Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 12/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 12/2019

Miðvikudaginn 10. apríl 2019

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, dags. 9. janúar 2019, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjun Sjúkratrygginga Íslands frá 10. október 2018 um bætur úr sjúklingatryggingu.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 23. maí 2017. Í umsókninni lýsir kærandi tjónsatvikinu þannig að hún hafi [...] þann X [...]. Kærandi hafi lent harkalega með þeim afleiðingum að hún hlaut áverka á [...] úlnlið. Kærandi leitaði á bráðamóttöku Landspítala þar sem hún var mynduð og sett í gifs. Árið X leitaði kærandi til bæklunarlæknis sem upplýsti kæranda að ekki hefði verið rétt staðið að málum í upphafi þannig að óþarflega mikið fall sé á liðnum og það sé tilkomið vegna þess að gifsið sem hún fékk hafi ekki verið sett rétt á hana.

Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda um bætur með ákvörðun, dags. 10. október 2018, á þeim grundvelli að skilyrði 2. gr. laga um sjúklingatryggingu væru ekki uppfyllt.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 9. janúar 2019. Með bréfi, dags. 10. janúar 2019, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 24. janúar 2019, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún send lögmanni kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. janúar 2019. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands verði felld út gildi og nefndin feli stofnuninni að taka nýja ákvörðun í málinu.

Kærandi kveðst ekki geta fallist á niðurstöðu hinnar kærðu ákvörðunar þar sem fram kemur sú afstaða Sjúkratrygginga Íslands að ekkert í meðferðinni hafi bent til þess að lokaárangur yrði ekki nægilega góður og að kærandi hafi fengið viðeigandi meðferð. Í ákvörðuninni segir:

„Það að árangur meðferðar varð lakari en vonast var til verður að mati SÍ ekki fellt undir ranga meðferð eða skort á meðferð. Það er því mat SÍ að umsækjandi hafi hlotið meðferð sem er fyllilega innan marka viðtekinnar og gangreyndrar læknisfræði. Með vísan til þessa eru skilyrði 2. gr. laganna ekki uppfyllt.“

Málatilbúnaður kæranda byggir á því að afleiðingar hinnar ófullnægjandi læknismeðferðar séu bæði tímabundnar og varanlegar. Matsgerð C, sérfræðings í heimilislækningum, frá X 2018 staðfesti það. Starfsfólki Sjúkratrygginga Íslands hafi yfirsést þetta við úrlausn málsins.

Í matsgerð C, sérfræðings í heimilislækningum, frá X 2018 segi eftirfarandi:

„A var á [...] á vegum starfs síns, í D. Hún kom inn í [...]. Hún kveðst hafa gengið að [...]. Kveðst hún hafa reynt að halda jafnvægi en að lokum dottið á gólfið og [...] hönd hennar tekið fallið án þess að hún hafi þó beinlínis borið hana fyrir sig. Hún leitaði á bráðamóttöku Landspítala samdægurs.“

Á bráðamóttökunni hafi verið ljóst að kærandi hafði handleggsbrotnað, hún hafi verið verkjuð auk þess sem hreyfiskerðing hafi verið komin fram í [...] úlnlið hennar. Röntgenrannsókn hafi sýnt X° skekkju aftur á við og brotið verið X mm frá liðfleti sveifar. Kærandi hafi fengið gips og komið til eftirlits nokkrum dögum síðar, þann X. Röntgenmynd hafi þá sýnt óbreytta stöðu með um X° skekkju. Í myndgreiningarsvari frá X hafi komið fram að skekkjan sem áður hafði mælst X° var X° og varpaði rannsóknarlæknir fram spurningu um hvort heppilegt væri að hafa úlnliðinn gipsaðan í réttu (extensio).

Stuttu síðar, þann X, hafi röntgenrannsókn sýnt fram á aukna skekkju, þá X°. Í göngudeildarnótu E læknis sem var rituð sama dag komi fram svar úr myndatöku frá X og sé þar röntgenmynd lýst sem óbreyttri, gróandi brot og bakhalli á lið um það bil X°. Gips hafi þá verið fjarlægt og æfingar ráðlagðar. Kærandi hafi fengið tilvísun til sjúkraþjálfara og talið hafi verið að útlit úlnliðar yrði breytt til frambúðar vegna afturhalla á lið. Í byrjun ársins X hafi kærandi hafið sjúkraþjálfun.

Verkirnir hafi þó ekki horfið og þann X hafi kærandi leitað til F handarskurðlæknis. Í læknisvottorði hans frá X lýsi hann því hvernig kærandi hafi kvartað undan miklum verkjum í [...] úlnlið, sérstaklega við álag og áreynslu. Þá hafi hún einnig verið með töluverða hreyfiskerðingu, bæði í beygju og réttu. Röntgenrannsókn hafi sýnt X° skekkju frá því sem ætla mátti að verið hefði fyrir brot. Ekki hafi komið til sérstakrar meðferðar af hálfu F en hann hafi ráðlagt kæranda að halda áfram sjúkraþjálfun.

X síðar hafi kærandi leitað aftur til F og sagst engan veginn hafa jafnað sig í úlnliðnum eftir slysið og hafi hún verið óánægð með það. Hún hafi ekki verið með stöðuga verki en daglega og oft á dag. Við skoðun hafi komið fram skertar hreyfingar, einkum varðandi réttu og beygju í [...] úlnlið, hliðarsveigjur hafi einnig verið skertar sem og rétt- og ranghverfa. Ljóst hafi verið að kærandi væri engu betri eftir slysið.

Af greinargerð meðferðaraðila, dags. X, verði ekki annað ráðið en að þeirri meðferð sem kærandi hlaut á Landspítalanum hafi verið í ýmsu áfátt. Greinargerðin sé afar óljós. Fyrst segi G læknir að hann telji að ekki hafi verið notað rangt gips á kæranda. Í kjölfarið segi hann vissulega oftast setta spelku í volar flexio – ulnar deviatio sem sé öfugt við áverkamunstrið. Það hafi ekki verið gert í tilfelli kæranda. Þá hafi hann viðrað þá skoðun að hugsanlega hefði átt að nota lokaða réttingu og vísa til ortopeda ef það gengi ekki. Fyrir liggi að það hafi ekki heldur verið gert. Þá segi hann að oftast náist nokkuð eðlileg hreyfigeta og sársaukalaus ef liðflöturinn sjálfur sé óskaddaður, þrátt fyrir X° skekkju. Þetta þyki ósannfærandi, enda hafi kærandi ekki náð eðlilegri hreyfigetu eftir slysið og sé mjög fjarri því. Í öllu falli sé ljóst að lokuð rétting hefði að öllum líkindum skilað betri árangri til að ná réttri legu á brotið.

Í læknisvottorði F bæklunar- og handaskurðlæknis, dags. X, komi fram að hallinn hafi aukist á meðferðartímanum. Í vottorðinu segi: „Upphaflega hafði afturhallinn verið um X° og því ljóst að brotið hafði sigið á meðferðartíma og skekkjan aukist.“

Kærandi telji að framangreint sýni glöggt að sú meðferð sem hún hlaut á Landspítalanum hafi ekki verið rétt, þvert á það sem fram komi í hinni kærðu ákvörðun. Í tölvupósti frá F bæklunar- og handarskurðlækni frá X velti F því jafnframt upp að „…líklega hefði maður átt að vera „aggressivari“ í meðferð strax í upphafi en það felur ekki í sér að leggja gipsið öðru vísi. Frekar nota ytri ramma eða innri festingu. Þetta er álitamál, en mín skoðun svona eftir á.“

Af framangreindu virtu telur kærandi augljóst að hin kærða ákvörðun um að verða ekki við beiðni hennar um greiðslu bóta úr sjúklingatryggingu sé röng þar sem framangreint sýni að hún hafi ekki fengið rétta meðferð á spítalanum.

III.  Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi slasast X þegar hún [...]. Hún hafi skollið  harkalega niður með þeim afleiðingum að hún hafi hlotið brot á [...] úlnlið. Kærandi hafi leitað á bráðamóttöku Landspítala og samkvæmt niðurstöðum myndrannsókna hafi brotið verið lítið tilfært með vægum afturhalla, áætlað um X° miðað við lengdarás. Kærandi hafi fengið gips og eftirlit verið áætlað X dögum síðar. Samkvæmt röntgenmyndum sem teknar hafi verið X hafi lega brotsins ekki virst hafa breyst neitt að ráði. Í eftirliti X hafi brotlega verið sögð vera að mestu óbreytt og talin ásættanleg. Kærandi hafi fengið nýtt gips og endurkoma verið áætluð X vikum síðar. Röntgenmyndir sem teknar hafi verið X hafi sýnt óbreytta legu, gróanda í broti og bakhalli á lið hafi verið sagður vera um það bil X°. Kærandi hafi fengið tilvísun til sjúkraþjálfara og ráðleggingar um æfingar.

Kærandi hafi leitað til F, sérfræðings í bæklunarskurðlækningum, X til að fá álit á líðan sinni, meðferð og árangri meðferðar við áverkanum. Teknar hafi verið nýjar röntgenmyndir en ekki hafi komið til sérstakrar meðferðar hjá F sem ráðlagði kæranda frekari sjúkraþjálfun. Þá hafi F bent á að hugsanlega væri rétt að gera leiðréttandi beinhlutun ef einkenni gæfu tilefni til slíkrar aðgerðar í framtíðinni þar sem brotið hefði gróið með nokkrum afturhalla á liðfleti, eða um það bil X°. Kærandi hafi leitað aftur til F X vegna verkjar í [...] úlnliðnum eftir slysið, auk hreyfiskerðingar og skerðingar á gripkrafti. Ekki hafi komið til sérstakrar meðferðar hjá F en aftur rætt um hugsanlega ábendingu fyrir aðgerð síðar meir.

Í hinni kærðu ákvörðun hafi stofnunin talið ljóst að kærandi hefði hlotið meðferð sem var fyllilega innan marka viðtekinnar og gagnreyndrar læknisfræði og skilyrði 2. gr. laganna því ekki uppfyllt.

Samkvæmt umsókn kæranda hafi hún sagst vera mjög verkjuð í [...] hendi og talið að hluta af þeim einkennum sem hún býr við megi rekja til þess að ekki hafi verið réttilega staðið að meðferð hennar í upphafi á Landspítala, þ.e. gips hafi ekki verið sett með réttum hætti.

Samkvæmt gögnum málsins hafi úlnliðsbrot kæranda á slysdegi verið frekar lítið tilfært og tiltölulega stöðugt. Ákveðið hafi verið að beita gipsmeðferð og hafi það verið mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki hafi verið ástæða til að gera aðgerð með hliðsjón af áverkanum, þ.e. sprungið brot. Í hinni kærðu ákvörðun hafi Sjúkratryggingar Íslands bent á að það sé ávallt áhætta að grípa inn í þess háttar brot með aðgerð þar sem þau eigi það til að losna enn frekar. Þegar röntgenmyndir hafi verið skoðaðar virðist kærandi hafa fengið svokallað plastgips sem sé algeng meðferð í dag og mikið notuð á slysadeild Landspítala. Áður fyrr hafi verið notað hefðbundið gips sem vissulega getur haft sína kosti en að mati Sjúkratrygginga Íslands hafi ekki verið ekki séð að gipsmeðferð í tilviki kæranda hafi verið athugaverð eða gips ekki sett með réttum hætti. F hafi einnig talið enga ástæðu til að gagnrýna hina upphaflegu meðferð, sbr. nótu dags. X.

Ljóst sé að brotið hafi sigið á meðferðartíma og virðist liðflötur halla aftur á við um X° miðað við lengdaröxul beinsins. Eðlilegur halli sé um það bil X° þannig að skekkjan sé um það bil X° miðað við upphafsstöðu. Að mati SÍ hafi hins vegar ekki verið sýnileg nein markverð stytting á beininu. Samkvæmt gögnum málsins hafi F velt því upp hvort ástæða hafi verið til að grípa inn í með festingum þegar brotið fór að síga á meðferðartímanum. Að mati SÍ hafi samtímalæknisgögn LSH ekki bent til annars en að meðferðin hafi verið á góðri leið og klínískar skoðanir á meðferðartímanum bent til þess að beinið myndi gróa í góðri stöðu. Þannig hafi ekkert í meðferðinni bent til þess að lokaárangur yrði ekki nægilega góður. Kærandi hafi því að mati stofnunarinnar fengið viðeigandi meðferð. Það að árangur meðferðar hafi orðið lakari en vonast hafi verið til hafi að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki verið hægt að fella undir ranga meðferð eða skort á meðferð.

Í kæru komi fram að málatilbúnaður kæranda byggi á því að afleiðingar hinnar ófullnægjandi læknismeðferðar séu bæði tímabundnar og varanlegar og felist í líkamlegu tjóni kæranda. Í kjölfarið sé vísað til matsgerðar C, sérfræðings í heimilislækningum, dags. X 2018, sem að sögn kæranda staðfesti framangreint. Þá fullyrði kærandi að starfsfólki Sjúkratrygginga Íslands hafi yfirsést „þetta við úrlausn málsins“.

Sjúkratryggingar Íslands geti ekki fallist á framangreint þar sem það komi skýrt fram í umræddri matsgerð að kærandi búi við líkamlegar afleiðingar sem rekja megi til upphaflega slyssins, þ.e. [...]. Hvergi komi fram að líkamstjón kæranda sé að rekja til ófullnægjandi læknismeðferðar. Hins vegar komi skýrt fram að það sé álit C að núverandi einkenni kæranda sé að rekja til slyssins X.

Líkt og fram komi í hinni kærðu ákvörðun sé ljóst að brotið hafi sigið á meðferðartímanum og skekkjan í brotinu því aukist. Þetta sé staðfest í læknisvottorði F, dags. X, sem vísað sé til í kæru. Þá vísi kærandi til tölvupósts F til lögmanns kæranda, dags. X, þar sem F velti því upp að meðferð kæranda hafi líklega átt að vera ákveðnari strax í upphafi sem fælist þó ekki í öðruvísi gipsmeðferð heldur í notkun á ytri ramma eða innri festingu. Síðan komi orðrétt fram í umræddum tölvupósti: „Þetta er álitamál, en mín skoðun svona eftir á.“ Sjúkratryggingar Íslands geti ekki fallist á að með vísan í tölvupóst F sé augljóst að hin kærða ákvörðun sé röng líkt og fullyrt sé í kæru. Stofnunin bendi á að þarna sé um að ræða hugleiðingar meðferðarlæknis kæranda þar sem hann taki skýrt fram að þetta sé þó ávallt álitamál sem að mati Sjúkratrygginga Íslands bendi til þess að ekki hafi verið til staðar ein rétt niðurstaða/meðferð í tilviki kæranda.

Sjúkratryggingar Íslands telji, með vísan til málatilbúnaðar kæranda, að málið snúist ekki lengur um þá gipsmeðferð sem kærandi fékk í upphafi, eins og upphafleg tilkynning kæranda gaf til kynna, heldur snúist málið nú um hvort að meðferð kæranda hafi átt að vera ákveðnari í byrjun með því að notast við ytri ramma eða innri festingu. Sjúkratryggingar Íslands bendi á að samkvæmt gögnum málsins hafi brotið verið lítið tilfært í byrjun og tiltölulega stöðugt. Stöðug brot séu „ekki líkleg til þess að færast mikið úr stað og ekki talin líkleg til að bregðast við með aðgerð [svo]“. Það hafi því verið rétt mat hjá meðferðarlækni að beita gipsmeðferð í byrjun þar sem það sé ákveðin áhætta að grípa inn í brot líkt og kærandi hlaut þar sem slík brot eigi þá til að losna enn frekar. Líkt og komi fram í hinni kærðu ákvörðun hafi samtímalæknisgögn Landspítala ekki bent til annars en að meðferðin hafi verið á góðri leið og klínískar skoðanir á meðferðartímanum hafi bent til þess að beinið myndi gróa í góðri stöðu. Það að árangur meðferðar hafi orðið lakari en vonast hafi verið til sé að mati Sjúkratrygginga Íslands ekki hægt að fella undir ranga meðferð eða skort á meðferð.

Með vísan til ofangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu vegna meðferðar sem fór fram á Landspítala X.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtal­inna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hlýst af sjúkdómi sem sjúklingur er haldinn fyrir. Að mati úrskurðarnefndarinnar eiga sömu sjónarmið við þegar tjón verður rakið til afleiðinga slyss. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms eða slyss eru þannig ekki bótaskyldar, en aftur á móti getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Ef niðurstaðan sé hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Kærandi telur að að meint sjúklingatryggingaratvik falli undir 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkast í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Samkvæmt gögnum málsins slasaðist kærandi með þeim afleiðingum að hún hlaut brot á [...] úlnlið. Kærandi leitaði í kjölfarið á bráðamóttöku Landspítala þar sem hún var sett í gips. Í greinargerð meðferðaraðila, dags. X, segir:

„Talað um rangt gips. Svo tel ég ekki vera. Vissulega oftast sett í volar flexio – ulnar deviatio sem er öfugt við áverkamunstrið. Hugsanlega hefði hér átt að reyna lokaða réttinguog ef það gengi ekki vísa á ortopeda. Svo var ekki gert. Þrátt fyrir skekkju X° á liðfleti næst oftast nokkuð eðlil. hreyfigeta og sársaukalaus ef liðflöturinn sjálfur er óskaddaður. Skekkjan er tilkomin það sem brotlínan dorsalt er kurluð. Ef einhverjar athugasemdir þá hefði átt að reyna lokaða réttingu og ortoped konsult ef það gengi ekki.“

Í matsgerð C læknis, dags. X 2018, segir í forsendum niðurstöðu:

„A hafði verið heilsuhraust og einkennalaus frá griplim þegar hún lenti í vinnuslysi því sem hér um ræðir. Slysið varð með þeim hætti að tjónþoli [...], datt í gólfið og hlaut brot á [...] úlnlið. Brotið var upphaflega með tæplega X° skekkju en á meðferðartímanum jókst skekkjan í X°. Hún var til meðferðar hjá sjúkraþjálfara og hefur gengist undir skoðanir hjá handaskurðlækni, hefur ekki hug á aðgerð til að leiðrétta þá skekkju sem eftir situr. Þegar til matsfundar kemur kvartar hún um útlitbreytingu úlnliðar, hreyfiskerðingu og verki sem koma við álag en stundum upp úr þurru. Stundum gætir svefntruflunar. Við skoðun er talsverð hreyfiskerðing í [...] úlnlið, úlnliðirnir eru ekki samhverfir og eymsli eru um [...] úlnlið. Það er álit undirritaðs að núverandi einkenni tjónþola sé að rekja til slyssins X.“

Í læknisvottorði F bæklunar- og handaskurðlæknis, dags. X, segir:

„Ég get vottað, byggt á framangreindu og þeim uppýsingum sem ég hef, að áverki sá sem A hlaut í umræddu slysi getur hægilega samrýmst lýsingu hennar á tildrögum. Í slysinu hlaut hún brot í fjærenda sveifar [...] megin og skekkja, aðallega afturhalli, var í brotinu. Ekki virðist hafa verið talin þörf á að leiðrétta legu brotsins en hún var meðhöndluð með spelku í um það bil X vikur. Á meðferðartíma seig brotið enn frekar og afturhallinn varð meiri. Brotlínur gengu ekki fram í liðflöt sem er eftir því sem best verður séð óraskaður. A býr við verki í úlnlið sem að mestu leyti eru álagsbundnir auk þess sem hún er með hreyfiskerðingu í úlnliðnum og skerðingu á gripkrafti [...] handar. Ég tel ekki vera neitt auknar líkur á þróun slitgigtar í úlnliðnum sjálfum en hluta einkenna tel ég starfa af þeirri skekkju sem brotið greri í. Hugsanlega getur verið ábeinding fyrir aðgerð síðar meir, leiðréttandi beinhlutun. Sú óvinnufærni sem A lýsti fyrir mér í kjölfar slyssins og sem gerð er grein fyrir hér að framan er vel innan eðlilegra marka miðað við eðli áverka og meðferð“

Kærandi telur að tilvik hennar falli undir 2. gr. laga um sjúklingatryggingu þar sem meðferð hennar hafi verið ófullnægjandi. Með vísan til þess telur úrskurðarnefnd velferðarmála að 1. mgr. 2. gr. komi til skoðunnar.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Þar kemur fram að við beinbrotinu sem kærandi varð fyrir var beitt meðferð án skurðaðgerðar. Í kæru er látið að því liggja að gifsmeðferð kæranda hafi ekki verið með réttum hætti og vísað til umsagnar myndgreiningarlæknis við endurkomu tæplega X vikum eftir slysið. Þá er gefið til kynna að F hafi talið þetta hafa haft áhrif á stöðuna í beinbrotinu en F ber það til baka í tölvupósti til lögmanns kæranda, dags. X. Ekki liggur að öðru leyti fyrir í gögnum málsins að gifsmeðferð kæranda hafi verið áfátt.

Eftirliti var hagað með venjubundnum hætti. Úrskurðarnefnd fær ráðið af fyrirliggjandi gögnum að afturhalli í brotinu hafi verið X° eða minni á meðferðartíma allt þar til við lokaeftirlit X. Þá voru um X vikur liðnar frá slysinu og brotið tekið að gróa. Þannig hafði ekki komið fram afdráttarlaus (absolut) ábending fyrir ytri römmun né innri festingu á meðferðartíma. Eftir að brot er farið að gróa er ekki lengur ábending fyrir að gera slíkar aðgerðir brátt en eins og fram kemur í vottorði F hefur hins vegar komið til tals síðar að gera beinhlutunaraðgerð til leiðréttingar á broti kæranda. Ekki liggur fyrir að af slíkri aðgerð hafi orðið.

Úrskurðarnefnd fær ráðið af framansögðu að rannsóknum og meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt var í tilfelli kæranda og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði og því verði það ekki fellt undir 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í bréfi lögmanns kæranda til Sjúkratrygginga Íslands, dags. X, er sett fram sú ályktun að koma hefði mátt í veg fyrir að halli í beinbrotinu ykist á meðferðartíma. Það hefði til að mynda mátt gera með lokaðri réttingu og eftir atvikum frekara eftirliti með áverkanum. Máli sínu til stuðnings vitnar lögmaðurinn annars vegar til greinargerðar meðferðaraðila þar sem nefnt er að gera hefði mátt lokaða réttingu á brotinu og vísa kæranda til bæklunarlækna ef það hefði ekki gengið. Hins vegar er vitnað í vottorð F. Í því er raunar ekki fjallað um aðra meðferðarmöguleika en þá sem beitt var heldur kemur það fram í áðurnefndum tölvupósti F til lögmannsins, dags. X. Þar er velt upp þeim möguleika að beita hefði mátt „aggressivari“ meðferð strax í upphafi. Er þá átt við skurðaðgerð með ytri ramma eða innri festingu. F tekur fram að þetta sé álitamál en ekki ákveðin skoðun hans. Kærandi byggir út frá þessu á því að um bótaskylt atvik hafi verið að ræða samkvæmt 3. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Úrskurðarnefnd velferðarmála fær hvorki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að þessir tveir möguleikar hafi komið til álita við upphaf meðferðar né við eftirlit fyrstu vikurnar eftir áverkann. Eins og fram kemur í gögnum málsins reyndist beinbrotið í eðli sínu óstöðugt og slíkum brotum hættir miklu fremur til að skekkjast fyrr eða síðar á meðferðartíma en þeim sem stöðugri eru. Lokuð rétting hefði síður en svo verið til þess fallin að bæta stöðugleika brotsins þótt ef til vill hefði staðan í því batnað tímabundið við slíkt inngrip. Úrskurðarnefndin telur því ekki meiri líkur en minni á að lokuð rétting hefði ein og sér nægt til að koma í veg fyrir þá skekkju sem brotið greri að lokum með. Þá kemur til álita hvort ytri ramma eða innri festingu hefði átt að setja strax við fyrstu komu eða við eftirlit snemma í meðferðarferlinu. Sem fyrr segir fær úrskurðarnefnd ekki ráðið af fyrirliggjandi gögnum að ábending hafi verið til þeirrar meðferðar. Að framangreindu virtu telur úrskurðarnefnd ekki hafa verið leitt í ljós að komast hefði mátt hjá því tjóni sem kærandi varð fyrir með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála sú að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands um bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum