Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20vegna%20kosninga

Úrskurður í máli nr. DMR19070007

 

Ár 2019, 7. ágúst er í dómsmálaráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi
ú r s k u r ð u r
í máli nr. DMR19070007

Kæra Vigdísar Hauksdóttur
á úrskurði
kjörnefndar sem skipuð var af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu

I. Kröfur, kæruheimild og kærufrestur
Hinn 1. júlí 2019 móttók ráðuneytið kæru Vigdísar Hauksdóttur, kt. [...], til heimilis að [...] (hér eftir nefnd kærandi), á úrskurði kjörnefndar, sem skipuð var af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, vegna kosninga til borgarstjórnar Reykjavíkur sem fram fóru hinn 26. maí 2018, uppkveðnum hinn 24. júní 2019. Í úrskurðinum er kærunni vísað frá.

Þess er krafist að ráðuneytið vísi kærunni til efnismeðferðar hjá kjörnefndinni, þ.e. til ógildingar kosninganna og ef ,,dómsmálaráðuneytið telji ekki þá vísun rétta er þess krafist að ráðuneytið vísi kærunni til rétts stjórnvalds, eða úrskurði sjálft efnislega.“

Úrskurðurinn er kærður til ráðuneytisins á grundvelli 3. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 og barst kæran fyrir lok kærufrests samkvæmt sama lagaákvæði.

II. Málsatvik og meðferð málsins hjá ráðuneytinu

Hinn 14. febrúar 2019, lagði kærandi fram kæru hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna borgarstjórnarkosninga sem fram fóru í Reykjavík hinn 26. maí 2018. Var kæran lögð fram í kjölfar ákvörðunar Persónuverndar frá 7. febrúar 2019, en í ákvörðuninni voru gerðar athugasemdir við vinnslu á persónuupplýsingum í aðdraganda borgarstjórnarkosninga í Reykjavík sem fram fóru á árinu 2018. Taldi kærandi að þrátt fyrir að kærufrestur skv. lögum um kosningar til sveitarstjórna væri löngu liðinn, þá liti hún svo á að í ljósi athugasemda Persónuverndar um að Reykjavíkurborg hefði ekki gætt að ákvæðum persónuverndarlaga í aðdraganda kosninganna, teldi hún að nýr kærufrestur hafi byrjað að líða við ákvörðun Persónuverndar. Með ákvörðun, dags. 21. febrúar 2019, vísaði sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu kærunni frá. Byggði sýslumaður á því að þar sem kærufrestur skv. 1 mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna væri sjö dagar frá því að úrslitum kosninga væri lýst, þá væri það hafið yfir allan vafa að kærufrestur væri löngu liðinn, auk þess sem hvergi væri að finna heimild til að framlengja kærufrestinn hvorki í lögunum sjálfum né í athugasemdum með frumvarpi til laganna. Kærandi kærði ákvörðun sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, um að vísa kærunni frá, til ráðuneytisins með bréfi dags. 29. apríl 2019. Ráðuneytið kvað upp úrskurð sinn hinn 31. maí 2019. Í úrskurðinum var ákvörðun sýslumanns felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að skipa þriggja manna nefnd til að taka afstöðu til kæruefnisins, sbr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna. Hinn 7. júní 2019 skipaði sýslumaður þriggja manna nefnd, á grundvelli 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, til að taka afstöðu til kæruefnisins. Hinn 13. júní s.á. veitti sýslumaður einum nefndarmanna lausn frá störfum að eigin ósk og skipað annan mann í hans stað. Hinn 24. júní 2019 kvað kjörnefndinn upp úrskurð sinn og vísaði kærunni frá.


III. Úrskurður kjörnefndar

Hin kærði úrskurður er svohljóðandi:

Ár 2019, mánudaginn 24. júní, kom kjörnefnd samkvæmt 93. gr. laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna saman til að fjalla um kærur þeirra Vigdísar Hauksdóttur,  […] vegna sveitarstjórnarkosninga í Reykjavík 26. maí 2018 en með bréfum Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu,  dags. 7. og 13. júní 2019, voru lögmennirnir Ásgeir Þór Árnason, Hulda Rós Rúriksdóttir og Sigurður Jónsson, skipuð í nefndina til að úrskurða um ofangreindar kærur. Á fundinum var kveðinn upp svohljóðandi

Ú R S K U R Ð U R:
I


Kæra Vigdísar Hauksdóttur til Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu var móttekin 14. febrúar 2019. [...]


II


Í kærubréfi Vigdísar Hauksdóttur segir að hún „...kæri borgarstjórnarkosningarnar sem fóru fram þann 26. maí 2018.“ [...]Kjörnefndin lítur svo á  kröfur beggja kærenda séu þær að ógilda beri borgastjórnarkosningarnar sem fram fóru í Reykjavík þann 26. maí 2018 og að ekkert sé því til fyrirstöðu að nefndin taki afstöðu til þeirra í einum sameiginlegum úrskurði. 

Í kærubréfi Vigdísar Hauksdóttur er tekið fram að þrátt fyrir að kærufrestur sé einungis 7 dagar samkvæmt lögum um kosningar til sveitarstjórna þá líti kærandi svo á að í þessu tilviki eigi upphaf kærufrests að miðast við 7. febrúar 2019 en þann dag var úrskurður Persónuverndar birtur Reykjavíkurborg en með úrskurðinum gerði Persónuvernd alvarlegar athugasemdir við framkvæmd og aðdraganda kosninganna.  Í kærubréfi  [...] segir að  kærandinn telji að kærufrestur 1. mgr. 93 gr. laga nr. 5/1998 gildi ekki í þessu tilfelli því „upplýsingar um blekkingar meirihlutans gagnvart Persónuvernd eru nýjar og því ekki hægt að saka frambjóðendur um tómlæti vegna þess að kæra berist á þessum degi.“

III


Vegna framkominna kæra tók Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu þá ákvörðun þann 21. febrúar 2019, að vísa kærunum frá. Byggðist sú ákvörðun sýslumanns á því að kærufrestur sá sem tiltekinn sé í 1. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 hafi verið liðinn enda sé kærufrestur einungis sjö dagar frá því að úrslitum kosninga sé lýst. Vigdís Hauksdóttir kærði ákvörðun sýslumanns til dómsmálaráðuneytisins þann 29. apríl 2019. Með úrskurði, dags 31. maí 2019, felldi ráðuneytið ákvörðun sýslumanns úr gildi og lagði fyrir sýslumann að skipa þriggja manna nefnd til að taka afstöðu til kæruefnisins sbr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998.  [...] kærði ákvörðun Sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu frá 21. febrúar 2019 ekki til dómsmálaráðuneytisins en með tölvubréfi hans frá 6. júní 2019 fór hann þess á leit að sýslumaður tæki kæru hans til meðferðar í samræmi við niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins vegna kæru Vigdísar.

IV


Í samræmi við 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 aflaði nefndin umsagnar yfirkjörstjórnarinnar í Reykjavík og barst umsögnin nefndinni þann 18. júní 2019. Í umsögninni kemur fram að yfirkjörstjórn Reykjavíkur telji að kærufrestur sé liðinn og að engar haldbærar málsástæður, sem kunni að leiða til þess að kærufrestur verði ákveðinn annar en samkvæmt 1. mgr. 93. gr., hafi komið fram.  Nefndin aflaði fundargerða frá yfirkjörstjórn Reykjavíkur og hefur jafnframt kynnt sér viðkomandi fundi borgarstjórnar og borgarráðs á vef Reykjavíkurborgar. Þar kemur m.a. fram að á fundi borgarstjórnar 15. maí 2018 hafi komið fram tillaga um að vísa tillögum um leiðir og aðgerðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningunum 2018 til umsagnar Persónuverndar.  Jafnframt kemur fram að málið hafi verið rætt ítarlega á fundi borgarráðs þann 31. maí 2018.

V


Samkvæmt 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 er kærufrestur 7 dagar frá því að lýst er úrslitum kosninga. Kosningarnar til borgarstjórnar Reykjavíkur fóru fram laugardaginn 26. maí 2018 og var úrslitum þeirra lýst daginn eftir eða sunnudaginn 27. maí 2018. Samkvæmt því rann lögbundinn kærufrestur  út sunnudaginn 2. júní 2018. 

Ekki eru í lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998 ákvæði um að framlengja megi þann frest sem kveðið er á um í 1. mgr. 93. gr. Sá frestur og frestur, sem nefndin hefur til öflunar umsagnar og uppkvaðningar úrskurðar skv. 2. mgr. 93. gr., eru ákveðnir afar skammir vegna lýðræðislegrar nauðsynjar á að nýkjörin sveitarstjórn geti tekið til starfa 15 dögum eftir kjördag, sbr. 1. mgr. 96. gr. Í lokamálsgrein 93. gr. er síðan kveðið á um að ef kosning er úrskurðuð ógild láti fráfarandi sveitarstjórn ekki af störfum fyrr en kosning hefur farið fram að nýju.  Nefndin telur að ekki sé heldur í öðrum lögum eða réttarheimildum að finna heimild til þess að nefndin geti framlengt þennan frest eða geti ákvarðað að upphaf hans verði fært til síðara tímamarks en þess er úrslitum kosninga er lýst.
    
Með vísan til  þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kjörnefndarinnar að kærur Vigdísar Hauksdóttur og  [...] séu of seint fram komnar og verða því ekki teknar til efnismeðferðar. Kærunum er vísað frá.

ÚRSKURÐARORÐ:
Kærum Vigdísar Hauksdóttur og  [...] um ógildingu borgastjórnarkosninga, sem fram fóru í Reykjavík þann 26. maí 2018, er vísað frá.

IV. Málsástæður kæranda

Í kæru segir að kærandi hafi á öllum stigum málsins viðurkennt að kærufrestur sá sem kveðið sé á um í lögum um kosningar til sveitarstjórna sé löngu liðinn, en vegna alvarlegra athugasemda við aðgerðir Reykjavíkurborgar í aðdraganda borgarstjórnarkosninganna, sbr. ákvörðun Persónuverndar í máli nr. 2018/831, sem birtur hafi verið Reykjavíkurborg hinn 7. febrúar 2019, líti hún svo á að nýr kærufrestur hafi byrjað að líða þann dag.

Vísar kærandi til þess að um alvarlegt lögbrot hafi verið að ræða af hálfu Reykjavíkurborgar í aðdraganda kosninganna og styður það við niðurstöðu Persónuverndar í fyrrgreindu máli. Telur kærandi að leiða megi að því sterkar líkur að úrslit borgarstjórnarkosninganna hefðu orðið önnur hefði Reykjavíkurborg ekki farið í þær aðgerðir í aðdraganda kosninganna sem Persónuvernd taldi ámælisverðar og ekki í samræmi við persónuverndarlög. 

Kærandi vekur einnig athygli á 2. mgr. 93. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna þar sem segir að leita skuli umsagnar yfirkjörstjórnar um kæru og að yfirkjörstjórn skuli láta upp álit sitt innan viku frá því að hún hafi fengið kæruna og kjörnefndin eigi að kveða upp úrskurð sinn innan viku þar frá. Telur kærandi það ljóst að ekki hafi verið farið eftir þessu við meðferð málsins, en hún geri ekki athugasemd við það að svo stöddu, þar sem yfirkjörstjórn hafi verið gefið færi á að skila umsögn sinni. Jafnframt bendir kærandi á að þegar yfirkjörstjórn hafi borist bréf kjörnefndar þar sem óskað hafi verið eftir umsögn yfirkjörstjórnar þá hafi sá nefndarmaður sem óskaði síðar lausnar frá störfum nefndarinnar enn verið starfsmaður kjörnefndarinnar. Í þessu sambandi bendir kærandi á hún hafi talið umræddan kjörnefndarmann vanhæfan til þess að fjalla um kæruna, vegna fyrri starfa á skrifstofu borgarstjórnar.

Þá telur kærandi það athyglisvert að yfirkjörstjórn, í umsögn sinni, leggist í vörn varðandi ákvöðrun Persónuverndar. Bendir hún jafnframt á að í fundargerðum yfirkjörstjórnar sé lítið bókað um aðkomu Persónuverndar að málinu og hvorki getið um bréf Persónuverndar til Reykjavíkurborgar vegna frumkvæðisathugunar, dags. 18. maí 2018, né önnur þau erindi sem eftirlitsstofnanir ríkisins höfðu sent Reykjavíkurborg og farið sé yfir í fyrri kæru. Telur kærandi að um alvarlegt tómlæti hafi verið að ræða hjá yfirkjörstjórn Reykjavíkurborgar sem verði að rannsaka efnislega og þarfnist frekari skýringa.

Loks vísar kærandi til bókunar sinnar á fundi borgarráðs hinn 27. júní 2019, þar sem umfjöllunarefnið er hinn kærði úrskurður kjörnefndar. Þar bendir hún á að það sé eingöngu hálfur sannleikur sem komi í ljós í IV. kafla hins kærða úrskurðar þegar vitnað sé til umsagnar yfirkjörstjórnar. Það sé rétt sem í úrskurðinum segi að á fundi borgarstjórnar hinn 15. maí 2018 hafi komið fram tillaga um að vísa tillögum um leiðir og aðgerðir til að auka kosningaþátttöku í borgarstjórnarkosningunum 2018 til umsagnar Persónuverndar, en hins vegar sé þess ekki getið í úrskurðinum að tillagan hafi verið felld af þáverandi meirihluta sem flutti tillögu, sem samþykkt var af sömu aðilum,  þess efnis að vísa tillögunni til borgarráðs.

V. Niðurstaða ráðuneytisins

Um kosningakærur vegna kosninga til sveitarstjórna er fjallað í lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998. Í XIV. kafla kosningalaga er fjallað um kosningakærur, og er 93. gr. laganna svohljóðandi:

Sá sem vill kæra sveitarstjórnarkosningu skal afhenda kæru sína hlutaðeigandi sýslumanni það innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga.
Viðkomandi sýslumaður skal skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið þegar er honum hefur borist kæra. Skal leita umsagnar yfirkjörstjórnar um kæru og skal hún láta uppi álit sitt innan viku frá því að hún fékk kæruna og kjörnefnd kveða upp úrskurð sinn innan viku þar frá.
Úrskurði nefndarinnar má skjóta til ráðuneytisins og skal tilkynning um kæruna komin til ráðuneytisins innan viku og skjöl þau, er kærunni kunna að fylgja, sett í póst innan sama tíma.

 

Kæruheimild vegna afstaðinna kosninga til sveitarstjórna er í 1. mgr. 93. gr. Í 2. mgr. ákvæðisins er lagt fyrir sýslumann að skipa þriggja manna nefnd til að úrskurða um kæruefnið, hafi honum borist kæra. Úrskurði þeirrar nefndar má síðan skjóta til ráðuneytisins, sbr. 3. mgr. 93. gr. laganna.

Ráðuneytið tekur undir niðurstöðu hins kærða úrskurðar og áréttar að ákvæði 1. mgr. 93. gr. laganna er skýrt um það að sá sem vill kæra afstaðnar sveitarstjórnarkosningar skuli gera það innan sjö daga frá því að lýst var úrslitum kosninga. Úrslitum borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík sem fram fóru 26. maí 2018, var lýst sunnudaginn 27. maí 2018. Óumdeilt er að kærandi lagði fram kæru sína hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu hinn 14. febrúar 2019 og því ljóst að kæran barst ekki innan þess kærufrest sem áskilið er 1. mgr. 93. gr. laganna. Hvorki í lögunum sjálfum né lögskýringargögnum er vikið að því að undir einhverjum kringumstæðum sé heimilt að víkja frá þeim sjö daga kærufresti sem skýrlega er ákvarðaður í 1. mgr. 93. gr. laganna. Ráðuneytið getur ekki fallist á þau rök kæranda að niðurstaða Persónuverndar í máli nr. 2018/831, breyti einhverju þar um, enda hníga engin lagarök til þeirrar niðurstöðu.

Með vísun til alls framangreinds verður úrskurður kjörnefndar um að vísa frá þeirri kæru sem kærandi lagði fram hinn 14. febrúar 2018 staðfest. Á grundvelli framangreindrar niðurstöðu tekur ráðuneytið því kæruna ekki til efnislegrar meðferðar.

Úrskurðarorð
Úrskurður kjörnefndar sem skipuð var af sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu og uppkveðinn var hinn 24. júní 2019, vegna kæru Vigdísar Hauksdóttur, sem hún lagði fram hinn 14. febrúar 2019, vegna kosninga til borgarstjórnar Reykjavíkur sem fram fóru hinn 26. maí 2018, er staðfestur.

____________________________

Úrskurður þessi er undirritaður og sendur í ábyrgðarbréfi.

Fyrir hönd ráðherra

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum