Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 90/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 90/2016

Þriðjudaginn 6. september 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir, Sigríður Ingvarsdóttir og Þórhildur Líndal.

Þann 25. febrúar 2016 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 10. febrúar 2016 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda og eiginmanns hennar voru felldar niður.

Með bréfi 1. mars 2016 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 10. mars 2016.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kæranda til kynningar með bréfi 14. mars 2016 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust með tölvupósti 17. mars 2016. Voru þær sendar umboðsmanni skuldara 23. mars 2016 og óskað eftir afstöðu embættisins. Með tölvupósti 1. apríl 2016 tilkynnti embættið að það myndi ekki gera frekari athugasemdir.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi er fædd 1985. Hún er í hjúskap og eiga hjónin [...] fædda árið X. Þau búa í eigin húsnæði að B, sem er 112,9 fermetrar að stærð. Kærandi hefur þegið endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun ríkisins.

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 21. júní 2012 var kæranda og eiginmanni hennar veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og þeim skipaður umsjónarmaður. Umsjónarmaður taldi fyrirliggjandi gögn ekki gefa nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda og eiginmanns hennar þar sem þau hefðu ekki upplýst um fjárhag sinn með fullnægjandi hætti þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar að lútandi. Með bréfi til umboðsmanns skuldara 17. apríl 2013 tilkynnti umsjónarmaður meðal annars að þar sem umsækjendur hefðu ekki skýrt fjárhag sinn nægilega teldi hann rétt að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu felldar niður, sbr. 15. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.).

Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 23. september 2013 voru greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda og eiginmanns hennar felldar niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr., sbr. 15. gr. lge., meðal annars þar sem þau hefðu ekki framvísað umbeðnum gögnum. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála sem felldi hana úr gildi 25. febrúar 2015 þar sem kærendur lögðu fram umbeðin gögn við meðferð málsins hjá kærunefndinni. Málið var því tekið til efnislegrar meðferðar hjá umboðsmanni skuldara að nýju.

Með bréfi umboðsmanns skuldara til kæranda og eiginmanns hennar 27. nóvember 2015 var þeim gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki öðru sinni ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Kærandi óskaði nánari skýringa og voru þær látnar í té með tölvupósti 6. janúar 2016.

Með bréfi 10. febrúar 2016 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda og eiginmanns hennar niður með vísan til 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi og að úrskurðarnefnd velferðarmála leggi fyrir umboðsmann skuldara að taka málið fyrir efnislega að nýju.

Kærandi telur umboðsmann skuldara ekki hafa gætt að leiðbeiningarskyldu gagnvart sér.

Málið eigi sér langa sögu. Umboðsmaður skuldara hafi tekið ákvörðun um að fella niður mál kæranda um heimild til að leita greiðsluaðlögunar 10. febrúar 2016. Þá hafi kærandi verið í greiðsluaðlögun frá 20. júní 2012 eða í þrjú og hálft ár. Kærandi hafi hvorki fengið fullnægjandi skýringar á því hvers vegna málið hafi tekið svo langan tíma né hvers vegna umsjónarmaður telji sig hafa upplýsingar sem leitt geti til niðurfellingar málsins. Kærandi hafi gert grein fyrir öllu er hún hafi verið spurð um, en ágreiningur í málinu snúist helst um hvort kærandi hafi með fullnægjandi hætti sýnt fram á að fjárhagur hennar sé nægilega glöggur og hvort hún hafi gefið villandi eða rangar upplýsingar.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara frá 10. febrúar 2016 sé byggð á sömu forsendum og fyrri ákvörðun, þ.e. að fjárhagur kæranda sé óljós og að hún hafi gefið villandi og rangar upplýsingar. Forsendur umboðsmanns séu að mati kæranda rangar en hún hafi ítrekað svarað fyrirspurnum umboðsmanns og lagt fram gögn til að skýra fjárhag sinn. Þá telur kærandi að hún hafi fengið misvísandi upplýsingar frá starfsmönnum embættisins. Henni hafi verið sagt að hún þyrfti ekki að gera grein fyrir greiðslum sem hún hafi fengið frá C vegna [...] þar sem um verktakagreiðslur væri að ræða en tekjurnar væru ekki miklar og því undanþegnar staðgreiðslu. Einnig hafi henni verið sagt að skýringar hennar væru fullnægjandi.

Kærandi hafi margítrekað spurt hvað hún gæti lagt fram til frekari skýringar til viðbótar við annað sem hún hafi lagt fram. Til að mynda hafi hún stöðugt verið í sambandi við starfsmenn umboðsmanns að eigin frumkvæði. Hún hafi látlaust þurft að ýta á eftir svörum og erfiðlega hafi gengið að fá starfsmenn embættisins til að hafa samband til baka. Kærandi hafi allan tímann verið í góðri trú um að fullnægjandi upplýsingar lægju fyrir. Ljóst sé að umboðsmaður skuldara taki skýringar kæranda ekki trúanlegar án þess að fyrir því séu aðrar ástæður en að embættið skilji þær ekki. Sé svo hljóti umboðsmaður skuldara, sem stjórnvald, að skora á kæranda að skýra málið betur, en ekki draga málið á langinn og byggja ákvörðun sína á öðru en kærandi hafi greint frá. Kærandi hafi reynt að fá skýrari svör um það hvaða gögn vanti. Einu upplýsingarnar sem hafi verið gefnar væru þær að kærandi leyndi einhverju. Kærandi hafi á hinn bóginn aldrei haft neitt að fela og ávallt verið samvinnuþýð. Það sé rangt sem umboðsmaður skuldara haldi fram að kærandi hafi ekki minnst á einn bankareikninga sinna sem hafi verið með mikla veltu. Í fyrsta viðtali sínu hjá umboðsmanni skuldara hafi kærandi lagt fram yfirlit yfir fjóra reikninga. Það hafi legið fyrir frá upphafi málsins að kærandi hafi haft til umráða fjóra reikninga sem notaðir hafi verið misjafnlega mikið. Þegar kærandi hafi farið í greiðsluskjól hafi sá reikningur ekki verið í notkun. Hún hafi ákveðið að leggja inn á hann þá fjárhæð sem hún hafi átt að leggja til hliðar í mánuði hverjum á meðan á greiðsluskjóli stæði. Umboðsmaður skuldara hafi rætt um mikla veltu á fyrrnefndum bankareikningum kæranda en það sé rangt. Oft hafi verið um að ræða millifærslur á milli eigin reikninga en það geti vart talist velta. Þetta hafi kærandi margoft útskýrt. Samkvæmt framangreindu sé því hafnað að d-liður 1. mgr. 6. gr. lge. eigi við í málinu þar sem kærandi hafi hvorki gefið rangar né villandi upplýsingar. Hið sama eigi við um b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. en fjárhagur kæranda sé ekki óljós, sé tekið tillit til skýringa kæranda.

Kærandi hafi fengið greiðslur vegna [...] frá C. Sá aðili, sem hún hafi átt í samstarfi við, hafi ekki staðið við sitt með þeim afleiðingum að kærandi hafi þurft að endurgreiða viðskiptavinum. Eftir júní/júlí 2012 hafi kærandi ekki fengið frekari greiðslur frá C. Foreldrar kæranda hafi lánað henni töluverða fjárhæð og lagt inn á reikning hennar svo að hún gæti staðið í skilum vegna þessara skuldbindinga. Að því er varði D hafi kærandi ekki fengið tekjur heldur vörur fyrir vinnuframlag. Allt liggi þetta fyrir í málinu, en séu þær upplýsingar ekki fullnægjandi beri stjórnvaldi að leiðbeina um úr hverju þurfi að bæta. Það hafi ekki verið gert heldur sé ákveðið að kærandi hafi gefið villandi og rangar upplýsingar. Því sé vísað á bug.

Kærandi geri athugasemdir við meðferð málsins. Starfsmaður umboðsmanns skuldara hafi ráðlagt henni og eiginmanni hennar að semja sjálf við kröfuhafa þrátt fyrir að vera í greiðsluskjóli. Kærandi hafi ákveðið að gera það og verið í góðri trú.

Í ljósi stöðunnar telur kærandi umboðsmann skuldara ekki geta fellt niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar þar sem allar umbeðnar upplýsingar liggi fyrir. Umboðsmaður ætti að taka málið fyrir að nýju og leita lausna fyrir kæranda. Kærandi telur einnig að hún eigi að njóta vafans í málinu.

Að mati kæranda hafa starfsmenn umboðsmanns skuldara gert mistök í málinu og gefið kæranda rangar upplýsingar. Kærandi eigi ekki þurfa að þola afleiðingar þess og óskar eftir aðstoð í einhverju formi til að gera samninga við kröfuhafa.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. komi fram að synja beri skuldara um greiðsluaðlögun hafi hann af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu.

Af gögnum málsins og samskiptum við kæranda og eiginmann hennar megi ráða að þau hafi haft tekjur af [...] frá C og [...] D. Ekki liggi fyrir hve mikla fjármuni sé um að ræða. Kærandi hafi greint frá því í tölvupósti 27. mars 2013 að hún hefði ekki haft neinar tekjur af C eftir júní 2012, en af bankayfirliti megi engu að síður ráða að kærandi hafi tekið við greiðslum frá C eftir þann tíma. Þegar kallað hafi verið eftir upplýsingum frá viðskiptabanka kæranda og manns hennar hafi komið í ljós að þau hafi verið með bankareikning nr. X en talsverð velta hafi verið á reikningnum. Við nánari eftirgrennslan umsjónarmanns hafi komið í ljós að tekjur kæranda og manns hennar fyrir D hafi farið í gegnum þennan reikning.

Kærandi og eiginmaður hennar hafi ekki upplýst um tekjur vegna C fyrr en að samþykki til greiðsluaðlögunar hafi verið veitt og umsjónarmaður með greiðsluaðlögunarumleitunum þeirra skipaður. Þá hafi þau lagt fram yfirlit yfir bankareikning nr. X og merkt sérstaklega þær færslur sem tengdust þeim viðskiptum. Að mati umboðsmanns verði að telja þessar upplýsingar mikilsverðar í málinu, enda fáist ekki heildarmynd af fjárhag kæranda án þess að allar upplýsingar um tekjur liggi fyrir.

Embætti umboðsmanns skuldara telji að stór hluti tekna kæranda sé ekki gefinn upp til skatts. Þá liggi ekki fyrir hverjar heildartekjur hennar séu, enda hvorki fyrir hendi rekstrarskýrslur né aðrar samantektir vegna teknanna. Því liggi ekkert fyrir um rekstrarkostnað auk þess sem ljóst sé að kærandi hafi ekki greitt lögboðin gjöld og skatta. Embættið telji ekki mögulegt að fá heildarsýn yfir fjárhag kæranda, tekjur hennar og útgjöld þegar hún gefi tekjur ekki upp til skatts, sbr. 1. mgr. 90. gr. laga um tekjuskatt nr. 90/2003.

Þá telji umboðsmaður að með því að upplýsa ekki um D og leggja ekki fram bankayfirlit vegna reiknings nr. X hafi kærandi og eiginmaður hennar með ráðnum hug veitt ófullnægjandi og villandi upplýsingar um fjárhag sinn.

Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi embættið ekki átt annars kost en að fella greiðsluaðlögunarheimildir kæranda niður samkvæmt 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda verði staðfest.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og d-liða 1. mgr. 6. gr. laganna.

Kærandi telur umboðsmann skuldara ekki hafa uppfyllt leiðbeiningarskyldu gagnvart sér. Samkvæmt 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga skal stjórnvald veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál er snerta starfssvið þess. Af reglunni leiðir að stjórnvaldi ber að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði. Einnig er talið að stjórnvaldi sé skylt að veita leiðbeiningar um þær réttarheimildir sem á reynir og reglur um málsmeðferð. Í ákvæði 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga felst þó ekki skylda til að veita umfangsmikla eða sérfræðilega ráðgjöf.

Við meðferð málsins hjá umboðsmanni skuldara var kæranda sent bréf 27. nóvember 2015 þar sem henni var gerð grein fyrir málinu, gefið færi á að tjá sig um það og hverju það varðaði ef hún brygðist ekki við bréfinu. Þar kom einnig fram að ókleift væri að fá heildarsýn yfir fjárhag kæranda þar sem ekki lægi fyrir hverjar heildartekjur hennar væru. Fram hefði komið að hún hefði tekjur af [...], en engin gögn lægju fyrir um hve miklar tekjur það væru og ekki gerð grein fyrir þeim á skattframtali. Umboðsmaður teldi fjárhag kæranda því óljósan í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Í tölvupósti umboðsmanns til kæranda 5. janúar 2016 kom einnig fram að fjárhagur kæranda teldist óskýr á meðan hún gæfi heildartekjur sínar ekki upp til skatts, enda gæti embættið ekki byggt ákvörðun sína á öðru en opinberum gögnum. Þá var kæranda enn boðið að leggja fram gögn. Það gerði hún ekki. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefndin að kærandi hafi fengið fullnægjandi leiðbeiningar í málinu og að málsmeðferð umboðsmanns skuldara hafi verið í samræmi við leiðbeiningarreglu stjórnsýslulaga.

Kærandi telur málsmeðferðartíma jafnframt hafa verið of langan. Kæranda og eiginmanni hennar var veitt heimild til greiðluaðlögunar í júní 2012 og umsjónarmaður skipaður í kjölfarið. Heimild kæranda til greiðsluaðlögunar var felld niður í fyrra skiptið í september 2013 þar sem kærandi hafði ekki lagt fram umbeðin gögn. Sú ákvörðun var kærð til kærunefndar greiðsluaðlögunarmála. Úrskurður kærunefndar gekk 19. febrúar 2015 og var ákvörðun umboðsmanns skuldara felld úr gildi þar sem fyrrnefnd gögn voru lögð fram við málsmeðferð hjá kærunefndinni. Málið fór því aftur til umboðsmanns skuldara til meðferðar. Á þeim tíma sem málið var til meðferðar hjá umboðsmanni öðru sinni óskaði kærandi ítrekað eftir frestum meðal annars þar sem kærandi kvaðst sjálf standa í samningaumleitunum við kröfuhafa. Umboðsmaður skuldara tók svo ákvörðun í málinu í febrúar 2016. Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og í ljósi atvika málsins telur úrskurðarnefndin að málsmeðferðartími umboðsmanns skuldara hafi verið innan eðlilegra marka.

Ákvæði 15. gr. lge. nær samkvæmt orðanna hljóðan yfir skilyrði greiðsluaðlögunar samkvæmt lögunum og á við þegar fram koma upplýsingar við greiðsluaðlögunarumleitanir sem ætla má að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli laganna. Í skýringum við frumvarp til lge. segir um ákvæði 15. gr. að þar sé fyrst og fremst átt við þau tilvik þar sem nánari skoðun umsjónarmanns eða nýjar upplýsingar leiði til þess að skuldari uppfylli ekki skilyrði greiðsluaðlögunar.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Hér er gert ráð fyrir að skuldari taki virkan þátt í og sýni viðeigandi viðleitni við að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar ef skuldari hefur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Í skýringum við 6. gr. í athugasemdum við frumvarp til laganna er áréttað mikilvægi þess að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um allt sem lýtur að fjárhagslegum málefnum hans og að hann verði við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem skuldara einum er unnt að afla eða gefa.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara í málinu byggist á því að fyrirliggjandi gögn gefi ekki nægilega glögga mynd af fjárhag kæranda eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar þar sem ekki liggi fyrir upplýsingar um tekjur kæranda af [...].

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir umsókn um greiðsluaðlögun. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn þegar fyrirliggjandi gögn gefa ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Samkvæmt skattframtali ársins 2013 vegna tekna ársins 2012 voru tekjur kæranda á því ári atvinnuleysisbætur að fjárhæð 921.865 krónur, greiðsla frá Tryggingastofnun að fjárhæð 3.256 krónur, félagsleg aðstoð að fjárhæð 15.959 krónur og verktakagreiðslur að fjáhæð 40.000 krónur. Ekki liggur fyrir hvaðan verktakagreiðslurnar bárust. Af yfirliti yfir bankareikning kæranda nr. X má sjá að kærandi fékk greiðslur frá mörgum einstaklingum á tímabilinu júlí 2012 til nóvember 2012. Þá greiddi kærandi E alls 970.498 krónur á tímabilinu, en kærandi hefur greint frá því að hún hafi greitt þá fjárhæð til [...] Engar upplýsingar liggja fyrir um hvort, hvenær og hvaða tekjur kærandi hafði af [...] en ekki er gerð grein fyrir þessum rekstri kæranda á skattframtölum. Þá kvaðst kærandi hafa ákveðið að leggja það fé sem hún sparaði í greiðsluskjólinu inn á nefndan bankareikning en sú fullyrðing hennar á sér ekki stoð í gögnum málsins.

Samkvæmt framangreindu eru ekki fyrir hendi nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að leggja mat á fjárhag kæranda samkvæmt ákvæðum lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kæranda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að þar sem kærandi hafi ekki lagt fram yfirlit yfir fyrrnefndan bankareikning nr. X hafi hún með ráðnum hug sýnt af sér grófa vanrækslu eða veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Þótt fallast megi á að kærandi hafi ekki veitt allar upplýsingar greiðlega, og þar með tafið fyrir því að ákvörðun yrði tekin í málinu, telur úrskurðarnefndin ekki tilefni til að fullyrða að kærandi hafi með háttsemi sinni brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Þar er meðal annars litið til þess að kærandi undirritaði umboð til umboðsmanns skuldara í maí 2012 þar sem embættinu var veitt heimild til að afla upplýsinga um fjárhag kærenda hjá þriðja aðila að því marki sem nauðsynlegt væri til úrvinnslu málsins.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. sömu laga, á grundvelli þess að fjárhagur kæranda teljist óglöggur, er samkvæmt framansögðu staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum