Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20um%20uppl%C3%BDsingam%C3%A1l

761/2018. Úrskurður frá 28. september 2018

Úrskurður

Hinn 28. september 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 761/2018 í máli ÚNU 18060003.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 7. júní 2018, kærði A, blaðamaður Stundarinnar, ákvörðun embættis ríkissaksóknara um synjun beiðni um aðgang að gögnum er varða símhlustun.

Í gagnabeiðni kæranda var óskað eftir svörum við spurningum í sex tölusettum liðum, svohljóðandi:

  1. Hversu oft hefur verið beðið um heimild til hlerunar frá ársbyrjun 2014, flokkað eftir tegundum brota sem til rannsóknar voru?
  2. Hversu oft á framangreindu tímabili hefur heimild verið veitt til símahlustunar á grundvelli laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008, sundurgreint eftir þeim tegundum brota sem til rannsóknar voru, dómstólum sem veittu heimildina og lagaákvæðum sem vísað var til við rökstuðning beiðni?
  3. Hversu oft hefur verið synjað um heimild til hlerunar, sundurgreint eftir tegundum brota sem til rannsóknar voru og dómstólum?
  4. Hversu lengi stóð hlerun yfir í hverju tilviki, sundurgreint eftir tegundum brota sem til rannsóknar voru og dómstólum?
  5. Í hversu mörgum tilvikum þar sem hlerun var beitt var sá sem var hleraður ekki ákærður eða sýknaður ef ákært var, sundurliðað eftir brotategundum og dómstólum?
  6. Í ljósi breytinga sem voru gerðar á sakamálalögunum sem tóku gildi í upphafi árs 2017 og fólu í sér að kvaddur skyldi lögmaður til að gæta hagsmuna þess sem hleraður er, sbr. 2. mgr. 84. gr., hversu oft hefur, að kröfu ákæruvaldsins uppfylltri, lögmaðurinn kært úrskurð dómarans til æðra dóms?

Fram kemur að dómsmálaráðherra hafi svarað sams konar fyrirspurn varðandi tímabilið 2008-2013 á Alþingi árið 2014.

Í hinni kærðu ákvörðun, dags. 9. maí 2018, segir að embætti ríkissaksóknara hafi ekki á takteinum þær upplýsingar sem óskað sé eftir og leggja yrði í nokkra vinnu til að taka upplýsingarnar saman. Vegna annarra verkefna verði það ekki gert og fyrirspurninni verði því ekki svarað efnislega. Í kæru krefst kærandi þess að embættið veiti upplýsingarnar. Hin kærða ákvörðun sé röng þar sem embættið fari með eftirlit með símhlustunum skv. XI. kafla laga um meðferð sakamála. Í 3. málsl. 3. mgr. 85. gr. laganna segi að ríkissaksóknari skuli árlega gefa út skýrslu um framkvæmd eftirlits með símhlustunum og beitingu aðgerða skv. 80.-82. gr. Í ljósi þess geti 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga ekki átt við enda þurfi ekki að útbúa ný gögn til að svara fyrirspurninni. Loks eru gerðar athugasemdir við málsmeðferð embættis ríkissaksóknara. Ákvörðunin hafi ekki verið rökstudd og ekki gefnar leiðbeiningar um rétt til kæru.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 12. júní 2018, var embætti ríkissaksóknara kynnt kæran og veittur frestur til að koma á framfæri umsögn um hana. Jafnframt var óskað eftir því að úrskurðarnefnd um upplýsingamál yrði látið í té afrit af þeim gögnum sem kæra beinist að.

Í umsögn embættis ríkissaksóknara, dags 14. ágúst 2018, kemur í fyrsta lagi fram að hin kærða ákvörðun hafi ekki falið í sér synjun á beiðni um aðgang að gögnum. Skýrt komi fram að umbeðin gögn séu ekki til. Beiðni kæranda feli því í sér ósk um vinnslu upplýsinga upp úr öðrum fyrirliggjandi gögnum, þ.e. tölfræðivinnslu. Vísað er til 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga þar sem fram kemur að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiði af 3. mgr. 5. gr. Þessu til viðbótar gildi upplýsingalög ekki um rannsókn sakamála eða saksókn, sbr. 1. mgr. 4. gr. upplýsingalaga. Öll gögn sem umbeðin tölfræðivinnsla byggi á séu gögn sakamála sem aflað hafi verið í tengslum við rannsóknir slíkra mála með heimildum í lögum um meðferð sakamála. Þau séu því undanþegin aðgangi almennings.

Með bréfi, dags. 20. júní 2018, var kæranda kynnt umsögn embættis ríkissaksóknara og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki barst svar við bréfinu.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda, sem er starfsmaður fjölmiðils, til aðgangs að upplýsingum frá embætti ríkissaksóknara.

Ríkissaksóknari hefur vísað til þess að beiðni kæranda beinist ekki að fyrirliggjandi gögnum í skilningi 1. og 2. málsl. 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, heldur sé farið fram á að safnað sé saman upplýsingum úr öðrum fyrirliggjandi gögnum. Það sé embættinu hins vegar ekki skylt á grundvelli 3. málsl. ákvæðisins þar sem fram kemur að ekki sé skylt að útbúa ný skjöl eða önnur gögn í ríkari mæli en leiðir af 3. mgr. ákvæðisins. Um þessi rök er það að segja að þegar aðilum, sem falla undir gildissvið upplýsingalaga, berst beiðni um aðgang að upplýsingum ber þeim að afmarka beiðnina við gögn í vörslum sínum, sbr. 15. gr. laganna, og taka afstöðu til réttar beiðanda til aðgangs að gögnunum með rökstuddri ákvörðun. Þessi skylda nær bæði til þess að meta rétt beiðanda til aðgangs að hluta, sbr. 3. mgr. 5. gr. upplýsingalaga, og að framkvæma mat á ólíkum hagsmunum sem vega þarf saman við beitingu á undantekningarákvæðum laganna. Þegar svo háttar til að beiðnin nær samkvæmt efni sínu til upplýsinga sem nauðsynlegt væri að vinna upp úr öðrum gögnum dugar því jafnan ekki að synja beiðninni á grundvelli 3. málsl. 1. mgr. 5. gr. heldur ber að taka afstöðu til þess hvort beiðandi eigi rétt til aðgangs að gögnunum þar sem umbeðnar upplýsingar er að finna, svo hann geti sjálfur tekið þær saman, sbr. t.d. úrskurð úrskurðarnefndar um upplýsingamál nr. 738/2018. Taka ber fram að úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til að draga í efa þá fullyrðingu embættis ríkissaksóknara að tölfræði um beitingu úrræðanna sé ekki fyrirliggjandi hjá embættinu.

Eins og hér háttar til verður að hafa hliðsjón af gildissviði upplýsingalaga skv. I. kafla laganna. Skv. 1. mgr. 4. gr. gilda lögin ekki um rannsókn sakamáls eða saksókn. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi því er síðan varð að upplýsingalögum nr. 140/2012 kemur fram að rannsókn sakamála og saksókn séu undanskilin gildissviði upplýsingalaga og að um aðgang að slíkum gögnum fari eftir sérákvæðum laga um meðferð sakamála. Þá kemur jafnframt fram í athugasemdum við 6. gr. frumvarpsins að ákvæði 1. mgr. 4. gr. feli í sér að öll gögn mála á þessu sviði séu í heild sinni undanþegin upplýsingarétti. Þar sem beiðni kæranda tekur að öllu leyti til upplýsinga úr málum sem varða rannsóknarúrræði skv. lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008 verður réttur hans til aðgangs ekki byggður á ákvæðum upplýsingalaga skv. 1. mgr. 4. gr. þeirra.

Samkvæmt framangreindu verður ekki hjá því komist að vísa kæru kæranda frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru kæranda, A, blaðamanns, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum