Hoppa yfir valmynd

Ragnheiður Þorgrímsdóttir kærir ákvörðun Matvælastofnunar um að synja því að draga til baka skýrslu stofnunarinnar varðandi veikindi hrossa á Kúludalsá

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur þann 4. ágúst 2017 kveðið upp svohljóðandi:

Ú R S K U R Ð

Stjórnsýslukæra

Með stjórnsýslukæru dags. 27. mars 2017 kærði Ragnheiður Þorgrímsdóttir, kt. 020750-7319, hér eftir nefnd kærandi, ákvörðun Matvælastofnunar, dags. 6. febrúar 2017, um að synja því að draga til baka skýrslu stofnunarinnar varðandi veikindi hrossa á Kúludalsá og fjarlægja gögn þar að lútandi af vef stofnunarinnar.

Kröfugerð

Kærandi gerir þá kröfu að ráðuneytið skyldi Matvælastofnun til að draga til baka skýrslu sína um veikindi hrossa á Kúludalsá, ásamt tengdum gögnum og fréttum af vef sínum og upplýsingaveitu, vegna rangra staðhæfinga sem þar er að finna. Skýrslan var birt á vef stofnunarinnar þann 18. apríl 2012. Þá bendir kærandi á að nýjar opinberar upplýsingar hafi borist sem gefi tilefni til að draga efnislega niðurstöðu skýrslunnar í efa.

Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sem segir að aðila máls sé heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum og venju. Kæran barst fyrir lok kærufrests samkvæmt 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga.

Málsatvik og málsmeðferð

Málið á sér langa forsögu en samkvæmt fyrirliggjandi gögnum voru málsatvik með eftirfarandi hætti:

Síðan árið 2007 hefur kærandi glímt við veikindi í hrossum á bæ sínum að Kúludalsá. Telur kærandi að veikindin séu afleiðing mengunarslyss sem hafi átt sér stað í álveri Norðuráls á Grundartanga þann 24. ágúst 2006, þar sem mikið magn flúors barst út í andrúmsloftið.

Kærandi sendi Matvælastofnun bréf árið 2009 og óskaði þess að fram færi opinber rannsókn vegna meintrar flúormengunar en Matvælastofnun sendi erindið áfram til Umhverfisstofnunar.

Kærandi sendi Matvælastofnun annað erindi þann 19. maí 2011, þar sem þess var óskað að yfirdýralæknir og læknir hrossasjúkdóma framkvæmi rannsókn á orsökum veikinda hrossa árin 2007-2011. Matvælastofnun samþykkti að fram skyldi fara almenn heilbrigðisskoðun á hrossunum með bréfi dags. 30. maí 2011. Kærandi taldi þörf á ítarlegri rannsókn á hrossunum og sendi Matvælastofnun erindi þess efnis, með tölvupósti þann 3. júní 2011 og bréfi dags. 4. júní 2011. Kærandi ítrekaði beiðnina þann 12. júní 2011 og taldi ljóst að svo takmörkuð athugun sem Matvælastofnun ætlaði að framkvæma yrði helst til þess fallin að draga rangar ályktanir.

Þann 24. júní 2011 afhenti kærandi þrjú hross til slátrunar í sláturhúsi á Hvammstanga til rannsókna. Var framkvæmd stórsæ skoðun á líffærum, röntgenskoðun á hófum og leggjum, mælingar á flúor í beinvef og mælingar á þungamálmunum blýi, kadmín og kvikasilfri í lifur.

Þann 22. ágúst 2011 mættu Sigríður Björnsdóttir sérgreinadýralæknir hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun og Vilhjálmur Svansson dýralæknir á tilraunastöð HÍ í meinafræði að Keldum og framkvæmdu heilbrigðisskoðun á hrossunum. Í kjölfarið gerðu þau skýrslu þar sem fram kom að veikindin væru talin stafa af efnaskiptaröskun í hrossum (EMS), sem orsakist fyrst og fremst af offitu og hreyfingarleysi. Töldu þau ástand hrossanna kalla á endurskoðun á hestahaldi á bænum. Kærandi telur skýrsluna byggða á ýmsum rangfærslum.

27. september 2011 var kæranda kynntar niðurstöður úr rannsóknum þar sem fram kom að rannsóknarniðurstöður gæfu ekki vísbendingu um að hrossin hefðu orðið fyrir flúoreitrun. Var tekið fram að niðurstöður sýna sem tekin voru úr kjálkabeini, lifur, nýrum og fitu hrossanna, lægju ekki fyrir.

Kærandi sendi þáverandi yfirdýralækni bréf dags. 3. október 2011 þar sem kærandi óskaði skýringa á hinni meinafræðilegu rannsókn, á því hvers vegna niðurstöður væru birtar áður en rannsóknum á sýnum væri alveg lokið og loks kom kærandi á framfæri leiðréttingum á efni skýrslu sérgreinadýralæknis hrossasjúkdóma. Taldi kærandi skýrsluna ekki standast skoðun, bæði vegna rangfærslna og vegna áhugaleysis dýralæknisins um umhverfi hestanna í stærra samhengi. Frá 29. janúar til 3. febrúar 2012 ganga nokkrir tölvupóstar milli aðila um sýnatökur. Endanlegar niðurstöður úr mælingum sýna voru sendar kæranda þann 19. mars 2012.

Þann 22. mars 2012 birti Matvælastofnun frétt á heimasíðu sinni með fyrirsögnina „Rannsókn á veikindum hrossa í nágrenni Grundartanga“. Sama dag sendi kærandi Matvælastofnun erindi þar sem svara var óskað um viðmiðunarmörk og hættumörk flúors í líffærum og hvernig heilsufar hrossa lýsir sér fari magn flúors yfir hættumörk. Kærandi óskaði þess að fá svör sem fyrst og fór fram á að frétt Matvælastofnunar um niðurstöður rannsóknarinnar, sem var birt sama dag, yrði fjarlægð af vef stofnunarinnar.

Matvælastofnun barst erindi frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, dags. 13. apríl 2012, þar sem óskað var eftir að stofnunin svaraði erindi kæranda frá 22. mars 2012.

Þann 18. apríl 2012 birti Matvælastofnun aðra frétt á heimasíðu sinni um veikindi hrossanna, en í þeirri frétt var vísað til þeirra gagna sem fyrir lágu í málinu og þau lögð fram sem ítarefni.

Þann 17. júlí 2012 svaraði Matvælastofnun erindi atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins frá 13. apríl 2012. Þar rekur Matvælastofnun niðurstöður sínar á rannsóknum á hrossum kæranda þess eðlis að orsakir veikindanna megi rekja til annarra þátta en mengunar. Bendir stofnununin á að kærandi hafi ekki lagt fram nein gögn til stuðnings fullyrðingum sínum um að orsakir sjúkdómanna megi rekja til mengunar.

Bréf Matvælastofnunar frá 29. nóvember 2012 svaraði fyrirspurn kæranda frá 22. mars 2012. Í bréfinu svaraði yfirdýralæknir að ekki væru til áreiðanlegar heimildir um viðmiðunarmörk eða hættumörk flúors í líffærum. Þá sagði að flúor safnist fyrst og fremst upp í hörðum vefjum, þ.e. beinum og tönnum. Ekki væri vitað til þess að hár styrkur flúors í nýrum, lifur og milta ylli sjúkdómum enda væri ekkert sem benti til þess að flúor safnaðist upp í þessum líffærum. Einkenni langvinnrar flúoreitrunar væri að finna í beinum og tönnum.

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið leitaði árið 2013 til Jakobs Kristinssonar prófessors og Sigurðar Sigurðarsonar dýralæknis til að rannsaka veikindi hesta á Kúludalsá og skiluðu þeir áfangaskýrslu í júní 2016. Skýrsluhöfundar komust að þeirri niðurstöðu að veikindi hrossanna minntu á EMS en þar hafi þó verið ákveðin frávik. Töldu þeir nær útilokað að þau mætti rekja til offóðrunar, hreyfingarleysis eða vankunnáttu í meðferð. Niðurstöður rannsókna á beinum úr hrossum á bænum sýndu fram á mikla flúormengun, en styrkur flúoríðs væri um fjórfaldur á við það sem fyndist í hrossum á ómenguðum svæðum. Þeir taka þó fram að nauðsynlegt sé að rannsaka afdrif flúoríðs í íslenskum hrossum til að komast nær réttri niðurstöðu.

Þann 9. júní 2016 setti Matvælastofnun frétt inn á heimasíðu sína þar sem skýrslan var birt ásamt athugasemdum stofnunarinnar við álit skýrsluhöfunda.

Kærandi sendi Matvælastofnun bréf dags. 11. júní 2016 vegna yfirlýsingar stofnunarinnar frá 9. júní og viðbrögð kæranda við henni. Þann 16. júní 2016 sendi Umhverfisstofnun beiðni til Matvælastofnunar þar sem m.a. var óskað formlegs álits stofnunarinnar á áfangaskýrslunni og vöktunaráætlun í Hvalfirði.

Matvælastofnun sendi kæranda bréf dags. 12. ágúst 2016, vegna áfangaskýrslunnar. Með bréfi dags. 24. ágúst 2016 fór kærandi fram á leiðréttingu á skýrslu Matvælastofnunar frá 2012 og krafðist þess að skýrslan yrði dregin til baka.

Matvælastofnun sendi erindi dags. 14. október 2016 til Umhverfisstofnunar þar sem fram kom álit stofnunarinnar á áfangaskýrslunni og mat á vöktunaráætlun í Hvalfirði.

Þann 28. október 2016 sendi kærandi Matvælastofnun bréf, þar sem fram kom að stofnunin hefði ekki heimild kæranda til að nota nokkuð sem hana snerti eða hestana á Kúludalsá, hvorki í upplýsingum, fræðslu, fréttum, tölfræðigögnum eða neinum öðrum gögnum sem stofnunin skráir, vinnur, birtir eða notar. Þá skoraði kærandi á stofnunina að birta öll gögn sem hún hefði um EMS á Íslandi.

Matvælastofnun svaraði fyrirspurn kæranda um EMS á Íslandi, með bréfi dags. 8. nóvember 2016.

Þann 15. desember 2016 svöruðu Jakob Kristinsson og Sigurður Sigurðarson athugasemdum Matvælastofnunar frá 9. Júní 2016, við áfangaskýrslu þeirra.

Matvælastofnun barst erindi frá Umboðsmanni Alþingis (UA) þann 27. janúar 2017, vegna málsmeðferðar og afgreiðslu stofnunarinnar á erindum kæranda vegna málsins.

Matvælastofnun svaraði erindi kæranda frá 24. ágúst 2016, og synjaði beiðni kæranda um að draga skýrsluna til baka og fjarlægja öll gögn um málið af vef stofnunarinnar. Þá upplýsti stofnunin UA um afgreiðslu málsins með bréfi dags. 7. febrúar 2017, en UA lokaði málinu með bréfi dags. 17. febrúar 2017.

Málsástæður og lagarök

Málsástæður og lagarök kæranda

Kærandi telur niðurstöður í áfangaskýrslu Jakobs Kristinssonar og Sigurðar Sigurðarsonar vera rökstudda ástæðu þess að véfengja niðurstöður Matvælastofnunar. Skýrsluhöfundar hafi komist að sínum niðurstöðum eftir að hafa fylgst vel með hrossunum og umhverfi þeirra í þrjú ár og rannsakað þau.

Kærandi telur rangfærslur vera í skýrslu Matvælastofnunar. Hún segir stofnunina hafa farið offari með framkomu sinni og verið með persónulegar aðdróttanir um orsakir veikinda hrossanna. Þá hafi tilraunir kæranda til að fá rangfærslur í skýrslunni leiðréttar, verið virtar að vettugi.

Kærandi telur Matvælastofnun gera lítið úr áhrifum flúors á hrossin, án þess að rannsaka slík áhrif. Fyrir hendi séu mælingar sem sýni að flúormagn sé fjórfalt meira í veiku hrossunum en í hrossum frá högum þar sem flúormengunar hefur ekki gætt. Matvælastofnun hafi ekki getað sýnt fram á að magn flúors í beinum hrossanna valdi þeim ekki tjóni, þrátt fyrir fullyrðingar þar um. Matvælastofnun hafi engar rannsóknir á hrossum, innlendum eða erlendum, til að styðjast við en láti tilgátur byggðar á mælingum í norskum dádýrum (jórturdýrum) duga.

Kærandi bendir á að rannsóknir á áhrifum flúors hafi sýnt að áhrif þess birtist á mismunandi hátt hjá ólíkum dýrategundum. Matvælastofnun geti ekki vikið sér undan því að stuðla að öflun nýrrar þekkingar, þó hún teljist eftirlitsstofnun.

Kærandi bendir á að Matvælastofnun hafi ekki neinar upplýsingar um útbreiðslu EMS á Íslandi og því sé ekki boðlegt að stofnunin haldi fram skýringu á veikindum hrossanna, án þess að geta stutt hana gögnum.

Kærandi gerir alvarlegar athugasemdir við umfjöllun Matvælastofnunar um umhverfisvöktunar vegna Grundartanga. Aldrei hafi verið gert loftdreifilíkan yfir Hvalfjörð vegna tilkomu iðjuveranna á Grundartanga. Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hafi ítrekað bent á gloppur í vöktuninni, einkum hvað varðar flúor. Ekki hafi náðst að koma á reglubundum mælingum á flúori í beinum hrossa sem ganga í högum nærri verksmiðjusvæðinu, þrátt fyrir margra ára baráttu. Engar mælingar hafi verið gerðar á umhverfisáhrifum mengunarslyssins í álverinu sem hafi átt sér stað árið 2006.

Kærandi gerir jafnframt athugasemd við fullyrðingu Matvælastofnunar um að starfsmenn stofnunarinnar hafi átt samtöl og fundi með kæranda þar sem farið hafi verið yfir málsatvik og niðurstöður rannsókna. Að mati kæranda hefur slíka fundi vantað. Matvælastofnun hafi aldrei haft frumkvæði að samtölum eða fundum við kæranda, né hafi verið gengið úr skugga um að rétt hafi verið haft eftir kæranda hvað varðar aðbúnað, aðstæður og notkun hrossanna. Þá hafi mikilvægum erindum kæranda ekki verið svarað sem hafi komið sér illa haustið 2011, en þá hafi enn verið hægt að lagfæra rangfærslur í skýrslu Matvælastofnunar og málið hefði þá ekki þurft að fara lengra. Þá hafi Matvælastofnun láðst að minnast á mikilvægan fund sem hafi átt sér stað þann 3. ágúst 2016 að beiðni kæranda. Þá hafi kærandi gert lokatilraun til að fá forstjóra Matvælastofnunar og yfirdýralækni til að horfast í augu við rangfærslur skýrslunnar og beðið um að skýrslan yrði afturkölluð á þeim grundvelli. Kærandi segir yfirdýralækni hafa brugðist hart við og neitað, þrátt fyrir að hafa áður afsakað sig og sagst ekki vera svo vel inni í þessum málum.

Kærandi segir fullyrðingar Matvælastofnunar um að aðrir dýralæknar hafi skoðað hrossin eftir 2008, ekki eiga við rök að styðjast. Stofnunin hafi ekki getað nafngreint meinta dýralækna, þrátt fyrir beiðni kæranda þess efnis.

Kærandi segir fullyrðingu Matvælastofnunar um að um fitu í makka hrossana sé að ræða ranga. Kærandi kveðst hafa bent dýralæknunum á að um bólgur eða bjúg væri að ræða sem væri á enni og ofan við nasir, í kverk og loks á skrokki, einkum á herðakömbun, bógum og lendum.

Kærandi bendir á að umrædd hross hafi ekki verið með almenn hófsperrueinkenni, eins og þeim sé lýst í fræðibókum. Á bænum séu veik hross sem þó hafi ekki sýnt merki um hófsperru.

Kærandi telur Matvælastofnun hafa notað stofnunarvald sitt til að birta opinberlega skýrslu um mál veiku hrossanna þar sem rangfærslur hafi verið settar fram og lagðar til grundvallar niðurstöðu stofnunarinnar og kærandi sögð heimildarmaður fyrir rangfærslunum. Þá hafi stofnunin gert nafn kæranda og persónulegar upplýsingar aðgengilegar hverjum sem er og sú stjórnvaldsákvörðun feli í sér mannorðsskerðingu og atlögu að starfsemi kæranda.


Málsástæður og lagarök

MatvælastofnunarMatvælastofnun ítrekar að sérfræðingar stofnunarinnar sem að málinu hafi komið, telja orsakir veikindanna, þ.e. hófsperru í hestunum, mega rekja til EMS. Þeir telji engar vísbendingar hafa komið fram sem benda til þess að flúormengun hafi valdið veikindunum. Þessar niðurstöður séu í samræmi við eldri skoðanir sjálfstætt starfandi dýralækna allt frá árinu 2007, meinafræðilegar rannsóknir á þremur hrossum frá bænum og aðskotaefnamælingar í hestunum.

Matvælastofnun bendir á að þegar stofnunin kom að málinu að beiðni kæranda, hafi legið fyrir lýsingar um sjúkdómseinkenni og ástand hrossa á bænum. Þá hafi legið fyrir flúormælingar og upplýsingar um greiningar sjálfstætt starfandi dýralækna og til hvaða meðferðarúrræða hafi áður verið gripið.

Sigríður Björnsdóttir og Vilhjálmur Svansson framkvæmdu klíníska skoðun á hrossunum þann 22. ágúst 2011 þar sem hefðbundinni aðferðafræði var beitt, þannig að fyrst hafi bakgrunnsupplýsingar verið skráðar og síðan hafi hver og einn hestur verið skoðaður, holdastigaður og gerð sérstök skoðun á fitusöfnun í makka. Skoðunin hafi leitt í ljós töluverða og upp í mikla staðbundna fitusöfnun í makka, sem bendi til röskunar á efnaskiptum hrossanna, eða EMS. Mörg hrossanna hafi einnig verið með einhver einkenni hófsperru, ýmist væg einkenni eða krónískar breytingar. Engin önnur sjúkdómseinkenni hafi sést á hrossunum.

Matvælastofnun bendir á að skoðunarmennirnir séu dýralæknar með mikla þekkingu og reynslu við skoðun og mat á hestum og greiningar á sjúkdómum þeirra. Mat þeirra hafi fyrst og fremst byggst á klínískri skoðun á hrossunum. Þá hafi meinafræðilegar rannsóknir verið gerðar á þremur hrossum sem kærandi valdi sjálf eftir að hafa metið það svo að þau bæru greinileg merki umrædds sjúkdóms og því vel fallnir til sýnatöku. Meinafræðilegar rannsóknir hafi leitt í ljós þykkildi í makka og hófsperru á mismunandi stigum, sem benti til EMS. Ekkert í niðurstöðunum hafi gefið til kynna að hrossin hefðu orðið fyrir flúormengun. Niðurstöður greininga á flúormagni í beinvef og sýni úr lifur, nýrum og fitu hestanna, hafi ekki gefið til kynna eitrun af völdum flúors eða þungmálma (aðskotaefna).

Matvælastofnun bendir á að í áfangaskýrslu Jakobs Kristinssonar og Sigurðar Sigurðarsonar, segi að 50% hrossanna eigi við veikindi að stríða vegna efnaskiptaröskunar sem líkist mjög EMS. Skýrsluhöfundar komist þó að þeirri niðurstöðu að líklegt sé að veikindi hrossana megi rekja til flúormengunar. Sérfræðingar Matvælastofnunar hafi farið yfir áfangaskýrsluna og telji niðurstöðu sína um að hrossin þjáist af EMS staðfesta og ekkert bendi til annars en að offita, staðbundin fitusöfnun og hreyfingarleysi, auk erfðafræðilegra þátta, séu orsökin. Enginn munur hafi greinst í blóði hrossa á Kúludalsá samanborið við jafngömul hross í Mosfellsbæ. Óvarlegt sé að draga ályktanir um flúormengun á bænum út frá mælingum á styrk flúoríðs í kjálkabeinum hrossa þar sem ófullnægjandi upplýsingar liggi fyrir um aldur hrossanna sem mælingar voru gerðar á, hvorki á Kúludalsá né í viðmiðunarhópnum. Gildin sem mældust á bænum séu sambærileg við það sem mælst hafi í beinum fullorðins sauðfjár á öðrum bæjum sem ekki hafi orðið fyrir flúormengun. Fullyrðing skýrsluhöfunda um að rannsóknir sýni marktæka fylgni milli EMS og styrks flúoríðs í blóði hestanna, standist ekki. Vikið hafi verið frá faglegum og vísindalegum vinnubrögðum við úrvinnslu gagna og engar heimildir séu fyrir því að slíkt samband hafi fundist í mönnum.

Hvað umhverfisvöktun og umhverfismælingar í umhverfi Grundartanga varðar, bendir Matvælastofnun á að rekstraraðili skuli standa fyrir eða taka þátt í vöktun á helstu umhverfisþáttum í nágrenni álversins. Þær mælingar séu gerðar samkvæmt áætlun sem álverið leggi fyrir Umhverfisstofnun til yfirferðar og samþykktar. Þá sé árlega tekin saman skýrsla um niðurstöður umhverfisvöktunarinnar og á grundvelli þessara gagna liggi fyrir upplýsingar um mengun á svæðinu. Ekki hafi komið fram niðurstöður sem styðji að veikindin megi rekja til mengunar.

Matvælastofnun bendir á 5. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr, hvað upplýsingagjöf varðar. Samkvæmt ákvæðinu skal Matvælastofnun m.a. annast skipulagningu, gagnaöflun og skýrslugerð varðandi dýrasjúkdóma, auk þess að hafa yfirumsjón með sjúkdómavörnum dýra, forvörnum og fræðslustarfi varðandi búfjársjúkdóma.

Þá bendir stofnunin á að í 13. gr. upplýsingalaga segi að stjórnvöld skuli veita almenningi upplýsingar um starfsemi sína, s.s. með samantektum um mikilvæg verkefni eða útgáfu annarra gagna. Skuli gæta þess við birtingu, að þær gangi ekki gegn einka- eða almannahagsmunum.

Upphaflega fréttin hafi lýst rannsóknum og niðurstöðum þeirra. Auk þess var upplýst með almennum hætti um EMS, afleiðingar þess og meðhöndlun, sem lið í fræðslu til hestaeigenda.

Í kjölfar mikillar opinberrar umfjöllunar um veikindi hestanna og ummæla kæranda um Matvælastofnun og störf hennar taldi stofnunin rétt að bregðast við og birti samantekt sína, ásamt öðrum gögnum til þess að almenningur og þeir sem málið varðaði gætu áttað sig á stöðu þess. Stofnunin taldi upplýsingarnar og birtingu þeirra ekki þess eðlis að þær brytu gegn réttindum kæranda eða persónuvernd, þar sem ekki væri um viðkvæmar persónulegar upplýsingar að ræða.

Matvælastofnun telur stofnunina hafa haft ákveðnum skyldum að gegna gagnvart almenningi og öðrum búfjáreigendum, að upplýsa um orsök veikindanna í samræmi við 14. gr. laga nr. 66/1998 um dýralækna og heilbrigðisþjónustu við dýr.

Matvælastofnun taldi birtingu upplýsinga um málið hafa verið óhjákvæmilega og rétta, bæði vegna skorts á fullnægjandi upplýsingum og vegna ómálefnalegrar gagnrýni á opinberum vettvangi um mál er varðar almannahagsmun og meintar afleiðingar mengunarslyss.

Stofnunin telur grunnkröfur 7. gr. persónuverndarlaga hafa verið uppfylltar. Gögnin hafi verið komin til samkvæmt beiðni kæranda og fengin í gegnum vísindalegt og faglegt ferli sem miðaði að því að upplýsa orsakir veikindi hrossanna. Upplýsingarnar eigi erindi við alla hestaeigendur og almenning.

Matvælastofnun mótmælir því að álit stofnunarinnar sé byggt á rangfærslum um aðstæður, aðbúnað og notkun hestanna eða að skoðun á þeim hafi verið ófullnægjandi og að ekki liggi fyrir nægjanlegar mælingar á sýnum úr hestunum frá bænum. Ekkert hafi enn komið fram sem bendi til að flúormengun hafi valdið veikindum eða skaða í búfé á svæðinu, hvorki við skoðun eða rannsóknir á hestum á Kúludalsá eða í öðru búfé í nágrenni iðnaðarsvæðisins á Grundartanga.

Loks bendir Matvælastofnun á að hún telji niðurstöðu stofnunarinnar á orsökum veikindanna ekki vera stjórnsýsluákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993, heldur faglegt mat dýralækna sem skoðuðu veikindin og að matið sé byggt á þeim skoðunum og rannsóknum. Því geti síðari afskipti stofnunarinnar af málinu ekki verið stjórnsýsluákvörðun í skilningi laganna og þar af leiðandi hafi ekki verið leiðbeint um kærurétt skv. 20. gr. laganna.

Niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins

Líkt og að ofan greinir hefur mál þetta langan aðdraganda og málsaðilar eru ósammála um orsök veikinda hrossanna á Kúludalsá. Í stjórnsýslukæru þessari fer kærandi fram á að Matvælastofnun verði gert að fjarlægja skýrslu sína um hross hennar, ásamt tengdum gögnum og fréttum af vef sínum og upplýsingaveitu, enda hafi nýjar upplýsingar komið fram sem gefi tilefni til að draga efnislegar niðurstöður Matvælastofnunar í efa. Um hvort áfangaskýrsla Jakobs Kristinssonar og Sigurðar Sigurðarsonar hreki niðurstöður sérfræðinga Matvælastofnunar eða ekki, verður því ekki úr skorið hér.

Kæra í máli þessu er byggð á 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar segir: „Aðila máls er heimilt að kæra stjórnvaldsákvörðun til æðra stjórnvalds til þess að fá hana fellda úr gildi eða henni breytt nema annað leiði af lögum eða venju“. Það telst stjórnvaldsákvörðun þegar stjórnvald kveður einhliða á um rétt og/eða skyldu tiltekins aðila í ákveðnu máli í skjóli stjórnsýsluvalds síns. Í stjórnvaldsákvörðunum er með bindandi hætti kveðið á um rétt og skyldur aðila í fyrirliggjandi máli. Því er gerður greinarmunur á stjórnvaldsákvörðunum og athöfnum og öðrum ákvörðunum stjórnvalda. Matvælastofnun synjaði kæranda um að fjarlægja fréttir og aðrar upplýsingar af vef sínum. Skýrslan sem um ræðir og fréttir stofnunarinnar byggja á, er samantekt vegna athugunar sem starfsfólk stofnunarinnar framkvæmdi og upplýsingar um tiltekinn sjúkdóm í tengslum við þá athugun.

Ákvörðun Matvælastofnunar um að birta gögnin og síðar synja beiðni kæranda um að fjarlægja efnið kveða hvorki á um rétt né skyldur kæranda. Gögnin sem um ræðir byggja á athugunum starfsfólks stofnunarinnar og birting skýrslna, frétta og upplýsinga er liður í starfsemi stofnunarinnar og hluti af lögbundnu hlutverki hennar, sbr. 5. gr. laga nr. 66/1998.

Með vísan til framangreinds telur ráðuneytið því að synjun Matvælastofnunar á að fjarlægja umrædda skýrslu og fréttir tengdar henni, sé ekki stjórnvaldsákvörðun á grundvelli ákvæða stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Af því leiðir að synjunin er ekki kæranleg til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins skv. 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Stjórnsýslukæru Ragnheiðar Þorgrímsdóttur, kt. 020750-7319, vegna synjunar Matvælastofnunar dags. 6. febrúar 2017, á að fjarlægja skýrslu sína um hross kæranda ásamt tengdum gögnum og fréttum af heimasíðu sinni, er vísað frá.

Fyrir hönd sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherraÓlafur Friðriksson Birgitta Kristjánsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum