Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 15/2017. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 21. júlí 2017

í máli nr. 15/2017:

RST net ehf.

gegn

Landsneti og

Orkuvirki ehf.

 Með kæru móttekinni 3. júlí 2017 kærir RST net ehf. útboð Landsnets (hér eftir vísað til sem „varnaraðila“) auðkennt „OLA-40 Substation Ólafsvík, new 66kV substation EPC“. Kærandi krefst þess að kærunefnd útboðsmála ógildi val varnaraðila á tilboði Orkuvirkis ehf. og að lagt verði fyrir varnaraðila að bjóða út verkið á ný. Til vara er þess krafist að nefndin veiti álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Í þessum þætti málsins tekur nefndin afstöðu til kröfu varnaraðila um afléttingu sjálfkrafa banns við samningsgerð samkvæmt 1. mgr. 107. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup, en úrlausn málsins bíður að öðru leyti endanlegs úrskurðar.

            Mál þetta lýtur að fyrrgreindu útboði sem auglýst var 22. desember 2016 þar sem varnaraðili bauð út hönnun og smíði nýs tengivirkis í Ólafsvík, ásamt útvegun og uppsetningu rafbúnaðar. Í útboðsgögnum kom fram að um samningskaup væri að ræða og að um útboðið gilti tilskipun Evrópusambandsins 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu („veitutilskipunin“) sem innleidd var í íslenskan rétt með reglugerð nr. 755/2007. Samkvæmt grein 1.1.6. voru frávikstilboð heimiluð. Í grein 1.5.5. í útboðsgögnum var valforsendum lýst með eftirfarandi hætti:

„The following sub-criteria will be used to form the basis of the evaluation:

Economy 70%

 Tender price

 Financial costs for different progress payments

 Maintenance costs

 Evaluation of other costs for Purchaser

Technical solution 20%

 Experience with offered solutions

 Compliance with the requirements

 Environmental impact

 Architectural appearance

Project management 10%

 Compliance with the Contracting Entity's time schedule,

     possibility for early delivery will be evaluated with higher ratings

 Project organization

 Project members experience (CVs)

 Repair preparedness and service agreement

 Quality Management System

 HSE Program“

Af gögnum málsins verður ráðið að kærandi hafi gert sex tilboð í upphafi í verkið en í kjölfarið verið boðið til samningaviðræðna við varnaraðila. Að loknum þeim samningaviðræðum hafi kærandi endurskoðað fyrri tilboð sín og samtals gert átta tilboð í verkið. Hinn 14. júní 2017 var kæranda tilkynnt að tilboð hans hefðu ekki verið valin til áframhaldandi samningaviðræðna. Með tölvupósti 22. júní 2017 var kæranda tilkynnt að varnaraðili hefði ákveðið að taka tilboði frá Orkuvirki ehf. í útboðinu og stefnt væri að því að skrifa undir samning við fyrirtækið að liðnum biðtíma hinn 4. júlí 2017.

Kröfur kæranda byggja að meginstefnu á því að valforsendur í útboðinu hafi verið ólögmætar og að mat varnaraðila á grundvelli valforsendna á hagstæðasta tilboði í útboðinu hafi verið rangt og ómálefnalegt. Þá hafi ekki verið upplýst á hvaða forsendum sjö af tilboðum hans hafi verið hafnað.

Niðurstaða

Eins og mál þetta liggur fyrir verður að miða við að um hið kærða útboð hafi gilt reglugerð nr. 755/2007 um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti, sem innleiddi tilskipun Evrópusambandsins nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu í íslenskan rétt („veitutilskipunin“).

Kaupendum í opinberum innkaupum er falið að ákveða hverju sinni hvernig þarfir þeirra verða best uppfylltar og hvaða forsendum skal byggja á við val á tilboðum. Svigrúmi kaupenda eru þó settar skorður er lúta að tilgreiningu valforsendna og mati á því hvernig tilboð falla best að valforsendum. Í útboðsgögnum skal tilgreina forsendur fyrir vali tilboðs eins nákvæmlega og framast er unnt og hlutfallslegt vægi þeirra eða röðun eftir mikilvægi og ákvörðun um val tilboða skal byggjast á þeim forsendum og þeim gögnum sem bjóðendur leggja fram um tilboð sitt. Þannig verða hendur þess sem tilboð velur að vera bundnar fyrir fram, í eins ríkum mæli og kostur er, við mat samkvæmt valforsendum. Gildir þetta jafnt um almennt útboð og endanlegt mat á tilboðum við samningskaup, sbr. 55. gr. veitutilskipunarinnar. Þá skal ákvörðun um val tilboðs vera rökstudd þannig að þátttakendur geti greint hvernig valforsendurnar leiddu til þess að tilteknu tilboði var tekið.

Í grein 1.5.5. í útboðsgögnum voru tilgreindar þrjár valforsendur sem greindust í nánari undirvalforsendur eins og áður hefur verið lýst. Hlutfallslegt vægi hverrar forsendu var tilgreint í útboðsgögnum en ekki vægi undirvalforsendna. Af gögnum málsins verður þó ráðið að hverri undirforsendu hafi verið gefið tiltekið vægi við mat tilboða og jafnframt að við mat á hverri undirvalforsendu hafi verið litið til tiltekinna matsþátta sem ekki voru tilgreindir í útboðsgögnum. Þá verður að telja að hluti undirvalforsendnanna og matsþættir þeim tengdum hafi verið almennt orðaðir og óljósir. Jafnframt verður ráðið af gögnum málsins að kærandi hafi lagt fram átta tilboð í útboðinu en einungis eitt þeirra hafi verið tekið til mats samkvæmt valforsendum útboðsgagna auk þess sem þremur tilboðum hafi verið hafnað þar sem þau uppfylltu ekki kröfur útboðsgagna. Ekki verður séð að bjóðendur hafi verið upplýstir um ástæður þessa. Eins og mál þetta liggur fyrir nú verður því að miða við að tilgreining valforsendna í útboðsgögnum og mat á tilboðum á grundvelli þeirra hafi ekki verið í samræmi við þær meginreglur um val tilboða sem að framan eru greindar. Verður því að miða við að kærandi hafi fært verulegar líkur fyrir broti á þeim reglum sem um útboðið giltu sem leitt geta til ógildingar á ákvörðun varnaraðila um val á tilboði, sbr. 2. mgr. 107. gr., sbr. 1. mgr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Ekki hafa verið færð fullnægjandi rök fyrir því að einka- eða almannahagsmunir séu svo ríkir að þeir réttlæti afléttingu stöðvunar í ljósi þessa. Verður því að hafna kröfu varnaraðila um að aflétta þeirri stöðvun samningsgerðar sem komst á með kæru í máli þessu. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn málsins úrskurðar kærunefndar.

Ákvörðunarorð:

Hafnað er kröfu varnaraðila, Landsnets, um að aflétta stöðvun samningsgerðar vegna útboðs fyrirtækisins auðkennt „OLA-40 Substation Ólafsvík, new 66kV substation EPC“.

                                                                                    Reykjavík, 21. júlí 2017

                                                                                    Stanley Pálsson

                                                                                    Sandra Baldvinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum