Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 145/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 145/2017

Miðvikudaginn 19. júlí 2017

A

gegn

skipuðum umsjónarmanni B

ÚRSKURÐUR

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 12. apríl 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, sem tilkynnt var með bréfi 17. mars 2017. Í ákvörðuninni mælir umsjónarmaður gegn því að nauðasamningur samkvæmt 18. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) komist á.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 22. ágúst 2016 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Umsjónarmaður var skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum kæranda sama dag. Nýr umsjónarmaður var skipaður 23. febrúar 2017. Kröfum alls að fjárhæð 2.612.114 krónum var lýst en þekktum kröfum að fjárhæð 7.286.811 krónur var ekki lýst. Samkvæmt því námu skuldir kæranda 9.898.925 krónum. Umsjónarmaður sendi frumvarp til kröfuhafa 23. nóvember 2016. Umsjónarmaður lagði til að greiðsluaðlögunartímabil yrði 12 mánuðir og að 100% samningskrafna yrðu gefnar eftir að þeim tíma liðnum. Landsbankinn andmælti frumvarpinu í kjölfarið og benti á að kærandi fengi greiðslur frá fyrrverandi maka inn á bankareikning sinn. Af þeim sökum taldi bankinn kæranda geta greitt hærra hlutfall af þeim skuldum sem hún hefði stofnað til og því ætti að leggja til minni eftirgjöf krafna.

Þegar óskað var skýringa hjá kæranda greindi hún frá því að hún hefði fengið óreglulegar greiðslur frá fyrrverandi eiginmanni sínum, C. Samkvæmt fjárskiptasamningi sem þau hafi gert við skilnað hefði C átt að greiða kæranda 100.000 krónur á mánuði. Hann hafi hætt að greiða samkvæmt samningnum og væri það meðal annars ástæða greiðsluerfiðleika kæranda.

Í tölvupóstsamskiptum fyrri umsjónarmanns og kæranda kom eftirfarandi fram: „Komi til greiðslna frá C skv. fjárskiptasamningi er áréttað að þér ber að leggja þá fjármuni til hliðar.“ Í framangreindum tölvupóstsamskiptum hafi umsjónarmaður óskað eftir upplýsingum um það hversu háar fjárhæðir kærandi hefði fengið greiddar frá fyrrverandi eiginmanni sínum frá þeim tíma er frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hófst 22. ágúst 2016, og þá hvort hún hefði lagt þá fjármuni fyrir. Umsjónarmanni barst greinargerð frá kæranda 19. desember 2016. Þar kom fram að kærandi hefði fengið greiddar 165.400 krónur í október og nóvember 2016 sem ætlað hafi verið að greiða upp vanskil á íþróttagjöldum hjá [barn] þeirra. Engin gögn hefðu verið lögð fram þessu til staðfestingar. Umsjónarmaður hafi þá óskað eftir reikningsyfirlitum yfir bankareikninga kæranda vegna tímabilisins 11. janúar 2016 til 30. desember 2016. Samkvæmt þessum yfirlitum hafi fyrrum eiginmaður kæranda greitt henni 825.000 krónur á árinu 2016. Fjöldi innborgana hafi þó verið mismunandi á milli mánaða. Kærandi hafi fengið greiddar 348.000 krónur eftir að greiðsluskjól hófst.

Í tölvupósti umsjónarmanns til kæranda 23. janúar 2017 komi fram að þegar tekið væri mið af þeim innborgunum sem kærandi hefði fengið í greiðsluskjóli, hefði mánaðarleg greiðslugeta hennar aukist um 69.900 krónur og alls verið 86.076 krónur. Þess hafi verið óskað að kærandi gerði frekari grein fyrir ástæðum þess að hún hefði ekki lagt neina fjármuni til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Á fundi kæranda og umsjónarmanns 13. febrúar 2017 hafi kærandi greint frá því að hún teldi sér ekki skylt að greina umsjónarmanni frá nefndum greiðslum fyrrverandi eiginmanns hennar þar sem þær hefðu ekki numið þeim fjárhæðum sem fjárskiptasamningur þeirra hafi kveðið á um. Þá hefði hún heldur ekki getað treyst á greiðslurnar. Kærandi kvaðst ekki hafa haft tök á því að leggja þessa fjármuni fyrir. Hún hafi veitt þær skýringar að peningarnir hefðu farið í að greiða ökutíma fyrir [barn] hennar, uppgreiðslu á vanskilum vegna tómstunda og bílaviðgerð. Umsjónarmaður hafi bent kæranda á að hún yrði að sýna fram á greiðslukvittanir. Á fundinum hafi einnig komið fram að kærandi hefði ekki getað greitt húsaleigu janúarmánaðar 2017 og hún teldi tekjur sínar ekki duga fyrir mánaðarlegum framfærslukostnaði. Umsjónarmaður hafi þá bent kæranda á að miðað við fyrirliggjandi gögn um tekjur og kostnað vegna framfærslu reiknaðist mánaðarleg greiðslugeta hennar jákvæð.

Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 1. mars 2017 þar sem hún hafi verið upplýst um að umsjónarmaður teldi ekki unnt að halda áfram samningaviðræðum við kröfuhafa. Kæranda hafi verið veitt færi á því að lýsa því yfir við umsjónarmann að hún vildi leita nauðasamnings samkvæmt 18. gr. lge. Kærandi hafi í framhaldi þess lýst því yfir í tölvupósti 6. mars 2017 að hún vildi leita nauðasamnings. Samdægurs hafi umsjónarmaður sent kæranda tölvupóst þar sem farið hafi verið yfir framfærslukostnað hennar og tekjur. Þá hafi verið óskað eftir því að kærandi færi yfir þessar upplýsingar, léti umsjónarmann vita ef þær væru ekki réttar en legði ella fram gögn sem sýndu fram á annað. Með tölvupósti til umsjónarmanns 13. mars 2017 hafi kærandi upplýst að hún hefði yfirfarið framfærslutölur og virtust þær að mestu leyti réttar. Hún hafi þó þurft að greiða aukin útgjöld á tímabilinu og óskað væri eftir því að tekið yrði tillit til þess.

Umsjónarmaður tilkynnti kæranda með bréfi 17. mars 2017 ákvörðun sína um að mæla gegn nauðasamningi til greiðsluaðlögunar á grundvelli 18. gr. lge.

II. Sjónarmið skipaðs umsjónarmanns

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að við mat á því hvort mælt sé með því að nauðasamningur til greiðsluaðlögunar komist á samkvæmt 18. gr. lge. beri meðal annars að líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram í öndverðu sem hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. lge. og hvort skuldari hafi að öðru leyti staðið heiðarlega við greiðsluaðlögunarumleitanir. Þá beri umsjónarmanni einnig að líta til þess hvort raunhæft sé að skuldari muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafi umleitanir til sín taka.

Kærandi sé X ára gömul einstæð móðir X barna og hún búi í félagslegu leiguhúsnæði. Hún sé menntaður [...] og vinni sem [...] í 90% starfshlutfalli. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum nemi heildarskuldir kæranda 9.931.956 krónum en þar af falli 6.333.692 krónur utan greiðsluaðlögunar, sbr. g-lið 3. mgr. lge.

Samkvæmt 12. gr. lge. beri skuldara að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana. Umsókn kæranda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt 22. ágúst 2016. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana sé því frá september 2016 til og með febrúar 2017. Tekjur kæranda á þessu tímabili hafi verið eftirfarandi:

Tekjur í greiðsluskjóli
september október nóvember desember janúar febrúar
D 232.069 248.977 222.088 286.106 286.106 287.006
Barnabætur 135.507 133.397
Meðlag 58.938 58.938 58.938 58.938 63.358 63.358
Húsaleigubætur 21.000 21.000 21.000 21.000 21.000 46.771
Mæðralaun 5.363 5.363 5.363 5.363 9.171 9.171
Greiðslur frá fyrrum maka 103.000 80.000 115.000 50.000
Endurgreiðsla frá Tollstjóra 135.562 65.199
Endurgr. frá D 43.355
Samtals 420.370 685.347 530.943 421.407 379.635 539.703

Upplýsingar um tekjur kæranda byggi á staðgreiðsluskrá og upplýsingum frá ríkisskattstjóra, álagningarseðli 2016, tekjuáætlun Tryggingastofnunar, upplýsingum frá Vinnumálastofnun og færsluyfirlitum sem kærandi hafi lagt fram.

Áætlaður framfærslukostnaður kæranda sé 403.344 krónur á mánuði samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara fyrir október 2016 fyrir einstakling með X börn á framfæri. Einnig sé tekið tillit til upplýsinga frá kæranda og gert ráð fyrir svigrúmi að fjárhæð 20.000 krónur á mánuði til að koma til móts við aukinn lækniskostnað. Miðað við þetta hafi greiðslugeta kæranda í greiðsluskjóli verið eftirfarandi:

Greiðslugeta í greiðsluskjóli
Tekjur Framfærslu- Greiðslugeta
kostnaður
september 420.370 403.344 17.026
október 685.347 403.344 282.003
nóvember 530.943 403.344 127.599
desember 421.407 403.344 18.063
janúar 379.635 403.344 -23.709
febrúar 539.703 403.344 136.359
Samtals Samtals 557.341

Kærandi hafi orðið að greiða óvænt útgjöld í greiðsluskjóli. Þau útgjöld sem unnt sé að taka tillit til við mat á því hversu mikla fjármuni kæranda bar að leggja til hliðar á tímabilinu séu eftirfarandi: Bifreiðaviðgerð að fjárhæð 91.505 krónur samkvæmt framlögðum reikningi 1. febrúar 2017, vanskilakostnaður reikninga á tímabilinu september 2016 til febrúar 2017 að fjárhæð 85.272 krónur og greiðslur til LÍN á tímabilinu alls að fjárhæð 50.821 króna. Alls nemi þessar greiðslur 227.598 krónum. Samkvæmt því hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 329.743 krónur á tímabilinu (557.341 - 227.598). Sparnaður kæranda sé enginn.

Með vísan til þessa er það mat umsjónarmanns að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 12. gr. lge. þar sem hún hafi ekki lagt til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem hafi verið umfram það sem hún hafi þurft til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða á tímabili greiðsluaðlögunarumleitana.

Í málinu liggi fyrir að kærandi eigi að fá greiddar 100.000 krónur á mánuði frá fyrrum maka sínum samkvæmt fjárskiptasamningi á milli þeirra. Að sögn kæranda hætti hún að fá greiðslurnar og sé það meðal annars ástæða greiðsluerfiðleika hennar. Kærandi hafi ekki upplýst umsjónarmann um þær greiðslur sem henni hafi borist frá fyrrum maka. Umsjónarmaður hafi sent kæranda tölvupóst 22. ágúst 2016 en þar hafi meðal annars komið fram að mikilvægt væri að kærandi upplýsti umsjónarmann ef breytingar yrðu á tekjum hennar. Þar hafi verið áréttað að bærust kæranda greiðslur frá fyrrum maka sínum samkvæmt fjárskiptasamningi, skyldi hún leggja þá fjármuni til hliðar. Kæranda hafi því átt að vera ljóst að henni bæri að upplýsa umsjónarmann um greiðslurnar og leggja þær til hliðar. Eftir að innköllunarfresti lauk hafi umsjónarmaður hafið vinnslu frumvarps til samnings um greiðsluaðlögun fyrir kæranda. Þar hafi ekki verið gert ráð fyrir neinum greiðslum frá fyrrum maka. Á fundi kæranda og umsjónarmanns 2. nóvember 2016 hafi kærandi engar athugasemdir gert við frumvarpið. Á þeim tíma hafði hún fengið greiddar 183.000 krónur frá fyrrum maka í greiðsluskjóli. Með vísan til þessa sé það mat umsjónarmanns að kærandi hafi ekki staðið heiðarlega að verki við umtleitanir til greiðsluaðlögunar.

Loks beri umsjónarmanni að líta til framkominna andmæla kröfuhafa. Landsbankinn hafi hafnað frumvarpi til samnings um greiðsluaðlögun þar sem lagt hafi verið til að eftirgjöf samningskrafna yrði 100% í lok greiðsluaðlögunartímabils. Kærandi hafi lagt fram skýringar og gögn vegna athugasemda bankans. Þegar umsjónarmaður hafi lagt mat á skýringar og gögn kæranda hafi hann ekki talið tækt að halda samningaviðræðum við kröfuhafa áfram. Því hafi legið fyrir að samningur um greiðsluaðlögun myndi ekki nást.

Með hliðsjón af framangreindu hafi umsjónarmaður ekki séð sér annað fært en að mæla gegn nauðsamningi til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge.

III. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki kröfur í málinu en kveðst leggja kæru sína fram í þeirri von að málefnaleg niðurstaða fáist í mál hennar. Þetta verður að skilja þannig að kærandi krefjist þess að ákvörðun skipaðs umsjónarmanns verði felld úr gildi.

Kærandi vísar til þess að á árinu X hafi hún skilið við maka sinn til Xára. Við skilnaðinn hafi fallið á hana skattskuldbindingar fyrrum maka sem stofnað var til á meðan á hjónabandi þeirra stóð. Einnig hafi fallið á kæranda ógreiddar skuldir sem þau hjón höfðu stofnað til í sameiningu. Þær skuldir sem féllu á kæranda við skilnaðinn hafi orðið til þess að hún lenti í vanskilum. Sökum þessa hafi kærandi og fyrrum maki hennar gert fjárskiptasamning við skilnaðinn um að hann myndi greiða kæranda 100.000 krónur á mánuði. Fyrrum maki kæranda hafi efnt samkomulagið bæði seint og illa. Þegar kærandi sótti um greiðsluaðlögun hafi hún upplýst umboðsmann skuldara um þessar greiðslur og afhent fyrrgreindan fjárskiptasamning. Umboðsmaður hafi því verið upplýstur um þessar greiðslur. Fjallað sé um þær í frumvarpi til kröfuhafa þar sem segi orðrétt: „Við skilnaðinn gerðu skuldari og fyrrum sambýlismaður hennar (innskot: leiðréttist hér eiginmaður hennar) samkomulag um að hann myndi aðstoða hana við uppgreiðslu á skuldum. Að sögn skuldara greiddi hann í nokkur skipti en hefur að öðru leyti ekki staðið við samkomulagið.“

Í synjun umsjónarmanns segi: „Skuldari veitti þær útskýringar að hún teldi sér ekki skylt að greina umsjónarmanni frá umræddum greiðslum fyrrverandi eiginmanns hennar...“. Þetta sé ekki rétt, því hún hafi talið sig þegar hafa greint umsjónarmanni frá umræddu greiðslusamkomulagi. Kærandi telur sig hafa komið fram af heiðarleika í hvívetna en sökum alvarlegrar fjárhagsstöðu sinnar og aðstæðna hafi henni ekki dottið í hug að stefna greiðsluaðlögunarferlinu í hættu. Sökum fjárhagserfiðleika fyrrum eiginmanns kæranda hafi í upphafi verið litlar líkur á að samkomulagið yrði efnt að fullu og hafi kærandi vitað að hún gæti ekki treyst á greiðslur frá honum. Því hafi verið óráðlegt að gera ráð fyrir þeim í tekjuhlið frumvarps til greiðsluaðlögunarsamnings, enda þótt umsjónarmaður nefndi samkomulagið í frumvarpinu.

Umsjónarmaður telji að kærandi hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. um að leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hún þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Tekjur kæranda hafi reynst hærri en hún hafði áætlað í umsókn sinni. Það megi rekja til greiðslna frá fyrrum eiginmanni, barnabóta, mæðralauna, endurgreiðslna frá Tollstjóra og húsaleigubóta. Þessar greiðslur hafi alls reynst 557.341 krónu hærri en frumvarp til greiðsluaðlögunarsamnings hafi gert ráð fyrir.

Ákvörðun umsjónarmanns sé tekin í mars 2017 en byggi þó ekki á öllu því tímabili sem kærandi hafi notið greiðsluskjóls þar sem marsmánuði sé sleppt. Í þeim mánuði hafi tekið að halla verulega á fjárhag kæranda. Í töflunni hér fyrir neðan komi fram greiðslugeta kæranda í greiðsluskjóli að marsmánuði 2017 meðtöldum. Kærandi hafi sannarlega verið í greiðsluskjóli á þeim tíma og því hafi umsjónarmanni borið að taka tillit til marsmánaðar:

Hér sjáist að uppsöfnuð jákvæð greiðslugeta kæranda hafi verið 525.640 krónur fyrir allt tímabilið í stað 557.341 króna eins og umsjónarmaður telji.

Mikill og ófyrirséður kostnaður hafi fallið á kæranda á tímabilinu. Kærandi hafi greitt hann svo sem sjá megi í heimabanka hennar. Um sé að ræða eftirfarandi kostnað:

· Vanskila- og innheimtukostnaður að fjárhæð 103.316 krónur vegna krafna tengdum heimilisrekstri.

· Rafræn skuldfærsla LÍN á meðan skuldari var í skjóli að fjárhæð 50.821 króna.

· Samskiptakostnaður (sími, net, sjónvarp).

· Skólagjöld og bókakaup fyrir [barn] kæranda í [skóla], alls 34.571 króna í desember og janúar 2016.

· Bifreiðaviðgerðir á X ára gamalli bifreið kæranda, alls 116.501 króna í nóvember 2016 og febrúar 2017, auk 5.000 króna í mars 2017.

· Tryggingagjöld umfram framfærsluviðmið 115.223 krónur allt tímabilið.

· Hraðasekt 10.000 krónur í X 2017.

Alls hafi útgjöld umfram framfærsluviðmið verið 496.419 krónur á tímabilinu að marsmánuði meðtöldum. Mismunur á greiðslugetu og greiðslubyrði sé 29.221 króna eða 4.174 krónur þegar honum sé dreift niður á tímabil greiðsluskjóls samkvæmt þeim gögnum sem umboðsmaður skuldara hafði greiðan aðgang að, sjá hér fyrir neðan:

Allar ofangreindar greiðslur megi rekja í fyrirliggjandi gögnum, meðal annars í reikningsyfirliti kæranda. Þeir stóru kostnaðarliðir sem gerð sé grein fyrir séu hærri en framfærsluviðmið umboðsmanns en þetta séu kostnaðarliðir sem kærandi hafi greitt á tímabili greiðsluskjóls. Ofan á þann kostnað sem talinn sé upp að ofan hafi einnig fallið til annar kostnaður, svo sem tannlæknakostnaður, skóviðgerðir o.fl. sem kunni að einhverju leyti að falla undir framfærsluviðmið kæranda. Ljóst sé að lítið sem ekkert megi út af bregða til að fjárhagur kæranda fái neikvæð formerki og að illmögulegt reynist fyrir hana að ná jafnvægi á ný.

Kærandi telur sig hafa hlotið óbilgjarna meðhöndlun af hálfu embættis umboðsmanns skuldara. Hún standi ein undir heimilisrekstri þar sem hún hafi í tæp tvö ár reynt eftir fremsta megni að ná fjárhagslegu jafnvægi. Ljóst sé að tekjur kæranda, hvort sem þær falli innan eða utan „bótamánaða“ dugi ekki til að standa skil á skuldum.

Kærandi gerir jafnframt athugasemdir við vinnubrögð fyrri umsjónarmanns síns í málinu.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns byggist á 18. gr. lge. Í 1. mgr. lagagreinarinnar er kveðið á um að hafi samningur um greiðsluaðlögun samkvæmt ákvæðum IV. kafla laganna ekki tekist þá geti skuldari lýst því yfir við umsjónarmann að hann vilji leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Við mat umsjónarmanns á því hvort mælt sé með því að samningur komist á skal umsjónarmaður meðal annars líta til þess hvort nokkuð hafi komið fram sem í öndverðu hefði átt að standa í vegi greiðsluaðlögunar, hvort skuldari leiti eftirgjafar umfram það sem eðlilegt megi telja í ljósi fjárhags hans og framtíðarhorfa, hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laganna og staðið að öðru leyti heiðarlega að verki við umleitanir til greiðsluaðlögunar, hvort raunhæft sé að hann muni geta staðið við skuldbindingar sínar að fenginni greiðsluaðlögun og hvert sé viðhorf þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka.

Í ákvörðun umsjónarmanns kemur fram að mæla verði gegn því að nauðasamningur komist á vegna þess að kærandi hafi ekki sinnt skyldu sinni um að leggja fé til hliðar í greiðsluskjóli samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Auk þess hafi kærandi ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir þar sem hún hafi ekki upplýst umsjónarmann um greiðslur sem henni hafi borist frá fyrrum maka sínum. Loks hafi andmæli Landsbankans leitt í ljós að samningur um greiðsluaðlögun myndi ekki takast.

Í a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. kemur fram að á meðan skuldari leitar greiðsluaðlögunar skuli hann leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Umsjónarmaður gerði frumvarp að greiðsluaðlögunarsamningi 23. nóvember 2016. Reiknuð greiðslugeta kæranda var 16.746 krónur á mánuði. Í frumvarpinu segir: „Fjárhagserfiðleika skuldara má rekja til skilnaðar um miðbik ársins [X]. Í kjölfarið þurfti skuldari að standa ein undir framfærslu sinni og barna sinna. Við skilnaðinn gerðu skuldari og fyrrum sambýlismaður hennar samkomulag um að hann myndi aðstoða hana við uppgreiðslu á skuldum. Að sögn skuldara greiddi hann í nokkur skipti en hefur að öðru leyti ekki staðið við samkomulagið. Hættu endar að ná saman og duga tekjur skuldara ekki fyrir mánaðarlegri framfærslu og greiðslu skulda. Þá var skuldari m.a. kominn í skuld við D vegna vangoldinnar húsaleigu og dagvistunar, gerði hún greiðslusamkomulag við bæinn til uppgreiðslu á kröfunni. Jafnframt var skuldari með greiðslusamkomulag við Tollstjóraembættið til uppgreiðslu vangoldinna opinberra gjalda. Undanfarna mánuði hefur því verið dregið af tekjum skuldara til greiðslu á framangreindum kröfum. Hefur greiðslugeta skuldara því verið neikvæð.“

Eins og áður hefur komið fram var umsókn kæranda um greiðsluaðlögun samþykkt 22. ágúst 2016. Málinu lauk með ákvörðun skipaðs umsjónarmanns 17. mars 2017. Umsjónarmaður telur réttaráhrif greiðsluskjóls kæranda hafa staðið yfir á tímabilinu 1. september 2016 til 28. febrúar 2017. Þannig hafi réttaráhrif greiðsluskjólsins hafist næstu mánaðarmót eftir að umsókn var samþykkt og lokið næstu mánaðarmótum áður en umsjónarmaður tók hina kærðu ákvörðun. Þetta er í samræmi við málsmeðferð greiðsluaðlögunarmála frá öndverðu. Það er skoðun kæranda að miða hefði átt við tímabilið út mars 2017 þar sem fjárhagur hennar hafi verið orðinn verri í mars en í febrúar en í mars hafi greiðslugeta hennar verið neikvæð um 31.701 krónu.

Mikilvægt er að samræmis sé gætt við meðferð mála að þessu leyti sem öðru. Málsmeðferð verður að standast jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar þannig að mál sem eru sambærileg í lagalegu tilliti hljóti sams konar úrlausn. Með vísan til þessa eru að mati úrskurðarnefndarinnar engin rök til að víkja frá því verklagi sem umboðsmaður skuldara hefur viðhaft að þessu leyti.

Við mat á því hvaða fjárhæð kæranda bar að leggja til hliðar af launum sínum á tímabili frestunar greiðslna, eða í svokölluðu greiðsluskjóli, skal samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Greiðsluskjól kæranda hefur staðið yfir frá 22. ágúst 2016 til 17. mars 2017. Sé miðað við fyrirliggjandi yfirlit úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra fyrir tímabilið 1. september 2016 til 28. febrúar 2017 voru tekjur kæranda, bætur og framfærslukostnaður á framangreindu sex mánaða tímabili greiðsluskjóls eftirfarandi:

Laun 1.823.069
Mæðralaun 33.001
Meðlagsgreiðslur 362.468
Barnabætur sept.-des. 2016 181.571
Húsaleigubætur 177.542
Endurgreiðslur frá Tollstjóra 116.533
Greiðslur frá fyrrum maka 348.000
Samtals 3.042.184

Til ráðstöfunar hafði kærandi neðangreinda fjárhæð:

Tekjur o.fl. sept. 2016 til feb. 2017 3.042.184
Framfærslukostnaður * -2.447.532
Reiknaður sparnaður 594.652

*Samkvæmt frumvarpi til greiðsluaðlögunarsamnings.

Samkvæmt þessu hefði sparnaður kæranda á tímabilinu 1. september 2016 til 28. febrúar 2017 átt að nema 594.652 krónum.

Kærandi kveðst hafa orðið að greiða óvænt úgjöld á tímabilinu. Þar á meðal tiltekur hún vanskila- og innheimtukostnað að fjárhæð 103.316 krónur vegna krafna tengdum heimilisrekstri. Þessum kostnaði til staðfestingar leggur kærandi fram yfirlit bankareiknings í hennar eigu þar sem úttektir af honum eru í 63 tilvikum merktar „kostnaður“. Virðist það í tengslum við greiðslu á ýmsum reikningum svo sem orkuveitureikningum, áskriftarreikningum, símareikningum o.þ.h. Kærandi hefur ekki lagt fram gögn eða kvittanir er sýna hvort um er að ræða hefðbundinn bankakostnað við innheimtu, svo sem seðilgjald, eða kostnað vegna vanskila svo sem dráttarvexti eða milliinnheimtugjald. Úrskurðarnefndin telur því að kærandi hafi ekki sýnt fram á að fyrir hendi sé óvæntur kostnaður í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og verður því ekki tekið tillit til þessa kostnaðar við útreikning á sparnaði kæranda.

Kærandi kveðst hafa orðið fyrir óvæntum útgjöldum vegna samskiptakostnaðar. Einnig hafi hún þurft að greiða útgjöld vegna skólagöngu [barns síns] [...] að fjárhæð 34.571 króna. Þá hafi hún þurft að leggja út fyrir bílaviðgerðum að fjárhæð 116.501 króna í nóvember 2016 og febrúar 2017, auk 5.000 króna í mars 2017. Enn fremur hafi kostnaður hennar við tryggingar verið 115.223 krónur umfram framfærsluviðmið allt tímabilið. Þar að auki hafi hún orðið að greiða hraðasekt að fjárhæð 10.000 krónur í febrúar 2017.

Í þeim framfærslukostnaði sem umboðsmaður skuldara reiknaði út fyrir kæranda var gert ráð fyrir að mánaðarlegur samskiptakostnaður væri 16.072 krónur á mánuði eða alls 96.432 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Kærandi hefur ekki sýnt fram á að samskiptakostnaður hennar hafi verið hærri en það. Við útreikning á sparnaði kæranda verður því ekki miðað við að samskiptakostnaður hennari hafi verið hærri en framfærsluviðmið geri ráð fyrir.

Kærandi kveðst hafa orðið fyrir kostnaði vegna skólagjalda og bókakaupa fyrir [barns síns]. Af gögnum málsins má ráða að hún greiddi [skólanum] 19.500 krónur 13. desember 2016. Að mati úrskurðarnefndarinnar ber að taka tillit til þessa kostnaðar við útreikning á sparnaði.

Kærandi telur að hún hafi greitt 115.223 krónur í tryggingar umfram framfærsluviðmið á tímabilinu. Í málinu hefur kærandi lagt fram greiðsluseðil frá tryggingafélagi þar sem fram kemur að hún greiði mánaðarlega 12.083 krónur vegna ökutækjatryggingar. Sé það yfirfært á sex mánaða tímabil greiðsluskjóls nemur fjárhæð bifreiðatrygginga 72.498 krónum (12.083 * 6) á tímabilinu. Tekið er tillit til ökutækjatrygginga í framfærslukostnaði umboðsmanns skuldara undir liðnum “„rekstur bíls“ að fjárhæð 50.347 krónur á mánuði, þ.e. 302.082 krónur á tímabilinu (50.347 * 6), sbr. fyrirliggjandi frumvarp umsjónarmanns.Telst þessi kostnaður þannig ekki hærri en framfærsluviðmið gera ráð fyrir.

Kærandi hefur lagt fram yfirlýsingu frá [...] um að greiddar hafi verið 150.573 krónur fyrir [...] [barn] hennar á tímabilinu september til nóvember 2016. Í yfirlýsingunni kemur ekki fram hver innti greiðslurnar af hendi. Þessar greiðslur koma heldur ekki fram á reikningsyfirliti yfir bankareikning kæranda og fyrirliggjandi gögn sýna ekki fram á að hún hafi greitt þennan kostnað. Í þeim framfærslukostnaði sem umboðsmaður skuldara reiknaði út fyrir kæranda var gert ráð fyrir að mánaðarlegur kostnaður vegna tómstunda væri 33.501 króna á mánuði eða 201.006 krónur á tímabili greiðsluskjóls. Jafnvel þó að kærandi hafi greitt þennan kostnað var hann innan framfærsluviðmiða kæranda og getur því ekki talist fela í sér óvænt útgjöld.

Í málinu liggur fyrir reikningur 1. febrúar 2017 að fjárhæð 91.501 króna vegna viðgerðar á bifreið kæranda. Sá kostnaður telst ófyrirséður í skilningi a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. og verður því tekið tillit til hans við útreikning á sparnaði kæranda. Engin gögn liggja fyrir um aðrar bifreiðaviðgerðir og er því ekki unnt að taka tillit til þeirra.

Samkvæmt framangreindu teljast eftirfarandi útgjöld til óvæntra en nauðsynlegra útgjalda kæranda í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.:

Viðgerð á bíl 1.2.2017 91.501
Skólagjöld [barns]30.12.2016 19.500
Samtals 111.001

Þessi útgjöld dragast því frá við útreikning á sparnaði. Einnig telur kærandi að draga eigi frá reiknuðum sparnaði greiðslur hennar til LÍN á tímabili greiðsluskjóls að fjárhæð 50.821 króna. Á þetta fellst úrskurðarnefndin, enda bar kæranda að standa í skilum með þær greiðslur samkvæmt g-lið 1. mgr. 3. gr. lge.

Samkvæmt ofangreindu hefði sparnaður kæranda á tímabilinu átt að vera þessi í krónum:

Greiðslugeta 594.652
Óvænt útgjöld -111.001
Greiðslur til LÍN -50.821
Reiknaður sparnaður 432.830

Af framlögðu reikningsyfirliti yfir bankareikning kæranda má sjá að hún átti 55.199 krónur inni á reikningnum 10. mars 2017. Skortir því 377.631 krónu upp á sparnað kæranda (432.830 - 55.199).

Eins og sjá má af töflu að framan er greinir tekjur kæranda á tímabili greiðsluskjóls voru tekjur frá fyrrum maka hennar á tímabilinu 348.000 krónur eða um það bil sú fjárhæð sem kæranda skortir upp á sparnað sinn í greiðsluskjólinu.

Í tölvupósti sem umsjónarmaður sendi kæranda 22. ágúst 2016, er hún hafði fengið samþykkta greiðsluaðlögun, segir meðal annars: „Komi til greiðslna frá C samkvæmt fjárskiptasamningi er áréttað að þér ber að leggja þá fjármuni til hliðar.“ Þessu sinnti kærandi ekki og þar með verður að telja að hún hafi ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umsjónarmaður telur að kærandi hafi ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir. Umsjónarmaður hafi greint kæranda frá því að bærust henni greiðslur frá fyrrum maka samkvæmt fjárskiptasamningi, skyldi hún leggja þá fjármuni til hliðar og upplýsa umsjónarmann um þær. Fram hefur komið að á fundi kæranda og umsjónarmanns 2. nóvember 2016 hafi kærandi ekki upplýst um þær greiðslur sem henni höfðu þá borist í greiðsluskjólinu að fjárhæð 183.000 krónur.

Að mati úrskurðarnefndarinnar verður framangreind háttsemi kæranda ekki að öllu leyti lögð að jöfnu við að hún hafi ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir. Miðað við það sem fram kom í ofangreindum tölvupósti umsjónarmanns hefði verið nægilegt að kærandi hefði lagt þessa fjármuni til hliðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. án þess að hún upplýsti sérstaklega um að þeir væru til komnir vegna samkomulagsins, enda var á þeim tíma tiltölulega stutt liðið á greiðsluaðlögunarumleitanir. Ekki verður því fallist á það með umsjónarmanni að kærandi hafi að þessu leyti ekki staðið heiðarlega að verki við greiðsluaðlögunarumleitanir.

Við úrlausn málsins ber loks að taka tillit til sjónarmiða þeirra lánardrottna sem látið hafa umleitanir til greiðsluaðlögunar til sín taka. Samkvæmt gögnum málsins hafnaði Landsbankinn drögum að frumvarpi til greiðsluaðlögunar fyrir kæranda. Mótmælin byggðust á því að launagreiðslur kæranda auk greiðslna frá fyrrverandi maka væru að meðaltali 450.000 krónur á mánuði, væri miðað við meðaltal síðastliðins árs. Þá lagði bankinn til að 70% samningskrafna yrðu gefnar eftir í stað 100% sem framangreind drög gerðu ráð fyrir. Kærandi svaraði athugasemdum bankans á þá leið að þessar upplýsingar væru rangar. Verður að skilja þetta svo að hún vildi ekki semja um 70% eftirgjöf samningskrafna. Því var ljóst að greiðsluaðlögunarsamningur myndi ekki takast fyrir kæranda.

Samkvæmt því sem að framan er rakið eru ekki forsendur til að mæla með nauðasamningi til greiðsluaðlögunar, sbr. 2. mgr. 18. gr. lge. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun umsjónarmanns staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun skipaðs umsjónarmanns, B, um að mæla gegn því að nauðasamningur komist á í máli A, er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum