Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 472/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 472/2017

Fimmtudaginn 15. mars 2018

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Agnar Bragi Bragason lögfræðingur.

Með kæru, dags. 20. desember 2017, kærir A til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, um innheimtu ofgreiddra bóta.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun með umsókn þann 1. desember 2014. Umsókn hans var samþykkt og var hann skráður atvinnulaus hjá stofnuninni þar til í byrjun mars 2015. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra í mars 2015 kom í ljós að kærandi hafði fengið greiðslu frá fyrrverandi vinnuveitanda sínum í desember 2014 samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta og án þess að tilkynna um greiðsluna til stofnunarinnar. Með bréfi, dags. 11. mars 2015, óskaði Vinnumálastofnun eftir skriflegum skýringum kæranda vegna ótilkynntra tekna. Skýringar bárust frá kæranda 18. mars 2015 þar sem fram kom að um væri að ræða greiðslu vegna uppgjörs yfirvinnu og orlofs. Mál kæranda var tekið fyrir á fundi Vinnumálastofnunar 31. mars 2015 og tekin ákvörðun um að hann hefði fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 84.699 kr. Kæranda var tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur samdægurs með tilkynningu á „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun og greiðsluseðli stofnunarinnar frá 1. apríl 2015. Í september 2017 var skuld kæranda enn ógreidd og með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, var farið fram á að kærandi myndi endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 20. desember 2017. Með bréfi, dagsettu sama dag, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst með bréfi, dags. 4. janúar 2018. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. janúar 2018, var greinargerð Vinnumálastofnunar send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust frá kæranda 19. janúar 2018 og voru þær sendar Vinnumálastofnun til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að greiðslan frá fyrrverandi vinnuveitanda hans hafi verið orlofsgreiðsla fyrir orlofsárið 1. maí 2014 til 1. maí 2015. Samkvæmt 4. gr. orlofslaga skal veita orlof í einu lagi á tímabilinu 2. maí til 15. september. Það sé því gert ráð fyrir að kærandi myndi nýta greiðsluna til úttektar orlofs sumarið 2015.

Kærandi bendir á að hann hafi veitt Vinnumálastofnun upplýsingar um greiðsluna en ekki fengið nein viðbrögð. Að mati kæranda hefði stofnunin átt að bregðast strax við og upplýsa hann um að hann ætti að endurgreiða eða gefa kost á einhvers konar viðbrögðum. Kærandi telur að Vinnumálastofnun hafi ekki gætt að upplýsinga- og leiðbeiningarskyldu sinni og því ekki farið að reglum stjórnsýsluréttar. Þá hafi kæranda ekki verið gefinn kostur á að neyta andmælaréttar en þá hefði hann getað tjáð sig um hvenær hann hygðist nýta orlof sitt. Vinnumálastofnun geti ekki einhliða ákveðið án hans samþykkis hvenær hann hygðist hefja töku orlofs.

Kærandi vísar til þess að hann hafi ekki heyrt neitt af máli sínu fyrr en í september 2017. Frá janúar 2015 hafi hann hvorki fengið tilkynningu né greiðsluáminningu en með því hafi Vinnumálastofnun sýnt tómlæti. Kærandi telur að hin kærða ákvörðun standist ekki lög og sé ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti. Því beri að fella hana úr gildi.

Í athugasemdum kæranda vegna greinargerðar Vinnumálastofnunar kemur fram að hann hafi ekki haft neina ástæðu til að fara inn á vefsvæði stofnunarinnar eftir 31. mars 2015 þar sem hann hafi verið kominn með vinnu. Aðrar tilkynningar, svo sem í pósti, hafi hann aldrei fengið. Þá vísar kærandi til þess að hann átti sig ekki á útreikningi ofgreiðslukröfunnar, t.d. hversu stór hluti upphæðarinnar sé byggður á orlofi vegna tímabilsins maí til nóvember 2014 en samkvæmt orlofslögum eigi ekki að nota orlof fyrr en í maí 2015, þegar orlofsári ljúki.

III. Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur 1. desember 2014. Samkvæmt launaseðli sem hafi fylgt með umsókninni hafi hann átt 24,55 klukkustundir í ótekið orlof eða þrjá daga og því fengið greiddar atvinnuleysisbætur frá og með 4. desember 2014. Kærandi hafi verið afskráður í mars 2015 þegar hann hafi farið í vinnu. Við samkeyrslu gagnagrunna Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra hafi komið í ljós að kærandi hafði þegið greiðslu frá fyrrverandi vinnuveitanda sínum í desember 2014 án þess að tilkynna um greiðsluna til stofnunarinnar. Greiðslur atvinnuleysisbóta til handa kæranda hafi ekki tekið mið af þeim tekjum og því hafi hann fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur þann mánuð.

Vinnumálastofnun tekur fram að í málinu liggi fyrir að kærandi hafi fengið greitt ótekið orlof frá fyrrum vinnuveitanda sínum á sama tíma og hann hafi þegið greiðslur atvinnuleysisbóta. Í 36. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar sé fjallað um frádrátt vegna tekna. Þar segi að Vinnumálastofnun beri að skerða atvinnuleysisbætur hafi atvinnuleitandi tekjur frá öðrum aðilum. Það eigi meðal annars við um tekjur fyrir tilfallandi vinnu, fjármagnstekjur og aðrar greiðslur sem hinn tryggði kunni að fá frá öðrum aðilum. Vinnumálastofnun skuli eingöngu taka tillit til þeirra tekna sem atvinnuleitandi hafi haft á þeim tíma er hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma á grundvelli laganna. Óumdeilt sé að kærandi hafi fengið greiddar atvinnuleysisbætur í desember 2014. Á sama tíma hafi hann fengið greiðslu frá fyrrverandi vinnuveitanda að fjárhæð 386.498 kr. og því beri Vinnumálastofnun að skerða greiðslur fyrir þann mánuð. Samkvæmt skýrri reglu 36. gr. laganna beri stofnuninni að skerða atvinnuleysisbætur kæranda um helming þeirra tekna sem séu umfram frítekjumark samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins.

Vinnumálastofnun vísar til þess að í 2. mgr. 14. gr. laga nr. 54/2006 sé mælt fyrir um upplýsingaskyldu umsækjenda um greiðslur atvinnuleysistrygginga. Þar segi að atvinnuleitanda beri án ástæðulauss dráttar að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunni að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum. Í athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 37/2009 segi meðal annars að „láti atvinnuleitandi hjá líða að veita Vinnumálastofnun þessar upplýsingar sem og í þeim tilvikum þegar rangar upplýsingar eru gefnar kemur til álita að beita viðurlögum skv. 59. gr. laganna.“ Af þessum ákvæðum sé ljóst að hinum tryggða beri að tilkynna fyrir fram um tekjur til stofnunarinnar. Á vefsíðu Vinnumálastofnunar sé að finna greinargóðar leiðbeiningar um tilkynningu um tekjur og að auki sé farið ítarlega yfir þær reglur á svokölluðum starfsleitarfundum stofnunarinnar, en kærandi hafi mætt í slíkt viðtal þann 18. desember 2014. Þrátt fyrir það hafi kærandi látið hjá líða að tilkynna stofnuninni fyrir fram um tekjur sínar og því hafi stofnuninni fyrst verið kunnugt um þær við samkeyrslu við tekjuskrá Ríkisskattstjóra í mars 2015. Upplýsingum sem stofnunin afli sjálf í eftirliti sínu verði ekki jafnað við tilkynningu frá atvinnuleitanda, enda afli stofnunin slíkra upplýsinga eftir á. Þá sé ljóst að upplýsingar liggi ekki fyrir í tekjuskrá Ríkisskattstjóra fyrr en nokkru eftir að tekna sé aflað og þá eftir útgreiðslu atvinnuleysisbóta fyrir sama tímabil. Af þeim sökum sé ekki hægt að líta á slíka skráningu sem ígildi tilkynningar atvinnuleitanda, en lögum samkvæmt beri að tilkynna um tekjur fyrir fram svo að unnt sé að taka tillit til þeirra við útreikning og greiðslu atvinnuleysisbóta. Endurgreiðsluskylda kæranda grundvallist á ákvæði 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, en samkvæmt því sé stofnuninni skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta og að innheimta þær sem hafi verið ofgreiddar. Í athugasemdum með ákvæðinu í frumvarpi því er varð að lögum nr. 54/2006 sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða ofgreiðslu hafi því ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem hafi verið ofgreidd. Vinnumálastofnun bendir á að ekkert álag hafi verið lagt á skuld kæranda.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 26. september 2017 um að innheimta ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 84.699 kr. á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 39. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar er kveðið á um leiðréttingu á atvinnuleysisbótum. Þar segir í 2. mgr. að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur samkvæmt 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða af öðrum ástæðum, beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildi um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hafi fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Samkvæmt 3. mgr. 39. gr. laganna er heimilt að skuldajafna ofgreiddum atvinnuleysisbótum á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum sama einstaklings en þó aldrei hærri fjárhæð en sem nemur 25% af síðarnefndu atvinnuleysisbótum í hverjum mánuði.

Með greiðsluseðli Vinnumálastofnunar, dags. 1. apríl 2015, var kæranda tilkynnt um ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð 84.699 kr. án álags vegna tekna á greiðslutímabilinu 1. desember til 31. desember 2014. Kærandi var þá ekki lengur á atvinnuleysisskrá og því ekki unnt að skuldajafna fjárhæðinni í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006, þ.e. af síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum. Kæranda var bent á að hafa samband við greiðslustofu Vinnumálastofnunar hefði hann athugasemdir eða vildi frekari skýringar á greiðsluseðlinum. Þá var kæranda leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, forvera úrskurðarnefndar velferðarmála, og um þriggja mánaða kærufrest. Sérstaklega var tekið fram að heimilt væri að kæra ákvörðun Vinnumálastofnunar um útreikning á atvinnuleysisbótum og skuldamyndun. Ljóst er að sá frestur var liðinn þegar kærandi lagði inn kæru til úrskurðarnefndarinnar og verður sá þáttur kærunnar því ekki tekinn til efnislegrar meðferðar.

Í hinni kærðu ákvörðun er farið fram á að kærandi endurgreiði Vinnumálastofnun ofgreiddar atvinnuleysisbætur á grundvelli 2. mgr. 39. gr. laga nr. 54/2006. Kæranda er gefinn kostur á að semja um greiðslu skuldarinnar og tilkynnt að mál hans verði sent Innheimtumiðstöðinni á Blönduósi til frekari innheimtu hafi greiðsla ekki borist innan 90 daga. Ákvæði 2. mgr. 39. gr. laganna er fortakslaust að því er varðar skyldu til þess að endurgreiða ofgreiddar bætur. Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefndin að rétt hafi verið staðið að innheimtu skuldar kæranda við Vinnumálastofnun. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. september 2017, í máli A, um innheimtu ofgreiddra atvinnuleysisbóta er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum