Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 466/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 466/2017

Miðvikudaginn 14. mars 2018

Dánarbú A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 16. desember 2017, kærðu B og C, f.h. dánarbús A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Tryggingastofnunar ríkisins frá 15. nóvember 2017 á umsókn kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 27. júlí 2016, var A tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2015 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. A lést X 2016 og tók þá kærandi við öllum réttindum og skyldum hans. Með umsókn til Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. júní 2017, sótti kærandi um niðurfellingu ofgreiðslukröfu með bréfi til Tryggingastofnunar. Með bréfi stofnunarinnar, dags. 5. október 2017, var kæranda tilkynnt um að endurreikningur og uppgjör tekjutengdra greiðslna fyrir árið 2016 hafi leitt í ljós ofgreiðslu bóta að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 15. nóvember 2017, synjaði Tryggingastofnun ríkisins beiðni kæranda um niðurfellingu ofgreiðslukröfu á þeim grundvelli að krafan væri réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðar um alveg sérstakar ástæður væru ekki talin vera fyrir hendi.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 16. desember 2017. Með bréfi, dags. 18. desember 2017, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Greinargerð stofnunarinnar barst með bréfi, dags. 18. janúar 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. janúar 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi, dags. 1. febrúar 2018, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargreinargerð barst frá Tryggingastofnun ríkisins með bréfi, dags. 12. febrúar 2018, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 14. febrúar 2018. Athugasemdir bárust frá kæranda með ódagsettu bréfi, mótteknu 21. febrúar 2018, og voru þær sendar Tryggingastofnun ríkisins til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir kröfu um að innheimtukrafa Tryggingastofnunar ríkisins verði felld niður.

Í kæru segir að systkinin B og C hafi leitað til Tryggingastofnunar ríkisins og óskað eftir því að krafa á hendur kæranda yrði felld niður í ljósi sérstakra ástæðna. Því hafi verið synjað. Sé það mat systkinanna að það hafi verið gert á ófullnægjandi forsendum. Að mati þeirra falli þau hiklaust undir skilgreininguna „sérstakar aðstæður“ í ljósi þess að þau séu bæði námsmenn í fullu námi og vinni lítið sem ekkert nema á sumrin. B sé til dæmis án atvinnu og lifi á námslánum.

Í synjun Tryggingastofnunar sé vísað til 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags. Í ákvæðinu segi:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Hvorki sé að finna í reglugerðinni skilgreiningu á sérstökum aðstæðum né hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til þess að falla undir „sérstakar aðstæður“. Að mati systkinanna sé þetta ófullnægjandi. Telji þau sig hiklaust falla undir sérstakar aðstæður. Dánarbúið hafi verið stórskuldugt og hafi þau þurft að leggja út aura til að greiða skuldir þess.

Spurt hvað falli eiginlega þar undir ef námsmenn á unga aldri, krakkar sem séu í leit að bjartri framtíð, stundi nám í háskólum landsins, vinni lítið sem ekkert, hafi enga fjármuni á milli handanna og lendi í þeirri hræðilegu lífsreynslu [...], falli ekki undir sérstakar aðstæður. Þegar B hafi haft samband við Tryggingastofnun fyrr á árinu og óskað eftir upplýsingum um hvers vegna stofnunin hafi óskað eftir frekari gögnum, meðal annars skattframtölum þeirra systkinanna, þá hafi svarið einfaldlega verið að verið væri að kanna greiðslugetu og hvort hún væri til staðar. B vinni aðeins á sumrin, taki námslán til að halda sér uppi og gangandi á veturna. Spurt er hvernig í ósköpunum eigi hann að geta greitt eina einustu krónu mánaðarlega þegar námslánin dugi varla til að lifa mannsæmandi lífi. Sem dæmi hafi tekjur hans á þessu ári fyrir skatt verið um X kr. Það geri einfaldlega X kr. á mánuði. Ef X kr. sé að mati Tryggingastofnunar talið vera nægjanlegt til að halda sér gangandi á hverjum mánuði og greiða niður ofgreiðslukröfu þurfi stofnunin augljóslega að endurskoða mat sitt.

Áfallið hafi orðið systkinunum erfið þraut að komast í gegnum. Hafi það meðal annars orðið til þess að þeim hafi seinkað í námi. Þetta hafi verið erfitt og þau oft og tíðum við það að gefast upp. Ekki síst þar sem faðir þeirra hafi skilið eftir sig skuldir. Skuldir sem þau sem námsmenn þurfi að takast á við og greiða. Nýlega hafi skatturinn komið með kröfu upp á rúmar X kr. Þetta sé krafa sem þeim beri að greiða og engar undantekningar séu þar á. Þau eigi þetta ekki til. Þau þurfi að taka bankalán til að greiða skattaskuld föður þeirra. Þetta sé bara lítill hluti þess sem greiða þurfi.

Systkinin viti að Tryggingastofnun hafi, oftar en einu sinni og oftar en tvisvar sinnum, fellt niður slíkar kröfur sem stofnast hafi á hendur dánarbúum. Það sé þeim systkinunum meira íþyngjandi að þurfa að greiða umrædda skuld en að hún sé felld niður. Þau séu námsmenn í leit að góðri framtíð, en því miður hafi andlát föður þeirra haft í för með sér peningaáhyggjur, tafir í skóla, fleiri skuldir og erfiði í daglegu lífi sem kosti sitt. Sálfræðitími sé ekki ókeypis og hvað þá fyrir fólk sem lifi á sumarstarfi sínu og framfærslu frá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þeim finnist ósanngjarnt, þegar slíkt sé í boði og þau viti af slíkum málum þar sem felldar hafi verið niður bætur, að skella skuldinni frekar á þau en að láta hana niður falla.

Systkinin biðli til úrskurðarnefndar að komast að sanngjörnustu niðurstöðu sem völ sé á. Þau séu aðeins ungir einstaklingar og þetta geti haft slæm áhrif á líf þeirra og framtíð. Þau séu ekki hátekjufólk.

Í athugasemdum kæranda frá 1. febrúar 2018 segir að erfingjar A heitins, fyrir hönd dánarbúsins, fari áfram fram á að krafa Tryggingastofnunar á hendur dánarbúinu verði felld niður. Rökstuðningur þeirra sé eftirfarandi.

Krafan sé til staðar og því hafi ekki verið andmælt. Ekki sé deilt um kröfuna sem slíka eða hvernig hún hafi orðið til. Deilt sé um niðurfellingu á kröfunni. Ekki sé því þörf að rekja í löngu máli hvernig krafan hafi orðið til eða hvort hún sé yfir höfuð til staðar.

Í fyrsta lagi sé það mat systkinanna að ekki sé sanngjarnt að blanda inn eigum þeirra sem erfingjum, eigum sem tengist dánarbúinu ekki neitt og hafi orðið til löngu áður en faðir þeirra féll frá, við mat á því hvort samþykkja eða hafna eigi niðurfellingu kröfunnar.

B hafi átt samtal við starfsmann Tryggingastofnunar ríkisins seint á árinu 2017. Samtalið hafi komið til vegna óskar stofnunarinnar um að fá í hendur skattframtöl systkinanna. Svar starfsmannsins hafi verið á þá leið að með því að óska eftir skattframtölum væri stofnunin að kanna hvort borgunarmaður væri fyrir greiðslunum. Hafi skattframtölin því verið afhent stofnuninni.

Hér beri að skoða hvaða skilgreiningu leggja beri í hugtakið „borgunarmaður“. Leggja megi þá skilgreiningu í hugtakið að um sé að ræða aðila er hafi peninga á milli handanna til að greiða skuldina niður á einhverjum tíma. Þarna sé um að ræða aðila sem fái inn mánaðarlegar tekjur og geti nýtt hluta launa sinna á hverjum mánuði í að greiða kröfuna niður. Þetta sé það almenna úrræði sem Tryggingastofnun bjóði fólki upp á við niðurgreiðslu á ofgreiddum bótum eða öðrum greiðslum. Það sé mat þeirra að þau sem námsmenn, annað án vinnu og hitt í lítilli vinnu, falli engan veginn að skilgreiningunni „borgunarmaður“. Það sé afar íþyngjandi úrræði fyrir unga námsmenn á uppleið að þurfa að greiða slíka kröfu og leita úrræða með því að veðsetja eða selja eignir sínar sem til séu og hafi verið til áður en A heitinn féll frá.

Taka eigi til greina hver staða þeirra í mánaðarlegri greiðslubyrði sé nú í dag en ekki hvernig hún hafi verið samkvæmt fyrra skattframtali. Hvernig eigi atvinnulausir námsmenn að geta skipt niður kröfu Tryggingastofnunar og greitt af henni mánaðarlega. Það verði að teljast virkilega íþyngjandi krafa. Líkt og að sækja um bankalán, ef þú hefur engar tekjur inn mánaðarlega færðu ekkert lán.

Í öðru lagi megi nefna að þau systkinin hafi ekki notið góðs af greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins. Þau séu X og X ára og því ekki á fjárhagslegri ábyrgð foreldra sinna. Þau beri sjálf ábyrgð á sínum fjárhagsmálum. Foreldrar þeirra, þar á meðal A heitinn, séu hvorki né hafi verið framfærsluskyld gagnvart börnum sínum þegar greiðslur Tryggingastofnunar hafi verið greiddar til A heitins.

Þá megi einnig nefna að tekið sé fram að við mat á því hvort fella eigi niður kröfuna eigi að líta til þess hvort móttakandi greiðslunnar hafi verið í góðri trú eða ekki. Ljóst sé að móttakandi greiðslunnar sé látinn og verði því ekki hægt að deila um slík atriði. Meginreglan sé saklaus uns sekt sé sönnuð og því sé það mat systkinanna að það séu ekki eðlileg vinnubrögð opinberrar stofnunar að kasta fram þeim möguleika að látinn faðir þeirra, strangheiðarlegur, hafi ekki verið í góðri trú. Það sé eðlilegt að tekjuáætlun hjá örorkulífeyrisþega geti breyst, sérstaklega í ljósi þess að stundum fái þeir möguleika á lítilli aukavinnu og svo framvegis.

Annar flokkurinn er komi hér til álita sé hvaða skilning leggja beri í hugtakið „sérstakar aðstæður“. Ekki séu aðilar máls sammála um skilgreiningu á hugtakinu. Ungir námsmenn án launa og innkomu, atvinnulausir námsmenn í leit að bjartri framtíð, ungir einstaklingar sem lendi í því að missa föður sinn sem féll fyrir eigin hendi. Ef ekkert af þessu falli undir sérstakar aðstæður þá beri að endurskoða þann skilning sem Tryggingastofnun veiti þessu hugtaki.

Þriðji flokkurinn hér og jafnframt annar af mikilvægustu flokkunum sé sú fullyrðing sem Tryggingastofnun leggi fram að eignir dánarbúsins séu umtalsvert meiri en skuldir þess. Þessa fullyrðingu byggi stofnunin á þeim gögnum sem þeir hafi aðgang að sem og skattframtali þess árs er A féll frá, árið 2016. Þetta sé langt frá því að vera rétt mál. Eignir dánarbúsins séu alls ekki og langt frá því að vera meiri en skuldir. Ekki liggi fyrir endanleg staða á fjárhag dánarbúsins en gæti vel farið svo að skuldir verði hærri en eigur búsins.

Hér megi sjá brot af þeim miklu skuldum sem dánarbúið hafi tekið við eftir andlát A: VISA-kort skuld að fjárhæð X kr., yfirdráttarskuld við Landsbankann að fjárhæð X kr., lánasamningur Valitor að fjárhæð X kr., skuld við ríkisskattstjóra að fjárhæð X kr., skuld við Tryggingastofnun að fjárhæð X kr. og áhvílandi lán á húseign að fjárhæð X kr.

Ekki sé að finna í lögum nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála ákvæði er taki á því þegar aðili að máli skili ekki inn greinargerð eða öðrum gögnum innan veitts frests. Ljóst sé að tilkynning um þetta mál hafi verið send til Tryggingastofnunar 18. desember 2017. Hafi stofnuninni verið veittur 14 daga frestur til að skila inn þeim gögnum er þeir hafi talið þörf á til að leysa málið. Frestinum hafi lokið 1. janúar 2018 en stofnunin hafi haft tækifæri á að skila inn næsta virka dag, þ.e. 2. janúar 2018. Því sé ljóst að greinargerð Tryggingastofnunar hafi verið gerð mánuði eftir að frestinum hafi lokið. Þó svo að jól og áramót hafi spilað inn í frestinn þá hafi greinargerðin átt að berast mun fyrr. Þá hafi kæranda ekki verið tilkynnt um að stofnuninni hafi verið gefinn lengri frestur til þess að skila inn greinargerð, en hafi svo verið hafi úrskurðarnefnd velferðarmála borið að tilkynna kæranda það án tafar. Ekki liggi fyrir slík tilkynning í máli þessu.

Það sé því mat kæranda að ekki sé heimild til staðar fyrir úrskurðarnefndina að taka greinargerð varnaraðila til greina. Sé það gert sé það hiklaust brot á málsmeðferð, sbr. stjórnsýslulög nr. 37/1993.

Ljóst sé að myndi kærandi ekki skila inn gögnum innan veitts 14 daga frests þá yrði ekki litið til þeirra gagna sem kæmu frá honum eftir frestinn. Í 5. mgr. 7. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála sé að finna tilvísun til þess að málsmeðferð hjá nefndinni fari eftir ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og skuli því skoða lagaákvæði er finna megi þar við úrlausn málsins.

Mikilvægt sé að gæta jafnræðis við úrlausn málsins og að sömu reglur gildi um kæranda og Tryggingastofnun, sbr. 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig megi vísa til meðalhófsreglunnar sem finna megi í 12. gr. laganna en þar segi í 1. málslið: „Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti.“ Það sé ekki hægt að fullyrða að það að leggja kröfuna á eignarlítið dánarbú verði ekki náð með vægari móti. Það sé til dæmis hægt að fella hana niður að öllu leyti eða að hluta. Beri að hafa þessa reglu til hliðsjónar við úrlausn þessa máls.

Í 1. mgr. 18. gr. stjórnsýslulaga segi að stjórnvaldi sé heimilt að setja málsaðila ákveðinn frest til að kynna sér gögn máls og tjá sig um það. Beri því að túlka það svo að fari málsaðilar ekki eftir þessari reglu, eigi að líta svo á að málsaðilinn kjósi að tjá sig ekki frekar um málið.

Í athugasemdum kæranda, mótteknum 21. febrúar 2018, segir að skuldir dánarbúsins séu misjafnar. Þessi tiltekna skuld/krafa sé eflaust hin eina af þeim mörgu skuldum sem séu þess eðlis að þær fáist felldar niður. Þess vegna sé leitað til Tryggingastofnunar ríkisins því þar sé heimild til að fá niðurfelldar kröfur sem þessa. Þá sé einnig leitað til stofnunarinnar vegna þess að aðrir kröfuhafar bjóði ekki upp á niðurfellingu krafna.

Eðli málsins samkvæmt vilji erfingjar komast hjá því að bú föður þeirra verði lýst eignalaust og skuldugt og þar með falli það á hið opinbera að greiða skuldir hins látna. Tryggingastofnun sé ríkisrekin stofnun og með því að fella allar skuldir dánarbúsins á hið opinbera sé verið að fella mun hærri kröfu á ríkið og kosti það mun hærri fjármuni en að fella niður þessa einu tilteknu kröfu.

Tryggingastofnun taki það fram í greinargerð sinni að þær skuldir sem taldar séu upp í greinargerð kæranda séu óverulega hærri en þær sem komi fram í þeim gögnum sem legið hafi fyrir við afgreiðslu málsins. Telji kærandi að hér sé ekki farið með rétt mál. Þó beri að árétta það, líkt og kæra hafi borið með sér, að ekki hafi allar skuldir strax legið fyrir.

III. Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins kemur fram að í 16. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar, með síðari breytingum, sé kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. ákvæðisins sé vísað til laga um tekjuskatt nr. 90/2003 varðandi hvað skuli teljast til tekna. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs, sbr. 5. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Bótaþegi beri ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki, sbr. 1. mgr. 39. gr. sömu laga og 3. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags, en þar komi fram að bótaþega sé skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi sé bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á greiðslur.

Í 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar komi fram að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, þá skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna. Einnig sé fjallað um endurreikning í reglugerð nr. 598/2009. Tryggingastofnun hafi ekki heimild til að líta fram hjá tekjuupplýsingum sem fram komi í skattframtölum.

Á skýran hátt sé tekið fram í lögum um almannatryggingar og reglugerð nr. 598/2009 að meginreglan sé að Tryggingastofnun skuli innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Hafi Tryggingastofnun ríkisins eða umboð hennar ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögum þessum skal stofnunin draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til, sbr. þó 2. mgr. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega eða dánarbúi hans samkvæmt almennum reglum.“

Undantekningu frá þessari meginreglu sé að finna í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 varðandi þær kröfur sem myndist við uppgjör tekjutengdra bóta lífeyristrygginga. Þar segi:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.”

Á árinu 2015 hafi A notið örorkulífeyris og tengdra greiðslna frá 1. júlí til 31. desember.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2016 vegna tekjuársins 2015 hafi farið fram, hafi komið í ljós að tekjur kæranda hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum úr skattframtölum bótaþega lögum samkvæmt.

Umsókn A um örorkulífeyri hafi verið samþykkt í desember 2015 og hafi örorkumatið gilt frá 1. júlí 2015. Honum hafi verið send tekjuáætlun með bréfi, dags. 16. desember 2015. Áætlunin hafi miðast við árstekjur árið 2015. Í tekjuáætluninni hafi verið gert ráð fyrir því að hann hefði X kr. í atvinnuleysisbætur og X kr. í fjármagnstekjur allt árið 2015. Einnig hafi verið gert ráð fyrir iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð Xkr. Ekki hafi borist athugasemdir við tekjuáætlunina frá honum og hafi honum verið greitt á grundvelli hennar fyrir tímabilið 1. júlí til 31. desember 2015.

Þar sem A hafi eingöngu verið á greiðslum frá 1. júlí til 31. desember 2015 þá hafi eingöngu hluti af tekjum hans haft áhrif á réttindi hans hjá Tryggingastofnun. Á því tímabili hafi stofnunin gert ráð fyrir því að hann hefði X kr. í atvinnuleysisbætur og X kr. í fjármagnstekjur. Einnig hafi verið gert ráð fyrir iðgjaldi í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð X kr. á tímabilinu.

Við bótauppgjör ársins 2016 hafi komið í ljós að tekjur A hafi verið hærri en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætluninni. Á tímabilinu 1. júlí til 31. desember 2015 hafi hann verið með X kr. í atvinnuleysisbætur, X kr. í lífeyrissjóðstekjur, X kr. í séreignarsparnað og X kr. í fjármagnstekjur. Einnig hafi verið tekið tillit til iðgjalds í lífeyrissjóð til frádráttar að fjárhæð X kr.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2015 hafi verið að A hafi fengið greitt á árinu X kr. en hafi átt að fá greiddar X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu, í bótaflokkunum tekjutryggingu og orlofs- og desemberuppbótum að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

A hafi verið tilkynnt um ofgreiðsluna með bréfi stofnunarinnar, dags. 27. júlí 2016, og hafi engar athugasemdir borist frá honum. Þegar að A lést hafi verið búið að greiða X kr. af kröfunni.

Á árinu 2016 hafi A notið örorkulífeyris og tengdra greiðslna allt árið.

Ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri á hendur kæranda sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2017 vegna tekjuársins 2016 hafi farið fram, hafi komið í ljós að tekjur A hafi reynst hærri en tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir. Endurreikningur hafi byggst á upplýsingum á skattframtölum bótaþega lögum samkvæmt.

A hafi verið send tekjuáætlun með bréfi, dags. 11. janúar 2016. Í tekjuáætluninni hafi verið gert ráð fyrir því að hann hefði X kr. í fjármagnstekjur árið 2016. Ekki hafi verið gert ráð fyrir öðrum tekjum hjá honum. Hann hafi ekki gert athugasemdir við tekjuáætlunina og hafi hann fengið greitt á grundvelli hennar frá 1. janúar til 30. apríl 2016.

Þann 16. mars hafi borist ný tekjuáætlun frá A og gildandi tekjuáætlun Tryggingastofnunar verið breytt að mestu til samræmis við hana. Í nýju tekjuáætluninni hafi verið gert ráð fyrir að hann hefði X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í fjármagnstekjur. Hafi hann fengið greitt í samræmi við þessa tekjuáætlun frá 1. maí til 31. desember 2016.

Við bótauppgjör ársins 2017 hafi komið í ljós að tekjur A hafi verið hærri en gert hafi verið ráð fyrir í tekjuáætluninni. Tekjur hans árið 2016 hafi verið X kr. í lífeyrissjóðstekjur og X kr. í fjármagnstekjur.

Niðurstaða endurreiknings tekjutengdra bóta ársins 2016 hafi verið að A hafi fengið greitt á árinu X kr. en hafi átt að fá greiddar X kr. Þessi mismunur hafi leitt til ofgreiðslu, í bótaflokkunum tekjutryggingu, orlofs- og desemberuppbótum og uppbótum að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu.

Heildarskuld kærenda vegna áranna 2015 og 2016 standi því í X kr., að teknu tilliti til innborgana og vaxta.

Við afgreiðslu á beiðni kæranda um niðurfellingu vegna erfiðra fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna hafi, ásamt fyrirliggjandi gögnum, verið skoðað meðal annars ástæða ofgreiðslunnar, upplýsingar frá skattyfirvöldum um tekjur og eignir, að viðbættum þeim upplýsingum sem aflað hafi verið úr tölvukerfi stofnunarinnar um fjárhag og félagslega stöðu.

Fjallað sé um innheimtu ofgreiddra bóta í 55. gr. laga um almannatryggingar. Ákvæðið sé ekki heimildarákvæði um innheimtu heldur sé lögð sú skylda á Tryggingastofnun að innheimta ofgreiddar bætur. Ákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 sé undanþáguheimild og sem slíkt skuli skýra ákvæðið þröngt. Í þessu ákvæði felist að við ákvörðun um hvort fella eigi niður kröfu eigi að fara fram mat, annars vegar á fjárhagslegum og félagslegum aðstæðum umsækjanda með tilliti til getu hans til að endurgreiða skuldina, og hins vegar á því hvort hann hafi verið í góðri trú um greiðslurétt sinn þegar hann hafi tekið við hinum ofgreiddu bótum. Aðstæður þurfi að vera sérstakar svo að undanþáguheimild 11. gr. reglugerðarinnar eigi við.

Umræddar kröfur hafi orðið til við endurreikninga áranna 2015 og 2016. Eins og meðfylgjandi gögn beri með sér þá sé ljóst að ástæða ofgreiðslna hafi verið rangar tekjuáætlanir. Kröfurnar séu réttmætar. Tryggingastofnun greiði lífeyri á grundvelli áætlunar um tekjur viðkomandi árs. Skilyrði reglugerðarinnar um góða trú verði að skoða í ljósi ábyrgðar lífeyrisþega á því að gefa réttar tekjuupplýsingar hverju sinni. Bótaþegi beri skýra ábyrgð á því að slík tekjuáætlun endurspegli árstekjur hans og beri að breyta áætluninni ef svo sé ekki. Þessi skylda bótaþega eigi ekki bara við þegar tekjuáætlun sé gerð heldur alltaf þegar einstaklingur fái bætur frá Tryggingastofnun.

Samráðsnefnd hafi metið fjárhagsaðstæður dánarbúsins og erfingja á grundvelli innsendra gagna og upplýsinga sem Tryggingastofnun hafi aðgang að. Við skoðun þeirra hafi það verið mat nefndarinnar að ekki væri tilefni til að fella niður kröfuna. Einkum hafi verið horft til þess að eignir dánarbúsins hafi verið umtalsvert hærri en skuldir samkvæmt skattframtölum. Einnig hafi verið horft til eigna- og skuldastöðu erfingja samkvæmt innsendum skattframtölum þeirra. Af þeim hafi mátt ráða að eignastaða þeirra væri nokkuð góð. Erfingjar hafi framfærslu sína af atvinnutekjum og námslánum. Erfingjarnir séu tvö um greiðslu skuldarinnar og hafi ekki sýnt fram á vanskil. Þrátt fyrir að tekjur þeirra væru ekki háar vegna náms hafi ekki þótt ástæða til niðurfellingar ofgreiðslukrafna. Boðið hafi verið upp á að semja um greiðsludreifingu.

Það hafi því verið mat Tryggingastofnunar að fjárhags- og félagslegar aðstæður kæranda væru ekki nægilega sérstakar til að þær uppfylltu undanþáguákvæði 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009.

Tryggingastofnun hafi skoðað gögn málsins en telji ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni um synjun á ósk kæranda um niðurfellinga.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar ríkisins segir að staða dánarbús A sé þannig í dag að skiptum sé ólokið. Á meðan svo sé beri dánarbúið ábyrgð á öllum skuldum hins látna og beinist krafa stofnunarinnar því að dánarbúinu en ekki erfingjunum sem slíkum. Erfingjarnir séu aftur á móti í forsvari fyrir dánarbúið á meðan að skiptum búsins sé ekki lokið í samræmi við 85. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum. Ljúki dánarbúinu með einkaskiptum muni erfingjar hins látna bera ábyrgð á skuldbindingum búsins in solidum, sbr. 97. gr. laga nr. 20/1991.

Af innsendu erindi erfingja megi ráða að þau telji mögulegt að eignir dánarbúsins dugi ekki til þess að greiða skuldir þess. Tryggingastofnun vilji vekja athygli á því að ljúki skiptum dánarbúsins á þann hátt að dánarbúið sé lýst eignalaust beri erfingjar ekki ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins.

Einnig sé rétt að vekja athygli á því að þær skuldir, sem taldar séu upp í erindi kæranda, séu óverulega hærri en þær sem fram komi í þeim gögnum sem legið hafi fyrir við afgreiðslu málsins, sérstaklega ef horft sé til eigna búsins. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun sinni.

Í erindi kæranda séu gerðar athugasemdir við þær tafir sem hafi orðið á vinnslu fyrri greinargerðar Tryggingastofnunar. Vegna mikilla anna og leyfa þá hafi þær tafir verið óumflýjanlegar en engu að síður sé beðist velvirðingar á þeim. Stofnunin vilji aftur á móti vekja athygli á því að hún sé ekki aðili máls, í skilningi stjórnsýsluréttar, í málum sem rekin séu fyrir úrskurðarnefnd. Það hafi áður komið fram í úrskurðum úrskurðarnefndar. Stofnunin sé einungis að sinna upplýsingaskyldu stjórnvalda gagnvart úrskurðarnefnd, sbr. 6. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta áranna 2015 og 2016.

Samkvæmt 39. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, með síðari breytingum, er greiðsluþega skylt að veita Tryggingastofnun þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru svo að unnt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Þá er honum einnig skylt að tilkynna um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geti haft áhrif á bætur eða greiðslur. Tryggingastofnun er heimilt, að fengnu samþykki viðkomandi, að afla nauðsynlegra upplýsinga um tekjur umsækjanda og greiðsluþega hjá skattyfirvöldum og fleirum, sbr. 40. gr. laga um almannatryggingar.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar er kveðið á um tekjutengingu lífeyristrygginga og hvernig Tryggingastofnun ríkisins skuli standa að útreikningi bóta. Í 7. mgr. 16. gr. laganna segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

A heitinn var örorkulífeyrisþegi árin 2015 og 2016 og fékk greiddar tekjutengdar bætur. Tryggingastofnun tilkynnti A um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2015 með bréfi, dags. 27. júlí 2016. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til hans hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Þá tilkynnti stofnunin kæranda um endurreikning og uppgjör á tekjutengdum greiðslum ársins 2016 með bréfi, dags. 5. október 2017. Niðurstaða endurreikningsins var sú að bætur til A hefðu verið ofgreiddar, samtals að fjárhæð X kr., að teknu tilliti til endurgreiddrar staðgreiðslu. Af gögnum málsins verður ráðið að endurgreiðslukröfurnar megi rekja til vanáætlaðra tekna í tekjuætlun X vegna áranna 2015 og 2016.

Tryggingastofnun ber lögum samkvæmt að endurreikna bótafjárhæðir bótagreiðsluárs eftir að álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum hefur farið fram, sbr. fyrrgreinda 7. mgr. 16. gr. laga um almannatryggingar. Þá er meginreglan sú að stofnuninni beri að innheimta ofgreiddar bætur, sbr. 55. gr. laganna. Í 11. gr. reglugerðar nr. 598/2009 um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags er hins vegar að finna heimild til undanþágu frá endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta. Ákvæðið hljóðar svo:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn. Sama gildir um dánarbú eftir því sem við á.“

Framangreind 11. gr. reglugerðarinnar heimilar undanþágu frá endurgreiðslukröfu að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Kærandi sótti um niðurfellingu kröfunnar með umsókn, dags. 26. júní 2017, en Tryggingastofnun synjaði henni með bréfi, dags. 15. nóvember. Í bréfinu segir að krafan sé réttmæt og skilyrði 11. gr. reglugerðarinnar um alveg sérstakar aðstæður séu ekki talin vera fyrir hendi. Ágreiningur í þessu máli lítur að synjun stofnunarinnar á umsókn kæranda en ekki er deilt um réttmæti endurkröfunnar eða fjárhæðir.

Úrskurðarnefnd velferðarmála lítur til þess við úrlausn þessa máls að örorkulífeyrir og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins sæta tekjuskerðingu og eru bótaþegar upplýstir um tekjutenginguna við upphaf lífeyristöku. Þá er bótaþegum gert að upplýsa um tekjur sínar á bótagreiðsluári í tekjuáætlun hvers árs. Eins og áður greinir gerir 39. gr. laga um almannatryggingar ráð fyrir að það komi í hlut þess aðila, sem bætur þiggur frá Tryggingastofnun, að upplýsa réttilega um tekjur sem kunna að falla til á bótagreiðsluári. Þannig hvílir sú ábyrgð á bótaþega að tekjuáætlun sé rétt. Samkvæmt gögnum málsins var A upplýstur um þessa skyldu sína. Með hliðsjón af framangreindu telur úrskurðarnefnd velferðarmála að honum hefði mátt vera kunnugt um áhrif teknanna á bótagreiðslur.

Kemur því næst til skoðunar hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður gefi tilefni til niðurfellingar, en samkvæmt 3. málsl. 11. gr. reglugerðarinnar gildir sama um dánarbú eftir því sem við á. B og C hafa leyfi til einkaskipta á dánarbúi A og fara því með forræði búsins, sbr. 1. mgr. 85. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Samkvæmt 5. tölul. 28. gr. laganna bera þau óskipta ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins.

Í kæru kemur fram að þau B og C séu námsmenn sem vinni lítið sem ekkert, hafi enga fjármuni á milli handanna og hafi lent í þeirri hræðilegu lífsreynslu [...]. Dánarbúið hafi verið skuldugt en þau lifi einungis á þeirri litlu framfærslu sem Lánasjóður íslenskra námsmanna veiti. Í athugasemdum kæranda kemur fram að það sé mat B og C að ekki sé sanngjarnt að blanda inn eigum þeirra sem erfingja í málið þar sem þær eigur tengist ekki dánarbúinu. Þau hafi ekki notið góðs af greiðslum Tryggingastofnunar. Þá mótmæla þau þeirri fullyrðingu stofnunarinnar um að eignir dánarbúsins séu umtalsvert meiri en skuldir þess.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að við mat á því hvort fjárhagslegar og félagslegar aðstæður teljist vera sérstakar aðstæður í skilningi 11. gr. reglugerðar nr. 598/2008 beri að líta heildstætt á aðstæður. Þannig kemur ekki einungis til skoðunar eignir og skuldir dánarbúsins heldur einnig tekjur erfingja ásamt eignum og skuldum. Því hefur það ekki áhrif á úrlausn þessa máls þó að erfingjar hafi ekki notið góðs af greiðslum Tryggingastofnunar á sínum tíma, enda bera þau óskipta ábyrgð á skuldbindingum dánarbúsins samkvæmt lögum nr. 20/1991. Af gögnum málsins verður ráðið að erfingjar hafa litlar tekjur en eignir þeirra eru þó umfram skuldir. Þá bera gögn málsins einnig með sér að eignir dánarbúsins séu að sama skapi umfram skuldir. Þrátt fyrir að erfingjar hafi ekki háar tekjur telur úrskurðarnefnd að ekki verði hjá því litið að eignastaða þeirra, sem og eignastaða dánarbúsins, er jákvæð. Þau eru tvö um greiðslu endurgreiðslukröfunnar og til boða stendur af hálfu Tryggingastofnunar að semja um greiðsludreifingu. Úrskurðarnefndin lítur einnig til þess að samkvæmt meginreglu 55. gr. laga um almannatryggingar skal Tryggingastofnun innheimta ofgreiddar bætur og ber að túlka undantekningu frá þeirri meginreglu þröngt samkvæmt almennum lögskýringarreglum. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að ekki sé tilefni til niðurfellingar endurgreiðslukröfunnar.

Kærandi telur að úrskurðarnefnd velferðarmála hafi ekki heimild til að taka til greina greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins þar sem hún hafi borist eftir tilsettan frest frá nefndinni. Að mati kæranda sé það brot á málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Einnig sé það brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrárinnar þar sem ekki yrði litið til gagna kæranda ef þau bærust nefndinni eftir tilsettan frest.

Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. Úrskurðarnefnd velferðarmála er því skylt að rannsaka kærumál áður en úrskurðað er í málinu. Þar af leiðandi ber nefndinni að taka til greina greinargerðir og gögn stjórnvalda, sem og athugasemdir og gögn kæranda, þrátt fyrir að þau berist eftir tilsettan frest.

Með hliðsjón af framangreindu er synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni kæranda um niðurfellingu endurgreiðslukröfunnar vegna ofgreiddra bóta áranna 2015 og 2016 staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins á beiðni dánarbús A, um niðurfellingu endurgreiðslukröfu vegna ofgreiddra bóta áranna 2015 og 2016, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum