kæranda sé hægt að taka á með endurhæfingarúrræðum. Það verði því að teljast eðlilegt skilyrði að endurhæfing sé reynd áður en kærandi verði metinn til örorku. Endurhæfing geti verið margvísleg og til að mynda geti félagsþjónusta sveitarfélaga og þjónustumiðstöðva haldið utan um endurhæfingu einstaklinga og/eða sótt aðkeypt úrræði. Þess beri þó að geta að meta þurfi umfang og innihald endurhæfingar í hverju tilviki fyrir sig. Þá hafi stofnunin einnig tekið tillit til endurhæfingarúrræða á vegum heilsugæslustöðva um allt land ef innihald endurhæfingar sé fullnægjandi. Ekki verði ráðið af gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni en líkt og fram komi í læknisvottorði kæranda sé talið að færni aukist við endurhæfingu.

Ítarlega hafi verið farið yfir gögn málsins sem fylgi kæru. Út frá fyrirliggjandi gögnum, meðal annars læknisvottorði kæranda, sé það mat Tryggingastofnunar að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku að svo stöddu þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd. Í gögnum málsins segi að búast megi við að færni kæranda aukist eftir endurhæfingu og því mikilvægt að hann hljóti viðeigandi endurhæfingu á líkama og sál. Mikilvægt sé að einstaklingar, sem hugsanlega sé hægt að endurhæfa, fullnýti öll möguleg endurhæfingarúrræði, sem í boði séu við þeim heilsufarsvandamálum sem hrjái þá.

Tryggingastofnun telji ekki ástæðu til að meta kæranda í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat þar sem að um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Vísar hér Tryggingastofnun í úrskurð úrskurðarnefndar almannatrygginga nr. 147/2015.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. janúar 2019, segir að læknisvottorð, dags. 20. desember 2018, sem borist hafi gefi ekki tilefni til breytinga á ákvörðun stofnunarinnar.

Líkt og fram komi í fyrri greinargerð stofnunarinnar þá hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði staðals, sbr. skoðunarskýrslu, dags. X 2018, en hafi í þess stað fengið örorkustyrk frá X 2017 til X 2020. Tryggingastofnun hafi ekki talið ástæðu til að meta kæranda í samræmi við 4. gr. reglugerðar nr. 379/1999 um örorkumat þar sem að um undantekningarákvæði sé að ræða sem skýra verði þröngt samkvæmt almennum lögskýringarsjónarmiðum. Ekki sé í reglugerðinni sjálfri að finna leiðbeiningar um það hvenær ákvæðið eigi við en þar sem 18. gr. laga um almannatryggingar mæli fyrir um staðlað mat verði að gera mjög strangar kröfur við beitingu undantekningarákvæðisins. Úrskurðarnefnd velferðarmála hafi vísað til þess að heimilt sé að beita undantekningarákvæðinu sé líkamleg og andleg færni svo mikið skert að augljóst sé að viðkomandi uppfylli skilyrði staðals eða að fötlun hans verði jafnað til þess. Hér vísar Tryggingastofnun í úrskurð úrskurðarnefndar velferðarmála nr. 294/2017. Það sé mat Tryggingastofnunar að ákvæðið eigi ekki við í tilviki kæranda.

Líkt og fram komi í gögnum málsins sé kærandi þreklítill og orkulaus vegna [...]. Kærandi hafi farið í [...]. Kærandi hafi sótt aftur um örorkulífeyri með umsókn, dags. 7. september 2018. Í læknisvottorði, dags. X 2018, komi fram að talið sé að færni kæranda komi til með að aukast eftir endurhæfingu. Því telji stofnun mikilvægt að endurhæfing sé reynd.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. september 2018 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð D, dags. X 2018. Í vottorðinu kemur fram að sjúkdómsgreining kæranda sé „[...]“. Um heilsuvanda og færniskerðingu segir:

„Sjúkl. greindist X 2017 með [...]. Hefur haft fylgikvilla [...]. [...] og því hefur fylgt [...]. Einnig hefur hann greinst með [...]. Einnig hefur fylgt þessu [...] og þurft meðferð við því. Hann hefur að mestu verið óvinnufær frá því í X 2017 vegna þessa. Þurft endurteknar sjúkrahúslegur vegna þessa kvilla, nú síðast í X. […] Fór í [...]. Gekk vel.“

Samkvæmt vottorðinu hefur kærandi verið óvinnufær frá X 2017 en búast megi við að færni aukist eftir endurhæfingu. Í athugasemdum segir:

„Hefur nú undirgengist [...] en búast má við að hann verði óvinnufær í X mánuði á meðan hann er að ná sér“

Fyrir liggur einnig eldra læknisvottorð D, dags. X 2018, sem er að mestu samhljóða vottorði, dags. X 2018, fyrir utan að á þessum tímapunkti var kærandi [...]. Undir rekstri málsins var lagt fram bréf frá D lækni, dags. X 2018, þar sem segir frá ferli kæranda frá greiningu í X 2017 þar til að [...]. Þá segir meðal annars:

„Það er ljóst að endurhæfing hefði á engan hátt getað snúið við ofannefndu ferli eða haft áhrif á starfsgetu [kæranda]. Þá met ég það svo að hann hafi verið óvinnufær í kjölfar greiningar á [...].“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er Tryggingastofnun heimilt að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur.

Samkvæmt gögnum málsins býr kærandi við ýmis vandamál af líkamlegum og andlegum toga. Úrskurðarnefndin telur að ekki verði ráðið af læknisfræðilegum gögnum málsins að veikindi kæranda séu þess eðlis að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Fram kemur meðal annars í læknisvottorði D, dags. X 2018, að búast megi við að færni aukist eftir endurhæfingu. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á starfsendurhæfingu í tilviki kæranda áður en til nýs örorkumats kemur. Með vísan til þess, sem rakið hefur verið hér að framan, er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. september 2018, að synja umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 7. september 2018.

Í kæru er gerð krafa um greiðslur örorkulífeyris frá X 2017. Fyrir liggur að í gildi er ákvörðun Tryggingastofnunar frá 22. maí 2018 um að kærandi uppfylli skilyrði örorkustyrks fyrir tímabilið X 2017 til X 2020. Sú ákvörðun var ekki kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þá liggur fyrir að kærandi óskaði ekki eftir greiðslum aftur í tímann í umsókn um örorkulífeyri sem barst Tryggingastofnun 7. september 2018. Aftur á móti er ljóst að umboðsmaður kæranda óskaði eftir greiðslu örorkulífeyris aftur í tímann, þ.e. frá X 2017, með tölvupósti til Tryggingastofnunar 8. október 2018. Ekki verður ráðið af gögnum málsins að tekin hafi verið stjórnvaldsákvörðun vegna framangreindrar beiðni kæranda.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal nefndin úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt er fyrir um í lögum sem kveða á um málskot til nefndarinnar. Þannig er grundvöllur þess að unnt sé að leggja fram kæru til úrskurðarnefndar að fyrir liggi stjórnvaldsákvörðun. Þar sem engin stjórnvaldsákvörðun liggur fyrir frá Tryggingastofnun vegna beiðni kæranda um greiðslu örorkulífeyris aftur í tímann, þ.e. frá X 2017, er þeirri kröfu kæranda vísað frá.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur rétt að beina þeim tilmælum til Tryggingastofnunar ríkisins að afgreiða beiðni kæranda frá 8. október 2018 um greiðslu örorkulífeyris aftur í tímann, þ.e. frá X 2017.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. september 2018, um að synja umsókn A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá 7. september 2018, er staðfest. Kröfu kæranda um greiðslu örorkulífeyris frá X 2017 er vísað frá.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira