Hoppa yfir valmynd
Mannanafnanefnd

Mál nr. 36/2014, úrskurður 20. júní 2014      

Mál nr. 36/2014
Eiginnafn: Íshak

Hinn 20. júní 2014 kveður mannanafnanefnd upp svohljóðandi úrskurð í máli 36/2014 en erindið barst nefndinni 16. apríl.

Til að hægt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá þarf öllum skilyrðum 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn að vera fullnægt. Skilyrðin eru þessi: (1) Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. (2) Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. (3) Nafnið skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977, um íslenska stafsetningu.

Eiginnafnið Íshak (kk.) samræmist ekki ofangreindum reglum að öllu leyti, og er því ekki unnt að fallast á það. Verður þessi niðurstaða nú nánar rökstudd.

Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn er hægt að hefða frávik frá skilyrðum (1) og (3). Hefð er ekki tilgreind í skilyrði (2) enda verður að byggja á því að málkerfið sé í skilningi laga um mannanöfn meðal annars mótað af hefðum. Fær það staðfestingu í skýringum sem fylgdu 5. gr. frumvarps til laga um mannanöfn, en þar er tekið fram að íslenskt málkerfi sé samsafn þeirra reglna sem unnið hafi sér hefð í íslensku máli.

Til stuðnings við mat á hefð í 5. gr. laga um mannanöfn hefur mannanafnanefnd stuðst við vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006, og byggðar eru á greinargerð með frumvarpi til laga um mannanöfn og eldri vinnulagsreglum. Er í reglunum byggt á því að hugtakið hefð í lögum um mannanöfn varði einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli 1703 þegar manntal var tekið fyrsta sinni. Vinnulagsreglurnar eru svohljóðandi:

1.      Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:

a.       Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;

b.      Það er nú borið af 10­–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;

c.       Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;

d.      Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;

e.       Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.

2.      Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa átt lögheimili á Íslandi.

3.      Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningarhelgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.

Tekið skal fram að vinnulagsreglurnar eru mannafnanefnd til stuðnings við mat sitt, en ekki ráðandi um niðurstöðuna bendi önnur atriði engu að síður til þess að ritháttur nafns hafi hefðast. 

Þrátt fyrir að framangreind viðmið varði einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem hafa ekki aðlagast ritreglum íslensks máls hafa reglurnar bæði verið lagðar til grundvallar við mat á rithætti nýrra erlendra nafna í íslensku máli sem og við mat á íslenskum nöfnum sem notuð hafa verið sparlega en dæmi eru til um engu að síður, sbr. til að mynda eiginnafnið Reykdal, sbr. dóm Héraðsdóms Reykjavíkur frá 19. desember 2013. Að síðastgreindu leyti geta vinnulagsreglurnar því verið til stuðnings við mat á því hvort tiltekið nafn sé í samræmi við íslenskt málkerfi. Áréttað skal að til fleiri atriða þarf þó að líta við það mat, s.s. til hliðstæðra nafna í málinu.

Eiginnafnið Íshak tekur íslenska eignarfallsendingu. Það fullnægir því skilyrði (1) skv. 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn.

Ef nafnið Íshak er önnur ritun eiginnafnsins Ísak (kk.) er stafsetning þess ekki í samræmi við skilyrði (3) í sama ákvæði, þ.e. skilyrði um rithátt. Í íslensku máli er h ekki ritað inni í orði í ósamsettum orðum. Jafnframt myndi rithátturinn fela í sér afbökun rótgróins ritháttar á Ísak. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá Íslands ber enginn nafnið Íshak í þjóðskrá. Nafnið kemur ekki fyrir í manntölum frá 1703–1910. Stafsetningin Íshak er því ekki hefðuð í skilningi 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Fræðilega mætti líta svo á að nafnið væri samsetning af orðunum ís og hak. Í því tilviki væri ekki hægt að fullyrða að nafnið væri stafsett í andstöðu við íslenskar ritreglur eins og það skilyrði er fram sett í lögum.

Forsenda þess að nafnið standist kröfur um íslenska stafsetningu, sbr. framangreint, er sú að byggt sé á að það sé samsett úr orðunum ís og hak. Ef svo væri rækist nafnið hins vegar á skilyrði (2) í 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn en þar er kveðið á um að nafn skuli vera í samræmi við íslenskt málkerfi. Það er niðurstaða mannanafnanefndar, eftir ítarlega skoðun íslenska mannanafnaforðans, að ein af þeim reglum sem myndast hafa um mannanöfn og sé hluti málkerfisins, sé að seinni liður samsettra karlmannsnafna, þ.e. nafna sem mynduð eru með samsetningu íslenskra orða eða orðstofna, skuli ekki leiddur af hvorugkyns nafnorði. Á þeirri reglu kunna að vera mjög afmarkaðar og hefðaðar undantekningar. Sú eina sem nefndin hefur getað leitt fram með athugunum sínum eru nöfn sem enda á –berg (stytting á –bergur). Á sú undantekning enda meira skylt með öðrum nöfnum þar sem nefnifallsendingu er sleppt, s.s. nöfnum sem enda á –vald, –varð eða -dal. Er undantekningin um –berg svo afmörkuð að ekki verður séð að vegna hennar, eða mögulegra annarra afmarkaðra frávika, sé haggað tilvist framangreindrar málkerfisreglu.

Af framangreindu leiðir að ef litið er svo á að nafnið Íshak sé ný stafsetning af nafninu Ísak þá fullnægir nafnið ekki skilyrði (3) í 1. mgr. 5. gr. laga um mannanöfn. Ef litið er svo á að nafnið sé samsett úr orðunum ís og hak samræmist það ekki skilyrði (2) í sama lagaákvæði. Með hliðsjón af þessu er mannanafnanefnd skylt að hafna ósk um eiginnafnið Íshak (kk.). 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Íshak (kk.) er hafnað.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum