Hoppa yfir valmynd

Úrskurður nr. 500/2015

ÚRSKURÐUR ÚRSKURÐARNEFNDAR UM LEIÐRÉTTINGU VERÐTRYGGÐRA FASTEIGNAVEÐLÁNA

NR. 500/2015


Ár 2015, mánudaginn 14. september, er tekið fyrir mál nr. 498/2015; beiðni A, um endurupptöku úrskurðar nr. 135/2015. Í málinu úrskurða Eva Dís Pálmadóttir, Ingi Tryggvason og Kristján Jónasson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með bréfi, dags. 9. maí 2015, hefur kærandi farið fram á það að úrskurðarnefndin endurupptaki úrskurð sinn nr. 135/2015, sem kveðinn var upp 1. apríl 2015, í máli kæranda. Með úrskurðinum var kröfu kæranda um úrlausn þeim til handa þeim sem geta hvorki nýtt sér lækkun höfuðstóls fasteignaveðláns né sérstakan persónuafslátt vegna búsetu erlendis hafnað. Ákvörðun ríkisskattstjóra um að leiðréttingarfjárhæð kæranda myndaði sérstakan persónuafslátt, sbr. 12. gr. laga nr. 35/2014 um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána var staðfest.

Í beiðni kæranda um endurupptöku málsins kemur fram að kærandi telji að lög nr. 35/2014 brjóti í bága við 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Kærandi kveðst krefjast þess að lögin verði endurskoðuð til úrlausnar til handa þeim sem geti hvorki nýtt sér lækkun á höfuðstól fasteignaveðláns né sérstakan persónuafslátt. Með vísan til þess að allir skuli vera jafnir fyrir lögum án tillits til stöðu, þá telji kærandi að verið sé að brjóta á sér. Sem dæmi vilji hún nefna að hluta tímabilsins sem leiðréttingin nái til hafi hún ennþá verið í hjónabandi. Fyrrverandi eiginmaður hennar hafi tekið á móti sínum hluta leiðréttingar. En kæranda sé ekki gert það kleift þar sem hún sé búsett erlendis og geti hvorki nýtt sér sérstakan persónuafslátt né lækkun á verðtryggðu fasteignaláni þar sem hún hafi greitt upp öll slík lán áður en hún flutti frá Íslandi. Þar með telji kærandi að henni sé mismunað með tilliti til stöðu hvað varði búsetu.

Úrskurðarnefndin sendi kæranda erindi þann 24. ágúst 2015. Þar var vísað til fyrri úrskurðar í máli hennar. Upplýst var að sá úrskurður væri endanlegur á stjórnsýslustigi, sbr. 8. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014, en ágreining mætti bera undir dómstóla, enda hafi áður verið úrskurðað um hann af úrskurðarnefndinni. Tekið var fram að óljóst væri hvort skoða ætti beiðni kæranda sem beiðni um endurupptöku en ef hún hefði verið hugsuð sem slík væri meðfylgjandi erindinu áskorunarbréf vegna atriða sem þyrfti að bæta úr. Í áskorunarbréfinu var fjallað um skilyrði endurupptöku samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, nánar tiltekið að upphaflegur úrskurður úrskurðarnefndarinnar hafi byggt á röngum eða ófullnægjandi upplýsingum um málsatvik eða atvik hafi breyst verulega frá því hann var kveðinn upp. Var óskað eftir því að kærandi upplýsti nefndina ef svo væri innan viku frá dagsetningu erindisins. Kæranda var einnig bent á að kanna hvort upphafleg kæra, sem og þær viðbætur sem fram kæmu í erindi kæranda / endurupptökubeiðninni, fullnægðu þeim skilyrðum sem kveðið væri á um í 4. mgr. 14. gr. laga nr. 35/2014. Kæranda var síðan bent á að kröfugerð yrði að vera skýr. Að lokum var farið yfir þau atriði sem útreikningur leiðréttingarfjárhæðar byggist á. Kæranda var gefinn 7 daga frestur til að svara erindi úrskurðarnefndarinnar.

Kærandi svaraði erindi úrskurðarnefndarinnar þann 31. ágúst 2015 og kvaðst óska eftir endurupptöku með vísan til 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem fyrri ákvörðun hafi byggt á ófullnægjandi upplýsingum. Í fyrsta lagi krefst kærandi þess, með tilliti til aðstæðna hennar, að nefndin úrskurðaði um hvort framkvæmd leiðréttingar brjóti í bága við 65. gr. Stjórnarskrár lýðveldisins Íslands um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skuli njóta jafns réttar í hvívetna. Þegar litið sé til þess að fyrrverandi eiginmaður kæranda geti nýtt sér leiðréttinguna en ekki kærandi, þá telji hún sér vera mismunað vegna stöðu og búsetu. Kærandi vísaði til rökstuðnings sem sendur var í upphaflegri kæru hennar 14. febrúar 2015, sem og til rökstuðnings í endurupptökubeiðni hennar frá 9. maí. Í öðru lagi krefst kærandi þess að Alþingi semji viðauka við lög nr. 35/2014 sem heimili beina endurgreiðslu til þeirra sem geta hvorki nýtt sér lækkun á höfuðstól fasteignaveðláns né sérstakan persónuafslátt. Þessari endurgreiðslu mætti dreifa á allt endurgreiðslutímabilið. Í þriðja lagi krefst kærandi þess að endurgreiðsla fari fram með greiðslum á barnameðlagi og/eða öðrum fjárhagslegum skuldbindingum sem hún hafi á Íslandi, eins og til dæmis kreditkortaskuldum. Að lokum krefst kærandi þess, ef kæru hennar verði hafnað af úrskurðarnefnd, að henni verði vísað til dómstóla sbr. 14 gr. laga nr. 35/2014, þar sem segi að úrskurðir nefndarinnar skuli vera endanlegir á stjórnsýslustigi en ágreining um framkvæmd laganna megi bera undir dómstóla, enda hafi áður verið úrskurðað um hann af úrskurðarnefndinni. Kærandi sendi kaupsamning, lögskilnaðarleyfi og upplýsingar um  yfirtöku fasteignar með viðbótarrökstuðningnum.

                       

II.


Um endurupptöku fyrri úrskurða úrskurðarnefndarinnar fer samkvæmt 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þar kemur fram í 1. mgr. að eftir að stjórnvald hefur tekið ákvörðun og hún verið tilkynnt eigi aðili máls rétt á því að mál sé tekið til meðferðar á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða ef íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að eftir að þrír mánuður séu liðnir frá því að aðila var tilkynnt um ákvörðun skv. 1. tölul. 1. mgr., eða aðila var eða mátti vera kunnugt um breytingu á atvikum þeim sem ákvörðun skv. 2. tölul. 1. mgr. var byggð á, verði beiðni um endurupptöku máls þó ekki tekin til greina, nema að fengnu samþykki frá öðrum aðilum málsins. Mál verður ekki tekið upp að nýju ef ár er liðið frá fyrrgreindum tímamörkum nema veigamiklar ástæður mæli með því.

Mál þetta varðar beiðni kæranda um endurupptöku á úrskurði nr. 135/2015. Kæruefnið var sú ákvörðun ríkisskattstjóra að leiðréttingarfjárhæð kæranda myndaði sérstakan persónuafslátt. Með greindum úrskurði var kröfu kæranda hafnað.

Af hálfu kæranda hafa ekki verið lagðar fram nýjar upplýsingar um málsatvik, heldur eingöngu nýr rökstuðningur og ítarlegri kröfugerð. Því er ekki tilefni til endurupptöku á þeim grundvelli sem fram kemur í beiðni. Að gefnu tilefni er það áréttað við kæranda að úrskurðarnefndin mun ekki vísa máli hennar til dómstóla á grundvelli 14. gr. laga nr. 35/2014, enda er það á forræði kæranda að leita úrlausnar á ágreiningi fyrir dómstólum.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Endurupptökubeiðni kæranda er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum